Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-85
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Þinglýsing
- Aðild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. apríl 2025 leitar Kristín Jónsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, til að kæra úrskurð Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 108/2025: Kristín Jónsdóttir gegn sýslumanninum á Vesturlandi og Jóni Ægissyni. Gagnaðili Jón Ægisson leggst gegn beiðninni. Gagnaðili sýslumaðurinn á Vesturlandi leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um að hafna þinglýsingu afsals á 50% eignarhlut tiltekinnar fasteignar til leyfisbeiðanda og vísa skjalinu frá þinglýsingu.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms að hafna kröfum leyfisbeiðanda og staðfesta ákvörðun þinglýsingarstjóra 10. október 2024 um frávísun afsalsins frá þinglýsingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga. Í úrskurði héraðsdóms kom meðal annars fram að samkvæmt 2. mgr. 54. gr. jarðalaga nr. 81/2004 væri óheimilt að þinglýsa skjölum um aðilaskipti að fasteignum sem lögin giltu um nema fyrir lægi að ákvæða laganna hefði verið gætt. Hvíldi því sú skylda á þinglýsingarstjóra að kanna hvort forkaupsréttur hefði verið boðinn í samræmi við lög. Hins vegar væri það ekki í hans höndum að leysa úr ágreiningi um efnisleg réttindi að baki þinglýstri heimild svo sem hvort umræddur forkaupsréttur teldist fallinn niður á grundvelli 32. gr. laganna. Staðfest væri að gagnaðila Jóni, sem sameiganda jarðarinnar, hefði ekki verið boðið að neyta forkaupsréttar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 29. gr. og 7. gr. d jarðalaga, eins og þinglýsingarstjóri hefði lagt til grundvallar við ákvörðun um að hafna þinglýsingu afsalsins. Þá hefði ákvæði afsalsins um að salan væri undanþegin forkaupsrétti gengið í berhögg við 5. mgr. 7. gr. d jarðalaga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um inntak og umfang rannsóknarskyldu þinglýsingarstjóra þegar komi að þinglýsingu skjala um aðilaskipti að fasteignum sem jarðalög gildi um. Byggir leyfisbeiðandi á því að rannsóknarskylda þinglýsingastjóra sem leiði af 2. mgr. 54. gr. jarðalaga nái ekki aðeins til þess að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttur sé fyrir hendi og hvort hann hafi verið boðinn, heldur geti þinglýsingarstjóri einnig þurft að taka afstöðu til þess hvort málshöfðunarfrestur 32. gr. jarðalaga sé liðinn. Með því sé þinglýsingastjóri ekki að leysa efnislega úr ágreiningi um réttindi að baki skjali, heldur einungis hvort skjali skuli þinglýsa eða hvort 2. mgr. 54. gr. jarðalaga standi því í vegi.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.