Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2007


Lykilorð

  • Ökuhraði
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Svipting ökuréttar
  • Skilorð


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 136/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Garðari Inga Steinssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ökuhraði. Líkamsmeiðing af gáleysi. Svipting ökuréttar. Skilorð.

 

G var sakfelldur fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 og 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með því að hafa ekið bifhjóli yfir leyfilegum hámarkshraða í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi þar sem árekstur varð með bifhólinu og annarri bifreið með þeim afleiðingum að G og farþegi á hjólinu köstuðust af því. Hlaut farþeginn við það alvarlegt lærleggsbrot. Viðurlög G, sem ákveðin voru sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, þóttu með hliðsjón af 5. og 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. sömu laga hæfilega ákveðin 60 daga skilorðsbundið fangelsi ásamt sviptingu ökuréttar í eitt ár. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu og frekari sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að viðurlög verði milduð.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni ákæru og málsatvikum. Þar þótti ósannað að ákærði hefði skipt ört um akreinar áður en árekstur varð með bifhjóli hans og bifreiðinni X í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi í Reykjavík. Er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar eins og áfrýjun og kröfugerð er háttað fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdóm er tekin upp greinargerð dr. Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði, um útreikninga á hraða bifhjóls ákærða þegar hemlun hófst áður en það rakst á bifreiðina X. Taldi hann að „mögulegur lágmarkshraði“ bifhjólsins hefði á þessum tímapunkti verið 115 kílómetrar á klukkustund og er ákæran við það miðuð. Magnús kom fyrir dóm og staðfesti greinargerð sína auk þess að svara spurningum um efni hennar. Kom þar fram að vafaatriði við útreikningana hefðu verið skýrð ákærða í hag. Hefur þessum útreikningi ekki verið hnekkt. Með honum og framburði vitna, sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi, er sannað að ákærði ók bifhjóli sínu langt yfir lögleyfðum hámarkshraða, sem er 80 kílómetrar á klukkustund. Braut hann með þessu gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en ekki þykja eins og hér stendur á vera efni til að telja þessa háttsemi jafnframt varða sérstaklega við a. lið 2. mgr. 36. gr. laganna eins og krafist er í ákæru. Varðar brotið ákærða refsingu samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laganna og sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. þeirra.

Við árekstur bifhjólsins og bifreiðarinnar X, en báðum ökutækjunum var ekið til vesturs á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku, köstuðust ákærði og farþegi á bifhjólinu af því og hlaut farþeginn alvarlegt lærleggsbrot. Er ákærða gefið að sök brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem lögð er refsing við að valda með gáleysi öðrum tjóni á líkama og heilbrigði, slíku sem í 218. gr. eða 218. gr. a. laganna getur. Í ákæru er ætluðu broti ákærða lýst með þeim hætti, að hraðaakstur hans hafi við aðstæður á staðnum orðið til þess „að þegar ákærði skipti um akrein þar í brekkunni og ók inn á miðakreinina hafði hann ekki fullt vald á bifhjólinu þegar bifreiðinni X var ekið nær samtímis inn á sömu akrein með þeim afleiðingum að árekstur varð með ökutækjunum“. Fyrir liggur að bifreiðin X kom inn á veginn á aðrein af Bíldshöfða stuttu fyrir austan árekstursstaðinn. Á þessum stað háttar svo til að akreinar eru fjórar til vesturs. Nyrst er aðreinin af Bíldshöfða sem helst heil þar til hún liggur út af Vesturlandsvegi nokkru neðar fyrir umferð inn á Sæbraut. Þrjár akreinar liggja beint til vesturs. Varð árekstur bifhjólsins og bifreiðarinnar X á miðakrein þeirra en þangað hafði ökumaður bifreiðarinnar þá flutt hana af akreininni hægra megin sem hann hafði rétt áður komið inn á af aðreininni. Bar hann fyrir dómi að fyrir framan hann hafi verið stór vöruflutningabifreið og hafi hann því beygt yfir á miðakreinina. Hann kvaðst ekki hafa séð bifhjólið áður en áreksturinn varð.

Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi komið akandi niður brekkuna á miðakrein þegar bifreiðinni X hafi verið ekið í veg fyrir hann. Í verknaðarlýsingu ákærunnar er, eins og fyrr getur, akstri ákærða lýst svo að hann hafi verið að skipta um akrein og ekið inn á miðakreinina nær samtímis því að bifreiðinni X hafi verið ekið inn á hana. Þetta er ósannað í málinu. Ljósmyndir af ummerkjum á vettvangi, einkum af hemlaförum eftir bifhjólið og árekstursstaðnum styðja þá fullyrðingu ákærða að hann hafi ekið á miðakrein þegar hann hóf hemlun. Ákomustaðurinn á afturhluta vinstri hliðar bifreiðarinnar X og staðsetning árekstrarins á akbrautinni benda til þess að bifreiðin X hafi enn verið að sveigja inn á miðakreinina þegar áreksturinn varð. Er því ekki loku fyrir það skotið að aksturslag X hafi átt einhvern þátt í slysinu. Þrátt fyrir þetta verður talið að ákærði eigi meginsök á árekstrinum. Hann ók alltof hratt og var þess vegna illa í stakk búinn til að bregðast við hættum sem á vegi hans urðu. Af lengd bremsufara eftir bifhjólið og öðrum ummerkjum á vettvangi verður ráðið að ákærði hefði getað afstýrt árekstrinum ef hann hefði virt hraðamörkin sem þarna gilda. Verður hann sakfelldur fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga, en líta verður til alls aðdraganda árekstrarins við ákvörðun refsingar ákærða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann tvívegis gengist undir sekt og sviptingu ökuréttar hjá lögreglustjóra fyrir umferðarlagabrot. Þá hefur hann samkvæmt gögnum málsins ennfremur 12 sinnum sætt sektum fyrir of hraðan akstur á þriggja ára tímabili eftir 7. júní 2003. Loks var hann, eins og nefnt er í hinum áfrýjaða dómi, dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. júlí 2006 í sekt og sviptur ökurétti í sex mánuði frá 14. ágúst 2006 að telja, fyrir að aka bifreið með 188 kílómetra hraða á klukkustund 30. mars 2006. Ákveðast viðurlög á hendur ákærða nú sem hegningarauki við það brot, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Við refsiákvörðun verður einnig litið til 5. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og fordæma Hæstaréttar í skyldum málum.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Þá verður hann með vísan til 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga látinn sæta sviptingu ökuréttar í eitt ár frá 14. febrúar 2007 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála dæmdur til að greiða 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Garðar Ingi Steinsson, sæti fangelsi í 60 daga. Framkvæmd refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 14. febrúar 2007 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 382.197 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2006.

            Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 8. ágúst sl. á hendur ákærða, Garðari Inga Steinssyni, kt. 020686-3169, Dísarási 8, Reykjavík, fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 30. september 2005, er ákærði ók bifhjólinu TS-981 vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, á vegarkafla vestan gatnamótanna við Höfðabakka þar til árekstur varð, skipt ört um akreinar í þéttri umferð og í Ártúnsbrekku ekið með a.m.k. 115 km hraða á klukkustund, og hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, í þéttbýli, í mikill umferð, niður brekku, í roki, með farþega og þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund, sem varð til þess að þegar ákærði skipti um akrein þar í brekkunni og ók inn á miðakreinina hafði hann ekki fullt vald á bifhjólinu þegar bifreiðinni X var ekið nær samtímis inn á sömu akrein með þeim afleiðingum að árekstur varð með ökutækjunum og farþeginn á bifhjólinu, A, fæddur [...], hlaut alvarlegan lærleggsáverka með kurluðu broti auk annarra minni áverka. 

            Ákæruvaldið telur þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. og a lið 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50,1987.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993.

Málavextir

            Síðdegis 30. september 2005 var lögregla kölluð til vegna áreksturs á Vestur­landsvegi í Ártúnsbrekku, nánar tiltekið á miðrein með akstursstefnu í vestur. Árekstur hafði orðið með jeppabílnum X og bifhjólinu TS-981 þannig að vinstra afturhorn jeppans og hægri hlið bifhjólsins rákust saman, en þeim var báðum ekið í vesturátt.  Köstuðust ökumaður bifhjólsins og farþegi hans af hjólinu og út í vinstri vegkant.   Lágu þeir suðvestan við ætlaðan árekstursstað, farþeginn 65 m og ökumaðurinn 70 m. Bifhjólið kastaðist á hægra framhorn fólksbifreiðarinnar Y sem ekið var vestur Vesturlandsveg á vinstri akrein.  Stöðvaðist bifhjólið ekki fyrr en á móts við Geirsnef þar sem það lá þversum á vinstri hlið og sneri í suður.  Mörg vitni voru að þessu slysi eða aðdraganda þess.  Gáfu þau sig fram við lögregluna og hafa flest komið fyrir dóm í málinu, eins og rakið verður hér á eftir.

            Ökumaður og farþegi á bifhjóli voru fluttir á slysadeild með talsverða áverka.  A, farþegi á bifhjólinu, hlaut alvarlegt brot á hægra lærlegg svo að festa varð það með mergnagla og þverskrúfum.  Afleiðingar þessa áverka hafa orðið þær að leggurinn styttist um 1,3 sm, vöðvar rýrnuðu í fætinum og margs konar óþægindi hlutust af.  Þá er þess að geta að ökumaður hjólsins, ákærði í máli þessu, lærbrotnaði einnig.  

            Allítarleg rannsókn var gerð á vettvangi, hann teiknaður upp og ljósmyndaður og einnig voru jeppinn og bifhjólið rannsökuð af sérfróðum mönnum á vegum Fræðslumiðstöðvar bílgreina.  Eru skýrslur um þá rannsókn í málinu.  Ekki var gerð rannsókn á bíl þeim sem talinn er hafa lent á hjólinu eftir að það rakst á jeppann.  Um bifhjólið segir þar að ekki sé hægt að rekja orsök slyssins til ástands hjólsins en þar er lýst skemmdum á hjólinu, sem taldar eru hafa orðið við slysið, þar á meðal förum á afturhjólbarða.  Um jeppabílinn segir að hemlabúnaður hans hafi verið í sérstaklega slæmu ásigkomulagi þótt slysið verði ekki rakið til þessa ástands búnaðarins.  Þá segir þar að útsýni ökumanns hafi verið verulega skert vegna óhreininda á afturrúðu, hliðarspeglum og hliðarrúðum.

            Loks er að geta þess að Lögreglustjórinn í Reykjavík fékk dr. Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði, til þess að reikna út eftirfarandi atriði, miðað við það sem fram var komið í málinu:

I.

Hraða bifhjólsins TS-981 í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi í Reykjavík í umrætt sinn þegar hemlun hófst áður en það rakst þar á bifreiðina X.

Hver hafi verið mögulegur lágmarkshraði ?

Hver hafi verið mögulegur hámarkshraði ?

Á hvaða hraða sé sennilegast að bifhjólinu hafi verið ekið ?

II.

Hraða bifhjólsins TS-981 þegar það rakst á bifreiðina X.

Hver hafi verið mögulegur lágmarkshraði ?

Hver hafi verið mögulegur hámarkshraði ?

Á hvaða hraða sé sennilegast að bifhjólið hafi verið ?

            Í greinargerð prófessorsins, dagsettri 8. maí sl.,  sem hann hefur staðfest fyrir dómi, segir m.a. að þar sé sett fram ”líkan af atburðarás þegar bifhjólið TS-981 ekur á bifreiðina X í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi í Reykjavík, þann 30. september 2005.  Líkanið er sett upp til að reikna út ætlaðan hraða bifhjólsins áður en hemlun hefst og jafnframt þegar það rekst á bifreiðina X.  Bifreiðin X ekur inn á Vesturlandsveg til vesturs eftir aðrein af Bíldshöfða.  Af aðreininni fer bifreiðin inn á hægri akrein og síðan inn á miðrein.  Bifhjólið TS-981 fer inn á miðrein Vesturlandsvegar í Ártúnsbrekku í vesturátt.  Ökumaður bifhjólsins sér bifreiðina X skipta um akrein í veg fyrir bifhjólið. Ökumaður bifhjólsins hemlar og lendir bifhjólið á bifreiðinni. Við það kastast ökumaður 70 m, farþegi 65 m og bifhjólið fer 123 m eftir malbikinu.

 

Með orðinu hraði er hér átt við stærð hraðans, en það er sú tala, sem réttur hraðamælir sýnir á hverjum tíma.  Í greinargerðinni er byrjað á því að skýra þær aðferðir, sem eru notaðar við að greina hraða bifhjólsins.  Síðan er sett upp líkan af atburðinum og fjallað um úrvinnslu útreikninga.  Að lokum eru niðurstöður settar fram.

[…]

Hér er fjallað um aðferðir sem eru notaðar til að greina hraða bifhjóls sem hemlar, lendir á bifreið og kastast eftir malbiki.  Einnig eru settar fram aðferðir til að reikna árekstrarhraða bifhjóls þegar ökumaður eða farþegi þess kastast af hjólinu og rennur eftir malbikinu.

Hraðinn, sem bifhjólið TS-981 var á áður en ökumaður hemlar, er fundinn með aðferð sem sett hefur verið fram í ritum frá SAE (Society of Automotive Engineers).  Aðferðin byggir á lögmálinu um orkuvarðveisluna. Forsenda útreikninga er að hreyfiorka bifhjólsins sem er með massann M og hraðann vi breytist í vinnu núningskraftsins þegar það hemlar og dregur hjól eftir malbikinu.

Hreyfiorkan í þeirri stöðu breytist síðan í vinnu núningskrafts þegar bifhjólið rennur á hliðinni eftir malbikinu. Ef ökumaður bifhjólsins losnar frá því þegar það fer á hliðina er hægt að nota vegalengdina sem hann kastast eða rennur, til að segja til um hraðann á hjólinu þegar hann losnar frá því.

Samkvæmt [2], er hraði ökutækis, sem hemlar, rennur eftir malbiki  og skilur eftir sig dragför, reiknaður samkvæmt líkingunni,

 

               (1)

 

þar sem vi er hraðinn áður en bifhjólið byrjar að hemla en vc er hraðinn við lok dragfara. Núningsstuðull dekkja við malbikið er μ, dh er hæðarbreyting á vegi og S er lengd bremsu- eða dragfara. Þyngdarhröðunin er g og tíminn sem hemlun er án dragfara eða svipull hemlunartími er ts.

 

Hraðinn við lok hemlunar vc er fundinn út frá vinnu núningskrafts og er þá notuð vegalengdin sem hjólið rennur á hliðinni eftir malbikinu.  Jafnan sem er notuð til að finna hraðann þegar hjólið fer á hliðina er,  

 

                             (2)

þar sem hraðinn ve er hraði á bifhjólinu þegar skriðinu er lokið.  Skriðvegalengdin er Ss og núningsstuðull milli hjólsins og malbiks er μs,, en dh er hæðarbreyting á vegi 

Hægt er að nota jöfnu (2) til að reikna hraðann út frá vegalengdinni sem ökumaður eða farþegi bifhjólsins rennur á malbikinu en þar er Sf  vegalengdin sem hann fer og μf  er núningsstuðull.

Líkangerð

Hér er leitast við það, að draga þær ályktanir sem gögn leyfa um aðstæður, þegar slysið á sér stað.  Sett er upp eftirfarandi líkan af atburðarásinni og er aðallega stuðst við lögregluskýrslur og afstöðuteikningu af vettvangi (sjá mynd 1):

-           Bifreiðin X ekur inn á Vesturlandsveg til vesturs eftir aðrein af Bíldshöfða.

-           Bifreiðin X ekur fyrst inn á hægri akrein og síðan inn á miðrein.

-           Bifhjólið TS-981 ekur inn á miðrein Vesturlandsvegar til vesturs.

-           Ökumaður bifhjólsins sér ökutækið fyrir framan sig og hemlar.    

-           Bifhjólið hemlar fyrst án þess að draga hjól. Þessi tími kallast svipull hemlunartími og samkvæmt rannsóknum James A. Neptune o.fl. er hann á bilinu 0.1 - 0.4 sek.

            -           Bifhjólið TS-981 hemlar, dregur hjól og myndar 25.3 m dragför.    

            -           Bifhjólið fer með hægri hliðina á vinstra afturhorn bifreiðar X og

                         við það kastast ökumaður og farþegi af hjólinu.                 

            -           Eftir áreksturinn við X kastast bifhjólið á bifreiðina Y.

            -           Bifhjólið fer í loftköstum 123 m frá ætluðum árekstrarstað við X

                         samkvæmt vettvangsteikningu lögreglunnar, sjá mynd 1.

            -           Ökumaður og farþegi losna frá hjólinu þegar það lendir í árekstri við

                         X og kastast eftir malbikinu. Farþeginn fer 65 m frá ætluðum

                         árekstrarstað en ökumaðurinn fer 70 m eftir malbikinu.

 

Mynd 1 sýnir vettvangsteikningu og í töflu 1 eru helstu kennistærðir ökutækja.

 

Lýsing

Eining

Ökutæki A

Ökutæki B

Skráningarnúmer

 

TS-981

[...]

Tegund

 

Yamaha FZ6-S

Ssangyong Musso

Flokkur

 

Þungt bifhjól

Fólksbifreið

Árgerð

 

2005

1998

Orkugjafi

 

Bensín

Dísel

Bremsukerfi

 

-

-

Eiginþyngd

kg

207

1995

Reiknuð þyngd

kg

350

2075

Lengd

mm

2095

4640

Breidd

mm

750

1905

 

             Tafla 1:          Kennistærðir ökutækja

 

Hraðinn sem bifhjólið  TS-981 er á, áður hemlun hefst, er reiknaður út samkvæmt lögmáli um orkuvarðveislu og út frá vinnu núningskrafts.

Forsendur fyrir þessa útreikninga  eru:

-           Bifhjólið hemlar án dragfara. Svipull hemlunartími er á bilinu ts = 0.18 - 0.25.

-           Hemlunarvegalengd bifhjólsins TS-981 eða dragför mælast S = 25.3 m.

-           Núningsstuðull bifhjóls við malbik er hámark á bilinu μ = 0.90 - 0.95 samkvæmt heimild [3].  Hér er reiknað með að núningsstuðullinn sé á bilinu μ = 0.7 - 0.9.

-           Bifhjólið fer í loftköstum og myndar grunnar rispur í malbikið, vegalengdin er samkvæmt mælingu á vettvangsteikningu, Ss = 123 m. 

-           Núningsstuðull bifhjóls, sem fer á hliðinni eftir malbiki og skilur eftir sig grunnar rispur, er á bilinu μs = 0.30 - 0.35.  Ef rispurnar eru orðnar dýpri en 6 mm er núningsstuðullinn á bilinu μs = 0.50 - 0.60.  Þar sem ekki er vitað um dýpt á rispum er hér reiknað með að núningsstuðullinn sé á bilinu μs = 0.30 - 0.35.

-           Farþegi bifhjóls kastast af hjólinu og rennur eftir malbikinu vegalengdina Sf = 65 m.  Ökumaðurinn fer 70 m.

-           Núningsstuðull fyrir ökumann eða farþega, sem er leðurklæddur og rennur eftir malbiki, er samkvæmt [3],  μf = 0.60 - 0.65.  Ullarklæðnaður og gerviefni valda meiri núning.

-           Frávik í mældum vegalengdum er ±10%.

Til að reikna lágmarkshraða, hámarkshraða og sennilegasta hraða sem bifhjólið TS-981 var á áður en hemlun hefst, eru notaðar tölulegar forsendur sem settar eru fram  í töflu 2.

 

Breytistærð

 Tákn

Eining

Lágmarks-hraði

Sennilegasti hraði

Hámarks-hraði

Svipull heml.tími

ts

sek

0.18

0.21

0.25

Hemlunarvegl.

S

m

22.8

23.3

27.8

Núningsst.v.hemlun

μ

 

0.7

0.8

0.9

Frákast bifhjóls

Ss

m

111

123

135

Núningsst. Skrið

μs

 

0.30

0.32

0.35

Frákast farþega

Sf

m

58.5

65.0

71.5

Núningsst. Farþega

μf

 

0.60

0.62

0.65

Hæðarbr. Hemlun

dh

m

0.9

0.8

0.7

Hæðarbr. Bifhjóls

dhS

m

1.3

1.2

1.1

Hæðarbr. Farþegi

dhf

m

1.1

1.0

0.9

 

Tafla 2:            Breytilegar forsendur fyrir greiningu á hraða ökutækis TS-981

Niðurstöður útreikninga miðað við ofangreindar forsendur eru settar fram í töflu 3.  Hraðinn við árekstur er reiknaður út frá frákasti bifhjóls eftir árekstur og frákasti farþega eftir árekstur.

 

Lágmarkshraði

Sennilegasti hraði

Hámarkshraði

Hraði fyrir hemlun

115 km/klst

 125 km/klst

138 km/klst

Hraði við árekstur frákast farþega

92 km/klst

99 km/klst

106 km/klst

Hraði við árekstur

frákast bifhjóls

89 km/klst

98 km/klst

107 km/klst

 

Í ofangreindum útreikningum er ekki tekið tillit til hraðaminnkunar vegna árekstursins.

Niðurstöður

Hér eru settar fram niðurstöður greiningar á hraða bifhjóls sem lenti í umferðarslysi á Vesturlandsvegi við Ártúnsbrekku í Reykjavík þann 30. september 2005 kl. 15:43. Hraði bifhjólsins TS-981 er reiknaður samkvæmt viðurkenndri aðferð og með tilvísun  í forsendur eru niðurstöður útreikninga eftirfarandi.

Reiknaður hraði bifhjólsins TS-981, áður en ökumaður hemlar er:

-           sennilegasti hraði er 125 km/klst.

-           mögulegur lágmarkshraði er 115 km/klst.

-           mögulegur hámarkshraði er  138 km/klst.

Samkvæmt ofangreindri aðferðafræði gildir að raunverulegur hraði er meiri en reiknaður hraði þegar einhverjum atriðum er sleppt.  Hér er ekki tekið tillit til hraðaminnkunar í árekstri bifhjólsins TS-981 við X. 

Hraði bifhjólsins TS-981, þegar það lendir í árekstri við ökutækið X  er:

-           sennilegasti hraði er 98 km/klst.

-           mögulegur lágmarkshraði er 90 km/klst.

-           mögulegur hámarkshraði er  106 km/klst.

[…]

Heimildir

[1]       Searle, J.A. The physics of throw distance in accident reconstruction, 930659,  Society of Automotive Engineers, Warrendale, USA, 1993.

[2]       Neptune, J.A., Flynn, J.E., Chavez, P.A. and Underwood, H.W., Speed from Skids: A Modern Approach, Society of Automotive Engineers, Warrendale, USA, 1995.

[3]       Institute of Police Training and Management (PTM), Handout on selected drag factors, USA, January, 2000.

[4]       Neptune, J.A. and Flynn, J.E., A Method for Determining Accident Specific Crush Stiffness Coefficients, Society of Automotive Engineers, Warrendale, USA, 1994.

[5]       Neptune, J.A., Flynn, J.E., Chavez, P.A. and Underwood, H.W., Impact Analysis Based Upon the CRASH3 Damage Algorithm, Society of Automotive Engineers, Warrendale, USA, 1995.”

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið í dómi í málinu.

            Ákærði neitar sök og kveðst ekki vera sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök í ákærunni.  Hann kannast við að hafa skipt um akrein á þeim vegarkafla sem um ræðir en það hafi ekki verið eins oft og í ákærunni segir.  Hann segir að þétt umferð hafi verið í sjálfri Ártúnsbrekkunni og hafi hann þá farið inn á miðakreinina.  Hann segist ekki muna eftir sérstakri ástæðu fyrir því að hann skipti um akrein.  Hann kveðst ekki hafa ekið hraðar en lög leyfa, þ.e. 80 km á klukkustund.  Þá kveðst hann hafa haft fullt vald á hjólinu þegar hann skipti inn á miðakreinina en þá akrein hafi hann valið vegna þess að förinni hafi verið heitið niður í bæ.  Hafi hann lent á jeppabílnum þegar hann var kominn inn á akreinina og áreksturinn orðið við það að jeppanum var ekið inn á miðakreinina í veg fyrir hann.  Segist hann hafa verið kominn inn á þessa akrein löngu á undan jeppan­um sem hafi verið ekið þvert yfir tvær akreinar af afrein frá Bíldshöfða.  Hann kveðst ekki vera viss um hvort hann hemlaði áður en áreksturinn varð en þó telur hann það líklegt og að hemlafarið sé eftir bifhjólið.  Hann kveðst hafa skollið á hliðina á jeppanum, á afturbrettið.  Þaðan hafi hann kastast eitthvað og svo séð hjólið fljúga fram hjá og að mestu yfir hann.  Hann segir mjög líklegt að bíll sem ekið var á eftir honum hafi rekist á hjólið og einnig á þá A.  Ákærði kveðst hafa fengið réttindi á bifhjólið tveimur dögum fyrir slysið.  Hann kveðst hins vegar hafa verið með reynslu af því að aka torfæruhjólum og léttum bifhjólum.  Hann segir umrætt hjól vera með léttari bifhjólum sem fáist.      

A hefur skýrt frá því að hjólinu hafi verið ekið í vestur frá brúnni við Höfðabakka.  Þegar þeir voru komnir neðar hafi þeir skipt um akreinar tvisvar eða þrisvar sinnum; yfir á miðju, svo yfir á vinstri og þá aftur yfir á miðakreinina í Ártúnsbrekkunni.  Hafi ákærði hemlað þar og kveðst vitnið þá hafa litið yfir öxlina á honum og séð jeppa aka frá hægri inn á akreinina sem þeir voru á.   Töluverð umferð hafi verið, einkum hafi hann tekið eftir umferð á hægri akrein.   Hann kveðst ekki hafa hugmynd um hve hratt hjólinu var ekið áður en hemlað var.  Hann muni ekki eftir sér eftir að hann sá jeppann yfir öxlina á ákærða. 

B, sem ók jeppanum X, hefur skýrt frá því að hann hafi ekið aðreinina frá Bíldshöfða og þá séð að á hægri akrein fram undan hafi verið stór vöruflutningabíll sem hafi verið ekið hægar en öðrum ökutækjum þarna.  Hafi hann ekið inn á akreinina, náð þar sama hraða og önnur umferð, 70 – 80 km, og svo beygt inn á miðakreinina.  Eftir að hafa rétt bílinn þar af og ekið þar smástund hafi hann fundið að högg kom á jeppann aftanvert á hliðina vinstra megin svo að hann kastaðist til.  Nokkur umferð hafi verið þarna um götuna, þótt ekki sé hægt að segja að hún hafi verið sérstaklega þung.  

C hefur skýrt frá því að hann hafi verið farþegi í jeppanum sem hjólið skall á og setið við hlið bílstjórans.  Segir hann að eftir að þeir voru komnir út af aðreininni  úr Bíldshöfða inn á Vesturlandsveg hafi verið hægfara bíll á hægri akrein og jeppanum verið ekið fram úr honum eftir miðakreininni.  Fljótlega eftir það hafi hjólið skollið á þeim og kveðst hann halda, þótt hann geti ekki fullyrt það, að B hafi verið búinn að rétta jeppann af á þeirri akrein.  Hann segist vera viss um að jeppinn hafi verið kominn inn á þessa akrein á undan hjólinu.  Hann kveðst halda að jeppanum hafi verið ekið á svipuðum hraða og öðrum ökutækjum þarna og alls ekki hægt.  Nokkuð þétt umferð hafi verið þarna. 

D hefur skýrt frá því að hún hafi ekið vestur götuna með um 80 km hraða á vinstri akrein, næst vegriðinu.  Mikil umferð hafi verið, enda sá tími dags.  Hafi hún skyndilega séð að bifhjól kom aðvífandi og lenti á fremra horni bílsins sem hún ók og fór nokkra metra í loftköstum frá bílnum og maður af hjólinu einnig komið í loftköstum og utan í vegriðið, að henni sýndist.  Hún kveðst ekki hafa séð aðdragandann að þessu.

E hefur skýrt frá því að hann hafi ekið götuna í vesturátt eftir miðakreininni.  Hann kveðst hafa séð til bifhjólsins í speglinum fyrir slysið að það kom á milli bíla og hann því hætt við að skipta um akrein eins og hann hafði ætlað sér.  Á undan bíl vitnisins, sem hafi verið stór dráttarbíll, hafi verið jeppi, um 2 – 3 venjulegar bíllengdir.  Kveðst vitnið hafa haft góða yfirsýn yfir veginn vegna stærðar bílsins.  Hjólinu hafi verið ekið fram með bíl vitnisins og inn á akreinina en þá hemlað nánast í sama mund.  Hafi hjólið þá runnið til hliðar og skollið á jeppanum, mennirnir farið í loftköstum en hjólið haldið áfram niður veginn.  Hafi mennirnir skollið utan í vegriðið.  Vitnið segir að jeppinn hafi verið kominn nánast allur inn á miðakreinina áður en bifhjólinu var beygt inn á hana.  Erfitt sé að segja til hve hraðinn hafi verið mikill á bifhjólinu en sjálfur hafi hann ekið með 70 – 80 km hraða og bifhjólinu “alla vega” ekið með meira en 100 km hraða.   

F lögreglumaður, segist hafa setið í kyrrstæðum lögreglubíl á Vesturlandsvegi við Höfðabakkabrú að fylgjast með umferð.  Umferð hafi verið þétt og hraðinn á henni um 80 km.  Hafi hann séð bifhjóli ekið hratt, töluvert hraðar en öðrum ökutækjum, og fram úr fólksbíl á móts við Húsgagnahöllina og hverfa á bak við stóran bíl á afreininni að bensínstöðinni.  Hann hafi svo ekið fram á slysavettvanginn í brekkunni.  

G hefur skýrt frá því að hann hafi ekið vestur Vesturlandsveg með rétt rúmlega 80 km hraða á hægri akrein, eins og önnur umferð.  Hafi hann þá orðið var við hjól sem ekið var hægra megin fram úr á afreininni til bensínstöðvarinnar á töluverðum hraða.  Hjólinu hafi svo verið beygt til vinstri svo að það hallaðist mjög og alla leið yfir á vinstri akreinina.  Svo hafi hann séð fram undan að hjólinu var beygt aftur til hægri og nokkrum sekúndum síðar hafi hann heyrt brothljóð og skarkala.  Hafi hann svo séð hvar hjólið lá í götunni og bílar höfðu numið staðar.   Hann giskar á að hjólinu hafi verið ekið með allt að 140 km hraða. 

Guðlaugur Einarsson lögreglumaður, hefur skýrt frá því að mikil umferð hafi verið þegar hann kom á slysstað.  Hann gerði vettvangsuppdráttinn og segir fjarlægðir hafa verið mældar með mælihjóli.  Hafi hemlafarið sem sé sýnt á uppdrættinum verið alveg nýtt að sjá og vafalaust verið eftir bifhjólið. 

Birgir Straumförð Jóhannsson  lögreglumaður, segir mikla umferð hafa verið þegar þeir komu á slysstað.  Hann kveður fjarlægðir hafa verið mældar með mælihjóli.    

            Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður vann einnig að vettvangsrannsókn eftir slysið.  Hann segist telja að hemlafarið sem mælt var og sést á vettvangsuppdrætti hafi verið eftir bifhjólið. 

H hefur skýrt frá því að hún hafi ekið litlum jeppa eftir miðakreininni á veginum á leið vestur í bæ og á 70 – 80 km hraða eins og önnur ökutæki þarna.  Hafi hún þá séð tvo menn koma á bifhjóli hratt fram úr þeim, þó nokkru hraðar en hún, fram úr bílum sem voru fyrir framan og skipt við það um akreinar.  Nokkur umferð hafi verið þarna.  Dóttir hennar, sem sat í framsæti við hliðina hafi svo sagt að mennirnir hefðu lent í árekstri og kveðst vitnið þá hafa séð mennina kastast utan í vegriðið.  Ekki hafi hún séð hvað varð um hjólið.

Dóttir H, I, hefur skýrt frá því að bifhjólið hafi brunað frekar hratt fram úr þeim mæðgum og fram úr öðrum bílum til hægri og vinstri á víxl.  Hafi hún svo séð að hjólið rakst á vinstra afturljós á jeppa sem ekið var á undan hjólinu.    Hún kveður þær mæðgur hafa verið á miðakreininni.

Magnús Þór Jónsson prófessor hefur komið fyrir dóm og svarað spurningum um greinargerð sína.  Hann er prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í þeirri grein við Tækniháskólann í Þrándheimi.  Hann kveðst margsinnis hafa unnið greinargerðir af því tagi sem hér er um að ræða, að jafnaði 8 til 10 á ári undanfarin ár.  Hann er spurður um þá gagnrýni ákærða á útreikninginn að reiknað sé með því að hjólið sé 207 kg en ekki um 215 kg sem það hljóti að hafa vegið vegna bensíns, olíu og vatns í því.  Hann kveður útreikninga sína vera byggða á orkulögmálinu og sé þá hreyfiorka hjólsins og ökumannanna borin saman við alla orku sem eyðist.  Þegar þetta sé reiknað og í hvað orkan fari, sé um að ræða sama massa og því skipti þyngdin ekki máli í þessum útreikningum.  Hraðinn sem hann hafi reiknað út sé því ekki háður þyngdinni.  Þá er borin undir prófessorinn sú viðbára ákærða að lítil sem engin mótstaða hafi verið eftir að hjólið lagðist á hliðina og það hafi mikil áhrif á útreikninginn.  Hann kveður útreikningana byggjast á viðurkenndum reglum sem mikið séu notaðar víða um heim.  Sé byggt á stöðluðum gildum varðandi núning eða viðnám yfirborðs.  Hann segist nota lægstu stuðla sem notaðir séu um bifhjólaslys í slíkum útreikningum.  Það hafi hann gert vegna þess að ekki voru sjáanleg för í malbikinu eða slíkt.  Þá tekur hann fram, að þegar hjól eða ökumaður fara í loftköstum, eins gera megi ráð fyrir í þessu tilviki, eyðist meiri orka við það en við það að renna eftir götunni; meiri orku þurfi til þess að kasta hlut heldur en að renna honum eftir yfirborði.  Sé því alveg ljóst að reiknaður hraði sé umtalsvert lægri en raunverulegur hraði hafi verið.  Þannig hafi hann notað lægsta viðnámsstuðulinn 0,3 – 0,35 en þegar um loftköst sé að ræða sé þessi stuðull 1,0.   Þá hafi hann minnkað uppgefna lengd á hemlunarfari vegna hugsanlegrar mælingarskekkju.  Um þá athugasemd ákærða að hjólið hafi runnið niður brekku og það hafi áhrif á útreikninginn segir prófessorinn að hann hafi tekið tillit til hallans og þá notast við hæðarlínurit frá vegagerðinni.  Þá er borið undir hann það atriði að bíll sem var á eftir hjólinu hafi ekið á það og hljóti það að hafa orkað til hraðaaukningar fyrir hjólið.  Um þetta segir hann að hann hafi reiknað út og borið saman hraða farþegans sem fór stystu vegalengd og hraða hjólsins.  Hafi komið í ljós að farþeginn hafi gefið til kynna hærri hraða en hjólið gaf til kynna þar sem það fór í loftköstum en ekki var reiknað með að það hefði gert það.  Niðurstaðan sé því að áreksturinn við þennan bíl hafi ekki aukið á hraða hjólsins.  Hann segir enn fremur að hann hafi ekki reiknað með hraðabreytingu sem hljóti að hafa orðið við það að hjólið rakst aftan á jeppann, ekki tekið tillit til þess að ökutækið eða mennirnir á því hafi farið í loftköstum, ekki tillit til loftmótstöðu.  Sé því ósennilegt að raunverulegur hraði hafi verið sá sami og reiknaður lágmarkshraði.    Öll þessi atriði, sem hann reiknaði ekki með, hefðu orkað til hækkunar á reiknuðum hraða.  Hann telur líklegt að hraðinn hafi í raun legið á milli þess sem reiknaðist vera sennilegasti hraði og hámarkshraði.  Segist hann hafa slegið af í hverju einasta atriði til hagsbóta fyrir sakborning.  Nánar aðspurður um áreksturinn við bílinn sem á eftir kom segir hann að ekki sé reiknað með árekstrinum við hana til breytingar.  Hann segir að til þess að áreksturinn við þann bíl hefði áhrif hefði bíllinn þurft að vera á umtalsvert meiri hraða en bifhjólið.  Um það hafi ekki verið nein vísbending og því hafi ekki verið reiknað með áhrifum af árekstri við þennan bíl.  Hann segist ekki hafa gert neinar mælingar sjálfur heldur byggt á viðurkenndum stöðlum samtakanna sem tilgreind séu í greinargerðinni.

            Ragnar Benjamín Ingvarsson bifvélavirkjameistari, sem rannsakaði ástand ökutækjanna ásamt Snorra S. Konráðssyni, hefur skýrt frá því að nýleg för eftir rennsli hafi verið á vinstri kanti aftari hjólbarða bifhjólsins.  Kveður hann þessi för benda til þess að hjólið hafi runnið út á hlið.  Hafi barðinn greinilega verið tættur upp eftir malbikið. 

Niðurstaða.

            Ákærði kveðst hafa ekið bifhjólinu með um 80 km hraða í umrætt sinn.  Sex vitni hafa borið að öðrum ökutækjum sem ekið var í sömu stefnu eftir veginum og ákærði hafi verið ekið með 70 – 80 km hraða á klukkustund.  Fimm vitni hafa borið það að bifhjólinu hafi verið ekið hratt fram úr öðrum ökutækjum áður en slysið varð og fyrir liggur að bifhjólið dró uppi jeppabílinn og rakst á hann aftanverðan.  Útreikningar prófessors Magnúsar Þórs Jónssonar byggjast á kunnum aðferðum sem almennt eru notaðar í tilvikum sem þessum.  Enda þótt þeir séu byggðir á reynslutölum en ekki mældum eiginleikum þeirra ökutækja sem við á, verður að telja útreikningana áreiðanlega í ljósi þeirra miklu gagna sem tölurnar byggjast á.  Það styrkir útreikningana að bæði bifhjól og bílar sem lentu í árekstrinum skemmdust lítið.  Þau óvissuatriði sem í útreikningunum felast eru flest þess eðlis að reiknaður hraði er minni en raunverulegur hraði.  Þetta á þó ekki við möguleg áhrif bílsins sem ekið var á eftir ákærða og rakst í hjólið og/eða mennina á því, en í ljósi lítilla skemmda á hjólinu svo og ástands og staðsetningar bifhjólsmannanna eftir áreksturinn hljóta þessi áhrif að teljast óveruleg.  Dómurinn álítur þannig vera sannað að ákærði hafi ekið bifhjólinu í umrætt sinn með farþega og langt yfir lögleyfðum hámarkshraða, á milli og fram með öðrum ökutækjum.  Ákærði þykir hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og sérlega vítaverðan og ófyrirleitinn akstur sem leiddi til þess að bifhjólið rakst á jeppabílinn aftanverðan og farþeginn hlaut af mikil lemstur, eins og lýst hefur verið.  Ósannað þykir gegn neitun ákærða að hann hafi skipt ört um akreinar.  Hefur ákærði brotið gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni, nema 1. mgr. 23. gr. umferðarlaga.

            Samkvæmt ökuferilsskrá lögreglustjóraembættisins í Reykjavík hefur ákærði margsinnis gerst sekur um umferðarlagabrot, einkum of hraðan akstur, frá því á miðju ári 2003.  Þá hefur hann fjórum sinnum gengist undir lögreglustjórasekt fyrir umferðarlaga­brot, þar af tvisvar fyrir ökuhraða.  Loks var hann, 7. júlí sl., dæmdur í sekt og sviptur öku­rétti í sex mánuði fyrir að aka bíl með 188 km hraða um Vesturlandsveg. 

            Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga.  Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Samkvæmt 101. gr. umferðarlaga ber að svipta ákærða ökurétti í 18 mánuði frá 14. febrúar 2007 að telja.

            Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Þormóði Skorra Steingríms­syni hdl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.  Þá ber að dæma hann til þess að greiða 155.376 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari og dómsformaður, Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari og dr. Jens Bjarnason, verkfræð­ingur og sérfróður meðdómsmaður kváðu upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Garðar Ingi Steinsson, sæti fangelsi í 90 daga.  Framkvæmd refsingar þessarar er frestað og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.

            Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 14. febrúar 2007 að telja.

                                                               Ákærði greiði verjanda sínum, Þormóði Skorra Steingrímssyni hdl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 155.376 krónur í annan sakarkostnað.