Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2015. |
|
Nr. 67/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Aðalsteini Bjarnasyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Sveinn Andri Sveinsson hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Miskabætur. Aðfinnslur.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa kastað glerflösku í höfuð A með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi hlaut brot á ennisbeini, skurð og glóðarauga. Var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi og refsingin bundin skilorði í tvö ár. Þá var honum gert að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur. Í dómi Hæstaréttar var fundið að því að eftir að ákæruvaldið hefði fengið dómsgerðir málsins frá héraðsdómi hefðu liðið tæpir fimm mánuðir þar til málsgögnin voru afhent Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.832.196 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2013 til 21. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að niðurstaða héraðsdóms um miskabætur verði staðfest.
Krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms kemur fyrst til úrlausnar en fyrir henni hafa ekki verið færð haldbær rök. Verður þeirri kröfu því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en miskabætur til handa brotaþola, sem í ljósi afleiðinga árásar ákærða og með vísan til fordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum, eru ákveðnar 1.000.000 krónur. Þá er fallist á að dráttarvextir verði dæmdir á kröfuna frá 21. desember 2013.
Með skírskotun til 3. mgr. 176. gr., sbr. 210. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Að því verður að gæta að áfrýjunarstefna var sem áður segir gefin út 10. janúar 2014, en fram er komið að Héraðsdómur Reykjavíkur sendi 23. maí sama ár dómsgerðir í málinu til ríkissaksóknara, sem afhenti ekki Hæstarétti málsgögn fyrr en 17. október 2014. Þessi dráttur er aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu brotaþola, A.
Ákærði, Aðalsteinn Bjarnason, greiði brotaþola 1.117.466 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2013 til 21. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 186.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 529.394 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 13. desember 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni 30. október 2013, á hendur Aðalsteini Bjarnasyni, kennitala [...],[...],[...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 4. maí 2013, fyrir utan skemmtistaðinn Loftið við Austurstræti í Reykjavík, kastað glerflösku í höfuð A, þannig að hann hlaut brot á ennisbeini, hringlaga skurð á miðju enni, glóðarauga á báðum augum, auk þess sem hann fann fyrir sjóntruflunum og svima í kjölfarið.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 3.832.196 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 5. maí 2013 til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafa var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Við meðferð málsins fyrir dómi var fallið frá kröfu um bætur vegna vinnutaps.
Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði. Þá er þess aðallega krafist að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Hinn 17. maí 2013 mætti A hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir af hans hálfu við veitingastaðinn Loftið við Austurstræti laugardagskvöldið 4. maí. A kvaðst hafa verið í biðröð við inngang veitingastaðarins þegar hann hefði fengið gríðarlegt högg á höfuðið og vankast við það. Hann hefði fengið sár á ennið við þetta, sem mikið hefði blætt úr og hefði hann farið á slysadeild með leigubifreið. Lögreglumaður, sem ræddi við hann á slysadeild, hefði tjáð honum að maður hefði kastað flösku í ennið á honum. A kvaðst hafa verið óvinnufær eftir atvikið, en hann hafi fundið fyrir miklum svima, auk annarra einkenna.
Samkvæmt læknisvottorði B, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala, dagsettu 20. júní sl., leitaði A á deildina kvöldið sem um ræðir. Við skoðun reyndist hann vera með hringlaga, grunnan skurð á stærð við flöskutappa á miðju enni og voru mjúkvefir við sárið bólgnir. Þá var byrjandi mar og bólga við efri augnlok beggja vegna. Í málinu liggja fyrir vottorð frá heilsugæslu þar sem kemur fram að A hafi í júní leitað sér aðstoðar vegna svimakenndar og sjóntruflana. Í vottorði C heimilislæknis, dagsettu 4. júlí sl., kemur fram að við tölvusneiðmyndatöku af höfuðkúpu 12. júní hafi komið í ljós dæld „centralt í beingerð“, um 10 mm í þvermál og 10 mm á hæð. Við skoðun 3. júlí hefði sést nánast hringlaga 18 x 20 mm ör á enni, auk þess sem eimt hafi eftir af mari neðan beggja augna. Hafi A lýst því að hafa verið bólginn og aumur á enni eftir atvikið og fundið fyrir óþægindum yfir augum og aftur fyrir eyru. Þá hefði hann ekki treyst sér til vinnu vegna svima. Í vottorði D augnlæknis, dagsettu 29. ágúst 2013, kemur fram að A hafi leitað til hennar vegna augnþreytu. Hafi hann lýst því að hann hafi fundið fyrir augnþreytu fyrir atvikið, en teldi að þau einkenni hefðu versnað. Þá hafi hann fundið fyrir sjóntruflunum, sem hann teldi einnig hafa versnað eftir atvikið. Hann hafi mælst með væga nærsýni og sjónskekkju og fengið lyfseðil fyrir hvíldargleraugu. Loks liggja fyrir tvö vottorð E heimilislæknis, dagsett 30. ágúst og 2. desember sl. Í síðara vottorðinu kemur fram að A hafi ekki unnið frá því hann hlaut áverka og finni hann enn fyrir svima, jafnvægisleysi, sjóntruflunum og kraftleysi. Jafnframt eru meðal gagna málsins ljósmyndir sem A afhenti lögreglu og sýna áverka í andliti hans.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 31. maí 2013. Hann kvaðst hafa verið með hópi fólks utan við veitingastaðinn í umrætt sinn og hafi þau mætt leiðinlegu viðmóti hjá dyravörðum. Hann hefði átt í einhverjum rökræðum við dyraverðina, en síðan gengið á brott og hefði hann á leið sinni hent frá sér flösku sem hann hélt á, en það hefði verið 33 cl bjórflaska. Ákærði kvað það ekki hafa verið ætlun sína að flaskan lenti í neinum. Hann kvaðst telja sig hafa kastað flöskunni frá sér í brjóst- eða axlarhæð. Hann hefði ekki ætlað að skaða nokkurn mann og hefði það gerst hafi verið um óviljaverk að ræða. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neinn yrði fyrir meiðslum við þetta.
Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði atvikum á sama veg. Hann kvaðst hafa verið við skemmtistaðinn með hópi fólks og hefði dyravörður verið með leiðindi við þau. Hann hefði verið búinn að fá nóg af þessu viðmóti og hefði hann farið á brott í fússi. Þegar hann gekk frá staðnum hefði hann flækt sig í köðlum sem festir voru við súlur nokkrum metrum frá innganginum og hefði hann við það misst jafnvægið. Kvaðst ákærði í sömu mund hafa losað sig við glerflösku sem hann var með í hendinni og hefði hann ætlað að henda henni í jörðina. Hann kvaðst ekki hafa séð á eftir flöskunni, en taldi að hún hefði farið í jörðina. Hann hefði heyrt brothljóð í þeirri andrá sem hann losaði sig við flöskuna, eins og hún hefði splundrast. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neinn meiddist þarna og hefði það ekki verið ætlun hans að skaða nokkurn mann. Hann kvað tvo menn sem þarna voru nærstaddir hafa veist að sér eftir þetta og hefði hann því forðað sér af vettvangi.
Vitnið A kvaðst hafa verið í röð við skemmtistaðinn ásamt tveimur félögum sínum, þegar hann hefði skyndilega fengið rosalegt högg á ennið. Hann hefði vankast við þetta, en síðan hefði farið að blæða úr sári á enninu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neina flösku þarna. Hann lýsti afleiðingum atviksins og kvaðst finna fyrir miklum einkennum, svo sem eymslum í kringum áverkann, viðvarandi svima, einbeitingarskorti, flökurleika og taugaleiðni um höfuðleðrið. Þá kvaðst hann finna fyrir stöðugum streng um hægra auga. Hann hefði mælst með versnandi sjón, en kvaðst ekki vita hvort það tengdist þessum atburði.
Vitnið F var dyravörður á skemmtistaðnum í umrætt sinn. Vitnið kvað ákærða hafa komið þarna að ásamt hópi fólks og hefðu þau viljað fá að fara inn á staðinn, en G dyravörður hefði sagt þeim að þau yrðu að fara í röðina. Við þetta hefði fólkið orðið æst og hefði ákærði verið ókurteis við G, sem hefði þá ákveðið að þeim yrði ekki hleypt inn. Ákærði hefði þá rokið að keðjunum við innganginn og sparkað þær niður. Hann hefði síðan snúið sér við og kastað glerflösku í átt að dyravörðunum. Lýsti vitnið þessu nánar þannig að ákærði hefði dottið um keðjurnar, staðið upp, snúið sér við og kastað flöskunni. Vitnið kvaðst hafa dregið þá ályktun að flaskan hefði átt að fara í G þar sem hann hefði verið að rökræða við ákærða. Þeir hefðu hins vegar beygt sig niður til að forðast að fá hana í sig. Hann hefði síðan séð að blæddi úr andliti manns sem þarna var og hefði vinur mannsins sagt honum að hann hefði fengið flösku í andlitið. Vitnið kvað ákærða hafa kastað flöskunni fast og hefði hann staðið í um þriggja metra fjarlægð frá G þegar hann kastaði henni. Um 10 til 15 manns hefðu verið við staðinn þegar þetta átti sér stað. Vitnið kvað ákærða hafa gengið á brott eftir að hann kastaði flöskunni og hefði hann lent í rimmu við einhverja menn, en síðan farið upp í leigubifreið sem hefði verið ekið á brott.
Vitnið G kvaðst hafa meinað ákærða og hópi fólks sem hann var með inngöngu á skemmtistaðinn þar sem þau hefðu verið með dónaskap og æsing. Ákærði hefði þá strunsað í burtu. Hann hefði farið yfir keðjurnar, sem lágu með innganginum, og dottið um þær. Hann hefði síðan gengið þrjú til fimm skref frá keðjunum, snúið sér við og kastað glerflösku í átt að þeim F þar sem þeir stóðu við inngang skemmtistaðarins. Hefði ákærði verið í fjögurra til fimm metra fjarlægð frá þeim F þegar hann kastaði flöskunni. Hann hefði augljóslega verið mjög pirraður og hefði hann kastað flöskunni fast. Lýsti vitnið því svo að kasthreyfingin hefði verið „handboltaleg“, þ.e. eins og hann hefði verið að kasta bolta. G kvaðst hafa beygt sig niður og ekki séð hvar flaskan lenti. Hann hefði ekki vitað af því fyrr en síðar að maður sem þarna var hefði fengið glerbrot í andlitið. Ákærði hefði hins vegar horfið brott af vettvangi í leigubifreið.
Vitnið, H, unnusta ákærða, kvað hann hafa verið mjög ósáttan við dyravörð. Hann hefði gengið í burtu með bjórflösku í hendi, hrasað um kaðla sem þarna voru og nærri dottið. Hún kvaðst svo hafa fundið flöskuna strjúkast við öxl sér og heyrt brothljóð. Hún hefði staðið fremst í röðinni við dyrnar og hefði ákærði verið í um eins og hálfs metra fjarlægð og snúið að henni, en dyravörðurinn verið vinstra megin við hana. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við að einhver meiddist þarna. Eftir þetta hefði nærstatt fólk veist að ákærða, en hann hefði náð að rífa sig lausan. Þau hefðu síðan farið saman af vettvangi í leigubifreið.
Vitnið I kvaðst hafa verið að ganga fram hjá skemmtistaðnum þegar hann hefði séð ákærða ganga frá röðinni, sparka niður stangir sem þarna voru, snúa sér við og kasta flösku sem hann hélt á. Kvaðst vitnið hafa heyrt flöskuna brotna og hefði glerbrotum rignt yfir fólk sem var í röðinni. Vitnið kvaðst hafa reynt að stöðva för ákærða, en hann hefði rifið sig lausan og rokið í burtu.
Vitnið I sem var í för með ákærða þetta kvöld, kvað hann hafa rokið af stað eftir að hafa átt orðaskipti við dyravörðinn. Hefði ákærði flækst í stöplum með böndum sem áttu að afmarka röðina, en náð að losa sig. Þegar hann var kominn yfir böndin hefði hann hent flösku aftur fyrir sig, um það bil í axlarhæð, í átt að skemmtistaðnum og hefði hún lent í vegg við dyrnar og brotnað. Hefði flaskan lent í veggnum um þremur til fjórum metrum frá þeim stað sem ákærði stóð þegar hann kastaði flöskunni. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að maður hlyti áverka við þetta. Þá kvaðst hann ekki heldur hafa orðið var við að annarri flösku hefði verið kastað þarna á staðnum.
Vitnið K kvaðst hafa verið utan við skemmtistaðinn með A og félaga þeirra L. Hefði A staðið upp við húsvegginn og snúið baki í vegginn. Skyndilega hefði hann heyrt dynk og þegar hann leit á A sá hann að hann var með hringlaga far eins og eftir flösku á enninu. A hefði vankast við höggið og mikið hefði blætt úr sárinu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð flöskuna en hafa heyrt að hún féll í götuna og taldi hann að hún hefði ekki brotnað.
Vitnið L kvaðst skyndilega hafa séð að A fékk eitthvað í höfuðið, en ekki hefði hann séð hvað það var. Hefði A gripið um höfuðið og sagst hafa fengið í sig flösku. Honum hefði farið að blæða og hefði þessu lyktað með því að Afór með leigubifreið upp á slysadeild.
Vitnin, B, sérfræðingur í lyflækningum, og E heimilislæknir, staðfestu læknisvottorð sín. Vitnin báru meðal annars að áverki á enni brotaþola gæti vel samrýmst því að hann hefði fengið flösku í andlitið.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa „losað sig við“ glerflöskuna sem hann hélt á og kveðst hafa ætlað að henda henni í jörðina, en dregur í efa að meiðsli brotaþola hafi verið af hans völdum. Svo sem rakið hefur verið hafa vitni á vettvangi borið að ákærði hafi kastað flöskunni í átt að hópi fólks sem stóð við skemmtistaðinn og var framburður dyravarðanna, F og G um atvik einkar skýr og greinargóður að mati dómsins. Fyrir liggur að A meiddist í umrætt sinn og kemur áverki sem hann hlaut heim og saman við að hann hafi fengið flösku í ennið. Ekkert er fram komið í málinu sem leiðir líkum að því að annarri flösku hafi verið kastað við skemmtistaðinn á sama tíma. Samkvæmt framansögðu telst sannað, gegn neitun ákærða, að flaskan sem hann kastaði hafi lent í enni A og valdið meiðslum hans. Ákærði var í nokkurra metra fjarlægð frá fólkinu sem stóð við inngang skemmtistaðarins þegar hann kastaði flöskunni í átt að því. Af áverka sem A hlaut og framburði vitnanna F, G og I, verður ráðið að hann hafi kastað flöskunni af afli. Gat ákærða ekki dulist að háttsemi hans var stórhættuleg og líkleg til að valda einhverjum í hópnum líkamstjóni, sem raunin varð. Verður háttsemin metin honum til ásetnings. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í október 1978. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Atlaga ákærða var tilefnislaus og hættuleg og hafði víðtækar afleiðingar fyrir brotaþola. Samkvæmt því, og með vísan til 1., 2. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 3.832.196 krónur, auk vaxta. Bótakrafan sundurliðast þannig:
- Miskabætur 3.000.000 krónur
- Útlagður kostnaður 117.466 krónur
- Gleraugu 149.980 krónur
- Lögfræðikostnaður 564.750 krónur
Með vísan til a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur. Af læknisfræðilegum gögnum og framburði brotaþola verður ráðið að háttsemi ákærða hafði víðtækar og langvarandi afleiðingar fyrir brotaþola. Hefur brotaþoli verið óvinnufær eftir atburðinn, auk þess sem hann ber greinilegt ör í andliti eftir áverkann sem hann hlaut. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Krafa um útlagðan kostnað er studd viðhlítandi gögnum og verður hún dæmd eins og hún er fram sett. Hins vegar er ósannað að atlaga ákærða hafi leitt til þess að sjón brotaþola hafi versnað og verður ákærði því sýknaður af kröfu um bætur vegna gleraugnakaupa. Ákvörðun þóknunar réttargæslumanns tekur mið af kostnaði við gerð bótakröfu og meðferð málsins fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af kröfu um bætur vegna lögmannskostnaðar. Bætur beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 251.000 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Sögu Ýrar Jónsdóttur hdl., 178.838 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 251.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 34.200 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Aðalsteinn Bjarnason sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 1.617.466 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 5. maí 2013 til 3. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 251.000 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Sögu Ýrar Jónsdóttur hdl., 178.838 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 251.000 krónur. Ákærði greiði 34.200 krónur í annan sakarkostnað.