Hæstiréttur íslands

Mál nr. 700/2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (enginn)
gegn
X (Hólmgeir Elías Flosason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 27. október 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Þá er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi svo og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X,  kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 27. október 2015 og að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á því stendur.

Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands. Þann 28. september hafi lögreglan lagt hald á mikið magn af sterkum fíkniefnum sem hafi fundist í bifreið sem staðsett hafi verið við gistiheimili að [...] í [...] á [...]. Tveir erlendir aðilar hafi verið handteknir inn í húsnæðinu grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands. Lögreglan hafi haft eftirlit með bifreiðinni sem innihélt fíkniefnin í nokkra daga. Við það eftirlit hafi lögreglan ítrekað orðið vör við aðra bifreið sem virtist fylgja hinni eftir. Við frekari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um var að ræða bílaleigubifreiðar sem kærði X hafi verið skráður leigutaki að. Kærði hafi verið handtekinn skammt frá gistiheimilinu á bifreiðinni [...] og hafi lögreglan fundið sjónauka, lambhúshettu og rúmlega 15.600 evrur sem svari til rúmlega 2,2 milljóna íslenskra króna í bifreiðinni. Lögregla telji að kærði hafi þar verið að fylgjast með meðkærðu og bifreiðinni. Við rannsókn lögreglu hafi einnig komið í ljós að kærði hafi verið staðsettur á [...] sama dag og ferjan [...] kom til landsins þann 22. september.

Ennfremur segir að kærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Framburður kærða komi ekki heim og saman við þau gögn sem lögreglan hafi undir höndum, framburð meðkærða og vitna. Kærði hafi að öðru leyti lítið kosið að tjá sig hjá lögreglu eða kveðst ekki muna eftir atvikum máls. Vísað sé í gögn málsins varðandi nánari framburð kærða, meðkærða og þau gögn sem liggi fyrir hjá lögreglu.

Með heimild héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan skoðað síma og fjármálagögn kærða. Við þá skoðun hafi margt komið fram sem styrki grun lögreglu. Ljóst sé að kærði hafi nokkuð fjármagn í höndunum og virðist vera sem mikið fjármagn sé að fara á milli kærða og meðkærða Y hér á landi og erlendis. Við rannsókn málsins hafi nú komið fram að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skipulagningu innflutningsins og hafi þeir verið í samskiptum eða í samstarfi við aðila hér á landi sem fylgdust með ferðum bifreiðarinnar. Lögreglan vinni nú einnig að málinu í samstarfi við [...] yfirvöld og leiti lögreglan nú að þessum aðilum erlendis. Þá sé einnig unnið í því að afla gagna erlendis frá.

Kærði, X hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september sl., sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjaness R-[...]/2016 og R-[...]/2015. Fyrri úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. [...]/2015.

Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og hafi lögreglan upplýsingar um það að fleiri aðilar tengist málinu. Lögreglan vinni að rannsókn málsins í samstarfi við [...] yfirvöld og sé talin brýn nauðsyn á því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á þessu stigi máls þar sem ljóst sé að ef kærði gangi laus þá geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Kærði mótmælti kröfunni. Kvað hann skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga ekki vera uppfyllt. Þá séu engir sýnilegir rannsóknarhagsmunir til staðar lengur en kærði hafi gefið skýringar á ferðum sínum.

Eins og rakið hefur verið og sjá má í gögnum málsins er um mikið magn fíkniefna að ræða, sem má ætla að séu í sölu-og dreifingarskyni. Fallast verður á með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé fyrir hendi svo og að rannsókn málsins snúi að hugsanlegum samverkamönnum og skipuleggjendum. Þá hafa gögn og framburður komið fram síðustu daga sem krefjast nokkuð umfangsmikillar rannsóknar, hérlendis sem erlendis.  Má ætla að kærði geti haft áhrif á aðra samseka eða vitni, gangi hann laus.  Skilyrði a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu.

Þá verður einnig fallist á þá kröfu lögreglustjóra að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi og fær sú niðurstaða stoð í því sem að framan er rakið og möguleika hans á að hafa samband við meðseka og vitni sæti hann ekki einangrun á meðan rannsóknarhagsmunir krefjast. 

Með vísan til rannsóknargagna og þess sem nú hefur verið rakið, a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.

 Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 27. október nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun á þeim tíma.