Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Gjaldþrotaskipti


Þriðjudaginn 26

 

Þriðjudaginn 26. október 2004.

Nr. 415/2004.

Kaupþing Búnaðarbanki hf.

(Karl Óttar Pétursson hdl.)

gegn

Ásgeiri Jóni Ásgeirssyni

(enginn)

 

Kærumál. Aðför. Gjaldþrotaskipti.

KB hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem beiðni þess um gjaldþrotaskipti á búi Á hafði verið vísað frá. Í málinu var deilt um hvort lögmaður sem mætti við fjárnámsgerð fyrir hönd Á og lýsti yfir eignaleysi fyrir hans hönd gæti talist málsvari gerðarþola eða gæti tekið málstað hans í skilningi 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Með vísan til þess að heimildir til að ljúka gerð án árangurs gætu vart orðið þrengri í viðurvist lögmanns gerðarþola en án hennar sem og samanburðar við 2. mgr. 24. gr. laganna var 62. gr. skýrð svo að ljúka mætti aðför án árangurs, þegar lögmaður, sem kveðst fara með umboð fyrir gerðarþola, er mættur og lýsir yfir eignaleysi hans. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu KB hf. til efnislegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. október 2004, þar sem kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdómara að taka kröfu hans um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er svo mælt, að fjárnámi skuli ekki lokið án árangurs, nema gerðarþoli hafi sjálfur verið staddur við gerðina eða málsvari hans, eða hann hvorki finnist né neinn, sem málstað hans geti tekið. Ráðast úrslit þessa máls af því, hvort lögmaðurinn sem mætti við gerðina 3. júní 2004 fyrir hönd gerðarþola og lýsti yfir eignaleysi fyrir hans hönd geti talist málsvari gerðarþola eða geti tekið málstað hans í skilningi ákvæðisins

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 tálmar það ekki aðför, þótt gerðaþoli sé ekki staddur við gerðina eða einhver sem málstað hans getur tekið, hafi gerðarþoli eða maður, sem löghæfur er til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd, sannanlega fengið tilkynningu að hætti 21. gr. um aðförina. Lögmaður getur tekið við stefnubirtingu fyrir hönd umbjóðanda síns samkvæmt b. lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telst lögmaðurinn án nokkurs vafa falla undir hugtakið umboðsmaður í upphafi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 og getur því aðför farið fram í fjarveru gerðarþola en viðurvist lögmanns hans í því tilviki að árangur verði af gerðinni. Kemur ekki til þess, að maki eða aðrir heimilismenn gerðarþola verði kvaddir til að taka málstað gerðarþola samkvæmt 2. mgr. 24. gr. ef lögmaður hans er viðstaddur.

Með hliðsjón af þessu síðast greinda ákvæði laganna verður að telja að fulltrúar gerðarþola við aðfarargerð, sem lýkur án árangurs, geti samkvæmt 62. gr. þeirra verið hvort heldur er lögmaður, sem kveðst mæta fyrir gerðarþola, eða þeir sem kveðja má til að taka málstað hans samkvæmt 2. mgr. 24. gr. Er þá meðal annars haft í huga, að heimildir til þess háttar málalykta geta vart orðið þrengri í viðurvist lögmanns gerðarþola en án hennar, þegar jafnvel er unnt að ljúka gerðinni, þegar enginn finnst sem getur tekið málstað gerðarþola. Með vísan til þessara sjónarmiða og samanburðar við 2. mgr. 24. gr. verður 62. gr. laganna skýrð svo að ljúka megi aðför án árangurs, þegar lögmaður, sem kveðst fara með umboð fyrir gerðarþola, er mættur og lýsir yfir eignaleysi hans svo sem hér var raunin. Vísast jafnframt um þessa skýringu ákvæðisins til dóma Hæstaréttar í dómasafni 1993 bls. 1508 og til samanburðar í dómasafni 2000 bls. 1437.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóminn að taka kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila til efnislegrar meðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir Héraðsdóm Vesturlands að taka kröfu sóknaraðila, Kaupþings Búnaðarbanka hf., um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila, Ásgeirs Jóns Ásgeirssonar til efnislegrar meðferðar.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. október 2004.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 24. september 2004. Skiptabeiðandi er Kaupþing Búnaðarbanki hf. en skuldari er Ásgeir Jón Ásgeirsson, kt. 071060-3499, Skólastíg 8 í Stykkishólmi.

Með bréfi 5. júlí 2004, sem barst réttinum 8. sama mánaðar, gerði skiptabeiðandi þá kröfu að bú skuldara yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan er reist á skuldabréfi að fjárhæð 3.750.000 krónur útgefnu til skiptabeiðanda 8. maí 2003 af ÁJÁ, einkafirma skuldara. Bréfið er áritað um sjálfskuldarábyrgð skuldara. Samkvæmt skiptabeiðni nema eftirstöðvar kröfunnar 4.578.770 krónum með vöxtum og kostnaði.

Til stuðnings kröfunni vísar skiptabeiðandi til 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, og byggir á árangurslausu fjárnámi sem fram fór hjá skuldara 3. júní 2004. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík var eftirfarandi fært til bókar við fjárnámið:

 

Fyrir gerðarbeiðanda mætir Börkur Hrafnsson hdl. Fyrir hönd gerðarþola mætir Ingólfur Hjartarson hrl. Lögmaður gerðarþola gerir ekki athugasemdir við kröfu gerðarbeiðanda. Hann verður ekki við áskorun um að greiða kröfuna og kveður gerðarþola ekki hafa fjármuni til að greiða hana. Hann kveður gerðarþola ekki eiga neinar eignir til að tryggja kröfuna, sem hægt er að gerða fjárnám í. Hann kveðst vilja lýsa yfir eignaleysi fyrir hönd gerðarþola og ljúka gerðinni án árangurs. Hann kveðst hafa umboð til þess samkvæmt lögmannsumboði sínu. Gerðarbeiðandi gerir ekki athugasemdir við það, og óskar eftir að fjárnámi verði lokið án árangur og er svo gert með vísan til 8. kafla laga um aðför nr. 90/1989.  

Skuldara var tilkynnt um að krafa skiptabeiðanda yrði tekin fyrir 8. september 2004. Á þeirri tilkynningu var þó sá annmarki að þingstaður var tilgreindur í Borgarnesi en ekki í Stykkishólmi þar sem taka átti málið fyrir. Í stað þess að boða aftur til þinghalds tók dómari málið fyrir og vísaði kröfu skiptabeiðanda á bug samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991 þar sem aðfarargerðin hjá skuldara væri ekki viðhlítandi til að úrskurður um gjaldþrotaskipti yrði reistur á henni. Með ódagsettu bréfi skiptabeiðanda, sem barst réttinum 15. september 2004, var þess krafist að málið yrði tekið fyrir á ný og úrskurður gengi um hvort kröfu um skipti yrði hafnað. Í samræmi við kröfu skiptabeiðanda var málið tekið fyrir 24. sama mánaðar og lagt í úrskurð án þess að aðrir en skiptabeiðandi ættu kost á að tjá sig.

I.

Skiptabeiðandi vísar til þess að fjárnámi verði lokið án árangurs ef gerðarþoli eða málsvari hans hafi verið staddur við gerðina, sbr. 62. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Í því sambandi bendir skiptabeiðandi á að Hæstiréttur hafi talið lögmann málsvara gerðarþola, sbr. Hrd. 1993/1508.

Skiptabeiðandi telur lögmannsumboð án nokkurs vafa stöðuumboð í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógildi löggerninga, nr. 7/1936. Því til viðbótar heldur skiptabeiðandi því fram að umboð lögmanns skuldara til að mæta hjá sýslumanni og lýsa yfir eignaleysi umbjóðanda síns hvíli á heimildarumboði samkvæmt 18. gr. sömu laga.

Skiptabeiðandi vísar til þess að lögmenn séu opinberir sýslunarmenn, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Engu breyti þótt þau lög taki eingöngu til málflutningsumboðs, enda felist annað og meira í störfum lögmanna, sem taki að sér ýmis verkefni fyrir umbjóðendur sína án þess að hafa til þess sérstakt umboð. Til þess þurfi lögmaður hvorki að hafa skriflega heimild né heldur þurfi að tilgreina sérstaklega öll þau verk sem lögmanni séu falin þegar hann tekur að sér að gæta hagsmuna umbjóðenda síns. Í þessum efnum fari einfaldlega eftir þeim reglum sem gildi um heimildarumboð.

Samkvæmt framangreindu telur skiptabeiðandi að yfirlýsing lögmanns skuldara við aðför hjá honum verði skilin á þann veg að lögmaðurinn hafi fengið heimild umbjóðenda síns til að mæta og lýsa yfir eignaleysi. Engin ástæða sé til að vefengja yfirlýsingu lögmannsins, enda sé um að ræða eðlilega umsýslu lögmanns. Því til viðbótar telur skiptabeiðandi að ekkert bendi til að lögmaðurinn hafi ekki gefið yfirlýsingu sína í skjóli umboðs.

Loks tekur skiptabeiðandi fram að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara innan þriggja mánaða frests, sbr. 1. tl. 1. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991. Við aðförina hafi verið mættur málsvari skuldara og lýst yfir eignaleysi hans. Þá hafi skuldari ekki mætt þegar málið var tekið fyrir og því beri eftir atvikum að líta svo á að skuldari hafi viðurkennt fullyrðingar skiptabeiðanda, sbr. 2. mgr. 70. gr. laganna.

II.

Svo sem rakið hefur verið var skuldari ekki boðaður með lögmætum hætti til þinghalds þegar taka átti málið fyrir 8. september 2004. Málið var því ekki tekið fyrir en síðar sama dag vísaði dómari kröfu skiptabeiðanda á bug með bókun í þingbók að málsaðilum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður ekki lagt til grundvallar að skuldari hafi viðurkennt fullyrðingar skiptabeiðanda. Þvert á móti ber dómara af sjálfsdáðum að gæta að því hvort lagaskilyrði séu fyrir gjaldþrotaskiptum.

Við fyrirtöku hjá sýslumanni 3. júní 2004 lýsti lögmaður skuldara yfir eignaleysi hans og var gerðinni lokið án árangurs á þeim grundvelli. Um heimild sína vísaði lögmaðurinn til lögmannsumboðs.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, telst lögmaður sem sækir dómþing fyrir aðila hafa umboð til að gæta hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað. Í 2. mgr. sömu greinar segir jafnframt að umboð aðila til lögmanns feli í sér heimild til að gera hvaðeina sem venjulegt má teljast til að gæta hagsmuna fyrir dóm. Þótt umrædd ákvæði laga nr. 77/1998 taki ekki til starfa lögmanna fyrir aðila máls gagnvart stjórnvöldum verður talið að sama eigi við þegar lögmaður gætir hagsmuna gerðarþola við aðför hjá sýslumanni. Á hinn bóginn verður talið falla utan við umboð lögmanns á þessum grundvelli að lýsa yfir eignaleysi gerðarþola við fjárnám. Í málinu nýtur ekki við umboðs af öðru tagi til þess lögmanns sem mætti fyrir hönd skuldara við umrætt fjárnám hjá honum.

Samkvæmt 62. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, verður fjárnámi almennt ekki lokið án árangurs nema gerðarþoli sjálfur eða málsvari hans hafi verið staddur við gerðina. Um heimild sýslumanns til að tilnefna gerðarþola málsvara fer eftir 2. mgr. 24. gr. sömu laga. Af hálfu skiptabeiðanda er byggt á því að lögmaður skuldara hafi verið málsvari hans við gerðina í þessum skilningi.

Eftir upphafsorðum 2. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 eru ekki skilyrði til að fela einhverjum að taka málstað gerðarþola ef umboðsmaður hans, þar með talinn lögmaður, er mættur við gerðina. Þar fyrir utan eru málsvarar gerðarþola tæmandi taldir í ákvæðinu og geta ekki verið aðrir en maki gerðarþola eða heimilismaður 18 ára og eldri þegar gerðarþoli er einstaklingur.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var ekki fullnægt skilyrðum 62. gr. laga nr. 90/1989 til að ljúka fjárnáminu hjá skuldara 3. júní 2004 án árangurs þar sem gerðarþoli sjálfur eða málsvari hans var ekki staddur við gerðina. Þess í stað bar sýslumanni að halda gerðinni áfram á grundvelli 3. mgr. 24. gr. laganna. Að þessu gættu verður ekki talið að gerðin fullnægi skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði á henni reistur. Ber því að hafna kröfu skiptabeiðanda um gjaldþrotaskipti á búi skuldara.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu skiptabeiðanda, Kaupþings Búnaðarbanka hf., um gjaldþrotaskipti á búi skuldara, Ásgeirs Jóns Ásgeirssonar, er hafnað.