Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2015

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Magnúsi Haukssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Bókhald
  • Skilorð

Reifun

M var sakfelldur fyrir brot gegn skattalögum með því að hafa í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti á nánar tilgreindum tímabilum. Þá var hann sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Voru brotin talin meiri háttar og varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var M gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga vegna hluta brotanna. Auk þess var tekið tillit til brotaferils M en hann hafði þrívegis áður hlotið dóma fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga og ýmsum ákvæðum skattalaga. Var refsing M ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var B gert að greiða 56.500.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi eins árs fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 28. maí 2015 og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði hefur þrívegis hlotið dóma fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmsum ákvæðum skattalaga, þar með talið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fyrsta dóminn hlaut ákærði 30. september 1998 fyrir brot framin á árunum 1994 og 1995, en með honum var ákærða gert að greiða 2.000.000 krónur í fésekt. Næst hlaut ákærði dóm 30. nóvember 2005 og loks 10. desember 2008. Með dóminum frá árinu 2005 var ákærði sakfelldur fyrir brot framin á árunum 2001 og 2002 og var refsing hans ákveðin sex mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Með dóminum frá árinu 2008 var ákærði sakfelldur fyrir brot framin á árunum 2002 og 2003. Í þeim dómi var honum gerður hegningarauki við dóminn frá árinu 2005 og var refsing hans ákveðin tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Auk skattalagabrota var hann með tveimur síðastnefndu dómunum sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

Samkvæmt hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn skatta- og bókhaldslögum vegna áranna 2006 til og með 2011, sem eru meiri háttar og varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Svo sem greinir í héraðsdómi ber að ákveða sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga refsingu vegna brota sem framin voru fyrir uppkvaðningu áðurgreinds dóms 10. desember 2008. Að því er varðar brot framin eftir það á skilorðstíma dómsins er þess að gæta að rannsókn vegna þeirra hófst ekki fyrr en að skilorðstíma liðnum. Verður skilorðsþáttur dómsins því ekki tekinn upp, sbr. gagnályktun frá 60. gr. almennra hegningarlaga. Þá getur dómurinn heldur ekki haft ítrekunaráhrif hvað varðar þá refsingu sem féll niður, sbr. 61. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ber aftur á móti að taka tillit til brotaferils ákærða sem hér hefur verið rakinn og spannar langt tímabil.

Fallist verður á þá niðurstöðu héraðsdóms að engu breyti um refsingu ákærða þótt ekki liggi fyrir gögn um hvað hann greiddi í virðisaukaskatt vegna starfsemi sinnar, en þann innskatt mátti að réttu lagi draga frá skattinum sem hann innheimti og stóð ekki skil á. Er þess þá að gæta að ákærði sjálfur hélt ekki þessum gögnum til haga, en sú vanræksla hans er liður í því bókhaldsbroti sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Þá getur heldur engu breytt um refsinguna þótt dregist hafi úr hömlu að ljúka gjaldþrotaskiptum á búi ákærða, en þau hófust með úrskurði 21. febrúar 1996 og lauk ekki fyrr en 18. maí 2006.

Samkvæmt öllu framansögðu og þegar litið er til þess að brot ákærða eru stórfelld þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af þeirri refsingu svo sem í dómsorði greinir. Jafnframt verður ákærða eftir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, með síðari breytingum, gert að greiða fésekt sem vegna eðlis brotanna og sakaferils hans verður ákveðin hærri en nemur lögbundnu lágmarki fésektar. Að öllu gættu er sektin hæfilega ákveðin 56.500.000 krónur til greiðslu innan fjögurra vikna frá dómsuppsögu en ella sæti hann vararefsingu eins og í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Magnús Hauksson, sæti fangelsi í níu mánuði. Fullnustu sex mánaða af refsingunni skal fresta og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 56.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 521.053 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.  

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 8. maí 2015.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl sl., höfðaði sérstakur saksóknari með ákæru 1. desember 2014 á hendur ákærða; „ Magnúsi Haukssyni, kt. [...], Pólgötu 10, Ísafirði, fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi, með því að hafa:

  1. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2006 til og með 2011 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 19.560.589, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Árið 2006

janúar - febrúar

kr.

683.824

mars - apríl

kr.

866.739

maí - júní

kr.

679.328

júlí - ágúst

kr.

289.722

september - október

kr.

652.095

nóvember - desember

kr.

1.813.982

kr.

4.985.690

Árið 2007

janúar - febrúar

kr.

432.444

mars - apríl

kr.

240.197

maí - júní

kr.

486.965

júlí - ágúst

kr.

788.045

september - október

kr.

457.552

nóvember - desember

kr.

1.055.670

kr.

3.460.873

Árið 2008

janúar - febrúar

kr.

771.756

mars - apríl

kr.

582.119

maí - júní

kr.

190.407

júlí - ágúst

kr.

205.698

september - október

kr.

429.322

nóvember - desember

kr.

648.721

kr.

2.828.023

 

Árið 2009

janúar - febrúar

kr.

1.068.138

mars - apríl

kr.

312.127

maí - júní

kr.

259.039

júlí - ágúst

kr.

240.815

september - október

kr.

293.696

nóvember - desember

kr.

971.564

kr.

3.145.379

 

Árið 2010

janúar - febrúar

kr.

507.109

mars - apríl

kr.

312.152

maí - júní

kr.

46.666

júlí - ágúst

kr.

60.933

september - október

kr.

625.882

nóvember - desember

kr.

1.833.192

kr.

3.385.934

 


Árið 2011

janúar - febrúar

kr.

370.718

mars - apríl

kr.

85.298

maí - júní

kr.

438.314

júlí - ágúst

kr.

142.679

september - október

kr.

463.011

nóvember - desember

kr.

254.670

kr.

1.754.690

Samtals:

kr.

19.560.589

 

  1. Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar frá og með janúar rekstrarárið 2006 til og með desember rekstrarárið 2011.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. töluliður 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Gerir hann þá kröfu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi ákærða höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Samræmist játning ákærða rannsóknargögnum málsins, en ákæra styðst við lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis sérstaks saksóknara 7. maí 2014 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Hafa með þessu verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir sakargiftum samkvæmt ákæru. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða.

III

Ákærði er fæddur árið 1954. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann tvívegis með dómum Héraðsdóms Vestfjarða verðið sakfelldur og dæmdur til refsingar vegna brota gegn skattalögum. Ákærði var 30. nóvember 2005 dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, og dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 11.500.000 krónur vegna brota gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. mgr. 162. gr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 19. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, 2., 3., og 5. tl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Brot þau sem ákærði var þá sakfelldur fyrir framdi hann á árinu 2001. Í dóminum var dómur sama héraðsdóms frá 30. september 1998, vegna skattalagabrota, talinn hafa ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar. Þá var ákærði 10. desember 2008 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár og greiðslu sektar að fjárhæð 11.000.000 krónur vegna brota gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, 2. mgr. 22. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 37., sbr. 36. gr. laga um bókhald. Þá var vararefsing vegna sektar ákvörðuð sex mánuðir yrði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Voru brot ákærða, sem framin voru á árinu 2002, talin vera hegningarauki vegna þeirra brota sem ákærði var sakfelldur fyrir með dómi 30. nóvember 2005.

Ákærði er nú sakfelldur fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti til ríkissjóðs vegna áranna 2006 til 2011, samtals 19.560.589 krónur og fyrir að láta undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna atvinnustarfsemi sinnar. Teljast brot ákærða meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Brotin framdi ákærði á framangreindu tímabili er hann rak löndunarþjónustu. Eru þau því að hluta til framin áður en dómurinn var kveðinn upp 10. desember 2008 og teljast þau að því leyti vera hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga vegna þeirra brota sem ákærði var sakfelldur fyrir með þeim dómi. Hvað varðar þau brot ákærða sem framin voru eftir uppkvaðningu þess dóms þá voru þau að mestu leyti framin á skilorðstíma dómsins. Þegar rannsókn málsins hófst var skilorðstíma dómsins hins vegar lokið og eru því ekki skilyrði til að taka upp skilorðsþátt dómsins, sbr. 3. mgr. 56. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði byggir á því að við ákvörðun refsingar eigi að líta til þess að þrátt fyrir að hann hafi ekki haldið bókhald og því liggi ekki fyrir gögn um að hann hafi greitt virðisaukaskatt til frádráttar álögðum skatti sé ljóst að um slíka reikninga var að ræða. Því sé tjón ríkissjóðs vegna brota hans ekki í samræmi við þær tölur sem fram koma í ákæru. Þá kveðst ákærði nú hafa komið skattamálum sínum í rétt horf og sé launamaður. Dómurinn hafnar því alfarið að, eins og ákæruefninu er háttað, sé hægt að líta til gagna sem ekki hafa verið lögð fram. Við ákvörðun refsingar ákærða er litið þess að ákærði hefur játað brot sín greiðlega fyrir dómi, um þrjú og hálft ár eru liðin síðan þeim brotum sem ákærði hefur nú sakfelldur fyrir lauk og brotin náðu yfir sex ára tímabil. Með vísan til framangreinds og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærða verður að auki gert að greiða sekt til ríkissjóðs. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skal sekt vera ekki lægri en tvöföld skattfjárhæð en getur farið upp í allt að tífalda þá fjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt greiðsla á. Verður sektin, í samræmi við það og með vísan til dómafordæma, ákvörðuð 39.000.000 krónur er greiðist til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. Við ákvörðun vararefsingar vegna fésektar er haft í huga að brot þau sem ákærði hefur nú sakfelldur fyrir eru að hluta til hegningarauki vegna áðurnefnds dóms héraðsdóms frá 10. desember 2008. Verður vararefsing því, með vísan til 1. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga, ákveðin sex mánuðir.

VI

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., sem er hæfilega ákveðinn 160.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, og útlagaðan kostnað skipaðs verjanda ákærða 43.820 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Magnús Hauksson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 39.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 160.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans 43.820 krónur.