Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2013


Lykilorð

  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Ítrekun
  • Hegningarauki


Dómsatkvæði

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013.

Nr. 434/2013.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Kristjáni Lofti Bjarnasyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ökuréttarsvipting. Ítrekun. Hegningarauki.

K var sakfelldur með tveimur dómum héraðsdóms fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. K hafði tvívegis verið sakfelldur fyrir brot gegn áðurnefndu ákvæði umferðarlaga er hann framdi brot það sem hann var sakfelldur fyrir með fyrri dóminum og var það því hið þriðja í röðinni og ítrekað öðru sinni. Brotið sem K var sakfelldur fyrir með síðari dóminum var hegningarauki við þann fyrri, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. sömu laga var refsing K ákveðin fangelsi í 45 daga. Þá var hann samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til frekari ökuréttarsviptingar.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu verði staðfest.

Áfrýjað er tveimur dómum Héraðsdóms Vestfjarða, uppkveðnum 15. mars 2013 og 3. maí sama ár. Með báðum dómunum var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Með hinum fyrri var ákærði dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í þrjú ár frá 15. mars 2013 og í hinum síðari var hann dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í eitt ár frá 15. mars 2016.

Málin hafa verið sameinuð fyrir Hæstarétti.

Ákærði var dæmdur 13. nóvember 2008 til greiðslu 70.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í þrjá mánuði frá 7. janúar 2009 fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Þá var hann 17. mars 2009 dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í tvö ár fyrir brot gegn sömu lagagrein. Samkvæmt þessu hafði ákærði tvívegis verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga er hann framdi brot það sem hann var sakfelldur fyrir með fyrri héraðsdóminum sem áfrýjað er. Síðastgreint brot ákærða gegn umræddum ákvæðum umferðarlaga var því hið þriðja í röðinni og þar með ítrekað öðru sinni. Brotið sem ákærði var sakfelldur fyrir með síðari héraðsdóminum er hegningarauki við þann fyrri, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. sömu laga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 45 daga. Þá verður hann samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt frá 15. mars 2013.

Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Kristján Loftur Bjarnason, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 15. mars 2013 að telja.

Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.140 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 15. mars 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 9. október 2012 á hendur ákærða, Kristjáni Lofti Bjarnasyni, kt. [...], Tangagötu 15, Ísafirði;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 9. september 2012, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóði mældist tetrahydró­kannabínól 1,6 ng/ml), vestur Pollgötu og austur Hafnarstræti á Ísafirði uns lögregla stöðvaði akstur hans við Hafnarstræti 20 á Ísafirði.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

I.

Ákærði kom fyrir dóm 13. mars sl. og viðurkenndi brot sitt eins og því er lýst í ákæru. Játning ákærða samrýmist gögnum málsins. Brot hans telst því sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákæru. Samkvæmt þessu þykja vera efni til að leggja dóm á málið á grundvelli 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærði í maí 2007 undir sektargerð lögreglustjóra vegna fíkniefnabrots. Með dómi 13. nóvember 2008 var hann dæmdur til greiðslu 70.000 króna sektar og sviptur ökurétti í þrjá mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Hinn 17. mars 2009 var ákærði dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir brot gegn sömu ákvæðum umferðarlaga, en tetrahýdrókannbínólsýra mældist í þvagsýni sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins. Þá gekkst ákærði 8. september sama ár undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að hann greiddi 125.000 króna sekt, enn vegna samskonar umferðarlagabrots, auk fíkniefnabrots, en tetrahýdrókannbínólsýra mældist í þvagsýni frá ákærða.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði ítrekað brotið gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Að því og brotum ákærða virtum, en einnig dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 123/2012, sem ekki verður litið framhjá við úrlausn máls þessa, þykir refsing hans réttilega ákveðin 250.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átján daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja. Enn fremur ber skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að teknu tilliti til þess að um ítrekun er að ræða, niðurstöðu áðurnefnds dóms Hæstaréttar Íslands og þess að lítið magn tetrahýdrókannabínóls mældist í blóði ákærða umrætt sinn, að svipta hann ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Skv. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Með vísan til framlagðs sakarkostnaðaryfirlits og fylgigagna þess dæmist ákærði til að greiða 80.834 krónur vegna töku blóð- og þvagsýna og rannsókna á sýnunum.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Kristján Loftur Bjarnason, greiði 250.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átján daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 80.834 krónur í sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 3. maí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 3. apríl 2013 á hendur ákærða, Kristjáni Lofti Bjarnasyni, kt. [...], Tangagötu 15, Ísafirði;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 10. mars 2013, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóði mældist tetrahydró­kannabínól 0,6 ng/ml), norður Sindragötu og Sundstræti á Ísafirði uns lögregla stöðvaði akstur hans á gatnamótum Þvergötu og Sundstrætis á Ísafirði.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

I.

Ákærði kom fyrir dóm 23. apríl sl. og viðurkenndi brot sitt eins og því er lýst í ákæru. Játning ákærða samrýmist gögnum málsins. Brot hans telst því sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákæru. Samkvæmt þessu þykja vera efni til að leggja dóm á málið á grundvelli 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærði í maí 2007 undir sektargerð lögreglustjóra vegna fíkniefnabrots. Hinn 13. nóvember 2008 var hann dæmdur til greiðslu 70.000 króna sektar og sviptur ökurétti í þrjá mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Ákærði var 17. mars 2009 dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir brot gegn sömu ákvæðum umferðarlaga, en tetrahýdrókannbínólsýra mældist í þvagsýni sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins. Þá gekkst ákærði 8. september sama ár undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að hann greiddi 125.000 króna sekt, enn vegna samskonar umferðarlagabrots, auk fíkniefnabrots, en tetrahýdrókannbínólsýra mældist í þvagsýni frá ákærða. Að endingu var ákærði 15. mars sl. dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar og sviptur ökurétti í þrjú ár frá þeim degi að telja fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu síðastnefnds dóms. Í málinu skal því dæma honum hegningarauka, er samsvari þeirri þynging hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði ítrekað brotið gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Að því og brotum ákærða virtum, en einnig dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 123/2012, sem ekki verður litið framhjá við úrlausn málsins, sbr. og 78. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt áðursögðu, þykir refsing hans réttilega ákveðin 100.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Enn fremur ber skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, niðurstöðu tilvitnaðs dóms Hæstaréttar Íslands og þess að lítið magn tetrahýdrókannabínóls mældist í blóði ákærða umrætt sinn, sbr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, að svipta hann ökurétti í eitt ár frá 15. mars 2016 að telja.

Skv. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Með vísan til framlagðs sakarkostnaðaryfirlits og fylgigagna þess dæmist ákærði til að greiða 78.872 krónur vegna töku blóð- og þvagsýna og rannsókna á sýnunum.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Kristján Loftur Bjarnason, greiði 100.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti eitt ár frá 15. mars 2016 að telja.

Ákærði greiði 78.872 krónur í sakarkostnað.