Hæstiréttur íslands

Mál nr. 427/2002


Lykilorð

  • Víxill


Dómsatkvæði

 

 

Fimmtudagurinn 13. mars 2003

Nr. 427/2002.

Markús Jóhannsson

Kristján Friðrik Guðmundsson og

Guðný Björk Kristjánsdóttir

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl)

 

 

Víxilmál. Víxilréttur.

SH höfðaði mál gegn M, K og G til greiðslu víxils sem S hafði afhent til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi sínum hjá SH. Var M útgefandi og framseljandi, en K og G ábekingar. Var víxillinn áritaður með orðunum „án afsagnar“. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga hvíli sönnun þess að víxill, sem áritaður sé með orðunum „án afsagnar“, hafi ekki verið sýndur innana tilskilins frests á þeim, sem bera vill það fyrir sig gegn víxilhafa. Með hliðsjón af afdráttarlausum framburði þjónustustjóra SH um að víxillinn hafi verið til staðar í afgreiðslu SH á gjalddaga og tvo virka daga þar á eftir verði ekki talið að M, K og G hafi tekist að sanna að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu í SH. Var krafa SH því tekin til greina.

 

Dómur hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. september 2002. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi stofnaði Smári Kristjánsson tékkareikning hjá stefnda 1996 og samdi um yfirdráttarheimild á reikningnum. Jafnframt afhenti hann stefnda víxileyðublað, sem ekki var útfyllt varðandi útgáfudag og gjalddaga, til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningnum. Fjárhæð var þar tilgreind 1.937.500 krónur og greiðslustaður Sparisjóður Hafnarfjarðar. Á framhlið eyðublaðsins voru prentuð orðin „án afsagnar“. Smári áritaði skjalið sem samþykkjandi, áfrýjandinn Markús Jóhannsson sem útgefandi og framseljandi, og áfrýjendurnir Kristján Friðrik Guðmundsson og Guðný Björk Kristjánsdóttir sem ábekingar. Neðan meginmáls víxilskjalsins var umboð til stefnda til útfyllingar þess og innheimtu víxilsins kæmi til vanskila af hálfu tékkareikningshafans eins og nánar er lýst í héraðsdómi.

 Smári yfirdró reikninginn umfram heimild og var honum sem og áfrýjendum send „lokaaðvörun“ 17. október 2001 þar sem þeim var tilkynnt um fjárhæð yfirdráttarins, þau minnt á ábyrgð sína og gefinn tíu daga frestur til að greiða eða semja um yfirdráttinn. Smára og áfrýjendum var sent innheimtubréf lögmanns stefnda 16. nóvember 2001. Var þar skorað á þau að greiða kröfu að fjárhæð 2.933.879 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og kostnaði innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins. Var heimildarskjal kröfunnar tilgreint „yfirdráttur á tékkareikningi“. Í lok bréfsins sagði: „Tryggingarvíxill að fjárhæð kr. 1.737.500,00 liggur hér á skrifstofunni.“ Við þingfestingu máls þessa í héraði 13. febrúar 2002 var lagður fram, sem grundvöllur kröfu stefnda, formgildur víxill með því að á framangreint skjal hafði verið vélritaður útgáfudagur 16. nóvember 2001 og gjalddagi 26. sama mánaðar. Stefndi rekur málið sem víxilmál og ítrekaði fyrir Hæstarétti mótmæli sín við því að áfrýjendur kæmu að öðrum vörnum en 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heimilar.

II.

Áfrýjendur halda því fram að víxillinn hafi hvorki verið sýndur til greiðslu á tilgreindum greiðslustað, Sparisjóði Hafnafjarðar, á gjalddaga 26. nóvember 2001 né öðrum hvorum tveggja hinna næstu virku daga þar á eftir svo sem tilskilið sé í 1. mgr 38. gr. víxillaga nr. 93/1933 og hafi víxilréttur því fallið niður gagnvart þeim.

Stefndi heldur því fram að víxilinn hafi verið sýndur til greiðslu á tilskilinn hátt. Þá bendir hann á að þar sem að á víxilinn hafi verið rituð orðin „án afsagnar“ hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að víxillinn hafi ekki veið sýndur innan tilskilins frests á áfrýjendum samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga.

Meðal gagna málsins er yfirlýsing Ásdísar Garðarsdóttur, þjónustustjóra hjá stefnda, 6. maí 2002 þar sem staðfest er fyrir hans hönd að umræddur víxill hafi verið „til staðar í afgreiðslu Sparisjóðs Hafnarfjarðar, þann 26.11.2001 og tvo virka daga þar á eftir.“ Ásdís gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og staðfesti efni framangreindrar yfirlýsingar. Hún sagði að víxlar, sem áður hefðu verið sendir til innheimtu til lögmannsstofu, væru sendir sparisjóðnum aftur til sýningar og væri það hennar hlutverk að taka við víxlunum og koma þeim til afgreiðslu sparisjóðsins. Hún kvaðst ekki gefa út kvittanir við móttöku á víxlum frá lögmannsstofunni enda væri sitt hlutverk það eitt að taka á móti víxlunum. Hún kvaðst ekki geta svarað því hvort slíkar kvittanir væru gefnar út af hálfu stefnda. Umræddur víxill hafi borist sparisjóðnum mánudaginn 26. nóvember og hafi hann borist einn og ekki með öðrum víxlum.

Lögmaður stefnda lýsti því yfir við munnlegan málflutning í Hæstarétti að venjulega væru gefnar út kvittanir þegar víxlar, sem til innheimtu væru hjá stofu hans, væru afhentir sparisjóðnum til sýningar.

Áfrýjendur telja margt benda til þess að víxillinn hafi ekki verið sýndur í sparisjóðnum á tilskildum tíma. Þannig sé tekið fram í fyrrgreindu innheimtubréfi lögmanns stefnda, sem dagsett sé tíu dögum fyrir gjalddaga víxilsins, að víxillinn liggi á skrifstofu lögmannsins og hafi með því verið gefinn tíu daga frestur til greiðslu kröfunnar. Þetta bendi til þess að víxillinn hafi enn verið í vörslu lögmannsins á gjalddaga. Þá sé venja að bankastofnanir sendi víxilskuldurum tilkynningar með boði um greiðslu víxla á gjalddaga. Slíkar tilkynningar hafi áfrýjendur ekki fengið og hafi stefndi ekki lagt þær fram þrátt fyrir að á hann hafi verið skorað við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Stefndi hafi heldur ekki lagt fram kvittun um móttöku víxilsins til sýningar úr höndum lögmanns þess, sem innheimtu hans annaðist, en með ólíkindum sé ef slík viðskiptabréf gangi þar á milli án þess að það sé skjalfest. Þá sé umræddur víxill ekki stimplaður svo sem lögskylt sé, sem bendi til þess að hann hafi ekki verið sýndur til greiðslu í sparisjóðnum, en hjá bankastofnunum sé almennt góð regla á greiðslu lögboðinna stimpilgjalda. Loks telja áfrýjendur að framangreindur framburður Ásdísar sé hvorki trúverðugur varðandi það að henni hafi verið ókunnugt um hvort kvittanir væru gefnar fyrir móttöku sparisjóðsins á víxlum til sýningar né að hún hafi munað eftir því að hafa veitt þessum tiltekna víxli viðtöku. Telja áfrýjendur að þegar til alls þessa sé litið verði að teljast sannað að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu í sparisjóðnum á tilskildum tíma enda verði við sönnunarmatið að taka tillit til þess hversu erfið sönnunarstaða þeirra sé, þar sem víxilhafi sé sama bankastofnun þar sem sýna hafi átt víxilinn til greiðslu.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga hvílir sönnun þess að víxill, sem áritaður er með orðunum „án afsagnar“, hafi ekki verið sýndur innana tilskilins frests á þeim, sem bera vill það fyrir sig gegn víxilhafa. Með hliðsjón af afdráttarlausum framburði Ásdísar Garðarsdóttur, sem að framan er rakinn, verður ekki talið að framangreindar vísbendingar veiti sönnun fyrir því að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu í sparisjóðnum. Áfrýjendum hefur því ekki tekist þessi sönnun. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans um annað en málskostnað.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2002.

                Málið var höfðað 29. janúar 2002 og dómtekið 5. júní 2002.  Stefnandi er Spari­sjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.  Stefndu eru Smári Kristjáns­son, Álfaskeiði 88, Hafnarfirði, Markús Jóhannsson, Lækjarbergi 44, Hafnarfirði, Kristján Friðrik Guðmundsson, Funalind 13, Kópavogi og Guðný Björk Kristjáns­dóttir, Lækjarbergi 44, Hafnarfirði.

                Í málinu er deilt um greiðsluskyldu stefndu á tryggingarvíxli. 

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmd til að greiða honum krónur 1.937.500 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2001 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi máls­­­kostnaðar.

Stefndi Smári Kristjánsson hefur ekki látið málið til sín taka.  Af hálfu annarra stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda og greiðslu máls­kostnaðar.

I.

Stefndi Smári stofnaði í nóvember 1996 tékkareikning nr. 20645 hjá stefnanda og gerði samning um yfirdráttarheimild.  Samhliða afhenti hann stefnanda víxileyðu­blað, óútfyllt hvað varðar útgáfudag og gjalddaga, til tryggingar greiðslu yfirdráttar á tékka­reikningnum.  Víxilfjárhæð var tilgreind krónur 1.937.500, með greiðslustað í Spari­­sjóði Hafnarfjarðar.  Stefndi Smári áritaði víxil­skjalið sem samþykkjandi, stefndi Markús sem útgefandi og framseljandi og stefndu Kristján Friðrik og Guðný Björk sem ábekingar.  Á framhlið víxilskjalsins var prentuð athuga­semdin „án afsagnar“.

Neðan við meginmál víxilskjalsins var prentuð yfirlýsing/umboð vegna yfir­dráttar­­­­heimildar á viðkomandi tékkareikningi, sem er dagsett 26. nóvember 1996 og undir­ritað af öllum stefndu og vottað af tveimur vitundarvottum.  Þar segir: „Víxillinn er afhentur Sparisjóði Hafnarfjarðar til tryggingar viðskiptum við Sparisjóð Hafnar­fjarðar sem eru vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi nr. 20645.  Spari­sjóði Hafnar­­fjarðar er hér með veitt umboð til þess að formgilda víxilinn með því að rita á hann útgáfudag og gjalddaga verði um vanskil að ræða af hálfu tékkareiknings­hafa, og innheimta hann með venjulegum hætti.  Víxilfjárhæðin má aldrei varða aðra skuld en samkvæmt ofanskráðum tékkareikningi, auk vaxta og kostnaðar.“

II.

Óumdeilt er að stefndi Smári yfirdró tékkareikninginn langt umfram heimild og að stefndu hafi móttekið svokallaða „lokaaðvörun“, dagsetta 17. október 2001, þar sem þeim var tilkynnt um skuld að fjárhæð krónur 2.867.629, minnt á ábyrgð sína á yfir­drættinum og gefinn tíu daga frestur til að greiða eða semja um yfirdráttinn, en ellegar yrði krafan send lögmanni til innheimtu.  Svo fór að stefndu var sent inn­heimtu­bréf frá lögmanni stefnanda 16. nóvember 2001, þar sem skorað var á þau að greiða skuldina ásamt vöxtum og kostnaði innan tíu daga, en ellegar yrði krafan innheimt með atbeina dómstóla.  Í niðurlagi bréfsins kemur fram að tryggingarvíxill að fjárhæð krónur 1.737.500 liggi á skrifstofu lögmannsins.  Tryggingar­víxillinn sem mál þetta snýst um er að fjárhæð krónur 1.937.500.  Þrátt fyrir þetta tölulega misræmi er því ómótmælt að lögmaðurinn hafi í bréfi sínu verið að vísa til hins umþrætta víxils.

Við þingfestingu málsins 13. febrúar 2002 lagði stefnandi fram lög­form­legan víxil, með því að á framangreint víxilskjal hafði verið vélritaður útgáfu­dagur 16. nóvember 2001 og gjalddagi 26. nóvember 2001.

III.

Stefnandi rekur málið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála og byggir greiðsluskyldu stefndu á reglum víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna.  Við munnlegan málflutning fyrir dómi mótmælti lögmaður stefnanda því að stefndu kæmu að vörnum, sem ekki rúmist innan 118. gr. einkamálalaga.  Jafn­framt var því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndu hafi ekki verið send til­kynning um sýningu víxilsins til greiðslu á nefndum gjalddaga og að víxillinn hafi ekki verið vistaður á greiðslustað á gjalddaga og næstu tvo virka daga þar á eftir, en sönnunarbyrði um hvort tveggja hvíli á stefndu.  Þá sé um að ræða gjalddagavíxil sam­­kvæmt 1. mgr. 38. gr. víxillaga, án afsagnar, en ekki sýningarvíxil og því eigi ákvæði 53. og 91. gr. víxillaga ekki við í málinu.  Einnig var því mótmælt að víxil­ábyrgð stefndu væri fallin niður vegna fyrningar áðurnefnds umboðs, sem hafi verið ótíma­bundið og haldið óbreyttu gildi þrátt fyrir síðar gert samkomulag frá 27. janúar 1998 og 1. nóvember 2001 milli Sambands íslenskra viðskiptabanka, Sam­bands íslenskra sparisjóða, tveggja nafngreindra greiðslukortafyrirtækja, Neytenda­­sam­­takanna og stjórnvalda um notkun sjálfskuldarábyrgða, en varnir stefndu byggðar á slíku samkomulagi komist ekki að í málinu gegn andmælum stefnanda, sbr. tilvitnuð 118. gr. einkamálalaga.

IV.

Stefndu Markús, Kristján Friðrik og Guðný Björk byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að víxillinn hafi ekki verið á greiðslustað á gjalddaga og þar með sé ábyrgð þeirra fallin niður.  Byggist það á 91. gr., 53. gr., 4. gr., 38. gr., sbr. og 2. mgr. 46. gr. víxillaga nr. 93/1933.  Þá hafi engar tilkynningar borist um að greiða bæri víxilinn á þeim gjalddaga, sem á hann hafi verið settur og því hafi þeim verið ómögu­legt að greiða víxilinn á sögðum gjalddaga.  Ábyrgð þeirra sé því niður fallin þegar af þeirri ástæðu.

Þá er sýknukrafan á því reist að umboð stefnanda til útfyllingar víxilsins hafi verið fallið niður í nóvember 2001, þar sem meira en fjögur ár hafi verið liðin frá því að víxileyðublaðið hafi verið afhent.  Í því sambandi er bent á að samkomulag hafi verið gert, meðal annars milli Sambands íslenskra sparisjóða, viðskiptaráðherra og Neytendasam­takanna, um að bankar og spari­­sjóðir færu eftir ákveðnum reglum um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en fyrir þann tíma hafi sömu bankastofnanir fylgt fyrirmælum bankaeftirlits Seðla­banka Íslands hvað þetta varðaði.  Sjálfskuldar­ábyrgð á tékka­reikningum skuli því aðeins gilda í fjögur ár frá útgáfudegi samkvæmt 6. gr. samkomu­lags frá 27. janúar 1998 og 6. gr. samkomulags frá 1. nóvember 2001.  Fyrir þann tíma eða 8. nóvember 1993 hafi banka­eftirlitið beint þeim eindregnu til­mælum til banka og sparisjóða að jafnhliða einstökum fyrir­greiðslum væri endanlega gengið frá tryggingarskjölum vegna þeirra, en væri það ekki unnt skyldi það gert án ástæðu­lauss dráttar.  Ljóst sé að stefnandi hafi ekki farið eftir þeim tilmælum, þar sem hann hafi látið stefndu afhenda víxileyðublað án útgáfudags og gjalddaga.  Beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

V.

Fyrir liggur í málinu að stefndi Smári afhenti stefnanda umrætt víxilskjal til tryggingar greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi hans nr. 20645 hjá stefnanda og að víxil­skjalið var þá undirritað af stefndu öllum og útfyllt að öðru leyti en því að á skjalið hafði hvorki verið færður útgáfudagur né gjalddagi.  Með afhendingu víxil­skjalsins í því horfi sem það þá var fólst umboð stefnanda til handa til að fylla skjalið út samkvæmt 10. gr. víxillaga nr. 93/1993 og gera það að formlegum víxli, ef á ábyrgð víxilskuldara reyndi.  Aðrar takmarkanir voru ekki gerðar á útfyllingarheimild stefnanda.  Stefnandi færði inn á víxilinn útgáfudaginn 16. nóvember 2001 og gjald­daga 26. nóvember sama ár.  Prentað form víxilsins ber með sér að greiðslu­staður sé í Spari­sjóði Hafnar­fjarðar.

Samkvæmt framansögðu fullnægði víxillinn formkröfum 1. sbr. 2. gr. víxil­laga og var stefnanda því heimilt að höfða mál þetta á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Stefndu geta því ekki komið öðrum vörnum að í málinu, gegn andmælum stefnanda, en heimilaðar eru í 118. gr. téðra laga.  Varnir stefndu byggðar á því að útfyllingarheimild stefnanda hafi verið fallin niður á grund­velli tilmæla frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eða fyrrnefndu samkomulagi frá 27. janúar 1998 og 1. nóvember 2001 komast því ekki að í málinu, sbr. einnig til dæmis hæstaréttardómur 22. nóvember 2001 í máli réttarins nr. 217/2001.

Aðrar varnir lúta að því að stefndu hafi ekki verið sendar tilkynningar um greiðslu víxilsins á gjalddaga 26. nóvember 2001 og að víxillinn hafi ekki verið vistaður til sýningar í Sparisjóði Hafnarfjarðar á þeim gjalddaga og næstu tvo virka daga þar á eftir.  Stefnandi hafi því glatað víxilrétti sínum gagnvart þeim.

Að því er varðar fyrrnefnt atriði hvíldi engin skylda á stefnanda að víxilrétti til að tilkynna stefndu um útfyllingu víxilsins með þeim gjalddaga, sem á hann var settur.  Öðru máli gegnir um tilkynningar vegna greiðslufalls, sem mælt er fyrir um í 45. gr. víxillaga.  Af hálfu stefndu er ekki á því byggt að þeirrar tilkynningarskyldu hafi ekki verið gætt, en samkvæmt 6. mgr. 45. gr. glatar víxilhafi ekki fullnusturétti sínum þótt slíkt farist fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. víxillaga skal handhafi víxils, sem greiða ber á til­teknum degi, sýna víxilinn til greiðslu á þeim degi er hann skyldi greiddur eða á öðrum hvorum tveggja hinna næstu virka daga þar á eftir.  Eins og áður greinir er prentuð á framhlið hins umþrætta víxils athugasemdin „án afsagnar“.  Með áritun sinni á víxilinn leystu stefndu stefnanda því undan þeirri skyldu að láta afsegja víxilinn, bæði til sönnunar á því að hann hefði verið sýndur rétti­lega til greiðslu og vegna greiðslufalls.  Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga leysti nefndur fyrirvari stefnanda hins vegar hvorki undan því að sýna víxilinn til greiðslu innan nefndra fresta né heldur að senda tilkynningu um greiðslufall víxilsins, en sönnunarbyrði fyrir þessu hvoru tveggja færðist yfir á stefndu.  Gegn andmælum stefnanda og með hlið­sjón af vitnis­burði Ásdísar Garðarsdóttur þjónustu­stjóra hjá stefnanda, sem fullyrti fyrir dómi að víxillinn hafi verið vistaður hjá stefnanda á gjalddaga og næstu tvo virka daga þar á eftir, er ljóst að sú sönnun hefur ekki tekist, en fullyrðingar stefndu um annað eru ekki studdar haldbærum rökum. 

Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu höfðað mál til greiðslu á fullgildum og óaðfinnanlegum víxli, með óskoruðum víxilrétti honum til handa.  Ber því sam­kvæmt 47. gr. víxillaga að dæma stefndu óskipt til greiðslu víxilfjárhæðarinnar með dráttar­vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.  Með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. einkamálalaga ber enn fremur að dæma stefndu óskipt til greiðslu máls­kostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn krónur 250.000.

Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.

 

DÓMSORÐ:

Stefndu, Smári Kristjánsson, Markús Jóhannsson, Kristján Friðrik Guðmunds­son og Guðný Björk Kristjánsdóttir, greiði stefnanda, Sparisjóði Hafnarfjarðar, óskipt krónur 1.937.500 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2001 til greiðsludags.

Stefndu greiði einnig óskipt krónur 250.000 í málskostnað.