Hæstiréttur íslands

Mál nr. 22/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 22/2004.

Aðalheiður Arnljótsdóttir

(Sigurður Gizurarson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Kjarasamningur. Slysatrygging. Gjafsókn.

A krafðist þess aðallega að R yrði dæmdur skaðabótaskyldur vegna slyss, sem A varð fyrir í febrúar 1996, þegar hún hrasaði fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur, þar sem hún starfaði sem vagnstjóri. Talið var að slysið yrði rakið til gáleysis A og fengu skýrslur, sem teknar voru af A og nafngreindum manni eftir uppkvaðningu héraðsdóms, engu um það breytt. Var því ekki fallist á að R bæri skaðabótaábyrgð vegna slyssins. A fékk í maí 1999 greitt úr slysatryggingu starfsmanna R samkvæmt örorkumati. Í júní 2001 fékk hún örorkumat annars læknis vegna slyssins, þar sem örorka hennar var metin meiri en í fyrra matinu. Varakrafa A laut að því að fá uppgjör bóta úr slysatryggingunni tekið upp á ný með tilliti til þessa síðara örorkumats. Í reglum um slysatryggingar launþega R var skýrt tekið fram að undantekningarlaust skyldi framkvæma örorkumat vegna bóta úr tryggingunni í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Ekki þóttu hafa verið færð fram haldbær rök fyrir því að A gæti verið óbundin af ákvæðum fyrrnefndra reglna og voru því ekki efni til að verða við varakröfu hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2004. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna slyss, sem hún hafi orðið fyrir 1. febrúar 1996 þegar hún hafi hrasað fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að takmarka slysatryggingarbætur til hennar „með þeim hætti sem gert er í reglum nr. sl-1/90 og sl-2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, er samþykktar voru í borgarráði Reykjavíkur 5. júní 1990.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún hefur notið á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt vegna eigin sakar áfrýjanda og málskostnaður falli niður.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms kom áfrýjandi á ný fyrir dóm til að lýsa frekar atvikum að slysinu, sem hún varð fyrir 1. febrúar 1996 og dómkröfur hennar í málinu snúa að. Einnig kom fyrir dóm nafngreindur maður, sem starfaði með áfrýjanda sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur á umræddum tíma. Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að slysi áfrýjanda, en lýsti á hinn bóginn aðstæðum á vettvangi. Skýrslur þessar fá engu breytt um niðurstöðu hins áfrýjaða dóms varðandi aðalkröfu áfrýjanda, sem verður þannig staðfest með vísan til forsendna hans.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi beindi áfrýjandi kröfu til stefnda 16. desember 1998 um greiðslu bóta vegna fyrrnefnds slyss úr slysatryggingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Að tilhlutan stefnda og með samþykki áfrýjanda mat nafngreindur sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum tímabundna og varanlega örorku hennar af slysinu samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar í álitsgerð 9. apríl 1999. Varð niðurstaðan sú að áfrýjandi hafi verið óvinnufær af þessum sökum í samtals tvo mánuði og þrjár vikur, en varanleg örorka hennar var metin 15%. Á grundvelli þessarar álitsgerðar voru áfrýjanda greiddar 781.710 krónur úr slysatryggingu 25. maí 1999. Áfrýjandi fékk 6. júní 2001 örorkumat annars læknis vegna þessa slyss, þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í sex mánuði af þessum völdum, en varanlegur miski hennar samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var metinn 30% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. sömu laga 40%. Beinist áðurgreind varakrafa áfrýjanda að því að fá uppgjör bóta úr slysatryggingunni tekið upp á ný með tilliti til þessa síðara örorkumats.

Í grein 7.1.1. í kjarasamningi stefnda við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sem var í gildi þegar áfrýjandi varð fyrir umræddu slysi, var um slysatryggingar starfsmanna vísað til „reglna nr. sl.-1/90 og sl.-2/90 samþykktum af borgarráði þann 5. júní 1990.“ Fyrrnefndu reglurnar, sem þar var vísað til, liggja fyrir í málinu. Samkvæmt grein 3.6 í þeim mátti í fyrsta lagi ákveða örorku vegna greiðslu úr slysatryggingu einu ári eftir slys, en teldi slasaði eða stefndi að örorkan kynni að breytast upp frá því mátti fresta endanlegu örorkumati, en þó ekki lengur en í þrjú ár frá slysdegi. Í grein 3.8 sagði meðal annars eftirfarandi: „Þótt gera megi ráð fyrir að ástand hins slasaða kunni að breytast, skal undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli ber að ákveða örorkuna eins og gera má ráð fyrir, að hún verði endanleg.“ Án tillits til þess hvort ákvæði 33. gr. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, sem áfrýjandi vísar til um varakröfu sína, geti eftir efni sínu átt hér við, verður að líta til þess að áfrýjanda hefði verið í lófa lagið að kynna sér þessa skilmála slysatryggingarinnar, en með þeim var markað nánar inntak þess réttar, sem henni var veittur á grundvelli kjarasamnings. Ákvæði skilmálanna, sem hér um ræðir, geta hvorki talist óeðlileg né óvenjuleg á sínu sviði. Með því að ekki hafa verið færð fram haldbær rök fyrir því að áfrýjandi geti verið óbundin af þessum ákvæðum eru ekki efni til að verða við varakröfu hennar.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Aðalheiðar Arnljótsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2003.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 10. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Aðalheiði Arnljótsdóttur, kt. 220653-7819, Karfavogi 29, Reykjavík, með stefnu birtri 25. júní 2002 á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530 269-7609, Ráðhúsi við Reykjavíkurtjörn.

 

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda, Reykjavíkurborg, verði dæmd skaðabótaskyld vegna slyss þess, er stefnandi varð fyrir 1. febrúar 1996, er hún hrasaði og slasaðist fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði dæmt óheimilt að takmarka tryggingarbætur stefnanda með þeim hætti, sem gert er í reglum nr. sl-1/90 og sl-2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, er samþykktar voru í borgarráði Reykjavíkur 5. júní 1990.  Auk þess gerir stefnandi kröfu um, að henni verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

 

         Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara, að sök verði skipt á grundvelli eigin sakar stefnanda.  Í báðum tilvikum er þess krafizt, að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II.

Málavextir:

Stefnandi hefur starfað við akstur strætisvagna hjá SVR frá árinu 1994. Þann 1. febrúar 1996 datt stefnandi, samkvæmt því sem haldið er fram í stefnu, er hún að ganga frá strætisvagni inn á kaffistofu í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis og lenti með báða fætur í misfellu eða holu í malbiki, svo henni skrikaði fótur.  Í stefnu segir enn fremur, að við fallið hafi stefnandi hlotið áverka á hægri handlegg og á læri ofan við bæði hnén og áverka á enni við hársrætur.  Hafi handleggur hennar bólgnað mikið og hafi hún fengið mikla verki í framhandlegg.  Þá er haft eftir stefnanda, að hún hafi haft mikil eymsli í hnjám og hafi verkir í framhandlegg ekki horfið.  Þeir aukist jafnan við álag, en minnki í hvíld.  Verkir í hvíld hafi horfið eftir aðgerð á Sjúkrahúsi Akraness 18. júní 1998, en álagsverkir komi ávallt fram við áreynslu.

         Stefnandi leitaði til Sjúkrahúss Reykjavíkur til læknisskoðunar daginn eftir slysið.  Var framhandleggur röntgenmyndaður, en bein­áverkar greindust ekki. 

         Stefnandi kveðst alla tíð hafa verið heilsuhraust, áður en hún varð fyrir slysinu.  Eftir slysið hafi hún hafið akstur strætisvagns á ný í febrúar 1996, en hún hafi verið svo þjáð af völdum slyssins, að hún hafi orðið að taka inn verkjalyf.  Í marz 1997 hafi verkir og vanlíðan gengið svo nærri henni, að hún hafi gefizt upp á strætisvagnaakstri.  Hafi hún þá haldið sér gangandi mánuðum saman með verkjalyfjum og hafi þá verið farin að fá óþægindi í maga af þeim. Stefnandi eigi nú mjög erfitt með öll störf, þ.á m. störf á heimili.

         Stefnandi á tvö börn, 10 ára og 18 ára.  Hún kveður afleiðingar slyssins hafa leitt til missis starfs og lífsviðurværis.  Hún standi uppi sem atvinnu­laus, einstæð móðir og hafi hún ekki fengið laun hjá SVR frá l. okt. 1997.  Megintjón hennar af völdum slyssins sé örorka.  Það hafi gert hana ófæra um að gegna því starfi, sem hún hafi haft lífsviðurværi sitt af í meira en 22 ár.  Hún kveðst nú vera óvinnufær.

         Með bréfi dagsettu 16. desember 1998 krafði stefnandi Reykjavíkurborg um bætur fyrir örorku vegna slyssins og útlagðan kostnað. 

         Atli Þór Ólason læknir mat varanlega örorku stefnanda 15% með matsgerð, dags. 9. apríl 1999.  Voru stefnanda greiddar bætur samkvæmt því mati hinn 23. maí 1999 úr slysatryggingu launþega Reykja­víkur­borgar samkvæmt reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar starfsmanna borgarinnar.  Á uppgjörsblaði segir svo:  “Ofangreind greiðsla borgarsjóðs telst vera fullnaðargreiðsla vegna varanlegrar örorku Aðalheiðar Arnljótsdóttur."  Uppgjörsblaðið er undirritað af lögmanni stefnanda fyrir hennar hönd.

         Stefnandi kveður tjón sitt hafa komið enn frekar í ljós á næstu mánuðum og misserum.  Að ósk stefnanda mat Björn Önundarsonar læknir skaða hennar samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993.  Er mat hans dagsett 6. júní 2001, þar sem varanleg örorka stefnanda er  metin 40% og varanlegur miski 30%.  Með bréfi, dags. 3. júlí 2001, fór stefnandi fram á, að henni yrði greiddur mismunur fyrra og síðara örorkumats.  Var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess, að fullnaðaruppgjör hefði þegar farið fram, sem og með vísan til ákvæða gr. 3.6 og 3.8 í reglum sl-1/90.

         Upphaflega gerði stefnandi kröfur um greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu að fjárhæð kr. 12.585.496, ásamt vöxtum og málskostnaði, en til vara gerði hún kröfu um greiðslu skaðabóta/tryggingabóta að lægri fjárhæð.  Aðalkrafa stefndu var, að málinu yrði vísað frá dómi og fór fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins þann 19. febrúar 2003.  Að loknum munnlegum málflutningi urðu aðilar ásáttir um að stefnandi breytti kröfugerð sinni þannig að eingöngu yrði fjallað um greiðsluskyldu stefnda og féll stefndi þá frá frávísunarkröfu sinni.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á skaðabótaábyrgð stefndu, og vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu skaðabótareglunnar, þ.e. saknæmisreglunnar eða gáleysisreglunnar.  Í þessu tilviki hafi verið um að ræða ábyrgð stefndu vegna vanrækslu- og skeytingarleysis um að hafa malbikið fyrir framan kaffistofu SVR í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík í febrúar 1996 svo slétt, að ekki væri hætta á því, að þeir, sem þar gengju, misstigju sig í holum í malbikinu.  Þá skyldu stefndu að hafa örugga gangbraut fyrir framan kaffistofuna hafi stefnda vanrækt með ámælisverðum og saknæmum hætti, þ.e. með ólögmætum hætti.

         Stefnandi telji stefndu sem umráðaaðila nefndrar lóðar á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík bera ábyrgð á því skeytingarleysi/athafnaleysi að láta ekki gera við nefnda skemmd/holu í malbikinu fyrir framan kaffistofu SVR.  Lóðin, sem hér sé um að ræða, sé nr. 23-25 við Hafnarstræti, og hafi hún verið í eigu stefndu.  Stefnandi telji því stefndu bera ábyrgð á slysagildru þeirri, sem hafi verið í malbiki fyrir framan kaffistofu SVR.

         Stefnda beri ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó II. kafla laganna um skaðabótaábyrgð vegna tjóns, sem vátrygging taki til.  Í nefndum skaðabótalögum segi í 1. mgr. 1. gr., að sá, sem beri bótaábyrgð á líkamstjóni, skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sem af því hljótist og enn fremur þjáningabætur.  Enn fremur segi í 2. mgr. nefndrar l. gr. skaðabótalaganna, að hafi líkamstjón varanlegar afleiðingar, skuli einnig greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna.

         Stefnandi kveðst styðja aðalkröfu sína við þau sjónarmið, sem komi fram í matsgerð þeirri, sem lögð hafi verið til grundvallar áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 21. apríl 1999: Elías Theodórsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn Friðjóni Þorleifssyni og gagnsök. Í því máli hafi Örorkunefnd metið örorku F, 66 ára karlmanns, er varð fyrir slysi, er ekið var aftan á bifreið þá, sem hann ók, 10%, en með matsgerð, dags. 3. nóvember 1997, hafi meirihluti þriggja dómkvaddra matsmanna metið örorku hans vegna slyssins 100%.  Hafi dómurinn fordæmisgildi í máli stefnanda.

         Stefnandi kveðst vera algerlega ófær um að stunda það starf, sem hún hafi lært að stunda, og hafði stundað um 20 ára skeið, þegar hún slasaðist, en hún hafi starfað hjá Strætisvögnum Kópavogs, áður en hún hóf störf hjá SVR.  Þótt hún hafi verið aðeins 32 ára, er hún lenti í slysinu, telji hún í hvorugri matsgerð tryggingarlæknanna, Atla Ólasonar og Björns Önundarsonar, sýnt fram á, að hún geti fengið sér eitthvert launað starf.  Í reynd sé hún óvinnufær, þ.e. örorka hennar sé 100%.

         Varakröfu sína byggir stefnandi á ábyrgð stefndu sem vátryggjanda.  Varakrafan hafi að forsendu, að stefndu beri að dæma til að greiða stefnanda tryggingabætur, án tillits til þess, hvort hún verði talinn bera ábyrgð á því skeytingarleysi/athafnaleysi að láta ekki gera við skemmdina/holuna í malbikinu fyrir framan kaffistofu SVR á lóðinni nr. 23-25 við Hafnarstræti.  Byggi það á þeirri skuldbindingu stefndu sem vinnuveitanda að slysatryggja stefnanda. Þar eð stefnda hafi sjálf á hendi vátryggingarstarfsemina, en kaupi hana ekki hjá vátryggingarfélagi með þar að lútandi vátryggingarsamningi, beri henni að haga reglum um hana þannig, að hinn vátryggði sé ekki í raun sviptur tryggingu sinni.  Stefnandi telji stefndu ekki geta skotið sér undan þeirri ábyrgð með því að setja sér reglur, er takmarki þá ábyrgð stórlega.  Framangreindar reglur nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, sbr. einkum ákvæði 3.6 og 3.8, sem stefnda beri fyrir sig, þegar hún neiti að greiða stefnanda tryggingarbætur samkvæmt síðara örorkumatinu frá 6. júní 2001, telji stefnandi vera ógildar sem lagalegur grundvöllur greiðslusynjunar, sbr. einkum meginreglur þær, sem sé að finna í 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Samkvæmt því sé það óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig nefnd ákvæði í reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar vegna þeirra atvika, sem fyrir hendi séu í málinu.  En svo sem ljóst megi vera yrði stefnandi þannig sviptur verulegum hluta tryggingarbóta vegna tjóns, sem hann ella eigi rétt á, og þegar haft sé í huga, að stefnanda hafi aldrei verið gerð grein fyrir reglum þessum, sbr. 33. gr. samningalaga.

         Það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig nefnd ákvæði í reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, sbr. 36. gr. samninga­laga.

         Samningur sé ósanngjarn, þegar hann stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag, sbr. 2. mgr. 36. gr. c í samningalögum.

             Svo sem áður segi hafi stefndi gert upp tjón stefnanda samkvæmt mati Atla Óla­sonar 23. maí 1999.  Stefnandi hafi verið 32 ára, þegar hún varð fyrir slysinu 1. febrúar 1996.  Niðurstaða Atla hafi verið, að stefnandi hefði við slysið hlotið eftirfarandi skaða:

 

Tímabundið atvinnutjón:

Þrjár vikur 100%.  Eftir 18. júní 1998

Tveir mánuðir 100%.  Varanleg örorka 15%

 

             Svo sem áður segi hafi tjón stefnanda, þegar fyrra tjónsmatið fór fram, ekki verið komið fram nema að litlu leyti, og allur réttur áskilinn í því efni í bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, dags. 16. desember 1998.  Og þar sem æ meira tjón hafi komið fram, eftir því sem tíminn leið, hafi verið beiðzt nýs tjónsmats.  Og að gengnu mati Björns Önundarsonar 6. júní 2001 hafi þess verið farið á leit við stefndu, að hún gerði viðbótatjónið upp samkvæmt síðara matinu.

         Kröfugerðin hafi að forsendu, að stefnda hafi þegar greitt hluta tryggingar­bótanna.  Þess vegna sé einungis krafizt, að gerðar verði upp og greiddar tryggingar­bætur vegna þess hluta tjóns hennar, sem ekki hafi þegar verið gerðar upp og bættar.  Og svo sem komi fram í síðara matinu, sé tjón stefnanda annars vegar miski og hins vegar örorka.

 

         Niðurstaða síðara matsins, dags. 6. júní 2001, hafi verið eftirfarandi:

 

"1.    Tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. l. nr. 50/1993.

         Slasaða var með öllu óvinnufær í 180 daga vegna afleiðinga slyss þessa.

2.      Þjáningar sbr. 3. gr. l. nr. 50/1993.

         Slasaða var óvinnufær í 180 daga vegna afleiðinga slyss þessa, en aldrei rúmföst.

3.      Varanlegur miski sbr. 4. gr. 1. nr. 50/1993.  Læknisfræðilegar afleiðingar slyss þess hafa verið raktar hér að framan svo sem unnt er.  Hér sýnist vera fyrst og fremst um taugaskaða að ræða í hægri handlim, sem er betri handlimur slösuðu.  Einnig hefur hún óþægindi frá hnjám, einkum því hægra.  Ekki verður dregið í efa, að vinnugeta slösuðu er nú verulega skert, þar sem hún hefur enga sérhæfða menntun til annarra starfa, en bifreiðaaksturs.  Vafasamt verður að teljast að slasaða geti sérhæft sig til annarra starfs svo nokkru nemi.

4.      Varanleg örorka sbr. 5. gr. l. nr. 50/1993.  Varanleg örorka telst hæfilega metin 40%.

5.      Áhrif annarra slysa eða sjúkdóma á örorkuna.

         Undirritaður hefur kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn, sem fyrir liggja varðandi ofanritaða, átt við hana viðtal og skoðað hana og telur að önnur slys eða sjúkdómar eigi ekki þátt í því mati sem hér er lagt fram og lýsir eingöngu afleiðingum vinnuslyssins hinn 1. febrúar 1996.

         Þannig eru öll þau einkenni, sem slasaða nú ber, frá hægri handlim, og þó einkum hendi, svo og hnjám, afleiðingar vinnuslyss þess sem hún varð fyrir hinn l.febrúar 1996.

         Varanlegur miski, sbr. 4. gr. 30%.  Varanleg örorka, sbr. 5. gr. 40%."

 

Málsástæður stefndu:

Stefnda byggir sýknukröfu sína af aðalkröfu stefnanda á því í fyrsta lagi, að slys stefnanda megi að öllu leyti rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Ósannað sé með öllu, að slys stefnanda megi rekja til atvika, sem stefndi beri ábyrgð á, enda sé ósannað, að það megi rekja til saknæms vanbúnaðar á lóð stefndu.  Í sjúkra­skrám slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur komi fram, að stefnandi hafi runnið á hálku, sbr. dskj. nr. 6.  Séu það einu gögnin sem stefnandi hafi lagt fram um tildrög slyssins, sem skráð hafi verið strax í kjölfar þess.  Sé því misræmi í lýsingu stefnanda á tildrögum slyssins milli sjúkraskrár og seinni tíma gagna.  Stefnandi hafi ekki sannað, að hún hafi hrasað í holu í malbiki og enn síður, að slys hennar verði rakið til. atvika, sem stefnda beri ábyrgð á.  Því sé alfarið ósannað, að stefnda hafi, með saknæmum hætti, valdið tjóni stefnanda.  Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings fullyrðingu sinni um tildrög slyssins.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu uppfyllt, enda beri fasteignareigendur ekki hlutlæga ábyrgð á aðbúnaði við fasteign sína.  Beri því að sýkna stefndu.

 

Varakrafa um sakarskiptingu:

Verði ekki á sýknukröfu fallizt kveðst stefnda byggja varakröfu sína um sakarskiptingu á því, að slys stefnanda megi að stærstum hluta rekja til gáleysis stefnanda sjálfrar og óhappatilviljunar.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að jafnvel þótt sannað teljist, að hola hafi verið í malbiki, hafi aðstæður verið þannig, að stefnandi hafi ekki mátt verða hennar vör og getað forðast að stíga í hana með eðlilegri aðgæzlu.  Beri því að skipta sök í hlutfalli við eigin sök hennar og óhappatilviljun.

 

Um varakröfu stefnanda:

Stefnda byggir sýknukröfu sína af varakröfu stefnanda á því, að stefnandi hafi, með þegar greiddum bótum, fengið fullar bætur úr slysatryggingu launþega í samræmi við ákvæði kjarasamnings og reglur nr. sl-1/90 um slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar vegna slysa í starfi.

         Í grein 7.1.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkur­borgar, sem gilt hafi frá 1. apríl 1995 til 31. desember 1996, sé kveðið á um, að um slysatryggingar starfsmanna vísist til reglna nr. sl.-1/90 og sl.-2/90, samþykktum af borgarráði þann 5. júní 1990.  Um rétt stefnanda til greiðslu úr slysastyggingu starfsmanna fari því eftir þeim reglum.  Séu þetta samningsbundin réttindi, sem veiti félagsmönnum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar aukinn rétt til bóta vegna slysa, sem þeir verði fyrir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem skýrlega sé kveðið á um í reglum sl -1/90.  Sé því mótmælt, að reglurnar takmarki rétt stefnanda til bóta.

             Enn fremur sé því mótmælt, að unnt sé að víkja ákvæði kjarasamningsins og reglunum til hliðar með vísan til 33. gr., 36. gr. eða 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Ekki sé á nokkurn hátt óheiðarlegt að beita reglum sl-1/90 um ákvörðun bóta til handa stefnanda.  Reglurnar séu hluti af kjara­samningnum, og hafi stefnandi getað kynnt sér þær eins og önnur ákvæði kjara­samningsins, sem gilt hafi um ráðningarsamband hennar og stefnda.  Þá sé hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju/viðskiptaháttum að ákveða bætur samkvæmt slysatryggingu eftir ákvæðum reglna nr. sl-1/90.

             Þann 25. maí 1999 hafi stefnandi fengið greiddar fullar bætur úr slysatryggingu starfs­manna í samræmi við ofangreindar reglur.  Hafi stefnandi tekið við þeim bótum sem fullnaðargreiðslu vegna varanlegrar örorku án fyrirvara.  Sé stefnandi bundinn af þeirri yfirlýsingu og geti því ekki krafizt frekari bóta úr slysatryggingunni.

             Samkvæmt ákvæði 3.6 í reglunum skuli örorka ákveðin í fyrsta lagi einu ári eftir slysið.  Telji slasaði eða stefndi, að örorkan geti breytzt, geti hvor aðili um sig krafizt þess, að endanlegu örorkumati verði frestað, þó ekki lengur en þrjú ár frá slysdegi. Ákvæði 3.8 kveði á um, að þótt gera megi ráð fyrir, að ástand hins slasaða kunni að breytast, skuli undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slys.

             Slys stefnanda hafi orðið 1. febrúar 1996.  Hámarksbiðtími, 3 ár, hafi því verið liðinn, þegar uppgjörið fór fram.  Örorkumat, sem gert sé síðar, hafi því ekkert gildi varðandi greiðslu úr slysatryggingu starfsmanna.  Stefnandi hafi þegar fengið greiddar bætur miðaðar við örorkumat Atla Þórs Ólasonar, og beri því að sýkna stefndu í samræmi við ofangreint.

             Verði ekki á ofangreindar málsástæður fallizt, sé krafa stefndu um sýknu af varakröfu stefnanda byggð á því, að ósannað sé, að slys stefnanda hafi leitt til frekara tjóns en 15% varanlegrar örorku samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar, sbr. dskj. nr. 10.  Sé örorkumati Björns Önundarsonar mótmælt.

             Að öðru leyti vísist til rökstuðnings fyrir kröfu um sýknu af aðalkröfu stefnanda eftir því sem við eigi.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Upplýsingar í gögnum málsins um tildrög slyss stefnanda eru nokkuð misvísandi.  Í stefnu er aðdraganda þess lýst svo, að stefnandi hafi verið að ganga frá strætisvagni inn á kaffistofu í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis og hafi þá lent með báða fætur í misfellu eða holu í malbiki, svo henni hafi skrikað fótur og hún dottið.  Í læknisvottorði Eybjargar B. Hansdóttur er haft eftir stefnanda við komu á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur daginn eftir slysið, að hún hafi hrasað á hálku og komið niður á bæði hnén og vinstri olnboga og borið fyrir sig hægri hendi.  Fyrir dómi þann 27. júní 2003 skýrði stefnandi svo frá, að hún hefði verið að flýta sér inn í kaffistofuna, og hún hefði hlaupið yfir planið, sem hafi allt verið holótt, og lent ofan í einni af stóru holunum þar og rekið tærnar í og steypzt á hausinn.  Planið hafi verið snjólaust, en þar hafi verið smáhálkublettir.  Sérstaklega aðspurð kvað hún ekki hafa verið hálkublett, þar sem hún lenti í misfellunni, “en aftur lenti ég á hálkubletti svolítið áður, ég náttúrlega var hlaupandi og hljóp þar af leiðandi aðeins hraðar yfir út af hálkunni, og svo þegar ég kom út úr henni þá hélt ég áfram að hlaupa yfir og lenti ofan í þessari holu.  Það var svo dimmt á þessu plani, maður sér illa .”  Hún kvað planið hafa verið í svipuðu ástandi frá því að hún fór að vera þarna á Lækjartorgi, en hún hafi verið búin að vera þar í hátt í ár.

         Við munnlegan málflutning kvað lögmaður stefnanda atvikalýsingu rétt hafða eftir stefnanda í örorkumatsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis, en þar er atvikum lýst svo, að stefnandi hafi verið að ganga á bílaplani Strætisvagna Reykjavíkur hjá Lækjartorgi, er hún rann til á hálku, en datt ekki, en gekk síðan spölkorn í næturmyrkrinu við lélegt skyggni, en steig með báða fætur ofan í u.þ.b. 10 cm djúpa holu á bílaplaninu og missti við það jafnvægið, datt fram fyrir sig á bæði hnén, skall með höfuðið í stétt og bar fyrir sig hægri hendi.  Í síðari ræðu sinni við aðalmeðferð kvað lögmaður stefnanda málsatvikum rétt lýst þannig, að stefnandi hefði ekki farið að hlaupa fyrr en hún lenti á hálkubletti og þá hafi hún rekið fæturna í og dottið.

         Eins og sést af því, sem hér hefur verið rakið, var stefnandi að breyta málavaxtalýsingu sinni allt fram til þess að málið var lagt í dóm að lokinni síðari ræðu lögmanns hennar.  Þykir verða að leggja til grundvallar þá lýsingu stefnanda á málsatvikum, sem hún gaf fyrir dómi, áminnt um sannsögli, að hún hafi verið að flýta sér, þegar hún kom út úr strætisvagninum, og hafi hlaupið yfir myrkvað bílaplanið, þar sem voru einhverjir hálkublettir og margar holur í malbikinu.  Slysið varð við það að hún hljóp í holu, rak tærnar í og féll fram fyrir sig.  Stefnandi þekkti til ástands bílaplansins og tók áhættu, þegar hún ákvað að hlaupa við þessar aðstæður inn í kaffistofu SVR.  Verður slysið alfarið rakið til gáleysis hennar og engum öðrum um kennt.  Er ekki fallizt á, að stefnda beri skaðabótaábyrgð vegna þessa.

         Varakrafa stefnanda er á því byggð, að óheimilt sé að takmarka tryggingarbætur stefnanda með þeim hætti, sem gert er í reglum nr. sl- 1/90 og sl. 2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar.

         Hér er um að ræða tryggingar sem samið er um í kjarasamningum milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.  Er ekki fallizt á, að stefnda hafi verið óheimilt að takmarka bótarétt stefnanda í samræmi við þann samning.  Þá er ekki fallizt á, að reglurnar gildi ekki gagnvart stefnanda vegna ákvæða í 33. og 36. gr. laga um samninga, umboð og ógilda löggerninga.  Hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir þeirri niðurstöðu. 

         Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 300.000 og greiðist úr ríkissjóði.  Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Aðalheiðar Arnljótsdóttur, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 300.000, greiðist úr ríkissjóði.