Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Faðerni
  • Málskostnaður


                                     

Miðvikudaginn 12. júní 2013.

Nr. 375/2013.

A

(Þuríður Halldórsdóttir hdl.)

gegn

B

(Sigurður Sigurjónsson hrl)

Kærumál. Börn. Faðerni. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem faðernismál A gegn B var fellt niður og B dæmdur málskostnaður úr hendi A. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem ekki væri mælt fyrir um það í barnalögum nr. 76/2003 hver skyldi bera kostnað stefnda af rekstri slíks máls færi um það atriði eftir reglum sem giltu um almenna meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2013, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og varnaraðila dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila, en samkvæmt gögnum málsins var úrskurðurinn birtur henni 14. þess mánaðar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um málskostnað í héraði verði hafnað, en til vara að málskostnaður verði lækkaður. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um að sé barn stefnandi faðernismáls skuli greiða þóknun lögmanns stefnanda sem dómari ákveður úr ríkissjóði, svo og annan málskostnað stefnanda, þar með talinn kostnað við öflun mannerfðafræðilegra rannsókna og annarra sérfræðiskýrslna. Vegna þess að ekki er mælt fyrir um það í þessari grein eða öðrum ákvæðum barnalaga hver skuli bera kostnað stefnda af rekstri slíks máls fer um það atriði eftir reglum sem gilda um almenna meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Ákvæði 11. gr. barnalaga hefur verið skýrt á þann veg að málskostnaður barns sem höfðað hefur faðernismál skuli greiddur úr ríkissjóði á báðum dómstigum, sbr. dóma Hæstaréttar 17. maí 2005 í máli nr. 174/2005, 13. júní 2006 í máli nr. 308/2006 og 2. apríl 2012 í máli nr. 180/2012. Samkvæmt því verður þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greidd úr ríkissjóði, en þóknunin verður ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Þóknun lögmanns sóknaraðila, Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, 125.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um kröfu um niðurfellingu og málskostnað, þann 10. apríl sl., var höfðað með stefnu birtri 28. nóvember sl. af A, kt. [...], til heimilis að [...] á hendur B, kt. [...], til heimilis að [...], til viðurkenningar á  faðerni.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir stefnanda, sem fædd er hinn [...].

Þá er krafist málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.   

Stefndi krefst málskostnaðar.

Þann 7. febrúar sl. var kveðinn upp úrskurður í máli þessu þar sem aðilum var gert skylt að hlíta blóðtöku og mannerfðafræðilegri rannsókn. Þann 4. apríl sl. barst dóminum álitsgerð Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. Kemur þar fram að mannerfðafræðileg rannsókn á erfðaefni úr aðilum málsins hafi leitt í ljós að útilokað sé að stefndi, B, sé faðir stefnanda, A.

Málið var tekið fyrir á ný þann 10. apríl sl., þar sem áðurgreind álitsgerð var lögð fram. Í því þinghaldi óskaði stefnandi eftir því að málið yrði fellt niður og gerði jafnframt kröfu um málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Þá gerði stefndi kröfu um málskostnað og var málið tekið til úrskurðar.

                Samkvæmt 11. gr. barnalaga nr. 76/2003, skal greiða úr ríkissjóði þóknun lögmanns stefnanda, svo og annan málskostnað stefnanda, þar með talinn kostnað við öflun mannerfðafræðilegrar rannsóknar, sé barn stefnandi máls til feðrunar barns. Stefnandi máls þessa telst barn í skilningi áðurnefndrar greinar barnalaga og því skal málskostnaður stefnanda greiðast úr ríkissjóði, sem og kostnaður af mannerfðafræðilegri rannsókn er gerð var samkvæmt úrskurði uppkveðnum hinn 7. febrúar sl.

Í c. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, segir að mál verði fellt niður ef stefnandi krefjist þess. Þá segir í 2. mgr. 130. gr. sömu laga, að stefnanda skuli gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Stefnandi hefur tekið ákvörðun um að fella mál þetta niður. Þær dómkröfur sem stefnandi hefur haft uppi í máli þessu hafa að engu leyti náð fram að ganga. Verður því ekki hjá því komist með vísan til framangreindrar meginreglu að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Með vísan til framangreinds er mál þetta fellt niður. Málskostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 199.994 kr. greiðist úr ríkissjóði, þar af nemur þóknun lögmanns stefnanda 195.780 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður 4.214 kr. Þá greiðist kostnaður af mannerfðafræðilegri rannsókn sem gerð var á aðilum, að fjárhæð 202.300 kr., úr ríkissjóði. Loks skal stefnandi greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 200.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Úrskurðinn kveður upp Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður stefnanda sem er þóknun lögmanns stefnanda, 195.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður stefnanda, 4.214 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sem og kostnaður vegna mannerfðafræðilegrar rannsóknar, 202.300 krónur.

Stefnandi, A, greiði stefnda, B, málskostnað að fjárhæð 200.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.