Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 13. mars 2012.

Nr. 160/2012.

 

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9 mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. apríl 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2012.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ákærða, að X, kennitala [...], [...], [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 6. apríl nk., kl. 16:00.

Ákærði mótmælir kröfunni og vísar til þess að með útgáfu ákæru hafi ákæruvaldið markað málinu farveg og að hann hafni því að refsing fyrir það brot sem honum sé gefið að sök í II. lið ákærunnar sé þess eðlis að varðað geti yfir 10 ára fangelsi. Því séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki lengur fyrir hendi í málinu. Verði ekki fallist á að kröfunni verði hafnað krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tíma en sóknaraðili krefst.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæruskjali dagsettu 2. mars sl. hafi verið höfðað sakamál á hendur ákærða, X, fyrir brennu þann 14. janúar 2012, sem hafi átt sér stað í íbúð í austurenda parhússins [...] við [...] í [...]. Um málavaxtalýsingu vísast nánar til meðfylgjandi ákæruskjals. Séu brot ákærða heimfærð undir 1. mgr. sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málið, sem hafi fengið númerið S-168/2012, verður þingfest þann 16. mars nk. í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 15. janúar 2012, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 20. janúar 2012 sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-30-2012 og síðast skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-74/2012.

Að mati ríkissaksóknara sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið það brot sem hann hafi verið ákærður fyrir. Brotið geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast og eftir atvikum ævilöngu fangelsi.

Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum.

Með vísan til framangreinds sé þess beiðst að framangreind krafa nái fram að ganga

Eins og rakið hefur verið er ákærði undir sterkum grun  um að hafa brotið gegn 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast og eftir atvikum ævilöngu fangelsi.  Hefur ákærði játað við skýrslugjöf hjá lögreglu að hafa kveikt eld í íbúð sinni, en hér fyrir dómi hefur hann gert fyrirvara um að svo hafi verið. Samkvæmt matsgerð Guðmundar Gunnarssonar, byggingaverkfræðings, sem dómkvaddur var til að meta almannahættu vegna íkveikjunnar, er staðfest að um almannahætta vegna bæði fólks og eigna hafi verið til staðar er kærði bar eld að húsnæðinu. Eins og fram kemur í greinargerð sóknaraðila  hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2.mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 20. janúar sl. Ákæra var gefin út í málinu 2. mars sl. Er ekki fallist á með ákærða að nokkur sú breyting hafi orðið á eðli málsins að talið verði nú að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 teljist ekki lengur fullnægt, en því var slegið föstu að þau skilyrði væru til staðar í dómi Hæstaréttar 24. janúar sl. í máli réttarins nr. 57/2012. Með vísan til framanritaðs og gagna málsins þykir framangreindum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 enn vera fullnægt og er það mat dómsins að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Hefur málinu enda verið haldið áfram af hálfu sóknaraðila með eðlilegum hraða. Verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að verða við kröfu ákærða um að marka varðhaldinu skemmri tíma en ríkissaksóknari krefst.

Halldór Björnsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. [...], með lögheimili að [...], [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 4. apríl 2012. klukkan 16:00.