Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/1999


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000.

Nr. 479/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Hirti Þórarni Sigurðssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.

Dómur héraðsdóms um sakfellingu og viðurlög H fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíassson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru um ölvunarakstur og sér gerð vægasta refsing, sem lög leyfi, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 28. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómshúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2056/1999: Ákæruvaldið gegn Hirti Þórarni Sigurðssyni, sem tekið var til dóms 7. þ.m.

          Málið er höfðað með ákæru lögreglustjóra í Reykjavík 7. september sl. gegn ákærða, Hirti Þórarni Sigurðssyni, kt. 090665-4999, Írabakka 6, Reykjavík, “fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni VF-682 þriðjudaginn 11. maí 1999, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti um Lönguhlíð í Reykjavík, og svo óvarlega að hann ók aftan á bifreiðina R-79350 við gatnamót Lönguhlíðar og Bústaðavegar og ekið þegar í stað brott af vettvangi að Hamraborg í Kópavogi.

          Þetta telst varða við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”

 

 

I.

          Ákærði hefur viðurkennt sakargiftir að öðru leyti en því að hann kveðst ekki hafa verið undir áhrifum við aksturinn. 

          Lögreglunni í Reykjavík var tilkynnt kl. 18.20 umræddan dag að tveir karlmenn væru að setjast inn í bifreiðina VF-682, sjáanlega mikið ölvaðir og ekið af stað.  Um fjórum mínútum síðar kom tilkynning frá ökumanni R-79350, sem var staddur í Lönguhlíð við Bólstaðarhlíð að ökumaður VF-682 hafi ekið aftan á bifreið hans og væri hann á eftir bifreiðinni, þar sem ökumaðurinn væri að reyna að stiga af.  Á Kópavogsbrú kvaðst hann hafa misst sjónar á bifreiðinni.  Örfáum mínútum síðar fannst VF-682 mannlaus í bifreiðastæði í bifreiðageymslu Hamraborgar á neðra plani.  Árni Svansson lögreglumaður fór á staðinn og segir í frumskýrslu hans, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, að sjá hafi mátt skemmdir á vinstra framhorni bílsins og mikil áfengislykt hafi verið í henni.  Lögreglu bárust upplýsingar um það um kl. 22.53 að grunaður ökumaður, ákærði, og farþegi, Jósep Hjálmar bróðir hans, væri á öldurhúsinu Keisaranum.  Þar voru þeir handteknir kl. 22.55 og færðir á lögreglustöð og í framhaldi þess var ákærði færður til töku blóð- og þvagsýnis á slysadeild.  Samkvæmt niðurstöðu hennar mældist alkóhól í blóði ákærða að teknu tilliti til reiknaðra frávika 2.47‰, en í þvagi 3.10 ‰.

          Ákærði var yfirheyrður kl. 10.30 að morgni næsta dags.  Viðurkenndi ákærði að hann hefði ekið bifreiðinni og verið blindfullur.  Þeir bræðurnir hafi verið búnir að vera á fylleríi í sólarhring áður en hann hóf aksturinn.  Þeir hafi verið búnir að drekka bjór allan þann tíma sem þeir voru við drykkjuna.  Var ítrekað haft eftir ákærða að hann hafi verið blindfullur, og mundi hann „sæmilega eftir sumu en ekki öllu”.   Hann kvaðst muna eftir því að hafa ekið á annan bíl, ekki hvar, og í framhaldi þess ekið á brott og inn í bílageymslu við Hamraborg í Kópavogi, þar sem hann lagði bílnum.  Þeir bræður hafi svo tekið leigubíl og farið til systur þeirra í Grafarvogi og þaðan á Keisarann, þar sem þeir voru handteknir.  Jósep Hjálmar, bróðir ákærða gaf skýrslu sama morgun og bar á sama veg og ákærði.  Skýrsla hans verður þó ekki lögð til grundvallar í málinu að því er þátt bróður hans, ákærða, varðar þar sem ekki var gætt ákvæða 50. gr. laga um meðferð opinberra mála við skýrslutökuna.  Kvaðst hann hafa verið töluvert drukkinn umrætt sinn. 

          Við meðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið að drekka kvöldið áður með bróður sínum, Jósep Hjálmari og hætt í kringum miðnætti.  Um hádegi daginn eftir hafi þeir hist á Keisaranum við Laugaveg, en þangað hafi hann ekið til að sækja Jósep Hjálmar.  Þeir hafi lagt þaðan af stað áleiðis heim til ákærða á bifreiðinni og ók ákærði.  Fullyrti hann að hann hafi ekki fundið til neinna áhrifa við aksturinn.  Hann hafi ekið að gatnamótum á eftir bifeið, sem gaf merki um að henni yrði beygt, en skyndilega hafi hún snögghemlað og bifreið ákærða því lent aftan á þessari bifreið.  Hann hafi verið kominn of nálægt til þess að geta komið í veg fyrir áreksturinn.  Það hafi komið á hann fát þar hann hafi oft áður verið gripinn við að aka án ökuréttar og því ekið í burtu og ekki stöðvað fyrr en hann lagði bílnum inni í bílageymslu í Hamraborg.  Þaðan hafi þeir bræður farið á einhvern matsölustað í Hamraborginni þarna rétt hjá, sem hann mundi ekki hvað heitir, sest þar niður og  rætt um þetta atvik. Þeir hafi í framhaldi þess keypt sér vodkaflösku „einhvers staðar þarna í ríki nálægt eða eitthvað”, það gæti hafa niðri í Mjódd, og byrjað að drekka.  Þeir hafi tekið leigubíl til systur sinnar í Grafarvog og drukkið úr flöskunni í bílnum og haldið áfram hjá systur sinni en farið þaðan á Keisarann og haldið drykkjunni áfram.  Ákærði mundi ekki hvað klukkan var er hann hóf drykkjuna.  Er ákærða var á það bent að áfengisverslanir væru ekki opnar á þessum tíma dags sagði ákærði að það gæti vel verið að þeir hafi fengið flöskuna hjá leigubílstjóranum sem ók þeim í Grafarvoginn. Þeir hafi verið komnir með flöskuna þarna í bílnum og sagði ákærði nánar um þetta: „...þannig að það má vel vera að þegar það var hringt á bílinn að það hafi verð beðið um „góðan bíl” eins og er pantað til að fá flösku.  Mér finnst það nú svona frekar trúlegt.”

          Um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hafi verið blindfullur við aksturinn sagði ákærði að vel mætti vera að eitthvað hafi “skolast til” dagar hjá sér þar sem hann hafi verið búinn að vera í neyslu nokkra daga áður en hann hætti að drekka þarna um kvöldið.  Ástand hans á lögreglustöðinni hafi verið þannig að hann hefði gert hvað sem var til að komast út og lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna hafi orðað hana eins og honum sýndist.  Kannaðist ákærði við að hafa undirritað skýrsluna eftir að hún hafi verið lesin upp fyrir honum, en síðan hafi vottur verið kallaður til.  Sannleikurinn væri sá að hann hafi byrjað að drekka eftir áreksturinn og síðast neytt áfengis um miðnætti kvöldið áður, en ekkert eftir það fram að þeim tíma er hann hóf neyslu að akstrinum loknum.

          Jósep Hjálmar kom fyrir dóm og skoraðist ekki undan að gefa vitni í málinu.  Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður og ruglaður umrætt sinn, þá nýverið hafa fallið á þriggja ára bindindi og bar við minnisleysi.  Kvaðst hann hvorki muna hvaðan þeir voru að koma hvert þeir vorum að fara, en ákærði hafi ekið bílnum.  Sagðist hann ekki vita betur en að ákærði hafi verið allt í lagi.  Hann hafi sennilega hringt í ákærða og beðið hann að sækja sig, þó hann myndi það ekki og mundi heldur ekki hvenær þeir hittust.  Hann kvaðst þó ekki telja að þeir bræður hafi hist kvöldið áður eða daginn áður.  Kvaðst Jósep Hjálmar búa í Grindavík og þar hafi hann byrjað að drekka, en kvaðst ekki muna hvenær hann kom í bæinn. 

          Jósep Hjálmar sagðist ekki muna eftir árekstrinum, hann hafi verið sofandi í bílnum eða víndauður, en rámaði í að bifreiðinni hafi verið ekið í Kópavog.  Þeir hafi farið inn í einhverja sjoppu og hringt í leigubíl þar.  Kvaðst hann telja að þaðan hafi þeir farið niður á Keisara og þar hafi hann boðið ákærða á fyllirí.  Þeir hafi ekki haft neitt áfengi áður en þangað kom, nema það sem hefur verið ofan í mér, og ekki keypt áfengi á leiðinni.  Er verjandi ákærða gekk á Jósep Hjálmar um þetta kvaðst hann ekki muna þetta, hann hafi verið rosalega ruglaður, vel megi vera að þeir hafi verið með eitthvað áfengi áður en þeir fóru á Keisarann.  Hann minntist þess ekki að þeir bræður hafi farið í Grafarvog til systur þeirra. 

          Eins og að framan getur kom Árni Svansson lögreglumaður fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína.  Um aðkomu lögreglu að bílnum sagði hann að svo hafi virst sem bíllinn hafi verið yfirgefinn í flýti og megn áfengislykt hafi verið inni í honum. Þeir hafi séð myndband lögreglu í Kópavogi, en myndbandstæki sé staðsett í bílageymslunni, og berlega hafi komið í ljós að tveir aðilar hlupu frá bílnum.  Hann kvaðst ekki vita hvort umbúðir áfengis fundust í bílnum.  

          Sveinbjörn Hilmarsson lögreglumaður, sem vann við frumrannsókn málsins ásamt Árna, kom einnig fyrir dóminn og bar á sama veg um aðdraganda að handtöku ákærða og fram kemur í frumskýrslu.  Hann sagði að vélarhlíf bílsins hafi enn verið ilvolg og þegar bíllinn var opnaður hafi mátt finna áfengisþef í henni.  Síðar hafi borist tilkynning um að þeir grunuðu væru á Keisaranum.  Hann hafi ásamt fleiri lögreglumönnum handtekið þar ákærða og bróður hans.                 

          Úlfar Jónsson rannsóknarlögreglumaður, yfirheyrði ákærða við rannsókn málsins.  Fyrir dómi kvað hann ákærða hafa viðurkennt af fúsum og frjálsum vilja að hafa ekið bifreiðinni ölvaður greint sinn og á aðra bifeið svo og að hafa stungið af frá vettvangi.  Kvaðst vitnið sérstaklega hafa spurt ákærða um ölvunarástand hans og hann sagst hafa verið mjög drukkinn.  Ákærði hafi, að því er hann minnti, verið sæmilega vel áttaður við yfirheyrsluna.  Í niðurlagi skýrslunnar er þess getið að skýrslan hafi verið yfirlesin, staðfest rétt og vottur að yfirlestri og undirritun hafi verið Ragnar Jónsson lögreglumaður.  Nafnritun Ragnars er handrituð.  Sagði vitnið að eftir töku skýrslunnar hafi hann lesið hana upphátt fyrir ákærða, en hvort ákærði las hana einnig kvaðst hann ekki muna.  Ákærði hafi engar athugasemdir gert við skýrsluna í kjölfar upplestrarins.  Vitnið sagði að “vottur að yfirlestri og undirritun” þýddi að votturinn hafi verið inni á meðan ákærði hafi lesa yfir skýrsluna eða hún lesin fyrir hann og hann undirritað hana, en hvort var í þessu tilviki kvaðst hann ekki muna, en vitnið taldi að ákærði hafi sjálfur lesið skýrsluna yfir þar sem það er bóka í skýrsluna.

          Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst ekki muna eftir því að hafa vottað skýrslu ákærða, en er honum var sýnd hún kvaðst hann kannast við undirskriftin sína og upphafsstafi sína á fyrra blaðið að því er yfirheyrslu yfir ákærða varðar.  Samkvæmt vinnureglum lúti vottun að því að ákærði búinn að lesa skýrsluna yfir og játa efni skýrslunnar rétt í viðurvist votts og vera vitni að því að viðkomandi undirriti nafn sitt.  Votturinn setji upphafsstaði sína á fremri blaðsíður skýrslunnar, en fullt nafn á þá öftustu.  Þegar viðkomandi undirriti skýrsluna spyrji votturinn hvort þetta sé rétt eftir haft áður en viðkomandi skrifar undir.  Ýmist sé vottur viðstaddur lesturinn eða ekki.  Oftast lesi ákærði sjálfur yfir skýrsluna, en stundum sé hún lesin upphátt, t.d. ef viðkomandi er lesblindur o.þ.h.  Þessum vinnureglum kvaðst vitnið alltaf fylgja, en mundi ekki hvort skýrslan hafi í þessu tilviki verið lesin upphátt eða ákærði lesið hana yfir í viðurvist þess eða ekki.   

 

II.

 

          Niðurstaða.

          Ákærði hefur játað sakargiftir að öðru leyti en því að hann kveðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn.  Lögreglu barst tilkynning um árekstur bifreiðar ákærða og bifreiðarinnar R-79350 um kl. 18.20 umræddan dag, en hann var ekki handtekinn fyrr en rúmum 4 klukkustundum síðar, eða nokkrum mínútum fyrir kl. 23.00 þetta sama kvöld.  Þá var hann staddur á öldurhúsi mjög drukkinn.  Að morgni næsta dags, tæplega 12 klukkustundum síðar, játaði ákærði í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði verið blindfullur við akstur bílsins umrætt sinn.   Lögreglumaður sá er tók af honum skýrsluna hefur komið fyrir dóm og staðfest að játning ákærða hafi verið af fúsum og frjálsum vilja.  Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður hefur staðfest nafnritun sína sem vottur að yfirlestri og undirritun skýrslunnar.  Með þessu kvaðst hann hafa verið að votta að ákærði hafi í viðurvist vitnisins lesið skýrsluna yfir eða skýrslan verið lesin fyrir ákærða og vitnið hafi verið viðstatt nafnritun ákærða undir hana.  Ákærði gaf þá skýringu á afstungu sinni af vettvangi að fát hafi gripið hann þar sem hann hafi svo oft áður verið tekinn fyrir akstur sviptur ökurétti.  Það síðastnefnda er í samræmi við sakaskrá hans. Þetta kann þó ekki að vera eina skýringin á brotthlaupi hans.  Framburður ákærða fyrir dóminum um drykkju sína að akstri loknum áður en hann fór á Keisarann, þar sem hann var handtekinn er afar ótrúverðugur.  Ákærði var tvísaga um það fyrir dómi hvar hann keypti áfengið, kvaðst fyrst hafa keypt það einhvers staðar í “Ríki” í Mjóddinni, en er honum var bent á það að áfengisverslanir hafi verið lokaðar á þessum tíma dags kvaðst hann hafa keypt áfengið í leigubílnum, sem hann og bróðir hans, Jósep Hjálmar, hafi tekið og sem ekið var með þá á heimili systur þeirra í Grafarvogi.  Við meðferð málsins minntist Jósep Hjálmar þess ekki að þeir hafi drukkið áfengi að akstrinum loknum fyrr en í Keisaranum, taldi að eina áfengið sem hafi verið meðferðis hafi verið ofan í honum sjálfum.  Hann minntist þess heldur ekki að hafa farið á heimili systur þeirra í Grafarvogi.  Þegar allt framangreint er virt og litið er til ótrúverðugs afturhvarfs ákærða frá játningu sinni fyrir lögreglu, sem ekki fær stoð í framburði bróður hans, Jóseps Hjálmars, þykir ekki varhugavert gegn neitun hans fyrir dómi að telja sannað að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn umrætt sinn.  Þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem hann er ákærður fyrir og rétt eru heimfærð til refsiákvæða, að öðru leyti en því að ölvunarakstur hans varðar við 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga, enda telst ósannað með vísan til þess að ákærði hafði nægan tíma til að drekka mikið magn áfengis að akstri loknum, að magn áfengis hafi verið það sem í honum mældist við handtöku.  

          Ákærði á að baki langan afbrotaferil.  Hann hefur frá árinu 1983 hlotið 22 refsidóma fyrir umferðarlagabrot og nytjastuld, brot gegn valdstjórninni, þjófnað, líkamsárás, fíkniefnabrot, fjársvik og tékkalagabrot.  Hann hefur 17 sinnum sætt refsingu fyrir ölvun við akstur, síðast 30. desember 1997, en með þeim dómi var honum ekki gerð sérstök refsing þar sem sá dómur var hegningarauki við dóm 12. júní sama ár, en þá hlaut ákærði 9 mánaða fangelsi fyrir ölvun og akstur án ökuréttar 4. desember 1996.  Þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

          Ákærði hefur ítrekað verið sviptur ökurétti ævilangt, síðast með dóminum frá 12. júní 1997.  Með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. og 4. mgr. 101. gr. og 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. og 26. gr. lög nr. 44/1993, sbr. lög nr. 23/1998, ber enn  að árétta að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt

          Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

          Málið var sótt af Sturla Þórðarsyni fulltrúa lögreglustjóra.

Dómsorð:

          Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000.