Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 25. maí 2012.

Nr. 364/2012.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júní 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði úrræðum sem kveðið er á um í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, „[svo sem] á þann hátt að varnaraðila verði haldið aðskildum frá ákveðnum svæðum, fangagöngum eða ákveðnum föngum.“ Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. maí 2012.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...] til heimilis að [...] í [...], nú til dvalar í Fangelsinu að Litla Hrauni á Eyrarbakka verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 13:00 miðvikudaginn 20. júní n.k.  Jafnframt að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að nýtt verði úrræði þau sem getur í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, en til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður mun skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglunnar á Selfossi kemur fram að um kvöldmatarleyti 17. maí s.l. hafi lögreglu borist tilkynning um að endurlífgun væri í gangi í fangelsinu að Litla Hrauni á Eyrarbakka.  Er lögregla hafi komið á vettvang hafi endurlífgun staðið yfir og um hafi verið  að ræða A, kt. [...].  Endurlífgunartilraunir hafi reynst án árangurs og A verið úrskurðaður látinn kl. 19:53.  Upphaflega hafi verið talið að um veikindi væri að ræða.

Lögreglustjórinn á Selfossi hafi farið fram á réttarkrufningu á líki A.  Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum krufningar sem borist hafi lögreglu þann 22. maí.2012 hafi A blætt út innvortis á mjög skömmum tíma eftir utanaðkomandi högg.

Á fangagangi A, gangi 4 í húsi 3,  hafi verið vistaðir 11 fangar, þ.á m. kærði og Y.  Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði og Y hafi sést fara inn í klefa A og vera þar í dágóða stund skömmu áður en A hafi fundist meðvitundarlaus í klefa sínum.  Samkvæmt rannsóknargögnum hafi  engin annar farið inn á klefa A fyrr en kallað hafi verið á milli fanga inni á ganginum að eitthvað væri að hjá A.  Hafi fangar og síðan fangaverðir komið að A meðvitundarlausum, útældum og hann síðan verið úrskurðaður látinn skömmu síðar.

Við skýrslutöku hjá lögreglu að morgni 23. maí 2012 hafi kærði neitað að tjá sig um málavexti.

Kveður lögregla að fyrir liggi að taka þurfi skýrslu af öllum þeim föngum sem voru á gangi 4 í húsi 3, en á ganginum dveljist alls 11 refsifangar.  Þegar hafi verið rætt við tvo þeirra sem lítið hafi viljað tjá sig og lögregla skynjað ótta þeirra og annarra fanga við að tjá sig um málið. Þá kveður lögregla að hafnar séu skýrslutökur af fangavörðum þeim er komu að málinu.

Auk frekari skýrslutöku kveður lögregla að eftir sé að samræma gögn og afla frekari gagna og upplýsinga sem varpa kunni ljósi á málið, sem á síðari stigum verði að bera undir sakborninga án þess að þeir geti borið sig saman eða haft áhrif á þá sem mögulega tjái sig.

Verið sé að rannsaka meint brot kærða á 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 73. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins sé viðamikil og á frumstigi og beinist að mjög alvarlegu sakarefni.  Auk þess telji lögregla verulega hættu eins og mál þetta sé vaxið að kærði muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka.

Með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga.  Verði fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi sé  þess óskað að kærða verði gert með úrskurði að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. 

Í gögnum málsins kemur fram að lögregla hafi verið kvödd að Litla Hrauni 17. maí sl. þar sem staðið hafi yfir endurlífgun á A, framkvæmd af sjúkraflutningamönnum.  Hafi endurlífgun ekki tekist og A úrskurðaður látinn kl. 19:55.  Kom fram að A hafi komið í fangelsið daginn áður í gæsluvarðhald og þá verið í mikilli fíkniefnaneyslu.  Hafi hann verið fluttur í hús 3 og borið sig vel.  Svo hafi kærði komið að A þar sem hafi korrað í honum og hann búinn að kasta upp.  Hafi kærði kallað eftir aðstoð fangavarða kl. 19:08.  Hafi öndun strax reynst mjög grunn og enginn púls.  Talsverð æla hafi verið á andliti A og kringum höfuð.  Ekkert blóð hafi sést.

Réttarkrufning fór fram á líki A og samkvæmt gögnum málsins komst réttarmeinafræðingur að því að A hafi látist af völdum innvortis blæðinga sem stöfuðu frá sprungnu milta og rifinni æð.  Kemur fram að réttarmeinafræðingurinn telji áverkana vera af völdum þungs höggs.  Kom fram að alls hafi verið um tveir lítrar af blóði í kviðarholi A.  Ekki taldi réttarmeinafræðingurinn sig geta fullyrt um það hvort miltað hafi sprungið við að A hafi verið barinn eða hann fallið í klefa sínum.

Í gögnum málsins er skýrsla réttarmeinafræðings á ensku þar sem fram kemur að um tveir lítrar af blóði hafi verið í kviðarholi A.  Þá kemur fram að ekki sjást merki um úr hvaða átt högg hafi komið á milta A, en að líklegra sé að sjá slík ummerki ef höggið komi aftan frá vegna hugsanlegra áverka á rifbein.  Þá kemur fram að fyrir andlátið hafi A kastað mikið upp og það geti stafað af því að högg á milta hafi einnig komið á maga og valdið uppköstum.  Dánarorsökin hafi verið mikill blóðmissir vegna sprungu á milta og rifu á æð við milta.  Ekkert bendi til að A hafi orðið fyrir áverka löngu áður og ekki verði séð að áverkinn á miltanu geti stafað af náttúrulegum orsökum, þ.e. af veikindum.  Miltað hafi verið eðlilegt að stærð og þyngd og að því gefnu að áverkinn hafi komið til stuttu fyrir andlátið, þá hafi það aðeins tekið mínútur að missa tvo lítra af blóði.  Í vottorði læknis vegna líkskoðunar sem gerð var áður en lík A var krufið kemur fram að hvorki séu áverkar á andliti, höfði, höndum né fótum.  Engin nýleg stunguför séu sjáanleg á líkama.  Dánarorsök liggi ekki fyrir án krufningar.

Í gögnum kemur fram að á upptökum úr öryggismyndavélum af fangagangi megi sjá að kærði og Y hafi átt í talsverðum samskiptum við A á fangagangi.  Þá kemur fram að þeir hafi farið með honum inn á klefa hans og verið þar einir með honum í um 11 mínútur.  Um 13 mínútum eftir að þeir hafi komið út úr klefanum hafi kærði svo óskað aðstoðar vegna þess að A væri í andnauð.

Í gögnum málsins er upplýsingaskýrsla ónafngreinds lögreglumanns þar sem fram kemur að þann 3. apríl sl. hafi hann haft afskipti af A og hafi þá komið fram hjá A að hann hafi lent í útistöðum við kærða og Y sem hafi reynt að kúga sig til innbrota, en hann hafi varið sig með því að hóta að stinga þá með sprautunál sem hann hafi sagt vera „sýkta“, en þeir hafi látið sig í friði eftir það.

Kærði var yfirheyrður af lögreglu 23. maí 2012.  Kvaðst kærði ekki eiga neinn þátt í andláti A, en neitaði að svara því hver tengsl hans væru við A og hver samskipti hann hefði átt við A eftir komu A í hús 3 á Litla Hrauni.

Fram kemur í rannsóknargögnum að í framburðarskýrslu Y hjá lögreglu hefur hann borið að hann og kærði hafi báðir farið með A inn á klefa A stuttu fyrir lát A.

Rannsóknargögnum fylgir diskur með upptökum úr öryggismyndavél af Litla Hrauni.  Þar sést A við komu í fangelsið umræddan dag og verður ekki séð að nokkuð ami að honum.  Þá sést jafnframt að stuttu áður en kallað er eftir aðstoð vegna A, að kærði og Y dvelja nokkra stund saman, ásamt A, inni á klefa A.  Ekki sést A eftir það öðru vísi en liggjandi.

Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi neitaði kærði alfarið sakargiftum og kvaðst ekki hafa komið við A að öðru leyti en því að hann hafi reynt að aðstoða hann þegar hann hafi orðið þess var að eitthvað væri að.  Kom jafnframt fram hjá honum að hann hafi komið inn á klefa A skömmu áður.

Það er mat dómsins að fallast beri á það með lögreglu að rökstuddur grunur sé um að A hafi látist af völdum höggs sem honum hafi verið veitt.  Það er jafnframt mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í tilkomu þeirra áverka sem orsökuðu lát A, en fram hefur komið að kærði, ásamt Y, var með A inni á klefa A í nokkra stund skömmu áður. 

Kærði er þannig undir rökstuddum grun um brot gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varða brot gegn umræddum ákvæðum fangelsisrefsingu.

Rannsókn málsins er skammt á veg komin og ljóst að taka þarf rækilegar skýrslur af fangavörðum og föngum öllum á umræddum fangagangi.  Kærði hefur neitað sakargiftum en jafnframt neitað að tjá sig um tengsl sín og samskipti við A umræddan dag.  Má ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og samseka og annan þann hátt sem greinir í a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Þykja úrræði 1. mgr. 101. gr. laga nr. 88/2008 ekki nægja til að tryggja rannsóknarhagsmuni, enda horfir ákvæðið til b liðar 1. mgr. 95. gr. laganna en ekki til rannsóknarhagsmuna skv. a lið nefndrar 1. mgr. 95. gr. laganna.  Fram hefur komið að kærði afplánar nú refsingu á Litla Hrauni.  Slík afplánun getur ekki komið í stað gæsluvarðhalds vegna rannsóknar á meintu broti, enda ekki hlutverk hennar.

Ber því að fallast á að kærði sæti gæsluvarðhaldi.  Með hliðsjón af alvarleika málsins og umfangi rannsóknarinnar þykir nægilegt að ákveða að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi í þrjár vikur eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. 2. mgr. 98. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Það athugast að þegar kærði var leiddur fyrir dóminn var liðinn lengri tími en 24 klukkustundir frá handtöku og er það í andstöðu við 94. gr. laga nr. 88/2008.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júní 2012, klukkan 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.