Hæstiréttur íslands

Mál nr. 522/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 14

 

Mánudaginn 14. september 2009. 

Nr. 522/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2009.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16. 

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að með bréfi brasilíska sendiráðsins í Osló, dags. 7. september sl., hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist, framsalsbeiðni brasilískra dómsmálayfirvalda, dags. 3. september sl., ásamt fylgigögnum.

Í framsalsbeiðninni komi fram að 24. september 1998 hafi X hlotið 30 ára fangelsisdóm fyrir rán, mannrán, skjalabrot og mótþróa við handtöku.  Með dómi hinn 11. nóvember 2002 hafi refsingin verið milduð í 24 ára fangelsi.

Hinn 23. desember 2008 hafi brasilísk fangelsismálayfirvöld veitt X leyfi til að dvelja á heimili sínu um jól og áramót.  Honum hafi borið að hefja að nýju afplánun 3. janúar 2009, en hann hafi ekki skilað sér.   Í kjölfarið hafi verið gefin út handtökuskipun, dags. 14. janúar 2009, og hann eftirlýstur með það fyrir augum að hann yrði framseldur.

X hafi verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli 9. ágúst sl. við komu frá Osló, á leið sinni til Kanada, er hann hafi framvísað vegabréfi bróður síns.  Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. ágúst 2009 nr. S-673/2009 hafi honum verið gert að sæta 30 daga fangelsi fyrir að framvísa ofangreindu vegabréfi.  Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins ljúki hann afplánun dómsins í dag kl. 8. Með bréfi ríkissaksóknara, dags. í gær, sé þess farið á leit við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að X verði kynnt beiðni brasilískra dómsmálayfirvalda um framsal.  Þar af leiðandi sé hafin opinber rannsókn á framsalsbeiðni brasilískra stjórnvalda.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 15. gr. laga nr. 13/1984 séu fullnægt, enda hafi kærði verði sakfelldur og dæmdur fyrir svívirðileg afbrot í heimalandi sínu.  Þá liggi og fyrir að fram sé komin formleg framsalsbeiðni, sem tekin hafi verið til meðferðar hjá íslenskum dómsmálayfirvöldum.

Það sé og mat lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, svo unnt sé að tryggja nærveru hans á meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.  En fyrir liggi að kærði hafi ekki komið til baka úr leyfi úr refsivist og sé á flótta undan brasilískri réttvísi.  Það séu því yfirgnæfandi lýkur fyrir því að hann muni reyna komast úr landi, leynast eða komi sér með öðrum hætti undan málsókn og fullnustu refsingar, sem bíði hans í hans heimalandi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 15. gr. laga nr. 13/1984 og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og gögnum málsins hefur kærði ekki lokið afplánun 24 ára fangelsisrefsingar sem hann hlaut í heimalandi sínu og hefur dómsmálayfirvöldum borist beiðni um framsal hans. Kærði hefur engin tengsl við landið og má því ætla samkvæmt því sem fram er komið að hann reyni að komast úr landi á meðan á rannsókn málsins stendur. Eru því uppfyllt skilyrði 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sem og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

X, f. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16.