Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/1999


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Atvinnuréttindi
  • Skaðabætur
  • Tómlæti
  • Fyrning
  • Sératkvæði


           

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000.

Nr. 327/1999.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Baldri Ágústssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

og gagnsök

             

Opinberir starfsmenn. Atvinnuréttindi. Skaðabætur. Tómlæti. Fyrning. Sératkvæði.

B hafði starfað hjá F frá 1963, fyrst sem aðstoðarmaður, en sem flugumferðarstjóri frá árinu 1968. B fékk launalaust leyfi frá október 1983 til júní 1984. Vegna erfiðleika í einkalífi og undanfarandi lyfjanotkunar gat B ekki sinnt störfum sínum þegar hann kom úr leyfinu. Gekkst hann í framhaldi af því, að frumkvæði F, undir ýmsar sálfræði- og læknisrannsóknir og var ekki að störfum á meðan. Fór B meðal annars í viðtöl hjá geðlækninum HP, sem síðan ritaði F bréf þar sem fram kemur að hann telji B ekki fullnægja heilbrigðisskilyrðum reglugerðar um skírteini útgefin af F. Var B ekki gerð grein fyrir efni gagna sem F fékk frá læknum og sálfræðingum. Geðlæknir B, HÓ, gaf út vottorð í júlí 1984, þar sem fram kemur að B sé vinnufær. Flugumferðarstjóra-skírteini B var afturkallað í lok september 1984 á þeim forsendum að hann hefði mætt tvívegis á vaktir fyrri hluta júnímánaðar þótt hann hefði verið óvinnufær samkvæmt læknisvottorði. Gilti afturköllunin að minnsta kosti á meðan samgönguráðuneytið hefði mál B til meðferðar. Mótmælti B þessu og krafðist launa og að felld yrði úr gildi ákvörðun F um afturköllun flugumferðarstjóraskírteinis hans. Náðist samkomulag um launagreiðslur, en krafa um afturköllun ákvörðunar F var ekki afgreidd efnislega. Höfðaði B mál á hendur íslenska ríkinu (Í) til heimtu skaða- og miskabóta. Talið var að F og samgönguráðherra hefði borið að upplýsa B um niðurstöðu þeirra sérfræðinga, sem rannsökuðu hann að frumkvæði F, enda gat hún varðað mikilvæga hagsmuni hans, og að athafnaleysi þeirra að þessu leyti væri saknæmt og bakaði Í skaðabótaskyldu. Þá var afturköllun flugumferðarstjóra-skírteinisins ekki markaður ákveðinn tími í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 301/1978 um skírteini gefin út af flugmálastjórn og beiðni B um að ákvörðun um afturköllun skírteinisins yrði felld úr gildi ekki afgreidd efnislega. Ekki var talið að bótaréttur B væri fyrndur eða fallinn niður vegna tómlætis. Var Í dæmt til að bæta B tjón hans, sem rakið yrði til hinnar bótaskyldu háttsemi, en ekki voru talin skilyrði fyrir því að dæma B miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum látinn niður falla.

Málinu var gagnáfrýjað 27. október 1999. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 31.678.280 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara er þess krafist, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða 27.700.792 krónur ásamt dráttarvöxtum af 26.700.792 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags stefnu, 21. maí 1996, en af 27.700.792 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir hann varakröfu B og krefst þess, að aðaláfrýjandi greiði 24.780.241 krónu ásamt dráttarvöxtum af 23.780.241 krónu frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, en af 24.780.241 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir hann varakröfu A-1 og krefst þess, að aðaláfrýjandi greiði 17.532.071 krónu ásamt dráttarvöxtum af 16.532.071 krónu frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, en af 17.532.071 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Ennfremur gerir hann varakröfu A-2 þess efnis, að aðaláfrýjandi greiði 16.949.130 krónur ásamt dráttarvöxtum af 15.949.130 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, en af 16.949.130 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi gerir varakröfu B-1, að aðaláfrýjandi greiði 17.218.375 krónur ásamt dráttarvöxtum af 16.218.375 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, en af 17.218.375 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir gagnáfrýjandi varakröfu B-2, er lýtur að því, að aðaláfrýjandi greiði 16.784.876 krónur ásamt dráttarvöxtum af 15.784.876 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags en af 16.784.876 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara gerir gagnáfrýjandi þá kröfu, að aðaláfrýjanda verði gert að greiða skaðabætur að mati dómsins ásamt vöxtum frá 25. september 1984 og dráttarvöxtum, eins og krafist er í aðalkröfu. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Gagnáfrýjandi hóf störf hjá Flugmálastjórn 1. desember 1963 sem aðstoðarmaður, en frá 1. desember 1968 var hann flugumferðarstjóri. Hann stofnaði á árinu 1969 öryggisgæslufyrirtækið Vara, sem hann veitti forstöðu samhliða starfi sínu. Honum var veitt skrifleg áminning 24. mars 1972 vegna óheimilaðra fjarvista frá störfum. Ekki liggur fyrir að honum hafi verið veittar fleiri áminningar, en samgönguráðherra skipaði hann varðstjóra í flugumferðarstjórn frá 1. apríl 1976. Umfang fyrirtækis þess, sem gagnáfrýjandi átti og veitti forstöðu, jókst og var það álit flugmálastjóra að hin auknu umsvif hefðu bitnað á viðveru hans og vinnutíma. Flugmálastjóri svaraði þó 5. maí 1983 fyrirspurn samgönguráðuneytis um, hvort atvinnurekstur gagnáfrýjanda væri samrýmanlegur starfi hans, með þeim orðum að þetta tvennt geti verið samrýmanlegt enda stundi hann á engan hátt atvinnureksturinn í vinnutíma sínum hjá Flugmálastjórn. Lagði flugmálastjóri til að gagnáfrýjanda yrði veitt leyfi til að stunda atvinnureksturinn á þessum forsendum.

Gagnáfrýjandi var í launalausu leyfi frá 1. október 1983 og fram til 1. júní 1984 en átti þá að hefja störf að nýju. Hann átti við erfiðleika í einkalífi að stríða á þessum tíma og hafði meðal annars leitað aðstoðar Högna Óskarssonar geðlæknis. Í viðtali 29. maí 1984 ráðlagði geðlæknirinn gagnáfrýjanda að hefja störf 1. júní og gerði hann það. Gagnáfrýjandi hefur sjálfur lýst því í skýrslu fyrir héraðsdómi að hann hafi vegna vanlíðunar og undanfarandi lyfjanotkunar ekki getað sinnt störfum sínum en staðið út vaktina. Hafi hann þó haldið sér frá því að stjórna flugumferðinni því hann hafi fundið að hann réði ekki við það. Gagnáfrýjandi mætti, að höfðu samráði við geðlækninn, aftur til starfa 9. sama mánaðar en allt fór þá á sama veg. Að frumkvæði Flugmálastjórnar gekkst gagnáfrýjandi undir ýmsar sálfræði- og læknisrannsóknir í framhaldi af þessu og var hann ekki að störfum á meðan. Hann mætti til viðtals hjá Eiríki Erni Arnarsyni trúnaðarsálfræðingi Flugmálastjórnar, sem ritaði ítarlegt bréf um viðtalið til trúnaðarlæknis stofnunarinnar 25. júlí 1984. Hann mætti einnig nokkrum sinnum til viðtals og til að gangast undir greindar- og persónuleikapróf hjá Sigurgísla Skúlasyni sálfræðingi, sem einnig ritaði ítarlega greinargerð um gagnáfrýjanda. Þá mætti hann til viðtals hjá Hannesi Péturssyni geðlækni, í ágúst 1984. Í bréfi sem þessi læknir ritar Flugmálastjórn 17. september 1984 kemur fram að hann hafi haft til skoðunar greinargerðir framangreindra sálfræðinga og ýmis læknisfræðileg gögn og upplýsingar. Í niðurlagi bréfsins segir meðal annars: „Það er álit undirritaðs, að Baldur Ágústsson fullnægi því ekki lengur ákvæðum heilbrigðisskilyrða Reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn. Ef Flugmálastjórn kemst að þeirri niðurstöðu að afturkalla beri flugumferðarstjóraskírteini Baldurs á þessum forsendum, væri eðlilegt að honum gæfist kostur á því að sækja aftur um slík réttindi að einu til tveimur árum liðnum, enda hafi þá læknismeðferð borið tilætlaðan árangur og aðstæður Baldurs breyst á þann veg, að ólíklegt sé að hann muni eiga við svipuð vandamál að stríða í náinni framtíð.“

Gagnáfrýjanda var ekki gerð grein fyrir efni þeirra gagna, sem þannig voru fengin. Í málinu liggur fyrir vottorð Högna Óskarssonar um að gagnáfrýjandi hafi verið orðinn vinnufær 19. júlí 1984.

Með bréfi flugmálastjóra til gagnáfrýjanda 25. september 1984 var flugumferðarstjóraskírteini hans afturkallað og vísað um það til gr. 7.6.5 í reglugerð nr. 301/1978 um skírteini gefin út af flugmálastjórn. Ástæður afturköllunar eru sagðar mæting hans á vaktir 1. og 9. júní sama árs, þá óvinnufær með öllu samkvæmt læknisvottorði frá 13. júní 1984. Bréfinu lýkur með svofelldum orðum: „Afturköllun þessi gildir a.m.k. meðan samgönguráðuneytið hefur mál yðar til meðferðar.“

Gagnáfrýjandi leitaði aðstoðar stéttarfélags síns og ritaði lögmaður þess bréf til samgönguráðuneytis 18. október 1984. Í bréfinu er þess óskað að ráðuneytið hlutist til um að gagnáfrýjanda yrðu greidd laun frá 1. júní 1984 og að felld yrði úr gildi ákvörðun flugmálastjóra um afturköllun á flugumferðarstjóraskírteini hans. Lögmaðurinn átti nokkra fundi með fulltrúum ráðuneytisins og er óumdeilt í málinu að samkomulag náðist um launagreiðslur til hans í samræmi við það sem krafist var og fóru þær fram sumarið 1985. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir að krafa hans um að felld yrði úr gildi afturköllun flugumferðarstjóraskírteinis hafi verið afgreidd efnislega. Greinir málsaðila á um það hvort greiðsla á launakröfunni hafi falið í sér fullnaðarsamkomulag um lyktir málsins eða ekki. Í bréfi lögmannsins segir einnig að ef ekki sé unnt að verða við kröfunum, sé þess óskað að honum verði gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum gagnáfrýjanda, en áður sé óhjákvæmilegt að fá að vita hvað honum sé gefið að sök og „hvaða skýrslur liggja fyrir hinu háa ráðuneyti um störf hans og annað það sem málinu er viðkomandi“. Þá kemur fram í lok bréfsins sá skilningur lögmannsins að flugumferðarstjóraskírteini gagnáfrýjanda hafi verið afturkallað ótímabundið.

Gagnáfrýjandi hafðist ekki frekar að, en leitaði sér meðal annars lækninga hjá erlendum geðlækni á fyrri hluta árs 1985 og var enn til meðferðar hjá honum þegar hann hóf málarekstur sinn gegn aðaláfrýjanda.

II.

Í málinu hefur gagnáfrýjandi uppi skaðabótakröfur, sem reistar eru á því að það sem hann nefnir uppsögn sína hafi ekki verið byggt á réttmætum sjónarmiðum og að hann hafi verið leyndur upplýsingum um að hann fullnægði ekki af heilsufarsástæðum skilyrðum til þess að hafa flugumferðarstjóraskírteini. Hafi hann af þessum ástæðum orðið af skírteinistryggingu, frjálsri hóptryggingu og greiðslum úr lífeyrissjóði allt frá sviptingu réttindanna. Að auki gerir hann kröfu um miskabætur.

Eins og rakið hefur verið reisti flugmálastjóri afturköllun á flugumferðarstjóraskírteini gagnáfrýjanda á gr. 7.6.5 í reglugerð nr. 301/1978, en í því ákvæði segir að Flugmálastjórn geti fyrirvaralaust afturkallað skírteini um tiltekinn tíma ef handhafi þess hefur sýnt í starfi sínu ábyrgðarleysi, skort á dómgreind og reynslu, vanrækslu eða gerst brotlegur á annan hátt. Ekki er unnt að fallast á það með gagnáfrýjanda að sannað sé að ástæður þess að skírteini hans var afturkallað hafi verið aðrar en fram komu í bréfi flugmálastjóra.

Þegar afturköllunin fór fram lágu fyrir niðurstöður sérfræðinga, sem rannsökuðu hann að frumkvæði Flugmálastjórnar. Meðal þeirra var niðurstaða Hannesar Péturssonar um að hann fullnægði ekki lengur heilbrigðisskilyrðum til þess að hafa slíkt skírteini, að minnsta kosti tímabundið. Missir flugumferðarstjóraskírteinis af heilsufarsástæðum gat veitt gagnáfrýjanda rétt til greiðslna úr svonefndri skírteinistryggingu samkvæmt skilmálum, sem ekki eru umdeildir í málinu og voru samningsbundinn hluti af starfskjörum flugumferðarstjóra. Við slíkar aðstæður voru einnig bundin önnur fjárhagsleg réttindi svo sem síðar verður rakið. Þessi fjárhagslegu réttindi vörðuðu mikla hagsmuni gagnáfrýjanda, sem var í raun í þeirri stöðu að hafa glatað einu af almennum starfsskilyrðum flugumferðarstjóra. Flugmálastjórn og samgönguráðherra bar að upplýsa hann um þá stöðu sem upp var komin. Verður aðaláfrýjandi að bera halla af því að flugmálastjóri og þeir starfsmenn samgönguráðuneytis sem um mál gagnáfrýjanda fjölluðu neita því að hafa séð skýrslur sérfræðinga um heilsufar hans, sem að þessu lúta. Athafnaleysi þetta var saknæmt og bakar aðaláfrýjanda skaðabótaskyldu. Að auki kemur hér til að afturköllun flugumferðarstjóraskírteinis var ekki markaður ákveðinn tími eins og framangreint reglugerðarákvæði kvað á um og að ljóst var af bréfi lögmanns gagnáfrýjanda frá 18. október 1984 að hann undi ekki afturkölluninni og krafðist endurskoðunar hennar. Ekkert liggur fyrir um afgreiðslu þeirrar kröfu hans af hálfu samgönguráðuneytisins, sem hafði málið til meðferðar. Verður ekki á það fallist með aðaláfrýjanda að greiðsla á fyrrgreindri launakröfu hafi falið í sér að gagnáfrýjandi félli frá kröfunni um endurskoðun afturköllunarinnar.

Samkvæmt framangreindu ber aðaláfrýjanda að bæta tjón gagnáfrýjanda sem rakið verður til hinnar bótaskyldu háttsemi.

 

III.

Aðaláfrýjandi heldur því fram, að þótt gagnáfrýjandi kunni að hafa öðlast kröfur til skaðabóta, hafi þær fallið niður vegna tómlætis hans. Fallast má á að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér mikið tómlæti um að neyta réttar síns. Ekki er þó á það fallist að það hafi þau réttaráhrif að skaðabótakröfur hans eigi að falla niður. Kemur þar til, að Flugmálastjórn og samgönguráðuneyti upplýstu hann ekki um réttarstöðu hans og að ósannað er að honum hafi verið um það kunnugt að hann ætti rétt til þeirra greiðslna sem hann krefur í málinu. Þá verður einnig að líta til þess að samkvæmt framlögðum gögnum átti hann við andlega vanheilsu að stríða á þeim tíma sem hér skiptir máli.

Þá heldur aðaláfrýjandi því fram að kröfur gagnáfrýjanda séu fyrndar.

Kröfur gagnáfrýjanda eru skaðabótakröfur og fyrnast á 10 árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Gagnáfrýjandi höfðaði upphaflega mál 23. september 1994 sem þingfest var 27. október sama árs, en því var vísað frá dómi 21. nóvember 1995. Hann höfðaði mál á ný 17. maí 1996. Telja verður að frestur sá sem leið frá áritun lögmanns aðaláfrýjanda á stefnu 23. september 1994, samkvæmt b lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og fram til þingfestingar 27. október sama árs, hafi ekki verið ónauðsynlega langur samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 og því hafi fyrning verið rofin við áritun lögmannsins á stefnuna. Verður því ekki talið að kröfur gagnáfrýjanda séu fyrndar.

IV.

Gagnáfrýjandi krefst skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir við það að fá ekki greiðslur úr fyrrnefndri skírteinistryggingu. Miðar hann fjárhæð kröfunnar við verðmæti vátryggingarfjár þessarar tryggingar 27. apríl 1995 samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, sem telja það nema 12.423.733 krónum. Rökstyður hann kröfu sína meðal annars með því að heimild sé fyrir því í 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 að miða skaðabætur við verðlag á öðrum tíma en þegar tjónsatvik varð.

Ekki verður fallist á að í 7. gr. vaxtalaga sé að finna sjálfstæða heimild til að verðtryggja skaðabótakröfur, þótt þar sé að finna ráðagerð um að skaðabótakrafa kunni að vera miðuð við verðlag á síðara tímamarki en þegar tjónsatburður varð. Verður að byggja á þeirri meginreglu að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim tíma er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Gagnáfrýjandi telur að það hafi verið 25. september 1984 og má fallast á að við það verði miðað.

Í samkomulagi samgönguráðuneytis og Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sem gilti frá 1. mars 1984 til ársloka 1985, eru meðal annars reglur um skírteinistryggingu þá sem hér um ræðir. Segir þar, að um sé að ræða grunntryggingu að upphæð 60.000 svissneskra franka, sem nái til 57 ára aldurs, en fari svo stiglækkandi og ljúki er 60 ára aldri sé náð. Viðbótartrygging sé að upphæð 60.000 svissneskra franka, sem nái til 50 ára aldurs, en fari svo stiglækkandi og ljúki við 55 ára aldur. Tryggingin taki að fullu til veikinda, sem eru af sálrænum uppruna eða af flogaveiki spunnin með sama hætti og til annarra veikinda. Gagnáfrýjandi var nýorðinn 40 ára þegar tjónsatvikið varð. Samkvæmt framanrituðu var tjón hans jafnvirði 120.000 svissneskra franka, en gengi á tjónsdegi 25. september 1984 var 13.2075, og er því tjónið að þessu leyti 1.584.900 krónur. Ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda þessa fjárhæð ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og síðar greinir, en vextir frá 25. september 1984 til 23. september 1990 eru fyrndir skamkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.

V.

Gagnáfrýjandi reisir skaðabótakröfur sínar einnig á því, að ef hann hefði fengið þær upplýsingar sem fyrir lágu um að hann hefði glatað skilyrðum til að hafa flugumferðarstjóraskírteini af heilsufarsástæðum, hefði hann átt rétt til bóta úr hópsjúkra- og hópslysatryggingu sem Félag íslenskra flugumferðarstjóra hafði tekið. Krefst hann skaðabóta að fjárhæð 2.839.663 krónur sem miðast við verðgildi bóta samkvæmt tryggingu þessari 27. apríl 1995 að áliti dómkvaddra matsmanna. Staðfest hefur verið að slík trygging var í gildi við starfslok gagnáfrýjanda og er ekki umdeilt að hann var einn vátryggðra samkvæmt henni. Samkvæmt 22. gr. skilmála þeirrar tryggingar skal vátryggingafélagið greiða bætur við starfsorkumissi sem vátryggður verður fyrir á annan hátt en við slys. Fyrir liggur matsgerð geðlæknanna Borghildar Einarsdóttur og Kristins Tómassonar frá febrúar 1999 þar sem þau komast að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi hafi verið óhæfur til að gegn flugumferðarstjórastarfi í september 1984. Frá þeim tíma til þess dags er matsgerðin er unnin hafi hann einnig verið óvinnufær til þess starfs vegna tilgreindra andlegra sjúkdóma. Telja verður meðal annars með hliðsjón af þessari matsgerð, sem vísar til fyrrgreinds álits Hannesar Péturssonar, að gagnáfrýjandi hefði uppfyllt skilyrði til greiðslu úr þessari tryggingu á þeim tíma sem hér skiptir máli og þá fengið bætur sem 25. september 1984 námu 368.000 krónum. Á hann rétt á bótum úr hendi aðaláfrýjanda vegna missis þessarar vátryggingabóta. Um vexti og fyrningu þeirra vísast til IV. kafla að framan.

VI.

Þá krefst gagnáfrýjandi skaðabóta vegna þess að hann hafi orðið af greiðslum á örorkulífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins allt frá sviptingu flugumferðarstjóraskírteinis. Miðar hann fjárhæð kröfunnar við tilgreint hlutfall af launum flugumferðarstjóra eftir réttindaávinnslu í lífeyrissjóðnum, en varakröfur við lægra hlutfall. Fram hefur komið að gagnáfrýjandi hefur staðið í miklum bréfaskiptum við lífeyrissjóðinn bæði um það hvaða réttindi hann eigi í sjóðnum og einnig um rétt hans til örorkulífeyris. Hefur lífeyrissjóðurinn hafnað því að hann geti átt rétt til örorkulífeyris vegna áranna 1985 til 1994 með þeim rökum að í 3. málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem sé efnislega samhljóða 13. gr. laga nr. 29/1963, sem áður giltu um sjóðinn, geti enginn átt rétt á örorkulífeyri meðan hann haldi fullum föstum launum fyrir starf það er hann gegndi eða fái jafnhá laun fyrir annað starf, sem veiti lífeyrissjóðsréttindi. Hefur komið fram sú afstaða lífeyrissjóðsins, að upplýsingar um launatekjur gagnáfrýjanda á framangreindu tímabili sýni að hann geti vegna þessa lagaákvæðis ekki hafa öðlast rétt til örorkulífeyris. Ekki verður séð að lífeyrissjóðurinn hafi endanlega hafnað kröfu um örorkulífeyri frá árinu 1995.

Af framangreindum ástæðum verður ekki talið sannað að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni sem hann krefst skaðabóta fyrir í þessum kröfulið. Er þeirri kröfu því hafnað.

VII.

Loks krefst gagnáfrýjandi miskabóta sem hann telur sig eiga rétt á til þess að fá bætta með peningum þá ómannúðlegu meðferð, sem hann telur sig hafa hlotið, þar sem sjálfstraust hans hafi verið brotið niður og honum ekki leiðbeint um sjúkdóm sinn heldur hafi hann verið leyndur mikilvægum upplýsingum, sem gert hefðu honum lífið léttara. Ekki verður talið að skilyrðum 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem í gildi var á þeim tíma sem hér skiptir máli, til að dæma miskabætur sé fullnægt í málinu og ber því að hafna þessum kröfulið.

VIII.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 1.952.900 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað, samtals 1.350.000 krónur í héraði og fyrir Hæstarétti og er þá tekið tillit til hluta þess útlagða kostnaðar sem gagnáfrýjandi hefur haft meðal annars vegna matsgerðar frá febrúar 1999.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Baldri Ágústssyni, 1.952.900 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. september 1990 til 21. maí 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 1.350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.


Sératkvæði

Garðars Gíslasonar og Péturs Kr. Hafstein

Það er óumdeilt, að flugmálstjóri kynnti gagnáfrýjanda þær ástæður til afturköllunar á flugumferðarstjóraskírteini hans í bréfi 25. september 1984, að hann hefði gerst brotlegur í starfi með því að mæta óvinnufær með öllu á vaktir 1. og 9. júní sama ár, sbr. læknisvottorð 13. júní 1984. Var vísað til gr. 7.6.5 í þágildandi reglugerð nr. 301/1978 um skírteini gefin út af flugmálastjórn, en þar segir, að flugmálastjóri geti fyrirvaralaust afturkallað skírteini um tiltekinn tíma, ef handhafi þess hefur sýnt í starfi sínu ábyrgðarleysi, skort á dómgreind og reynslu, vanrækslu eða gerst brotlegur á annan hátt. Í bréfinu sagði, að afturköllunin gilti að minnsta kosti á meðan samgönguráðuneytið hefði mál gagnáfrýjanda til meðferðar, en þangað hafði flugmálastjóri skotið því daginn áður til lokaákvörðunar. Þótt tímabundin afturköllun starfsréttinda flugumferðarstjóra leiði til þess, að hann geti ekki gegnt starfa sínum, jafngildir hún ekki lausn eða frávikningu úr stöðunni. Gagnáfrýjandi naut skipunar ráðherra til starfs síns og hann einn var bær til að veita honum lausn, sbr. III. kafla þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er því ljóst, að mál gagnáfrýjanda var ekki til lykta leitt með framangreindri ákvörðun flugmálastjóra.

Lögmaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra ritaði samgönguráðuneytinu bréf 18. október 1984 og óskaði þess, að gagnáfrýjanda yrðu greidd laun frá 1. júní sama ár samkvæmt lögum og kjarasamningum og felld yrði úr gildi afturköllun flugmálastjóra á flugumferðarstjóraskírteini hans. Í framhaldi þessa áttu lögmaðurinn og gagnáfrýjandi viðræður við ríkislögmann og deildarstjóra í samgönguráðuneytinu um málefni gagnáfrýjanda. Þeim viðræðum lauk með samkomulagi um launagreiðslur til gagnáfrýjanda fyrir tímabilið 1. júní til 25. september 1984. Ekki verður séð, að nokkrir fyrirvarar hafi verið gerðir við þetta samkomulag af hálfu gagnáfrýjanda. Í bréfi til ríkislögmanns 13. ágúst 1985 gerði lögmaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra kröfu um innheimtulaun af þessari launagreiðslu og setti fram þá athugasemd, að útreikningi launanna kynni að vera ábótavant. Frekari kröfur komu ekki frá lögmanninum eða stéttarfélaginu þá eða síðar. Gagnáfrýjandi sjálfur hófst ekki handa um kröfugerð á hendur aðaláfrýjanda fyrr en tæpum tíu árum eftir afturköllun skírteinisins.

Gagnáfrýjandi reisir skaðabótakröfu sína á því, að sér hafi verið meinaður aðgangur að gögnum í fórum flugmálastjórnar um geðheilsu sína, þar til mál hans var komið fyrir dómstóla, og hafi hann þannig orðið af tryggingabótum og örorkulífeyri. Er þá aðallega átt við skýrslu geðlæknis frá 17. september 1984, sem legið hafi fyrir við afturköllun skírteinisins og í raun verið ástæða hennar. Í skýrslunni kom fram það álit læknisins, að gagnáfrýjandi fullnægði ekki lengur ákvæðum heilbrigðisskilyrða reglugerðar nr. 301/1978. Hins vegar sagði jafnframt í skýrslunni, að yrði flugumferðarstjóraskírteini gagnáfrýjanda afturkallað væri eðlilegt, að honum gæfist kostur á að sækja aftur um slík réttindi að einum til tveimur árum liðnum, enda hefði læknismeðferð þá borið tilætlaðan árangur og ólíklegt teldist, að hann myndi eiga við svipuð vandamál að stríða í náinni framtíð. Engan veginn er unnt að líta svo á, að þessi skýrsla og hliðsjónargögn hennar hafi gefið tilefni til að ætla á þessum tíma, að veikindi gagnáfrýjanda myndu verða varanleg og hann ætti af þeim sökum rétt á greiðslu skírteinistryggingar samkvæmt kjarasamningi eða öðrum bótum. Getur matsgerð dómkvaddra geðlækna rúmum fjórtán árum síðar engu um þetta breytt. Þá verður heldur ekki talið sannað, að gagnáfrýjandi hafi verið leyndur efnisatriðum um niðurstöður sjúkdómsgreiningar, sem hann hafi ekki mátt gera sér grein fyrir. Í málinu er ekkert fram komið um það, að gagnáfrýjandi eða Félag íslenskra flugumferðarstjóra hafi eftir lok viðræðnanna við talsmenn aðaláfrýjanda leitað frekar eftir upplýsingum um niðurstöður umræddra læknisrannsókna eða sótt um greiðslu tryggingabóta.

Þegar atburðarás þessa máls er virt í heild er að okkar dómi óhjákvæmilegt að líta svo á, að gagnáfrýjandi hafi í reynd fallið frá kröfu sinni varðandi afturköllun flugumferðarstjóraskírteinisins og sætt sig við endalok starfa sinna hjá flugmálastjórn, enda sinnti hann jafnframt talsvert umfangsmiklum eigin atvinnurekstri, eins og lýst er í héraðsdómi. Sá langi tími sem leið, þar til gagnáfrýjandi hófst handa um kröfugerð á hendur aðaláfrýjanda, rennir styrkum stoðum undir þessa ályktun. Einnig er með öllu ósannað, að hann hafi ekki verið til þess fær af heilsufarslegum ástæðum í tæp tíu ár að gæta réttar síns með einhverjum hætti, ef um slíkt var að ræða. Jafnframt verður við það að miða, að gagnáfrýjanda hafi verið fullkunnugt um tryggingarvernd flugumferðarstjóra, enda naut hann aðstoðar lögmanns stéttarfélags þeirra. Það er því ekki unnt að fallast á, að starfsmenn aðaláfrýjanda hafi með saknæmu atferli eða athafnaleysi staðið í vegi þess, að gagnáfrýjandi fengi notið einhverra lögmætra réttinda, sem hann kynni að hafa átt tilkall til. Við teljum þannig ekki rétt að leggja fébótaskyldu á aðaláfrýjanda og beri að sýkna hann af öllum kröfum gagnáfrýjanda.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní  1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. maí sl., er höfðað fyrir dómþinginu af Baldri Ágústssyni, kt. 160944-2699, Þóroddsstöðum v/Skógarhlíð á hendur íslenska ríkinu, með stefnu þingfestri 21. maí 1996.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 31.678.280 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá þing­festingardegi til greiðsludags.

Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefn­anda 27.700.792 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum af 26.700.793 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags stefnu hinn 21. maí 1996, en af 27.700.793 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi varakröfu, sem hann kallar varakröfu (B) og krefst þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 24.780.241 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum af 23.780.241 krónu frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, 21. maí 1996, en af 24.780.241 krónu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá gerir stefnandi þá kröfu til vara, sem hann kallar varkröfu, (A-1) og krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 17.532.071 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum af 16.532.071 krónu frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, 21. maí 1996, en af 17.532.071 krónu frá þeim degi til greiðslu­dags.  Krafa stefnanda til vara, sem nefnd er varakrafa (A-2), er, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 16.949.130 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxta­lögum af 15.949.130 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardag, 21. maí 1996, en af 16.949.130 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Varakrafa stefnanda (B-1), er sú, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 17.218.375 krónur ásamt dráttarvöxtum af 16.218.375 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags, 21. maí 1996, en af 17.218.375 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara, samkvæmt kröfu (B-2), krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 16.784.876 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum af 15.784.876 krónum frá 27. maí 1995 til þingfestingardags stefnu, 21. maí 1996, en af 16.784.876 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautavara gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefnda verði gert að greiða stefn­anda skaðabætur að mati dómsins ásamt vöxtum frá 25. september 1984 og drátt­arvöxtum eins og krafist er í aðalkröfu.

Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda máls­kostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á mál­flutn­ingsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar sér til handa úr hendi stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að máls­kostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

II.

Stefnandi starfaði hjá Flugmálastjórn frá 1. desember 1963, lengst af sem flug­um­ferðarstjóri.  Hinn 25. september 1984 var stefnandi sviptur flugum­ferð­ar­stjóra­skír­teini sínu.

Árið 1969 stofnaði stefnandi einkafyrirtækið Vara, en fyrirtækið starfaði á sviði örygg­ismála.

Hinn 24. mars 1972 var stefnanda veitt áminning vegna óheimilaðra fjarvista frá starfi.

Hinn 5. maí 1983 ritaði flugmálastjóri samgönguráðuneytinu bréf, sem svar við fyrir­spurn ráðuneytisins um hvort rekstur stefnanda á fyrirtækinu Vara samrýmdist starfi hans sem flugumferðarstjóra.  Í bréfinu segir, að umsvif fyrirtækisins hafi aukist og það bitni á viðveru stefnanda og vinnutíma.  Flugmálastjóri leggur þar til að stefn­anda verði veitt leyfi til atvinnureksturs, enda stundi hann á engan hátt atvinnurekstur sinn í vinnutíma sínum hjá Flugmálastjórn.  Þá segir í bréfinu:„Því má svo bæta við að Baldur hefur lýst vilja sínum til þess að vinna að flugumferðarstjórn að sumri en vera í launa­lausu leyfi yfir vetramánuðina.  Það fyrirkomulag yrði tvímælalaust til hagsbóta fyrir flugmálastjórn.”

Þann 1. október 1983 fékk stefnandi launalaust leyfi frá störfum flug­um­ferð­ar­stjóra.  Hinn 1. júní 1984 mætti stefnandi á vakt, svo sem fyrirhugað var, en reyndist ekki vinnufær og tilkynnti hann veikindi það sem eftir var af vaktatímanum.  Stefn­andi mætti á næstu vakt, sem var 9. sama mánaðar, en tilkynnti veikindi.  Skilaði stefn­andi vottorði Högna Óskarssonar geðlæknis, dagsett 13. júní 1984, þess efnis að hann væri óvinnufær með öllu frá 29. maí 1984.  Hinn 19. júní sama ár var stefnandi orðinn vinnufær að nýju, samkvæmt vottorði sama læknis, og mætti stefnandi þá til starfa.  Stefnanda var þá gert að fara í læknisrannsókn á vegum flugmálastjóra, sem hann og gerði.

Í vottorði Eiríks Arnarsonar, trúnaðarsálfræðings flugmálastjóra, dagsettu 25. júlí 1984, vegna viðtals sem sálfræðingurinn átti við stefnanda hinn 23. júlí sama ár, segir svo m.a. : „Baldur kveðst hafa orðið fyrir tilfinningalegu áfalli upp úr páskum s.l.  Í kjöl­far þessa tilfinningalegu erfiðleika sem hann tíundaði ekki kveðst hann hafa fundið fyrir depurð sem hafi sótt að sér í köstum.  Hann segist hafa mætt á vakt 1. júní s.l. en verið meir alla vaktina með grátstaf í verkunum.  Hann hefði því ákveðið að taka sér frí út vaktina og næstu fjóra daga þar á eftir sem var vaktafrí en mætt í upp­hafi næstu vaktar.  Læknisvottorð kveðst hann hafa fengið hjá Högna Óskarssyni sem hann segist hafa gengið til undanfarna mánuði.  En þegar hann afhenti Valdimar Ólafs­syni það þá mun Valdimar hafa beðið hann að koma með annað vottorð þegar hann hæfi vinnu um það að hann væri vinnufær.  Eins og fyrr er getið mætti hann á aðra vakt en það var sem fyrr honum fannst hann ekki vera vel í stakk búinn til að hefja vinnu enda „dópaður af lyfjum”.  Það lyf sem hann segist vera á og sé á er Cerepax.  Eftir því sem ég bezt veit er Cerepax (Oxazepan) anxiolyt. lyf en ekki anti­depressant.  Það nær hámarks plasma consentration eftir tvo til fjóra tíma eftir inntöku og biologiskur helmingunartími er átta til fimmtán tímar.  Venjulega eru menn varaðir við að keyra bíl og stjórna tækjum á meðan þeir eru undir áhrifum þessara lyfja.

Þessi lyfjagjöf Högna bendir fremur til þess að Baldur muni hafa verið spenntur og kvíðinn en dapur og vekur ennfremur upp þær spurningar hvort hann teljist hæfur til að gegna störfum flugumferðarstjóra á meðan hann er á þessari lyfjameðferð.

Á meðan á þessum veikindum stóð var Högni í fríi en Baldur kveðst einu sinni hafa haft samband við Tómas Zoëga meðan Högni var í fríi og síðan hafi Baldur ákveðið að taka sér tveggja vikna frí til að ná sér betur og fór þá til Bandaríkjanna.

Þegar Baldur kom heim hafði hann samband við Högna og mun hann hafa mætt til vinnu 19. júlí s.l. með vottorð um að hann væri hæfur til vinnu.

Baldur kveðst hafa verið bitur út af því að vera legið á hálsi að hann misnotaði veik­indafrí sín og ekki skilja í því hvers vegna menn væru að rifja upp miklar fjar­vistir hjá sér vegna veikinda, allt að sex ár aftur í tímann.

Í viðtalinu var Baldur heldur dapur útlits en ekki var laust við að mér fyndist vera heldur grunnt á þeirri depurð og að leikaraskapur skini í gegn.  Hann virðist tala eins og hann gangi út frá því að það ætti að fara að segja sér upp störfum sem flug­um­ferð­arstjóra og talaði hann um það í hálfgerðum hálfkæringi, svona eins og honum væri það ekki eins leitt og hann vildi vera láta.

Mér virðast niðurstöður þess viðtals vera mjög í anda þeirra sem ég komst að 9. marz 1983.  Ég hygg að rétt sé að fara þess á leit við Högna Óskarsson að hann sendi lækna­bréf til að útskýra nánar í hverju veikindi Baldurs eru fólgin.

Það má minna á að Baldur hefur áður fengið læknisvottorð og í eitt sinn um að hann væri óvinnufær vegna streitu.  Ég hygg að svona framferði hafi mjög spillandi áhrif á vinnuumhverfi Baldurs og álitamál hvort mönnum eigi að geta haldist uppi svona hegðun þar eð hún getur talist slæm fyrirmynd.

Ekki hygg ég að Baldur vilji illt en að líkindum áttar hann sig ekki á að það eru full­mikil umsvif í lífi hans og að hann er að reyna að þjóna tveim herrum, sjálfum sér og flugmálastjórn.  Fyrirtæki hans hefur vaxið og dafnað og að líkindum er hann með hug­ann við það mjög oft en að líkindum vill hann einnig halda stöðu flug­um­ferð­ar­stjóra og þar rekst á illa samrýmanlegir hagsmunir sem óhjákvæmilega hafa mikla streitu í för með sér.

Ég held því að Baldur verði að velja í hvorn fótinn hann ætlar að stíga eða þá að flug­málastjórn taki af skarið fyrir hann.”

Í framlögðu bréfi Högna Óskarssonar geðlæknis, dagsettu 31 ágúst 1984, til Úlfars Þórðarsonar, yfirtrúnaðarlæknis flugmálastjórnar, segir svo: „Baldur Ágústsson hefur verið í meðferð hjá undirrituðum um nokkurt skeið vegna geðrænna vandamála, sem tengjast ákveðnum erfiðleikum í einkalífi hans.  Meðferð þessi hefur gengið vel og hefur Baldur að jafnaði verið í vel vinnufæru ástandi.  Hins vegar varð hann fyrir veru­legu áfalli á s.l. vori, sem gerði það að verkum að hann fékk kvíða og depurðar ein­kenni sem fóru vaxandi.

Þar eð Baldur var með leyfi frá störfum meðan það versta stóð yfir, þá reyndi ekki á það hvort hann væri fær um að vinna flugumferðarstjórnarstörf.  Hins vegar kom strax í ljós, þegar hann átti að hefja vinnu aftur við flugumferðarstjórn, að hann var haldinn verulegum kvíða og einbeitingartruflunum og þurfti því á róandi lyfi að halda.

Í ljósi ofangreinds, þá þótti ekki rétt að hann væri við vinnu í flugturninum.”

Í ódagsettu vottorði Sigurgísla Skúlasonar sálfræðings kemur fram að stefnandi hafi gengist undir greindar- og persónuleikapróf.  Niðurstaða greindarprófs sýnir að stefn­andi sé mjög vel gefinn en árangur hans hafi verið dálítið misjafn og stafi það af ein­beitingarörðugleikum og kvíða.  Niðurstaða persónuleikaprófsins hafi sýnt að stefnandi hafi verið svartsýnn á framtíðina, með vanmáttar- og minnimáttarkennd, og sekt­arkennd auk þess sem hann sé mjög kvíðinn og spenntur.

Að ósk flugmálastjórnar skoðaði Hannes Pétursson geðlæknir stefnanda og er vott­orð hans um þá skoðun dagsett 17. september 1984.  Í niðurstöðu þess vottorðs segir svo : „Af framangreindri geðrannsókn, fyrirliggjandi gögnum og niðurstöðu sál­fræði­prófa virðist helst mega ráða, að Baldur sé haldinn vægum persónu­leika­trufl­un­um, sem m.a. hafi lýst sér í aðlögunarvandamálum, félagslegri einangrun og end­ur­teknum sambúðarerfiðleikum.  Tilfinningavandamál, svo og vaxandi streita og álag, virðist koma fram í kvíða og depurðareinkennum ásamt á stundum líkamlegum óþæg­indum.  Að líkindum er þetta að hluta skýring á tíðum veikindafjarvistum Baldurs frá vinnu.  Ljóst er að undanfarna mánuði hafa þessi geðrænu einkenni orðið mun alvarlegri og einkum borið á þunglyndi og kvíða, sem er í samræmi við nið­ur­stöðu núverandi geðskoðunar og sálfræðilegra athugana.

Það er álit undirritaðs, að Baldur Ágústsson fullnægi því ekki lengur ákvæðum heil­brigðisskilyrða reglugerðar um skírteini útgefin af flugmálastjóra.  Ef flug­mála­stjórn kemst að þeirri niðurstöðu að afturkalla beri flugumferðarstjórnarskírteini Baldurs á þessum forsendum, væri eðlilegt að honum gæfist kostur á því að sækja aftur um slík réttindi að einu til tveimur árum liðnum, enda hafi þá læknismeðferð borið tilætlaðan árangur og aðstæður Baldurs breyst á þann veg að ólíklegt sé að hann muni eiga við svipuð vandamál að stríða í náinni framtíð.”

Í bréfi flugmálastjóra, dagsettu 24. september 1984 til samgöngu­mála­ráðu­neytisins kemur fram að stefnandi hafi haft tíðar fjarvistir úr vinnu vegna veikinda og þær fjarvistir verið langt yfir meðaltal hjá flugumferðarstjórum.  Síðar segir í bréfi þessu að með því að mæta óvinnufær til starfa hafi stefnandi „væntanlega brotið ákvæði rgl. nr. 301/1978 skv. 1.2.5.1., 1.2.6.1, 7.6.2, 7.6.4, ennfremur gegn lögum um loft­ferðir nr. 34/1964 skv. 179. gr., ennfremur hegningarlög nr. 19/1940 140. gr.  Eftir umfjöllun með Sigrúnu Ásgeirsdóttur launamáladeild og Gunnlaugi Claessen ríkis­lögmanni þykir framanritað atvik hjá Baldri Ágústssyni eiga við III. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954, en hann fjallar um lausn úr starfi.

Flugmálastjórn óskar lokaákvörðunar samgönguráðuneytisins í málinu.”

Með bréfi flugmálstjóra hinn 20. september 1984, krafði stéttarfélag stefnanda flug­málastjóra um vangreidd laun frá 1. júní 1984.  Í svarbréfi flugmálastjóra, dag­settu 25. september 1984, segir m.a.: „Baldur hefur aðeins mætt til vinnu í tvo daga frá því frí hans hófst, til dagsins í dag, og á því tæpast rétt á launum.  Úrlausn á máli þessu er nú til meðferðar í samgönguráðuneytinu að minni ósk”

Sama dag, eða 25. september 1984, ritaði flugmálastjóri stefnanda bréf, þar sem segir: „Hér með er flugumferðarstjóraskírteini yðar afturkallað, samkvæmt gr. 7.6.5 í reglu­gerð um skírteini gefin út af flugmálastjórn nr. 301/1978 og ber yður að skila því til loftferðaeftirlits Flugmálstjórnar.  Ástæða afturköllunar er mæting yðar á vaktir 1. og 9. júní s.l. þá óvinnufær með öllu samkvæmt læknisvottorði dags. 13. júní 1984.  Aftur­köllun þessi gildir a.m.k. meðan samgönguráðuneytið hefur mál yðar til með­ferðar.”

Hinn 18. október 1984 ritaði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður sam­göngu­ráðuneytinu bréf, þar sem krafist var greiðslu launa og að afturköllun skírteinis yrði felld úr gildi.

Hinn 6. desember 1984 sendi samgönguráðuneytið bréf til trúnaðarlæknis flug­mála­stjórnar, þar sem segir:„...ráðuneytið hafi nú til meðferðar málefni Baldurs Ágústs­sonar, flugumferðarstjóra, einkum mæting hans til vinnu við flug­um­ferð­ar­þjón­ustu Flugmálastjórnar dagana 1. og 9. júní 1984.

Samkvæmt vottorði Högna Óskarssonar geðlæknis, dags. 13. júní 1984, var Baldur óvinnufær með öllu tímabilið 29. maí 1984 – 13. júní 1984.  Þó staðfestir Valdimar Ólafsson, yfirflugumferðarstjóri með bréfi dags. 25. september þ.á., að Baldur hafi unnið dagvaktir sem varðstjóri í flugturni í Reykjavík dagana 1. og 9. júní sl.

Samkvæmt bréfi Flugmálastjórnar, dags. 24. september sl., tók Baldur lyf fram­an­greinda daga að forskrift læknis síns, Högna Óskarssonar, sem gerðu hann óhæfan til að starfa við flugumferðarþjónustu.

Með vísan til framanritaðs og ákvæðis loftferðalaga og reglugerðar um skírteini gefin út af Flugmálastjórn þar að lútandi fer ráðuneytið þess hér með á leit að þér, trún­aðarlæknir Flugmálastjórnar, hlutist til um öflun eftirfarandi viðbótagagna:

1.         Staðfestingu Eiríks Arnar Arnarssonar sálfræðings á því að Baldur hafi skýrt honum svo frá að hann neytti lyfja á tímabilinu og hver þau lyf hafi verið.  Ennfremur hvenær á umræddu tímabili lyfjanna hafi verið neytt.

2.         Vottorðs Högna Óskarssonar geðlæknis varðandi það hvaða upplýsingar hann gaf Baldri Ágústssyni um það hvaða áhrif og hliðarverkanir lyfið hafði.

Ennfremur hvort Högna Óskarssyni hafi verið ljóst að Baldur hygðist mæta til vinnu sinnar dagana 1. og 9. júní sl.”

Svarbréf Högna Óskarssonar til samgönguráðuneytisins, er dagsett 10. janúar 1985.  Þar segir m.a.:„ Einkenni þau, sem Baldur fékk vegna áfalls í einkalífi sínu í apríl sl., fóru rénandi fram eftir maí, þó með nokkrum sveiflum.  Í viðtali þann 29. maí, var Baldri ráðlagt að hefja vinnu við flugumferðarstjórn þann 1. júní, sem hann og gerði.  Hins vegar fann Baldur á fyrsta vinnudegi sínum, að hann gat ekki einbeitt sér eins vel og hann taldi æskilegt, og tók hann því þann kost að bíða enn í nokkra daga með að hefja vinnu.  Undirritaður ræddi aftur við Baldur þann 5. júní og var fallist á að ákvörðun Baldurs hefði verið rétt, sérstaklega þar sem atvik höfðu gerst í einka­lífi hans, sem ýfðu upp einkennin.

Þessi einkenni voru þó aftur í rénun í ofangreindu viðtali, og varð það því ráð undir­ritaðs til Baldurs að hann hefði vinnu á nýjan leik þann 9. júní.  Gerði hann það, en fann þá fyrir sömu erfiðleikum og áður.  Ákvað hann því að halda áfram veik­inda­leyfi sínu.

Í viðtali okkar þann 12. júní var þetta rætt og var það þá mat mitt, að Baldur hefði brugðist við á fyllilega ábyrgan hátt.  Var í framhaldi af því veikindavottorð til handa Baldri gefið út og látið gilda frá því um mánaðamótin maí/júní, þó svo að Baldur hafi mætt til vinnu þann 1. og 9. júní.  Segja má að ónákvæmni hafi gætt í vottorðinu, þar eð Baldur var í raun vinnufær þá 2 daga, sem hann mætti til vinnu.  Í þessu efni er ein­ungis við undirritaðan að sakast.

Lyfjanotkun Baldurs í þessum vanda var ekki mikil.  Hann hafði notað tabl. Sesepax 15 mg. 0-45 mg. á dag og fór magn eftir ástandi hans.  Baldri var kunnugt um verkanir og hliðarverkanir þessa lyfs.  Undirrituðum er ekki kunnugt um, að Baldur hafi neytt lyfjanna þá 2 daga, sem um er að ræða í júní.  Þegar ljóst var, að einkenni hans voru að taka sig upp aftur og að stöðugra lyfjameðferðar væri þörf, þá var það sam­komulag okkar, að hann tæki sér veikindafrí þar til að hann hefði náð sér betur.

Af ofangreindu er ljóst, að hér hefur hvergi verið farið út fyrir þann ramma, sem heil­brigðisákvæði reglugerðar um starf flugumferðarstjóra kveða á um, og er ekki annað að sjá, en að Baldur hafi tekið fyllilega ábyrga afstöðu í þessum málum.”

Í málinu liggur ekki frammi svarbréf Eiríks Arnar Arnarssonar.

Hinn 19. september 1995 ritaði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður nú­ver­andi lögmanni stefnanda bréf, þar sem hann lýsir afskiptum sínum af máli stefn­anda, en hann hafði verið fenginn til þess af Félagi flugumferðarstjóra.  Í bréfi hans kemur fram, að hinn 18. október hafi hann ritað ráðuneytinu bréf, þar sem krafist var að stefnanda yrðu greidd laun frá 1. júní 1984 eins og lög og kjarasamningar geri ráð fyrir og að samgönguráðherra felldi úr gildi ákvörðun flugmálastjóra um afturköllun á flug­umferðarstjóraskírteini stefnanda.  Nokkrir fundir hafi verið haldnir um málið.  Á fundi með fulltrúum ráðuneytisins hinn 17. maí 1985 hafi verið tilkynnt sú ákvörðun sam­gönguráðherra, að stefnandi lyki störfum hjá Flugmálstjórn og þeim hefði verið falið að semja um starfslok.  Þær skýringar hefðu verið gefnar, að mikið hefði verið um fjarvistir hjá stefnanda og að hann hefði mætt til vinnu 1. júní og 9. júní 1984 þrátt fyrir að vera algjörlega óvinnufær.  Þessu hafi verið mótmælt og vísað til viðeigandi lækn­isvottorða.  Hafi jafnframt verið tilkynnt, að ef ekki semdist um starfslok yrði stefn­anda sagt upp störfum.  Á fundi hinn 5. júní 1985 hafi lögmaðurinn lýst því yfir, að nauðsynlegt væri að fá afstöðu ráðuneytisins til þess hvaða læknisfræðileg gögn yrðu afhent, til þess að unnt væri að leysa málið.  Hefði lögmaðurinn gagnrýnt það að leynd væri yfir þessum gögnum og að greiðslur færu ekki fram á þeim launum, sem viður­kennt væri að væru í vanskilum.  Fulltrúarnir hafi viðurkennt að greiða ætti stefn­anda laun fyrir tímabilið júní til september 1984.  Á fundi hinn 11. júní 1985 hafi verið tilkynnt að ráðherra hefði ákveðið að veita ekki aðgang að læknagögnum og þar sem það væri forsenda fyrir framhaldsviðræðum af hálfu stefnanda liti ráðuneytið svo á að stefnandi hefði slitið viðræðunum.  Fulltrúar ráðuneytisins hafi staðhæft, að stefnanda hefði verið sagt upp vegna lyfjanotkunar og andlegs ástands hans.  Stefnanda hafi verið greidd laun fyrir tímabilið júní-september 1984 og hafi það verið gjald­fallin laun í vanskilum, en ekki lokagreiðsla.  Lögmaðurinn segir og í bréfi sínu, að það hafi ætíð verið lögð á það megináhersla á fundum með starfsmönnum ráðu­neyt­isins, að í þeim læknagögnum, sem honum hafi verið meinaður aðgangur að kynni að felast réttlæting kröfu um útborgun skírteinistryggingar.  Greiðsla launa hafi verið án tillits til skaðabótakröfu stefnanda, annað hvort skírteinistryggingar eða launa í tiltekinn tíma.

Í málinu liggur og frammi vottorð Stephans M. Remen, læknis í New York, dagsett 10. október 1994.  Vottar hann þar, að stefnandi hafi leitað til hans í janúar 1985 vegna kvíða og þunglyndis og að stefnandi hafi síðan haldið áfram sálfræðilegri með­ferð sem standi enn.  Þá kemur þar og fram, að læknirinn hafi ráðlagt stefnanda að bíða eins lengi og unnt væri „með að grípa til lagalegra aðgerða vegna málsins.”

Hinn 18. nóvember 1998 voru dómkvaddir geðlæknarnir Borghildur Einarsdóttir og Kristinn Tómasson, til þess að meta hvort stefnandi hafi verið hæfur af heilsu­fars­ástæð­um til að starfa við flugumferðarstjórn frá 17. september 1984 til dagsins í dag.  Mats­gerð þeirra liggur frammi í málinu og er hún dagsett í febrúar 1999.  Í niðurstöðu þeirrar matsgerðar segir svo: „ Að okkar mati var Baldur óhæfur af heilsufarsástæðum til að starfa sem flugumferðarstjóri þegar honum var vikið frá störfum í sept. 1984 og er það í samræmi við álit Hannesar Péturssonar geðlæknis frá þessum tíma.

Frá þeim tíma og til þessa dags hefur hann að okkar mati einnig verið óvinnufær til þessa starfs vegna kvíðasjúkdóms og endurtekinna tímabila alvarlegs þunglyndis.  Er það álit byggt á sögu Baldurs, sem hann gefur í viðtali og er stutt niðurstöðum tölvu­greiningarviðtals og með viðtali við geðlækni hans.  Miðað við gang veikinda Baldurs fram til þessa er mjög ólíklegt að hann fái fullan bata af sínum geðsjúkdómi.

Í ljósi þessa er ekki fyrirsjáanlegt að Baldur geti snúið aftur til fyrri starfa sem flug­umferðarstjóri.”

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um bætur vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna uppsagnar úr starfi flugumferðarstjóra og sviptingar flugum­ferðarstjóraskírteinis.  Málið var höfðað með stefnu 17. maí 1996 og þingfestri 21. sama mánaðar.  Máli þessu var vísað frá dómi með úrskurði dagsettum 10. apríl 1997.  Þeim úrskurði var hnekkt með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 12. maí 1997 og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Stefnandi hafði áður af sama tilefni höfðað mál á hendur stefnda, en því máli var vísað frá dómi 21. nóvember 1995.  Við aðalmeðferð í því máli gáfu skýrslu stefnandi málsins, Hannes Pétursson, geðlæknir, Þórður Adólfsson, fyrrverandi flug­um­ferð­ar­stjóri, Hörður Diego Arnórsson, fyrrverandi flugumferðarstjóri og Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri og liggur endurrit þeirra skýrslna frammi í máli þessu.

Við aðalmeðferð máls þessa gáfu skýrslu, auk stefnanda, matsmennirnir Borghildur Einarsdóttir, geðlæknir og Kristinn Tómasson, geðlæknir, matmennirnir Helgi Sigurðsson, hdl. og Ragnar Þ. Ragnarsson, tryggingastærðfræðingur, sem dóm­kvaddir voru til að meta meint fjárhagslegt tjón stefnanda, auk þess sem Valdimar Ólafs­son, fyrrverandi yfirflugumferðarstjóri gaf skýrslu.

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að uppsögn stefnanda hafi ekki verið byggð á rétt­mætum sjónarmiðum.  Heldur stefnandi því fram, að niðurstaða frá­vís­un­ar­úr­skurðar Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 21. nóvember 1995 í málinu nr. 7955/1994, sem var milli sömu aðila, sé bindandi um þennan þátt málsins og því eigi einungis eftir að dæma um fjárhæðir. 

Stefnandi hafi orðið af skírteinistryggingu, frjálsri hóptryggingu og greiðslum úr líf­eyrissjóði allt frá sviptingu skírteinisins.  Engar þeirra greiðslna skarist, þar sem þær hefðu átt að greiðast óháð hver annarri.  Upplýsingum hafi verið leynt fyrir stefn­anda og því hafi réttur hans ekki orðið ljós fyrr en raun varð á.  Stefnandi hafi af þeim sökum hvorki tapað rétti fyrir tómlæti, en réttarsambandi aðila hafi ekki lokið fyrr en 25. september 1984, né vegna fyrningar með vísan til 7. gr. laga nr. 14/1905.

Stefnandi byggir aðal- og varakröfu sína á útreikningum Jóns Erlings Þorláks­sonar, tryggingafræðings, á því hvert tjón stefnanda hafi verið miðað við 21. maí 1996, sem stefndi beri ábyrgð á. 

Stefnandi heldur því fram að samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 leiði, að krafan eins og hún sé sett fram í stefnu sé eðlileg og sjálfsögð.  Það komi því ekki til greina að reikna t.d. óverðtryggða sparisjóðsvexti enda eigi frekar við sjónarmið um refsivexti í málinu, en sjónarmið um frjálsan sparnað.

Stefnandi kveðst setja fram miskabótakröfu í því skyni að freista þess að stefnandi fái bætta með peningum þá ómannúðlegu meðferð sem hann hafi hlotið, þar sem sjálfstraust hans hafi verið brotið og honum ekki leiðbeint um sjúkdóm sinn.  Stefnandi hafi verið leyndur mikilvægum upplýsingum sem hefðu getað létt honum lífið allt frá 25. september 1984.  Fjárhæðinni sé stillt í hóf, enda standi íslensk dóm­venja ekki til annars.

Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína á eftirfarandi hátt í stefnu:

A.           Vegna svokallaðrar skírteinistryggingar 14.624.900 krónur.

B.            Vegna hóptryggingar 3.405.500 krónur.

C.            Vegna ógreidds lífeyris í 140 mánuði, þ.e. frá 1. október 1984 til þingfestingardags, sem verið hafi á launakjörum þess dags 41,66% af 212.937 krónum, fastalaunum, eða 88.710 krónur á mánuði auk 1.632 krónur af vaktaálagi, eða 90.342 krónur á mánuði, alls 12.647.880 krónur, sem gerð sé krafa um að greitt verði í einu lagi.

D.           Miskabætur 1.000.000 krónur.

Varakröfur sínar hefur stefnandi sundurliðað með eftirfarandi hætti:

Varakrafa (A), 27.700.792 krónur.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

11.392.377 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af.

Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 40.958% af við­mið­un­ar­laun­um flugumferðarstjóra.

1.000.000 krónur í miskabætur.

Varakrafa (B), 24.780.241 krónur.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

8.471.825 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af.  Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 30,458% af viðmiðunarlaunum flug­umferðarstjóra.

1.000.000 krónur í miskabætur

Þá hefur stefnandi sett fram það sem hann kallar nýjar útfærslur varakrafna með eftirfarandi hætti:

Varakrafa (A-1) 17.532.071 krónur.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

1.223.655 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af.  Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 40,985 % af viðmiðunarlaunum flugumferðarstjóra.

1.000.000 krónur í miskabætur.

Þessi útfærsla miðist við að stefnandi fái úr lífeyrissjóði það sem vanti á að hann nái flugumferðarstjóralaunum eftir að tekið hafi verið tillit til launa eða reiknaðra launa hans (ekki heildartekna).  Tímabili krafinna bóta sé skipt niður í almanaksár.

Varakrafa (A-2) 16.949.130.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

640.714 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af.  Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 40,958% af viðmiðunarlaunum flugumferðarstjóra.

1.000.000 krónur í miskabætur.

Þessi útfærsla sé miðuð við að stefnandi fái úr lífeyrissjóði það sem vanti á að hann nái flugumferðarstjóralaunum eftir að tekið hafi verið tillit til heildartekna hans.  Tíma­bili krafinna bóta sé skipt niður í almanaksár.

Varakrafa (B-1) 17.218.375 krónur.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

909.959 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af. 

Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 30,458% af við­mið­un­ar­laun­um flugumferðarstjóra.

Þessi útfærsla miðist við að stefnandi fái úr lífeyrissjóði það sem vanti á að hann nái flugumferðarstjóralaunum eftir að tekið hafi verið tillit til launa eða reiknaðra launa hans (ekki heildartekna).  Tímabili umkrafinna bóta sé skipt niður á almanaksár.

Varakrafa (B-2) 16.784.876 krónur.

12.423.733 krónur vegna skírteinistryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

2.884.683 krónur vegna frjálsrar hóptryggingar, sem stefnandi hafi orðið af.

476.460 krónur vegna lífeyrisgreiðslna, sem stefnandi hafi orðið af.  Miðað sé við niðurstöður dómkvaddra matsmanna og 30,458% af viðmiðunarlaunum flug­um­ferð­arstjóra.

Þessi útfærsla sé miðuð við að stefnandi fái úr lífeyrissjóði það sem vanti á að hann nái flugumferðarstjóralaunum eftir að tekið hafi verið tillit til heildartekna hans.  Tímabili krafinna bóta sé skipt niður á almanaksár.

Um lagarök vísar stefnandi einnig til almennu skaðabótareglunnar.

IV.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að krafa stefnanda um skír­tein­is­trygg­ingu sé löngu fyrnd samkvæmt 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátrygg­inga­samn­inga.  Fyrningartími kröfunnar sé fjögur ár, en stefndi telur skírteinistryggingu þessa falla undir fyrrgreinda 29. gr. annað hvort beint eða með lögjöfnun.  Um sé að ræða trygg­ingu, sem samið hafi verið um í kjarasamningum, en hafi áður verið keypt á frjáls­um tryggingamarkaði.  Verði ekki fallist á að krafa stefnanda eigi undir nefnt ákvæði laga nr. 20/1954, fyrnist krafan sem launakrafa á fjórum árum, þ.e. lífeyris­greiðsla sam­kvæmt sérstökum ákvæðum kjarasamninga, sbr. 2.tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrn­ingu skulda og annarra kröfuréttinda.

Beri að skilja kröfu stefnanda sem skaðabótakröfu, verði að telja kröfuna fyrnda sam­­kvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 11. gr. sömu laga, þar sem stefnufrestur hafi verið ónauðsynlega langur þegar málið hafi verið höfðað hinn 23. september 1994.  Stefn­andi hafi ekki þingfest málið fyrr en 27. október 1994, en þá hafi verið liðin meira en tíu ár frá afturköllun skírteinis hans. 

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um svokallaða skírteinistryggingu.  Kröfur stefn­­anda um svokallaða hópsjúkra- eða hópslysatryggingu og um ógreiddan lífeyri séu stefnda óviðkomandi.  Annars vegar sé um að ræða frjálsa hóptryggingu Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sem félagið muni hafa samið um við Almennar trygg­ing­ar hf.  Hins vegar virðist krafa stefnanda byggð á ógreiddum örorkulífeyri, sbr. 11. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.  Á stefnda hvíli hvorki skylda til að greiða frjálsar tryggingar né örorkulífeyri og krefjist stefndi því sýknu á grund­velli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á þá málsástæðu stefnda um aðildarskort vegna svokallaðrar hóp­tryggingar byggir stefndi á því, að krafa um hóptryggingu sé fyrnd eftir ákvæðum 29. gr. laga nr. 20/1954 og kröfur stefnanda um lífeyri samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Kröfur stefnanda, sem verið hafi fyrndar við fyrri málshöfðun, séu einnig fyrndar nú.

Stefndi byggir á því, að bindandi samkomulag hafi komist á milli aðila vegna starfs­loka stefnanda.  Stefnandi hafi farið fram á að honum yrðu greidd laun frá 1. júní 1984 til þess dags er réttindi stefnanda voru afturkölluð.  Stefndi hafi innt af hendi þá greiðslu og hafi það verið endanlegar og umsamdar lyktir á starfi stefnanda sem flug­umferðarstjóra.  Þessu til stuðnings vísar stefndi til bréfs fyrrum lögmanns stefn­anda, en þar segi:„Samkvæmt samkomulagi aðila, Baldurs Ágústssonar annars vegar og sam­gönguráðherra f.h. flugmálastjóra hins vegar var gert samkomulag þess efnis, að þér greidduð umbj. m., Baldri Ágústssyni, full og óskert laun á tímabilinu júní, ágúst, september 1984.  Með óskertum launum var átt við laun þau, sem hann myndi hafa fengið, ef hann hefði unnið fyrrgreinda mánuði á tíðkanlegan hátt.”  Í bréfinu sé enginn fyrirvari gerður um frekari eftirmála, nema að því er varði endurútreikning á launum fyrir mánuðina fjóra sem samið hafi verið um vegna starfslokanna.  Með vísan til almennra reglna kröfuréttar og samningsréttar um skuldbindingargildi samninga, sé stefnandi bundinn við samkomulagið.  Krafa stefnanda á hendur stefnda sé andstæð fyrr­greindum samningi og eigi þar af leiðandi ekki við rök að styðjast.  Endanleg starfs­lok stefnanda hafi orðið á grundvelli 3. tl. 4. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem um þau hafi verið samið.  Stefnandi hafi síðan snúið sér að rekstri einkafyrirtækis síns, Vara, sem hann hafi byrjað að reka löngu áður en skírteini hans hafi verið afturkallað.  Hann hafi ekki mætt til vinnu eftir að leyfi frá störfum lauk utan tveggja daga, enda þótt hann hafi verið orðinn vinnufær sam­kvæmt læknisvottorði Högna Óskarssonar, dagsettu 19. júlí 1996.

Þá telur stefndi að tómlæti stefnanda hljóti í öllum tilvikum að leiða til þess að kröfur hans séu fallnar niður, einkum í ljósi þess að svo langt sé liðið síðan endanlega hafi verið gengið frá starfslokum stefnda.  Stefnandi hafi ekki gert reka að erindi því sem málssókn hans byggi nú á, frá því að máli hans hafi lokið með aðstoð lögmanns.  Stefndi mótmælir því, að erfiðleikar í einkalífi sem stefnandi beri fyrir sig, geti afsakað hann frá því að halda við kröfu sinni.  Stefndi mótmælir framlögðu bréfi Stephans M. Remen, dagsettu 10. október 1994, sem röngu og óstaðfestu.  Í bréfinu sé ekki að finna nein læknisfræðileg rök heldur virðist álit hans byggt á sleggjudómum um íslensk stjórnvöld, án kunnugleika við málsatvik.  Stefndi telur stefnanda hafa verið fullfæran um að sinna kjaramálum sínum meðan þau hafi verið til meðferðar hjá sam­gönguráðuneytinu og æ síðan.

Stefnandi hafi frá upphafi notið aðstoðar lögmanns svo og stéttarfélags síns.  Stefn­anda hafi aldrei verið meinaður aðgangur að gögnum um læknisrannsóknir.  Stefnandi hafi fyrst óskað eftir þeim gögnum, í tengslum við fyrri málarekstur sinn, tæpum tíu árum síðar og hafi þá verið orðið við þeirri beiðni.  Sökum þess mótmæli stefndi að ákvæði 7. gr. laga nr. 14/1905 geti átt við um kröfur stefnanda.  Stefnanda hafi að sjálfsögðu verið fullkunnugt um að hann sætti rannsókn og hafi hlotið að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um það hvort hann hafi uppfyllt nauðsynlegar heil­brigð­iskröfur til starfa sem flugumferðarstjóri samkvæmt reglugerð nr. 301/1978, um skír­teini útgefin af Flugmálastjórn, sbr. nú ákvæði reglugerðar nr. 344/1990.  Þá hafi stefnandi getað leitað til sérstakrar kærunefndar til að láta meta heilbrigði sitt.  Stefndi hafi ekki gert tilraun til að fá úr því skorið, hvort stefnandi uppfyllti nauðsynlegar heil­brigðiskröfur.  Stefnandi, sem flugumferðarstjóri til margra ára, hafi vitað um reglur viðvíkjandi heilbrigðisvottorði útgefnu af Flugmálastjórn.

Stefndu telja óraunhæft að afskiptum fyrrverandi lögmanns stefnanda af starfs­lokum stefnanda hafi lokið, en erindisrekstur stefnanda sjálfs, að fá skírteini sitt í gildi aftur, hafi sjálfkrafa haldið áfram, án sérstakrar beiðni eða eftirgrennslan stefnanda.  Við svo búið, að samkomulag hafi legið fyrir um starfslok stefnanda, telja stefndu ein­sýnt að kröfur stefnanda séu liðnar undir lok sökum tómlætis hans.

Stefndu byggja á því, að dómkröfur stefnanda séu ekki í samhengi við mála­til­búnað hans.  Hafi stefnandi átt rétt á bótum samkvæmt ákvæðum kjarasamnings um skír­teinistryggingu, miðað við tilvitnaða DIC-skilmála, hafi það hlotið að vera vegna sann­anlegra langvarandi veikinda, sem hafi gert stefnanda ókleift, um ókomna fram­tíð, að stjórna flugumferð, og þar eð hann hefði í því tilviki misst starfsgengisskilyrði sam­kvæmt 2. tl. 4. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. sömu laga og ákvæða laga nr. 34/1964, um loftferðir, svo og reglu­gerð nr. 301/1978, um skírteini, gefin út af flugmálastjórn, sbr. núgildandi reglu­gerð um sama efni nr. 344/1990, með síðari breytingum.  Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn, sem geti orðið grundvöllur til útborgunar skírteinistryggingar eða annars konar trygginga.

Stefnandi virðist höfða mál þetta til greiðslu skaðabóta, en reikni þær út eftir ákvæðum kjarasamninga flugumferðarstjóra, sbr. tilvitnaða DIC-skilmála, um skír­tein­istryggingar.  Slík krafa sé ekki í neinum tengslum við sakarefni málsins eins og stefn­andi lýsi því.  Stefndi mótmælir bótagrundvelli í málinu um að bótafjárhæð vegna ætlaðs tjóns stefnanda hljóti að vera hin sama og nemi nefndum trygg­inga­bótum.  Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á neitt tjón sem afleiðingu af ætlaðri bóta­skyldri háttsemi stefndu.  Stefndu benda sérstaklega á, að samkvæmt 5. mgr. 4. gr. kjara­samninga samgönguráðuneytisins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra hefði stefnandi þurft að endurgreiða slíkar bætur hefði hann fengið flug­um­ferð­ar­stjóra­skír­teini sitt að nýju.  Þegar af þeirri ástæðu sé málatilbúnaður stefnanda ekki í rök­rænu samhengi.

Stefndu byggja á því, að lausn stefnanda frá störfum hafi verið fullkomlega lög­mæt og réttmæt.  Flugumferðarstjóraskírteini stefnanda hafi verið afturkallað hinn 25. september 1984.  Ástæður þess hafi verið þær, að stefnandi hafi mætt til vinnu sem flug­umferðarstjóri í tvo daga, en samkvæmt framvísuðu læknisvottorði hafi hann verið talinn óvinnufær.  Enn fremur hafi verið upplýst að stefnandi hafi þá mætt undir áhrifum lyfja. 

Stefnanda hafi verið veitt áminning vegna tíðra fjarvista.  Verði að ætla, að fjar­vistir stefnanda hafi verið umfram það skilyrði flugmálastjóra, að rekstur fyrirtækisins kæmi ekki niður á starfi stefnanda sem flugumferðarstjóra.

Stefnandi hafi sýnt af sér gróflegt ábyrgðarleysi með því að mæta óvinnufær og undir áhrifum lyfja við flugumferðarstjórn og hverfa síðar frá störfum.  Telur stefndi að bæði rétt og skylt hafi verið að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini stefnanda tíma­bundið, sbr. ákvæði þágildandi reglugerðar nr. 301/1978, einkum greinar 1.2.5.1., 1.2.6.1., 7.6.2, 7.6.4. og 7.6.5.  Þá hafi stefnandi sýnt af sér slíkt ábyrgð­ar­leysi að varðað hafi hann refsingu samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 34/1964 og 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 119/1940.  Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi talið sig vinnufæran þá daga sem hann hafi mætt til vinnu eða 1. og 9. júní 1984, enda standist slík fullyrðing ekki í ljósi framlagðs læknisvottorðs, sem stefnandi hafi fram­vísað hinn 14. júní sama ár, en vottorðið hafi verið gefið út daginn áður.  Þegar fram­angreindum ákvæðum loftferðalaga og reglugerða um skírteini útgefnum af flug­um­ferðarstjórn sleppir var lausn stefnanda fyllilega í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/1954.

Stefndi mótmælir því að afturköllun á réttindum stefnanda hafi verið sögð ótíma­bundin.  Þvert á móti hafi afturköllunin verið tímabundin meðan samgönguráðuneytið hafi haft mál stefnanda til meðferðar.  Því máli hafi lokið með fyrrgreindu sam­komu­lagi, án sérstakra athugasemda af hálfu stefnanda eða frekari erindisreksturs.  Stefn­anda hafi verið fullkunnugt um að ástæður afturköllunarinnar á skírteini hans hafi verið lyfjanotkun stefnanda á vakt.  Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda, að flugmálastjóri hafi ætlað að losa sig við veikan starfsmann í þeim tilgangi að losna undan greiðslu skírteinistryggingar.  Flugmálastjóra hafi ekki verið kunnugt um rann­sóknir lækna á heilbrigði stefnanda, nema að því leyti að stefnandi hafi mætt undir áhrifum lyfja.  Flugmálastjóra hafi ekki verið kunnugt um það hvort stefnandi teldist þá eiga rétt á skírteinistryggingu eða ekki.  Ekki hafi legið fyrir niðurstaða Flug­mála­stjórnar um það hvort stefnandi fullnægði ekki lengur skilyrðum til að fá útgefið heil­brigð­isvottorð.

Stefnandi hafi aldrei sóst eftir því að fá greidda skírteinistryggingu, þótt hann hefði gengist undir rannsóknir og hægur vandi hefði verið fyrir hann að fá niðurstöður þeirra um það hvort hann uppfyllti heilbrigðiskröfur eða ekki.  Stefndi hafnar því að erfið­leikar í einkalífi stefnanda hafi skapað honum rétt til fyrrnefndrar skírtein­is­trygg­ingar.  Stefnandi hafi hvorki fyrr né síðar framvísað læknisvottorðum eða gögn­um, sem gæfu til kynna að sjúkdómur, sem félli undir ákvæði kjarasamninga um skír­tein­istryggingu, hafi aftrað stefnanda varanlega frá því að stjórna flugumferð.  Bendi allt til þess að um tímabundna erfiðleika hafi verið að ræða, sbr. vottorð Högna Óskars­sonar geðlæknis.  Í skýrslu Eiríks Arnar Arnarsonar sálfræðings segi að gegn­um depurð stefnanda hafi skinið leikaraskapur og sé streita hans tilkomin af því að hann hafi reynt að þjóna tveimur herrum, Flugmálastjórn og einkafyrirtæki sínu.  Skýrslum sálfræðinga beri alls ekki saman um heilsufar stefnanda þannig að unnt sé að kveða upp úr um það hvort skilyrði hafi nokkurn tíma verið til greiðslu skír­tein­is­trygg­ingar.  Þá séu engin gögn í málinu, sem styðji það að stefnandi hafi átt rétt til ör­orku­lífeyris, sbr. 13. gr. laga nr. 29/1963.  Þvert á móti hafi stefnandi haft fulla starfs­orku undanfarin ár og verið forstjóri einkafyrirtækis síns.

Stefndi mótmælir því að forsendur héraðsdómsmálsins nr. E-7955/1994 geti verið bind­andi og aðeins eigi eftir að dæma um fjárhæð.  Því máli hafi verið vísað frá dómi og lok þess máls séu því ekki dómur í skilningi 116. gr. laga nr. 91/1991 og því ekki efnis­leg niðurstaða á kröfum stefnanda.  Teljist sú niðurstaða hafa res judicata áhrif verði að vísa máli stefnanda frá dómi nú í ljósi 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Varakröfu sína um stórkostlega lækkun stefnukrafna stefnanda byggir stefndi á því, að stefnandi geti ekki undir nokkrum kringumstæðum byggt fjárhæð bóta á fjár­hæð skírteinistryggingar.  Stefnandi geti einungis fengið bætur, sem greiða eigi teljist aft­urköllun á skírteini stefnanda, svo og eftirfarandi starfslok, hafa verið ólögmæt og þá með hliðsjón af því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir.  Bætur verði því aðeins dæmdar að álitum og í samræmi við dómvenju, sbr. ákvæði 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954.  Þá séu ekki lagaskilyrði til að dæma miskabætur auk þess sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á neinn miska.

Stefndi mótmælir útreikningi tryggingafræðings á dskj. nr. 18, sem þýðingarlausu fyrir mat á tjóni stefnanda.  Bætur sem ákvarða ætti eftir 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954 geti ekki tekið mið af ýmis konar tryggingagreiðslum sem krafan sé grund­völluð á, nema ef vera skyldi til frádráttar við mat á tjóni sem stafi af launatapi vegna ólögmætrar frávikningar.  Stefnandi hafi á hinn bóginn ekki sýnt fram á slíkt tjón.

Þá byggir stefndi á því, að þó svo tekið yrði mið af fjárhæð skírteinistryggingar sé stefnandi nú 50 ára að aldri og geti ekki krafið um fullar bætur, sem sýnist vera hvort tveggja, grunngjald samkvæmt tryggingaskilmálum og viðbótartrygging.  Stefndi telur grundvöll útreikninga á hóptryggingu og örorkulífeyri sem tjónabóta vera óraunhæfan.

Stefndi mótmælir vaxta- og vísitöluþáttum í útreikningi tryggingafræðings, þar sem þeir eigi sér ekki lagastoð.  Hvergi sé gert ráð fyrir því, að skírteinistryggingu eigi að greiða með vöxtum, öðrum en dómvöxtum ef því væri að skipta, og sama eigi við um hóptryggingu og lífeyri verði að einhverju leyti litið til þeirra atriða við útreikning bóta.  Tómlæti stefnanda fyrirgeri einnig rétti stefnanda til vaxta og verðbóta.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem allt of hárri, verði talið, að stefnandi hafi orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni sem stefnda beri að bæta.

Stefndi mótmælir og vaxtakröfu stefnanda sem algerlega vanreifaðri og óljósri og telur, að upphafstíma dráttarvaxta beri að miða við dómsuppsögu, sbr. 15. gr. vaxta­laga nr. 25/1987.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V.

Eins og að framan greinir hefur stefnandi áður höfðað mál á hendur stefnda, af sama tilefni, en því máli var vísað frá dómi hinn 21. nóvember 1995.  Þar sem því máli lauk með frávísun var ekki dæmt um kröfur stefnanda að efni til.  Samkvæmt því hefur sú úrlausn ekki res judicata verkanir í máli þessu og afstaða dómara þess máls til krafna aðila ekki bindandi, hvorki fyrir dómara, aðila né aðra, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991.  Í stefnu kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á þeirri málsástæðu, að upp­sögn stefnanda hafi ekki verið byggð á réttmætum sjónarmiðum.  Hann útlistar þá máls­ástæðu sína ekki frekar þar, þar sem í forsendum fyrrgreinds frávísunarúrskurðar hafi verið fallist á þá málsástæðu hans.  Kröfur stefnanda hafa ekki verið dæmdar að efni til og verður því við úrlausn máls þessa að byggja á þeim málsástæðum sem stefn­andi hefur uppi í máli þessu.  Málsástæður stefnanda skulu koma fram í stefnu hans, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þrátt fyrir að fyrrgreind málsástæða stefnanda sé ekki nánar útfærð í stefnu hans verður að telja, að unnt sé að líta til annarra framlagðra gagna stefnanda, svo sem stefnu hans í áðurgreindu máli, þar sem málsástæða þessi er nánar skýrð, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og rakið hefur verið var flugumferðarstjóraskírteini stefnanda afturkallað með bréfi dagsettu 25. september 1984, með vísan til gr. 7.6.5 í reglugerð um skírteini gefin út af flugmálastjórn nr. 301/1978.  Ástæða afturköllunarinnar var sögð mæting stefnanda á vaktir 1. og 9. júní sl. þá óvinnufær með öllu samkvæmt læknisvottorði.  Aftur­köllunin var sögð gilda a.m.k. meðan samgönguráðuneytið hefði mál stefnanda til meðferðar.  Tilvitnuð grein í reglugerð hljóðar svo: „Flugmálastjórn getur fyrir­vara­laust afturkallað skírteini um tiltekinn tíma ef handhafi hefur sýnt í starfi sínu ábyrgð­arleysi, skort á dómgreind og reynslu, vanrækslu eða gerst brotlegur á annan hátt.”

Við yfirheyrslur fyrir dómi kom fram hjá fyrrverandi flugmálastjóra, að stefnandi hafi mætt á vaktir ófær um að vinna m.a. vegna lyfjanotkunar.  Þetta hafi verið talið svo alvarlegt brot, að rétt hafi þótt að svipta stefnanda réttindum tafarlaust og rannsaka málið frekar.  Í því skyni hafi málinu verið vísað til samgönguráðuneytisins.

Með bréfi, dagsettu sama dag, staðfesti yfirflugumferðarstjóri, að stefnandi hafi unnið á dagvakt sem varðstjóri í flugturni hinn 1. júní 1984 frá klukkan 07:30 til 19:30, en tilkynnt veikindaforföll vegna dagvaktar 2. júní og næturvakta 4. og 5. júní.  Stefnandi hafi mætt aftur á dagvakt 9. júní, klukkan 07:30 til 19:30, en tilkynnt veik­inda­­forföll næstu vaktir.  Í bréfinu er ekki vikið að ástandi eða hæfni stefnanda til að sinna umræddum vöktum. 

Stefnandi hafði verið í launalausu leyfi frá störfum frá 1. október 1983, er hann kom til starfa sinna hinn 1. júní 1984.

Fram er komið að stefnandi mætti til vinnu sinnar fyrrgreindar vaktir að ráðum læknis síns.  Hins vegar hafi honum liðið illa er til vinnu kom og því ekki sinnt flug­um­ferðarstjórn.  Hafi hann því leitað til læknis síns, Högna Óskarssonar, sem gaf út áður­greint veikindavottorð.  Verður ekki talið að með því hafi stefnandi sýnt af sér slíka háttsemi að ástæða hafi verið til að afturkalla skírteini hans til bráðabirgða eins og gert var, vegna lyfjanotkunar stefnanda.  Þá lágu fyrir við afturköllun skírteinisins, en það var afturkallað rúmum þremur mánuðum eftir að stefnandi mætti á áður­greindar vaktir, niðurstöður allra þeirra læknisrannsókna, sem stefnanda var gert að fara í að boði flugmálastjórnar.

Undir rekstri málsins komu fram gögn er sýndu að stefnandi uppfyllti ekki skil­yrði til starfs síns, sem flugumferðarstjóri, þegar hann var sviptur skírteini sínu og í kjöl­far þess látinn hætta störfum vegna brots í starfi.

Samkvæmt skýrslu Hannesar Péturssonar geðlæknis dagsettri 17. september 1984, sem skoðaði stefnanda að beiðni flugmálastjórnar, taldi hann stefnanda ekki lengur fullnægja ákvæðum heilbrigðisskilyrða reglugerðar um skírteini útgefnum af flug­málastjórn, þar sem stefnandi væri haldinn kvíða og depurð.  Þar kemur einnig fram að læknirinn álítur að verði skírteini stefnanda afturkallað á þeim forsendum væri eðlilegt að gefa honum kost á að sækja um réttindi sín aftur að liðnu einu til tveimur árum, enda hefði þá læknismeðferð borið tilætlaðan árangur.

Í málinu er á því byggt af hálfu stefnda, að afturköllun skírteinisins hafi verið tíma­bundin meðan samgönguráðuneytið hafði mál stefnanda til meðferðar og að því máli hafi lokið með bindandi samkomulagi um starfslok stefnanda með greiðslu launa frá 1. júní 1984 til þess dags er réttindi stefnanda voru afturkölluð.  Ekki er unnt að líta svo á að skilja hafi mátt móttöku stefnanda á launum sem samkomulag um starfs­lok, enda liggur ekkert annað fyrir í málinu en að stefnandi hafi átt rétt á launum fyrir það tímabil er hann var enn í vinnu hjá flugmálastjórn.

Telst uppsögn stefnanda ólögmæt á þeim forsendum sem byggt er á af hálfu stefnda.

Samkvæmt framburði fyrrverandi flugmálastjóra og trúnaðarlæknis flug­mála­stjórnar hér fyrir dómi, svo og framlögðum gögnum, er ljóst að stefnanda var aldrei kynnt niðurstaða læknisrannsóknar, sem hann fór í að ósk vinnuveitanda síns, og að honum hafi verið meinaður aðgangur að skýrslunum, fyrr en undir rekstri málsins, þrátt fyrir að stefnandi hafi áður ítrekað leitað eftir því að fá aðgang að þeim gögnum.

Stefnandi naut samkvæmt kjarasamningi réttar til skírteinistryggingar vegna missis réttinda af heilsufarsástæðum ef ekki hefði komið til uppsagnar hans.  Þá hefði stefnandi átt rétt á svokallaðri hóptryggingu, sem var frjáls trygging, sem Félag íslenskra flugumferðarstjóra samdi um við Almennar tryggingar hf.  Krafa stefnanda á hendur stefnda er skaðabótakrafa og var því ekki fyrnd samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905, er mál vegna kröfu þeirrar var höfðað hinn 23. september 1994 þó svo að málið hafi verið þingfest hinn 27. október 1994.  Krafa stefnanda er því ekki fyrnd.  Með því að stefndi leyndi stefnanda upplýsingum um ástæður þess að hann var ekki lengur fær um að stunda starf sitt sem flugumferðarstjóri kom stefndi í veg fyrir að stefnandi nyti þessara greiðslna.  Verður því ekki talið að stefnandi hafi sýnt af sér tóm­læti, sem firri hann rétti til að krefja stefnda um skaðabætur vegna missis þeirra réttinda.

Eins og að framan greinir er bótakrafa stefnanda á því byggð, að hann hafi orðið af skírteinistryggingu, frjálsri hóptryggingu og greiðslum úr lífeyrissjóði auk miska­bóta­kröfu.  Fyrir liggur og óumdeilt er að ef stefnandi hefði misst skírteini sitt af heilsu­farsástæðum hefði hann átt rétt á að fá svokallaða skírteinistryggingu að fjár­hæð CHF 120.000 og frjálsa hóptryggingu, að upphæð 368.000 krónur, hinn 25. september 1984.  Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnanda verið neitað um greiðslu lífeyris úr lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.  Virðist neitun sjóðsins byggð á því að tekjur stefnanda hafi verið það háar, að hann eigi ekki rétt á greiðslum úr sjóðnum.  Liggur ekki fyrir að hin ólögmæta uppsögn stefnanda eða það að stefnanda var ekki kunnugt efni læknisrannsókna um heilbrigði sitt, hafi valdið því að stefnanda hefur verið neitað um greiðslu lífeyris úr sjóðnum.  Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að stefndi beri ábyrgð á því meinta tjóni hans.  Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið verður bótakrafa stefnanda tekin til greina með því að stefnda verður gert að greiða stefnanda andvirði þeirra bóta, sem stefnandi hefði átt rétt á.  Eins og fyrr greinir voru stefnanda fyrst afhent gögn varðandi heilsufar sitt og gerð grein fyrir þeim undir rekstri málsins.  Þá setti stefnandi fyrst fram kröfu sína með málshöfðun þessari.  Þykja því ekki rök til, þó svo hið bótaskylda atvik hafi orðið í september 1984, að uppreikna kröfur stefnanda með þeim hætti, sem gert er í framlagðri matsgerð og útreikningi tryggingafræðings.  Rétt þykir að miða fjárhæð bóta vegna skír­teinistryggingar við kaupgengi CHF hinn 27. apríl 1995, sem var 55,41, sem sam­svarar 6.649.200 krónum og dæma stefnda til að greiða stefnanda þá fjárhæð auk þeirrar fjárhæðar sem fyrir liggur, að stefnandi hefði getað fengið greitt úr frjálsri hóp­trygg­ingu, 368.000 krónur.  Ekki eru lagaskilyrði til þess að dæma stefnda til að greiða stefnanda miskabætur í máli þessu.  Samkvæmt framanrituðu verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 7.017.200 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er í stefnu, frá 27. maí 1995 til greiðsludags.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda máls­kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 870.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virð­isaukaskattskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 7.017.200 krónur ásamt dráttarvöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 1995 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 870.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virð­is­auka­skatt.