Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn


                                                        

Fimmtudaginn 11. febrúar 2010.

Nr. 479/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

(Sigurður Sigurjónsson hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn.

X var gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa sumarið 2003 á heimili sínu látið A, fæddan árið 1991, hafa við sig munnmök og haft samræði við drenginn í endaþarm. Af hálfu ákæruvaldsins var þetta talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fram kom í málinu að X hefði í rúma tvo áratugi átt í verulegum geðrænum veikindum vegna aðsóknargeðklofa. A var sá eini sem bar vitni í málinu um ætluð atvik á heimili X og aðdraganda þeirra. Í þeim efnum var heldur ekki við sýnileg sönnunargögn að styðjast. Var miðað við að X hafnaði í öllum atriðum að hafa átt á árinu 2003 þau samskipti við A, sem hann bar um, og stóð því orð gegn orði. Talið var að þessu virtu að gæta yrði að því hvort í málinu lægju fyrir önnur atriði, sem áhrif gætu haft við mat á því hvort ákæruvaldinu hefði tekist að sanna þær sakir, sem X var borinn. Var meðal annars vitnisburður annarra rakinn í því skyni. Í héraðsdómi var lagt það mat á framburð A að hann væri í öllum atriðum trúverðugur. Það mat gat ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til þess var á hinn bóginn að líta að ekkert þeirra atriða, sem fram kom í vitnisburði annarra og gögnum málsins, var talið veita viðhlítandi stuðning fyrir þeim sökum, sem X var borinn í málinu, og stóð þessi framburður því einn að baki sakargiftum. Gegn neitun X nægði þetta ekki til að ákæruvaldið fullnægði þeirri sönnunarbyrði, sem það ber samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, en til vara að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um að hann sæti vistun á viðeigandi hæli.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 5.541.575 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að viðurlög verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en að því frágengnu að dæmdar bætur verði lækkaðar.

I

Í málinu er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa í maí, júní eða júlí 2003 á heimili sínu að [...] í [...] látið A, fæddan [...] 1991, hafa við sig munnmök og haft samræði við drenginn í endaþarm. Í ákæru er þetta talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Málið á rætur að rekja til þess að félagsmálastjóri [...] lét frá sér fara 7. janúar 2008 beiðni um rannsókn til lögreglunnar á [...]. Þar kom fram að B, stjúpfaðir A, hafi þann dag leitað til félagsmálastjórans og greint frá því að A hafi sagt sér að ákærði hafi á nánar tiltekinn hátt misnotað hann kynferðislega.

Af þessu tilefni var tekin skýrsla af A fyrir dómi 28. janúar 2008. Þar greindi hann frá því að fyrir fimm til sex árum hafi hann farið í göngu með hund og ætlað í sund í [...] í [...]. Hann minnti að hann hafi meðal annars verið klæddur í sundskýlu, sem hann lýsti nánar. Þegar hann hafi verið kominn í nánd við sundstaðinn hafi hann sleppt hundinum lausum. Stuttu síðar hafi maður öskrað á hann og viðhaft orð um að hundur hans væri illa alinn upp og ætti að vera dauður. Hann hafi reynt að biðja manninn afsökunar, sem ekki hafi borið árangur í fyrstu, en maðurinn svo sagt þetta vera í lagi. Þegar þar var komið sögu hafi hundurinn verið týndur. A hafi farið að leita hundsins og séð til hans rétt hjá húsi mannsins, en þangað hafi hundurinn jafnan farið þegar hann strauk. Þegar þeir hafi verið komnir að húsinu hafi maðurinn spurt hvort hann vildi ekki fá peninga til að kaupa sér sælgæti. Hann hafi ekki viljað taka við peningum, en maðurinn þá sagst vera með rusl í herbergi í húsinu og boðið honum 1000 krónur fyrir að henda því. Sökum þess að hann hafi ekki viljað eiga á hættu að maðurinn bæri fram kæru út af hundinum hafi hann viljað sýna hjálpsemi og látið til leiðast. Þegar komið hafi verið inn í húsið hafi maðurinn vísað honum í tiltekið herbergi, en þar hafi verið mikið af dagblöðum, sem hann hafi átt að taka. Maðurinn hafi þá skyndilega lokað hann inni í herberginu og hann orðið mjög hræddur. Eftir stutta stund hafi maðurinn opnað á ný, tekið fast um öxl hans og beint honum yfir í svefnherbergi, þar sem maðurinn hafi skipað honum að afklæðast. Þegar hann hafi lokið við það hafi maðurinn rennt niður buxnaklauf og látið hann hafa við sig munnmök. Manninum hafi ekki líkað hvernig það var gert og snúið A í rúmi þannig að hann hafi legið á grúfu. Maðurinn hafi sótt sleipiefni, sett það á getnaðarlim sinn og rassinn á honum og haft síðan samræði við hann í endaþarm. Því hafi lokið eftir smá tíma og maðurinn þá farið fram, en komið til baka með hníf í hendi. Maðurinn hafi lagt hnífinn að kynfærum hans og svo spurt hvort hann vildi fara. Þegar hann hafi svarað því játandi hafi maðurinn farið með hann að bakdyrum á húsinu og sagt að hann mætti engum segja frá þessu atviki, því ella myndi maðurinn drepa foreldra hans og hundinn. Hann hafi flýtt sér í föt, sem hann minnti að hafi verið þau sömu og hann hafi verið í þegar hann kom í húsið, en aðspurður um sundskýlu sagðist hann vita „bara ekkert hvernig þetta endaði.“ Einhverjir krakkar hafi talað um að sundskýlan væri í garðinum við hús mannsins, en hann héldi að hann hafi tekið hana með sér og gætu því krakkarnir hafa verið að ræða um sundskýlu „sem einhver annar átti.“ Í skýrslunni lýsti hann herbergjaskipan í húsi mannsins og að nokkru hvernig þar hafi verið umhorfs. Aðspurður um hvort hann hafi einhverju sinni komið aftur í þetta hús sagðist hann hafa í janúar 2008 sagt vini sínum frá samskiptum við þennan mann, en þó „ekki allt“, heldur hafi hann sagt „svona þrjú orð „mér var nauðgað“.“ Vinurinn hafi reiðst svo við að heyra þetta að hann hafi lagt til að þeir færu saman til mannsins til að drepa hann. Þeir hafi síðan undir áhrifum kannabis farið með hulin andlit á heimili mannsins og haft meðferðis hníf, sem hann hafi ætlað að nota til að leggja til mannsins. Þegar til átti að taka hafi hann ekki getað gert það, en átt orðaskipti við manninn og meðal annars sakað hann um að hafa nauðgað pilti, sem hann hafi neitað. Fyrir liggur að maðurinn, sem A bar sökum í þessari skýrslu, sé ákærði.

A gaf aftur skýrslu fyrir héraðsdómi 27. mars 2009 við aðalmeðferð málsins. Sú skýrsla var um flest í samræmi við fyrri framburð hans að því leyti, sem sömu atriði komu þar til tals. Í síðari skýrslunni kom þó skýrar fram en í þeirri fyrri að hundurinn hafi ráðist á ákærða þegar A hafi sleppt honum lausum nærri sundstað í [...]. Ákærði hafi orðið „alveg rosalega reiður“, en eftir skamma stund hafi hann verið orðinn góður og beðist fyrirgefningar. Þá kvaðst A ekki muna hvernig sundskýla hafi borist í bílskúr ákærða, en hann héldi að hann hafi ekki farið í hana þegar hann hafi yfirgefið hús ákærða, heldur tekið hana og síðan sleppt henni. Í framhaldi af ummælum um þetta kvað hann þó fastar að orði með því að segja að hann hafi örugglega ekki farið í sundskýluna, heldur hafi hann hent henni frá sér í bílskúrnum og hlaupið burt, enda hafi hún fundist þar og hann myndi ekki eftir að hafa gleymt henni. Þess er og að geta að í síðari skýrslunni kvaðst A fyrst hafa greint öðrum frá þessum atvikum í samtali við stjúpföður sinn snemma í janúar 2008, en síðan hafi hann sagt áðurnefndum vini sínum frá þessu í sömu viku. Ítrekað aðspurður neitaði hann því að hafa sagt nokkrum öðrum frá þessu fyrir þann tíma.

Undir rekstri málsins í héraði var 27. nóvember 2008 að kröfu ákæruvaldsins dómkvaddur geðlæknir til að leggja mat á sakhæfi ákærða og er í hinum áfrýjaða dómi greint frá efni matsgerðar 5. febrúar 2009, svo og framburði matsmannsins fyrir dómi. Eins og þar kemur nánar fram hefur ákærði, sem fæddur er 1938, í rúma tvo áratugi átt í verulegum geðrænum veikindum vegna aðsóknargeðklofa, en af þeim sökum hafi hann meðal annars sætt stöðugri lyfjameðferð. Ákærði gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu 5. febrúar 2008 og liggur fyrir endurrit af henni, sem gert var eftir hljóðritun. Að því leyti, sem frásögn ákærða sneri að sakarefninu, sagði hann þar að sakargiftir væru „algjör uppspuni hjá stráknum“ og ljúgi hann „þessu upp þegar hann er kominn á aldur.“ Aðspurður um hvaða strák hann ætti við sagði ákærði að það væri „sonur þessa manns sem sló mig“, en sá maður hafi komið á heimili ákærða í janúar 2008, borið á hann sakir og slegið „sundur og saman“. Það væri „tóm lygi“ að hundur hafi veist að honum eða drengur heimsótt hann á þeim tíma, sem um ræðir í málinu. Spurður um hvort hann hafi einhvern tíma fengið drengi í heimsókn til sín sagði ákærði tvo drengi og stúlku, fimm til sex ára, hafa eitt sinn fyrir áratugum síðan komið á heimili hans til að fá gefin veiðarfæri, en ítrekað aðspurður neitaði hann að hafa að öðru leyti haft samskipti við drengi þann tíma, sem hann hafi búið í [...]. Þá lýsti ákærði því í skýrslunni að hann hafi „lifað heilögu lífi“ og „ekki haft kynmök við kvenmann í 30 ár og því síður við karlmann.“ Við þingfestingu málsins í héraði mætti ákærði fyrir dóm og hlýddi á ákæru, en það eitt var fært til bókar um tilsvör hans að hann neitaði sök og mótmælti bótakröfu. Við aðalmeðferð málsins var ákærði orðinn vistmaður á hjúkrunarheimilinu [...] í [...] og var hann ekki viðstaddur skýrslugjöf vitna. Dómþing var háð á dvalarstað hans 7. apríl 2009 og framhaldsákæra birt honum. Að því leyti, sem bókun í þingbók um skýrslu hans varðaði sakarefnið, var haft eftir honum að hann væri saklaus af því, sem á hann væri borið. Einnig var þess getið að hann minntist þess að tveir unglingar hafi í byrjun árs 2008 ráðist inn á heimili hans með klúta fyrir andlit og hníf, en þeir hafi ekki gert honum mein.

Í málinu hafa ekki aðrir en A borið vitni um ætluð atvik á heimili ákærða eða þann aðdraganda þeirra, sem hann lýsti í áðurgreindum framburði. Í þeim efnum er heldur ekki við sýnileg sönnunargögn að styðjast. Samkvæmt framansögðu verður við það að miða að ákærði hafni í öllum atriðum að hafa átt á árinu 2003 þau samskipti við A, sem hann hefur borið um, og stendur því orð gegn orði. Verður að þessu virtu að gæta að því hvort í málinu liggi fyrir önnur atriði, sem áhrif geta haft við mat á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna þær sakir, sem ákærði er borinn.

II

Af hálfu ákæruvaldsins hefur því verið borið við til stuðnings sakargiftum á hendur ákærða að börn hafi fundið í garðinum við hús hans sundskýlu, sem tilheyrt hafi A. Fyrir dómi lýsti fyrrnefndur stjúpfaðir hans því að hann minntist þess að sundskýla piltsins hafi týnst og félagar hans síðan fundið hana „heima hjá“ ákærða, en ekki gat vitnið tjáð sig um hvenær þetta hafi gerst. F, sem kvaðst vera æskuvinur A, greindi frá því fyrir dómi að hann hafi eitt sinn verið að leika sér við tiltekna stúlku, sem hafi átt heima í næsta húsi við ákærða, og þau farið inn í garð hans og litið þar inn í skúr eða gróðurhús. Þar hafi þau fundið á gólfi sundskýlu A, sem þau hafi vitað að hann hefði týnt, og síðan sagt honum hvar hún væri, en við það hafi hann orðið flóttalegur. Annar æskuvinur A, H, kvaðst hafa verið að leik með fyrrnefndum F og vinkonu þeirra þegar þau hafi séð sundskýlu A liggja í grasi í garði ákærða. Hvorugt þessara vitna lýsti því hvenær þetta gerðist. Áður var hér greint frá framburði A varðandi sundskýlu. Af fyrri skýrslu hans fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að hann hafi ekki kannast við að sundskýla sín hafi orðið eftir á eða við heimili ákærða og leiddi hann að auki getum að því að sundskýla, sem vinir hans hafi fundið, hafi tilheyrt öðrum en sér. Í síðari skýrslunni sagði hann á hinn bóginn að endingu að hann hefði hent sundskýlunni frá sér í bílskúr við hús ákærða þegar hann fór þaðan eftir ætlað brot, en bætti svo við, nánast eins og til skýringar á þessari staðhæfingu, að þar hefði sundskýlan fundist og hann myndi ekki eftir að hafa gleymt henni. Samkvæmt þessu hefur ekkert vitni borið um hvenær sundskýla hafi fundist í garði við hús ákærða annað en A, sem í síðari skýrslu sinni tengdi þetta á framangreindan hátt við ætlað brot, eftir að hafa þó borið áður á annan veg fyrir dómi. Þegar allt þetta er virt verður ekki litið svo á að þetta geti orðið til að styrkja sakargiftir á hendur ákærða.

Í framburði stjúpföður A fyrir dómi kom meðal annars fram að A hefði eitt sinn farið út að ganga með hund þeirra og komið „alveg eyðilagður heim, sagðist hafa týnt hundinum og ... hann sagði ekki beint sko að hundurinn hefði bitið mann, heldur kom það svona rólega seinna.“ Hafi A jafnframt sagt frá því að ákærði væri sá maður, sem hundurinn hefði bitið. Vitnið og móðir A hafi ef til vill verið frekar ströng við hann út af þessu atviki, en síðan hafi það gerst að hundurinn hafi gelt á barn í nágrenni við heimili þeirra og hafi þá verið ákveðið að lóga honum. Móðir A lýsti því fyrir dómi að hann hafi einhverju sinni farið að synda og haft með sér hundinn, sem hafi ekki verið í bandi, en í þeirri för hafi hundurinn bitið mann. Pilturinn hafi verið starandi þegar hann kom heim og óstöðugur í tali og hún ályktað á þeim tíma að það væri sökum þess að hann hafi iðrast að hafa á þennan hátt gert eitthvað af sér. Stuttu eftir þetta hafi hundinum verið lógað. Í málinu liggur fyrir vottorð dýralæknis um að það hafi verið gert 12. júlí 2003. Eins og rakið var áður lýsti A atvikum þannig fyrir dómi að hundurinn hafi ráðist á ákærða, sem hafi framið ætlað brot í framhaldi af því. Fyrrgreindur vitnisburður styður frásögn A um árás hundsins á ákærða og verður jafnframt til þess ásamt vottorði dýralæknisins að unnt er að nálgast tímasetningu þess atviks. Þessi gögn varða á hinn bóginn ekki sem slík sönnun á að ákærði hafi í framhaldi af þessu atviki framið brotið, sem hann er borinn sökum um.

Eins og áður greinir lýsti A í fyrri skýrslu sinni fyrir dómi 28. janúar 2008 staðháttum og aðstæðum á heimili ákærða. Sú lýsing samrýmist að þó nokkru leyti framlögðum ljósmyndum af heimilinu, svo og frásögn ákærða um sama efni í áðurnefndri lögregluskýrslu 5. febrúar 2008. Þess verður þó að gæta að A skýrði einnig í skýrslunni frá því að hann hafi á áðurgreindan hátt ráðist ásamt vini sínum inn á heimili ákærða fyrr í sama mánuði. Af þeim sökum er ekki unnt að draga af þessu ályktanir til stuðnings sakargiftum á hendur ákærða.

Af endurriti lögregluskýrslu ákærða 5. febrúar 2008 verður ekki séð að honum hafi í upphafi skýrslutöku verið kynntar sakargiftir nánar en með því að um væri að ræða ætlað kynferðisbrot á heimili hans í maí 2003. Allt að einu hagaði hann í framhaldi af því orðum sínum eins og honum væri kunnugt um að „strákurinn“, sem hann nefndi svo, hafi borið hann sökum. Af þessu tilefni var hann spurður hver sá drengur væri, sem hann ræddi um, og svaraði hann því til að það væri sonur mannsins, sem hafi komið heim til sín og slegið sig. Fyrir dómi kvaðst stjúpfaðir A hafa farið á heimili ákærða eftir að hann hafði verið hjá félagsmálastjóra [...] 7. janúar 2008 og kynnt sig fyrir ákærða sem „pabba stráksins sem hann hefði nauðgað.“ Þar hafi hann slegið ákærða nokkrum sinnum, en „ekki alvarlega.“ Horfir það því ekki til stuðnings sakargiftum á hendur ákærða að honum hafi verið kunnugt um að það væri unglingspiltur, sem hafi sakað hann um kynferðisbrot, áður en lögregla kynnti honum það.

Í skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði bar A eins og áður greinir að hann hafi engum sagt frá ætluðu broti fyrr en hann ræddi um það við B, stjúpföður sinn. Af framburði B fyrir dómi má ráða að þetta hafi gerst nóttina áður en hann fór til félagsmálastjóra [...] 7. janúar 2008. Í fyrrnefndu bréfi félagsmálastjórans til lögreglu, sem ritað var sama dag, var aðdragandanum að ætluðu broti lýst þannig að „A var úti að labba með hund fjölskyldunnar og missti hann frá sér og hafði hundurinn þegar hann var laus ráðist á mann og bitið hann. Í framhaldi af því var hundurinn aflífaður. ... A var miður sín eftir að þetta gerðist og vorkenndi manninum sem hafði verið bitinn og fór hann í heimsókn til hans til að biðja hann afsökunar. Gerði hann það án vitundar foreldra. A segist hafa bankað upp á hjá manninum ... og hann boðið honum inn.“ Ljóst má vera að frásögnin, sem hér greinir, hljóti að vera höfð eftir B. Í skýrslum, sem B gaf hjá lögreglu 15. janúar 2008 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, lýsti hann frásögn A um aðdragandann að ætluðu broti efnislega á sama veg. Fyrir dómi kvaðst móðir A ekki hafa verið viðstödd umrætt samtal hans við B og hafi hún ekki beðið A um að segja sér frá þessu, heldur að skrifa fyrir sig lýsingu á atvikum, sem hann hafi gert. Samkvæmt því, sem A hafi ritað, hafi annaðhvort hann viljað sjálfur fara til ákærða til að ræða frekar við hann út af árás hundsins eða ákærði beðið A um að koma aftur til sín til að ræða þetta eða þiggja peninga. Þegar A hafi verið kominn inn á heimili ákærða hafi sá síðarnefndi beðið hann um að aðstoða sig við að ná í eitthvað og lokað hann svo inni í herbergi, en fært hann síðan yfir í annað herbergi og brotið þá á honum á þann hátt, sem áður greinir. Af því, sem hér hefur verið rakið, verður ekki annað ráðið en að A hafi bæði sagt B munnlega og greint móður sinni skriflega frá aðdragandanum að ætluðu broti með þeim hætti að hundurinn hafi einhverju sinni ráðist á ákærða, en hann síðan farið við annað tækifæri á heimili ákærða til að ræða um það við hann og þá hafi brotið verið framið. Þessi lýsing, sem A gaf móður sinni og stjúpföður fyrri hluta janúar 2008, er þannig í veigamiklu atriði andstæð frásögn hans skömmu síðar við skýrslugjöf fyrir dómi 28. sama mánaðar og við aðalmeðferð málsins, þar sem hann kvað öll þessi atvik hafa gerst í samfellu.

Fyrir dómi kvaðst A sem áður segir fyrst hafa sagt tilteknum vini sínum frá ætluðu broti eftir að hann hafi greint stjúpföður sínum frá atvikum, en þessu hafi hann aðeins lýst fyrir vininum með fáum orðum. Sá, sem hér var átt við, E, lýsti því við aðalmeðferð málsins 20. mars 2009 að A hefði sagt sér frá ætluðu broti „í fyrra“ og lýst aðdraganda þess þannig að hundur hans hafi einhverju sinni sloppið frá honum og farið inn í húsgarð, en þar hafi hann hitt að máli ákærða. Ákærði hafi boðið A launaða vinnu, sem hann hafi þegið, en þegar hann hafi verið „búinn að vinna hjá honum í einhvern tíma“ hafi ákærði brotið á honum. Áðurnefndur H greindi frá því fyrir dómi að A hafi sagt sér árið 2005 eða 2006 að ákærði hafi beitt hann kynferðislegu ofbeldi, en ekki minntist vitnið þess hvernig A hafi lýst því nánar. H kvaðst hafa talað um þetta við vin þeirra beggja, F, sem A hafi einnig sagt frá þessu. Fyrir dómi kvaðst F aldrei hafa heyrt á þessi atvik minnst fyrr en lögregla átt viðtal við hann vegna málsins sumarið 2008. Við aðalmeðferð málsins var A sérstaklega spurður að því hvort hann hafi sagt H frá þessum atburði og kvaðst hann ekkert kannast við það, en í þeirri skýrslu ítrekaði hann sem fyrr segir að hann hafi aldrei sagt neinum af þessu fyrr en hann ræddi þetta við stjúpföður sinn í byrjun janúar 2008.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá skýrslu sálfræðings, sem A sótti viðtöl hjá fyrri hluta árs 2008, en í niðurstöðum hennar var því lýst að viðtölin og prófanir hafi leitt í ljós að A glími við fjölmörg vandamál, sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis, svo sem depurð, þunglyndi, kvíða, tilfinningaleg vandkvæði, félagsleg vandamál, hegðunarvandamál, athyglis- og einbeitingarerfiðleika, sjálfskaðandi hegðun og brotna sjálfsmynd. Þá var þar einnig vísað til þess að móðir A og stjúpfaðir hafi lýst því að skyndilega hafi orðið miklar breytingar á honum með því að hann hafi orðið uppstökkur og erfiður í skapi, fengið reiðiköst og grátið, lokað sig af og starað út í bláinn. Hann hafi misst áhuga á því, sem honum hafi áður þótt skemmtilegt, misst samband við vini og farið að ganga illa í skóla og félagslega. Sálfræðingurinn, sem hér átti í hlut, kom fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins og var meðal annars spurður hvort eitthvað annað en kynferðislegt ofbeldi gæti hafa valdið því hvernig komið væri fyrir A. Þessu svaraði sálfræðingurinn þannig að sér væri ekki kunnugt um að hann hafi orðið fyrir öðru áfalli, en almennt séð gæti þetta stafað af einhverju öðru grófu ofbeldi. Sérstaklega aðspurður um hvort annað en ofbeldi gæti valdið þessu, til dæmis einelti, svaraði sálfræðingurinn á eftirfarandi hátt: „Það kom nú ekki fyrr en eftir þetta, eftir að hann breyttist svona mikið. Ja, ég skal ekki alveg um það segja hvort, en eitthvað hefur komið fyrir þennan dreng, eitthvað sem að veldur þessu öllu saman.“ Um þetta er þess að gæta að í greinargerð félagsmálastjóra [...] 23. júní 2008 var þess meðal annars getið að A hafi á árinu 2002 verið vísað til skólasálfræðings út af vanlíðan og námserfiðleikum, en hann hafi orðið fyrir stríðni skólafélaga vegna íslenskukunnáttu og hafi verið „komin uppgjöf í hann“. Þar var þess einnig getið að A hafi orðið fyrir „grófri líkamlegri árás af hópi eldri drengja“ þegar hann var búsettur erlendis á árinu 1997, en um þetta liggur ekkert frekar fyrir í málinu. Móðir A og stjúpfaðir lýstu bæði fyrir dómi breytingum, sem orðið hafi á hegðun hans og líðan. Af þeim lýsingum verður ekki ráðið að skyndileg breyting hafi orðið í þessum efnum sumarið 2003, heldur fremur að þetta hafi þróast á nokkurra ára bili án þess að ljóst sé hvenær það hafi byrjað.

Í hinum áfrýjaða dómi var lagt það mat á framburð A að hann væri í öllum atriðum trúverðugur. Það mat getur ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ekkert þeirra atriða, sem hér að framan hafa verið rakin, veitir viðhlítandi stuðning fyrir þeim sökum, sem ákærði er borinn í málinu, og stendur þessi framburður því einn að baki sakargiftum. Gegn neitun ákærða nægir þetta ekki til að ákæruvaldið fullnægi þeirri sönnunarbyrði, sem það ber samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði verður því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Því til samræmis verður skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. sömu laga.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru til hvors um sig í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 878.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola á báðum dómstigum, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. apríl 2009.

Mál þetta, sem þingfest var þann 27. janúar 2009 og dómtekið 7. apríl sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 6. nóvember 2008, á hendur X, kt. [...], [...], [...],

„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, í eitt skipti í maí, júní eða júlí 2003, á ofangreindu heimili sínu, látið A, þá 12 ára, hafa við sig munnmök og haft samræði við drenginn í endaþarm.

Háttsemi ákærða telst varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992,  4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Í málinu gerir A, kt. [...], kröfu um skaðabætur að fjárhæð 5.541.574 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 25/1987 frá tjónsdegi til þess dags er ákærða var kynnt krafan, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða allan sakarkostnað. 

Ákærði krefst sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna og að þau verði greidd úr ríkissjóði ásamt virðisaukaskatti. Þann 27. nóvember 2008 var Tómas Zoëga geðlæknir dómkvaddur til að meta sakhæfi ákærða nú og eftir atvikum á tímabili því sem í ákæru greinir, sbr. 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga. Voru niðurstöður Tómasar lagðar fram í þinghaldi þann 12. febrúar sl. Aðalmeðferð í málinu hófst þann 20. mars sl., en var frestað til framhaldsaðalmeðferðar til 27. mars sl. Af hálfu verjanda ákærða var þess krafist að fjölskipaður dómur hitti ákærða en ákærði, sem dvelst á dvalarheimilinu [...] í [...], neitaði alfarið að mæta aftur fyrir dóminn. Var málinu því frestað og fór dómurinn að [...] þann 7. apríl sl. og hitti ákærða fyrir. Í framhaldi fór fram munnlegur málflutningur og var málið dómtekið að málflutningi loknum. 

I.

Upphaf máls þessa er að þann 7. janúar 2008 ritaði D, félagsmálastjóri [...], lögreglunni á [...] bréf þar sem greint var frá því að B, stjúpfaðir A, hefði leitað til hennar og tjáð henni að A hefði upplýst hann um kynferðislega misnotkun á sér þegar hann var tíu eða ellefu ára gamall. Skýrsla var tekin af A í Barnahúsi þann 28. janúar 2008. Í framhaldi voru skýrslur teknar af vitnum og að rannsókn málsins lokinni var gefin út ákæra. Við þingfestingu málsins krafðist verjandi ákærða þess að dómkvaddur yrði matsmaður sem mæti sakhæfi ákærða nú og eftir atvikum á tímabili því sem í ákæru greinir, sbr. 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var Tómas Zoëga geðlæknir dómkvaddur þann sama dag og skilaði hann matsgerð þann 5. febrúar sl., sem lögð var fram í málinu 12. febrúar sl.  

II.

Skýrslur í Barnahúsi og fyrir lögreglu.

Brotaþoli kom í Barnahús þann 28. janúar 2008. Brotaþoli er fæddur í [...] en hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu [...]. Litast málfar brotaþola nokkuð af því. Sagðist honum svo frá að hann hafi farið út að ganga með hund sem hét [...] og hann átti. Minnti hann að hann hafi verið í  sundskýlu en hún hafi verið með myndum af skjaldbökum á. Hafi hann ætlað að fara upp í [...] sem sé í [...], þar sem krakkarnir voru vanir að synda. Hafi hann verið kominn upp að [...] þegar [...] slapp. Þá hefði maður byrjað að öskra á hann en hann hefði þá ekki skilið íslensku vel. Hefði maðurinn talað um að hundurinn hans ætti að vera dauður þar sem hann væri illa upp alinn. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að biðjast afsökunar, en það ekki gengið í fyrstu en maðurinn síðan róast. Kvaðst brotaþoli áður hafa heyrt mikið talað um þennan mann og þá frekar illa og því vorkennt honum og reynt að vera góður. Hafi þeir gengið í áttina að húsi mannsins og verið komnir að því þegar maðurinn spurði hvort hann vildi fá smá pening fyrir nammi. Brotaþoli kvaðst auðvitað hafa viljað það en ekki kunnað við að þiggja pening af manninum. Maðurinn hefði þá spurt hann hvort hann gæti ekki farið með smá rusl út fyrir hann, sem brotaþoli kvaðst hafa samþykkt. Hefði hann aðallega verið að hugsa um að koma í veg fyrir að hundurinn hans þyrfti að deyja. Maðurinn hefði sagt honum að ruslið væri úti í enda til vinstri í húsinu. Brotaþoli hefði farið inn í herbergið, sem hefði verið fullt af fréttablöðum eða morgunblöðum, og hafi hann ætlað að taka þau þegar maðurinn lokaði hurðinni. Á þessum tíma kvaðst brotaþoli hafa heyrt sögur sem segðu að krakkar væru teknir og sæjust aldrei aftur. Hann hafi þá haldið að hann væri einn af þeim og því orðið mjög hræddur. Hafi hann bankað á hurðina og reynt að spyrja, en verið grátandi og mjög hræddur og ekki vitað hvað væri í gangi. Brotaþoli kvaðst hafa heyrt manninn ganga um húsið en síðan opnað dyrnar inn í herbergið og sagt honum að fara inn í annað herbergi, sem brotaþoli hafi gert. Þegar hann var kominn inn í herbergið hefði maðurinn tekið fast í öxlina á honum og sagt honum að fara úr fötunum, sem hann hefði einnig gert. Brotaþoli kvaðst ekki hafa skilið hvað væri að gerast. Maðurinn hafi sagt eitthvað, sem brotaþoli kvaðst ekki hafa skilið, hann hefði vitað eitthvað um kynlíf en þarna vissi hann ekki hvað var að gerast. Þetta hafði ekki staðið lengi. Síðar í viðtalinu skýrði brotaþoli svo frá að maðurinn hefði rennt rennilásnum niður á buxunum sínum og sett typpið upp í munninn á brotaþola. Síðan hefði maðurinn snúið honum við í rúminu, náð svo í sleipiefni sem hann hefði sett á typpið á sér og rassinn á brotaþola. Kvaðst brotaþoli þá ekki hafa vitað hvað maðurinn náði í, vegna ungs aldurs síns, en hann kallaði það gel. Þegar hann hefði sett það á rassinn á sér hefði hann vitað hvað í vændum var. Maðurinn hefði sett hendurnar á sér ofan á hann og fyrir munn og hafi þetta staðið í smátíma. Þegar maðurinn var búinn hefði hann farið strax fram en brotaþoli verið eftir, grátandi og mjög hræddur og mjög illt í rassinum. Kvaðst hann ekki hafa vitað hvort eitthvað enn verra væri í aðsigi. Maðurinn hefði síðan komið aftur í herbergið með hníf með sér og látið brotaþola leggjast á rúmið og sett hnífinn við typpið á honum. Maðurinn hefði síðan spurt hann hvort hann vildi fara. Brotaþoli kvaðst ekki hafa svarað neinu. Síðar í viðtalinu kvað hann manninn hafa verið með svartan eldhúshníf, ekki hættulegan, og leikið sér að typpinu á brotaþola með honum. Taldi brotaþoli að það væri bara grín hjá manninum að bjóða honum að fara þar sem hann var viss um að hann myndi aldrei fara þaðan aftur. Maðurinn hafi þá aftur spurt sig hvort hann vildi fara og brotaþoli þá játað því. Hafi hann verið mjög þakklátur fyrir að fá að fara. Maðurinn hefði farið með hann bakdyramegin út og sagt honum að hann mætti ekki segja nokkrum frá, hann hefði drepið áður og hann myndi drepa móður hans, pabba og [...] ef hann segði frá. Brotaþoli kvaðst hafa farið aftur upp í [...] og farið á felustaðinn sinn. Hefði hann reynt að búa til afsökun fyrir því af hverju hann gæti ekki gengið almennilega, til að segja móður sinni, og það tekist. Hann hefði engum sagt frá þessu fyrr en hann sagði stjúpföður sínum frá þessu snemma á árinu 2008. Þá kvaðst brotaþoli hafa verið með stúlku og haft mikla þörf fyrir að segja henni frá atvikinu en ekki þorað það. Hefði þessi hugsun sótt mikið á hann aftur og aftur. Hefði hann byrjað að reykja hass vegna þessa þar sem menn þurfi þá ekki að hugsa neitt. Kvaðst hann síðar hafa viljað fara frá [...] og eitt sinn, þegar stjúpfaðir hans vildi ræða við hann um mistök og annað, hefði hann sagt honum frá atvikinu. Kvaðst hann hafa verið í vafa í byrjun en fósturfaðir hans hvatt hann til að létta á sér. Kvaðst brotaþoli hafa velt því fyrir sér hvort hann ætti að segja frá, þar sem hann taldi sig vera að missa allt og vera orðinn geðveikur vegna þessa. Þá hafi hann á þeim tíma verið með sjálfsvígshugsanir. Aðspurður um húsaskipan hjá manninum, lýsti brotaþoli henni þannig að fyrst væri komið inn í anddyri, og inn af því væri stofa. Maðurinn hafi sagt sér að herbergið sem blöðin voru í væri úti í enda til vinstri. Þangað hefði brotaþoli gengið og hefði svefnherbergi mannsins verið beint á móti því herbergi. Minnti brotaþola að í því hefði verið eitt frekar stórt rúm og að herbergið væri bleikt. Brotaþoli kvaðst ekki muna hvernig það hafi komið til að félagar hans fundu sundskýluna hans í bakgarðinum hjá ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa farið, nokkru eftir að hann sagði foreldrum sínum frá atvikinu, með E vini sínum heim til ákærða í þeim tilgangi að drepa hann. Brotaþoli kvaðst hafa verið með hníf og hefðu þeir félagar farið inn til ákærða og inn í eldhús þar sem hann sat. Þegar á hólminn var komið hefði brotaþoli ekki þorað að ganga lengra og því snúið við og farið út. Kvaðst hann alla tíð hafa forðast ákærða frá því atvikið gerðist og hann hefði aldrei farið í sömu föt aftur. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að breyta sér í einhvern annan eftir atvikið til að ákærði myndi ekki þekkja hann aftur. Hann hefði safnað hári, sett í sig „dreadlocks“, hann hefði gatað sig, sett lokka í varirnar og víðar í andlitið, hann hefði sett í sig augnlinsur og rakað augabrúnirnar, allt til að ákærði eða aðrir myndu ekki þekkja hann aftur. Þá hefði hann aldrei viljað fara til sálfræðings af hræðslu við að segja frá.

C, móðir brotaþola, sagði hjá lögreglu að brotaþoli hefði verið eðlilegur og glaður strákur, gert allt sem hann átti að gera, farið út með hundinn og verið mjög þægilegur í alla staði sem barn. Árið 2003 hafi farið að koma upp atvik í skólanum tengd brotaþola og þau farið á fundi með skólasálfræðingi í [...]. Hefði breytt hegðun brotaþola verið rædd og reynt að finna skýringar á sambandi brotaþola og foreldra hans. Þá hefðu þau leitað aðstoðar sálfræðings í Reykjavík en allt verið til einskis, brotaþoli hafi orðið erfiðari og erfiðari. Stöðugt hafi smámál verið að koma upp, bæði í skólanum og utan hans. Þá hafi farið að bera á einbeitingarskorti hjá brotaþola, athugað hafi verið hvort hann væri flogaveikur og hann farið í alls kyns próf. Þá hefði brotaþoli breytt um stíl, farið að klæðast öðruvísi, byrjað að klæðast svörtu, litað herbergi sitt blóði, kastað rauðum slettum á einn vegginn, hann hefði byrjað að meiða sig og hann hefði gatað sig sjálfur. Í kringum fermingu hans hefði hún ætlað að lýsa herbergi hans upp og fengið til þess listamann en brotaþoli eingöngu viljað láta mála myndir af hauskúpum og dökkum hlutum á veggina. Brotaþoli hafi byrjað að fá reiðiköst, ofsareiði, og farið að efast um kynferði sitt. Eftir sumarið 2003 hefði brotaþoli hlustað mikið á lag með hljómsveitinni Korn sem heitir Daddy og fjallar um nauðgun. Brotaþoli hafi hlustað á þetta lag aftur og aftur. Kvað hún hundinn [...] hafa verið aflífaðan eftir að hann beit „manninn í bláu úlpunni“ en brotaþoli hefði þvertekið fyrir að fara út að ganga með nýja hundinn þeirra. Þá mundi hún eftir því að bekkjarfélagar brotaþola hefðu fundið sundskýluna hans í garðinum heima hjá ákærða nokkru síðar. Um jólin 2007 hefði brotaþoli látið í ljós sjálfsvígshugleiðingar og hefði hann verið búinn að missa allar tilfinningar fyrir sjálfum sér og öðrum. Hann hafi verið mjög reiður, öskrað á hana og óskað þess að einhver myndi skjóta af honum andlitið.

B, fósturfaðir brotaþola, sagði frá á svipaðan hátt fyrir lögreglu.

Ákærði neitaði sök fyrir lögreglu. Kvað hann þetta algjöran uppspuna. Aðspurður um það hvort hann hafi beitt dreng kynferðislegu ofbeldi svaraði ákærði svo: „Nei, ég hef ekki haft kynmök við kvenmann í 30 ár og því síður við karlmann. Ég hef lifað heilögu lífi.“ Ákærði kvaðst hafa verndara sem væri andavera, gyðja. Ákærði lýsti herbergjaskipan á heimili sínu þannig að stofan væri fyrst þegar komið væri inn úr forstofunni og eldhús hægra megin. Svefnherbergi væri vinstra megin á ganginum, þrjú herbergi væru í íbúðinni og væri herbergi hans innst hægra megin á ganginum. Hin herbergin tvö væru skrifstofa og eitt herbergið væri ónotað. Ákærði kvaðst ekki kannast við það að hundur hafi veist að honum á árinu 2003. Aðspurður um það hvers vegna einhver væri að ljúga upp á hann sök, kvað ákærði fólk hafa ímugust á sér, drengir að hluta til, og það sé líklega þess vegna sem brotaþoli ljúgi upp á sig. Svo segir: „Ég er alveg bölvun. Hann er hertur eins og ég sagði þér, harðsvíraður, segir verndari minn, lætur sér ekki allt fyrir brjósti bera þessi drengur.“ Aðspurður kvað hann engan dreng hafa komið í heimsókn til sín eftir þann tíma. Þá hafi enginn heimsótt hann sl. vetur og hann ekki í samskiptum við nein ungmenni. Ákærði kvaðst hafa einangrað sig alveg eftir að hann flutti til [...] fyrir um þrjátíu árum. Hann hafi ekki samskipti við nokkurn mann nema fjölskyldu sína, systur sínar og móður.

III.

Skýrslur sérfræðinga og önnur gögn.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð Tómasar Zoëga geðlæknis. Er þar haft eftir ákærða að hann hafi hætt að vinna árið 1978 og þá verið „beint inn á við“ eins og hann orði það sjálfur. Hann hafi byrjað að stunda trúarbrögð og geimvísindi. Hann hafi flutt til [...]og keypt þar hús. Ákærði hafi hætt öllu sambandi við konur er hann flutti til [...] 1978. Á árinu 1988 hafi hann fengið samband við verndara sinn og gyðjurnar tvær sem hafi þá verið að tala inn á huga hans. Ákærði tali um að hann hafi hætt að aka bíl árið 1978, en lifað á eignum sínum næstu 10 árin en þá hafi peningarnir verið búnir. Þá hafi helgistjórnin sent hann á geðsjúkrahús, hann hafi skotið á mann en verið „handleiddur“ til að gera það, allt gert í þeim tilgangi að koma honum á örorku. Er haft eftir ákærða að þetta hafi verið nágranni hans og endurtekur ákærði í samtali sínu við Tómas að hann hafi verið innblásinn til að drepa nágranna sinn en hann hafi verið heppinn að það hafi ekki tekist. Ákærði kveðst hafa verið lagður inn á geðdeild í tengslum við þessa skottilraun og hafi fengið sprautur einu sinni í mánuði í mörg ár eftir það. Hann hafi hætt að fara í sprautur fyrir rúmu ári. Ákærði segir í byrjun viðtals við Tómas um sakarefnið að það sé allt tóm lygi frá upphafi til enda. Ákærði sé innblásinn af guðunum og guðirnir hafi fengið hann til að gera þetta til að reyna hann sjálfan. Ákærði sé undir eftirliti tveggja gyðja, [...] og [...], og hafi verið undir vernd þeirra í 20 ár. [...] sjái um hann á daginn en [...] á nóttunni en undanfarin 20 ár hafi hann verið í stöðugu sambandi við þessar gyðjur og ræðir um að sambandið sé huglægt. Hann tali um að gyðjurnar yfirtaki huga hans og stjórni honum alveg. Á köflum píni þær hann og píski. Yfir þessum gyðjum sé helgistjórn jarðar sem veiti honum innblástur og stýri þessu öllu. Það séu sex guðir og sex gyðjur sem myndi helgistjórnina og aldur þeirra sé 4-8 milljarða ára. Segir ákærði að verndari hans hafi sagt honum að hætta á lyfjum og líklega hafi það verið „[...]“ sem hafi sagt honum það en haft er eftir ákærða að hann sé undir sérgæslu guðanna. Guðirnir hafi ákveðið að láta reyna á ákærða sérstaklega, meðal annars með því að láta hann léttast, en verndararnir hefðu komið inn og séð að hann hafi nú byrjað að borða. Kemur fram í vottorðinu að ákærði hafi verið látinn komast í samband við dópista og hann látið dópistann hafa peninga reglulega alla tíð síðan. Tilgangurinn væri sá að gera ákærða að öreiga eins og Krist og spámennina. Þá kemur fram að í innlögn ákærða á geðdeild 1987 hafi hann fengið sjúkdómsgreininguna paranoid schizophrenia (aðsóknargeðklofi). Hafi hann þá verið með miklar ofsóknarhugmyndir um skipulagðar aðgerðir gagnvart misindismönnum og kenndi þá meðal annars guðunum um tvö vélhjólaslys sem höfðu orðið ári áður. Ákærði hafi aftur verið lagður inn á geðdeild á árinu 2008 og þá fengið sömu sjúkdómsgreiningu. Í þessari innlögn hafi komið fram miklar ranghugmyndir af sama toga og í fyrri innlögn. Um geðskoðun segir í vottorði Tómasar að um grannvaxinn, rólegan karlmann, sem beri aldurinn vel, sé að ræða, snyrtilega klæddan, augljóslega ágætlega gefinn, kurteisan og hjálplegan í viðtali. Hann sé með flókið fast ranghugmyndakerfi sem einkennist af trúarhugmyndum og segist fyrir nokkrum árum hafa verið innblásinn til að hengja sig en ekki gert það. Hann hafi lesið Morgunblaðið reglulega þegar hann bjó í [...], lesi Fréttablaðið af og til en fylgist hvorki með útvarpi né sjónvarpi. Hann sé greinilega vel með á nótunum hvað sé að gerast í þjóðfélaginu. Hann hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn alla tíð en hætt því fyrir nokkrum árum því [...] hafi verið á móti því. Hlutverk hans í lífinu sé að leysa lífsgátuna með því að opinbera líf og tilveruna. Hann sé langt kominn með að leysa þessi mál og kveðst ætla að birta grein um þetta síðar á árinu í Morgunblaðinu. Sjúkdómsgreining Tómasar er Paranoid schizophrenia. Í niðurstöðum vottorðsins kemur fram að ákærði hafi átt við alvarlegan geðklofasjúkdóm að stríða um áratuga skeið. Sjúkdómurinn einkennist af miklum og flóknum ranghugmyndakerfum, en þau kerfi séu að megninu til af trúarlegum toga. Hann telji sig vera undir stjórn æðra máttarvalds og eftir því sem best verði séð hafi þessi einkenni verið stöðug í að minnsta kosti 20-30 ár. Ákærði neiti afdráttarlaust þeim ásökunum sem hann sé ákærður fyrir. Af þeim sökum sé erfitt að meta hvort alvarleg geðveiki hans sé af því tagi að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem meint brot sé talið hafa átt sér stað. Þá segir að með vísan til 16. gr. almennra hegningarlaga sé það álit undirritaðs að ákærði sé með mjög alvarlegan og langvinnan geðsjúkdóm. Hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og það sé mat undirritaðs að það sé borin von að refsing geti borið árangur ef sök sannist á ákærða. Þá sé mikilvægt, ef þess sé nokkur kostur, að meðferð og umönnun, sem hann nú fái á hjúkrunarheimilinu á [...] í [...], megi halda áfram. Þangað komi geðlæknir með reglulegum hætti og fylgist með lyfjamerðferð og annarri meðferð sem veitt er.

Þá liggur fyrir vottorð frá dýralæknaþjónustu [...] ehf., þar sem kemur fram að hundurinn [...], nr. 49, hafi verið aflífaður 12. júlí 2003.

Einnig eru ljósmyndir í gögnum málsins teknar að [...], í [...], heimili ákærða. Kemur þar fram að veggir í gangi eru málaðir bleikir. Þegar komið er inn eftir herbergisganginum er salerni fyrst til vinstri og herbergi innst til vinstri. Á móti því er svefnherbergi ákærða sem er blámálað. Þá sést á ljósmynd að dagblað hefur verið hengt yfir ljósaperu sem skermur og kemur fram í texta við myndina að gömul dagblöð hafi verið víða í húsinu.

Í bréfi Óskars Reykdalssonar, læknis hjá [...] á [...], kemur fram að hann þekki ákærða ákaflega lítið og hafi aðeins sinnt honum lítið vegna sprautumeðferðar sem hann hafi fengið við geðklofasjúkdómi sínum. Hann hafi til fjölda ára haft greininguna schizophrenia, geðklofasjúkdóm, og fengið meðferð hjá þeim með mánaðarlegum sprautum. Þetta hafi gengið mjög vel og einkenni verið lítil. Sjúkraskrár [...] hafi verið tölvuvæddar frá árinu 1997 og síðan þá hafi ekki verið neitt vandamál með ákærða. Hann hafi fengið sínar sprautur og gengið þokkalega. Hann hafi hins vegar verið í sambandi við [...] þann 9. nóvember 2007 og sagst ekki ætla að koma í sprautur oftar þar sem verndargyðjan hans hafi læknað hann. Hafi ákærði sagt það sama þann 12. nóvember 2007 en þá hefði hann hringt.

Í greinargerð D, félagsmálastjóra í [...], kemur fram í niðurstöðum að mál A hafi verið til vinnslu hjá barnaverndarnefnd frá árinu 2005 með hléum. Hafi A átt við erfiðleika að stríða í samskiptum við foreldra, hann hafi orðið fyrir einelti, sé með lágt sjálfsmat, þ.e. gefist mjög fljótt upp ef á móti blási. Hann hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi ellefu ára gamall sem hann hafi nýlega sagt frá. A hafi átt í talsverðum erfiðleikum fyrir þann tíma, þ.e. hann hafi orðið fyrir einelti og hafi haft lítið sjálfstraust, en eftir þennan atburð hafi vandi hans farið stigvaxandi og því miður enginn sem hafi greint vandann rétt. A þurfi að vinna úr þessari erfiðu reynslu og takast á við vímuefnavanda sinn. Hann þurfi að fá stuðning til að takast á við daglegt líf eins og vinnu, fjármál og fleira. A sé tilbúinn núna til að horfast í augu við vanda sinn og vilji taka á honum.

Í skýrslu frá Barnahúsi kemur fram að brotaþoli hafi á tímabilinu frá 4. febrúar 2008 til 13. júní 2008 sótt sjö viðtöl hjá Margréti K. Magnúsdóttur sálfræðingi, ýmist í Barnahúsi eða á skrifstofu barnaverndar [...] sem og á Stuðlum. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hati [...] og reyni að vera sem minnst þar. Reyni hann að fara þaðan eins oft og hann geti og á þeim ferðum hafi hann komist í slæman félagsskap. Hann fari á puttanum á milli [...] og [...]. Hann hafi kynnst stúlku á hans aldri í [...] og sé ánægður með að hún vilji ekki kynlíf, heldur bara knús og kossa. Hann vilji komast frá [...] þar sem hann eigi enga vini, finnist hann ekki geta byrjað á neinu þar og „karlinn“ búi þar enn. Hann langi til að leigja sér herbergi í bænum, hann hafi fengið vinnu þar og sé ánægður með það og vilji vinna í sínum málum. Hann telji sig þó ekki geta unnið í sjálfum sér á meðan hann búi enn í [...], þar sem allt of margt sé þar sem minni hann á erfiða og neikvæða hluti. Rætt hafi verið um sjálfsmynd brotaþola, sem sé mjög brotin og hafi hann sagt frá því hvernig hann reyndi að „fela“ litla særða drenginn inni í sér með því að breyta útliti sínu, gata sig, mála sig, lita hárið og fleira, en með því fyndist honum hann geta látið sjálfan sig hverfa og verða einhvern annan.

Brotaþoli var látinn svara spurningalista Becks¹ og benti niðurstaðan til mikillar geðlægðar. Þá svaraði hann spurningalista Becks² en sá listi er sjálfsmatskvarði til að kanna sjálfsmat, kvíða, þunglyndi, reiði og truflandi hegðun. Brotaþoli hafi mælst hátt yfir greiningarviðmiðum á öllum mældum þáttum nema þeim þætti sem mæli sjálfsmat þar sem hann hafi mælst langt undir meðaltalssvörun. Í samantekt og áliti kemur fram að eiginleg meðferð vegna meints kynferðisofbeldis hafi ekki enn hafist þar sem ekki hafi tekist að skapa réttar forsendur til þess. Í því samhengi er nefndur stöðugur flótti hans frá dvalarstað sínum, [...], vegna vanlíðunar þar og vondra minninga, sem og flótti frá sjálfum sér með neyslu. Viðtöl og niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi leitt í ljós að brotaþoli glími við fjölmörg vandamál sem sjá megi hjá þolendum kynferðisofbeldis, m.a. depurð, þunglyndi, kvíða, tilfinningaleg vandkvæði, félagsleg vandamál, hegðunarvandamál, athyglis- og einbeitingarerfiðleika, sjálfskaðandi hegðun og brotna sjálfsmynd. Brotaþoli tengi sjálfur vandamál sín við meint kynferðisofbeldi, sem hann hafi oft hugsað um þótt hann reyni að forðast það. Fyrsta tilraun brotaþola til að treysta einhverjum fyrir reynslu sinni hafi farið á þann veg að vinur, sem hann treysti fyrir meintu kynferðisofbeldi, hafi svikið hann og sagt frá því víða og í kjölfarið hafi brotaþoli verið kallaður hommi og sagt að hann hafi „fílað“ að láta nauðga sér. Brotaþoli hafi upplifað mikla höfnun frá vinum og leitað í óæskilegan félagsskap. Því hafi fylgt óæskileg hegðun sem hafi skilað sér í fjandsamlegu viðmóti í bænum, sem sé arfur af því að brotaþola líði illa í [...]. Þá sé sjálfsmynd brotaþola verulega brotin og tali hann sjálfur um að hann viti ekki hver hann sé. Um tíma hafi hann gengið langt í því að reyna að breyta sér í þeim tilgangi að fela sig, látið sig hverfa og/eða verið einhver annar en hann sé. Hann hafi farið að mála sig og lita hárið, gata sig (piercing) allan í framan og klæðast öllu svörtu í svokölluðum Goth-stíl. Hann hafi gatað sig sjálfur og notað til þess nál en slíkt sé dæmi um sjálfskaðandi hegðun sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis. Hann sækist einnig í að breyta hugarástandi sínu með neyslu, sem sé annað dæmi um sjálfskaðandi hegðun. Brotaþoli sé afskaplega ráðvilltur ungur maður og lýsi hugtakið „týndur“ ástandi hans kannski betur. Hann langi til að líða betur og finna einhverja fótfestu í lífinu og eitthvert markmið til að stefna að, en til þess að vinna að því þurfi hann fyrst að finna frið með sjálfum sér og sálarró. Í lok skýrslunnar segir að ætla megi að meint kynferðisofbeldi hafi valdið brotaþola miklum skaða og hafi haft áhrif á persónuleika hans og þroska, viðhorf og lífssýn. Það sé óvíst að hann muni nokkurn tíma bera þess bætur. Rannsóknir sýni að brýnt sé að þolendur kynferðisbrota sæki viðtalsmeðferð um lengri eða skemmri tíma til að draga úr þeim afleiðingum sem slík reynsla hafi í för með sér.

IV.

Skýrslur fyrir dómi.

 Ákærði mætti fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök. Ákærði neitaði að mæta fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Að kröfu verjanda ákærða fór dómurinn að dvalarheimilinu [...] í [...], þar sem ákærði dvelur, þann 7. apríl sl., og hitti ákærða þar fyrir. Að gættum réttarfarsákvæðum var ákærði inntur um afstöðu sína til sakarefnisins. Kvað hann brotaþola ljúga þessu upp á sig. Það hafi verndari hans sagt ákærða. Ákærði kvaðst muna eftir því að tveir unglingsstrákar hafi komið heim til hans með hulin andlit og ógnað honum en ekki unnið honum mein. Þetta hafi verið á árinu 2008.

A kom, að kröfu verjanda ákærða, fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og lýsti atvikinu þannig að hann hafi verið úti að ganga með [...], hundinn sinn, og verið á leið upp í [...] þar sem hann ætlaði að fara að synda. Hann hefði gengið með [...] og sleppt hundinum. Hundurinn hefði hlaupið frá honum og ráðist á mann sem hann mætti. Maðurinn hefði orðið mjög reiður og skammast mikið. A hefði verið mjög miður sín og afsakað sig. Hundurinn hefði horfið en ákærði hefði jafnað sig og beðist afsökunar á hegðun sinni og boðið honum að koma með sér, sem A kvaðst hafa gert. Ákærði hefði þá boðið honum pening, eitt þúsund krónur, sem hefði verið mikið fé þá. Ákærði hefði boðið honum smá vinnu og hefði A elt ákærða heim til hans. A kvaðst hafa farið inn í húsið og kvaðst muna eftir því að hafa farið inn ganginn í húsinu og innst í honum til vinstri hefði verið herbergi með fullt af dagblöðum. Kvaðst A hafa ætlað að bera dagblöðin út og fundist það lítið mál fyrir greiðsluna, en ákærði hefði þá læst herbergishurðinni og A þar inni. Kvaðst A ekki hafa vitað hvað var í gangi en ákærði hefði komið aftur inn í herbergið og sagt A að fara inn í svefnherbergi ákærða sem hefði verið beint á móti. Ákærði hefði sagt A að fara úr fötunum og hefði A hlítt honum. Ákærði hefði verið sallarólegur. Ákærði hefði sett A upp á rúmið og sett lim sinn upp í munn A. Hefði það ekki varað í langan tíma en þá hefði ákærði snúið A við þannig að hann hefði legið með andlitið niður. Ákærði hefði sótt sleipiefni eða gel í skáp og sett á typpið á sér og á rassinn á A. Í beinu framhaldi hefði ákærði sett liminn á sér inn í rassinn á A. Hefði ákærði verið með liminn inni í sér í smá tíma alltaf með sömu hreyfinguna. Þá hefði hann sennilega áttað sig á því að þetta væri varla hægt og hætt. Ákærði hefði farið fram en A kvaðst hafa legið mjög hræddur áfram á rúminu og ekki vitað hvað væri í vændum. Ákærði hefði komið aftur inn í herbergið með hníf í hendinni, sterkan kjöthníf, sveiflað hnífnum eitthvað fyrir framan hann og spurt hvort hann vildi ekki fara. A kvaðst ekki hafa svarað fyrst og ákærði þá spurt hann aftur. Ákærði hefði farið með A að bakdyrunum og sagt honum að hann mætti ekki segja nokkrum frá. Ákærði hefði sagt honum að hann hafi drepið áður og gæti drepið aftur ef hann segði frá. Brotaþoli kvaðst hafa hlaupið út í gegnum bílskúrinn og upp að [...] og verið þar smástund til að átta sig á því hvað væri í gangi og síðan farið heim til sín. A var spurður um sundskýluna hans sem fannst síðar í garði ákærða. A kvaðst ekki muna hvernig það kom til, hann hefði líklega ekki farið í sundskýluna aftur þegar hann fór í fötin sín.

A kvaðst hafa sagt fósturföður sínum fyrstum frá þessum atburði í byrjun janúar 2008. Þá hefði hann sagt E vini sínum frá þessu í sömu vikunni. Hefðu þeir ákveðið að fara heim til ákærða og myrða hann. Þeir hefðu hulið andlit sín og farið heim til ákærða og ruðst beint inn í eldhús. Þeir hefðu verið með hníf með sér en orðið hræddir og hætt við og farið út. A kvaðst ekki hafa sagt öðrum frá þessu atviki áður en hann sagði föður sínum frá. F vinur hans hefði fundið sundskýluna í garði ákærða eftir atvikið. A kvaðst ekki hafa þekkt ákærða fyrir atburðinn öðruvísi en svo að hann hafi verið maðurinn í bláu úlpunni. Brotaþoli kvað atburðinn hafa fylgt sér alla tíð. Hann hefði reynt að breyta sér í útliti, safnað síðu hári, sett hringi í andlit sitt og sífellt reynt að breyta sér. A kvaðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þeim tíma er hann sagði föður sínum frá atvikinu. Ákærði hefði verið baktalaður í [...] og fólk verið hrætt við hann og því hefði A líka verið hræddur við hann. Hann hefði þó ekki viljað vera leiðinlegur við hann þegar hundurinn beit hann og því farið að tala við hann og reynt að vera almennilegur við hann.

Móðir brotaþola, C, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið til Íslands fyrst árið 1997 og kynnst B. Hún hefði síðan flust til landsins árið 1998 ásamt A og tveimur systrum hans. Vorið 2001 hefðu þau flust til [...]. A hefði í æsku verið mjög indælt barn og aðlagast verunni hér á landi vel. A hefði breyst árið 2003. Hann hefði farið að lita hárið á sér og breytt útlitinu verulega og hefði hún misst allt samband við A. Hann hefði verið mjög reiður og myrkur í sálu hans. C kvaðst muna daginn þegar A fór með [...] með sér og ætlaði að fara að synda í [...]. A hefði komið heim mjög miður sín og sagt henni frá því að hann hefði misst hundinn og hundurinn hefði bitið mann. A hefði komið í miklu uppnámi til baka. Hún hefði skammað A og talið að honum hefði liðið svona vegna hundsins. Kvaðst hún muna eftir jólunum 2007 en þá hefði A verið með sjálfsvígshugmyndir. Þá kvaðst hún einnig muna vel þegar að A sagði stjúpföður sínum frá misnotkuninni en B hefði vakið hana þá um nóttina og sagt henni frá því sem A var að upplýsa hann um. A hefði verið í miklu uppnámi. Kvaðst hún aldrei hafa séð A eins niðurbrotinn og hann var þessa nótt. Í framhaldi hefðu þau haft samband við félagsmálastjórann í [...]. C kvaðst hafa vitað vel hver ákærði var, það hefðu allir í [...] vitað hver maðurinn var. C kvaðst ekki hafa getað beðið A að segja sér frá misnotkunni með eigin orðum, heldur beðið hann um að skrifa niður það sem kom fyrir hann og hún hefði síðan lesið það. A hefði lýst í bréfinu hvað hefði gerst með hundinn og að hann hefði farið með ákærða inn í hús hans þar sem ákærði hefði boðið honum peninga. Ákærði hefði læst hann fyrst inn í herbergi en síðan farið með A inn í annað svefnherbergi. Fyrst hefðu munnmök átt sér stað og í framhaldi hefði ákærði notað eitthvert sleipiefni og haft við hann endaþarmsmök. Þá hefði A lýst í bréfinu hníf sem notaður var í sambandi við hótun. Þá hefði komið fram í lýsingu A að hann hefði hlaupið upp í [...] eftir atburðinn og verið mjög illt í rassinum. Aðspurð kvaðst hún telja að A hafi verið í sundskýlunni undir fötunum þegar hann fór að synda í [...], það hefði hann yfirleitt gert. Þá staðfesti C að [...] hefði verið aflífaður stuttu eftir óhappið með hann árið 2003. C kvað A hafa misst alla sjálfsvirðingu og sjálfsmat og sjálfstraust á árinu 2003. Hún minntist þess líka að A hafi haft hugleiðingar um það þegar hann var þrettán og fjórtán ára að hann væri samkynhneigður en hann hefði hins vegar aldrei áður sýnt nokkra hegðun sem benti til að svo væri.

B, fósturfaðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst brotaþola árið 1998 en þau hefðu flust til [...] árið 2001. Kvað hann brotaþola hafa verið mjög erfiðan frá árinu 2003 og þar til hann sagði honum frá misnotkuninni í janúar 2008. Þá um nóttina hefðu þeir verið að ræða saman og brotaþoli þá sagt honum að  hann yrði að segja honum frá atviki sem hann ætlaði að treysta B fyrir. Brotaþoli hefði þá sagt sér að honum hafi verið nauðgað án þess að lýsa því nokkuð nánar. Stuttu seinna um nóttina hefði hann lýst atvikinu fyrir honum.  Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og grátið mikið. B kvaðst muna eftir deginum þegar brotaþoli kom heim sumarið 2003 og sagt þeim að hann hefði týnt hundinum og að hundurinn hefði bitið mann. Hann hefði verið í miklu uppnámi þá. Hundinum hefði verið lógað stuttu eftir það. Brotaþoli hefði sagt þeim hvern hundurinn beit en ákærði hefði aldrei kært atvikið. Aðspurður kvaðst hann hafa orðið var við mjög miklar breytingar á hegðun brotaþola, hann hafi farið að hverfa að heiman og verið mjög erfiður. Þá hefði brotaþoli verið tregur til að fara út að ganga með nýjan hund sem fjölskyldan eignaðist. Brotaþoli hefði borið því við að það væri stór úlfur í [...] og skoraðist þannig undan því að fara með hundinn út. Brotaþoli hefði fljótlega eftir þetta atvik viljað breyta sér, t.d. hefði hann viljað fá „dreadlocks“, hann hefði farið að gata sig sjálfur í andliti með nálum og engin leið hefði verið að fá brotaþola ofan af þessu. Hann hefði sett lokka í augabrúnir, neðri vör og víðar. B kvaðst muna eftir því að brotaþoli týndi sundskýlunni sinni. Þá kvaðst hann muna eftir því að vinir brotaþola á þessum tíma hefðu fundið sundskýlu brotaþola heima hjá ákærða og strítt brotaþola með því. Hvenær það var kvaðst B ekki muna. Þá hefði brotaþoli orðið fyrir einelti í skóla og miklir erfiðleikar hefðu verið með hann í skólanum.

F kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið vinur brotaþola árið 2003. Þeir hefðu hins vegar ekkert samband í dag. Aðspurður kvaðst hann minnast þess að hann og vinkona þeirra hafi verið að leika sér í bakgarðinum heima hjá G en bakgarðar heimilis hennar og ákærða lægju saman. Í bakgarði ákærða hefði verið gamalt garðhús og þau farið þar inn. Þar hefðu þau fundið sundskýlu brotaþola liggjandi á gólfinu en hún hafi verið auðþekkjanleg. Þau hefðu ekki tekið skýluna en sagt brotaþola frá því sem hefði orðið undarlegur við það. Þá hefði brotaþoli verið búinn að segja sér áður að hann hefði týnt skýlunni sinni.

H kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst brotaþola í grunnskóla og þeir verið leikfélagar þegar þeir voru yngri. Þeir væru ekki í neinu sambandi nú. Aðspurður kvaðst hann hafa séð sundskýlu brotaþola í garðinum heima hjá ákærða. Hann, F og G hefðu verið að leika sér í bakgarðinum hjá G en bakgarður ákærða og bakgarður heima hjá G lægju saman. Gamalt gróðurhús hafi verið í bakgarði ákærða sem var nánast bara grindin. Minnti hann að skýlan hafi legið á grasinu en ekki í skúrnum. Kvað hann brotaþola hafa sagt sér á árinu 2005  að hann hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en hann hefði ekki lýst því neitt nánar. Minnti hann að brotaþoli hefði sagt fleirum frá þessu en hann hefði beðið sig um að segja ekki frá þessu. Brotaþoli hefði verið í fíkniefnaneyslu og þá hefði samband þeirra slitnað.

E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst brotaþola þegar þeir voru krakkar. Kvað hann brotaþola hafa sagt sér á árinu 2008 að hann hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Brotaþoli hafi sagt sér að hann hefði verið úti með hundinn [...] og misst hundinn. Hann hefði hitt ákærða, og ákærði hefði boðið honum vinnu og laun. Aðspurður mundi E ekki í hverju vinnan fólst, húshjálp eða garðvinnu. Í það skiptið hefði ákærði brotið kynferðislega á brotaþola.

Tómas Zoega geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð sem hann ritaði um ákærða. Kvaðst hann hafa hitt ákærða. Kvað hann ákærða vel gefinn mann en með miklar ranghugmyndir. Frá því 1988 hafi ákærði ekki unnið úti við. Hann sé byggingafræðingur að mennt en hafi ekki unnið við það lengi. Kvað hann ákærða hafa neitað algjörlega sakarefninu. Tómas kvað ekkert benda til annars en að ákærði hafi verið með sömu ranghugmyndir árið 2003 og hafi verið með þær um áratuga skeið með svipuðum blæ. Um það hvort ákærði væri ósakhæfur kvað Tómas erfitt að segja til um það, ákærði hafi ekki viljað tala um þennan atburð en hann væri greinilega mikið veikur. Ákærði hafi skotið á nágranna sinn á árinu 1988 og hafi þá greinilega verið veikur en ekki veikari en það að hann miðaði á manninn en greinilega framhjá honum. Tómas kvað alveg ljóst að refsing í formi fangelsisvistar myndi ekki gagnast ákærða. Aðspurður um hvort ákærði myndi vita hvað hann væri að gera ef hann fremdi sams konar brot í dag kvað Tómas erfitt að meta það, hann væri alls ekki viss. Ákærði væri vel gefinn en væri algjörlega fastur í þeirri hugsun að honum væri stjórnað af gyðjum. Hann yrði vígður maður á næstunni að hans sögn, og þá yrði ekki hægt að snerta hann. Atferli ákærða snerist allt um það kerfi sem hann lifði eftir og hefði varað allavega frá því að hann flutti til [...]. Ákærði ætti dóttur sem væri tæplega fertug en ákærði skipti sér ekkert af henni. Ákærði stofnaði ekki til kynna við annað fólk. Tómas kvað það rétt að ákærði hefði svarað því, þegar hann skaut að manni, að hann hefði ætlað að drepa hann og gyðjurnar hefðu sagt honum að gera það. Aðspurður um það hvort ákærði væri meðvitaður um það hvað hann væri að gera, þegar hann fengi fyrirskipanir frá gyðjunum, kvað Tómas það mjög vel þekkt að fólk hlýddi þessum röddum. Ákærði væri ekki í neinu transástandi, hann væri með fullri meðvitund þegar hann heyrði raddirnar. Tómas taldi að ákærði væri vel meðvitaður um það að hann væri að framkvæma fyrirskipanir frá gyðjunum og að hann gæti vegið og metið að það sem hann gerði væri rétt eða rangt að einhverju marki. Sjúkdómur hans kæmi hins vegar ekki í veg fyrir að hann framkvæmdi eitthvað og þrætti svo fyrir það síðar. Þá kvað hann ákærða vera vissan um að hann hefði lifað algjöru skírlífi sl. þrjátíu ár.

Margrét K. Magnúsdóttir sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti greinargerð sem hún gerði varðandi brotaþola. Kvaðst hún ekki hafa haft brotaþola til meðferðar eftir júní 2008. Brotaþoli hafi verið skemmtilegur einstaklingur en með sjálfseyðingarhvöt. Hann hafi haft sjálfskaðandi hegðun og viðtölin hafi ekki verið komin á það stig að ræða um kynferðisofbeldið. Brotaþoli hafi ekki þolað við í [...], hann hafi sífellt verið að týnast og strjúka og verið í tómu rugli. Hún hefði lagt próf fyrir brotaþola og hann hafi toppað alla kvarða. Brotaþoli tengi sjálfur öll sín vandamál því broti sem hann varð fyrir. Aðspurð um það hvort annað en kynferðisofbeldi gæti hafa verið orsakavaldur að hegðun hans, kvaðst hún ekki vita til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir nokkru öðru ofbeldi eða áfalli sem gæti skýrt ástand hans.

Þórarinn Viðar Hjaltason sálfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa haft brotaþola í viðtölum þegar hann var vistaður á Stuðlum. Brotaþoli hafi verið í mikilli kannabisneyslu og hafi meðferðin og viðtölin að mestu snúið að þeim vandamálum en brotaþoli hefði lítið rætt um kynferðisbrotið við hann. Kvaðst Þórarinn hafa ætlað sér að ræða það brot síðar við brotaþola en erfitt væri að taka á slíkum brotum þegar unglingar væru inni á Stuðlum. Kvaðst Þórarinn telja að brotaþoli hafi verið opinn og heiðarlegur varðandi vandamál sín við hann.

D félagsmálastjóri gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa haft afskipti af brotaþola frá því í desember 2004 og frá þeim tíma hafi hún haft afskipti af honum, bæði vegna hegðunarvandamála svo og verið honum til halds og trausts í gegnum viðtöl í Barnahúsi sem og hafi hann verið í viðtölum hjá henni.  Staðfesti hún skýrslu sína liggur frammi í málinu.

V.

Niðurstöður:

Í máli þessu er ákært fyrir kynferðisbrot gegn tólf ára dreng í maí, júní eða júlí 2003 þannig að ákærði hafi látið brotaþola hafa munnmök við sig og haft síðan samræði við hann í endaþarm. Brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi þann 28. janúar 2008 og aftur fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Lýsti brotaþoli atvikum á sama veg fyrir dóminum og í Barnahúsi. Var framburður brotaþola, bæði í Barnahúsi og fyrir dóminum, í öllum atriðum trúverðugur. Samkvæmt framburði móður brotaþola og fósturföður svo og öðrum gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, er ljóst að á árinu 2003 hafi skapgerð og persónuleiki brotaþola breyst mjög mikið til hins verra. Brotaþoli hafi breytt útliti sínu, hann hafi sett göt í andlit sitt, safnað hári og breytt um fatastíl og samkvæmt brotaþola gerði hann þessar breytingar á sér í þeim tilgangi að fela sjálfan sig og til þess að ákærði myndi ekki þekkja hann aftur. Þá staðfesti ákærði að tveir unglingar hefðu komið heim til hans á árinu 2008 með andlit sín hulin og hótað honum með hnífi. Ákærði hefur ítrekað neitað sök. Ákærði hefur hins vegar játað að hafa ætlað að drepa mann en skotið hafi geigað. Verjandi ákærða kvað ákærða hafa játað það brot greiðlega og lýst því að gyðjurnar hafi sagt honum að drepa manninn. Því væri engin ástæða fyrir ákærða að neita sök í þessu máli, hefði honum verið skipað að framkvæma þann verknað. Ekkert í málinu styðji þær ásakanir sem væru bornar á ákærða. Framburður brotaþola hafi verið leið til þess að skýra þau vandamál sem hann hefði þegar verið kominn í í ársbyrjun 2008 og ekki hafi verið aftur snúið fyrir hann þegar hann var einu sinni búinn að segja þá sögu.

Í máli þessu verður ekki stuðst við annað en framburð brotaþola og önnur óbein sönnunargögn, máli hans til stuðnings. Brotaþoli var með hugmyndir um það, um þrettán til fjórtán ára aldur, að hann væri samkynhneigður. Sjálfsmat hans og sjálfsmynd er í molum og samkvæmt vottorði og vitnisburði Margrétar K. Magnúsdóttur sálfræðings, þá sé brotaþoli afskaplega ráðvilltur og lýsi hugtakið „týndur“ ástandi hans vel. Aðspurð fyrir dómi kvað Margrét að ástand brotaþola gæti verið eftir annað áfall en meint kynferðisbrot en það væri ekki vitað til þess að hann hafi lent í neinu öðru áfalli. Brotaþoli kvað brotið hafa átt sér stað þegar hundur hans beit ákærða. Hundurinn [...], sem brotaþoli átti á þessum tíma, var aflífaður 12. júlí 2003 og að sögn foreldra hans í kjölfarið af því að hafa bitið mann. Afar ólíklegt er að tólf ára drengur hafi spunnið slíka sögu upp, þar sem afleiðingin væri honum í óhag. Í það skiptið sagði brotaþoli hundinn hafa bitið ákærða, en ákærði neitar því alfarið. Þá styður frásögn brotaþola að sundskýla hans fannst í garði ákærða nokkru síðar svo og frásögn ákærða og E um að brotaþoli og E fóru heim til ákærða í þeim tilgangi að vinna honum mein. Kvað E fyrir dóminum að það hafi verið vegna meintrar misnotkunar ákærða á brotaþola. Þegar allt þetta er virt, þykir dóminum fram komin, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, full sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um í ákæru. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega færð til refsiákvæðis. Ákærði hefur unnið sér til refsingar. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ekki verið gerð áður.

Í vottorði Tómasar Zoëga geðlæknis kemur fram að erfitt sé að meta hvort alvarleg geðveiki ákærða sé af því tagi að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem meint brot sé talið hafa átt sér stað. Ákærði sé með mjög alvarlegan og langvinnan geðsjúkdóm, hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og það sé borin von að refsing geti borið árangur ef sök sannist á hann. Tómas staðfesti þetta fyrir dóminum. Með vísan til þessa verður að telja að ekki liggi fyrir að ákærði hafi verið ósakhæfur skv. 15. gr. almennra hegningarlaga þegar hann framdi brot sitt. Hins vegar fellst dómurinn á það mat geðlæknisins að borin von sé að refsing í tilviki ákærða muni bera árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Með hliðsjón af 62. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði því dæmdur til að sæta vistun á viðeigandi stofnun.

VI.

Bótakrafan.

Í málinu gerir Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður kröfu, fyrir hönd brotaþola, um 5.541.575 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 25/1987 frá tjónsdegi til þess dags er ákærða var kynnt bótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Bótakrafan sundurliðast þannig:

Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga                          kr. 5.000.000.-

Málskostnaðar lögmanns                                                 kr.    450.000.-

Virðisaukaskattur á málskostnað                                    kr.    106.575.-

Í greinargerð með bótakröfunni segir að brotaþoli hafi átt við mikla erfiðleika að stríða frá því atburðurinn átti sér stað. Hann segi sjálfur frá að hann hafi aldrei aftur farið í þau föt sem hann var í í tilgreint sinn. Hann hafi byrjað að safna hári, sett í það „dreadlocks“ og reynt að vera einhver annar. Hann hafi átt við þunglyndi að stríða og líf hans hafi ekki orðið samt eftir þennan atburð. Þá er haft eftir móður brotaþola að miklar breytingar hafi orðið á brotaþola á árinu 2003. Þau hafi leitað til sálfræðings en það hafi ekki leitt til neins. Brotaþoli hafi orðið erfiðari og erfiðari og farið að bera á einbeitingarskorti hjá honum. Á þessum tíma hafi hann breytt um stíl, farið að klæða sig öðruvísi, byrjað að klæðast svörtu, litað herbergið blóði, kastað rauðum slettum á einn vegginn. Hann hafi farið að meiða sig og gata sig. Á þessum tíma hafi brotaþoli byrjað að fá reiðiköst, ofsareiði. Hann hafi efast um kynferði sitt og talið sig vera samkynhneigðan. Í skýrslu Margrétar K. Magnúsdóttur sálfræðings komi fram að niðurstöður sjálfsmatskvarða bendi til að brotaþoli sé í mikilli geðlægð, hann sé haldinn kvíða, þunglyndi, reiði og truflandi hegðun. Sjálfsmat mælist langt undir meðaltalssvörun, hann sé á stöðugum flótta frá [...] vegna vanlíðunar þar og vondra minninga og hann sé einnig á flótta frá sjálfum sér með neyslu. Hann glími við fjölmörg vandamál sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis; depurð, kvíða, tilfinningaleg vandkvæði, félagsleg vandamál, hegðunarvandamál, athyglis- og einbeitingarerfiðleika, sjálfskaðandi hegðun og brotna sjálfsmynd. Þá segir að ljóst megi vera að sú kynferðislega misnotkun og hrottalega nauðgun sem brotaþoli hafi orðið fyrir hafi haft mikil áhrif á líf hans og valdið honum óbærilegum sársauka, andlegum og líkamlegum, brotið sjálfsmynd hans, valdið honum kvíða, þunglyndi og í raun gersamlega brotið hann niður.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga á brotaþoli rétt til greiðslu miskabóta úr hendi ákærða. Umrætt brot átti sér stað sumarið 2003 en brotaþoli segir frá atvikinu í janúarbyrjun 2008. Í fjögur og hálft ár hefur brotaþoli því barist við afleiðingar brotsins án þess að hafa haft þroska til þess að takast á við þær. Brotaþoli á enga sögu fyrir þetta atvik um brotna sjálfsmynd eða aðra hegðunarbresti sem lýst hefur verið í gögnum málsins og kom fram fyrir dóminum. Verjandi ákærða kvað engin gögn liggja fyrir sem sýndu eða sönnuðu að andlegt ástand brotaþola væri afleiðing brotsins.

Margrét K. Magnúsdóttir sálfræðingur staðfesti fyrir dóminum að brotaþoli hefði sprengt alla skala varðandi hegðun hans, sjálfsmynd, sjálfskaðandi hegðun og fleira sem sannanlega sé afleiðing mikils áfalls. Þá staðfesti hún að það hafi hvergi komið fram að brotaþoli hafi lent í einhverju áfalli á lífsleiðinni sem gæti verið orsök að vandamálum hans nú. Þá staðfesti móðir brotaþola og fósturfaðir að miklar breytingar hafi orðið á hegðun brotaþola á árinu 2003 og sífellt stefnt til verri vegar frá þeim tíma.

Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 1.500.000 króna sem ákærða ber að greiða honum eins og nánar segir í dómsorði. Brotaþoli á rétt á vöxtum frá þeim degi er tjónið varð. Í máli þessu liggur ekki fyrir hvenær nákvæmlega brotið átti sér stað. Samkvæmt gögnum málsins var hundurinn [...] aflífaður þann 12. júlí 2003 en samkvæmt fósturföður brotaþola var það gert nokkrum dögum eftir að hundurinn beit ákærða. Á brotaþoli því rétt á vöxtum í síðasta lagi frá þeim degi samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 25/1987 þar til mánuði eftir að ákærða var kynnt bótakrafan sem var 27. nóvember 2008 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

VII.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber  að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem hlotist hefur af málinu. Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og reikningi Tómasar Zoëga vegna geðheilbrigðisrannsóknar er útlagður sakarkostnaður samtals 626.292 krónur. Þá ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 557.760 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar 32.175 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 752.976 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti vistun á viðeigandi hæli samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 1.969.203 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 557.760 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar 32.175 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, við rannsókn málsins og fyrir dómi, samtals 752.976 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði A 1.500.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2003 til 27. desember 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.