Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2017

BVBA De Klipper (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)
gegn
C Trade ehf. (Jörgen Ingimar Hansson stjórnarformaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu B um að C ehf. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar vegna beiðni C ehf. um að dómkvaddur yrði matsmaður. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gæti stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með því væri átt við að almennt einkamála hefði verið þingfest en máli því, sem matsbeiðni B laut að, hafði lokið með dómi héraðsdóms í janúar 2017. Var því talið óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í „máli hans á hendur sóknaraðila.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. janúar 2017 í máli réttarins nr. E-387/2012 var sóknaraðili sýknaður af kröfu varnaraðila um greiðslu 169.568 evra og þá var varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 5.000.000 krónur í málskostnað. Með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2017 fór varnaraðili þess á leit með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 að dómkvaddur yrði maður til þess að rannsaka frumrit reikninga sem lagðir voru fram af hálfu sóknaraðila í fyrrgreindu héraðsdómsmáli. Kom fram í matsbeiðninni að verið væri að afla sönnunargagna fyrir Hæstarétti í málinu. Í þinghaldi 16. júní 2017 gerði sóknaraðili kröfu um að varnaraðila yrði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar með vísan til 2. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991 og að hún yrði ákveðin í samræmi við 2. mgr. 133. gr. sömu laga. Varnaraðili áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og var áfrýjunarstefna gefin út 12. apríl 2017. Fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili kröfu sína um málskostnaðartryggingu á b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

Kveðið er á um í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 að stefndi geti krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. a. og b. liði ákvæðisins. Með því er átt við að almennt einkamál, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991, hafi verið þingfest. Sem fyrr greinir lauk máli því, sem matsbeiðni varnaraðila lýtur að, í héraði með dómi 12. janúar 2017.  Samkvæmt því er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.  

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 6. júlí 2017

Mál þetta, sem barst dóminum 27. janúar 2017, með matsbeiðni dagsettri 20. sama mánaðar, var tekið til úrskurðar um ágreining aðila um málskostnaðartryggingu 27. júní 2017 að undangengnum munnlegum málflutningi.

Matsbeiðandi er C Trade ehf., Blásölum 22, Kópavogi.

Matsþoli er BVBA De Klipper, Salvialaan 6, Koksijde, Belgíu.   

                Með matsbeiðni fór matsbeiðandi þess á leit við dóminn að dómkvaddur yrði hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður, starfandi á rannsóknarstofu sérhæfðri í smásjárrannsóknum á skjölum, til þess að rannsaka hvort tóner- eða blekdeplar eftir ljósritun eða aðra útprentun væri að finna ofan á eða undir handritunum á reikningum sem lagðir voru fram af hálfu matsþola í máli E-387/2012 og þá sérstaklega á nafni J. Ingimars Hanssonar.

                Við fyrirtöku málsins 16. júní 2017 mótmælti matsþoli því að beiðni matsbeiðanda næði fram að ganga. Þá gerði matsþoli jafnframt kröfu um að matsbeiðanda yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar vegna reksturs málsins aðallega með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en til vara 2. mgr. 73. gr. sömu laga.

                Í þessum þætti málsins er tekin til úrskurðar krafa matsþola um að matsbeiðanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna reksturs málsins. Matsbeiðandi krefst þess að kröfu matsþola verði hafnað og að matsþola verði gert að greiða honum málskostnað.

I

Matsþoli kveðst byggja kröfu sína um að matsbeiðanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar á því að leiða megi líkur að því að matsbeiðandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Til stuðnings kröfu sinni leggur matsþoli fram ársreikning matsbeiðanda fyrir árið 2015. Telur matsþoli ljóst af ársreikningnum og af ársreikningi fyrir árið 2016, sem matsbeiðandi lagði fram, að enginn rekstur sé í félaginu annar en viðkomi dómsmáli matsbeiðanda á hendur matsþola. Þá sé ljóst að skuldir matsbeiðanda við tengda aðila séu 26.641.692 krónur og eignir engar. Matsþoli bendir á að í héraðsdómsmálinu nr. E-387/2012 hafi matsbeiðanda verið gert að greiða matsþola 5.000.000 króna í málskostnað og fyrirséð að aukinn málskostnaður falli til við rekstur málsins fyrir Hæstarétti Íslands. Ljóst megi vera að matsbeiðandi eigi ekki eignir til að standa undir greiðslu krafnanna verði niðurstaða Hæstaréttar hin sama og héraðsdóms. Þá beri dómur héraðsdóms í máli nr. E-387/2012 með sér að málatilbúnaður matsbeiðanda sé með öllu tilhæfulaus, sem endurspeglist í dæmdum málskostnaði. Matsþoli bendir á að hann muni krefjast löggeymslu samkvæmt 23. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann ofl. vegna þess málskostnaðar sem matsbeiðanda hefur verið gert að greiða honum. Ljóst sé að matsbeiðandi skuldi umtalsverðar fjárhæðir vegna reksturs dómsmálsins og að félagið verði ógreiðslufært í skilningi b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verði dómur héraðsdóms staðfestur af Hæstarétti Íslands.  

II

Matsbeiðandi mótmælir því að honum verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Matsbeiðandi kveður kröfu matsþola í fyrsta lagi of seint fram komna en hún hafi í síðasta lagi átt að koma fram í þinghaldi 10. febrúar 2017 þegar málið hafi fyrst verið tekið fyrir. Ekki stoði að lögmaður matsþola hafi borið við umboðsskorti til að mæta við þinghaldið. Í öðru lagi byggir matsbeiðandi á því að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé ekki uppfyllt í málinu þar sem rangt sé að matsbeiðandi sé ekki í rekstri og að greiðslugeta hans sé ekki fyrir hendi. Bendir matsbeiðandi á að samkvæmt rekstrareikningi félagsins fyrir árin 2015 og 2016 hafi tekjur staðið undir kostnaði við málarekstur félagsins og rúmlega það. Kveður matsbeiðandi kröfu matsþola um málskostnaðartryggingu tilefnislausa og aðeins gerða til að tefja málið. Í þriðja lagi fari því fjarri að málatilbúnaður matsbeiðanda í því máli sem rekið sé fyrir Hæstarétti Íslands milli aðila sé tilhæfulaus. Loks kveður matsbeiðandi 73. gr. laga nr. 91/1991 ekki eigi við í málinu enda greiði matsbeiðandi matskostnað beint til matsmanns.

III

Í máli þessu óskar matsbeiðandi dómkvaðningar matsmanns í því skyni að sanna atvik að baki kröfu í dómsmáli sem rekið er milli málsaðila. Svo sem áður er fram komið hefur matsþoli mótmælt því að beiðni matsbeiðanda nái fram að ganga. Í ljósi fyrirséðs ágreinings hefur matsþoli krafist þess að matsbeiðanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar vegna reksturs málsins.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má að því líkur að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Ákvæði þetta verður að skýra í því ljósi að um er að ræða reglu sem felur í sér takmörkun á rétti aðila til að bera ágreiningsmál undir dómstóla og, að því mál þetta varðar, rétti aðili að máli sem rekið er fyrir dómstólum á grundvelli laga nr. 91/1991 til að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á til stuðnings málatilbúnaði sínum.

Ákvæðið áskilur að krafa um málskostnaðartryggingu komi fram við þingfestingu máls, en ella svo fljótt sem tilefni er til. Beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns var fyrst tekin fyrir á dómþingi 10. febrúar 2017. Þar sem ekki hafði tekist að boða matsþola til þinghaldsins með tíðkanlegum hætti var málinu frestað til 16. júní 2017. Í þinghaldi þann dag var mætt af hálfu matsþola og krafa gerð um málskostnaðartryggingu. Telst krafa matsþola samkvæmt framansögðu ekki of seint fram komin.

Leiðir af því sem áður er rakið að sönnunarbyrði fyrir því að líkur séu á ógjaldfærni matsbeiðanda hvílir á matsþola. Í því skyni að leiða ógjaldfærni matsbeiðanda í ljós hefur matsþoli vísað til ársreikninga matsbeiðanda 2015 og 2016. Af ársreikningunum má ráða að matsbeiðandi hefur haft nokkrar rekstrartekjur umrædd ár og meðal annars umtalsverðan hagnað hið síðara ár. Þrátt fyrir að eigið fé félagsins sé samkvæmt ársreikningum neikvætt verður það eitt og sér ekki talið leiða til þess að matsbeiðandi verði talinn ófær um greiðslu málskostnaðar en matsþoli hefur að öðru leyti en framan greinir engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings. Auk  þess verður ekki talið að önnur þau atriði sem matsþoli vísar til, sbr. kafla I hér að framan, leiði til þess að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Þá verður krafa um að matsbeiðandi setji fram tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar matsþola af málinu ekki reist á 2. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu hefur matsþoli ekki sýnt fram á að skilyrðum til að matsbeiðanda verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar sé fullnægt og verður kröfu matsþola því hafnað.

Málskostnaður úrskurðast ekki sérstaklega í þessum þætti málsins.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

         Kröfu matsþola, BVBA De Klipper, um að matsbeiðanda, C Trade ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er hafnað.

         Málskostnaður úrskurðast ekki.