Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. maí 2005.

Nr. 146/2005.

Andrea Jóhannsdóttir

(Guðni A. Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

A höfðaði mál gegn Í sem hún reisti á því að staða hennar sem forstöðumaður, sem sögð hafi verið lögð niður, hafi í raun ekki verið lögð niður heldur hafi verið um málamyndagerning að ræða. A var ekki talin hafa sýnt fram á að hún hafi af því hagsmuni að lögum að sérstaklega yrði viðurkennt með dómi að henni hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp starfi, líkt og fyrsta krafa hennar laut að. Önnur krafa A var sú, að Í yrði dæmt bótaskylt vegna ólögmætrar uppsagnar A úr starfi. Hafði hún ekki leitast við að sýna fram á að hún hafi orðið fyrir eða yrði fyrir tjóni. Var þessi kröfugerð talin andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað og því vísað frá héraðsdómi. Þriðja krafa A laut að greiðslu miskabóta. Enda þótt sýnt væri að krafan væri reist á fyrrnefndri ákvörðun um niðurlagningu stöðu hennar var fallist á, að yrði málið rekið um þá kröfu eina og sér yrði grundvöllur þess verulega breyttur frá því sem upp var lagt. Var þó ekki alveg næg ástæða til þess að vísa þessari kröfu A frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2005, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var að kröfu hins síðarnefnda vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál sitt í héraði byggir sóknaraðili á því að staða hennar sem forstöðumaður kerfisþjónustu hjá Landsbókasafni-Háskólabókasafni, sem sögð hafi verið lögð niður 1. mars 2002 með bréfi landsbókavarðar 28. febrúar sama ár, hafi í raun ekki verið lögð niður heldur hafi verið um málamyndagerning að ræða. Þannig hafi í raun verið um ólögmæta uppsögn hennar úr starfi að ræða. Með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 eigi hún rétt á að fá viðurkennt að niðurlagning stöðu hennar hafi í raun verið ólögmæt uppsögn úr starfi, og lúti fyrsta krafa hennar að því. Á þessu reisi hún aðra kröfu sína um bótaskyldu varnaraðila. Þar sem enn sé ekki vitað um umfang þess tjóns er hún verði fyrir sé með vísan til d. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 krafist viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila. Þá sé þriðja krafan um greiðslu miskabóta vegna skerðingar á starfsheiðri sóknaraðila með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Telja verður tvær síðari kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila reistar á því að framangreind niðurlagning stöðu hennar sem forstöðumaður kerfisþjónustu hjá Landsbókasafni-Háskólabókasafni hafi verið ólögmæt uppsögn og hafi því bæði valdið henni fjártjóni og miska. Verður því hvorki leyst úr annarri kröfu hennar um bótaskyldu varnaraðila né þriðju kröfu hennar um greiðslu miskabóta án þess að afstaða sé tekin til þessarar málsástæðu. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að hún hafi af því hagsmuni að lögum að sérstaklega verði viðurkennt með dómi að henni hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp starfi, eins og fyrsta krafa hennar lýtur að. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa fyrstu kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.

Önnur krafa sóknaraðila er að varnaraðili verði dæmdur bótaskyldur vegna ólögmætrar uppsagnar hennar úr starfi. Hún hefur ekki leitast við að sýna fram á að hún hafi orðið fyrir eða verði fyrir tjóni eða í hverju ætlað tjón hennar kynni að vera fólgið. Þessi kröfugerð er andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 25. gr. og d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um frávísun þessarar kröfu frá héraðsdómi.

Þriðja krafa sóknaraðila er um greiðslu miskabóta. Enda þótt sýnt sé að krafan sé reist á framangreindri ákvörðun landsbókavarðar um niðurlagningu stöðu hennar, sem hún telur málamyndagerning, verður að fallast á með varnaraðila, að yrði málið rekið um þessa kröfu eina og sér yrði grundvöllur þess verulega breyttur frá því sem upp var lagt. Engu að síður er krafa þessi reist á 26. gr. skaðabótalaga, sem lýtur að vernd þeirra hagsmuna sem sóknaraðili vísar til, æru hennar og starfsheiðri. Þegar til þessa er litið er ekki alveg nægileg ástæða til þess að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar þriðju kröfu sóknaraðila um miskabætur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                  Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Andreu Jóhannsdóttur, í fyrsta og öðrum tölulið kröfugerðar í stefnu á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu, er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti en að framan greinir er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2005.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. mars sl., var höfðað 5. ágúst 2004 af Andreu Jóhannsdóttur, Skólavörðustíg 20, Reykjavík, á hendur Landsbókasafni Háskólabókasafni, Arngrímsgötu 3, Reykjavík.

         Kröfur stefnanda í málinu eru þessar:

1.        Að viðurkennt verði með dómi að tilkynning stefnda til stefnanda frá 28. febrúar 2002, þess efnis að starf hennar sem forstöðumaður kerfisþjónustu yrði lagt niður 1. mars 2002, hafi verið ólögmæt uppsögn á starfi hennar hjá stefnda.

2.        Að stefndi verði dæmdur bótaskyldur vegna ólögmætrar uppsagnar á starfi stefnanda hjá stefnda.

3.         Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur.

4.        Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.

 

         Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til þrauta­vara að miskabótakrafa stefnanda verði stór­lega lækkuð og að málskostnaður verði felldur niður.

         Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda 8. mars sl. og er úrskurðurinn kveðinn upp til úrlausnar á henni. Málsaðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins en til vara að hann verði látinn bíða efnisdóms.

         Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

         Með ráðningarsamningi 19. desember 1994 var stefnandi ráðin sem deildarstjóri og forstöðumaður kerfisþjónustu hjá stefnda. Hún hafði áður starfað sem kerfis­bóka­­safns­fræðingur hjá Háskóla­bókasafni en það var sameinað Landsbókasafni á árinu 1994 og fékk þá nafn stefnda. Stefnandi fór í launalaust leyfi frá störfum 1. mars 1999 og stóð til að hún kæmi aftur til starfa 18. febrúar 2003. Áður en til þess kom tilkynnti forstöðumaður stefnda henni með bréfi 28. febrúar 2002 að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hennar sem forstöðumanns kerfisþjónustu hjá stefnda frá 1. mars það ár. Af stefnda hálfu er því haldið fram að skipulagsbreytingar hafi leitt til þess meðal annars að starf stefnanda var lagt niður.

         Stefnandi telur að í þessu felist ólögmæt uppsögn á starfi hennar hjá stefnda, en í málinu krefst hún dóms til viðurkenningar á því. Hún krefst einnig viðurkenningar­dóms um bóta­skyldu stefnda vegna hinnar meintu ólögmætu uppsagnar og að stefndi verði dæmdur til að greiða henni miskabætur eins og hér að framan hefur komið fram.

         Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi, en hann telur kröfugerð og reifun málsins af hálfu stefn­anda áfátt. Stefnandi hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um fyrsta kröfu­liðinn, en tilgangur þess eða hverja þýðingu það hefði að fá slíka úrlausn hefði ekki verið skýrður. Samkvæmt öðrum kröfu­lið sé krafist viður­kenningar á bótaskyldu en engin reifun eða útskýring hafi þó komið fram á ætluðu tjóni. Þá sé rekstur málsins um miskabótakröfuna byggður á röngum grundvelli. 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi mastersgráðu í bókasafnsfræðum frá Há­skól­anum í Osló. Árið 1990 hafi hún verið ráðin sem bókasafnsfræðingur til Háskóla­bókasafns. Með lögum nr. 71/1994 hafi Landsbókasafn og Háskólabókasafn verið sam­einuð og hafi stefndi þá orðið sjálfstæð háskólastofnun. Í ráðningarsamningi og eyðu­blaði fjármálaráðuneytis frá árinu 1994 sé stefnandi sögð vera deildarstjóri 4 og forstöðumaður kerfisþjónustu. Á fylgiblaði með samningnum segi að á vegum kerfis­þjónustu sé rekstur tölvukerfis og önnur tölvuþjónusta. Stefnandi hafi gegnt fullri stöðu og hafi síðast tekið laun samkvæmt launaflokki C 11 samkvæmt kjarasamningi Félags háskólamanna. Um réttindi og skyldur hennar fari eftir reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

         Starf stefnanda hafi falist í forstöðu á þeirri deild stefnda er sjá skyldi um rekstur á tölvukerfi og tölvuþjónustu stefnda gagnvart viðskiptavinum þess. Deildin hafi borið ábyrgð á rekstri bókasafnskerfisins Gegnis og hliðarkerfum þess svo og þróun og endurbótum á kerfi stofnunarinnar í samráði við yfirmenn stefnanda. Þá hafi fallið undir deild stefnanda að sjá um upplýsingakerfi og samskipti við önnur söfn vegna tölvukerfa og tölvuvinnslu.

         Stefnandi hafi farið í launalaust leyfi frá starfi sínu hjá stefnda 1. mars 1999 og staðið hafi til að hún kæmi aftur til starfa 28. febrúar 2003. Leyfið hafi hún fengið til þess að gegna stöðu yfirbókavarðar í bókasafni Norræna hússins. Samkvæmt  4. gr. í samningi milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um réttarstöðu sam­norrænna stofnana og starfsfólks þeirra, sem lagagildi hafi á Íslandi samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1989, sé íslenska ríkið og stofnanir þess skuldbundið til þess að veita fast­ráðnum ríkisstarfsmönnum leyfi frá störfum sínum í allt að ár á meðan viðkomandi sinni starfi hjá samnorrænni stofnun.

         Með bréfi landsbókavarðar 28. febrúar 2002 hafi stefnanda verið tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hennar sem forstöðumanns kerfisþjónustu hjá stefnda næsta dag. Hvorki hafi komið fram rökstuðningur í bréfinu á því að staðan yrði lögð niður né hafi frekari skýringar verið gefnar og enginn andmælaréttur hafi verið veittur.

         Stefnandi hafi mótmælt því að staðan yrði lögð niður með bréfi 13. mars sama ár og hafi hún haldið því m.a. fram að í raun hefði staðan ekki verið lögð niður. Hún hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari stefnda frá 18. mars sama ár komi fram að í ársbyrjun 2001 hafi verið ákveðið að hlutafélag yrði stofnað um rekstur nýs bóka­safns­kerfis og að það ræki sérstaka skrifstofu til að sjá um kerfisþjónustu við Lands­kerfi bókasafna. Stefndi hefði því ekki áfram sérstaka kerfisþjónustu og að gera þyrfti ákveðnar skipulagsbreytingar í samræmi við það. Af þeim sökum hefði verið óhjákvæmilegt að leggja niður starf stefnanda. Á þeim tíma er það var lagt niður hafi þó ekki legið fyrir samn­ingur um framangreint milli stefnda og Landskerfis bókasafna. Rekstur tölvu­kerfisins Gegnis hafi haldið áfram óbreyttur hjá stofnuninni í meira en heilt ár eftir þetta. Á þeim tíma er stefnandi fór í launalaust leyfi hafi Sigrún Hauks­dóttir verið ráðin sem staðgengill hennar en seinna hafi Sveinn Ólafsson tekið við stöðunni og gegni hann í dag nánast óbreyttum störfum hjá stefnda. Stefnandi hafi enn mótmælt því sem markleysu að staða hennar hafi verið lögð niður 29. ágúst 2002.

         Stefnandi hafi óskað eftir framlengingu til næstu fjögurra ára á leyfi frá störfum hjá stefnda 27. nóvember sama ár til þess að gegna áfram starfinu hjá Norræna húsinu. Með bréfi stefnda 18. desember s.á. hafi verið ítekað að staða hennar hefði verið lögð niður 1. mars það ár og því væri það merkingarlaust að veita henni áfram leyfi frá stöðu sem ekki væri lengur til. Stefnandi hafi verið ráðin áfram hjá Norræna húsinu og þar muni hún gegna stöðu yfirbókavarðar til 1. mars 2007, en hún geti ekki sótt um frekari framlengingu á þeirri ráðningu.

         Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir upplýsingum frá fjármála­ráðu­neyti 19. apríl 2004 um það hvort staða stefnanda hefði verið lögð niður á sínum tíma, hver hafi gert það og eftir hvaða heimild. Í svari ráðuneytisins 23. apríl sama ár hafi verið tekið fram að það væri ekki í verkahring þess að taka slíka ákvörðun heldur viðkomandi stofn­unar. Í bréfi stefnda 26. maí s.á. komi fram að fyrrverandi landsbókavörður hafi tekið þá ákvörðun að leggja starf stefnanda niður samkvæmt heimild í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Eftir stofnun Landskerfis bókasafna hf. hafi stefndi ekki haft neinum skyldum að gegna við að veita aðildarsöfnum Gegnis kerfisþjónustu þar sem rekstur bókasafnskerfis hafi ekki lengur verið í safninu. Af þeim sökum hafi þurft að grípa til skipulagsbreytinga sem leitt hafi til þess að staða stefnanda hafi verið lögð niður.

         Stefnandi byggi á því að ákvörðun stefnda um „niðurlagningu” á starfi stefnanda, er tilkynnt hafi verið með bréfi 28. febrúar 2002 og koma skyldi til framkvæmda daginn eftir, hafi verið ólögmæt. Um réttindi og skyldur stefnanda hafi farið eftir lögum nr. 70/1996, nánar tiltekið 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laganna. Niðurlagning stöðu í skilningi ákvæðisins hafi ekki átt sér stað. Þannig hafi staðan enn verið til eftir 1. mars 2002 og annar starfsmaður hafi gegnt henni eftir þann tíma. Breytingar sem boðaðar hefðu verið á tölvukerfisþjónustu hefðu ekki verið komnar til framkvæmda á þessum tíma. Þá hafi ekki legið fyrir samningur við skrifstofu Lands­kerfis bókasafna. Í gögnum málsins komi fram að stefndi hafi ætlað að hætta að reka bóka­safnstölvukerfið Gegni í maí 2003. Til þess að um niðurlagningu geti verið að ræða í skilningi laga nr. 70/1996 þurfi það starf og verksvið, sem viðkomandi hafi áður gegnt, að vera lagt niður þannig að starfið hætti að vera til innan stofnunarinnar. Í þessu máli sé því ekki fyrir að fara, enda hafi tölvukerfið Gegnir verið rekið innan stofnunar­­innar eftir þetta.

         Starf stefnanda hafi verið lagt niður tólf mánuðum áður en hún hafi átt að koma til starfa að nýju eftir launalaust leyfi. Þannig hafi bæði verið hafður af stefnanda bið­launa­rétturinn og starfið sjálft, en ákvörðunin hafi veri tekin til þess að losna við að taka við stefnanda að nýju í hennar fyrra starf. Í bréfi landsbóka­varðar 18. mars 2002 segi að gerður hafi verið nýr tímabundinn ráðningarsamningur við starfs­manninn sem hafi verið staðgengill stefnanda um síðustu áramót. Þrátt fyrir þetta sé síðan fullyrt í bréfi stefnda 26. maí 2004 að enginn staðgengill forstöðumanns kerfisþjónustu hafi verið í safninu eftir 14. ágúst 2001.

         Í bréfinu um „niðurlagningu” 28. febrúar 2002 sé tilkynnt að staðan verði lögð niður daginn eftir og hafi ákvörðunin því komið til framkvæmda með eins dags fyrir­vara. Slíkt sé ekki í anda vandaðra stjórnsýsluhátta. Þannig sé slík fyrirvaralaus ákvörðun brot á öllum meginreglum stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um niðurlagningu stöðu sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við slíka ákvörðun hafi sá er hún beinist að andmælarétt. Stefnda hafi því fyrst borið að tilkynna stefnanda að til þess gæti komið að starf hennar yrði lagt niður og veita henni kost á andmælum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   

         Stefndi hafi heldur ekki sýnt fram á að hann hafi gætt meðalhófsreglu stjórnsýslu­laga. Stefndi hefði getað flutt stefnanda til í starfi. Um þetta sé vísað til 12. gr. laga nr. 37/1993. 

         Ákvörðun um að leggja niður starf sé ákvörðun sem stjórn viðkomandi stofnunar verði að fjalla um. Þannig takmarkast heimild forstöðumanns ríkisstofnunar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 við það að segja starfsmanni upp störfum. Heimild hans nái ekki til þess að leggja niður stöðu. Stjórn stefnda hafi ekki fjallað um þessa ákvörðun heldur aðili sem hafi ekki haft slíka heimild. 

         Um fyrstu kröfu sína vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Stefnandi byggi á því að ákvörðun stefnda um að neita henni að snúa aftur til þess starfs sem hún hafi verið ráðin til hafi valdið henni tjóni. Þannig hafi hún mátt reikna með því að gegna stöðu sinni að óbreyttu samkvæmt 25. gr. laga nr. 70/1996, sbr. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. í samningi Norður­landa, sbr. lög nr. 55/1989, eigi stefnandi einungis rétt á ráðningu í 8 ár samtals og því ljúki ráðningu hennar hjá Norræna húsinu 28. febrúar 2007. Ekki liggi hins vegar fyrir hvert fjártjón hennar verði fyrr en þá. Því sé með vísan til d liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 einungis að svo stöddu krafist viður­­kenningar á bóta­skyldu stefnda, en áskilinn réttur til þess að krefja um fjárhæð skaða­bóta þegar tjónið hafi komið í ljós. Um skaðabótaskyldu sé vísað til grunnreglu 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996 svo og til almennu sakarreglunnar.

         Krafa um miskabætur styðjist við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á því sé byggt að hin ólögmæta uppsögn 28. febrúar 2002, hafi falið í sér skerðingu á starfs­heiðri stefnanda. Stefnandi hafi ekkert til sakar unnið. Með því að svipta hana stöðu sinni sem hún hafi mátt reikna með að gegna að óbreyttu, hafi orðið veruleg röskun á stöðu hennar og högum. 

       Málsástæður og lagarök stefnda

      Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi verið ráðin hjá stefnda sem forstöðumaður kerfisþjónustu á grundvelli ráðningarsamnings frá desember 1994. Um starf hennar, réttindi og skyldur hafi gilt lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðningin hafi verið ótímabundin en samkvæmt ráðningar­samningnum hafi gilt gagnkvæmur þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Stefnandi hafi verið í leyfi frá 1. mars 1999, sem hafi átt að standa til 28. febrúar 2003, en hún hafi gegnt starfi yfirbókavarðar Norræna hússins í leyfinu.

      Frávísunarkrafa stefnda sé byggð á því að kröfugerð stefnanda og reifun málsins sé áfátt af hennar hálfu. Stefnanda hafi verið sent bréf 28. febrúar 2002 þar sem henni hafi verið tilkynnt að starf hennar yrði lagt niður frá og með 1. mars sama ár. Stefnandi krefjist þess að viðurkennt verði með dómi að tilkynningu þessa eigi ekki að skilja á þann hátt sem efni hennar gefi tilefni til heldur að um hafi verið að ræða ólögmæta uppsögn. Að þessari forsendu gefinni sé þess krafist undir öðrum lið að viðurkennd verði bótaskylda vegna ólögmætrar uppsagnar og í þriðja lagi að stefnda verði gert að greiða stefnanda 800.000 krónur í miskabætur.

      Fyrsti kröfuliður stefnanda feli í sér málsástæður eða beiðni um lögfræðilegt álit, að því er virtist til að renna stoðum undir 2. og 3. lið kröfugerðarinnar. Tilgangur eða þýðing þessa fyrsta kröfuliðar sé ekki útskýrð í stefnu og krafan hafi einkenni máls­ástæðu en ekki kröfugerðar. Stefnandi geti ekki haft lög­varða hagsmuni af þessum kröfulið nema til að afla lögfræðilegs álits, andstætt 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

      Undir öðrum lið dómkröfu sé krafist viðurkenningar á bótaskyldu að gefinni þeirri málsástæðu sem lýst sé í kröfuliðnum á undan. Engin reifun eða útskýring á ætluðu tjóni komi þó fram í málatilbúnaði stefnanda. Heimild d liðar 1. mgr. 80. gr. til að hafa uppi kröfu án fjárhæðar, ef enn er óvíst um hana, beri að skýra þröngt og geti heimildin ekki átt við um aðstöðu stefnanda. Tjái því ekki að reka málið á þeim grundvelli að óvíst sé um tjón, enda sé langt um liðið frá þeirri ákvörðun sem deilt sé um. Af málsástæðum í stefnu að dæma, og því að miskabótakrafa sé sérstaklega höfð uppi, megi ætla að annar kröfuliður ráðgeri að jafna beri ætlað fjártjón. Krafan virtist ekki miðuð við þann rétt til bóta sem vissulega komi til álita á grundvelli 5. mgr. bráðabirgða­ákvæðis laga nr. 70/1996, en stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi stofnast, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. laganna. Hvort sem krafan sé miðuð við þann rétt eða grundvölluð á því að um óréttmæta uppsögn hafi verið að ræða, liggi ekkert fyrir um tjón. Ekkert liggi fyrir um laun stefnanda hjá Norræna húsinu til samanburðar við biðlaun, sem komið hefðu til álita, og af þeim sökum séu ekki heldur forsendur til að bregða á atvik málsins mælistiku dómaframkvæmdar um bótarétt af öðrum toga.

      Þar sem kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður sé gallaður með þessum hætti sé einnig krafist frávísunar á miskabótakröfu, enda sé málið um þann þátt rekið á röngum grundvelli. Álitamál sé þó hvort rök standi til þess að dæma efnislega um þann lið einan.

      Þess sé krafist að málinu verði vísað frá dómi í heild, sbr. 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málflutning.

         Niðurstaða

         Kröfur stefnanda í málinu eru aðallega studdar þeim rökum að staða hennar hjá stefnda hafi ekki í raun verið lögð niður 1. mars 2002 enda hafi annar starfsmaður gegnt stöðunni eftir þann dag. Því hafi tilkynning stefnda 28. febrúar sama ár um að staðan yrði lögð niður verið ólögmæt uppsögn. Með þessu hafi biðlaunaréttur verið hafður af stefnanda og komið hafi verið í veg fyrir að hún gæti komið aftur til starfa að loknu launalausu leyfi. Hún hafi mátt gera ráð fyrir að geta gegnt stöðunni áfram en vegna framangreindra aðgerða stefnda hafi hún orðið fyrir tjóni sem enn sé óljóst hvert verði. Af hálfu stefnanda er í því sambandi vísað til 25. gr. og 3. mgr. í ákvæði til bráða­birgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. 

         Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að því sé haldið fram af hennar hálfu að óheimilt hafi verið að segja henni upp störfum, enda gilti þriggja mánaða uppsagnarfrestur um ráðningu hennar hjá stefnda samkvæmt ráðningarsamningi. Kröfur hennar eru hins vegar reistar á því að ólögmætt hafi verið að hafa af henni starfið á þann hátt sem gert var. Stefnandi hefur einungis vísað til þess að henni sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála að fá viðurkenningu á því með dómi að tilkynning stefnda til hennar um að staðan yrði lögð niður hafi verið ólögmæt uppsögn á starfi hennar hjá stefnda. Samkvæmt lagaákvæðinu verður stefnandi að hafa lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda til þess að geta leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Að framan­greindu virtu og með vísan til þess að stefnandi hefur ekki skýrt hverja þýðingu það hefði fyrir hana að lögum að fá viðurkenningu á því með dómi að umrædd tilkynning stefnanda hafi verið ólögmæt uppsögn verður að ekki talið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómsins um þá kröfu. Verður krafan ekki talin fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr. og d og e liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála til þess að unnt sé að bera hana undir dóminn. Ber því að vísa kröfunni frá dómi.

         Stefnandi var starfsmaður hjá stefnda fyrir gildistöku laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt ráðningarsamningnum frá 19. desember 1994, en samkvæmt honum gilti þriggja mánaða gagnkvæmur uppsagnarfrestur um starfs­ráðningu hennar, eins og áður er komið fram. Krafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar er hins vegar byggð á því að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hún hafi mátt reikna með því að gegna stöðu sinni að óbreyttu. Tilvísanir stefnanda í þessu sambandi til 25. gr. og 3. mgr. í ákvæði til bráða­birgða í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga því ekki við um hana þar sem þessi lagaákvæði gilda aðeins um starfslok þeirra sem skipaðir höfðu verið eða ráðnir í störf ótímabundið fyrir gildistöku laganna án gagnkvæms upp­sagnar­­frests. Í 5. mgr. sama bráðabirgða­ákvæðis og 34. gr. laganna er gert ráð fyrir að starfs­maður, sem ráðinn hefur verið í þjónustu ríkisins fyrir gildis­töku laganna en telst ekki embættismaður samkvæmt 22. gr. laganna, eigi rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði hafi hann verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár en ella í tólf mánuði að frádregnum launum í nýju starfi ef um þau er að ræða. Krafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda er ekki byggð á þessum grundvelli. Hér verður að telja að af stefnanda hálfu hafi ekki verið gerð nægilega grein fyrir því á hvern hátt hún telur sig hafa orðið fyrir tjóni til þess að unnt verði að bera kröfuna um að stefndi verði dæmdur bótaskyldur gagnvart henni undir dóminn. Krafa stefnanda um viðurkenningu á bóta­skyldu stefnda er því van­reifuð og ber af þeim sökum að vísa henni frá dómi.

         Stefnandi telur að hún eigi rétt á miskabótum úr hendi stefnda samkvæmt 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993. Hin ólögmæta uppsögn hafi falið í sér skerðingu á starfs­heiðri stefnanda en hún hafi ekkert til saka unnið. Með því að svipta stefnanda stöðu sinni sem hún hafi mátt reikna með að gegna að óbreyttu hafi orðið veruleg röskun á stöðu hennar og högum. Þessar málsástæður stefnanda eru að hluta til þær sömu og hér að framan eru ekki taldar nægilega skýrar til að þær uppfylltu kröfur e liðar 80. gr. l. mgr. laga um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað. Miskabóta­kröfuna verður því að telja vanreifaða og verður þar af leiðandi að vísa henni frá dómi.

         Málinu er samkvæmt framangreindu vísað frá dómi.

         Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að gera stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

         Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Andrea Jónsdóttir, greiði stefnda, Landsbókasafni Háskólabókasafni, 100.000 krónur í málskostnað.