Hæstiréttur íslands
Mál nr. 329/2005
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2006. |
|
Nr. 329/2005. |
Guðrún Valdís Eyvindsdóttir Sigurður Jónas Baldursson og Pólarhestar ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl. Jón Höskuldsson hdl.) gegn Grýtubakkahreppi (Ólafur Björnsson hrl.) og gagnsök |
Landamerki.
Deilt var um landamerki jarðanna Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2 annars vegar og Grenivíkur hins vegar á Leirdalsheiði. Ágreiningur aðila snerist um hvar reiðgötur hefðu legið frá tilteknum landamerkjapunkti neðan við Hávörður og norður Leirdalsheiði og jafnframt um hvar það vað á Illagilsá hefði verið, sem greindi í landamerkjabréfi Grýtubakka frá 3. desember 1889. Ekki var talið að annað yrði séð en að frá Hávörðum hefðu reiðgötur legið annars vegar niður að Fossvaði í Vesturá og hins vegar í svonefndan Tungusporð þar sem Vesturá og Austurá mætast. Fallist var á með héraðsdómi að Fossvað hefði verið svo þekkt þegar landamerkjabréf fyrir Grýtubakka var gert að það hefði verið nefnt með nafni svo ekki yrði um villst, hefði það verið vaðið, sem miða átti við í bréfinu. Var því talið að það vað á Illagilsá sem nefnt var í bréfinu gæti ekki verið Fossvað eins og G, S og P héldu fram. Með vísan til gagna málsins var fallist á með GR að með vaðinu væri átt við stað undir ökubrú yfir Austurá sem reist var árið 1965. Voru landamerki því ákveðin í samræmi við kröfugerð GR.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2005 og krefjast þess að dæmt verði að landamerki jarðanna Grenivíkur annars vegar og Grýtubakka I og II hins vegar séu úr punkti 7 (X 542234,8 Y 617109,5) í punkt 8 (X 541864,6 Y 618268,3), sem eru vörður við reiðgötur á Leirdalsheiði, og þaðan í punkt 9 (X 541634,2 Y 618839,8) sem er við Fossvað, allt samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Grýtubakka frá 3. desember 1889 og framlögðum, hnitasettum uppdrætti. Þau krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Hann krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjendurnir Guðrún Valdís Eyvindsdóttir og Sigurður Jónas Baldursson eru eigendur Grýtubakka I. Við málshöfðun var Grýtubakki II í eigu Kristjáns Stefánssonar. Undir rekstri málsins seldi hann Góa ehf. jörðina, sem seldi hana Pólarhestum ehf., sem tekið hefur við aðild málsins.
Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi koma tvær ár saman við svonefndan Tungusporð norðan við Hávörður á Leirdalsheiði og mynda síðan Fjarðaá, sem fellur til norðurs. Vesturá kemur úr suðvestri og Austurá úr suðaustri og afmarka þær Grenivíkurtungur. Vesturá hefur meðal annars einnig verið nefnd Trölladalsá, Heiðará, Gilsá og Vestri-Illagilsá en Austurá jafnframt Illagilsá. Eins og rakið er í héraðsdómi snýst ágreiningur aðila annars vegar um hvar reiðgötur hafi legið frá punkti 7 neðan við Hávörður og norður Leirdalsheiði, en sátt náðist í héraði um hnitapunkta á reiðgötum úr suðri að punkti 7, og hins vegar um hvar það vað á Illagilsá hafi verið, sem greinir í landamerkjabréfi Grýtubakka frá 3. desember 1889.
Af gögnum málsins og könnun á vettvangi verður ekki annað séð en að frá Hávörðum hafi reiðgötur legið annars vegar niður að Fossvaði í Vesturá og hins vegar í Tungusporð. Í héraðsdómi eru raktar glöggar heimildir um þrjú vöð á Vesturá sem öll eru nafnkennd, og um vað á Austurá í Illagili. Að virtum gögnum málsins og staðháttum verður að fallast á með héraðsdómi, að Fossvað hafi verið svo þekkt þegar landamerkjabréfið fyrir Grýtubakka var gert í desember 1889, að það hefði verið nefnt með nafni svo ekki yrði um villst, hefði það verið vaðið, sem miða átti við í bréfinu. Verður því talið að það vað á Illagilsá sem greint er í bréfinu geti ekki verið Fossvað. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjendur verða dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjendur, Guðrún Valdís Eyvindsdóttir, Sigurður Jónas Baldursson og Pólarhestar ehf., greiði sameiginlega gagnáfrýjanda, Grýtubakkahreppi, 500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. apríl 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl s.l., hafa Guðrún Valdís Eyvindsdóttir og Sigurður Jónas Baldursson, Grýtubakka 1, Grýtubakkahreppi og Kristján Stefánsson Grýtubakka 2, Grýtubakkahreppi, höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með stefnu þingfestri 27. júní 2002 á hendur Grýtubakkahreppi, Gamla skólanum Grenivík. Með gagnstefnu þingfestri 19. september 2002 höfðaði stefnda í aðalsök gagnsök á hendur aðalstefnendum.
Í aðalsök krefjast stefnendur þess að dæmt verði að landamerki jarðanna Grenivíkur annars vegar og Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2 hins vegar, séu samkvæmt uppdrætti sem fram er lagður á dskj. nr. 3 úr punkti merktum 1 við Stóraklettagil og Gljúfurárvað þaðan í punkt nr. 2, sem er varða við reiðgötu á Leirdalsheiði um punkta merkta 3,. 4,. 5, 6, (Hávörður) 7, 8 og 9 við Fossvað sem eru varðaðar reiðgötur á Leirdalsheiði allt samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Grýtubakka frá 3. desember 1889.
Aðalstefnda hefur undir rekstri málsins fallist á kröfu aðalstefnenda eins og hún er fram sett á dskj. nr. 3 frá punkti 1 til og með punkti 6, sem nefnist Hávörður og verður sú merkjalína færð hnit sett í uppdrátt með dómsorði máls þessa að öðru leyti krefst aðalstefnda sýknu af kröfum aðalstefnanda.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að frá punkti nr. 6 á dskj. nr. 3 (Hávörðum) verði dæmt að merki jarðanna liggi um núverandi þjóðveg á Leirdalsheiði í punkt nr. 7 á dskj. nr. 73 og þaðan í punkt. 8 og þaðan í punkt. 9 og þaðan í punkt. 10 og þaðan í punkt. 11 og þaðan í punkt 12 á „vað á Illagili“ þar sem nú er akbrú yfir ána.
Punktarnir eru hnitsettir á dskj. nr. 73.
Í gagnsök krefjast gagnstefndu sýknu.
Báðir aðilar krefjast málskostnaðar, bæði í aðalsök og gagnsök.
I.
Eins og kröfur aðila bera með sér snýst ágreiningur aðila um það hvar merki jarðanna Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2 annars vegar og Grenivíkur hins vegar liggi á Leirdalsheiði frá svonefndum Hávörðum og norður úr. Verður hér fjallað um aðalsök og gagnsök í einu lagi.
Dómurinn hefur ásamt aðilum og lögmönnum aðila gengið á hin umþrættu merki og skoðað svæðið og kynnt sér örnefni.
Hin umþrættu merki liggja um land sem nefnt er Grenivíkurtungur sem afmarkast af tveimur ám, kemur önnur úr suðaustri og nefnist m.a. Illagilsá eða Austurá, en hin kemur úr suðvestri og nefnist m.a. Gilsá eða Vesturá, koma ár þessar saman við svokallaðan Tungusporð sem er neðsti hluti framangreindra Grenivíkurtungna. Renna árnar síðan sem ein á norður í Hvalvatnsfjörð og nefnist hún þá Fjarðará eða Hvalvatnsfjarðará. Norðaustan Austurár er svonefnd Jórunnarstaðaafrétt en þar suður af austan Austurár er svonefnt Lambárstykki. Vestan Vesturár er Gilsland, kennt við bæinn Gil, sem stendur vestur af ármótunum.
Á Vesturá eða Gilsá eru nefnd þrjú vöð í gögnum málsins, hið neðsta er skammt sunnan ármótanna og nefnist Sauðabæli, nokkru sunnar er vað sem kallast Fossvað, þá nefnist syðsta og efsta vaðið Skeiðarvað. Á Austurá er aðeins nefnt eitt vað í gögnum málsins og er það ýmist nefnt „vað á Illagili“ eða Illagilsvað, en sunnar á heiðinni virðist hafa verið farið yfir ána t.d. í göngum og þá farið og þá farið norður Lambárstykki og yfir Lambárnar þrjár, sem renna í Austurá á leið norður að Jórunnarstaðaafrétt.
Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Grýtubakka frá 3. desember 1889, þinglesið 17. júní 1890 er landamerkjum milli Grýtubakka og Grenivíkur lýst svo á Leirdalsheiði: „Allt þar til lækur úr Stóraklettagili fellur í hann við Gljúfurárvað. Þá ráða þaðan móti Grenivík reiðgötur á Leirdalsheiði út að vaði á Illagilsá.“
Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Grenivík frá 14. maí 1890 er merkjum jarðanna lýst svo: „Að vestan ræður Grenjá í fjall upp út Grenjárdal út undir Þröskuld og þaðan bein stefna í vestari Gilsárupptök á Trölladal rétt utan við Þröskuld og vestari Gilsáin út í Tungusporð. Á móti Grýtubakka ráða reiðgötur á Leirdalsheiði inn að læk þeim er rennur í Gljúfurá úr Stóraklettagili.“
Eins og kröfugerð aðila er háttað snýst ágreiningur þeirra um í hvorri ánni „vað á Illagilsá“ er svo og við hvað sé átt með „reiðgötur“ á Leirdalsheiði í framangreindum merkjalýsingum.
II.
Aðalstefnendur telja að vað þetta sé það sem nú nefnist Fossvað á Vesturá eða Gilsá og rökstyðja stefnendur þá staðhæfingu sína með því að leið að vaði þessu sé greinilega vörðuð frá framangreindum Hávörðum og síðan sé leið vestan árinnar áfram vörðuð áleiðis norður í Hvalvatnsfjörð. Telja aðalstefnendur einsýnt að leið þessi hafi verið aðalleiðin norður í Fjörður áður en brýr voru settar á árnar. Benda þeir á að gögn séu til um að á þessi hafi einnig verið nefnd Vestari Illagilsá. Telja aðalstefnendur að vörður þær er varða leið þessa séu jafnframt merkjavörður. Benda þeir á að á þessari leið séu greinileg merki um reiðgötur sem þeir telja að við sé átt í merkjalýsingunum. Þá vísa aðalstefnendur til örnefnaskrár Jóns Bjarnasonar fyrir jörðina Grýtubakka, en þar segi: „Snertispöl norðan vaðsins mætast leiðir um Leirdalsheiði og þeirra er Hvammsheiði fara og er þaðan einn vegur út í Fjörður og fylgir nú frekar vesturhlíð þessa heiðardals um hánorður til Gils, sem er fremsta eyðibýli Hvalvatnsfjarðar. Var þessi leið vörðuð.“
Þá benda aðalstefnendur á að í landamerkjabréfinu fyrir Grýtubakka sé miðað við að reiðgötur ráði landamerkjum: „ út að vaði á Illagilsá.“ Í landamerkjabréfinu fyrir Grenivík sé hins vegar ekki tekið fram að landamerkin liggi að vaði og hvorki „Illagilsá“ né annað vatnsfall nefnt á nafn í landamerkjalýsingunni á þeim stað sem um er að ræða. Þá liggi fyrir að heimildum beri alls ekki saman um nöfn þeirra áa sem um ræði á deilusvæðinu og séu árnar nefndar fleiri en einu nafni. Dæmi um slík nöfn séu Illagilsá, Vestari-Illagilsá, Eystri-Illgilsá, Gilsá, Vestari-Gilsá, Vesturá, Austurá, Fjarðará og Heiðará. Ljóst sé því að heiti á þeim kennileitum, sem miðað sé við í landamerkjalýsingu Grýtubakka hafi að einhverju leyti skolast til í áranna rás, sbr. eftirfarandi úr örnefnaskrá Jóns Bjarnasonar fyrir Grýtubakka, frá í mars 1967, en þar sé Illagilsá sögð myndast fyrst af uppsprettum í Vatnsföllum,...”en fær megin vatnið úr fjórum ám (eða lækjum) er falla um Lambárstykki. Hún rennur til hánorðurs“. Þá sé ennfremur tekið fram í sömu örnefnaskrá að Illagilsá renni saman við Trölladalsá sem komi vestan af Trölladal og heiti árnar Fjarðará þegar þær hafi sameinast. Þá sé því lýst að mót ánna séu undan eyðibýlinu Gili og heiti þar Tungusporður og að austan á sporðinum, skammt sunnan ármóta, sé Illagilsvað. Ekki sé að finna neina lýsingu á vaði þessu að öðru leyti en því að það hafi verið brúað árið 1965. Í sömu örnefnaskrá sé einnig lýst öðru vaði og svæðinu umhverfis það þannig: „Lambárstykkin eru fremur gróðurlítil og sundurskorin af giljum fjögurra lækja, sem áður er sagt. Heita þær Innsta-Lambá, sem fellur fram norðan Digrahnjúks, þá er Syðri-Mið-Lambá, þá Ytri-Mið-Lambá og nyrst Yzta-Lambá. Allar eiga þær upptök í samnefndum skálum í fjalli. Yzta áin er umræðu verð. Hún kemur undan jökli, enda jafnan skollit og vatnsmest þeirra systra og veður illreið í stórregni og leysingum. Vað er aðeins eitt og aðeins um tvær hestlengdir að breidd, hallandi stokkur með klapparbotni. Örfáum metrum neðar er foss, sem fellur í eitt ferlegasta klettagljúfur sem ritari hefur séð. Skömmu vestar sameinast hún Illagilsá eins og hinar Lambárnar hafa gert sunnar. Yfir Yzta-Lambárgil verða gangnamenn að fara með fé og hesta og hefur sumum orðið svimagjarnt í norðurbakka þess sem er hár og brattur.“
Þá vitna aðalstefnendur í Sýslu- og sóknarlýsingu Hins íslenska bókmenntafélags (Þönglabakka- og Flateyjarsókn), en þar komi eftirfarandi upplýsingar fram um ár og vötn á deilusvæðinu: „Illagilsá á Leirdalsheiði. Nafnið gefur til kynna hvörjir ókostir vatnsfalli þessu munu fylgja. Gil eða þó heldur á þessi springur fram undan jökulbrekku í þeim upprunalega bogadregna fjallgarði. Víða eru vöð og fleiri af þeim góð niðri í byggðinni en ekki utan eitt hættulegt og mannskætt á fjalli uppi, yfir hvört allir því hljóta að fara sem ferðast milli Fjarða og Höfðahverfis. yfir svokallaða Leirdalsheiði. Brött sniðgata (einstígur) liggur beggja vegna ofan hamarinn að vaði árinnar Illagils , þvert yfir frá upptökum ófæru þessarar og svo að segja rétt á móts við í vesturátt, sprettur upp annað vatnsfall, þessu mjög áþekkt að stríðleika, í afdal nokkrum sem Trölladalur heitir. Á þessi, sem Vestari -Illagilsá nefnist rennur næstum því um gljúfróttan, brattan og vegna smáfossa og flúða hryllilegan farveg sem hin fyrri Tvö vöð eru á þessari síðari skammt fyrir framan og sunnan Gilsbæ, vestanmegin Tungusporðsins. Ytra vaðið heitir Sauðabæli. Það er gott aðgöngu að vestan, lygnt og gott undir í botninn. Fossvað er lítið sunnar. Það er mjög áþekkt Eystra-Illagilsvaði en vatnsmeira. Þar á móti ekki eins bratthamrað beggja vegna. Skeiðarvað, það er framarlega í áminnstum Trölladal og er þrautavað kallað í vatnavöxtum, en mjög úr vegi “
Þá vísa aðalstefnendur í bókina Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson, en þar sé að finna svohljóðandi lýsingu á kennileitum á deilusvæðinu: „Niður af Hálfundarvörðu eru Ytri- og Innri Vatnsföll allt út að Hávörðum, en það eru melar og gróðurlitlir moldarflákar, og tekur að halla frá þeim út af heiðinni niður Grenivíkurtungur, en þær liggja á milli Austurár, er kemur innan heiðina, og Vesturár, sem kemur úr Trölladal Á Austurá er vað eitt, sem nefnt er „Illagil“, skammt ofan við Tungusporðinn - út í Jórunnarstaðaafréttina. Á Vesturá eru vöð þessi: „Sauðabæli“ og þar hjá er nú trébrú á ánni, fyrst reist árið 1894. Nokkru framar er Fossvað, og Skeiðarvað fremst, niður af samnefndum skálum upp í Gilsafrétt, gegnt Sveigfjallshaus að austan. Var þetta þrautavað ferðamanna á vorin og framan af sumri, meðan vatnavextir héldust, en lá úrleiðis.“ Þá benda aðalstefnendur á skrif Björns Hróarssonar, jarðfræðings, en þar segi orðrétt: „Landamerkjaskráin sem vitnað er til í upphafi þessa plaggs er gerð árið 1890 eða nokkrum árum áður en brúin var reist yfir Vesturá (Gilsá). Þá réðu vörðurnar og reiðgöturnar með þeim leiðinni yfir Leirdalsheiði. Til að finna hvar reiðgöturnar sem vitnað er til í merkjaskránni („reiðgötur á Leirdalsheiði út að vaði“) lágu virðist einfalt að rekja vörðuðu leiðina norður Leirdalsheiði og yfir í Fjörður þar sem vörðurnar vísa mönnum yfir Vesturá er einnig eitt besta vaðið á ánni og því eðlilegt að vörðurnar vísi ferðalöngum þangað - jafnt kunnugum sem ókunnugum. Varðaða leiðin er einnig sú sem liggur beinast við fyrir ferðalanga fyrir tíma ofan af Leirdalsheiði og að ysta bæ í Fjörðum, Gili, nú eða þá frá Gili og suður Leirdalsheiði.“
Af framangreindu telja aðalstefnendur ekki fara á milli mála hvar vað það er á „Illagilsá“ sem vitnað sé til í landamerkjalýsingunni fyrir jörðina Grýtubakka. Telja þeir var vart koma til greina annað vað en Fossvað, enda fylgi vörðurnar reiðgötum út að Fossvaði sem sé það vað sem auðveldast sé yfirferðar af þeim vöðum sem þó gætu komið til greina sérstaklega í ljósi umferðar með klyfjahesta um Leirdalsheiði og út í Fjörður. - Sé krafa aðalstefnenda miðuð við þá vörðuðu leið sem fylgi reiðgötum á Leirdalsheiði frá Gljúfurárvaði og norður yfir Hávörður að Fossvaði. Auk þess benda aðalstefnendur á og telja óumdeilanlegt að hin umþrættu landamerki tengist vaði á Illagilsá (Vesturá, Vestari-Gilsá) og Tungusporði, sbr. t.d. lýsingu á landamerkjum fyrir jörðina Gil en þar segir að Þverá sú, sem renni úr Þórðardal og aðskilji Finnastaðatungu og Gilsland en renni síðan í svonefnda Heiðará sem að vestan- og neðanverðu skilji Gilsland og Grenivíkurtungur. Þá benda aðalstefnendur á að við Fossvað mætist tvö vatnsföll úr Einbúaskál og Gilsá og frá þessu vaði séu gamlar en mjög skýrar og greinilegar götur eins og áður sé fram komið og mynda þær Tungu eða sporð í landinu, en einnig verði til tunga þar sem lækjarfarvegur eða gildrag ofan úr Hávörðum og lækur úr Einbúaskál komi saman.
Aðalstefnendur telja heimildir um kennileiti á svæðinu eindregið benda til þess að vað það sem lýst sé í Sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sé alls ekki á Vesturánni (Vestari-Gilsánni), heldur á Austuránni eða Eystri-Gilsá, eða jafnvel á Yztu-Lambánni, sbr. orðin „kemur þessi voðalega spræna ofan úr fjallinu til vinstri hliðar þverhnípt standbjörg halda beggja vegna (að) ánni “ Í örnefnaskrá Jóns Bjarnasonar sé tekið fram að yfir Yzta-Lambárgil verði gangnamenn að fara með fé og hesta og hafi sumum orðið svimagjarnt í norðurbakka þess. Benda aðalstefnendur á að þessum tveimur lýsingum beri mjög vel saman en fráleitt sé að ætla að vaðið sem Páll Halldórsson lýsi svo kröftuglega í áðurnefndri sýslu- og sóknarlýsingu, hafi verið það vað sem miðað sé við í landamerkjalýsingunum fyrir Grýtubakka því hafni aðalstefnendur því alfarið sem röngu sem og hugmyndum fyrirsvarsmanna aðalstefnda um að vað á Illagilsá sé þar sem akbrúin sé nú staðsett.
Gögn þau sem aðalstefnendur vísa til að framan liggja frammi í málinu.
III.
Aðalstefnda rökstyður bæði sýknukröfu sína í aðalsök og stefnukröfu sína í gagnsök með því að vað yfir Illagil samkvæmt merkjalýsingum sé þar sem akbrú er nú á eystri ánni, sem sett hafi verið á ána árið 1965.
Mótmælir aðalstefnda staðhæfingu aðalstefnenda um að átt sé við Fossvað á vestari ánni í landamerkjalýsingunum.
Til stuðnings kröfu sinni vísar gagnstefnandi til lýsingar í Sýslu- og sóknarlýsingum í Þingeyjarsýslum 1839-1844 eftir Pál Halldórsson, þar sem vaði á Illagili sé lýst mjög nákvæmlega svo ekki verði um villst hvar það sé. Vaðinu sé svo lýst í bókinni: „Brött sniðgata (einstigur) liggur beggja vegna ofan hamarinn að vaði árinnar Illagils, þeir sem koma héðan úr Fjörðum til Höfðahverfis koma fast undir fjallið - vegurinn liggur frá norðri til hásuðurs - kemur þessi voðalega spræna ofan úr fjallinu til vinstri hliðar. Þverhníft standbjörg halda beggja vegna (að) ánni, þegar komið er niður fyrir hamarinn er hesturinn þegar stiginn með framfæturna út í ána, ekki er áin breiðari en 2 til 3 hestlengdir. Klettar beggja vegna við hestinn. Standi þessir steinar ekki upp úr vatninu er áin ekki fær sökum vaxtar. Foss eða flúð, hér um átta - tíu fóta, eða tæpar þrjár álnir fyrir neðan hestinn til hægri séð. Slái hestinum meira í vaðinu heldur en skipi á brimboða lendir hann tvílaust annað hvort á klettinum eða fer utan við hann og þá tekur fossinn við. Ekki er hesturinn kominn upp úr með afturfætur þegar þann tekur heima í hamarnum. Liggur þá hins vegar upp einstigur.“
Telur stefnda ofangreinda lýsingu mjög greinargóða á örnefninu „vað á Illagilsá“ sem nefnt sé í Grýtubakkabréfinu. Ljóst sé að það sé bara ein Illagilsá og á henni sé aðeins eitt vað.
Þá vísar gagnstefnandi í bókina Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson sem hann telur styðja niðurstöðu sína en þar sé að finna frásögn Guðlaugs Jóakimssonar um hvar vað á Illagili sé, sem og lýsingu á örnefnum á þessu svæði. Segir Guðlaugur segir svæðið milli Austurár er komi innan heiðina og Vesturár er komi úr Tröllagili heita Greinvíkurtungur. Hann segi að á Austurá sé eitt vað er heiti Illagil, en á Vestariá séu þrjú kunn vöð, Sauðabæli, nokkru framar Fossvað og Skeiðarvað fremst. - Þá vísar gagnstefnandi til örnefnalýsingar frá 1967 um jörðina Grýtubakka, ritaðri af Jóni Bjarnasyni í Garðsvík, en þar komi vel fram hvar vað sé á Illagili en þar segi: „Mót ánna eru undan eyðibýlinu Gili, sem áður er nefnt, og heitir þar Tungusporður (134). Austan á sporðinum, skammt sunnan þess þar sem árnar mætast, er Illagilsvað (135). Þar var sett á brú 1965. Þar um var alfaraleið áður en Tröllagilsá var brúuð vestur úr Tungusporði, um síðustu aldamót eða litlu síðar.“
Varðandi ágreining og um hvar „reiðgötur” séu á Leirdalsheiði vísar gagnstefnandi til þess að eldri heimildir svo sem bréf hreppsnefndar frá 1898 bendi til þess að reiðleiðin yfir háheiðina hafi verið vörðuð frá gamalli tíð. Megi í þessu einnig vísa til lýsingar í Sýslu- og sóknarlýsingum. Þá heldur gagnstefnandi því fram að vegurinn hafi verið lagður á reiðleiðina 1942 samkvæmt gögnum hreppsnefndar þar um sbr. fundargerð hreppsnefndar frá 25. maí 1942. Telur gagnstefnandi ennþá móta fyrir reiðgötum utan vegarins, enda hafi hann ekki algjörlega fylgt reiðgötunum. Þá telur gagnstefnandi að gögn málsins og frásagnir elstu manna bendi til þess að núverandi vegur sem ruddur hafi verið með jarðýtu fyrir 60 árum hafi verið lagður á aðalreiðgötuna. Megi í þessu sambandi einnig vísa til þess sem fram komi í árbók Ferðafélags Íslands frá 1938 en þar segi: „Leiðin liggur niður í tungu, er skapast milli tveggja áa, er báðar falla í gljúfrum. Að austan er Illagill, kemur það sunnan af Leirdalsheiði, en úr vestri kemur Gilsá út Trölladal.“ - Telur gagnstefnandi að þetta sé greinilega lýsing á aðalleiðinni út í Fjörður, sbr. einnig greinilega reiðgötu þegar komið er norður yfir brúna á Illagilsvaði. Þá bendir gagnstefnandi á að í árbók Ferðafélags Íslands 1992 sé örnefnum lýst með svipuðum hætti. - Þá sé einnig ljóst af landamerkjabréfunum að leiðin liggi niður í Tungusporð sbr. lýsingu í Grenivíkurbréfum þess efnis að Gilsá ráði út Tungusporð að vestan. Gagnstefnandi kveður fleiri reiðgötur greinilega hafa verið á Leirdalsheiði. T.d. sé ljóst að reiðgata hafi verið eftir flatanum frá Gljúfurárvaði og svo fram með Austurá. Þar móti fyrir götum en ekki sé til að dreifa óyggjandi gögnum um að aðalreiðleiðin hafi verið þar. - Telur gagnstefnandi að þegar framangreind gögn séu virt í heild sé ljóst að krafa aðalstefnenda um að miða landamerki jarðanna við Fossvað standist engan veginn því að það vað sé óumdeilanlega á Gilsá (Vesturá) en ekki á Illagilsá (Austurá, Illagili) svo sem landamerkjabréfið greini að miða eigi við. Ef miða eigi við Fossvað hefði það verið nefnt í bréfinu, enda örnefnið þekkt á þeim tíma sem bréfið var gert. Geri sú staðreynd að vaðið sé á Illagili, þó reynt sé að rugla með örnefni á þessu svæði í aðalstefnu, kröfu aðalstefnenda að engu. Þá sé einnig ljóst að landamerki Grenivíkur nái út Tungusporð, sem ætíð sé nefndur í eintölu og samkvæmt öllum heimildum er fyrir liggi talinn vera þar sem Gilsá (Vesturá) og Illagilsá (Austurá) mætast.
Aðalstefnandi telur að við mat á framantöldum gögnum verði einnig að horfa til eldri heimilda um svæðið. Sé þar fyrst að nefna Lögfestu Grenivíkur frá 1735 þar sem Grenivíkurtungur séu allar í eigu Grenivíkur og í Jarðabók Árna Magnússonar komi fram í jarðalýsingu fyrir Grenivík að jörðin eigi afréttarland á Leirdalsheiði, sem kallist Grenivíkurtungur og sé kallað 10 hundraða land að forngildu. - Til samanburðar megi geta þess að öll jörðin Grýtubakki sé á þessum tíma metin 20 hundraða jörð. Ýmsar eldri heimildir svo sem jarðamöt og fasteignamöt nefni að jörðin Grenivík eigi land á Leirdalsheiði, en aldrei sé talað um í sambærilegum heimildum fyrir Grýtubakka að sú jörð eigi land á Leirdalsheiði. Til stuðnings framangreindu megi einnig benda á að Grýtubakkamenn hafi ekki séð um fjallskil á Grenivíkurtungum, heldur séu það norðursveitungar.
Gögn þau sem gagnstefnandi vitnar til liggja frammi í málinu.
IV.
Aðalstefnandi, Sigurður Jónas Baldursson, skýrir svo frá hér í dómi að Austurá hafi ævinlega verið kölluð Illagil eða Illagilsá. Kveðst hann hafa notað orðið Illagil í gegnum árin. Þá kveður hann Vesturá hafa verið kallaða Gilsá frá því hann byrjaði að fara þarna með gangnafélögum sínum. Hann kveðst vera fæddur á Grýtubakka 1955 og alinn þar upp.
Aðalstefnandi, Kristján Stefánsson, kveðst vera fæddur í Hvammi í Grýtubakkahreppi 1929 og fluttist að Grýtubakka um vorið 1963. Kveður hann Austurá alltaf hin síðari ár verið nefnda Illagilsá en Vesturá Gilsá. Hann kveðst hafa farið í fyrsta skipti í göngur í Jórunnarstaði þegar hann bjó í Hvammi með Árna Arasyni, sem hafi þá sagt sér að þetta væri Illagilsvað þarna neðra. Hafi þeir riðið yfir það og upp með ánni að norðan og þar upp úr gilinu neðan norðurenda brúarinnar.
Guðný Sverrisdóttir fyrirsvarsmaður aðalstefnda, fædd 1952, kveðst fyrst hafa farið á þetta svæði þegar hún var 25 ára gömul. En þegar hún hafi verið í 6. bekk menntaskóla hafi hún skrifað ritgerð um það. Kveðst hún alltaf hafa heyrt Austurá kallaða Illagilsá. Hún kveðst einnig muna eftir að áin hafi verið kölluð Austurá. Hún kveður Vesturá hafa yfirleitt verið kallaða Gilsá að því er hana minni.
Jóhann Ingólfsson hreppsnefndarmaður aðalstefnda fæddur 1954 kveðst fyrst hafa farið um Grenivíkurtungur um 14 ára aldurinn í rekstur með körlunum. Kveður hann akbrúna hafa verið komna á ána. Hann kveður nöfn ánna sem mynda tungusporðinn vera Illagilsá sem stundum sé innan sviga Austurá og síðan sé Gilsáin að vestan sem hafi skipt nöfnum eftir því hvar menn voru staddir við hana en Gilsá sé tvímælalaust við ármótin.
Stefán Kristjánsson ferðaþjónustubóndi á Grýtubakka II, kveðst þekkja svæðið vel. Hann hafi verið þar með ferðafólk í hestaferðum síðan 1985. Þá hafi hann farið í göngur þarna síðan hann var 14 ára gamall. Kveðst hann telja að leiðin norður Leirdalsheiði hafi legið um varðaða leið að Fossvaði frá Hávörðum. Þegar hann fari þarna út fyrir með ferðafólk líti hann yfirleitt á árnar þegar hann komi út í Tunguna til að gá hvort betra sé að fara austan eða vestan megin og ef hann telji ána það mikla á gamla vaðinu á Tindum fari hann út Gilsárréttinn. Hann kveður ána, sem akbrúin sé yfir í dag kallaða Austurá, en hún sé einnig nefnd Illagilsá. Hina ána kveður hann nefnda Vesturá, Illagilsá og Trölladalsá en nöfn á þessum ám séu mjög á reiki.
Vitnið Bjarni Arason 83 ára kveðst hafa verið staðkunnugur á Leirdalsheiði frá 12 ára aldri til tvítugs og þekki leiðina yfir heiðina eins og hún var þá farin. Kveður vitnið að venjulega hafi verið riðið um Hávörður og niður Tunguna að Gilsbrú og þar yfir Vesturá. Þegar farið hafi verið í göngur á Jórunnarstaðaafrétt hafi verið farið austur yfir Austurá. Vitnið kveður reiðgötur hafa legið að framangreindri brú á Gilsá. Vitnið kveðst einu sinni hafa farið niður í gilið á Austurá skammt austan skála, sem nú er og yfir ána á vaði, um 1940.
V.
Af því sem að framan er rakið er ljóst að bæði Austurá og Vesturá hafa verið nefndar ýmsum nöfnum. Ljóst er að Austurá hefur borið nafnið Illagilsá eða Illagil svo lengi sem vitað er samkvæmt framlögðum gögnum bæði fornum og nýjum. Þá bera aðilar og vitni sem gefið hafa skýrslur svo. - Gögn málsins svo og framburður aðila og vitna bera með sér að auk nafnsins Vesturá hefur sú á oftast verið nefnd Gilsá en einnig öðrum nöfnum svo sem Trölladalsá og Heiðará.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags (Þönglabakka-Flateyjarsókn) er Vesturá nefnd Vestri Illagilsá, en það nafn er ekki að finna á ánni í öðrum gögnum málsins. Í gögnum málsins eru þrjú vöð nefnd á Vesturá (Gilsá) nefnist það neðsta Sauðabæli, það næsta Fossvað og hið þriðja og efsta Skeiðarvað.
Árið 1894 var byggð brú á Vesturá rétt við vaðið Sauðabæli. Í fundargerðum sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps frá þessum tíma er brú þessi nefnd brú á Gilsá, Gilsárbrú eða bara Gilsbrú. Sama er að segja um fundargerðir sem færðar voru þegar ný göngubrú var byggð.
Landamerkjalýsing sú sem rakin er að framan er gerð mjög skömmu áður en fyrsta brúin var reist. Þykir ljóst bæði af þessu svo og því sem að framan er rakið að Vesturá hafi verið nefnd Gilsá á þessum tíma, þ.e. þeim tíma sem merkjalýsingin er gerð. Þá bera gögn málsins með sér að nafnið Fossvað sé gamalt nafn og hafi a.m.k. verið til þegar umræddar merkjalýsingar voru samdar. Má því telja víst að það vað hefði verið nefnt með nafni ef við það væri átt í merkjalýsingunni. Í merkjalýsingu fyrir Grenivík er vestari áin nefnd „vestari Gilsá“. Að þeirri lýsingu stóðu m.a. sömu menn og að merkjalýsingu Grýtubakka og aðeins liðu nokkrir mánuðir á milli. Ekkert er að finna í gögnum málsins um að vörður þær er um getur hafi haft með landamerki jarðanna að gera, en ljóst er að leiðir um Hávörður og yfir Fossvað hafi verið alfaraleið fyrrum.
Dómurinn telur því fullvíst að „vað yfir Illagil“ sem um getur í merkjalýsingunni geti ekki verið Fossvað svo sem aðalstefnendur halda fram. Verður krafa aðalstefnenda í aðalsök því ekki tekin til greina og aðalstefnda sýknuð af henni.
Með vísan til þess sem að framan er rakið um nöfn á ánum telur dómurinn að átt sé við Austurá í landamerkjalýsingum jarðanna.
Dómurinn hefur grandskoðað svæðið við Austurá frá ökubrúnni sem reist var 1965 og niður að ármótum, þ.e. á Tungusporðinum. Telur dómurinn að lýsing Páls Halldórssonar, sem að framan er rakin, geti átt við stað þann er undir brúnni liggur, þó eru þar ekki steinar þeir er getið er um í lýsingunni. Dómurinn telur að fært kunni að hafa verið yfir ána á þessum stað ef lítið var í henni. Nú sjást hins vegar engin merki þess á árbökkunum að um þá hafi verið farið, enda hefur þeim verið spillt við gerð brúarinnar. Telja má líklegt að bakkinn að norðanverðu hafi verið tiltölulega greiðfær, en hins vegar hafi bakkinn að sunnanverðu verið erfiður umferðar.
Í málinu liggur frammi bréf Árna Arasonar dagsett 12. október 1997 þar sem hann lýsir því hvernig hann fór yfir á Illagilsvaði úr Tungusporði yfir í Jórunnarstaðaafrétt. Af lýsingu hans má ráða að hann hafi farið yfir ána eilítið neðar en brúin er sem nú er á ánni.
Stefnandi, Kristján Stefánsson, skýrir svo frá hér fyrir dóminum að hann hafi farið með framangreindum Árna Arasyni yfir ána áður en ökubrúin var sett á Illagilsá. Lýsir hann leiðinni á sama veg og Árni, þ.e. að farið var yfir ána skammt neðan við brúna.
Vitnið Bjarni Arason lýsir leiðinni yfir ána á sama veg og að framan er rakið. þá er framangreind leið yfir ána studd ummælum Jóns í Kolgerði sem fram koma á dskj. nr. 24, þar sem hann segist hafa riðið niður í gilið að sunnan neðar en brúin standi nú, riðið upp með bakkanum að sunnan og yfir ána á vaði og komið upp að norðan skammt frá brúarsporðinum.
Telur dómurinn því einsýnt að þarna sé vaðið sem við er átt í merkjalýsingunni með orðunum „vað á Illagilsá“.
Eins og kröfum aðila er háttað þykir nægjanlega nákvæmt að staðsetja vaðið svo sem gert er í kröfu stefnda, þ.e. að miða við brúna sem nú liggur yfir ána, en punkturinn er merktur nr. 12 á dskj. nr. 73 (hnit 541909,1-620122,3).
Í landamerkjalýsingu beggja jarðanna eru reiðgötur á Leirdalsheiði sagðar ráða merkjum þeirra. Við vettvangskönnun nú verður eigi séð við hvaða götur er átt, en merki um reiðgötur sjást víða á leiðinni norður Tunguna, þ.á.m. beggja vegna vegar þess er nú liggur þar. Staðhæfingu gagnstefnanda um að vegurinn liggi í meginatriðum á reiðleið hefur ekki sérstaklega verið mótmælt. Þykir því mega miða merkin við legu vegarins í samræmi kröfur gagnstefnanda í gagnsök, sem merktar eru inn á uppdrátt á dskj. nr. 73.
Er línan færð inn á uppdrátt er fylgir dómsorði hnitsett.
Samkvæmt þessum úrslitum ber að dæma aðalstefnendur til að greiða gagnstefnda kr. 350.000 í málskostnað.
Dóm þennan kveða upp Freyr Ófeigsson dómstjóri og meðdómsmennirnir Eiríkur Jónsson byggingaverkfræðingur og Bernharð Haraldsson landfræðingur.
D Ó M S O R Ð :
Landamerki jarðanna, Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2, í Grýtubakkahreppi, annars vegar og jarðarinnar Grenivíkur í sama hreppi, hins vegar á Leirdalsheiði skulu vera til norðurs frá Gljúfurárvaði, punkti 1 á uppdrætti (hnit 542519,6-611307,9) í punkt nr. 2 (hnit 542490,1-611964,2) þaðan í punkt nr. 3 (hnit 542758,1-613135,5) þaðan í punkt nr. 4 (hnit 542739,7-614514,9) þaðan í punkt nr. 5 (hnit 542659,0-615498,9) þaðan í punkt nr. 6 Hávörður (hnit 542408,7-616572,8) þaðan í punkt nr. 7 (hnit 542234,8-617109,5) þaðan í punkt nr. 8 (hnit 542084,4-618538,6) þaðan í punkt nr. 9 (hnit 542046,2-619217,5) þaðan í punkt nr. 10 (hnit 541960,6-619714,7) þaðan í punkt nr. 11 (hnit 541876,5-619904,4) þaðan í punkt nr. 12 (hnit 541909,1-620122,3) allt í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt.
Aðalstefnendur, Guðrún Valdís Eyvindsdóttir, Sigurður Jónas Baldursson og Kristján Stefánsson, greiði gagnstefnanda, Grýtubakkahreppi, kr. 350.000 í málskostnað.