Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2002


Lykilorð

  • Víxill
  • Umboð


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 453/2002.

Jóhann Torfi Steinsson

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Kreditkorti hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Víxill. Umboð.

K hf. höfðaði mál á hendur J til heimtu skuldar samkvæmt víxli útgefnum 6. júlí 2001 að fjárhæð 700.000 krónur. Greiðandi víxilsins var tilgreindur H. Var víxillinn gefinn út og framseldur af J, ábektur af P og samþykktur af H. Var víxilskjal þetta afhent til tryggingar á úttektum H af kreditkortareikningi sínum hjá K hf. Samþykktu J, H og P samhliða yfirlýsingu þar sem K hf. var veitt heimild til að breyta vanskilaskuld sem kynni að verða á kreditkortareikningi H í víxilskuld með því að útfylla víxilskjalið og gera það þannig að fullgildum víxli. H lést 4. ágúst 2000 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 4. maí 2001. Í málinu var talið að andlát samþykkjandans H fyrir skráðan útgáfudag hefði engin áhrif á skuldbindingu annarra víxilskuldara, sbr. 7. gr. víxillaga. Jafnframt yrði að líta sjálfstætt á gildi fyrrgreindrar yfirlýsingar varðandi hvern þeirra þriggja manna, sem með henni hefðu veitt umboð til formgildingar víxils­ins. Væru þeir bundnir af yfirlýsingunni enda þótt skuldbindingargildi hennar félli niður gagnvart einum þeirra. Var krafa K hf. því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Mál þetta höfðaði stefndi til heimtu skuldar samkvæmt víxli útgefnum 6. júlí 2001 að fjárhæð 700.000 krónur. Gjalddagi er ekki tilgreindur á víxlinum. Greiðslustaður hans er hjá Kreditkorti hf. Reykjavík og á framhlið hans er rituð athugasemdin „án afsagnar“. Greiðandi víxilsins er tilgreindur Helgi Steinsson. Víxillinn er gefinn út og framseldur af áfrýjanda, ábektur af Pétri Kristni Kristjánssyni og samþykktur af Helga Steinssyni.

 Ekki er ágreiningur um að víxilskjal þetta var gert til tryggingar á úttektum Helga Steinssonar, föður áfrýjanda, af kreditkortareikningi hjá stefnda. Fest við víxileyðublaðið var „yfirlýsing/umboð“ sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Kemur þar meðal annars fram að víxilskjalið sé ódagsett bæði varðandi gjalddaga og útgáfudag. Þá er óútfylltur reitur í texta yfirlýsingarinnar, sem ætlaður er fyrir fjárhæð víxilskjalsins. Með þessari yfirlýsingu var stefnda veitt heimild til að breyta vanskilaskuld, sem kynni að verða á kreditkortareikningi Helga, í víxilskuld með því útfylla víxilskjalið og gera það þannig að fullgildum víxli. Samþykkti áfrýjandi þessa yfirlýsingu með undirskrift sinni sem útgefandi víxilskjalsins og á sama hátt samþykkti Helgi Steinsson yfirlýsinguna sem samþykkjandi og Pétur Kristinn Kristjánsson sem ábekingur. Yfirlýsingin er ódagsett.

 Ágreiningur er um hvenær víxilskjalið var útfyllt og framangreind yfirlýsing gefin. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi taldi áfrýjandi að það hafi verið 1984 og kvaðst hafa það eftir starfsmönnum stefnda. Þá taldi hann að fjárhæð hafi ekki verið tilgreind á víxilskjalinu þegar hann ritaði á það sem útgefandi. Fyrir Hæstarétt hefur stefndi lagt fram afhendingarseðil vegna kreditkorts frá stefnda, sem Helgi Steinsson kvittaði fyrir móttöku á 11. desember 1995. Kemur fram í texta seðilsins að hann sé vegna þess að opnað sé fyrir viðskipti á ný með kortinu og að móttekinn hafi verið tryggingarvíxill að fjárhæð 700.000 krónur þar sem Pétur Kristinn Kristjánsson sé útgefandi og áfrýjandi ábekingur. Telur stefndi þetta sýna að víxilskjalið og yfirlýsingin séu árituð í árslok 1995 og að fjárhæðin 700.000 krónur hafi þá verið færð inn á víxilskjalið, en mistök valdi því að nöfn áfrýjanda og Péturs sem útgefanda og ábekings víxilsins hafi víxlast.

Helgi Steinsson lést 4. ágúst 2000 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 4. maí 2001. Stefndi kveður víxilskjalið hafa verið útfyllt og það þannig gert að formgildum víxli, sem sýndur hafi verið til greiðslu 22. ágúst 2001.

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 20. desember 2001. Er það rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að skjal það, sem er grundvöllur málsóknar stefnda og að framan er lýst, sé ekki formgildur víxill þar sem það hafi ekki verið gefið út fyrr en ellefu mánuðum eftir andlát þess sem á því sé tilgreindur greiðandi og hafi áritað skjalið sem samþykkjandi. Samkvæmt 3. tl. 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 skal greina á víxli nafn þess, er greiða skal. Var þeirri formkröfu fullnægt með því að tilgreina Helga Steinsson sem greiðanda á víxlinum og hefur það engin áhrif á formgildi hans að Helgi var látinn fyrir þann tíma, sem skráður var útgáfudagur á víxlinum, sbr. 7. gr víxillaga, enda er það ekki skilyrði fyrir formgildi víxils að hann sé samþykktur. Andlát samþykkjandans Helga fyrir skráðan útgáfudag hefur engin áhrif á skuldbindingu annarra víxilskuldara samkvæmt áður tilvitnaðri 7. gr. víxillaga.

Þá heldur áfrýjandi því fram að þar sem bú Helga Steinssonar, sem undirritað hafi framangreinda yfirlýsingu/umboð sem samþykkjandi, hafi verið tekið til opinberra skipta 4. maí 2001 hafi heimild sú sem í því hafi falist til formgildingar víxilsins verið fallin niður í heild sinni samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þegar víxillinn var gefinn út 6. júlí 2001, rúmum tveimur mánuðum seinna. Líta verður sjálfstætt á gildi fyrrgreindrar yfirlýsingar varðandi hvern þeirra þriggja manna, sem með henni veittu umboð til formgildingar víxilsins. Leiðir það að skuldbindingargildi hennar falli niður gagnvart einum þeirra ekki til þess að hinir verði óbundnir. Er það í samræmi við þá meginreglu í víxilrétti að skuldbinding eins víxilskuldara er óháð því að aðrir reynist óbundnir, sbr. áður tilvitnaða 7. gr. víxillaga. Verður því ekki fallist á að taka dánarbús Helga til opinberra skipta hafi áhrif á þá heimild sem áfrýjandi hafði gefið stefnda til formgildingar víxilsins.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að þar sem forprentuð hafi verið á víxileyðublaðinu útgáfudagsetningin „19...“ hafi heimild áfrýjanda til að formgilda víxilinn með því að rita hann að fullu, sbr. 10. gr. víxillaga, takmarkast við að víxillinn væri útgefinn fyrir lok ársins 1999. Það hafi ekki verið gert heldur hafi útgáfudagurinn 6. júlí 2001 verið færður inn á víxilskjalið eins og að framan er rakið. Með því hafi áfrýjandi breytt víxlinum og sé sú breyting ekki skuldbindandi fyrir áfrýjanda samkvæmt 69. gr. víxillaga. Verður að fallast á það með stefnda að þessi málsástæða sé allt of seint fram komin og kemur hún því ekki til frekari skoðunar. Aðrar málsástæður sem áfrýjandi byggir á komast samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991 ekki að í málinu, sem eins og fyrr segir er rekið samkvæmt XVII. kafla laganna. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jóhann Torfi Steinsson, greiði stefnda, Kreditkorti hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2002.

          Mál þetta, sem dómtekið var 4. júní sl., var höfðað með stefnu, birtri 3. og 5. janúar 2002.

          Stefnandi er Kreditkort hf., kt. 440686-1259, Ármúla 28, Reykjavík.

          Stefndu eru Jóhann Torfi Steinsson, kt. 090754-5489, Haukalind 30, Kópavogi, og Pétur Kristinn Kristjánsson, kt. 081255-5719, Unnarstíg 6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

          Að stefndu verði gert að greiða stefnanda skuld in solidum að fjárhæð 643.598 kr. og 1.750 kr. í bankakostnað ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 594.937 kr. frá 22. ágúst 2001 til greiðsludags.

          Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda, Jóhanns Torfa Steinssonar:

          Stefndi Jóhann krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eftir mati dómsins.

          Stefndi, Pétur Kristinn Kristjánsson, hefur hvorki sótt né látið sækja þing. Er honum þó löglega stefnt. Verður því samkvæmt 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma málið að því er þennan stefnda varðar eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum.

Málavaxtalýsing og málsástæður stefnanda

          Stefnandi segir hina umstefndu skuld vera samkvæmt framlögðum víxli, útgefnum af stefnda, Jóhanni Steinssyni, í Reykjavík, þann 6. júlí 2001, og samþykktum til greiðslu af stefnda, Helga Steinssyni, hjá stefnanda við sýningu. Víxillinn sem er án afsagnar er ábektur af stefnda Pétri. Víxillinn er framseldur af útgefanda. Víxillinn er tryggingarvíxill.

          Að sögn stefnanda stendur víxillinn til tryggingar skuld Helga við stefnanda vegna Eurocard greiðslukorts. Víxillinn er að fjárhæð 700.000 kr. Stefnandi segir víxilinn hafa verið sýndan 22. ágúst 2001. Þar sem skuldin við stefnanda hafi numið 643.598 kr. þann dag sé það stefnufjárhæðin auk stimpilgjalds, 1.750 kr.

          Af hálfu stefnanda er vísað til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Málið sé rekið skv. 17. kafla laga nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Jóhanns Torfa Steinssonar

          Af hálfu stefnda er því haldið fram að eyðublaðið sem stefnandi lagði fram sé ekki víxill í skilningi víxillaga nr. 93/1933 og því geti stefndi komið að öllum efnisvörnum í málinu með því að það verði ekki rekið eftir sérreglum XVII. kafla laga um meðferð einkamála. Eyðublaðið geti ekki haft víxilgildi með því að skjalið beri með sér að hafa verið gefið út 6. júlí 2001 eða rúmum átta mánuðum eftir andlát samþykkjandans. Samkvæmt 7. tl. 1. gr. víxillaga skuli koma fram í meginmáli skjals útgáfudagur þess til þess að skjalið geti talist víxill. Til þess að samþykkjandi geti samþykkt víxil verði því víxillinn að hafa verið gefinn út. Formreglum víxillaga sé því ekki fullnægt með skjali sem beri með sér að samþykkjandi hafi samþykkt það til greiðslu mortis causa.

          Allar hugsanlegar kröfur stefnanda á hendur stefnda  vegna ábyrgðar sem hann kunni að hafa gengist í fyrir föður sinn árið 1984 séu niður fallnar fyrir fyrningu.

          Teljist kröfur stefnanda hins vegar ekki vera fyrndar þá beri að einskorða ábyrgð stefnda við þær 30.000 kr. sem heimild Helga Steinssonar til úttektar hafi numið, þá er stefndi undirgekkst ábyrgð á skuldfærslum hans hjá stefnanda.

          Það sé andstætt góðri viðskiptavenju og heiðarleika í viðskiptum að fylla út víxileyðublað það sem lagt hafi verið fram í málinu með þeim hætti sem stefnandi hafi gert. Gera verði þá kröfu til stefnanda sem stundi umfangsmikla lánastarfsemi að tryggja heimildir sínar gagnvart borgurunum með tryggilegum hætti. Stefnanda hafi borið að tilkynna stefnda reglulega um kröfur þær sem hann taldi að stefndi stæði í ábyrgð fyrir og gefa honum þannig kost á að grípa til viðeigandi ráðstafana eins og t.d. að segja hinni meintu ábyrgð upp eða kalla eftir uppgjöri skuldarinnar hjá föður sínnum.

          Af hálfu stefnda er vísað til víxillaga nr. 39/1933, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggernigna nr. 7/1936, einkum 36. gr. a. og b, laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.

          Varðandi fyrstu málsástæðu stefnda er vísað til 2. mgr. 118. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til XXI. kafla sömu laga.

Niðurstaða

          Stefnandi byggir kröfur sínar á tryggingarvíxli að fjárhæð 700.000 kr. Útgáfudagur víxilsins er 6. júlí 2001 og gjalddagi við sýningu. Samþykkjandi er Helgi Steinsson, útgefandi Jóhann Steinsson og ábekingur stefndi, Pétur K. Kristjánsson.

          Stefnandi heimilar ekki frekari varnir í málinu en samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Í skjölum málsins kemur fram að Helgi Steinsson, samþykkjandi víxilsins sem stefnandi byggir kröfur sínar á, andaðist 4. ágúst 2000. Bú hans var tekið til opinberra skipta 4. maí 2001.

          Af  hálfu stefnda, Jóhanns Torfa Steinssonar, er því haldið fram að það hafi verið  á árinu 1984 að faðir hans, Helgi Steinsson, hafi farið þess á leit við hann að hann skrifaði á víxileyðublað sem útgefandi og ábekingur en Helgi hafi ætlað að leggja víxileyðublaðið til stefnanda til tryggingar skuldfærslum vegna kreditkorts sem hann hafði sótt um að fá hjá stefnanda. Stefndi Jóhann kveðst hafa samþykkt þessi tilmæli föður síns og skrifað á víxileyðublaðið sem lagt hefur verið fram sem dskj. 3. Af hálfu stefnda Jóhanns er því haldið fram að honum hafi verið kunnugt um að faðir sinn hefði úttektarheimild að fjárhæð 30.000 og hafi hann því talið sig ábyrgjast úttektir að þeirri fjárhæð.

          Áfast tryggingarvíxlinum er yfirlýsing undirrituð af Helga Steinssyni, Jóhanni Steinssyni og Pétri K. Kristjánssyni. Yfirlýsing þessi er svohljóðandi:

          "Viðfest víxileyðublað er hér með afhent Kreditkorti hf. til tryggingar úttektum samkvæmt Eurocard Kreditkortum sem gefin verða út á Eurocard kreditkortareikning samþykkjanda. Víxileyðublaðið er að fjárhæð kr. ­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­____________

með áritun samþykkjanda, útgefanda og ábekinga, en ódagsett, bæði hvað varðar gjalddaga og útgáfudag. Verði um vanskilaskuld á Eurocard kreditkortarreikningi samþykkjanda að ræða, er Kreditkorti hf. heimilt að breyta vanskilaskuldinni í víxilskuld og nota til þess þetta víxileyðublað, dagsetja það og stimpla og gera þannig að fullgildum víxli."

          Stefndu nýttu sér ekki þann möguleika að færa hámarksfjárhæð inn á framangreinda yfirlýsingu og takmarka þannig þá fjárhæð sem ábyrgðin yrði bundin við. Heldur veittu þeir stefnanda heimild til þess að rita á víxilinn fjárhæð skuldar sem ekki var háð takmörkunum. Með yfirlýsingunni heimiluðu stefndu stefnanda að fullrita víxileyðublaðið, dagsetja það og stimpla og gera það þannig að fullgildum víxli, eins og segir í yfirlýsingunni. Það gerði stefnandi. Víxillinn sem stefnandi byggir kröfur sínar á er lögformlegur víxill sem stefndi Jóhann er útgefandi og ábekingur að og stefndi Pétur ábekingur. Ekki er fallist á málsástæður stefnda Jóhanns byggða á fyrningu.

          Ber því að taka kröfur stefnanda til greina.

          Stefndu greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 150.000 kr. og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

          Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

          Stefndu, Jóhann Torfi Steinsson og Pétur Kristinn Kristjánsson, greiði in solidum stefnanda, Kreditkorti hf., 643.598 kr., 1.750 kr. í bankakostnað og dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 594.937 kr. frá 22. ágúst 2001 til greiðsludags og 150.000 kr. í málskostnað.