Hæstiréttur íslands
Mál nr. 303/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Réttaraðstoð
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 18. maí 2010. |
|
Nr. 303/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Vitni. Réttaraðstoð. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að lagaskilyrði væri til flutnings X til Færeyja til að gefa skýrslu sem vitni í sakamáli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2010, þar sem fallist er á að lagaskilyrði séu til flutnings varnaraðila til Færeyja til að gefa skýrslu sem vitni í sakamáli. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði sætir varnaraðili gæsluvarðhaldi vegna gruns um fíkniefnabrot. Mun aðalflutningur hafa farið fram í máli hans og er nú beðið dóms. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 13/1984 er það skilyrði fyrir því að verða megi við beiðni annars ríkis um að maður verði sendur þangað til yfirheyrslu sem vitni, að hann sé „fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar“. Þessu skilyrði er ekki fullnægt í máli varnaraðila og ber því að mínum dómi að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2010.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði sendur til Færeyja til að gefa skýrslu sem vitni í sakamáli.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með réttarbeiðni færeyskra löggæsluyfirvalda, dags. 6. maí 2010, til dómsmálaráðuneytisins hafi þess verið farið á leit, með vísan til Evrópusamnings um gagnkvæma réttaraðstoð, að þremur litháískum ríkisborgurum sé birt vitnafyrirkall jafnframt því að þau verði send til Færeyjar til skýrslugjafar fyrir dómi.
Málið varðar meint stórfellt fíkniefnalagabrot tveggja litháískra ríkisborgara, Y og Z, en þeir séu ákærðir í Færeyjum fyrir að hafa flutt til landsins u.þ.b. 2,9 kg af amfetamíni og 1,2 kg af ecstasy. Varði brotið við 191. gr. danskra hegningarlaga. Aðalmeðferð í málinu muni fara fram í næstu viku. Nánar tiltekið sé þess óskað að X, kt. [...] verði birt vitnafyrirkall þar sem hann sé boðaður til skýrslugjafar fyrir dómi 20. maí nk. kl. 9. Það athugist að færeysk yfirvöld hafi óskað eftir því að sú breyting verði gerð á vitnafyrirkalli fyrir X að hann gefi skýrslu 21. maí kl. 10 í ljósi óöryggis í flugsamgöngum á Íslandi vegna eldgoss í Eyjafjallajökli en til standi að flytja X með farþegaferjunni Norrænu til Færeyja að kvöldi 19. maí.
X hafi verið ákærður hér á landi fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots fyrir sinn þátt í þessu máli og sé nú beðið dóms í málinu en aðalmeðferð hafi farið fram 6. maí sl. X sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins til 25. maí nk. kl. 16.
X hafi verið birt vitnafyrirkall í fangelsinu Litla-Hrauni 12. maí sl. og þar neiti hann að staðfesta móttöku vitnafyrirkallsins og hafi aftekið með öllu að fara til Færeyja.
Samkvæmt 23. gr. laga nr. 13/1984 um framsal og aðra aðstoð í sakamálum megi ákveða að maður sem hér á landi sé fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar, skuli sendur til annars ríkis til yfirheyrslu. X sæti nú gæsluvarðhaldi vegna gruns um refsiverðan verknað sbr. nú síðast úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-189/2010. Hann sé því frelsissviptur líkt og krafa sé gerð um í áðurnefndu ákvæði. Þá liggi fyrir að sá verknaður sem Y og Z séu grunaðir um í Færeyjum sé refsiverður samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Ákvæði 4 gr. laga nr. 7/1962 eigi ekki við að mati ríkissaksóknar. Þá sé nærvera X ekki nauðsynleg á þeim tíma sem þess sé óskað að hann gefi skýrslu í Færeyjum vegna refsimáls á hendur honum hér. Aðalmeðferð í því máli hafi farið fram og sé beðið dóms. Ríkissaksóknari telji að skilyrði 1. 3. mgr. 23. gr. framsalslaga séu uppfyllt og sé nauðsynlegt að verða við beiðni færeyskra yfirvalda og senda X til Færeyja.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og framangreindra lagaákvæða er þess beiðst að krafan nái fram að ganga.
Ákærði hefur hafnað kröfunni.
Eins og fram kemur hér að ofan skal dómari kveða upp úrskurð samkvæmt 5. mgr. 23. gr. laga nr. 13/1984 ef fyrir hendi eru þau lagaskilyrði til flutnings sem um getur í 23. gr. laganna.
Fyrir liggur í málinu að ákærði sætir nú gæsluvarðhaldi vegna gruns um refsiverðan verknað og er því frelsissviptur. Þá liggur fyrir að sá verknaður sem Y og Z eru grunaðir um í Færeyjum, er refsiverður samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Nærvera ákærða hér á landi er ekki nauðsynleg á þeim tíma sem óskað er að hann gefi skýrslu í Færeyjum vegna refsimáls á hendur honum hér á landi, en beðið er dóms í því máli. Ekki er ástæða til að ætla að flutningurinn sé líklegur til að lengja þann tíma sem hann myndi verða sviptur frelsi. Ákvæði 4. gr. laga nr. 7/1962 eiga ekki við í máli þessu. Að öllu framanrituðu virtu telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði 23. gr. framsalslaga nr. 13/1984 til flutnings ákærða til Færeyja til að gefa skýrslu sem vitni í sakamáli.
Er krafa ríkissaksóknara því tekin til greina.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. l. nr. 13/1984 greiðast málsvarnarlaun réttargæslumanns ákærða sem eru hæfilega ákveðin 70.000 krónur úr ríkissjóði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fallist er á að lagaskilyrði séu til flutnings X, til Færeyja til að gefa skýrslu sem vitni í sakamáli. Málsvarnarlaun réttargæslumanns ákærða eru ákveðin 70.000 krónur og greiðast úr ríkissjóði.