Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-101

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 20. mars 2020 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. febrúar 2020 í málinu nr. 552/2019: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands, þar sem leyfisbeiðandi var sakfelld fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa stungið brotaþola með hnífi hægra megin við brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár við fjórða og fimmta rifjabil fram hjá brjóstkassa og inn í breiðasta bakvöðvann og olli áverkinn meðal annars skaða á tveimur litlum slagæðum með verulegri blæðingu. Var refsing hennar þyngd með dómi Landsréttar og ákveðin fimm ára fangelsi, að frádregnu gæsluvarðhaldi sem hún hafði sætt frá 10. nóvember 2018.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt, þar sem álitaefni málsins hafi verulega almenna þýðingu um skýringu þeirra réttarreglna sem háttsemi hennar er talin brjóta gegn. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur enda hafi hvorki komið fram lögfull sönnun fyrir þeirri háttsemi sem leyfisbeiðanda var gefið að sök í ákæru né um að leyfisbeiðandi hafi unnið verkið af ásetningi. Þá hafi heimfærsla Landsréttar til refsiákvæða verið röng auk þess sem taka hefði átt tillit til aldurs og aðstæðna leyfisbeiðanda við ákvörðun viðurlaga og henni gerð mun vægari refsing.

 Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.