Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/2002
Lykilorð
- Fasteign
- Kaupsamningur
- Samþykki tilboðs
|
|
Þriðjudaginn 15. apríl 2003. |
|
Nr. 456/2002. |
Dánarbú Jóns G. Óskarssonar(Hreinn Pálsson hrl.) gegn Guðbergi Agli Eyjólfssyni og Birnu Kristínu Friðriksdóttur (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Fasteign. Kaupsamningur. Samþykki tilboðs.
G og B kröfðust þess að viðurkennt yrði að kauptilboð þeirra í jörðina K, sem J var eigandi að, væri gildur og skuldbindandi kaupsamningur milli þeirra og dánarbús J jafnframt sem dánarbúið yrði skyldað til að gera formlegan kaupsamning við þau að viðlögðum dagsektum. Hélt dánarbúið því fram að J hefði verið í rangri trú um stöðu sína er hann samþykkti tilboð G og B. Með vísan til hins mikla verðmunar á kauptilboði þeirra G og B og mati dómkvaddra manna á söluverði lands og húsa jarðarinnar, sérstaklega á greiðslumarki hennar, krafðist dánarbúið þess að víkja bæri samningi aðila til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fallist var á það með héraðsdómi að bindandi kaupsamningur hefði komist á milli aðila um jörðina með undirritun J á skal það sem bar yfirskriftina „Svar við kauptilboði“. Þá væri ekki annað komið fram en að jafnræði hefði verið með aðilum við samningsgerðina en í ljós væri leitt með skýrslugjöf fyrir dómi að J vildi helst selja jörðina og það, sem henni fylgdi, í einni heild. Með vísan til þess að kauptilboðið beindist að jörðinni í heild, sem yfirleitt leiddi til lægra verðs, auk þess sem kaupverðið átti að greiðast á innan við ári, var ekki talið að sýnt hefði verið fram á, að kauptilboð G og B væri verulega undir sannvirði hinnar seldu eignar. Var því fallist á kröfur G og B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. október 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Jón G. Óskarsson andaðist 29. janúar sl. og var bú hans tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. apríl 2003. Hefur dánarbúið tekið við aðild áfrýjanda fyrir Hæstarétti.
I.
Eftir að héraðsdómur gekk óskaði áfrýjandi eftir dómkvaðningu tveggja manna til að meta til söluverðs land og hús jarðar sinnar, Kolgerði í Grýtubakkahreppi, greiðslumark jarðarinnar 39.318 lítra af mjólk, bústofn hennar og allar vélar. Hefur matsgerð þeirra 18. september 2002 ásamt fylgigögnum verið lögð fyrir Hæstarétt. Var niðurstaða hennar sú, að samtals væri matsupphæðin 23.653.300 krónur. Inni í þeirri fjárhæð er mat á vélum, sem ekki voru taldar með í kauptilboði stefndu 10. mars 2002, að fjárhæð 1.150.000 krónur, svo og arður af nytjum jarðarinnar frá 1. maí til 31. ágúst 2002, að fjárhæð 1.020.000 krónur. Að þessum fjárhæðum frádregnum er matsfjárhæðin 21.483.300 krónur, en kauptilboð stefndu var 16.000.000 krónur. Munar þar mestu um mat á greiðslumarkinu, sem matsmenn meta á 7.863.300 krónur, en verðmæti þess í kauptilboðinu er 3.895.000 krónur.
Þá hafa verið lögð fyrir Hæstarétt álit þriggja fasteignasala um skjalagerð við kauptilboð.
II.
Eins og lýst er í héraðsdómi deila aðilar um tilvist og gildi kaupsamnings um jörðina Kolgerði í Grýtubakkahreppi. Jón G. Óskarsson, eigandi jarðarinnar, taldi sig aldrei hafa samþykkt kauptilboð, sem stefndu gerðu honum 10. mars 2002. Hann hefði skrifað undir skjal 11. mars 2002, sem ber yfirskriftina „Svar við kauptilboði“ í þeirri trú, að undirritun sín á skjalið væri aðeins áfangi að gerð hugsanlegs kaupsamnings. Það, hvernig stefndu stóðu að skjalagerð, hafi leitt til þess, að hann hafi ekki haft yfirsýn yfir málið.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á það, að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli aðila um jörðina Kolgerði með undirritun áfrýjanda á skjalið 11. mars 2002.
III.
Áfrýjandi telur, eins og að framan greinir, að Jón G. Óskarsson hafi verið í rangri trú um stöðu sína, er hann samþykkti tilboð stefndu. Greiðslumark jarðarinnar var metið á 3.895.000 krónur í tilboðinu, en fyrir liggur samkvæmt bréfi Búnaðarsambands Eyjafjarðar 30. apríl 2002, að gangverð á greiðslumarki í mjólk hafi á þeim tíma verið 200 - 205 krónur á lítra miðað við staðgreiðslu. Með vísan til þess og hins mikla verðmunar á kauptilboðinu og mati hinna dómkvöddu manna telur áfrýjandi, að víkja beri samningi aðila til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.
Ekki er annað fram komið en að jafnræði hafi verið með aðilum við samningsgerðina. Í ljós er leitt með skýrslugjöf aðila fyrir dómi, að Jón G. Óskarsson vildi helst selja jörðina og það, sem henni fylgdi, í einni heild.
Ævarr Hjartarson ráðunautur, sem aðstoðaði stefndu við gerð uppkastsins að kaupsamningnum um Kolgerði, bar fyrir dómi að hann hefði talið, að sanngjarnt verð fyrir jörðina væri 15 - 17 milljónir króna. Hann sagði, að reynt væri að horfa á aðstöðu beggja aðila, bæði kaupanda og seljanda, þegar svona kaupsamningar væru gerðir. Miðað væri við fasteignaverð, bókfært verð á vélum og bústofni og það, sem eftir væri, færðist yfir á greiðslumarkið. Reynt væri að lágmarka söluhagnað svo að menn þyrftu ekki að borga óþarflega mikla skatta. Meginreglan sé, að hærra verð fáist fyrir, þegar jörð sé seld í einingum frekar en í einni heild, og geti þar munað allt að 15% á sölunni. Í yfirlýsingu frá Ævarri, sem lögð var fram í matsmálinu, mat hann jörðina í heild á 19.310.000 krónur. Þar var tekið fram, að venjan væri sú, þegar tilboð væri gert í alla jörðina ásamt meginhluta bústofns og véla, að það tilboð eða kaupverð væri mun lægra en þegar selt væri í „smásölu“ og gæti slíkt numið allt að 15%.
Eins og að framan greinir er verðmæti greiðslumarks töluvert lægra í kauptilboði stefndu en hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og samkvæmt matsgerðinni. Á hitt ber að líta, að kauptilboðið beindist að jörðinni í heild, en það getur leitt til talsvert lægra verðs, auk þess sem kaupverðið átti að greiðast á innan við ári. Þegar þetta er virt verður ekki talið, að sýnt hafi verið fram á, að kauptilboð stefndu sé verulega undir sannvirði hinnar seldu eignar. Verður því ekki fallist á að víkja megi samningi aðila til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.
Samkvæmt framansögðu er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að áfrýjandi verði skyldaður til að gera formlegan kaupsamning við stefndu í samræmi við kauptilboð þeirra, að viðlögðum dagsektum samkvæmt 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykja hæfilega ákveðnar 25.000 krónur, að liðnum þremur vikum frá uppkvaðningu dóms þessa.
Rétt þykir, að málskostnaður í héraði falli niður, en áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er, að kauptilboð stefndu, Guðbergs Egils Eyjólfssonar og Birnu Kristínar Friðriksdóttur, 10. mars 2002 í jörðina Kolgerði í Grýtubakkahreppi, sem samþykkt var af Jóni G. Óskarssyni 11. mars 2002, er gildur og skuldbindandi kaupsamningur milli áfrýjanda, dánarbús Jóns G. Óskarssonar, og stefndu. Áfrýjanda er skylt, að viðlögðum 25.000 króna dagsektum að liðnum þremur vikum frá uppsögu dóms þessa, að gera formlegan kaupsamning við stefndu í samræmi við efni hins samþykkta kauptilboðs.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. júlí 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. júní s.l., hafa Guðbergur Egill Eyjólfsson og Birna Kristín Friðriksdóttir, Hléskógum, Grýtubakkahreppi, höfðað hér fyrir dómi gegn Jóni Óskarssyni, Kolgerði, Grýtubakkahreppi.
Dómkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi, að samþykkt kauptilboð dags. 10. mars 2002, um jörðina Kolgerði í Grýtubakkahreppi, landnúmer 1503059, ásamt mannvirkjum sem á henni eru og henni tilheyra og nánar greinir í kauptilboði, auk greiðslumarks jarðarinnar í mjólk 39318 lítrar ásamt öllum nautgripum, kúm, kálfum, kvígum og nautum, og einnig það hey sem á jörðinni er laust og bundið, fóðursíló, mjólkurtankur og haugdæla, sem samþykkt var af stefnda þann 11. mars s.l., sé gildur og skuldbindandi kaupsamningur milli stefnenda og stefnda.
Jafnframt krefjast stefnendur þess, að stefnda verði með dómi skylt, að viðlögðum dagsektum kr. 50.000,- frá uppkvaðningu dómsins, að gera endanlegan kaupsamning við stefnendur gegn greiðslu hluta kaupverðs og afhenda eignirnar eins og fram kemur í kauptilboði, það er afhending eignar og reksturs fari fram við dómsuppsögu og afhending íbúðarhúss og kartöflugeymslu fari fram þann 1. ágúst n.k.
Að endingu krefjast stefnendur málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.
Í málinu er deilt um tilvist og gildi kaupsamnings milli aðila um jörðina Kolgerði.
Málsatvik eru nánar þau, að snemma árs 2002 færði stefnandi Guðbergur það í tal við stefnda, að stefnendur hefðu áhuga á að kaupa jörð stefnda, Kolgerði í Grýtubakkahreppi. Þann 11. febrúar s.á. undirrituðu stefnandi Guðbergur og stefndi skjal þess efnis, að yfir stæðu viðræður milli þeirra um hugsanleg kaup stefnanda Guðbergs á nefndri jörð.
Þann 1. mars 2002 gerðu stefnendur skriflegt kauptilboð í jörðina Kolgerði, mannvirki á jörðinni, greiðslumark jarðarinnar og tilgreint lausafé, að fjárhæð kr. 15.500.000,-. Tilboði þessu var ekki tekið af stefnda. Þann 10. s.m. gerðu stefnendur nýtt kauptilboð að fjárhæð kr. 16.000.000,-. Degi síðar, eða þann 11. mars 2002, undirritaði stefndi skjal er ber yfirskriftina „Svar við kauptilboði“, en í nefndu skjali segir: „Ég undirritaður samþykki hér með 16.000.000 kr. kauptilboð Guðbergs Egils Eyjólfssonar kt. 271171-4639 og Birnu Kristínar Friðriksdóttur kt. 080369-3959 í eign mína, jörðina Kolgerði í Grýtubakkahreppi landnúmer 153059 ásamt öðru því er fram kemur í kaupsamningnum.“ Undir rekstri málsins kom fram hjá stefnendum að ritvilla væri í umræddu skjali, þar sem segir „í kaupsamningnum“ eigi að standa „í kauptilboðinu“.
Í kjölfar undirritunar stefnda útbjó stefnandi Guðbergur kaupsamningsuppkast vegna jarðarinnar. Þann 27. mars 2002 barst stefnendum síðan eftirfarandi skeyti frá stefnda: „Undirritaður hafnar kaupsamningsuppkasti um jörðina Kolgerði, enda búið að bæta inn í frá því sem fram kom í tilboði öllum vélum, en í tilboði er getið um fóðursíló, mjólkurtank og haugdælu. Þá er einhliða settar upp greiðslur sem greiða á á árinu og mér hefur ekki borist sönnun um ábyrgðir á þeim greiðslum, né um að veðskuldir fáist yfirteknar. Verði ekki sönnur færðar fyrir ofangreindum atriðum fyrir 28. mars 2002 er tilboð dags. 10. mars s.l. úr gildi.“ Hófu stefnendur þegar að verða við kröfum stefnda samkvæmt skeytinu og síðar sama dag afhentu þau stefnda gögn í samræmi við kröfur hans, sbr. skjal dagsett nefndan dag, sem áritað af stefnda og tveimur vottum.
Títtnefndan dag, eða þann 27. mars 2002, fékk stefndi síðan í hendur bréf frá stefnendum, dagsett sama dag, þar sem skorað var á stefnanda að undirrita kaupsamning um jörðina á grundvelli áðurnefnds kauptilboðs. Var stefnda gefinn frestur til 4. apríl 2002 til að verða við kröfum stefnenda.
Þann 11. apríl 2002 gerði Hafþór Sævarsson kauptilboð í jörðina Kolgerði að fjárhæð kr. 9.500.000,-. Tók tilboðið einungis til lands jarðarinnar og mannvirkja hennar.
Þar sem stefndi sinnti ekki ofangreindri áskorun stefnenda um undirritun kaupsamnings um jörðina höfðuðu þau mál þetta.
Stefnendur styðja kröfur sínar þeim rökum, að með samþykki stefnda á kauptilboði þann 11. mars s.l. hafi stofnast gildur og skuldbindandi kaupsamningur milli aðila. Meginregla sé að aðilar að kaupsamningi geti ekki afturkallað samþykki sitt svo gilt sé eftir að það berst móttakanda. Þá hafi stefnendur í einu og öllu farið eftir hinu samþykkta kauptilboði og séu því ekki fyrir hendi neinar riftunarástæður.
Stefnendur kveða stefnda hafa undirritað kauptilboðið án allra fyrirvara. Eini fyrirvarinn í kauptilboðinu hafi verið frá stefnendum sjálfum. Sá fyrirvari hafi varðað fjármögnun. Augljóst sé af skeyti stefnda til stefnenda, dags. 27. mars 2002, að stefndi hafi gert sér grein fyrir þeirri skuldbindingu sem fólst í samþykki hans á kauptilboðinu. Þrátt fyrir það hafi hann hafnað kaupsamningsuppkasti um jörðina í umræddu símskeyti með þeim orðum, að yrðu ekki færðar sönnur fyrir nokkrum nánar tilteknum atriðum fyrir 28. mars 2002 félli tilboð, dags. 10. mars 2002, úr gildi. Til þessa hafi stefndi ekki haft nokkurn lagalegan rétt.
Kveða stefnendur stefnda hafa rökstutt framangreinda höfnun sína með því að bætt hefði verið inn í kaupsamninginn orðunum „öllum vélum“ en sambærilegt ákvæði hafi ekki verið í kauptilboðinu. Kveða stefnendur þetta alrangt því að í upphaflegu kaupsamningsuppkasti hafi sagt, að með í kaupunum fylgdu allar vélar samkvæmt kauptilboði. Ekki hafi því verið um neina efnisbreytingu að ræða frá kauptilboðinu.
Þá hafi stefndi jafnframt borið því við, að í kaupsamningsuppkasti hafi greiðslur verið settar einhliða upp af stefnendum. Taka stefnendur fram, að þar sem þeir hafi tekið að sér gerð kaupsamningsins og stefndi aldrei verið til viðræðu um námkvæmari skilgreiningu kaupsamningsgreiðslna hafi stefnendur sett greiðslufyrirkomulag inn í kaupsamninginn. Það greiðslufyrirkomulag sé fyllilega innan þess sem kveðið hafi verið á um í kauptilboðinu.
Að endingu hafi stefndi borið því við í umræddu skeyti, að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þau gætu reitt fram fjármagn til kaupanna. Hafi þeim verið gefinn eins dags frestur til að leggja fram sönnun fyrir tryggilegri fjármögnun kaupanna. Kveða stefnendur hvorki tíðkast í fasteignakaupum, að kaupandi verði að setja fram tryggingu fyrir kaupsamningsgreiðslum, né heldur sönnun um ábyrgðir. Þau hafi engu að síður fengið lánastofnanir til að setja fram formleg loforð um fyrirgreiðslu svo og samþykki fyrir yfirtöku veðskulda, sem stefndi hafi sannanlega móttekið þann 27. mars 2002. Með þessu hafi stefnendur fyllilega uppfyllt það skilyrði samþykkts kauptilboðs, að ljúka fjármögnun fyrir 28. mars 2002. Af þessu leiði að kauptilboðið hljóti að vera fullgildur og skuldbindandi samningur samkvæmt skilningi stefnda.
Stefnendur kveða ljóst, að helstu skyldur seljanda í fasteignakaupum séu að láta hið selda af hendi í réttu ásigkomulagi og á réttum tíma. Eins og málum sé háttað sé ekkert sem gefi til kynna að stefndi muni uppfylla skyldur sínar sem seljandi. Kaupendur hafi hins vegar uppfyllt allar sínar skyldur eins og þeim sé mögulegt miðað við aðstæður.
Kveða stefnendur þá greiðslu á hluta kaupverðs, sem nefnd sé í kröfugerð þeirra, kr. 5.000.000,- vera til reiðu á reikningi og verði henni ráðstafað til stefnda um leið og undirritun kaupsamnings um eignina hafi átt sér stað.
Stefnendur kveða það þeim mjög mikið hagsmunamál, að þau fái umrædda jörð afhenta ásamt búpeningi á umsömdum tíma. Fái stefnendur ekki jörðina eins og samningur aðila kveði á um verði þau að ráðast í byggingu aðstöðu fyrir kvígur og geti sá kostnaður farið í kr. 1-1,5 milljón. Auk þess þurfi stefnendur að ráða til sín starfskraft og geti það valdið þeim tjóni, fái þau jörðina ekki afhenta á umsömdum tíma. Einnig þurfi stefnendur að bera á ræktað land í maí til þess að verðmæti jarðarinnar haldi sér og hægt verði að heyja fyrir komandi vetur. Það skipti líka máli varðandi áframhaldandi nýtingu jarðarinnar, að á landið sé borinn áburður og hún vel hirt. Það sama eigi að breyttu breytanda við um búpeninginn.
Til stuðnings kröfum sínum vísa stefnendur til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og efndir samninga, en kröfur þeirra eigi m.a. stoð í ákvæðum laga nr. 7, 1936 og meginreglna kaupalaga nr. 20, 2000 með lögjöfnun og með vísan til réttarvenju á þessu sviði. Um dagsektir vísa stefnendur til 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Stefndi telur sig aldrei hafa samþykkt kauptilboð stefnenda í jörðina Kolgerði. Jafnframt kveður stefndi stefnendum hafa mátt vera ljóst, að hann væri ósáttur við tilboð þeirra í jörðina.
Stefndi kveðst hafa ritað undir skjal dags. 11. mars 2002, er beri yfirskriftina „Svar við kauptilboði“, í rangri ímyndun enda hafi stefnandi Guðbergur oftar en einu sinni rætt um það við stefnda að hann þyrfti skjöl með undirritun stefnda vegna athugana sinna á möguleikum á lánum og yfirtöku skulda. Stefndi hafi talið að um slíkt skjal væri að ræða í þessu tilviki.
Þá kveður stefndi ekki hafa verið staðið eðlilega að skjalagerð þar sem sérstakt blað hafi verið gert um tilboðið en á því ekki gert ráð fyrir áritun tilboðshafa. Slík framkvæmd við gerð og uppsetningu tilboðs sé afar óvanaleg og ekki í samræmi við góðar fasteignaviðskiptavenjur. Hér verði að hafa í huga, að stefndi hafi aldrei staðið í kaupum sem þessum áður, hann hafi fengið jörðina í arf og aldrei átt viðskipti um fasteignir. Stefnendur séu hins vegar ungt fólk sem mjög nýlega hafi keypt stórbýlið Hléskóga, þau því vön fasteignaviðskiptum og þá sé stefnandi Guðbergur í forystu í félagsmálum bænda. Hér sé því mjög ólíku saman að jafna, manni óvönum fasteignaviðskiptum, sem talsvert sé farinn að reskjast, og ungu fólki handgengnu slíkum viðskiptum.
Bendir stefndi á að talsverður munur sé á tilboði stefnenda og því tilboði sem Hafþór Sævarsson hafi gert stefnda, eða rúmlega 5 milljónir. Eins og mál þetta liggi fyrir sé því annars vegar um að ræða afrakstur ævistarfs roskins manns, sem öllu máli skipti fyrir hvernig úr spilist. Hins vegar sé aðstaða stefnenda sem áskilji sér verðmæti verulega undir sannvirði og beiti til þess yfirburðaaðstöðu sinni um þekkingu í viðskiptum.
Kveður stefndi ljóst, að afstaða hans hafi byggt á allt öðrum forsendum en stefnendur gangi út frá og hafi hún byggst á þeim óvenjulegu aðferðum sem stefnendur hafi beitt við tilboðsgerð og samþykki.
Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefndi vísa til 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Af skjali dags. 11. febrúar 2002, sem undirritað er af stefnda og stefnanda Guðbergi, má sjá, að snemma í febrúarmánuði 2002 voru farnar af stað þreifingar á milli nefndra aðila um hugsanleg kaup stefnenda á jörðinni Kolgerði í Grýtubakkahreppi.
Kauptilboð stefnenda, dags. 10. mars 2002, tekur skýrlega til jarðarinnar Kolgerðis, mannvirkja á henni, greiðslumarks jarðarinnar í mjólk (39318 lítra) allra nautgripa, alls heys, fóðursílós, mjólkurtanks og haugdælu. Í tilboðinu stendur skýrum stöfum að boðið kaupverð sé kr. 16.000.000,-. Í skjali sem dagsett er degi síðar en nefnt kauptilboð og ber yfirskriftina „Svar við kauptilboði“, er vísað til kauptilboðs stefnenda að fjárhæð kr. 16.000.000,- í jörðina Kolgerði. Af skoðun skjalanna verður því ekki séð að stefndi hafi mátt vera í vafa um aðalefni þeirra, þ.e. að annars vegar væri um að ræða kauptilboð stefnenda í jörðina Kolgerði og hins vegar samþykki stefnda við tilboðinu, fyrirvaralaust af hans hálfu. Enda bendir símskeyti það er stefndi sendi stefnendum þann 27. mars 2002 eindregið til þess að honum hafi frá upphafi verið efni síðarnefnda skjalsins ljóst.
Hvað títtnefnt skjal dags. 11. mars 2002 varðar þykir rétt að taka fram, að ritvilla sú, sem upplýst var undir rekstri málsins að væri í skjalinu, getur að mati dómsins engin áhrif haft á úrlausn málsins, enda ritvillan óháð aðalefni skjalsins.
Eins og áður hefur verið rakið mátti stefnda vera fullljóst efni margnefnds skjals, sem dagsett er 11. mars 2002. Með undirritun stefnda á skjalið komst því, samkvæmt meginreglum samningaréttar, á bindandi kaupsamningur milli aðila um jörðina Kolgerði, mannvirki á jörðinni, greiðslumark jarðarinnar og lausafé, sem tilgreint er í kauptilboði stefnenda, dags. 10. mars 2002.
Stefndi hefur ekki stutt neinum gögnum þá fullyrðingu sína, að sá háttur, sem hafður var á skjalagerð af hálfu stefnenda í málinu, hafi ekki verið í samræmi við góðar fasteignaviðskiptavenjur. Þá lét hann ógert að leiða vitni til stuðnings þessari fullyrðingu sinni. Hún er því ósönnuð og verður þegar af þeirri ástæðu ekki á henni byggt í málinu.
Stefndi hefur ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að umsamið kaupverð, kr. 16.000.000,- sé verulega undir sannvirði hinna seldu eigna. Þannig nýtur ekki mats dómkvaddra matsmanna hvað þetta varðar í málinu, en framburður eina vitnisins sem fyrir dóminn kom til skýrslugjafar, Ævarrs Hjartarssonar, ráðunauts, er nefndri fullyrðingu ekki til stuðnings. Er hún því að mati dómsins ósönnuð.
Af framlögðum gögnum og skýrslugjöf aðila fyrir dómi verður ráðið, að jafnræði hafi verið með þeim við samningsgerðina. Fullyrðingar stefnda um annað eru því ósannaðar.
Að öllu framangreindu röktu þykja ekki standa til þess nokkur rök, að beita 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga í málinu.
Samkvæmt meginreglum samningaréttar ber stefnda að efna gerðan samning aðila. Ber því að fallast á kröfu stefnenda um að stefndi verði skyldaður til að gera formlegan kaupsamning við stefnendur um jörðina Kolgerði, mannvirki á jörðinni, greiðslumark jarðarinnar og lausafé, sem tilgreint er í kauptilboði stefndu, að viðlögðum dagstektum skv. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, sem hæfilega þykja ákveðnar kr. 25.000,-.
Með vísan til úrslita málsins dæmist stefndi til að greiða stefnendum kr. 350.000,- í málskostnað.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að kauptilboð stefnenda, Guðbergs Egils Eyjólfssonar og Birnu Kristínar Friðriksdóttur, dags. 10. mars 2002, í jörðina Kolgerði í Grýtubakkahreppi, landnúmer 1503059, ásamt mannvirkjum sem á henni eru og henni tilheyra og nánar greinir í kauptilboði, auk greiðslumarks jarðarinnar í mjólk 39318 lítrar ásamt öllum nautgripum, kúm, kálfum, kvígum og nautum, og einnig það hey sem á jörðinni er laust og bundið, fóðursíló, mjólkurtankur og haugdæla, sem samþykkt var af stefnda þann 11. mars s.l., er gildur og skuldbindandi kaupsamningur milli stefnenda og stefnda, Jóns Óskarssonar. Skylt er stefnda að viðlögðum dagsektum kr. 25.000,- að gera formlegan kaupsamning við stefnendur í samræmi við efni hins samþykkta kauptilboðs.
Stefndi greiði stefnendum kr. 350.000,- í málskostnað.