Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2011


Lykilorð

  • Samningur
  • Málskostnaður
  • Greiðsla


                                     

Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 621/2011.

Jón Ásgeir Jóhannesson

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Samningur. Málskostnaður. Greiðsla.

Deilt var um hvort greiðsla J að tiltekinni fjárhæð til G samkvæmt samningi þeirra á milli hefði verið fullnaðargreiðsla á málskostnaðarkröfu G á hendur J vegna reksturs tiltekins dómsmáls fyrir rétti í London. Í dómi Hæstaréttar var vísað til ákvæðis í samningi aðilanna þess efnis að J skyldi greiða G tiltekna fjárhæð vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi sem væri fullnaðargreiðsla í samræmi við dómsorð hins breska dómstóls. Að því virtu að í dómsorðinu var einungis kveðið á um eina málskostnaðarfjárhæð taldi Hæstiréttur að í samningsákvæðinu væri einungis skírskotað til fullnaðargreiðslu þess tiltekna málskostnaðar. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms þess efnis að greiðsla J til G hefði ekki falið í sér fullnaðargreiðslu á málskostnaðarkröfu G vegna reksturs málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í júlí 2008 gerði stefndi lánasamning við FS38, dótturfélag Fons hf., að fjárhæð sex milljarðar króna í tengslum við sölu Fons hf. á hlutabréfum í Aurum Holding Limited til dótturfélagsins. Stefndi höfðaði 27. apríl 2010 mál á hendur áfrýjanda og fimm öðrum einstaklingum til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem bankinn taldi sig hafa orðið fyrir vegna lánveitingarinnar. Áfrýjandi mun þegar lánveitingin fór fram hafa verið stjórnarformaður FL Group hf. (nú Stoðir hf.) og varaformaður stjórnar Pálmi Haraldsson eigandi Fons hf.

Hinn 11. maí 2010 óskaði stefndi eftir kyrrsetningu á tilteknum eigum áfrýjanda á Íslandi, þar með talin fasteignin Laufásvegur 69 í Reykjavík, og féllst sýslumaður á beiðnina 20. maí 2010. Sama dag óskaði stefndi eftir kyrrsetningu á eigum áfrýjanda í Englandi og víðar til tryggingar væntanlegum kröfum sínum samkvæmt dómi á hendur áfrýjanda í áðurgreindu skaðabótamáli. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi féllst Mr Justice Teare, dómari við High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court í London, samdægurs á kyrrsetningu til bráðabirgða og var málið skráð sem mál nr. 537/2010 við þann dómstól. Jafnframt var ákveðið að fresta kyrrsetningarmálinu til 27. maí 2010 og boða áfrýjanda til þess þinghalds svo hann gæti haldið uppi vörnum.

Framangreind ákvörðun um kyrrsetningu mun hafa verið framlengd 27. maí 2010 og þá af Mr Justice David Steel, dómara við sama dómstól. Er kyrrsetningarmálið var tekið fyrir þann dag af síðastgreindum dómara var fallist á beiðni áfrýjanda um að fresta málinu til 9. júlí 2010. Í úrskurði sama dómara kveðnum upp þann dag segir að um sé að ræða kyrrsetningu gegn varnaraðilanum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni samkvæmt beiðni sóknaraðilans Glitnis Banka hf. Hún sé framhald úrskurðar Mr Justice Teare frá 11. maí  2010 sem framlengd hafi verið af Mr Justice David Steel 27. sama mánaðar. Í úrskurðinum 9. júlí 2010 var áfrýjanda með ákveðnum undantekningum meinað, þar til 14 dagar væru liðnir frá dómsuppsögu í áðurgreindu skaðabótamáli, að flytja eignir sínar beinar og óbeinar frá Englandi og Wales, eða selja, ráðstafa eða minnka verðgildi eigna sinna þar og víðar að verðmæti allt að sex milljörðum króna til sama tíma.

Í úrskurðinum 9. júlí 2010 var ákvæði um greiðslu málskostnaðar. Þar sagði í 8. grein að áfrýjandi skyldi greiða stefnda 150.000 sterlingspund til bráðabirgða (make an interim payment) upp í kostnað samkvæmt 7. grein (on account of the costs in paragraph 7) fyrir kl. 16 þann 6. ágúst 2010. Í 7. grein kom fram að áfrýjandi skyldi greiða stefnda í fyrsta lagi kostnað hans vegna þeirrar kyrrsetningarbeiðni, í öðru lagi kostnað stefnda sem til féll vegna úrskurðarins 11. maí 2010 og í þriðja lagi kostnað stefnda sem til féll vegna úrskurðarins 27. maí 2010. Í lok 7. greinar kom fram að á málskostnaðinn yrði lagt sundurliðað mat með ákvörðun dómsins kæmu aðilar sér ekki saman um hann.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni og aðdragandi samkomulags þess sem málsaðilar gerðu 31. ágúst 2010 um sölu fasteignarinnar Laufásvegur 69 og ráðstöfun andvirðis hennar, meðal annars til greiðslu á fyrrgreindum 150.000 sterlingspundum sem áfrýjandi skyldi greiða stefnda samkvæmt úrskurðinum 9. júlí 2010. Í 4. grein samningsins kom fram að söluandvirði fasteignarinnar skyldi greitt beint til stefnda sem myndi varðveita það á sérstökum reikningi. Andvirðið skyldi í framhaldinu kyrrsett sérstaklega að kröfu stefnda með endurupptöku kyrrsetningarinnar 20. maí 2010 og þeir fjármunir varðveittir af sýslumanni. Af kaupverðinu skyldi þó áður greiða eftirtaldar fjárhæðir: „4.1.Til [stefnda] GBP 150.000 (GBP hundrað og fimmtíu þúsund) vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi, sem er fullnaðargreiðsla, sbr. dómsorð David Steel dómara við Hight Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court frá 9. júlí sl.“ Áfrýjandi greiddi stefnda umrædd 150.000 pund 1. september 2010.

Með tilkynningu 11. október 2010 krafði stefndi áfrýjanda um greiðslu málskostnaðar í samræmi við úrskurðinn 9. júlí sama ár. Tilkynningin, sem var undirrituð af lögmanni stefnda í Englandi, var lögð fram í High Court of Justice í London og skráð þar í máli nr. 537/2010. Segir í tilkynningunni að reikningurinn sé settur fram í samræmi við úrskurðinn 9. júlí 2010. Kjósi áfrýjandi að andmæla kröfunni og verði andmæli hans ekki tekin til greina í þeim réttarhöldum sem fram fari af því tilefni verði heildarkrafa stefnda um málskostnað 608.869,84 sterlingspund ásamt vöxtum, auk þess sem krafist verði málskostnaðar vegna þeirra réttarhalda. Þá er í tilkynningunni útskýrt hvað þurfi að koma fram í slíkum andmælum og tekið fram að birta þurfi þau fyrir stefnda á tilgreindu heimilisfangi skrifstofu lögmanns hans í London fyrir 9. desember 2010.  Í lok tilkynningarinnar er tilgreint hvar í London sé skrifstofa dómstólsins og hver sé opnunartími hans og sagt, að hafi andmæli ekki borist fyrir lok hins tilgreinda frests muni stefndi óska eftir því við dómstólinn að hann taki útivistarákvörðun um málskostnaðinn fyrir allri reikningsfjárhæðinni að viðbættum föstum kostnaði og réttargjöldum sem þá verði 604.009,84 sterlingspund. Gögn málsins bera það ekki með sér að áfrýjandi hafi sent andmæli gegn málskostnaðarreikningi stefnda sem hér um ræðir innan tilgreinds frests.

Í tölvubréfi lögmanns áfrýjanda á Íslandi til lögmanns stefnda hér á landi 14. október 2010 er vísað til samtals sem lögmennirnir höfðu átt daginn áður og sagt að stefndi hafi sett fram kröfu á hendur áfrýjanda í Bretlandi að fjárhæð 608.869,84 sterlingspund. Þá er í tölvubréfinu tekið upp orðrétt ákvæði greinar 4.1 í samkomulaginu 31. ágúst 2010 og sagt: „Með þessu ákvæði varð það að samkomulagi milli aðila að kostnaður [áfrýjanda] vegna þessa máls væri uppgerður, en fjármunirnir hafa verið afhentir [stefnda]. Með vísan til þessa bið ég ykkur um að sjá til þess að aðgerðir Slaughter & May í  Bretlandi verði stoppaðar og geri ég ráð fyrir að þið upplýsið S&M um þetta bréf.“ Þessum skilningi lögmanns áfrýjanda andmælti lögmaður stefnda í tölvubréfi sama dag. Í hinum áfrýjaða dómi eru frekari tölvupóstsamskipti áfrýjanda og stefnda af þessu tilefni rakin.

II

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því hvort í hinu tilvitnaða orðalagi greinar 4.1 í samkomulaginu 31. ágúst 2010 felist, að stefndi hafi fallið frá öllum kröfum um málskostnað úr hendi áfrýjanda í kyrrsetningarmálinu umfram þau 150.000 sterlingspund, sem ákveðin voru til bráðabirgða í úrskurðinum 9. júlí 2010. Sá er skilningur áfrýjanda en stefndi telur á hinn bóginn að enn sé ósamið um málskostnað samkvæmt 7. grein úrskurðarins. Í 8. grein samkomulagsins 31. ágúst 2010 sagði að kæmi til ágreinings milli aðila um efndir og túlkun þess samnings skyldi sá ágreiningur borinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 23. júní 2011 og krefst þar viðurkenningar á því að greiðsla áfrýjanda á 150.000 sterlingspundum til stefnda samkvæmt samkomulaginu 31. ágúst 2010 teljist ekki fullnaðargreiðsla á málskostnaðarkröfu stefnda á hendur áfrýjanda vegna máls nr. 537/2010 við High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court í London.

III

Í kafla I hér að framan er rakið efni greinar 4.1 í samkomulagi málsaðila 31. ágúst 2010 og lýst málskostnaðarákvörðun í kyrrsetningarúrskurðinum 9. júlí sama ár. Eins og þar kemur fram var sú málskostnaðarákvörðun þríþætt. Dómstóllinn ákvað að áfrýjandi skyldi greiða stefnda í fyrsta lagi málskostnað í tengslum við uppkvaðningu úrskurðarins 9. júlí 2010, í öðru lagi vegna úrskurðarins 27. maí sama ár og í þriðja lagi vegna úrskurðarins 11. sama mánaðar. Tekið var fram í 7. grein úrskurðarins að næðu aðilar ekki samkomulagi um málskostnaðinn yrði hann ákveðinn af dómstólnum. Í 8. grein var á hinn bóginn sú ákvörðun tekin, að áfrýjandi skyldi greiða stefnda til bráðabirgða 150.000 sterlingspund upp í málskostnað samkvæmt 7. grein.

Í grein 4.1 í samningnum 31. ágúst 2010 segir að áfrýjandi skuli greiða stefnda 150.000 sterlingspund „vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi, sem er fullnaðargreiðsla, sbr. dómsorð David Steel dómara við Hight Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court frá 9. júlí sl.“ Þegar það er virt að greiðsla á 150.000 pundum var eina málskostnaðarfjárhæðin sem ákveðin var í þessum úrskurði verður að skýra hið tilvitnaða orðalag greinar 4.1 í samningnum 31. ágúst sama ár samkvæmt hljóðan sinni og á þann veg að þar sé einvörðungu skírskotað til fullnaðargreiðslu þess tiltekna málskostnaðar sem þegar var ákveðinn. Er þá einnig til þess að líta að ekkert er fram komið í gögnum málsins sem gefur til kynna að stefndi hafi með öðrum hætti fallið frá tilkalli til greiðslu þess málskostnaðar úr hendi áfrýjanda sem úrskurðurinn 9. júlí 2010 að öðru leyti kvað á um að hann ætti rétt til. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.

Áfrýjandi, Jón Ásgeir Jóhannesson, greiða stefnda, Glitni hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 8. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitni banka hf., Sóltúni 26, Reykjavík á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, óstaðsettum í hús í Bretlandi, með stefnu birtri 18. apríl 2011.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að greiðsla stefnda að fjárhæð 150.000 bresk pund til stefnanda samkvæmt samkomulagi stefnanda og stefnda, dags. 31. ágúst 2010, teljist ekki vera fullnaðargreiðsla á málskostnaðarkröfu stefnanda á hendur stefnda vegna reksturs máls nr. 537/2010 fyrir Yfirrétti í London (High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court). Þá er þess krafist að stefndi greiði málskostnað og tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Hinn 27. apríl 2010 höfðaði stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda og fimm öðrum einstaklingum vegna tjóns sem bankinn taldi sig verða fyrir er hann gerði lánasamning að fjárhæð sex milljarða króna við FS38 ehf., dótturfélag Fons hf. í tengslum við sölu Fons hf. á hlutabréfum í Aurum Holding Limited til dótturfélagsins („Aurum málið“).

Hinn 11. maí 2010 óskaði stefnandi eftir kyrrsetningu á tilteknum eigum stefnda á Íslandi, m.a. á fasteigninni Laufásvegur 69, Reykjavík, og féllst sýslumaðurinn í Reykjavík á kyrrsetninguna hinn 20. maí 2010. Sama dag ákvað stefnandi einnig að óska eftir kyrrsetningu (e. freezing order) á eignum stefnda í Englandi til tryggingar væntanlegum kröfum sínum skv. dómi á hendur stefnda í framangreindu Aurum máli, en stefndi á lögheimili í London, Englandi frá janúar 2010. Sama dag var fallist á kyrrsetningu til bráðabirgða ex parte með úrskurði (e. order) Yfirréttar í London (High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court), uppkveðnum af Teare dómara. Hlaut málið þingfestingarnúmerið 537/2010 í Yfirrétti í London. Þá var hinn sama dag ákveðið að fresta málinu til 28. maí 2010 og boða stefnda sérstaklega til þess þinghalds svo hann gæti haldið uppi vörnum.

Hinn 28. maí 2010 var fallist á beiðni stefnda um að kyrrsetningarmálinu gegn stefnda í London yrði frestað til 9. júlí 2010. Þann dag var kveðinn upp úrskurður (e. Order) af David Steel dómara í Yfirrétti í London. Með úrskurðinum var stefnda meinað, þar til 14 dagar eru liðnir frá dómsuppsögu í Aurum málinu, að flytja eignir sínar, beinar og óbeinar, frá Englandi eða Wales eða selja, ráðstafa eða minnka verðgildi eigna sinna að verðmæti allt að 6 milljarðar króna til sama tíma.

Í framangreindum úrskurði er kveðið á um að stefndi skuli greiða stefnanda málskostnað vegna kyrrsetningarbeiðni stefnanda og einnig að ef aðilar næðu ekki saman um endanlega fjárhæð málskostnaðargreiðslunnar yrði málskostnaður stefnda ákveðinn af dómstólnum, sbr. tl. 7 í úrskurðinum þar sem sagði eftirfarandi: „The respondent shall pay the Applicant´s costs of this application, the costs reserved under the order of Mr. Justice Teare dated 11 May 2010 and the cost reserved under the order of Mr. Justice David Steel dated 27 May 2010, to be subject to detailed assessment if not agreed.“ Í 8. tl. úrskurðarins var kveðið á um, með vísan til skyldu stefnda til að greiða málskostnað, að stefndi skyldi greiða stefnanda hlutagreiðslu (interim payment) að fjárhæð 150.000 bresk pund eigi síðar en 6. ágúst 2010 kl. 4.00, sbr. eftirfarandi: „The Respondent shall make an interim payment of £150,000 on account of costs in paragraph 7 above by 4.00 pm on 6 August 2010.“

Lögmannsstofan Slaughter & May annaðist hagsmuni stefnanda í London en lögmannsstofan Macfarlanes LLP annaðist málsvörn stefnda þar. Samskipti fóru milli lögmannanna eftir uppkvaðningu úrskurðarins um skyldur stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, þ.m.t. hlutagreiðsluna.

Hinn 16. júlí 2010 sendi Slaughter & May bréf til Macfarlanes og tilkynnti að heildarmálskostnaður stefnanda vegna máls nr. 537/2010 fyrir Yfirrétti í London næmi alls 604,420.96 breskum pundum án virðisaukaskatts. Var þess óskað að Macfarlanes kannaði hvort stefndi væri reiðubúinn að koma með tilboð um fjárhæð málskostnaðar og greiðslutilhögun svo ljúka mætti málinu hratt og án málalenginga eða, ef því væri að skipta, hvort stefndi óskaði eftir því að Yfirréttur í London myndi meta kostnaðinn eins og úrskurðurinn frá 9. júlí 2010 kvað á um.

Hinn 5. ágúst 2010 sendi lögmannsstofan Mörkin f.h. stefnda beiðni til lögmanns stefnanda og óskaði eftir því að stefnandi samþykkti að stefndi seldi tilteknar kyrrsettar eignir sínar á Íslandi til að geta greitt stefnanda hina dæmdu hlutagreiðslu að fjárhæð 150.000 bresk pund svo og ýmsar aðrar skuldir stefnda s.s. skattskuldir. Í beiðninni sagði m.a: „Þess er óskað að slitastjórnin geri Slaughter & May grein fyrir því að þessi beiðni sé komin fram en hún er þáttur í fyrirætlun hans um að ganga frá greiðslu til lögmannsstofunnar í samræmi við fyrirmæli í ensku kyrrsetningarákvörðuninni.“

Hinn 9. ágúst 2010 sendi lögmaður stefnanda bréf til lögmannsstofunnar Mörkin þar sem ítrekað var samþykki stefnanda frá 20. júlí 2010 fyrir því að stefnda væri heimilt með tilteknum fyrirvörum að selja fasteignina Laufásveg 69, Reykjavík, m.a. til lúkningar á hlutagreiðslunni að fjárhæð 150.000 bresk pund, en öðrum óskum stefnda var hafnað. Í bréfinu sagði enn fremur: „… með vísan til þeirrar óskar sem fram kemur í bréfi þínu um að Slaughter & May verði gerð grein fyrir beiðni umbj. þíns þá skal upplýst hér með að enskir lögmenn umbj. þíns sendu sérstak erindi til enskra lögmanna Glitnis um óskir umbj. þíns og hefur því verið svarað.“

Daginn eftir, þ.e. 10. ágúst 2010, sendi Slaughter & May bréf til Macfarlanes þar sem tilkynnt var að þar sem hlutagreiðsla á málskostnaðinum að fjárhæð 150.000 bresk pund hefði ekki verið innt af hendi hefði stefndi brotið gegn úrskurðinum og ef hlutagreiðslan bærist ekki í síðasta lagi kl. 4.00 hinn 13. ágúst 2010 myndi stefnandi hefja aðfarargerðir gegn stefnda og krefjast dóms um heildarmálskostnaðinn í samræmi við ýtrasta útreikning stefnanda.

Hinn 12. ágúst 2010 sendi Lögmannsstofan Mörkin bréf til lögmanns stefnanda, þar sem því var lýst yfir að staðgreiðslutilboð lægi fyrir í Laufásveg 69, Reykjavík í samræmi við að fallist hefði verið á „að fasteignin Laufásvegi 69 verði seld og andvirði hennar ráðstafað til greiðslu dæmds málskostnaðar í Bretlandi“. Var þess óskað að stefndi fengi frest til að greiða 150.000 bresk pund til 31. ágúst 2010 og að látið yrði af boðuðum aðgerðum gegn stefnda í Bretlandi. Þessu erindi mun hafa verið komið á framfæri við lögmenn stefnanda í Englandi.

Hinn 24. ágúst 2010 sendi lögmaður stefnda tölvupóst til lögmanns stefnanda ásamt kaupsamningi um Laufásveg 69 og drögum að samningi við stefnda um söluna og ráðstöfun andvirðisins.

Hinn 31. ágúst 2010, rituðu aðilar undir samkomulag um sölu hinnar kyrrsettu fasteignar stefnda að Laufásvegi 69 og ráðstöfun andvirðis hennar, m.a. til greiðslu á hinum 150.000 bresku pundum. Í 4. gr. samkomulagsins sagði m.a: „Kaupsamningsgreiðslur skulu greiddar beint til GLB sem skal varðveita þær á sérstökum reikningi. Kaupverðið skal í framhaldi af greiðslu þess kyrrsett sérstaklega að kröfu GLB með endurupptöku kyrrsetningargerðar nr. 34/2010 og þeir fjármunir varðveittir af sýslumanni í samræmi við 19.gr. kyrrsetningarlaga. Af kaupverðinu skal þó áður greiða eftirtaldar fjárhæðir: 4.1. Til GLB GBP 150.000. (GBP hundraðogfimmtíuþúsund) vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi, sem er fullnaðargreiðsla sbr. dómsorð David Steel dómara við High Court of Justice,Queens Bench Division, Commercial court frá 9. júlí s.l. Greiðslan verður innt af hendi í íslenskum krónum inn á bankareikning sem GLB vísar til. Allur kostnaður vegna kaupa á GBP til greiðslu á framangreindri fjárhæð skal greiddur af JÁJ þannig að endanlega greiðsla til GLB verðir (sic) GBP nettó miðað við gengi á greiðsludegi.“

Hinn 1. september 2010 greiddi lögmaður stefnda framangreind 150.000 bresk pund með 28.023.790 krónum inn á reikning stefnanda.

Í 8. gr. samkomulagins frá 31. ágúst 2010 er samið um að mál vegna ágreinings er upp kunni að koma vegna túlkunar eða efnda samkomulagsins verði flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og höfðaði stefnandi því mál þetta með stefnu birtri í apríl 2011.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að greiðsla stefnda á 150.000 breskum pundum til stefnanda skv. samkomulagi aðila, dags. 31. ágúst 2010, hafi einungis verið til lúkningar á hlutagreiðslu (interim payment) sem stefndi hafi verið dæmdur til að greiða inn á málskostnaðarkröfu stefnanda með úrskurði Yfirréttar í London hinn 9. júlí 2010, uppkveðnum af David Steel dómara. Hafi samkomulagið lotið að því að heimila stefnda að selja kyrrsetta eign sína á Íslandi að Laufásvegi 69, Reykjavík til að mæta hinni dæmdu hlutagreiðslu og tilgreindum lögmannskostnaði stefnda í Englandi. Með orðalagi í samkomulaginu um að 150.000 bresk pund sé „fullnaðargreiðsla sbr. dómsorð David Steel við High Court of Justice…frá 9. júlí sl.“ sé bersýnilega átt við fullnaðargreiðslu á dæmdri hlutagreiðslu stefnanda úr hendi stefnda sem gjaldféll 6. ágúst 2010 en ekki felist í orðalaginu að fallið sé frá rétti til greiðslu málskostnaðar að öðru leyti úr hendi stefnda, eins og hann hafi borið við síðar, er ljóst var að tilraunir til samninga um eftirstöðvar málskostnaðarkröfu stefnanda báru ekki árangur og stefnandi hugðist fá úrskurð Yfirréttar í London í samræmi við 7. tl. úrskurðarins.

Með úrskurði David Steel dómara, dags. 9. júlí 2010, sbr. 7. tl. í úrskurðinum, hafi stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað vegna kyrrsetningarmáls stefnanda á hendur stefnda og í honum sé kveðið á um að málskostnaðurinn yrði ákvarðaður síðar af dómstólnum ef aðilar næðu ekki saman um endanlega fjárhæð hans. Í 8. tl. úrskurðarins hafi, með vísan til framangreindrar skyldu stefnda til að greiða allan málskostnað stefnanda, verið kveðið á um að stefndi skyldi greiða stefnanda hlutagreiðslu (interim payment) að fjárhæð 150.000 bresk pund eigi síðar en 6. ágúst 2010 kl. 4.00. Í úrskurðinum hafi því falist aðfararhæf krafa stefnanda á hendur stefnda að fjárhæð 150.000 bresk pund. Önnur fjárhæð hafi ekki verið dæmd og því dómsins að ákveða endanlegan málskostnað síðar, eins og kveðið sé á um í 7. tl.úrskurðarins.

Öll samskipti lögmanna aðila í aðdraganda samkomulagsins pr. 31. ágúst 2010 beri með sér að söluandvirði Laufásvegs 69, Reykjavík skyldi nýta til að greiða þessa dæmdu hlutagreiðslu. Í bréfi Gests Jónssonar hrl. f.h. stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 5. ágúst 2010, sagði: „Með söluverðinu hyggst Jón Ásgeir greiða: Málskostnað til Slaughter & May í London að fjárhæð 150.000 sterlingspund sem kveðið er á um í ensku kyrrsetningarákvörðuninni. … Þess er óskað að slitastjórnin geri Slaughter & May grein fyrir því að þessi beiðni sé komin fram en hún er þáttur í fyrirætlun hans að ganga frá greiðslu til lögmannsstofunnar í samræmi við fyrirmæli í ensku kyrrsetningarákvörðuninni.“ Sé ljóst af bréfi þessu að sala á Laufásvegi 69, Reykjavík hafi verið ætluð til þess að mæta hinni dæmdu hlutagreiðslu til stefnanda.

Í bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 9. ágúst 2010, hafi verið ítrekað sérstaklega að sala fasteignarinnar hefði verið samþykkt til þess „fyrst og fremst að umbj. þinn gæti greitt 150.000 punda málskostnað skv. úrskurði dómara í Englandi“. Þessi sami skilningur endurspeglist í bréfi lögmanns stefnda, dags. 12. ágúst 2010, til lögmanns stefnanda sem segi m.a. „Meðfylgjandi bréfi þessu er bréf Slaughter & May dagsett 10. þ.m. Samkvæmt bréfinu er Jóni Ásgeiri gefinn frestur til 13. ágúst n.k. til að greiða GBP 150.000, ella verði þess krafist að Jón Ásgeir greiði allan kostnað vegna málsins“. Á þessum tíma hafði Slaughter & May gert málskostnaðarkröfu á hendur stefnda að fjárhæð 604.009,84 bresk pund og bersýnilegt að lögmaður stefnda gerði sér fullkomlega ljóst að stefnandi hygðist krefja stefnda um hærri málskostnað en hina dæmdu hlutagreiðslu.

Lögmaður stefnda sendi tölvupóst 24. ágúst 2010 til lögmanns stefnanda og segi þar m.a: „Sælir, meðfylgjandi er kaupsamningur um Laufásveg 69. Einnig er draft að samningi við GLB um þessa sölu og hvernig með skuli fara. Vinsamlegast verðið í sambandi við mig vegna málsins, þannig að hægt sé að greiða fjárhæðina fyrir 31. ágúst nk. eins og samkomulag varð um auk nánari útfærslu á því hvernig við stöndum að þessu.“

Lögmaður stefnanda svaraði með tölvupósti, dags. 31. ágúst 2010, skömmu áður en samkomulagið var undirritað og þar segir: „Það staðfestist hér með að samkomulag er um að greiðsla að fjárhæð GBP 150.000 sem getið er í samningsdrögum sem fyrir liggur að undirrita muni greiðast á morgun, 1. september 2010. Greiðsluna bar að greiða í síðasta lagi þann 13.ágúst sl. en greiðslan ber 8% vexti frá þeim degi sem dómur var kveðinn upp í viðkomandi máli þann 9. júlí skv. breskum lögum. Samkomulag er um að beita ekki vanefndaúrræðum vegna seinkunar greiðslunnar öðrum en þeim að greiðanda ber að greiða vexti skv. framangreindu. Samkomulag þetta miðast við það og er háð því skilyrði að greitt verði eigi síðar en 1. september 2010. Verði það ekki gert þá áskilur GLB sér allan rétt vegna framangreinds greiðsludráttar.“

Með vísan til þessa sé ótvírætt að samkomulag aðila nái eingöngu til hinnar dæmdu hlutagreiðslu enda segi í 7. gr. samkomulagsins: „Af hálfu GLB er áréttað að samningur þessi nær aðeins til þeirra greiðslna og eignasölu sem sérstaklega er samið um í ákvæðum samningsins.“ Þetta ákvæði útiloki þá túlkun stefnda að samkomulagið hafi falið í sér aðra og meiri ráðstöfun á málskostnaðarkröfum stefnanda, skv. úrskurði Yfirréttar í London frá 9. júlí 2010, en fólst í hlutagreiðslunni að fjárhæð 150.000 bresk pund.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt að samkomulagið næði aðeins til hlutagreiðslunnar með því að fallast á tilboð stefnanda um 375.000 breskra punda viðbótargreiðslu með skilyrðum.

Þá byggir stefnandi á því, hvað svo sem öðru líði, að telji dómurinn vafa vera á túlkun samkomulagsins verði sá vafi metinn stefnda í óhag á grundvelli in dubio contra stipulatorem, þar sem lögmaður stefnda hafi samið hið umdeilda ákvæði samkomulagsins.

Þá byggir stefnandi á því að óheiðarlegt sé af stefnda að bera það fyrir sig að með samkomulaginu frá 31. ágúst 2010 hafi stefnandi fallið frá frekari kröfu um málskostnað, skv. úrskurði Yfirréttar í London, dags. 9. júlí 2010, og að samkomulaginu verði vikið til hliðar og því breytt þannig að greiðsla 150.000 breskra punda teljist aðeins vera lúkning á hinni dæmdu hlutagreiðslu, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Stefnandi vísar að öðru leyti til 25. gr. laga nr. 91/1991 um rétt til að leita viðurkenningardóms. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 42 gr. laga númer 91/1991. Um heimild lögmanns stefnda til að móttaka stefnubirtingu f.h. stefnda vísist til 3.mgr. 83. gr. s.l.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að með gerð samningsins 31. ágúst 2010 og greiðslu að fjárhæð 150.000 bresk pund, sem innt hafi verið af hendi inn á bankareikning stefnanda 1. september 2010, hafi hann að fullu gert upp við stefnanda vegna dómsmálsins, sem rekið var í Bretlandi, úrskurður kveðinn upp hinn 9. júlí 2010 og ber númerið 537/2010, sbr. samning aðila frá 31. ágúst 2010.

Á þeim grundvelli beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. Orðalag samningsins sé alveg skýrt þess efnis að greiðslan hafi verið ,,fullnaðargreiðsla“. Hvernig hægt sé að gera slíkan samning og koma svo til baka og krefjast frekari greiðslna og halda því fram að einungis hafi verið um lúkningu á ,,hlutagreiðslu“ (e. interim payment) að ræða sé stefnda óskiljanlegt með öllu, hvað þá að orðalag samningsins vísi til þess að um hafi verið að ræða ,,fullnaðargreiðslu á dæmdri hlutagreiðslu“, eins og haldið sé fram í stefnu. Augljóst sé að hafi það verið ætlun stefnanda að innheimta frekari kostnað hjá stefnda, hafi honum verið í lófa lagið að setja það inn í samning aðila með skýrum hætti. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert og verði því að bera hallann af því. Rangt hafi verið að nota orðið ,,fullnaðargreiðsla“ í samningi aðila, hafi það verið ætlun stefnanda að stefndi greiddi bæði 150.000 bresk pund og annan kostnað málsins.

Ákvæði 7. gr. samningsins vísi alls ekki til þess að stefnandi ætti frekari fjárkröfur á hendur stefnda vegna dómsmáls nr. 537/2010 í Bretlandi, líkt og stefnandi haldi fram, heldur til þess að stefnandi hafi sett fram gríðarlegar fjárkröfur á hendur stefnda að ósekju. Ákvæðið vísi til þess að með gerð samningsins hafi stefnandi ekki gefið eitthvað eftir af þeim kröfum eða að stefndi gæti byggt réttindatilkall á samningnum til að selja fleiri kyrrsettar eignir en samningurinn kveði á um. Þetta tiltekna orðalag, sem stefnandi vísi til í stefnu, hafi því enga þýðingu varðandi ágreining aðila.

Ofangreindu til frekari stuðnings vísar stefndi til ummæla stefnanda í stefnu. Þar segi á bls. 7: ,,Með úrskurði David Steel dómara, dags. 9. júlí 2010, sbr. tl. 7 í úrskurðinum var stefndi dæmdur til að greiða allan málskostnað stefnanda vegna kyrrsetningarmáls stefnanda á hendur stefna.“ Þegar þetta orðalag sé virt í tengslum við orðalag samningsins frá 31. ágúst 2010, þar sem segi orðrétt: ,,Til GLB GBP 150.000 (GBP hundraðogfimmtíuþúsund) vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi, sem sé fullnaðargreiðsla sbr. dómsorð David Steel dómara við High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial court frá 9. júlí s.l.“ sé ljóst að stefnandi geti, eftir gerð samningsins frá 31. ágúst 2010, ekki krafið stefnda um frekari greiðslur.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að öll samskipti aðila í aðdraganda samkomulagsins frá 31. ágúst 2010 hafi borið með sér að söluandvirði Laufásvegs 69, skyldi einungis nýta til greiðslu kostnaðarins að hluta. Þvert á móti bendi þessi samskipti til hins gagnstæða og vísast m.a. til ummæla í bréfi Gest Jónssonar, hrl. f.h. stefnda frá 5. ágúst 2010.

Við skýringu á tilurð samningsins og þess að með honum hafi stefnandi gefið eftir hluta af kröfu sinni á hendur stefnda skipti miklu að skoða aðstöðu aðila. Búið hafi verið að kyrrsetja allar eignir stefnda, bæði hér á landi og erlendis, sem ekki brunnu upp í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum heimsins á árinu 2008. Útilokað hafi því verið fyrir stefnda að greiða þennan viðbótarkostnað, auk þess sem hagsmunir stefnanda hafi verið að stefndi yrði ekki tekinn til gjaldþrotaskipta. Í stefnu sé því haldið fram, að í fyrsta sinn hinn 14. október 2010 hafi sá skilningur komið fram hjá lögmanni stefnda að um fullnaðaruppgjör hafi verið að ræða. Því sé mótmælt. Í samningaviðræðunum hafi ávallt verið talað um fullnaðaruppgjör. Þessi skilningur komi hins vegar fyrst fram 14. október 2010 með skriflegum hætti, enda hafi það ekki verið fyrr en 9. október sem erlendir lögmenn stefnanda hafi haldið því fram að orðið fullnaðargreiðsla í samningi aðila ætti að hafa einhverja aðra merkingu en þá að um fullnaðargreiðslu væri að ræða.

Stefndi vill benda á eftirfarandi atriði í skjölum málsins kröfu sinni um sýknu til stuðnings: Í fyrsta lagi svarbréf við bréfi lögmanns stefnda frá 7. júlí 2010, þar segi lögmaður stefnanda í c-lið 2. gr: ,,Það sem eftir stendur af söluandvirði umræddrar fasteignar [Laufásvegur 69] eftir að framangreindur málskostnaður hefur verið greiddur skal verða kyrrsett sérstaklega með endurupptöku kyrrsetningargerðar nr. 34/2010 ...“ Í a-lið 2. gr. bréfsins segi: ,,Til greiðslu á málskostnaðarkröfu umbj. míns á hendur umbj. þínum vegna málareksturs í Bretlandi.“ Hrein eign fasteignarinnar væri 87 milljónir. Ef stefndi hafi átt að greiða ríflega 600.000 bresk pund vegna málsins, auk kostnaðar sinna lögmanna, hefði vitaskuld enginn afgangur orðið eftir til kyrrsetningar. Það væri því skilningur lögmanna stefnanda frá upphafi að ekki kæmi til frekari greiðslna vegna málskostnaðar í máli 537/2010. Þær röksemdir sem stefnandi byggi málið á séu haldlausar eftir á skýringar. Í öðru lagi sé skýrlega tekið fram í bréfi lögmanns stefnda frá 5. ágúst 2010, að stefndi hyggist greiða  Slaughter & May í London málskostnað að fjárhæð 150.000 bresk pund, sem kveðið sé á um í ensku kyrrsetningarákvörðuninni. Í þriðja lagi segi í bréfi lögmanns stefnanda frá 9. ágúst 2010: ,,Að því er varðar söluverð hinna kyrrsettu eigna sem boðað er í bréfi þínu [andvirði þeirra 121 milljón íslenskra króna], þá verður ekki séð að þörf sé á að selja allar hinar kyrrsettu eignir til að mæta greiðslu dæmds málskostnaðar til Glitnis [stefnanda].“ Hafi málskostnaðurinn verið 604 þúsund, sem stefndi hafi átt að greiða, eins og stefnandi haldi nú fram, sé ljóst að 604.000 bresk pund á þessum tíma hafi verið u.þ.b. 113 milljónir [gengi GBP 190.53], og þá hafi átt eftir að taka tillit til kostnaðar, sem stefnda væri heimilt að greiða eigin lögmönnum, að fjárhæð 67.000 bresk pund, sbr. grein 4.2. í samningi aðila frá 31. ágúst 2010. Því til viðbótar sé talað um enn frekari greiðslur í samningnum. Framsetning lögmanna stefnanda sýni svo ekki verði um villst að aldrei hafi neitt annað staðið til en að stefndi ætti einungis að greiða stefnanda 150.000 bresk pund sem fullnaðargreiðslu vegna dæmds málskostnaðar þar í landi – enda ekki heil brú í samningi aðila frá 31. ágúst 2010, ef túlka ætti hann með öðrum hætti.

Stefndi áréttar að tilboð hans til lausnar í málinu, eftir að ágreiningur aðila hafi komið upp, hafi verið sett fram umfram skyldu, eins og skýrlega komi fram í samskiptum aðila, m.a. vegna þess að stefnda hafi óað við þeim kostnaði sem yrði því samfara að standa í frekara málaskaki við stefnanda á erlendri grundu. Ítarleg tölvupóstsamskipti milli lögmanna aðila um þetta atriði liggja fyrir, þar segi m.a.: ,,Í símtali við þig áðan fór ég yfir hugmynd til lausnar á málinu. Við urðum ásáttir um að ég myndi senda þér tölvupóst með þeirri hugmynd. Hann er hér, settur fram með því fororði að um sé að ræða tilboð umfram skyldu vegna samningsins frá því í ágúst“. Tilboð stefnda hafi því falið í sér að hann beygði sig undir ofríki stefnanda – en ekki viðurkenningu á kröfu hans. Heiðarlegt hefði verið að þessu hefði verið haldið fram í stefnu. Framsetning stefnanda í lok stefnu þess efnis að umrætt tilboð hafi falið í sér viðurkenningu stefnda á því að samkomulagið næði aðeins til hlutagreiðslunnar sé því rangt og styðjist ekki við skjöl málsins. 

Vísun stefnanda til ákvæða 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og annarra málsástæðna sé mótmælt enda fjarstæðukennt að þau lagaákvæði geti átt við um lögskipti aðila.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi einkum til meginreglu kröfu- og samningaréttar um að samninga beri að halda og efna eftir aðalefni sínu. Þá vísar stefndi til reglna kröfuréttar um eftirgjöf kröfu. Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Hinn 9. júlí 2010 var kveðinn upp úrskurður í Yfirrétti í London af David Steel dómara. Samkvæmt úrskurðinum voru eignir stefnda kyrrsettar þannig að honum var óheimilt, þar til 14 dagar yrðu liðnir frá dómsuppsögu í svokölluðum Aurum máli, að flytja eignir sínar, beinar og óbeinar, frá Englandi eða Wales eða selja, ráðstafa eða minnka verðgildi eigna sinna að verðmæti allt að 6 milljarðar króna til sama tíma. Í 7. og 8. gr. úrskurðarins er fjallað um kostnað. Í 7. gr. úrskurðarins segir efnislega á þá leið að stefndi skuli greiða kostnað stefnanda af kyrrsetningarbeiðninni, þ.e. þann kostnað sem áskilinn er í ákvörðun Teare dómara hinn 11. maí 2010 og kostnað sem áskilinn er í ákvörðun David Steel dómara frá 27. maí 2010, en hann verði metinn, ef ekki semjist með aðilum. Í 8. gr. úrskurðarins segir efnislega að stefndi skuli greiða innáborgun að fjárhæð 150.000 bresk pund vegna kostnaðarins í 7. gr. fyrir kl. 4.00 hinn 6. ágúst 2010.

Hinn 31. ágúst 2010 er undirritað samkomulag milli málsaðila og segir þar í grein 4.1. „Til GLB GBP 150.000. (GBP hundraðogfimmtíuþúsund) vegna dæmds málskostnaðar í Bretlandi, sem er fullnaðargreiðsla sbr. dómsorð David Steel dómara við High Court of Justice,Queens Bench Division, Commercial court frá 9. júlí s.l. Greiðslan verður innt af hendi í íslenskum krónum inn á bankareikning sem GLB vísar til. Allur kostnaður vegna kaupa á GBP til greiðslu á framangreindri fjárhæð skal greiddur af JÁJ þannig að endanlega greiðsla til GLB verðir (sic) GBP nettó miðað við gengi á greiðsludegi.“

Stefnandi telur að enn sé ósamið um málskostnaðinn samkvæmt 7. gr. úrskurðarins frá 9. júlí 2010, en stefndi telur að með því að hann hafi greitt 150.000 bresk pund hafi hann lokið greiðslu málskostnaðarins þ.e. greiðslan sé fullnaðargreiðsla og stefnandi hafi gefið eftir annan málskostnað.

Fyrir liggur að í ofangreindu samkomulagi er talað um fullnaðargreiðslu. Með því að ágreiningur er á milli málsaðila um þýðingu þess orðs, er rétt að líta á tilurð þess.

Eins og að framan greinir gerði úrskurður David Steel dómara ráð fyrir því að stefndi greiddi allan kostnað af kyrrsetningarmálinu í London. Síðan kveður úrskurðurinn á um að stefndi skuli greiða 150.000 bresk pund innáborgun fyrir kl. 4.00 hinn 6. ágúst 2010.

Hinn 5. ágúst 2010 fer lögmaður stefnda þess á leit við lögmann stefnanda, að stefnandi veiti heimild til sölu á eignum stefnda sem kyrrsettar höfðu verið hér á landi að kröfu stefnanda. Sérstaklega er tekið fram að stefndi hyggist greiða málskostnað að fjárhæð 150.000 bresk pund af andvirðinu. Þess var einnig óskað að hinum erlendu lögmönnum yrði gerð grein fyrir þessari beiðni því hún væri liður í að ganga frá greiðslu til hinna erlendu lögmanna í samræmi við fyrirmæli í ensku kyrrsetningarákvörðuninni. Í svarbréfi lögmanns stefnanda frá 9. ágúst 2010 segir að grundvallaratriði í bréfinu frá 5. ágúst væri að stefnandi heimilaði sölu fasteignarinnar, fyrst og fremst til að stefndi gæti greitt 150.000 punda málskostnað skv. úrskurði dómara í Englandi. Af bréfinu er ljóst að eingöngu er verið að fjalla um innáborgunina en ekki allan málskostnaðinn. Lögmaður stefnda svarar með bréfi dags. 12. ágúst 2010 og lætur hann fylgja ljósrit af bréfi hinna ensku lögmanna stefnanda (Slaughter & May) til hinna ensku lögmanna stefnda (Macfarlanes LLP). Ekkert í þessu bréfi gefur til kynna að falla eigi frá kröfu um greiðslu málskostnaðarins gegn greiðslu á 150.000 breskum pundum, heldur verði hafist handa við innheimtu á öllum málskostnaðinum, verði innáborgunin ekki greidd á tilsettum tíma. Eins og fram kemur í nefndu bréfi lögmanns stefnda frá 12. ágúst 2010 er stefnda gefinn frestur til 13. ágúst 2010 til að greiða 150.000 bresk pund ella verði þess krafist að stefndi greiði allan kostnað málsins. Í lok þess bréfs er tekið fram að það taki hálfan mánuð að klára söluna á Laufásvegi 69 og er þess þar af leiðandi „krafist“ að fallist verði á að greiðslan verið innt af hendi eigi síðar en 31. ágúst 2010 og hinir bresku lögmenn stefnanda Slaughter & May verði látnir vita um niðurstöðuna, svo að þeir láti af boðuðum aðgerðum gegn stefnda í Bretlandi.

Af bréfaskiptum þeim sem hér hafa verið rakin og liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að einungis hafi innáborgunin sem fram átti að fara 6. ágúst 2010, skv. úrskurði dómara, þ.e. 150.000 bresk pund, verið til umræðu á milli lögmanna. Hvergi er vikið að því að stefnandi myndi gefa eftir allan málskostnað, en fyrir liggur að hinir erlendu lögmenn stefnanda myndu fara í innheimtuaðgerðir alls kostnaðarins yrði innáborgunin ekki greidd á tilsettum tíma. Í ljósi forsögunnar og þeirra miklu hagsmuna sem um er að tefla, hefði verið eðlilegt að tilgreina frekar í samkomulaginu, og þá með skýrum hætti, að stefnandi hefði gefið eftir allan málskostnaðinn þ.e. rúm 600.000 bresk pund, hefði sú verið raunin. Er það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að lögmaður stefnda samdi hið umdeilda ákvæði. Þá hefur að mati dómsins enga þýðingu að vísa til aðstöðu stefnda. Honum ber að standa við skuldbindingar sínar. Með vísan til þess sem að framan greinir verður krafa stefnanda tekin til greina.

Samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Krafa stefnanda, Glitnis banka hf., um að viðurkennt verði með dómi að greiðsla stefnda að fjárhæð 150.000 bresk pund, sem hann innti af hendi við stefnanda samkvæmt samkomulagi stefnanda og stefnda, dags. 31. ágúst 2010, teljist ekki vera fullnaðargreiðsla á málskostnaðarkröfu stefnanda á hendur stefnda vegna reksturs máls nr. 537/2010 fyrir Yfirrétti í London (High Court of Justice, Queens Bench Division, Commercial Court), er tekin til greina.

Stefndi, Jón Ásgeir Jóhannesson, greiði stefnanda 750.000 kr. í málkostnað.