Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 6. ágúst 2004. |
|
Nr. 327/2004. |
Ríkislögreglustjóri (Steinar Adolfsson fulltrúi) gegn X (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar var honum gert að sæta farbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Guðrún Erlendsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 23. ágúst 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði meinuð brottför af landinu eða lagt fyrir hann að halda sig á ákveðnu svæði.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði fór varnaraðili af landi brott í byrjun apríl 1999 eftir að ákæra hafði verið birt honum fyrir ætlað brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og komið var að aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi. Mun hann hafa farið huldu höfði nánast allan þennan tíma og eingöngu látið heyra frá sér í júlí 1999 frá Thailandi þegar hann hafði sambandi við fjölskyldu sína á Íslandi. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að varnaraðili hafi verið handtekinn í Thailandi 4. maí sl. vegna gruns um þjófnað. Hafi honum verið haldið í fangelsi þar í landi þar sem hann var án skilríkja og neitaði að greina frá hver hann væri. Mun varnaraðili 14. júlí sl. hafa gefið upp nafn sitt og ríkisfang og haft samband við ræðismann Íslands í þeim tilgangi að yfirgefa Thailand. Í framhaldi af því hafi hann verið framseldur hingað til lands og hefur sóknaraðili vísað máli varnaraðila á ný til meðferðar fyrir héraðsdómi. Heldur sóknaraðili því fram að með hliðsjón af atvikum málsins í heild sé veruleg hætta á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn og komi vægara úrræði en gæsluvarðhald því ekki til álita.
Ekki hefur nægilega verið sýnt fram á að þörf sé gæsluvarðhalds varnaraðila til þess eins að tryggja návist hans í þágu meðferðar þess máls, sem rekið er fyrir héraðsdómi. Samkvæmt framansögðu verður kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila hafnað, en varnaraðila bönnuð brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðila, X, er bönnuð brottför frá Íslandi allt til mánudagsins 23. ágúst 2004 kl. 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2004.
Ríkislögreglustjórinn krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 23. ágúst n.k. kl. 16.00.
Krafan er reist á ákvæðum b- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Málavextir eru þeir að þann 9. desember 1998 var gefin út ákæra á hendur kærða fyrir ætluð brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var málið þingfest 18. janúar 1999 í Héraðsdómi Reykjaness. Aðalmeðferð var ákveðin 23. apríl 1999 en ákærði kom þá ekki fyrir dóm. Var málinu frestað ótiltekið vegna fjarveru ákærða en vitað var að hann hafði farið til London 2. apríl 1999. Að ósk fjölskyldu ákærða var lýst eftir honum sem týndum manni. Ekkert spurðist til hans fyrr en 22. júlí 1999 er hann hafði samband við fjölskyldu sína frá Tælandi. Handtökuskipun var gefin út af Héraðsdómi Reykjaness þann 19. ágúst 1999 og alþjóðleg handtökuskipun gefin út af Dómsmálaráðuneytinu degi síðar. Ekkert spurðist til ákærða fyrr en aðalræðismaður Íslands í Tælandi hafði samband við Ríkislögreglustjóra 14. júlí 2004 og tilkynnti að ákærði hefði verið handtekinn af lögreglunni í Tælandi þann 14. maí 2004 þar sem hann hafi verið án skilríkja. Hann hafi ekki viljað upplýsa um hver hann væri og því hafi honum verið haldið í fangelsi. Þann 14. júlí s.l. gaf ákærði upp nafn og ríkisfang og óskaði eftir að hafa samband við ræðismann Íslands. Í framhaldi af því óskuðu tælensk yfirvöld eftir því að sendir yrðu lögreglumenn til að sækja ákærða og var það gert og kom hann til landsins í gær um miðnætti.
Ríkislögreglustjóri hefur með bréfi 28. júlí 2004 vísað máli ákærða á ný til dómsmeðferðar við Héraðsdóm Reykjaness. Ætlað brot ákærða varðar fangelsi allt að 6 árum samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði flúði land 1999 þegar honum hafði verið birt ákæra og aðalmeðferð hafði verið ákveðin. Hann fór huldu höfði í rúm 5 ár og verður að fallast á með Ríkislögreglustjóra að veruleg hætta sé talin á því að ákærði muni enn á ný reyna að komast úr landi gangi hann laus. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 103.gr. laga nr. 19/1991 verður krafa Ríkislögreglustjóra tekin til greina og ákærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudagsins 23. ágúst 2004 kl. 16:00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00, mánudaginn 23. ágúst 2004.