Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2004


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005.

Nr. 371/2004.

Zuheng Li

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Síld og fiski ehf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Sakarskipting. Gjafsókn.

Z slasaðist á vinnustað sínum hjá S ehf. er hún rann til á gólfmottu, sem verið var að þrífa, og féll í gólfið. Var Z að koma úr kaffistofu eftir morgunkaffitíma og fór sem leið lá inn í vinnslusal á neðri hæð til að fara upp í sal á efti hæð, þar sem hún vann við pökkun matvæla. Í málinu var ágreiningslaust að gólfið í vinnslusalnum niðri, sem Z þurfti að ganga í gegnum, hafði iðulega verið hált vegna fitu og bleytu tengdri vinnu þeirri sem þar fór fram, og þess vegna hafi starfsmenn í þeirri deild þurft að vera í sérstökum stígvélum við vinnu sína. Z var ekki í slíkum stígvélum, heldur sínum eigin skóm, enda vann hún uppi á lofti við pökkun matvælanna, sem unnin voru niðri. Z tók það ráð að klofa eða stökkva yfir á gúmmímottuna, sem hún taldi trausta. Talið var að vegna vanrækslu á að tilkynna slysið yrði S ehf. að bera hallann af sönnunarskorti á að eðlilega hafi verið að verki staðið af þess hálfu. Hvað sem öðru liði hafi Z tekið áhættu með því að stikla yfir á gúmmímottuna, sem hún mátti sjá að var blaut, enda verið að þrífa hana og gólfið. Báðir aðilar ættu því nokkra sök á slysinu. Ekki yrði gert upp á milli þeirra og bæru þeir því sök að jöfnu. Var S ehf. því gert að bæta Z tjón hennar að hálfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2004 og krefst þess að stefndi greiði sér 5.368.319 krónur með 4,5% ársvöxtum af 6.050.490 krónum frá 11. apríl 2001 til 20. febrúar 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 11. ágúst sama árs og af 5.368.319 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara, að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli þá niður.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.

I.

Áfrýjandi slasaðist á vinnustað sínum hjá stefnda 11. apríl 2001 um kl. 10 um morguninn er hún rann til á gólfmottu og féll í gólfið. Hún kvaðst hafa verið að koma úr kaffistofu eftir morgunkaffitíma og farið sem leið lá inn í vinnslusal á neðri hæð til þess að fara upp í salinn á efri hæð, þar sem hún vann við pökkun matvæla. Við dyrnar í vinnslusalnum niðri hafi kona verið að þrífa gólfið og mikið vatn hafi verið á því. Fyrir gangveginum hafi verið fatakarfa úr járni, sem hindrað hafi för áfrýjanda venjulega leið. Beint fyrir framan hana hafi verið gúmmígólfmotta, sem venjulega hafi verið við dyrnar, en hafi nú verið færð frá um 1-1,5 metra. Mottan hafi verið til þess að fólk rynni ekki á gólfinu. Hún hafi ákveðið að klofa yfir á mottuna og fara beint í gegnum salinn yfir að tröppunum, sem lágu upp að hennar sal. Engir hafi verið að vinna í þessum vinnslusal við þetta tækifæri. Þegar hún hafi klofað yfir á mottuna hafi hún runnið á henni og fallið illa. Mottunni hafði verið snúið við og botninn hafi ekki verið stamur eins og mottan var þegar hún sneri rétt. Auk þess hafi mottan verið löðrandi í vatni og fitu. Þegar hún hafi staðið á fætur hafi hún fundið mikið til og reynt að gera fólki skiljanlegt að hún þyrfti að komast til læknis en því hafi ekki verið sinnt. Dóttir hennar hafi sótt hana í hádeginu og ekið henni á Slysadeild Landspítala í Fossvogi. Þetta hafi verið síðasti vinnudagur fyrir páskafrí og hún hafi ekki getað unnið hjá stefnda eftir þetta.

Eina vitnið að atburðinum var konan sem var að þrífa. Hún kom fyrir héraðsdóm og gaf skýrslu, auk þess sem hún gaf skýrslu hjá lögreglu 8. júlí 2002. Hún sagði að gólfmottan hafi verið þannig gerð að ekki skipti máli hvernig hún sneri, hún væri með stórum götum sem hafi valdið því að hún væri viðloðin gólfið. Hún hafi verið að þrífa undan mottunni eins og oft áður. Hún hafi byrjað að draga mottuna frá dyrunum, um 1,5 metra og síðan þrifið gólfið, bæði spúlað það með vatni og þrifið það þannig að það hafi verið þurrt. Síðan hafi hún byrjað að þrífa mottuna. Þá hafi áfrýjandi komið í dyragættina. Hún hafi sagt áfrýjanda að vara sig og gefið henni merki með höndunum um að fara varlega, þar sem hún hafi lítt skilið og talað íslensku. Hún hafi gefið merki eins og maður sé að stöðva einhvern, sett hendurnar fram fyrir sig með flötum lófunum. Þá hafi áfrýjandi tekið sig til og stokkið úr dyragættinni og upp á mottuna sem hún hafi verið að þrífa. Við það hafi áfrýjandi runnið og fallið í gólfið en mottan hafi ekki hreyfst. Áfrýjandi hafi runnið ofan á mottunni, sem hún hafi verið búin að skola hana með vatni og átt eftir að hrista það af henni.

Afleiðingum slyssins er lýst í héraðsdómi, svo og kröfu áfrýjanda og málsástæðum aðila.

II.

Slys áfrýjanda var ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins, svo sem skylt var samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum. Orsakir slyssins voru því ekki rannsakaðar af þess hálfu og engin vettvangskönnun gerð, eins og 81. gr. laganna mælir fyrir um. Fram er komið, að eftir slysið hafi gúmmímottan verið fjarlægð og aðstæðum breytt á slysstað.

Ágreiningslaust er að gólfið í vinnslusalnum niðri, sem áfrýjandi þurfti að ganga í gegnum, hafi iðulega verið hált vegna fitu og bleytu tengdri vinnu þeirri sem þar fór fram, og þess vegna hafi starfsmenn í þeirri deild þurft að vera í sérstökum stígvélum við vinnu sína. Áfrýjandi var ekki í slíkum stígvélum, heldur sínum eigin skóm, enda vann hún uppi á lofti við pökkun matvælanna, sem unnin voru niðri. Áfrýjandi tók það ráð að klofa eða stökkva yfir á gúmmímottuna, sem hún taldi trausta. Hefði Vinnueftirlitinu verið tilkynnt um slysið hefði rannsókn á vettvangi farið fram, mottan verið skoðuð og aðstæður allar og leitast við að leiða í ljós og meta hvað gerst hafi í raun. Úr því það var ekki gert verður ekki í það ráðið frekar. Vegna vanrækslu á að tilkynna slysið verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti á að eðlilega hafi verið að verki staðið af hans hálfu. Í ljós er leitt að hvað sem öðru líður hefur áfrýjandi tekið áhættu með því að stikla yfir á gúmmímottuna, sem hún mátti sjá að var blaut, enda verið að þrífa hana og gólfið. Þegar þetta er virt verður að telja að báðir aðilar eigi nokkra sök á slysinu. Verður ekki gert upp á milli þeirra og teljast þeir því bera sök að jöfnu. Verður stefnda því gert að bæta áfrýjanda tjón hennar að hálfu.

Krafa áfrýjanda hefur ekki sætt tölulegum andmælum. Heildartjón hennar nemur 6.050.490 krónum, en þar af ber stefnda að bæta henni helming eða 3.025.245 krónur. Hinn 11. ágúst 2003 greiddi réttargæslustefndi áfrýjanda 682.171 krónu úr slysatryggingu launþega, sem stefndi hafði tekið. Verður sú fjárhæð dregin frá því, sem stefnda ber að bæta áfrýjanda, og verður hann þannig dæmdur til að greiða henni 2.343.074 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Dæma verður stefnda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Síld og fiskur ehf., greiði áfrýjanda, Zuheng Li, 2.343.074 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.025.245 krónum frá 11. apríl 2001 til 20. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 11. ágúst 2003 og af 2.343.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði í ríkissjóð samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Zu Heng Li, kt. 280846-2289, Reykjavíkurvegi 35a, Hafnarfirði, gegn Síld og fiski ehf., kt. 590298-2399, Dalshrauni 9b, Hafnarfirði, og Sjóvá-Almennum trygg­ingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu, er sótt var þing af hálfu stefndu 25. september 2003, þar sem stefna ásamt fylgiskjölum voru lögð fram af hálfu stefnanda.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjár­hæð 6.050.490 kr. með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 11. apríl 2001 til 20. febrúar 2003, en dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­dags að frádregnum 682.171 kr. greiddum hinn 11. ágúst 2003.  Þá er krafist máls­kostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefn­anda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt fram­lögðum málskostnaðarreikningi.  Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefn­anda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í máli þessu enda eru engar kröfur gerðar á hendur honum.

Helstu málavextir eru að stefnandi varð fyrir slysi á vinnustað sínum hjá stefnda að Dals­hrauni 9b í Hafnarfirði 11. apríl 2001.  Samkvæmt framburði hennar við skýrslu­töku um atvikið hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 28. ágúst 2001, kvaðst hún hafa unnið við margs konar störf við pökkun og verðmerkingar o.fl. hjá stefnda.  Hafi hún verið að koma úr kaffi er hún hafi stigið á mottu, sem starfsstúlka hafði snúið við, mottan hafi runnið undan fæti hennar og hún skollið af miklu afli á gólfið og lent á hægri öxl.

Rannveig Sigurðardóttir gaf skýrslu hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 8. júlí 2001 um slysið.  Í skýrslunni kemur fram að kaffistofan í húsinu að Dalshrauni 9b er á neðri hæð, þar sem vinnslan fer fram, en á efri hæðinni er pökkunarsalurinn.  Kvað hún starfsfólk, sem vinnur í pökkunarsalnum, þurfa að ganga um einar dyr, sem séu að vinnu­sal, og ganga þar í gegn til að komast að kaffistofunni.

Þá greindi hún frá því að öllum starfsmönnum, sem vinna í vinnslusal, sé gert að vera í ákveðnum stígvélum vegna fitu og bleytu, sem verður þar á gólfinu og gerir það mjög hált.  Starfsmönnum í pökkunarsal sé hins vegar ekki gert að vera í slíkum stíg­vélum þar sem þar sé þess ekki þörf.  Við hurðina að vinnslusalnum, þar sem starfs­fólkið úr pökkunarsal gengur um til að komast til kaffistofunnar, kvað hún hafa verið gúmmímottu, sem alltaf hafi verið þrifin reglulega, oft á dag, sökum þess að í hana hafi runnið bæði fita og vatn sem gerði hana mjög hála „en nú í dag er búið að fjar­lægja þessa mottu”.  Kvað hún gúmmímottuna hafa verið þannig gerða að ekki skipti máli hvernig hún snéri, hún hefði verið með stórum götum sem gerði hana meira viðloðandi gólfinu.

Í lögregluskýrslunni segir síðan:

Skömmu fyrir þetta umrædda óhapp hennar Zu Heng Li að þá var ég að þrífa þarna undan þessari gúmmímottu eins og oft áður.  Ég byrjaði  á því að draga hana frá hurð­inni c.a. 1,5 metra og síðan þreif ég gólfið bæði spúlaði það með vatni og þreif þannig að gólfið var þurrt.  Síðan var ég byrjuð á því að þrífa mottuna þegar Zu Heng Li kom í dyragættina og ætlaði inn í vinnslusalinn en aðrir starfsmenn pökkunardeildarinnar höfðu gengið þarna í gegn nokkru áður og síðan eftir það byrjaði ég að þrífa mottuna.  Þegar Zu Heng Li birtist þarna í dyragættinni að þá sagði ég henni að passa sig ásamt því sem ég gaf henni merki um að fara varlega með höndunum þar sem hún skilur og talar mjög litla íslensku.  Ég gaf þetta merki eins og maður væri að stöðva einhvern, setti hendurnar fram fyrir mig með flötum lófunum, og það gerði ég með báðum höndum. ...

Þegar ég hafði gefið henni þetta "viðvörunarmerki" eins og ég vill meina að þá tók hún sig til og stökk frá dyragættinni og upp á gúmmímottuna sem ég var að þrífa.  Við það rann hún og féll á gólfið en gúmmímottan hreyfðist ekki heldur rann hún ofan á mottunni en ég var aðeins búin að skola hana með vatni og átti eftir að hrista það af henni. ...

Í læknisvottorði Stefáns Dalbergs læknis, sérfræðings í bæklunarlækningum, frá 27. nóvember 2002, segir m.a.:

Zuheng virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu 11.04.2001.  Hún hefur hlotið tognun á hálsi, slæma tognun á hægri axlarsvæði og flísast hefur upp úr brún hægra ac liðar.  Hún hefur einnig tognað á hægri þumal.  Hún hefur verki frá hálsi, hægra axlarsvæði og hægri þumal eftir slysið.  Liðið er um eitt og hálft ár frá slysinu.  Ástandið hefur verið stabilt hjá henni undanfarið.  Ekki er að búast við að hún verði betri með tímanum.  Ástandið telst því vera varanlegt.

Af hálfu stefnda var hafnað bótaskyldu þar sem ósannað væri að slysið mætti rekja til saknæmra aðstæðna á vinnustað eða annarra atvika sem stefndi bæri skaða­bótaábyrgð á.

Hinn 19. desember 2002 fékk stefnandi gjafsókn vegna málsins.  Og á dóm­þingi 7. febrúar 2003 voru Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Páll Sigurðsson prófessor dómkvaddir til að meta afleiðingar slyssins.  Matsgerð þeirra er dagsett 6. júní 2003.  Þar segir undir fyrirsögninni Niðurstöður:

Við vinnuslysið þann 11.04.2001 varð Zuheng Li fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

Frá 11.04.2001 til 03.09.2001 ... 100%

Frá 04.09.2001 til 26.10.2001 ...  0%

Frá 27.10.2001 til 11.02.2002 ...  100%

2. Þjáningabætur skv. 3. grein:

Rúmliggjandi, ekkert.

Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, frá 11.04.2001 til 11.02.2002.

3. Stöðugleikatímamark:  11.02.2002

4. Varanlegur miski skv. 4. grein:  20%

5. Varanleg örorka skv. 5. grein:  35%

6. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:  20%

Dómkröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:

Tímabundið atvinnutjón        965.621 kr.

Þjáningabætur            290.700 kr.

Varanlegur miski         1.090.400 kr.

Varanleg örorka          3.703.769 kr.

Samtals            6.050.490 kr.

Sagt er að tekið hafi verið mið af árslaunum ári fyrir slysið sem verið hafi 1.404.536 kr. er geri mánaðarlaun 117.045 kr.  Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar sé tíma­bundið atvinnutjón 8 mánuðir og 7 dagar og engar tekjur komi til frádráttar.  Við út­reikninga á kröfu vegna varanlegrar örorku hafi verið tekið mið af lág­marks­tekju­viðmiðun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en framreiknað lágmarksviðmið sé 1.635.832 kr.  Greiðsla réttargæslustefnda úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 682.171 kr. hinn 11. ágúst 2003 komi til frádráttar.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanbúið vinnustaðinn að Dalshrauni.  Ekki hafi þess verið gætt að veita vörn gegn hálkuhættum sem séu töluvert miklar í starfsemi er þar fari fram.  Með því hafi stefndi brotið reglur um húsnæði vinnustaða þar sem kveðið sé á um að atvinnurekandi skuli gera ráðstafanir til þess að draga úr hálku á gólfum þar sem þess gerist þörf.

Þá er byggt á því að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins eins og ákvæði 79. gr. laga nr. 46/1980 mæli fyrir um.  Þar sem slysið hafi ekki verið til­kynnt hafi það ekki verið rannsakað af vinnueftirlitinu og skorti því upplýsingar m.a. um eðli og eiginleika mottu, sem veita átti vörn gegn hálku á gólfi vinnusalarins.  Nú sé hins vegar búið að fjarlægja mottuna úr vinnusal stefnda.

Einnig er byggt á því að verkstjóri stefnda hafi vanrækt að gefa fyrirmæli um verk­lag og vinnutilhögun á staðnum og raunar hafi enginn verkstjóri verið þarna þegar slysið átti sér stað.  Verkstjóri hefði átt að tryggja að skýrar leiðbeiningar væru gefnar um að gönguleiðin væri ekki fær þegar á þrifum stóð.

Því er haldið fram að slys stefnanda sé afleiðing af saknæmu gáleysi starfs­manns stefnda, en vinnuveitandi beri bótaábyrgð á tjóni, sem starfsmenn hans valda með ólögmætum og saknæmum hætti.  Ekki sé um eigin sök stefnanda að ræða.  Henni hafi verið ókunnugt um að mottan, sem hún steig á, snéri öfugt sem og að hún væri engin vörn gegn hálku. 

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að ósannað sé að stefnandi hafi hrasað umrætt sinn vegna saknæmra mistaka starfsmanna stefnda, ófullnægjandi verkstjórnar, óforsvaran­legra aðstæðna á vinnustað, eða annarra atvika eða aðstæðna, sem stefndi beri ábyrgð á.

Vísað er til þess að verið var að þrífa mottuna sem að jafnaði var höfð við inn­gang í vinnusalinn þar sem stefnandi datt og slasaðist.  Mottan hafi í þetta sinn verið u.þ.b. 1,5 metra frá dyrunum en ekki við dyrnar, þar sem henni var ætlað að draga úr hálku­myndun, og stefndu hefði ekki getað dulist að verið væri að þrífa hana.  Stefnandi hafi einnig fengið viðvörun frá þeim starfsmanni sem var við þrifin.

Eins og atvik voru þegar slysið varð hafi ekki verið tilefni til að tilkynna at­vikið til vinnueftirlits eða lögreglu.  Rannsókn vinnueftirlits eða lögreglu hefði heldur engu breytt og ekki leitt annað í ljós en þegar liggi fyrir í málinu.

Byggt er á því að stefnandi hafi verið fullfær um að meta slysahættu við þær að­stæður sem blöstu við henni.  Stefnandi hefði starfað á vinnustaðnum um töluverðan tíma og þekkti eða mátti þekkja aðstæður í vinnusalnum og hættu á að gólf kynni að vera hált.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda er varakrafa byggð á því að tjónið sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviljunar og gáleysis stefnanda sjálfrar.  Beri að lækka kröfu stefnanda sem því nemur.

Af hálfu stefnda er tölulegum forsendum og útreikningum á stefnukröfum mót­mælt svo og upphafstíma dráttarvaxta.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði í fyrsta skipti séð unnið að þrifum á vinnslusalnum á þeim stað, sem hún hugðist fara yfir, er henni varð fóta­skortur og slasaðist.  Motta, sem jafnan var höfð við dyr vinnslusalarins, hafði umrætt sinn verið færð frá dyrunum.  Hún kvaðst hafa unnið hjá stefnda í eitt og hálft ár áður en hún varð fyrir slysinu.

Stefnandi hafnaði því að Rannveig, er var að þrífa, hefði varað hana við að ganga inn í vinnslusalinn.  Hún kvaðst aðspurð ekki hafa unnið hjá öðrum vinnu­veit­anda á þeim tíma er hún vann hjá stefnda.

Rannveig Sigurðardóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún starfaði hjá stefnda við vinnslu og þrif.  Slysið hefði orðið rétt eftir kaffihlé um morguninn.  Um­rædd motta hafði verið færð frá innganginum þar sem hún var að þrífa gólfið og mott­una.  Stefnandi hefði stokkið úr dyragættinni á mottuna enda þótt að hún hefði gefið stefn­anda merki um að fara varlega.  Mottuna kvað hún þá hafa verið rúman metra frá dyrunum.

Hún sagði aðspurð að á þeim tíma sem slysið varð hafi kaffitíminn á morgnana staðið frá kl. 9.15 til kl. 10.15, og hver starfsmaður fengið hálfan tíma.  Þá staðfesti hún að hafa gefið skýrslu um atburðinn hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 8. júlí 2002, sem fram kemur á dskj. nr. 4.

Ásdís Sigurgeirsdóttir, starfsmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún sem verkstjóri stefnanda hefði ekki gert athugsemdir við skófatnað stefnanda á vinnu­staðnum.

Einar Sigurðsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði verið  fram­leiðslu­stjóri þegar hann starfaði hjá stefnda.  Hann kvaðst hafa hætt störfum hjá félag­inu í nóvember 2001.  Hann sagði að vinnslusalurinn hefði stöðugt verið þrifinn allan daginn.  Hann sagði að alltaf væri hætta á hálku á gólfum í vinnslusal á svona vinnu­stöðum.  Reynt væri að draga úr henni svo sem unnt væri með þrifum.

Ályktunarorð:  Stefnandi hrasaði og slasaðist á leið sinni úr kaffistofu á vinnustað hjá stefnda að Dalshrauni 9 í Hafnarfirði.  Þar er rekin kjötvöruvinnsla og er vinnslusalur á neðri hæð en pökkunarsalur á efri hæð.  Kaffistofan er á neðri hæðinni og lá leið stefn­anda gegnum vinnslusalinn og þaðan upp á efri hæðina til pökkunarsalarins þar sem hún var staðsett við störf sín hjá stefnda á þessum tíma.

Stefnandi hafði að eigin sögn unnið í eitt og hálft ár hjá stefnda er hún slas­aðist.  Verður því að álykta að henni hafi verið kunnugt um aðstæður, þ. á m. að sér­stakrar aðgæslu var þörf er gengið var um vinnslusalinn þar sem óhjákvæmilega alltaf var, vegna kjötvinnslunnar, hætta á fitu og bleytu á gólfinu og þá hálku.  Engu breytir í þessu efni þó að motta, er jafnan var höfð við útganginn úr vinnslusalnum – vænt­an­lega til að kjöttægjur, fita og önnur óhreinindi bærust síður úr vinnslusalnum inn í að­liggjandi forstofu – hefði verið færð til hliðar vegna þrifa sem þá fór fram.  Þessar að­stæður kölluðu raunar á frekari aðgæslu af hálfu stefnanda heldur en ella jafnvel þó að hún hefði engar viðvaranir fengið svo sem hún heldur fram.

Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísun til rökstuðnings stefnda verður ekki talið að slysið megi rekja til saknæmra aðstæðna á vinnustaðnum eða ann­arra atvika sem stefndi ber skaðabótaábyrgð á.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

             Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu, en um gjafsóknarkostnað stefn­anda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Síld og fiskur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Zu Heng Li.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.