Hæstiréttur íslands

Mál nr. 445/2014


Lykilorð

  • Lögræði
  • Sjálfræðissvipting
  • Kærumál


 

Fimmtudaginn 3. júlí 2014.

Nr. 445/2014.

 

A

(Harpa Hörn Helgadóttir hdl.)

gegn

B

(sjálfur)

 

Kærumál. Lögræði. Sjálfræðissvipting.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. 

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík 30. júlí 2013 var varnaraðili skipaður lögráðamaður sóknaraðila að því er tekur til sjálfræðis hennar. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr., sbr. b. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og þóknun varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að við framlagningu skjala í máli þessu var ekki að öllu leyti gætt ákvæða 1. mgr. 13. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 10. gr. lögræðislaga.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun Hörpu Harnar Helgadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila A, og þóknun varnaraðila, B héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.

Með kröfu, sem dagsett er 22. maí sl. og þingfest í dag, hefur B hdl., sem er skipaður lögráðamaður varnaraðila, gert kröfu um að A, kt. [...], til heimilis að [...], verði svipt sjálfræði í tvö ár, á grundvelli b- og c-liða 4. gr. lögræðislaga nr.71/1997, sbr. 5. gr. og b-lið 7. gr. sömu laga.

Í kröfunni kemur fram að varnaraðili hafi verið svipt sjálfræði tímabundið í eitt ár frá 6. júní 2013 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum sama dag, sem síðan hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 415/2013. Hafi varnaraðili því verið svipt sjálfræði til 6. júní 2014. Eins og fram komi í læknisvottorði C, yfirlæknis á móttökudeild fíknimeðferðar á deild 33A á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, dags. 19. maí 2014, sé varnaraðili með sérlega erfiða áfengissýki sem ekki hafi svarað meðferð. Varnaraðili hafi ekkert innsæi í sjúkdóm sinn og hafi endurtekið þurft að beita nauðungarvistun með tilvísun í sjálfræðissviptingu hennar.

Um aðild sóknaraðila er vísað til b-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Í málinu liggja fyrir tvö læknisvottorð C geðlæknis, annað dags. 27. maí 2013 og hitt dags. 19. maí sl. Í vottorði C, dags. 19. maí 2014, kemur fram að varnaraðili hafi verið til heimilis á [...] sem sé heimili fyrir konur í neyslu. Hún hafi verið í meðferð og stuðningi gegnum göngudeild fíknimeðferðar geðsviðs LSH. Eftir að varnaraðili útskrifaðist frá móttökudeild 33A þann 17. júlí sl. eftir rúmlega tveggja mánaða legu hafi hún farið á meðferðarheimilið í [...], verið þar í tvær vikur, og útskrifað sig þá gegn ráðleggingum starfsfólks. Varnaraðili hafi síðan endurtekið þurft að leggjast inn á móttökudeild 33A og nú síðast í níunda skipti frá því í júlí 2013. Yfirleitt hafi þetta verið stuttar legur til heilsueflingar og í samráði við lögráðamann hennar. Í þessum legum hafi ítrekað þurft að beita nauðungarvistun með tilvísun í sjálfræðissviptingu hennar. Í innlögnunum hafi varnaraðili verið algjörlega innsæislaus í veikindi sín og vanda og hafi síðan beðið um útskrift til að sinna ýmsum málum. Þá hafi varnaraðili ekki náð að vera án áfengis milli innlagna. Eins og fram komi í fyrra vottorði frá 27. maí 2013 þarfnist varnaraðili meiri umönnunar en hægt sé að veita henni á heimili hennar, [...]. C kveðst þann 16. maí sl. hafa fundað með deildarstjóra fíknigeðdeildar geðsviðs LSH með lögráðamanni varnaraðila, forstöðumanni og deildarstjóra [...], vinkonu og stuðningsaðila varnaraðila ásamt fulltrúa ættingja. Niðurstaða fundarins hafi verið skýr þar sem allir hafi verið sammála um að varnaraðili þyrfti sérstakt sérsniðið úrræði til að mæta þjónustuþörf sinni.

Varnaraðili sé nú þegar vottorðið sé ritað inniliggjandi á móttökugeðdeild 33A og hafi hún fengið afeitrunarmeðferð í legunni ásamt aðstoð við persónulegt hreinlæti, sem gjarnan sé ábótavant þegar hún sé í neyslu. Við skoðun sé varnaraðili skýr og áttuð, tal og tjáning sé eðlileg, geðslag hlutlaust, en engin merki um geðrof, ekki sjálfsvígshugsanir. Innsæi varnaraðila í fíknisjúkdóm sinn og stöðu sína sé sem fyrr ekkert. Hún lofi edrúmennsku og segist hún þurfa að sinna ýmsum áríðandi erindum, svo sem barnapössun.     

Samkvæmt vottorðum C yfirlæknis, sem gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sín, er það niðurstaða hans að varnaraðili sé með sérlega erfiða áfengissýki sem ekki hafi svarað meðferð. Varnaraðili sé vegna áfengissýki sinnar ófær um að ráða högum sínum og kveðst hann mæla með því að krafa um framlengingu sjálfræðissviptingar til tveggja ári verði samþykkt. Hann telur að síðan þurfi að gera vistunarmat, mat iðjuþjálfa, taugasálfræðilegt mat og í framhaldi af því þurfi að finna vistunarúrræði við hæfi í samvinnu við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar.

Varnaraðili kom fyrir dóm og kvaðst mótmæla framkominni kröfu. Verjandi varnaraðila óskaði eftir því að aflað yrði læknisvottorðs frá lækni sem annast hafi varnaraðila á undanförnum árum á deild 33a á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, en ekki tókst að ná sambandi við hann þar sem hann er í löngu leyfi. Málinu var síðan frestað þar til aflað hefði verið nýs læknisvottorðs.Verjandi óskaði í samráði við dómara eftir læknisvottorði frá D geðlækni og liggur það fyrir í málinu.

Í vottorði D, dags. 6. júní 2014, kemur fram að hann hafi hitt varnaraðila að kvöldi 3. júní sl. í [...] og hún þá verið nýkomin úr bænum og hún þá verið nokkuð drukkin og frekar ósnyrtileg en þó vel viðræðuhæf. Hún hafi neitað því að drykkjan væri vandamálið, hún þyrfti aðeins að fá íbúð til að búa sjálfstætt og þá myndi hún spjara sig.

D kveður varnaraðila við skoðun þann 3. júní sl. hafa verið mjög illa rauntengda og algjörlega innsæislausa á vanda sinn og með bilaða dómgreind. Ljóst sé að með áframhaldandi óbreyttu líferni muni heilsa hennar algerlega gefa sig, bæði andlega og líkamlega, og hún myndi komast í algert þrot. Þar sem hún hafi ekki innsæi og skilning á því sem gera þurfi til þess að hún nái heilsu á ný telji hann nauðsynlegt að varnaraðili verði svipt sjálfræði og kveðst styðja framkomna kröfu um sviptingu til tveggja ára og verði sá tími nýttur til þess að fá fyrir hana vistunarmat og úrræði við hæfi eftir að hún hafi farið í langa áfengismeðferð. Núverandi úrræði séu engan veginn fullnægjandi þar sem hún sé áfram í daglegri neyslu þó hún fái húsaskjól og aðhlynningu. 

Í beiðni verjanda varnaraðila, Hörpu Harnar Helgadóttur, um læknisvottorð var óskað svara D við þremur spurningum, en þær voru:

1) Hvort brýn þörf sé á því að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo að hún fái viðeigandi meðferð. Svar D var: Ég tel tvímælalaust mikla þörf á því að hún verði svipt sjálfræði tímabundið, þ.e.a.s.til tveggja ára og sá tími verði nýttur í fyrsta lagi til að koma henni í langa áfengismeðferð og síðan gera á henni taugasálfræðilegt mat og iðjuþjálfunarmat og í framhaldi af því verði gert á henni vistunarmat þannig að hún fái viðeigandi úrræði á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

2) Er þörf á því að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið, þrátt fyrir að varnaraðili hafi ekki áður fengið viðhlítandi úrræði vegna veikinda sinn, sbr. ofangreint. Svar D: Já, ég tel nauðsyn á því að svipta varnaraðila tímabundið sjálfræði, svo koma megi yfir hana þeirri meðferð sem nauðsynleg er og því mati, sem nauðsynlegt er til þess að hún geti fengið fram langtíma viðhlítandi úrræði.

3) Er sjálfræðissvipting til tveggja ára forsvaranlegur tími eða er fullnægjandi tímabundin svipting til skemmri tíma, til að mynda eitt ár eða hálft ár? Svar D: Ljóst er að hálft ár er allt of stuttur tími og sennilega einnig eitt ár. Það tekur verulega langan tíma að koma A aftur á réttan kjöl og síðan að vinna að viðeigandi úrræði og því mæli ég eindregið með tveggja ára sjálfræðissviptingu. A er á engan hátt fær um að ráða högum sínum og ef á að veita henni viðeigandi meðferð og búsetuúrræði til framtíðar, þá ber brýna nauðsyn til þess að svipta hana sjálfræði eins og áður getur. Ástand hennar fellur undir 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1957 b- og c-lið.  

D geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sitt og ítrekaði þá skoðun sína að ekki kæmi önnur úrræði til greina en sjálfræðissvipting varnaraðila, við núverandi aðstæður ætti hún ekki langt líf fyrir höndum, en brýnt væri að þegar væri hafist handa um þau úrræði sem hann hafi lagt til.  

Með vísan til vottorða og vættis C, yfirlæknis á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss, vottorðs og vættis D, geðlæknis, og fyrirliggjandi gagna er það mat dómara að nægilega sé í ljós leitt að varnaraðili, A, sé vegna sérlega alvarlegrar áfengissýki ófær um að ráða sjálf sínum persónulegu högum og brýna nauðsyn beri til að veita henni nauðsynlega læknismeðferð sem ekki er unnt að veita á heimili hennar. Þá er það niðurstaða  beggja læknanna að til þess að unnt sé að koma við viðeigandi læknismeðferð mæli þeir með sjálfræðissviptingu í tvö ár. Með vísan til erfiðra veikinda varnaraðila og algjörs innsæisleysi hennar í eigin sjúkdóm þykja ekki liggja fyrir haldbær rök fyrir því að marka sjálfræðissviptingu varnaraðila skemmri tíma en læknir sem hefur haft hana til meðferðar og læknir, sem framkvæmdi mat á stöðu varnaraðila, mæla með. Komi upp sú staða að ástæður til sviptingar sjálfræðis séu ekki lengur til staðar er hægt að fara fram á niðurfellingu sviptingarinnar á grundvelli 15. gr. lögræðislaga og með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki talið að með því að fara að ráðum þessara lækna sé brotið gegn meðalhófsreglu. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber með vísan til b- og c-liða 4. gr. lögræðislaga nr.71/1997, sbr. og 5. gr. sömu laga, að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið í tvö ár.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hörpu Harnar Helgadóttur hdl., og skipaðs talsmanns sóknaraðila, B hdl., eins og kveðið er á um í úrskurðarorði. Þóknun talsmanna er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], [...], er svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár frá og með deginum í dag að telja.

Kostnaður af málinu, þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hörpu Harnar Helgadóttur hdl., 164.405 krónur, og skipaðs talsmanns sóknaraðila, B hdl., 141.815 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.