Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-266

Þórarinn Einarsson (sjálfur)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Verðbætur
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 24. september 2019 leitar Þórarinn Einarsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 10. sama mánaðar í málinu nr. 537/2019: Þórarinn Einarsson gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að leiðréttu frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 1. febrúar 2019 til úthlutunar á söluverði fasteignar hans í Reykjavík við nauðungarsölu verði breytt á þá leið að úthlutun til gagnaðila verði lækkuð og leyfisbeiðanda úthlutað sem því nemur af söluverðinu. Ágreiningur aðila snýr að því hvort gagnaðili eigi rétt á að fá úthlutað af söluverði fasteignarinnar greiðslu á verðbótum samkvæmt veðskuldabréfinu sem lá til grundvallar nauðungarsölunni en leyfisbeiðandi taldi þær fyrndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2019 um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Var einkum vísað til þess að greiðsla verðbóta af láninu teldist „afborgun af skuld“ í skilningi 2. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 og fyrndust kröfur um verðbætur á 10 árum í samræmi við hina almennu reglu 4. gr. sömu laga.

Leyfisbeiðandi byggir á að ágreiningsefni í málinu varði mikilsverða almannahagsmuni auk þess sem úrlausn þess hafi fordæmisgildi við túlkun á ákvæðum fyrningarlaga sem og fleiri laga á sviði kröfuréttar. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur sökum þess að ekki hafi verið tekin afstaða til allra málsástæðna hans. Vísar hann einkum til þess að Landsréttur hafi hvorki fjallað um hvort ákvæði í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sbr. nú reglur nr. 877/2018 um sama efni, hafi haft viðhlítandi lagastoð né heldur um ákvæði þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994. Hafi leyfisbeiðandi því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Loks varði málið sérstaklega mikilsverða hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn um það geti haft fordæmisgildi umfram það, sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beit heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.