Hæstiréttur íslands

Mál nr. 546/2009


Lykilorð

  • Handtaka
  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn
  • Sérálit


Fimmtudaginn 7. október 2010.

Nr. 546/2009.

Sigurður Grettir Erlendsson

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Handtaka. Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn. Sérálit.

S var handtekinn að kvöldi 29. janúar 2004 vegna rannsóknar á tilraun til íkveikju og í framhaldi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. febrúar sama ár. Með bréfi ríkissaksóknara 8. nóvember 2007 var honum tilkynnt að málinu á hendur honum hefði verið fellt niður. S höfðaði í kjölfarið mál og krafðist skaðabóta úr hendi Í. Fyrir Hæstarétti krafðist S aðallega ómerkingu héraðsdóms, en þeirri kröfu var hafnað. Til vara krafðist S þess að Í yrði gert að greiða sér 2.500.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Hæstaréttar var talið að fullt tilefni hefði verið til að handtaka S fyrrgreint kvöld og vista hann í framhaldinu af því í fangaklefa. Á hinn bóginn hefðu ekki verið skilyrði til að láta hann sæta gæsluvarðhaldi frá 31. janúar til 4. febrúar 2004 og ætti hann rétt til skaðabóta úr hendi Í  af þeim sökum. Talið var að verulegur dráttur hafi verið á rannsókn málsins, auk þess sem óútskýrðar tafir hafi orðið á því hvort ákvörðun yrði tekin um saksókn og áfrýjanda síðan tilkynnt að málið væri fellt niður gagnvart honum. S var þó ekki talinn geta átt tilkall til skaðabóta úr hendi Í vegna þessara atvika þar sem lagastoð skorti fyrir slíku í þágildandi lögum nr. 19/1991, auk þess sem hann hefði ekki rökstutt með viðhlítandi hætti hvernig grundvöllur fyrir bótum af þessu tilefni yrði fenginn eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Voru skaðabætur til S hæfilega ákveðnar 500.000 krónur

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2009. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný. Til vara krefst hann að stefnda verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur, en að því frágengnu aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. maí 2008 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Samkvæmt gögnum málsins bárust lögreglu á [..] upplýsingar snemma árs 2004 um að til stæði að kveikja í húsi að [..] til að fá greiddar fyrir það vátryggingarbætur, þar sem eigandi þess, A, ætti í miklum fjárhagsörðugleikum og gæti ekki staðið í skilum með greiðslur af veðskuldum. Ungmenni hafi leitað nokkuð í húsið, sem stæði mannlaust og opið, en þar væri mikið af eldfimu efni. Maður að nafni B ætti að standa að þessu fyrir A og væri beðið eftir heppilegri vindátt, þar sem forðast ætti að eldur bærist í stórt fiskvinnsluhús, sem væri þar skammt frá. Á grundvelli þessara upplýsinga mun lögregla hafa aflað dómsúrskurðar um heimild til að hlusta á símtöl þessara tveggja manna. Af símtali milli þeirra 29. janúar 2004, sem greint er frá í hinum áfrýjaða dómi, mun lögregla hafa ályktað að kveikja ætti í húsinu að kvöldi þess dags og fylgdist hún af þeim sökum með mannaferðum við það. Nokkru fyrir miðnætti munu lögreglumenn hafa orðið þess varir að bifreið, sem rétt áður hafi komið eftir þjóðvegi til [...], væri ekið inn á malarplan bak við húsið að [...]. Samkvæmt lögregluskýrslu mun sjö mínútum síðar hafa komið fram fyrir húsið maður, sem hafi gengið þar inn um dyr, en eftir fimm mínútur hafi hann komið aftur út og farið til baka sömu leið. Lögreglumenn hafi veitt honum eftirför og komið að bifreiðinni gangsettri en ljóslausri aftan við húsið. Í henni hafi setið tveir menn, sem hafi verið handteknir. Sá, sem hafi skömmu áður farið inn í húsið, hafi setið í framsæti farþegamegin í bifreiðinni og reynst vera áðurnefndur B. Áfrýjandi hafi á hinn bóginn setið undir stýri. Við athugun inni í húsinu mun hafa komið fram að kveikt hafi verið á tveimur litlum kertum, sem hafi verið umlukin eldfimum hlutum.

Áfrýjandi og B voru í framhaldi af þessu vistaðir í fangaklefum. Næsta dag tók lögregla B til skýrslugjafar eftir að hafa kvatt til lögmann til að gegna hlutverki verjanda, en B neitaði að svara spurningum nema viðstaddur yrði annar nafngreindur lögmaður, sem hann kysi að fá til starfans. Í framhaldi af því var tekin skýrsla af áfrýjanda. Þar greindi hann frá kynnum sínum af B, sem hafi kvöldið áður beðið hann um að aka sér frá Reykjavík til [...] sökum þess að hann þyrfti nauðsynlega að „redda einhverju inni í húsi sem hann sagðist eiga.“ Áfrýjandi hafi spurt hvort sú ferð mætti ekki bíða til næsta dags, sem B hafi neitað, og hafi því áfrýjandi látið til leiðast. Í skýrslunni lýsti hann ferð þeirra til [...], en þegar þeir hafi komið þangað hafi B bent áfrýjanda á að aka bak við tiltekið hús, sem hann þyrfti að fara inn í, stigið síðan út úr bifreiðinni og sagst mundu verða fljótur. Áfrýjandi hafi beðið skamma stund og B svo komið til baka, en því sem næst í sömu mund hafi lögregla komið og handtekið þá. Í skýrslunni var haft eftir áfrýjanda að „honum hafi ekki verið kunnugt um að það hafi staðið til að B ætlaði að kveikja í [...] og hann í raun viti ekki neitt um málið“, svo og að á leið til [...] hafi B „ekki nefnt það einu orði hverju hann ætlaði að redda“ í húsinu. Fyrrnefndur A var samkvæmt gögnum málsins handtekinn að kvöldi 30. janúar 2004 og tók lögregla þá þegar skýrslu af honum. Í henni neitaði hann að hafa átt hlut að ráðagerðum um að kveikja í húsinu og kvaðst ekki þekkja áfrýjanda. Meðan á þeirri skýrslugjöf stóð var áfrýjandi leiddur fyrir dómara vegna kröfu lögreglu um að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 9. febrúar 2004. Héraðsdómur varð við þeirri kröfu, en þó þannig að gæsluvarðhaldinu var markaður tími til 4. febrúar 2004. Úrskurður héraðsdóms um þetta var staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 56/2004. A og B var jafnframt gert að sæta gæsluvarðhaldi, þeim fyrrnefnda til 4. febrúar 2004 og þeim síðarnefnda til 9. sama mánaðar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að lögregla hafi aftur reynt að taka skýrslu af B fyrr en 3. febrúar 2004, en í það sinn svaraði hann spurningum hennar og neitaði meðal annars sakargiftum um að hafa ætlað að kveikja í húsinu. Þá var hann spurður um ástæðu þess að áfrýjandi hafi verið með honum í för og hvað þeim hafi farið í milli. Frásögn A um það var í meginatriðum á sama veg og áfrýjanda.

Fyrir liggur í málinu að lögregla tók skýrslu af áfrýjanda þrívegis á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi, sem lauk 4. febrúar 2004, en ekki frekar eftir það. Lögregla mun ekki hafa leitað framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir B eða A, sem mun þannig hafa verið sleppt að varðhaldstíma liðnum. Af gögnum málsins verður ekki séð að neinar teljandi aðgerðir hafi farið fram varðandi rannsókn málsins eftir að gæsluvarðhaldi þessara þriggja manna lauk, en tekin var þó stutt skýrsla af einu vitni 23. ágúst 2004, auk þess sem lögregla fékk dómkvaddan mann 9. maí 2006 til að leggja mat á nánar tiltekin atriði varðandi hættu af eldsvoða í húsinu að [...] og lauk hann matsgerð 10. október sama ár. Ríkissaksóknari gaf síðan út ákæru 6. mars 2007 á hendur þeim B og A, þar sem þeim fyrrnefnda var gefin að sök tilraun til brots gegn 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þeim síðarnefnda hlutdeild í þeirri háttsemi. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 7. september 2007 voru þeir báðir sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins, sem undi þeirri niðurstöðu. Í tilefni af fyrirspurn lögmanns áfrýjanda greindi ríkissaksóknari frá því í bréfi 8. nóvember 2007 að sér hafi borist málið 30. október 2006, en ákveðið hafi verið 6. mars 2007 að aðhafast ekkert frekar gagnvart áfrýjanda og hafi láðst að tilkynna honum það. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 7. maí 2008 til heimtu skaðabóta vegna handtöku og gæsluvarðhalds, sem hann sætti samkvæmt framansögðu.

II

Aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er í fyrsta lagi reist á því að þar sé ekki greint réttilega frá kröfu hans um dráttarvexti, í öðru lagi að ekki hafi verið tekin viðhlítandi afstaða til málsástæðu hans um skaðabótaskyldu stefnda vegna þess dráttar, sem orðið hafi á rannsókn málsins og saksókn, og í þriðja lagi að í niðurstöðum dómsins hafi í tilteknum atriðum verið byggt á atvikum, sem varði ekki mál hans, heldur skaðabótamál, sem B hafi höfðað á hendur stefnda og rekið muni hafa verið samhliða þessu máli í héraði. Um það fyrstnefnda verður að líta til þess að þótt fallið hafi niður í lýsingu á dómkröfum áfrýjanda í hinum áfrýjaða dómi að hann hafi vísað um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sem hann kom þó fyrst á framfæri í þinghaldi 28. nóvember 2008, getur það engan veginn orðið til þess að ómerkja beri dóminn. Um aðra röksemd áfrýjanda er þess að gæta að þótt úrlausn héraðsdóms um þá málsástæðu, sem þar um ræðir, hafi ekki verið ítarleg eru ekki slíkir annmarkar á henni að varði ómerkingu dómsins. Ekki eru heldur efni til að fallast á þriðju röksemd áfrýjanda, enda er unnt ef þurfa þykir að bæta úr slíkum atriðum, sem þar greinir, við úrlausn máls fyrir Hæstarétti. Samkvæmt þessu verður aðalkröfu áfrýjanda hafnað.

Fallist verður á með héraðsdómi að lögregla hafi haft nægilegt tilefni til að handtaka áfrýjanda þegar komið var að honum og B utan við húsið að [...] að kvöldi 29. janúar 2004 og vista hann í framhaldi af því í fangaklefa. Í skýrslu, sem lögregla tók af áfrýjanda síðdegis 30. janúar, kvaðst hann sem áður segir hafa orðið við beiðni B um að aka honum til [...] án þess að hafa nokkuð vitað hvert erindi sá síðarnefndi ætti í þetta hús. Lögregla hafði áður reynt að taka skýrslu af  B, sem neitaði eins og áður greindi að tjá sig um sakarefnið, og gat ekki komið til álita svo sem atvikum var háttað að áfrýjanda yrði þegar sleppt úr haldi á grundvelli þess eins, sem hann hafði sagt í skýrslu sinni. Frásögn áfrýjanda fékk á hinn bóginn stoð í skýrslu, sem B gaf hjá lögreglu 3. febrúar 2004, auk þess sem A hafði borið 30. janúar sama ár að hann þekkti ekki áfrýjanda. Annað hafði ekki komið fram, sem fallið var til að varpa sök á áfrýjanda. Eins og málum var þannig háttað mátti vera ljóst að ekki gætu lengur verið efni til að halda áfrýjanda í gæsluvarðhaldi. Að því verður og að gæta að engin skýring hefur komið fram í málinu á því að tafist hafi til 3. febrúar 2004 að lögregla reyndi öðru sinni að taka skýrslu af B eftir að hafa orðið við áðurgreindri ósk hans um tilnefningu verjanda, en eins og málið liggur fyrir bendir ekkert til annars en þetta hefði þegar mátt gera á fyrsta degi gæsluvarðhaldsvistar áfrýjanda. Að þessu öllu virtu verður að líta svo á að lögmæt skilyrði hafi brostið til að láta áfrýjanda sæta gæsluvarðhaldi frá 31. janúar til 4. febrúar 2004. Af þeim sökum á hann rétt til skaðabóta úr hendi stefnda samkvæmt 1. mgr. 175. gr. og a. lið 176. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. ákvæðis VI til bráðabirgða við lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einn dómenda, Jón Steinar Gunnlaugsson, tekur fram að hann telji rétt áfrýjanda til skaðabóta ekki ráðast af því hvort nægilegt tilefni hafi verið til þeirra aðgerða lögreglu, sem gripið var til gagnvart honum og hann reisir kröfu sína á. Vísar hann um þetta til sjónarmiða, sem fram koma í dómi Hæstaréttar 20. janúar 2005 í máli nr. 257/2004 og þá einkum í sératkvæði sínu þar.

Gegn andmælum stefnda er hvorki sannað að áfrýjandi hafi sætt harðræði við handtöku eða í gæsluvarðhaldsvist né að þær aðgerðir hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Verulegur dráttur varð að sönnu á rannsókn málsins í höndum lögreglu, auk þess sem óútskýrðar tafir urðu á því að ákvörðun yrði tekin um saksókn og áfrýjanda síðan tilkynnt að málið væri fellt niður gagnvart honum. Í XXI. kafla laga nr. 19/1991 voru á hinn bóginn engar reglur um rétt sakaðs manns til skaðabóta vegna slíkra tafa og hefur áfrýjandi ekki rökstutt svo að viðhlítandi sé hvernig grundvöllur fyrir bótum af því tilefni verði fenginn eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Áfrýjandi getur því ekki átt tilkall til skaðabóta frá stefnda vegna þeirra atvika, sem hér um ræðir.

Við ákvörðun skaðabóta til áfrýjanda vegna gæsluvarðhaldsvistar verður ekki fallist á gegn andmælum stefnda að færðar hafi verið sönnur fyrir því að hún hafi leitt af sér miska umfram það, sem almennt má ætla að hljótist af atvikum sem þessum. Með því að áfrýjandi hefur ekki krafist bóta vegna fjártjóns eru skaðabætur að þessu virtu hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, en um vexti af þeim fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti er ákveðinn eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sigurði Gretti Erlendssyni, 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. maí 2008 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

               

Dómur Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 30. júní 2009

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 2. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Gretti Erlendssyni, kt. 260857- 5419, Hverfisgötu 42, Reykjavik, með stefnu birtri 7. maí 2008, á hendur íslenzka ríkinu.

         Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda miskabætur, að fjárhæð kr. 2.500.000 með dráttarvöxtum frá birtingu stefnu til greiðsludags.  Til vara er krafizt annarrar lægri fjárhæðar að mati dóms.  Krafizt er málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara gerir stefndi þær kröfur, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að lögreglan á [...] fékk upplýsingar frá ónafngreindum heimildarmanni um, að til stæði að leggja eld að fasteigninni nr. [...] við [...] á [...], þar sem eigandi hússins, A, gæti ekki staðið í skilum á afborgunum af áhvílandi skuldum á húsnæðinu  og hygðist þannig ná tryggingabótum úr brunatryggingu hússins.  Greindi heimildarmaðurinn frá því, að sá, sem myndi kveikja í húsinu væri maður að nafni B, en milli hans og eiganda hússins væru mikil tengsl, m.a. fjárhagsleg. 

         Kveður stefndi upplýsingar þær, sem lögreglu bárust, hafa verið mjög nákvæmar, og hafi lögregla aflað frekari upplýsinga um húsnæðið, sem taldar voru styðja frásögn heimildarmannsins.

         Rannsókn lögreglu leiddi til þess, að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 6. janúar 2004, var að kröfu sýslumannsins á [...]  heimilað að hlusta á og taka upp símtöl og skilaboð í talhólf í síma B og aðra síma, sem hann kynni að hafa umráð yfir, auk þess sem heimilað var að skrá númer í símasamskiptum, taka upp SMS-skilaboð, sem send voru úr eða bárust í símtæki hans.  Í kjölfarið var sími B hleraður og kom m.a. fram við hlerunina, að líkur væru á, að til skarar yrði látið skríða hinn 29. janúar.  Kveður stefndi umrætt samtal hafa stutt mjög grun um, að til stæði að kveikt yrði í.

         Að kvöldi þessa dags, 29. janúar 2004, vöktuðu lögreglumenn umrætt hús.  Tæpum hálftíma fyrir miðnætti þetta kvöld sást bifreiðinni [...] ekið [...]veg og inn í [...] úr vesturátt.  Eftir leiðina í gegnum bæinn var henni ekið inn á stórt malarplan milli [...] og félagsheimilisins [...].  Ökumaður bifreiðarinnar var Sigurður Grettir Erlendsson, stefnandi máls þessa, og farþegi fyrrnefndur B.

         Stefndi kveður lögreglu hafa séð mann ganga fyrir húshornið á [...] og inn um dyr á vesturenda þess.  Nokkrum mínútum síðar hafi hann komið aftur út, lokað dyrunum á eftir sér og farið suður fyrir húsið.  Hafi lögreglumenn þá hlaupið á staðinn.  Þegar þeir komu fyrir húshornið hafi þeir séð þeir bifreiðina [...] standa milli hússins og gáms, sem þar var.  Bifreiðin hafi verið í gangi, en ljóslaus.  Hafi tveir menn verið í henni og annar þeirra B, sem hafði farið inn í húsið.  Hafi hann verið klæddur dökkri úlpu, húfu og með hvíta hanska á höndum.  Lögreglumenn hafi opnað dyr bifreiðarinnar, skipað mönnunum að fara út og hafi þeir hlýtt því.  Hafi þeir verið færðir í handjárn og kynnt, að þeir væru handteknir vegna gruns um tilraun til íkveikju.  Handtakan hafi farið fram með venjubundnum hætti við þessar aðstæður og hún hvorki framkvæmd á særandi eða  móðgandi hátt, né með nokkru harðræði.

         Stefndi kveður lögreglumanninn hafa fundið reykjarlykt frá húsinu, þegar verið var að færa B í handjárn, og hafi hann þá gert ráðstafanir til að fá slökkvilið á staðinn.  Hafi B þá sagt, að ekki þyrfti að kalla til slökkvilið þar sem einungis væri kveikt á kertum, sem þyrfti að slökkva á, ella gæti kviknað í húsinu. Samkvæmt lögregluskýrslu um þessa framvindu mála hafi föt B, ekki síst hanzkarnir, lyktað sterklega af olíu.

         Stefnandi hafi verið færður inn í lögreglubifreið ásamt B og húsið síðan kannað nánar.  Sterk olíulykt hafi verið innandyra og hafi mátt sjá blauta pappakassa í stæðu.  Stór olíubrúsi hafi verið efst í stæðunni og hafi olían virzt koma frá honum.  Þá hafi olía verið um gólfið.  Hafi aðstæður verið þannig á þessu tímamarki, að tvö, nánast útbrunnin kerti, hafi verið á kæliborði, ofan á gulri dulu, og logað á þeim.   Einnig hafi plastbakkar verið upp við kertin.  Hafi lögreglumenn talið ljóst, að ekki myndi löng stund líða, þar til kertin brynnu upp og eldurinn bærist í duluna og plastílátin, sem og kassastæðuna, sem þarna var.  Eftir að lögregla hafði ljósmyndað logandi kertin og slökkt á þeim, hafi útkall slökkviliðs verið afturkallað.

         Stefnandi hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð í fangageymslu.  Hafi síðan verið tekin af honum skýrsla daginn eftir, þann 30. janúar 2004.  Krafizt hafi verið gæzluvarðhalds yfir stefnanda fyrir Héraðsdómi Suðurlands og hafi hann verið úrskurðaður í gæzluvarðhald til mánudagsins 4. febrúar 2004, og hafi hann verið látinn laus úr gæzlu þann dag.

         Stefndi kveður handjárn hafa verið notuð við handtöku mannanna tveggja til að tryggja návist þeirra og öryggi á vettvangi.  Sú ráðstöfun sé  alvanaleg við aðstæður sem þessar.  Engu harðræði hafi verið beitt við handtökuna.  Rannsókn málsins gaf ekki tilefni til ákæru á hendur stefnanda.

         Stefnandi kveður málsatvik hafa verið þau, að umræddan dag hafi hann fallizt á beiðni kunningja síns, B, um að aka honum í bifreið sinni austur á [...].  Hafi ekkert sérstakt erindi með ferðinni verið tilgreint, en hann hefði vitað, að B hefði haft umsjón með húsi þar fyrir austan.  B hafi skýrt svo frá fyrir dómi, að erindi sitt austur hefði verið að freista þess að ná til baka byggingarefni, sem nafngreindur íbúi á [...] hefði stolið úr húsinu [...].  Að kvöldi hins 29. janúar 2004 hafi stefnandi síðan ekið með farþega sinn úr Reykjavík austur á [...], þar sem ekið var um götur kauptúnsins, m.a. framhjá húsi áðurnefnds íbúa, en staðnæmzt við húsið [...] („gamla kaupfélagið“).  Húsið hafi þá verið að nokkru í umsjá B, enda hafi verið geymdar í húsinu ýmsar byggingavörur í eigu B og húseigandans, A. 

         Stefnandi kveðst hafa lagt bifreiðinni á bílastæði aftan við húsið [...] og hafi farþeginn B farið út úr bifreiðinni og inn í húsið, þar sem hann hafi dvalið skamma stund.  Þegar hann kom aftur út og settist inn í bifreiðina á ný hafi lögreglumenn borið að í sömu svifum, dregið mennina út úr bifreiðinni með þjósti og fyrirgangi og handtekið.  Hafi stefnandi verið færður í handjárn, með hendur fyrir aftan bak, og þannig færður í lögreglubifreið og fluttur járnaður á [...].

         Lögregla viðurkenni, að hafa ekki kannað aðstæður í húsinu, áður en varðstaðan um það hófst umrætt kvöld og áður en stefnanda og B bar að.  Hafi B borið fyrir dómi, að logað hefði á kertunum, þegar hann kom inn í húsið.  Jafnframt sé ljóst, að unglingar hafi gert sig þar heimakomna, eins og m.a. hafi komið fram við vitnaleiðslur fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

         Fyrir dómi hafi stefnandi skýrt svo frá, að þeim B hefði ekki farið neitt annað sérstakt á milli, eftir að B kom inn í bílinn á ný, enda „lögreglan komin þarna með látum og hamagangi“, eins og stefnandi hafi orðað það fyrir dóminum. 

         Við handtökuna og eftir hana hafi stefnanda verið sýnt óþarft harðræði og hann lítillækkaður.  Á vettvangi hafi lögreglumenn dregið hann með offorsi út úr bifreiðinni og járnað á höndum fyrir aftan bak án nokkurs sýnilegs tilefnis og mótþróalaust af hans hálfu.  Hafi hann verið færður þannig í lögreglubifreið, látinn sitja þar þannig járnaður á meðan lögreglan athafnaði sig á vettvangi og fluttur þannig á lögreglustöðina á [...] og ekki verið leystur úr járnum fyrr en í fangaklefa.

         Að tilhlutan lögreglu hafi C verið dómkvaddur 9. maí 2006 til að meta, hvort meint íkveikja hefði getað valdið eldsvoða, sem hefði haft í för með sér almannahættu, bersýnilegan lífsháska annarra manna eða augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eigum annarra manna.  Niðurstaða matsmannsins hafi verið neikvæð að öðru leyti en því, að hann hafi talið, að almannahætta hefði verið til staðar, en sú ályktun hafi byggzt á röngum skilningi á hugtakinu almannahætta, eins og fram hafi komið í skýrslu hans fyrir dómi.  Matsgerðin hafi því leitt í ljós, að ekki hafi verið grundvöllur fyrir ákæru.  Á sama hátt telji stefnandi, að þegar við handtöku hefði lögreglu átt að vera ljóst, að hvorki hafi verið grundvöllur fyrir þeirri handtöku né gæzluvarðhaldi.

         Hinn 6. marz 2007 hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur B og A fyrir tilraun og hlutdeild að tilraun til íkveikju, sem haft hefði í för með sér almannahættu og eignatjón.  Í ákæruskjali hafi þetta verið talið varða við 1. mgr. 164. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 1911940, sbr. 22. gr. sömu laga að er varðar háttsemi ákærða A og hafi þess verið krafizt, að báðir ákærðu yrðu dæmdir til refsingar.  Með dómi uppkveðnum í Héraðsdómi Suðurlands hinn 7. sept. 2007 voru þeir báðir sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins.  Stefnandi sætti hins vegar aldrei ákæru. Ríkissaksóknari hafi tilkynnt lögmanni stefnanda með bréfi, dags. 8. nóv. 2007, að málið hefði verið fellt niður gagnvart stefnanda hinn 6.3. 2007, en farizt hefði fyrir að tilkynna honum þau málalok.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að aðgerðir lögreglunnar hafi farið í bága við lög og valdið stefnanda miska og fjártjóni.  Kveðst stefnandi byggja bótarétt sinn á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Sé um að ræða ólögmæta handtöku, fangavist og yfirheyrslur, gæzluvarðhald og haldlagningu auk annarra óþæginda.

         Stefnandi kveður lögreglu hafa sýnt sér óþarft harðræði við handtöku og flutning á lögreglustöð á [...].  Engin ástæða hafi verið til að krefjast gæzluvarðhalds.  Hann hafi strax við fyrstu yfirheyrslu skýrt hreinskilnislega og greiðlega frá atvikum og sínum högum, og þá þegar hafi átt að koma í ljós, að hann hafi í engu verið hlutdeildarmaður að ætluðum ásetningi eða broti farþega síns.  Sá framburður hafi einnig verið studdur framburði B.  Lögregla hafi hlerað símtöl B um langt skeið, áður en kom að handtöku, og í símtölum B hafi hann hvergi komið við þessa sögu, nema þegar B bað um flutninginn austur.  Stefnandi sé og hafi verið 75% öryrki, þegar atvik þessi gerðust, og aðgerðir lögreglu hafi því haft enn verri áhrif á hann en ella, andlega og líkamlega.  Hann hafi verið í góðri sambúð með konu og annazt með henni börn hennar, en handtakan og gæzluvarðhaldið hafi haft þau áhrif, að upp úr sambandinu slitnaði.  Hann hafi misst samband við börnin, orðið húsnæðislaus og hneigzt, vegna andlegs áfalls, til óhóflegrar áfengisdrykkju, sem hann hafi síðar þurft að leita sér meðferðar við.  Sé ekki enn séð fyrir endann á afleiðingum alls þessa.  Stefnandi hafi, fyrir tilstilli  lögreglunnar á [...], þurft að þola og liggja undir röngum fréttaflutningi í fjölmiðlum.

         Rannsókn lögreglu hafi að mörgu leyti verið áfátt.  Stærstu mistökin voru væntanlega verið þau, að lögreglan hafi látið hjá líða að kanna aðstæður í húsinu, áður en B fór inn í það.  Fyrirsát lögreglu hafi, samkvæmt lögregluskýrslum, hafizt kl. 22.30.  Lögregla kveði B hafa farið inn í húsið kl. 23.41 og komið út kl. 23.46.  Stefnandi fullyrði, að ekkert hefði orðið af handtöku og eftirfarandi aðgerðum, ef lögregla hefði séð, að kveikt hefði á kertum í húsinu, áður en þeir B komu á vettvang.  Slík handvömm lögreglu hafi því kostað stefnanda heilsuleysi, þjáningu, útgjöld og annað óhagræði.  Lögregla hafi ekki farið að ákvæðum um 31. gr. oml. nr. 19/1991.  Seinagangur í meðferð málsins sé í andstöðu við grundvallarreglur 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála um málshraða.

         Kröfu sína um skaðabætur byggi stefnandi á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 176. gr. laganna, sbr. 175. gr., og almennum reglum skaðabótaréttar, einkum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Jafnframt styðji hann kröfu sína m.a. við 67. gr. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 5. og 8. gr. laga nr. 97/1995 og 5.gr., 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

         Stefnandi telji ljóst, að skilyrði ákvæða 175. gr. og a- og b- liðar 176. gr. laga um meðferð opinberra mála séu uppfyllt. Stefnandi hafi saklaus verið beittur þvingunaraðgerðum af sýslumanninum á [...], sem og gæzluvarðhaldi, án þess að fullnægjandi rök að lögum hafi staðið til slíkrar aðgerðar.  Sú staðreynd, að ákæruvaldið hafi ekki gefið út ákæru á hendur honum, staðfesti þá niðurstöðu.  Ekki hafi verið gætt ákvæða 101. gr. oml. við handtöku stefnanda.  Þá telji stefnandi, að lögregla hafi ekki gætt meðalhófs í aðgerðum sínum.  Rannsókn málsins hafi dregizt úr hófi og ekki verið hirt um að tilkynna stefnanda, að mál gegn honum væri látið niður falla, fyrr en lögmaður hans leitaði eftir því sjálfur.  Þannig hafi hann ástæðulaust verið látinn svífa á milli vonar og ótta um margra ára skeið.  Handjárn hafi verið notuð á stefnanda umfram nauðsyn og of lengi á sársaukafullan hátt, sbr. til hliðjónar 3. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 48/1988.  Lögreglan hafi gengið lengra í þessu efni en nauðsyn hafi borið til, sbr., m.a. meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, og einnig til hliðsjónar niðurlagsákvæði 40. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna, og í ljósi allra atvika hafi hún hagað sér á ómálefnalegan hátt.  Vísað sé og til reglna um meðferð handtekinna manna.

         Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að, eða stuðlað að því, að hann sætti þeim aðgerðum, sem lögreglan hafi beitt hann, og sem hann telji vera óforsvaranlegar.

         Miskabótakrafa stefnanda sé að fjárhæð kr. 2.500.000, eða önnur, lægri fjárhæð til vara.

Dráttarvextir af kröfu stefnanda reiknist frá birtingu stefnu.

         Um bótaábyrgð stefnda vísi stefnandi til almennra sjónarmiða um húsbóndaábyrgð.  Kröfuna um dráttarvexti styðji stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Um málskostnað vísist til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga og nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsky1dur.  Varnarþing sé heimilisvarnarþing stefnda.

Málsástæður stefndu

Stefndi kveðst mótmæla því, að grundvöllur sé til greiðslu skaðabóta eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Byggi stefndi á því, að aðgerðir lögreglu og gæzluvarðhald, sem stefnandi hafi sætt, hafi verið lögmætar ráðstafanir í þágu rannsóknar málsins, sbr. 97. gr. og 103. gr. nefndra laga.  Stefndi mótmæli því einnig, að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt.  Hvergi hafi verið til að dreifa ólögmætri meingerð gegn friði, æru eða persónu stefnanda.

         Stefndi leggi áherzlu á, að hin upphaflega ábending um, að til stæði að bera eld að húsinu, hafi átt við rök að styðjast.  Aðstæður allar og á vettvangi umrædda nótt hafi óhjákvæmilega vakið þann rökstudda grun, að mennirnir, og þar með stefnandi, ættu hlut að máli.  Þótt rannsókn málsins hafi ekki beinzt að stefnanda í upphafi, þegar símhleranir áttu sér stað, liggi engu að síður fyrir, að hann var á vettvangi með B.  Rökstuddur grunur hafi því hlotið að beinast að stefnanda einnig og að hann væri a.m.k. hlutdeildarmaður í brotum þeim, sem B var síðar ákærður fyrir.  Enn sé til að taka, að stefnandi hafi viðurkennt að hafa ekið B austur fyrir fjall.  Handtakan hafi því verið fullkomlega lögmæt og réttlætanleg og réttmætt að óska eftir, að hann sætti gæzluvarðhaldi.  Mótmæli stefndi því, að handtakan hafi verið framkvæmd á særandi, meiðandi eða móðgandi hátt.  Hvergi sé komið fram, að stefnandi hafi verið þrifinn úr bifreiðinni, heldur hafi honum, ásamt félaga sínum, verið skipað að stíga út, sem þeir hafi og gert.  Að öllu leyti hafi verið gætt ákvæða 101. gr. laga nr. 19/1991.

         Frá upphafi hafi verið ljóst, að málið væri yfirgripsmikið og teygði anga sína víða.

         Eigandi hússins og hinir handteknu, þ.á.m. stefnandi, hafi allir verið úrskurðaðir í gæzluvarðhald.  Hafi gæsluvarðhald yfir stefnanda verið staðfest með dómi Hæstaréttar til 4. febrúar 2008, en ekki hafi verið krafizt framlengingar þess, og hafi hann verið látinn laus sama dag.

         Af framangreindu sé ljóst, að mati stefnda, að rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi, þegar stefnandi var handtekinn og skilyrði til gæzluvarðhalds, eins og Hæstiréttur hafi staðfest.  Ljóst sé, að mati stefnda, að rökstuddur grunur hafi hlotið að beinast að stefnanda ásamt öðrum og veruleg hætta á, að hann gæti torveldað rannsókn málsins, meðal annars með því að hafa samband við aðra, sem kynnu að tengjast broti því, sem til rannsóknar var.  Skilyrði gæzluvarðhaldsins hafi því verið fyrir hendi samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Þá hafi gæzluvarðhaldinu alls ekki verið markaður of langur tími, að mati stefnda.

Ranglega sé fullyrt í stefnu, að lögregla hafi um langt skeið hlerað símtöl B.  Hið rétta sé, að lögreglu hafi fyrst borizt upplýsingar um ráðagerðir B þess efnis, að hann myndi kveikja í [...], þann 6. janúar 2004, dskj. nr. 13, þremur vikum fyrir íkveikjuna.

         Í stefnu sé því ranglega haldið fram, að niðurstaða matsmanns, C, um almannahættu hafi byggzt á röngum skilningi hans á hugtakinu almannahætta.  Á þetta hafi aldrei reynt í dómsmálinu, þar sem ákærðu hafi verið sýknaðir af þeirri ástæðu, að ekki hafi verið talið sannað, að þeir hefðu verið að verki.  Hafi því ekki verið þörf á að taka afstöðu til matsgerðarinnar.

         Því sé haldið fram af stefnanda, að honum hafi ekki verið ljóst fyrr en í nóvember 2007, að hann yrði ekki ákærður í málinu.  Þetta standist ekki, að mati stefnda, því að stefnandi hafi gefið skýrslu sem vitni fyrir dómi við meðferð málsins hinn 23. júlí sama ár, og a.m.k. þá verið kunnugt um, að hann yrði ekki ákærður í málinu.  Þá sé bent á, að stefnandi hafi haft verjanda, en hvorugur þeirra hafi gert reka að því að fá upplýsingar um, hvort stefnandi yrði ákærður.  Stefndi telji því, að þótt dregizt hafi að tilkynna stefnanda um niðurstöðu rannsóknar gagnvart honum, hafi honum og verjanda hans mátt vera ljóst, að hann yrði ekki ákærður.

         Stefndi mótmæli því, að ekkert hefði orðið úr handtöku, ef lögregla hefði séð, að kveikt hefði verið á kertum inni í húsinu, áður en þeir B komu á vettvang.  Ekkert liggi fyrir um það, eða sé það sannað, að kveikt hafi verið á kertum innandyra, þegar þeir félagar komu á vettvang.  Hins vegar hafi verið á það bent í dóminum, að þar sem lögregla kannaði ekki aðstæður, áður en vöktunin hófst, hafi ekki verið loku fyrir það skotið, að aðrir en ákærðu hafi átt hlut að máli.  Á hinn bóginn komi fram, að útskýringar B á því, af hverju hann hefði ekki slökkt kertin innan um alla olíuna, hlytu að teljast ótrúverðugar, eins og vikið sé að í dóminum.  Að sama skapi hafi skýrslur stefnanda ekki verið sannfærandi um tilefni ferðarinnar, þar sem hann ók B.

         Stefndi mótmæli því, að gæzluvarðhaldið yfir stefnanda, eða aðrar aðgerðir, hafi haft þau áhrif, sem vikið sé að í stefnu.  Þótt handtaka og gæzluvarðhald sé þvingunarúrræði og að sama skapi íþyngjandi frelsisskerðing, verði að gera kröfu um haldbæra sönnun, eftir atvikum gögn eða matsgerð, hafi það haft svo alvarlegar afleiðingar, sem nefndar séu í stefnu.  Gæzluvarðhaldið hafi aðeins varað í fáa daga og engin sönnun komin fram um þær afleiðingar, sem stefnandi haldi fram.  Á engan hátt sé sannað, að aðgerðirnar hafi komið fjölskylduböndum hans í uppnám eða leitt hann til áfengisneyzlu.

         Meðan á gæzluvarðhaldinu stóð, hafi framgangur rannsóknar verið eðlilegur og tíminn nýttur til gagnaöflunar og skýrslna af stefnanda og öðrum, þ.á.m. öðrum sakborningum.  Stefnandi hafi verið í einangrun, en með aðgang að fjölmiðlum.  Stefndi mótmæli því, að fréttir hafi verið sagðar af stefnanda í fjölmiðlum fyrir tilstilli lögreglunnar.

         Með vísan til framanritaðs byggi stefndi á því, að ekki séu uppfyllt skilyrði 175. gr. eða 176. gr. laga nr. 19/1991.  Lögmæt skilyrði og nægjanleg tilefni hafi verið til allra þeirra aðgerða, sem stefnandi hafi sætt, og meðalhófs gætt.  Því sé mótmælt, að handjárn hafi verið notuð of lengi eða á sársaukafullan hátt.

         Stefndi mótmæli því, að kröfur stefnanda sæki stoð í 67. gr. og 71. gr. stjórnarskrár eða þau ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu, sem vitnað sé til í stefnu.  Þá telji stefndi tilvitnað ákvæði Evrópsku fangelsisreglnanna ekki styðja kröfur stefnanda.  Stefndi mótmæli því, að bótakröfur stefnanda eigi stoð í almennum skaðabótareglum eða reglum um húsbóndaábyrgð.  Þar sem stefndi telji skilyrði 175. gr. laga nr. 19/1991 ekki uppfyllt, sé það einnig dómsins að ákveða, hvort niðurlagsákvæði 1. mgr. standi bótarétti stefnanda einnig í vegi.

         Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé umkröfðum bótum mótmælt sem allt of háum og í engu samræmi við dómaframkvæmd, þegar fallizt hafi verið á bætur.

         Af hálfu stefnda sé kröfum um dráttarvexti mótmælt, einkum upphafstíma þeirra.  Sé bent á, að dráttarvaxtakrafa sé vanreifuð og ekki dómtæk.

         Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar, auk stefnanda, D læknir, B, E, rannsóknarlögreglumaður, F, lögfræðingur, G, lögreglufulltrúi, H lögreglumaður og I hrl.

         Stefnandi byggir á því, að aðgerðir lögreglu hafi farið í bága við lög og valdið stefnanda miska og fjártjóni.

         Aðgerðir lögreglu byggðust á upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmanni, sem lögregla taldi trúverðugar.  Í kjölfarið fékk lögregla heimild til að hlusta síma B, sem stefnandi ók til [...] kvöldið 29. janúar 2004.  Símhleranir lögreglu leiddu til þess, að ákveðið var að vakta umrætt hús á [...] að kvöldi 29. janúar 2004.

         Endurrit af samtölum B og þinglýsts eiganda hússins, A, annars vegar frá 19. janúar 2004 og hins vegar frá 29. janúar 2004, liggja fyrir í málinu.  Í fyrra símtalinu kemur glögglega fram, að A er í verulegum fjárhagsvandræðum og má leiða að því líkur, að vandamál hans tengist húsinu á [...].  Þá ber samtalið með sér, að B telur varhugavert að ræða þessi mál í síma.  Í síðara símtalinu kemur glöggt fram, að einhver aðgerð er fyrirhuguð um kvöldið, og með hliðsjón af þeim upplýsingum lögreglu um fyrirhugaða íkveikju, má skilja þær samræður svo, að verið sé að tala um kjöraðstæður fyrir íkveikju, sbr. eftirfarandi samræður:

B:                  … ég reikna með að þetta skeði í kvöld.

A:                  Ja, ég er að fara yfir heiðina, það er helvítis strekkingur á mér.

B:                  Ég veit það, þetta er alveg …

A:                  Alveg rétti strekkingurinn sko.

B:                  Þetta er ákjósanlegt núna.

A:                  Alveg hreint.

B:                  Það var alveg logn í gær, sko.

                                                       …

A:                  Það er náttúrulega sko já, já ég er alveg að deyja bara.

B:                  Ha

A:                  Ég er að deyja bara út af þessu.

B:                  Já, ekki gera það.

A:                  Nei, en ég launa þér þetta rosalega vel.

B:                  Ekkert mál.

A:                  Alveg, þú átt bara, þú átt mig allan á eftir.

         Spurður fyrir dómi, hvað átt væri við þegar hann sagðist í framangreindu símtali „reikna með að þetta skeði í kvöld“, kvaðst B hafa ætlað að fara og hitta mann á [...], sem hefði verið að taka efni, verkfæri og annað dót í eigu vitnisins út úr húsinu, og hefði hann ætlað að reyna að endurheimta eitthvað af því.  Þegar hann ók fram hjá húsi þess manns hefðu öll ljós í því húsi slokknað, og því hefði hann ekki farið þangað.

         Spurður fyrir dómi um erindi sitt til [...] þetta kvöld svaraði hann, að hann hefði bara viljað athuga með húsið, þar sem hann hefði haft í hyggju að kaupa húsið og gera það upp, en það hefði verið mikið um innbrot í húsið. 

         Í gögnum málsins kemur fram, að stefnandi, Sigurður Grettir, hefði verið tregur til að aka B til [...] umrætt kvöld, en B hefði marghringt í hann fyrr um daginn til að fá hann til þess. 

         Fram kemur í gögnum málsins, að þegar stefnandi ók B til [...] umrætt kvöld, var bifreiðinni lagt, að beiðni B, bak við húsið að [...], í skjóli milli gáms og húss.

         B brá sér inn í húsið, var nokkrar mínútur í burtu, kom síðan aftur og settist inn í bifreiðina hjá stefnanda.

         Hjá lögreglu hinn 3. febrúar 2004 bar B, að þegar hann kom aftur inn í bifreiðina hefði hann sagt við stefnanda eitthvað í þá áttina, að það væri eldur þarna og hugsanlega einnig logandi kerti.  Hann hefði ætlað að ráðfæra sig við stefnanda, þegar þeir voru handteknir, um hvað þeir ættu að gera, þar sem honum hefði fundizt eins og eldur væri að slokkna á tveimur kertum, sem hann hefði séð þarna inni, en honum hefði ekki fundizt eins og það væri að kvikna í, og hafi hann því verið að hugsa um, hvort þeir ættu að hafa samband og tilkynna um atvikið eða hvort þeir ættu að slökkva á kertunum sjálfir,.

          Fyrir dómi bar B, þegar hann var inntur eftir því, hvort honum hefði ekki komið til hugar að slökkva á kertunum, að hann hefði verið að hugsa um að tala fyrst við lögregluna, þar sem stanzlaust hefði verið brotizt inn í húsið.

         Stefnandi skýrði hins vegar svo frá hjá lögreglu hinn 30. janúar 2004, að B hefði setzt inn í bifreiðina og sagt honum, að hann gæti ekið af stað áleiðis til Reykjavíkur, þar sem hann, þ.e. B, „væri búinn að redda þessu“.

         Þegar lögregla kannaði húsið, eftir að hafa handtekið stefnanda og B, komu í ljós tvö logandi kerti nær útbrunnin, á kæliborði, ofan á gulri dulu.  Sterk olíulykt var innandyra og olíublautir pappakassar í stæðu, auk þess sem olía var á gólfi.  Stafaði að mati lögreglu veruleg íkveikjuhætta frá kertunum miðað við þær aðstæður, sem voru á staðnum. 

         Enda þótt lögreglu hafi láðst að kanna aðstæður á staðnum, áður en B kom í húsið, þannig að lögfull sönnun var m.a. af þeim sökum ekki talin liggja fyrir í máli ákæruvaldsins á hendur B um, að hann hefði kveikt í kertunum með íkveikju í huga, þykir framburður hans um málsatvik með ólíkindum.  Skýringar B á innihaldi símtalanna, sem hleruð voru, erindi sínu til [...], hinum logandi kertum, sem hann kvað hafa verið í húsinu og viðbrögðum sínum við þeim, eru ekki trúverðugar að mati dómsins og stangast m.a. á við framburð stefnanda hjá lögreglu, sem greinir hér að framan. 

         Samkvæmt framansögðu verður að fallast á með stefnda, að nauðsynlegt hafi verið að handtaka stefnanda, ásamt B, þar sem rökstuddur grunur var fyrir hendi um alvarlegt brot, sem stefnandi kynni að vera hlutdeildarmaður að.  Stefnandi lýsti frá upphafi sakleysi sínu.  Enda þótt fallast megi á, að framburður hans sé trúverðugur um aðkomu hans að málinu, voru aðstæður þær á vettvangi, að það blasti ekki við, að hann ætti ekki hlutdeild að ætluðu broti.  Er því ekki fallizt á, að gæzluvarðhaldi hafi verið beitt án þess, að fullnægjandi rök hafi staðið til þeirrar aðgerðar.

         Enda þótt rannsókn málsins hafi ekki leitt til ákæru á hendur stefnanda, felur það ekki í sér skilyrðislausan rétt stefnanda til miskabóta samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991. 

         Dómurinn telur ósannað, að handtakan hafi verið harkaleg eða verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.  Þá er ósannað, að stefnandi hafi verið klæðalaus í um sólarhring eftir handtökuna og m.a. gefið skýrslu hjá lögreglu á nærbuxunum einum fata, en einungis er við framburð stefnanda að styðjast, hvað það varðar.  Er þannig ekki fallizt á, að þær aðgerðir lögreglu, sem stefnandi tiltekur í stefnu, hafi farið í bága við lög.  Þá er ósannað, að lögregla hafi ekki gætt meðalhófs í aðgerðum sínum.  Þá er ósannað, gegn andmælum stefnda, að lögregla beri á einhvern ábyrgð á fjölmiðlaumfjöllun um málið.

         Stefnandi byggir á því, að ekki hafi verið hirt um að tilkynna honum, að mál gegn honum hefði verið látið niður falla, fyrr en lögmaður hans leitaði eftir því sjálfur, og hafi hann því verið látinn svífa á milli vonar og ótta um margra ára skeið, en honum var tilkynnt um niðurfellingu málsins með bréfi, dags. 8. nóvember 2007. 

         Málið var fellt niður gagnvart stefnanda hinn 6. marz 2007, sama dag og ákæra var gefin út á hendur  B og A. Liðu þannig 8 mánuðir frá því að málið var fellt niður, þar til stefnanda var tilkynnt um það.  Áður en málið var fellt niður hafði það verið til rannsóknar hjá lögreglu í um 3 ár, en ekki verður séð af málatilbúnaði stefnanda, að krafa hans feli í sér bætur vegna dráttar á rannsókn málsins.       Þá er ekki ljóst af mála­tilbúnaði stefnanda við hvaða lagaákvæði hann styður bótakröfu sína vegna þessa hluta kröfugerðarinnar.

         Enda þótt fallast megi á með stefnanda, að 8 mánuðir séu nokkuð langur tími frá niðurfellingu þar til hann fékk tilkynningu um niðurfellinguna, verður að líta til þess, að stefnandi kom fyrir dóm sem vitni í máli ákæruvaldsins á hendur B og A, sem dómtekið var 23. júlí 2007, og mátti honum á þeim tíma vera ljóst, að málið hefði verið látið falla niður á hendur honum.  Er því ekki fallizt á, að sá tími hafi verið svo óhóflegur, að baki bótaskyldu stefnda á grundvelli þeirra lagaákvæða, sem stefnandi vísar almennt til í málatilbúnaði sínum.   

         Samkvæmt öllu framansögðu er ekki fallizt á, að skilyrði til bóta samkvæmt 176. gr., sbr. 175. gr. l. nr. 19/1991, 26. gr. l. nr. 50/1993 eða öðrum þeim lagaákvæðum, sem stefnandi styður kröfur sínar við, ekki uppfyllt.  Er miskabótakröfu stefnanda því hafnað.          

         Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður. 

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðinn kr. 280.000, en þá hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenzka ríkið er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Grettis Erlendssonar,

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 280.000, greiðist úr ríkissjóði.