Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2014. |
|
Nr. 254/2014.
|
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum X um að málinu yrði vísað frá dómi og að sækjandi viki sæti. X krafðist þess að hrundið yrði niðurstöðu héraðsdóms um að ekki yrði tekin vitnaskýrsla af aðstoðarsaksóknara málsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að kröfur X um það að málinu yrði vísað frá dómi og að aðstoðarsaksóknara bæri að víkja sæti hefðu meðal annars verið á því reistar að hann þyrfti að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Úr þeim kröfum hefði verið leyst í hinum kærða úrskurði. Í forsendum úrskurðarins hefði komið fram að X hefði ekki sýnt fram á að aðstoðarsaksóknarinn gæti haft stöðu vitnis í málinu og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að ekki yrði tekin vitnaskýrsla af honum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi og sækjandi viki sæti. Um kæruheimild er vísað til f. og n. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að „hrundið verði þeirri niðurstöðu héraðsdómsins að hafna því að tekin verði vitnaskýrsla af saksóknara málsins, Karli Inga Vilbergssyni.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í greinargerð varnaraðila í héraði var þess krafist að sakamálinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum sóknaraðila. Að því frágengnu var þess krafist, yrði varnaraðili sakfelldur, að honum yrðu ákveðin vægustu viðurlög sem lög leyfðu. Loks gerði hann kröfu um að Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari ,,víki sæti með vísan til 26. gr., sbr. 6. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ... en ákærði gerir kröfu um að tekin verði vitnaskýrsla af saksóknara við frekari meðferð málsins“. Í greinargerðinni sagði að ljóst væri að fjölmörg vitni hafi verið á vettvangi er atvik málsins gerðust og hafi aðstoðarsaksóknari verið þeirra á meðal. Væri því gerð krafa um að tekin yrði af honum vitnaskýrsla.
Samkvæmt n. lið 192. gr. laga nr. 88/2008 sæta úrskurðir héraðsdómara um atriði varðandi skýrslugjöf vitna fyrir dómi kæru til Hæstaréttar.
Framangreindar kröfur varnaraðila um formhlið málsins voru meðal annars á því reistar að aðstoðarsaksóknarinn þyrfti að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Úr síðastgreindri kröfu leysti héraðsdómari með hinum kærða úrskurði. Kemur fram í forsendum úrskurðarins að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að aðstoðarsaksóknarinn gæti haft stöðu vitnis í málinu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um þetta atriði verður niðurstaða hans um það staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Niðurstaða hins kærða úrskurðar um að ekki verði tekin vitnaskýrsla af Karli Inga Vilbergssyni er staðfest.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2014.
Mál þetta var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. desember 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...]. Ákærði mætti við þingfestingu málsins þann 28. janúar sl. og neitaði sök. Skilaði ákærði greinargerð þann 24. febrúar sl. og krafðist þá þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara sýknu. Þá krafðist ákærði þess að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari, viki sæti í málinu með vísan til 26. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 88/2008, en ákærði hygðist leiða sækjanda sem vitni í væntanlegri aðalmeðferð málsins. Fór málflutningur um þessa kröfu ákærða fram þann 24. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.
Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök brot gegn lögreglulögum með því að hafa mánudaginn 21. október 2013, um kl. 13:29 í [...] í [...], neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set, en ákærði var staddur á vinnusvæði, þar sem unnið var að lagningu nýs [...]vegar, rétt norðvestan við [...].
Er brot ákærða talið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga nr. 90/1996 og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst þess að málinu verði vísað frá dómi vegna vanreifunar. Þá krefst ákærði þess að sækjandi málsins víki sæti vegna vanhæfis. Var málið flutt í einu lagi um kröfur ákærða og verður í fyrstu leyst úr því hvort vísa beri máli þessu frá dómi vegna vanreifunar. Verði sú krafa tekin til greina telur dómurinn ekki þörf á því að leysa úr seinni ágreiningnum. Verði fyrri krafan ekki tekin til greina verður leyst úr þeirri kröfu hvort sækjanda málsins beri að víkja sæti vegna vanhæfis.
Vanreifun.
Ákærði byggir frávísunarkröfu sína á því að atvikalýsing sé afar ófullkomin og allt of knöpp í ákæru. Auk þess sé ekki gerð grein fyrir röksemdum sem málsóknin byggist á. Hið eina sem sé nákvæmt í ákæru sé handtökutíminn. Þetta uppfylli ekki skilyrði 152. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Þá kom fram hjá verjanda ákærða að engin rannsókn hafi verið gerð um það hvernig hafi verið staðið að handtöku ákærða.
Í 152. gr. laga nr. 88/2008 eru ákvæði um hvað skuli koma fram í ákæru. Segir m.a. að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má, dómstól sem málið er höfðað fyrir, nafn ákærða, kennitölu og heimili. Hver sú háttsemi er, sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Röksemdir sem málsókn er byggð á ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið en röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Kröfur um refsingu og önnur viðurlög, svo sem sviptingu réttinda og upptöku eigna, svo og kröfu um greiðslu sakarkostnaðar.
Ákæra sú sem gefin var út í máli þessu og reifuð er að ofan, uppfyllir öll þau skilyrði sem talin eru upp í 152. gr. laganna og er ekkert fram komið um að eitthvað sé svo vanreifað vegna þeirrar háttsemi sem ákært er fyrir að það geti komið niður á vörn ákærða. Þá verður málið ekki talið vanreifað þótt ekki komi fram í ákæru hvernig hafi verið staðið að handtöku ákærða, enda ekki ákært fyrir að hafa streist á móti við handtöku. Upplýsingar um slíkt mun væntanlega skýrast við aðalmeðferð og geta þá eftir atvikum haft áhrif við úrlausn málsins. Verður því að hafna þessari málsástæðu ákærða.
Vanhæfi.
Ákærði byggir kröfu sína um að sækjandi málsins víki sæti á því að gerð sé sú krafa að sækjandi málsins gefi skýrslu sem vitni við aðalmeðferð málsins. Í 16. gr. laga um meðferð sakamála segir meðal annars að hverjum manni sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem sé beint til hans um málsatvik. Vitnaskyldan er því bundin því að vitni geti borið um málsatvik sem það hefur skynjað af eigin raun.
Ekkert í gögnum málsins bendir til að sækjandi í máli þessu hafi verið á vettvangi þegar meint háttsemi ákærða átti að eiga sér stað og ekkert í gögnum málsins gefur vísbendingu um að sækjandi málsins viti svo um málsatvik að vitnisburður hans fyrir dómi muni hafa einhverja þýðingu fyrir úrslit málsins. Þá hefur sækjandi málsins sjálfur lýst því yfir að hann hafi ekki verið á vettvangi þegar atvikin áttu sér stað sem ákært er fyrir. Hefur ákærði því ekki sýnt fram á að vitnisburður sækjanda hafi nokkra þýðingu við úrlausn máls þessa. Með vísan til 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 ber því að hafna þessari málsástæður ákærða.
Ákærði byggir kröfu sína um að sækjandi víki sæti einnig á því að sækjandi málsins sé vanhæfur til að höfða málið vegna afskipta hans á fyrri stigum þess. Vísar ákærði til 5. mgr. 26. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 88/2008 um hæfi ríkissaksóknara og lögreglustjóra til að fara með mál. Fyrir vikið hafi ákærði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í samræmi við ákvæði 70. gr. stjórnarskrár Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Byggir ákærði á því að sækjandi málsins hafi ekki eingöngu verið við störf í [...] þennan dag, heldur hafi hann haft afskipti af skýrslutöku af ákærða, tekið ákvörðun um að leysa ákærða úr haldi og í framhaldi gefið út ákæru á hendur honum. Þannig hafi sami maður tekið þátt í lögregluaðgerðum, rannsóknum og útgáfu ákærunnar. Þetta stangist á við g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, þar sem segi að saksóknari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Sækjandi málsins kvaðst sjálfur hafa komið að rannsókn málsins að því marki sem aðkoma saksóknarfulltrúa sé nauðsynleg vegna framvindu rannsóknar. Sækjandi hafi ekki tekið skýrslu af sakborningi og ekki stýrt skýrslutöku af honum. Sækjandi hafi hins vegar tekið ákvörðun um að sakborningur yrði leystur úr haldi, sem sé hluti af starfssviði hans. Þá hafi Jón H. B. Snorrason gefið ákæruna út og lögreglustjóri síðan falið sækjanda að flytja málið fyrir dómi sem væri í samræmi við lög um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 segir að lögreglan annist rannsóknir brota í samráði við ákærendur. Samkvæmt sækjanda málsins var málið rannsakað af lögreglu í samráði við hann, sem hluta af ákæruvaldinu. Í 58. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að lögregla taki skýrslu af sakborningi við rannsókn mála. Var svo gert í máli þessu. Í 24. gr. laganna segir að lögreglustjórar höfði önnur sakamál en þau sem ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfði. Þá segir enn fremur í 4. mgr. 24. gr. að lögreglustjóri sem stýrt hafi rannsókn brots höfði sakamál vegna þess nema ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfði mál eða annað leiði af reglum um varnarþing skv. VI. kafla. Brot það sem um ræðir í máli þessu er framið á varnarþingi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og heyrir því réttilega undir það embætti. Var rannsókninni því réttilega stýrt af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ákvörðun um saksókn einnig.
Í 3. mgr. 25. gr. laganna segir að í héraði annist lögreglustjórar flutning þeirra mála sem þeir höfði. Þeir geti falið aðstoðarlögreglustjóra, aðstoðarsaksóknurum eða saksóknarfulltrúum við embætti sín að flytja þau mál. Í máli þessu hefur Karli Inga Vilbergssyni saksóknarfulltrúa verið falið að flytja mál þetta fyrir héraðsdómi af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Er það í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 25. gr. og málsmeðferðarreglur laganna.
Telur dómurinn, að öllu framansögðu, þá málsmeðferð sem bundin er í lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála og rannsóknir brota samkvæmt lögum nr. 90/1996, ekki brjóta í bága við 70. gr. stjórnarskrár Íslands né 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er bundið af og sækjandi málsins hafi ekki þá aðkomu að málinu sem leiði til vanhæfis hans að flytja málið fyrir héraðsdómi. Verður þessari málsástæðu ákærða því hafnað.
Ákærði byggir einnig á því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sé vanhæfur til að rannsaka mál þetta þar sem það beinist að lögreglumönnum embættisins.
Háttsemi ákærða er heimfærð til 19. gr., sbr. 41. gr., laga nr. 90/1996. Í 19. gr. segir að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögregla gefi, svo sem vegna umferðarstjórnunar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Brot það sem ákært er fyrir beinist ekki að sérstökum lögreglumanni né er ákært fyrir að hafa brotið gegn persónu manns heldur fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Samkvæmt lögum nr. 90/1996 fara lögreglumenn í skjóli embættis síns með lögregluvald þegar þeir eru að störfum og ber almenningi að fara að fyrirmælum lögreglunnar sé þess krafist, sbr. 19. gr. laganna. Eru slík fyrirmæli ekki í nafni viðkomandi lögreglumanns persónulega heldur í nafni lögreglunnar sem valdstjórnartækis. Telur dómurinn lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu ekki vanhæfan til að fara með rannsókn mála vegna brota gegn lögreglulögum í hans umdæmi, taka ákvörðun um saksókn, gefa út ákæru og flytja málið fyrir dómstólum. Brýtur það fyrirkomulag sem bundið er í lögum nr. 88/2008 ekki gegn 70. gr. stjórnarskrár Íslands né 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Er þessari málsástæðu ákærða því hafnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfu ákærða um að máli þessu verði vísað frá dómi er hafnað.
Kröfu ákærða um að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari, víki sæti er hafnað.