Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2014


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. maí  2014

Nr. 19/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Ávana- og fíkniefni. Ítrekun.

Þ var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumönum lífláti og fíkniefnabrot með því að hafa haft 2,03 grömm af MDMA og 1,61 gramm af amfetamíni í fórum sínum. Var Þ fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þ hafði áður verið dæmdur fyrir manndráp og hafði sá dómur ítrekunaráhrif  samkvæmt 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Var Þ gert að sæta fangelsi í 6 mánuði. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru og heimfærslu til refsiákvæða.

Ákærða var 5. mars 2012 veitt reynslulausn í 4 ár á 2075 daga eftirstöðvum 16 ára fangelsisrefsingar, að frádreginni 306 daga gæsluvarðhaldsvist, samkvæmt dómi Hæstaréttar 18. maí 2000, 2 ára og 6 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar 9. desember 2004 og eins mánaðar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands 11. maí 2007. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 16. júlí 2012 var ákærða gert að afplána eftirstöðvar refsingarinnar vegna rofs sama dag á því skilyrði reynslulausnarinnar að neyta hvorki áfengis né ávana- og fíkniefna á reynslutímanum.

Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir að brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað tveimur lögreglumönnum lífláti með því að koma heim til þeirra og skjóta þá. Með hliðsjón af sakaferli ákærða var full ástæða fyrir lögreglumennina að taka hótanir hans alvarlega.

Með 1. gr. laga nr. 25/2007, um breyting á almennum hegningarlögum, var refsirammi 106. gr. almennra hegningarlaga, þegar brot beindist að opinberum starfsmanni sem hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, hækkaður úr 6 árum í 8 ár. Með breytingarlögunum var jafnframt lögfest sérstakt ítrekunarákvæði, sbr. 3. mgr. 106. gr., en samkvæmt því má hækka refsingu um allt að helming hafi þeim sem dæmdur er sekur um brot gegn 106. gr. áður verið refsað samkvæmt greininni eða  fyrir brot sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 25/2007 segir meðal annars að markmiðið með 1. gr. frumvarpsins sé að skerpa og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum er hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar sé veitt í refsilögum, enda lendi þessi hópur opinberra starfsmanna mun oftar í þeirri aðstöðu að sæta ofbeldi eða hótun um ofbeldi en aðrir opinberir starfsmenn.

 Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 18. maí 2000 var ákærði dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 3. mgr. 71. þeirra laga falla ítrekunaráhrif niður að liðnum 5 árum frá því sökunautur hefur tekið út fyrri refsingu eða frá því hún hefur fallið niður eða verið gefin upp þangað til hann fremur síðara brotið. Samkvæmt þessu voru ítrekunaráhrif dómsins ekki fallin niður er ákærði framdi fyrrgreint brot. Hefur dómurinn því ítrekunaráhrif í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laganna. Að framansögðu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 328.745 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 13. desember 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað af ríkissaksóknara á hendur Þóri Óliver Gunnlaugssyni, kt. [...], fyrir eftirfarandi brot: 

1.                   Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í lögreglubifreið skömmu eftir að lögregla handtók hann að morgni mánudagsins 16. júlí 2012 á eldneytissölu Olís við Álfheima, Reykjavík, meðan honum var ekið í átt að lögreglustöðinni við Hverfisgötu, hótað lögreglumönnunum A og B, lífláti með því að koma heim til þeirra og skjóta þá.

2.                   Fyrir fíkniefnabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum, á þeim tíma sem greinir í 1. tl. ákæru við komu á lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík, 2,03 grömm af MDMA, (ecstasy) og 1,61 gramm af Amfetamíni.

Er talið að brot í 1. kafla ákæru varði við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er talið að brot í 2. kafla ákæru varði við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði neitar sök skv. 1. kafla ákæru en játar sök skv. 2. kafla ákæru.

Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

Samkvæmt skýrslu lögreglu mánudaginn 16. júlí 2012 fékk lögregla þann dag kl. 12.48 tilkynningu um ölvaðan mann sem væri til vandræða á eldsneytissölu Olís við Álfheima. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi verslunarstjóri Olís tekið á móti þeim og tjáð þeim að maður hafi komið inn í verslunina um kl. 06.00 um morguninn og sofnað inni í versluninni. Hafi verslunarstjórinn tjáð lögreglumönnum að starfsmenn Olís hafi vísað manninum út en er verslunarstjórinn hafi sjálfur mætt til vinnu kl. 08.00 þennan sama morgun, hafi maðurinn aftur verið kominn inn í verslunina og hafi hann legið sofandi á bekk þar innandyra. Hafi verslunarstjórinn greint lögreglumönnum frá því að hann hafi reynt að vekja manninn en hann verið viðskotaillur og sagt verslunarstjóranum að halda kjafti. Að sögn verslunarstjórans hafi maðurinn verið með ógnandi tilburði og verslunarstjórinn því hringt til lögreglu. Í frumskýrslu kemur fram að er lögreglumenn hafi mætt á staðinn hafi þeir reynt að vekja manninn sem sofið hafi föstum svefni á bekk inni í versluninni. Segir í skýrslu lögreglu að er maðurinn hafi loks rankað við sér hafi lögreglumenn tjáð honum að hann skyldi yfirgefa verslunina. Hafi þeir margbeðið manninn um að standa upp og ganga út en hann vart virt þá viðlits. Hafi hann ekki svarað eða viljað gefa upp persónuupplýsingar á vettvangi. Hafi manninum verið gefinn kostur á að ganga sjálfur út en að öðrum kosti myndu lögreglumenn færa hann út. Hafi maðurinn þessu engu ansað. Er lögregla hafi tekið í hægri handlegg mannsins hafi hann reynt að draga höndina að sér. Hafi hann þá verið færður í lögreglutök og leiddur út. Hafi hann byrjað að ausa úr sér fúkyrðum og niðrandi ummælum í garð lögreglumanna og hann verið færður í handjárn til að tryggja öryggi hans sem og lögreglumanna. Er lögregla hafi ekið frá Olís á Suðurlandsbraut við Grensásveg hafi maðurinn sagst ætla að verða sér út um skotvopn og koma heim til lögreglumanna og skjóta þá. Hafi maðurinn einnig sagst ætla að fara á mannaveiðar. Hafi lögreglumenn stöðvað lögreglubifreiðina og spurt manninn hvað hann hafi verið að segja og hafi hann endurtekið orð sín og aftur sagst ætla að koma heim til lögreglumanna og skjóta þá. Hafi maðurinn verið fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Hafi maðurinn verið færður fyrir varðstjóra sem rætt hafi við hann. Við flutning í fangaklefa hafi verið lagt hald á fíkniefni í fórum mannsins.

C deildarstjóri á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði hefur ritað matsgerð 16. júlí 2012 vegna rannsóknar á fíkniefnum sem fundust í fórum ákærða. Í matsgerðinni kemur fram að í þvagi ákærða hafi mælst amfetamín, MDMA og tetrahýdrókannabínólsýra.

Ákærði hefur við aðalmeðferð málsins greint svo frá að hann hafi komið inn á bensínstöðina um klukkan 05.00 að morgni og keypt sér kaffi og rúnstykki. Hafi hann ekki lent í útistöðum við starfsfólk á bensínstöð. Hann hafi verið sofandi um klukkan 09.00 er lögregla hafi komið og vakið hann. Lögreglumenn hafi togað í höndina á honum og hann kippt hendinni að sér. Hafi þá fokið í lögreglumann og hann rifið í höndina á ákærða og snúið upp á. Hafi ákærði ekki vitað hvað væri að gerast fyrr en hann hafi verið kominn í lögreglutak. Hafi ákærði verið beittur óþarfa harðræði við handtökuna og ákærði sagt við lögreglumanninn að það ætti að skjóta fífl eins og hann. Rangt væri sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi sagst ætla að fara heim til lögreglumanna og skjóta þá. Hafi ákærði ekki haft uppi nein orð um öflun skotvopna. Er á lögreglustöðina kom hafi lögreglumenn komið inn í fangaklefa ásamt fangaverði og fangavörður sagt: „Já á að skjóta fífl eins og okkur, ætlar þú ekki að koma heim til okkar og skjóta allt og alla“. Hafi ákærði þá setið á rúmgafli í fangaklefanum og svarað þessu til með því að segja að kannski ætti hann að fara á mannaveiðar. Hafi þetta verið sagt án hugsunar. Hafi hann verið í annarlegu ástandi og ekki gert ráð fyrir því að mennirnir væru að snúa þessu upp í morðhótanir.

                Fyrir dóminn kom lögreglumaðurinn A. Staðfesti hann frumskýrslu lögreglu frá 16. júlí 2012. Bar hann fyrir dómi að er lögreglumenn komu á bensínstöð Olís hafi ákærði verið ölvaður og sofandi á bekk. Hafði hann verið með dólgslæti við starfsfólk þannig að það treysti sér ekki að tjónka við hann. Hefðu lögreglumenn staðið yfir ákærða dágóða stund og beðið hann um að vakna og fara út en ákærði eigi sinnt því. Hafi ákærða þá verið sagt að standa upp en ella yrði hann handtekinn. Hafi ákærði ekki ansað og þá verið handtekinn. Á leið frá bensínstöðinni og á lögreglustöðina hafi ákærði haft í hótunum við lögreglumenn. Hafi ákærði sagst ætla að koma heim til þeirra og skjóta þá. Hafi ákærði sagt þetta tvisvar sinnum. Hafi það ekki komið fram hvort ákærði ætti skotvopn. Kvaðst A hafa tekið þessum hótunum alvarlega enda vitað hver ákærði var. Ákærði hafi einnig sagst ætla að fara á mannaveiðar og hefði virst sem lögreglumenn væru bráðin enda ákærði ítrekað reynt að fá að vita nafn og númer lögreglumanna.

                Lögreglumaðurinn B bar fyrir dómi að er lögreglumenn komu á vettvang hafi ákærði verið sofandi fram á borði. Þegar ákærði var vakinn hafi hann brugðist illa við og því hafi hann verið settur í handjárn. Hafi ákærði komið þannig fyrir sjónir að hann væri ekki vel stemmdur og ekki vel áttaður þó hann hafi getað gengið. Hafi hann verið færður í lögreglubifreið og á leið á lögreglustöð hafi ákærði hótað lögreglumönnum því að hann mundi koma heim og skjóta þá. Hafi B tekið þessu sem morðhótun. Hefði ákærði einnig nefnt mannaveiðar, þ.e. fara á mannaveiðar og skjóta þá síðan. Kvaðst B hafa óttast orð ákærða og ekki litið á þetta sem eitthvað óregluþras. Kvaðst B ekki muna hvort ákærði sagði þetta einu sinni eða oftar. B kvaðst ekki muna eftir því að hafa rætt við ákærða í fangaklefa. Kvaðst B ekki hafa vitað hver ákærða var fyrr en er á lögreglustöðina var komið. 

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök samkvæmt 1. tl. ákæru. Frásögn ákærða af atvikum er ekki á einn veg undir rannsókn og meðferð málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir að atvik áttu sér stað kvaðst ákærði játa að hafa sagst ætla að fara heim til lögreglumannanna en kvaðst neita því að hafa sagst ætla að skjóta þá. Fyrir dóminum játaði ákærði að hafa sagst ætla að skjóta lögreglumennina en neitaði því að hafa sagst ætla heim til þeirra.

                Framburður lögreglumannanna A og B er á einn veg um atvik. Eru þeir einróma um að er þeir komu á vettvang bensínstöðvarinnar Olís í Álfheimum hafi ákærði verið sofandi þar inni. Er ákærði var vakinn hafi hann brugðist mjög illa við og því verið handtekinn. Hafi ákærði í lögreglubifreið á leið á lögreglustöð haft í hótunum við lögreglumenn og sagst ætla að fara heim til þeirra og skjóta þá auk þess sem ákærði hafi einnig sagst ætla að fara á mannaveiðar. Þegar einróma framburður lögreglumannanna tveggja er virtur er að mati dómsins komin fram sönnun um að ákærði hafi hótað lögreglumönnum lífláti með því að koma heim til þeirra og skjóta þá. Í þessum orðum ákærða fólst brot gegn valdstjórninni. Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur samkvæmt I. tl. ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                Ákærði játar sök samkvæmt 2. tl. ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt 2. tl. ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í apríl 1958. Á hann að baki langan sakarferil. Frá árinu 1979 hefur ákærði tólf sinnum verið dæmdur fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum, s.s. skjalafals, fjárdrátt og fjársvik. Ákærði hefur einnig ítrekað verið dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var ákærða veitt reynslulausn 5. mars 2012 í 4 ár á eftirstöðvum refsingar, samtals 2075 dögum. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 16. júlí 2012 var ákærða gert að afplána eftirstöðvar reynslulausnarinnar. Brot ákærða nú eru ítrekun, sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af þessu verður ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.  

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                                D ó m s o r ð :

                Ákærði, Þór Ólíver Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

                Ákærði greiði 377.703 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.