Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Aðild
  • Slit


Mánudaginn 30. maí 2011.

Nr. 232/2011.

Fósturmold ehf.

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Aðild. Slit.

F kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var sú afstaða slitastjórnar G að hafna kröfum F við slit G. Í hinum kærða úrskurði sagði að F hefði ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að G hefði á nokkurn hátt brugðist skyldum sínum gagnvart F þannig að G bæri ábyrgð á yfirdrætti sem myndast hefði á reikningi F hjá G. Hefði F því ekki sýnt fram á að hann ætti kröfu á hendur G vegna þessara viðskipta. Fyrir Hæstarétti krafðist F viðurkenningar á því að nánar tilgreind fjárkrafa nyti réttarstöðu sem almenn krafa við slit G með vísan til 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af málatilbúnaði F yrði ráðið að hann krefðist skaðabóta vegna nánar tilgreindrar háttsemi starfsmanna G á árinu 2007. Yrði samkvæmt því að fallast á að G væri réttur aðili málsins, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 24. maí 2011 í máli nr. 219/2011. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2011, þar sem staðfest var sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 10.794.296 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. október 2007 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lækkað kröfu sína og skýrir það þannig að eðlilegt þyki að fé, sem greitt var inn á bankareikning sóknaraðila hjá varnaraðila í október 2007, sé fyrst nýtt til að greiða „heimilaðan yfirdrátt kr. 4.500.000“ og nánar tilgreinda vexti.

Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaður sóknaraðila væri ekki skýr og glöggur, en að honum hafi verið heimilt að beina kröfu sinni að varnaraðila þar eð viðskiptin, sem málið sé sprottið af, hafi farið fram á árunum 2006 og 2007. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að hann krefjist skaðabóta vegna nánar tilgreindrar háttsemi starfsmanna varnaraðila á árinu 2007. Verður samkvæmt því fallist á að varnaraðili sé réttur aðili málsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. maí 2011 í máli nr. 219/2011. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Fósturmold ehf., greiði varnaraðila, Glitni banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2011.

I

Mál þetta sem þingfest var hinn 1. október 2011 var tekið til úrskurðar 9. mars 2011. 2010.  Sóknaraðili er Fósturmold ehf., Kringlunni 35, Reykjavík, en varnaraðili er Glitn­ir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hans að fjárhæð 12.300.000 krónur auk dráttar­vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. október 2007 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varn­ar­aðila.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðis­auka­­skatti.

Dómkröfur varnaraðila eru að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að við­­­bætt­um virðisaukaskatti.

II

Málavextir eru þeir helstir að hinn 4. október 2000 sótti Leó E. Löve fyrir hönd sóknar­aðila um stofnun tékkareiknings hjá varnaraðila sem þá hét Íslandsbanki hf.  Var sókn­ar­aðila veitt heimild til stofnunar tékkareiknings í bankanum nr. 513-26-8043.  Í málinu liggur fyrir umboð til úttekt­ar af framangreindum reikningi, undirritað af fyrrgreindum Leó E. Löve fyrir hönd sóknaraðila til handa Bjarka Steini Jónssyni.  Er umboðið dagsett 5. september 2006.  Umboð þetta var fellt niður af hálfu sóknaraðila 24. maí 2007.

Af gögnum málsins má ráða að  heimild til yfirdráttar á ofangreindum reikningi nr. 513-26-8043 var hækkuð úr 4.500.000 krónum hinn 5. september 2006 í 14.500.000 krónur og hinn 14. nóvember 2006 var hún hækkuð í 15.000.000 króna.  Hinn 14. desember 2006 var yfirdráttarheimildin felld niður. 

Samhliða hækkun á yfirdráttarheimild gaf sóknaraðili út tryggingarbréf með veði í fasteigninni Austurstræti 6, Reykjavík, til handa varnaraðila að fjárhæð 14.000.000 króna.  Var tryggingarbréfið undirritað af Leó E. Löve og Rannveigu Löve fyrir hönd sókn­araðila.

Hinn 7. október 2008 ákvað fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn.  Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtu­manna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingar­frestur út sex mánuðum síðar eða 26. nóvember 2009.  Frestdagur við slitameðferðina er 15. nóvember 2008 og upphafsdagur slitameðferðar er 22. apríl 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með kröfulýsingu 25. nóvember 2009 sem móttekin var af slitastjórn varnaraðila sama dag.  Lýsti sóknaraðili kröfu að fjárhæð 12.300.000 krónur auk dráttarvaxta frá 18. október 2007 til greiðsludags og lögfræðiþóknunar að fjárhæð 50.000 krónur.  Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila og var sóknaraðila kynnt sú afstaða með bréfi 27. apríl 2010.  Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar og á skipta­fundi sem haldinn var 19. maí 2010 var fjallað um ágreininginn.  Var boðað til nýs fund­ar til að fjalla um ágreininginn 10. júní 2010 og þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila var honum vísað til héraðsdóms með bréfi dagsettu 5. júlí 2010 sem móttekið var 26. ágúst 2010.

III

Sóknaraðili kveður að á árinu 2006 hafi staðið til að Bjarki Steinn Jónsson og aðilar á hans vegum keyptu alla hluti í sóknaraðila og hafi hugmyndir þær verið kynntar varnar­aðila.  Sé sóknaraðila ekki kunnugt um hvað hafi síðan gerst milli Bjarka Steins og varnaraðila en með einhverjum hætti hafi orðið til yfirdráttur á framangreindum banka­reikn­ingi sem hafi verið skráður skuld sóknaraðila þótt slík skuldsetning hafi ekki fengið samþykki til þess bærra aðila.  Hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila ekki gefið umræddum Bjarka Steini heimild til úttektar af nefndum reikningi sóknaraðila.  Minnist fyrirsvars­mað­ur sóknaraðila þess ekki að hafa gefið slíka heimild og megi við skoðun framlagðra skjala sjá að nafnritun fyrirsvarsmannsins séu ekki eins á þeim.  Hefði því starfsmönnum varnar­aðila verið rétt að leita staðfestingar.  Þá hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila aldrei hitt þá tvo menn sem segjast hafa verið viðstaddir svokallaða undirskrift hans.  Hinn 18. október 2007 hafi 16.700.000 krónur verið lagðar inn á reikninginn og hafi sóknaraðili talið að reikningurinn væri í jákvæðri stöðu.  Hafi þá varnaraðili ráðstafað fé af banka­reikn­ingnum án heimildar sóknaraðila.

Sóknaraðili kveður skuld þá sem starfsmenn varnaraðila virðast hafa leyft að stofnað yrði til hafi verið sóknaraðila með öllu óviðkomandi og sjálftekin endurgreiðsla hennar því ólögmæt.  Ekki síður sé það ólögmæt sjálftaka að taka sem greiðslu nokkuð sem kallað hafi verið málskostnaður, þar sem engin lögmæt skuld hafi verið til.  Hafi Bjarki Steinn Jónsson enga heimild haft til að skuldbinda félagið með stofnun hárrar skuldar með yfirdrætti.  Hafi varnaraðila mátt vera þetta ljóst.  Þá beri það vott um óvandaðan starfsmáta fjármálafyrirtækis að bæði stofna til hás yfirdráttar án heimildar þeirra sem stjórni fyrirtækinu og ráðstafa svo háum fjárhæðum út af bankareikningi með milli­færsl­um án heimildar stjórnarmanna.

Sóknaraðili viðurkennir að ráðstöfun á 4.500.000 krónum til Leós E. Löve hafi verið heimil og hafi þess verið gætt í kröfugerð sóknaraðila.

IV

Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila vanreifaða og órökstudda auk þess sem grund­völl­ur kröfunnar sé með öllu óljós.  Af þessum sökum telji varnaraðili ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila.

Mál þetta sé tilkomið vegna yfirdráttar á bankareikningi nr. 513-26-8043.  Sóknaraðili haldi því fram í kröfugerð að Bjarka Steini Jónssyni hafi verið heimilað af hálfu varn­ar­aðila að fara svo með reikninginn sem honum sýndist án heimildar frá þar til bærum stjórn­endum félagsins og þar með hafi orðið til óheimill yfirdráttur sem síðan hafi verið jafnaður að mestu þegar 16.800.000 krónur hafi verið lagðar inn á reikninginn 18. október 2007. 

Svo sem fram hafi komið hafi Leó E. Löve fyrir hönd sóknaraðila veitt Bjarka Steini Jóns­syni umboð til úttektar af reikningnum 5. september 2006.  Umboðið hafi síðar verið afturkallað af hálfu sóknaraðila 4. maí 2007.  Virðist krafa sóknaraðila byggjast á því að varnaraðili beri með einhverjum hætti ábyrgð á þeirri skuldbindingu sókn­ar­aðila sem stofnað hafi verið til með yfirdrætti á framangreindum bankareikningi.  Kveðst varnaraðili skilja kröfu sóknaraðila á þennan hátt en kröfugerðin og grund­völl­ur kröfunnar sé með öllu óljós og vanreifaður.

Í október 2008 hafi varnaraðila verið skipt upp í tvo hluta samkvæmt lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissóði vegna sérstakra aðstæðna á fjár­mála­mark­aði o.fl.  Íslenskar eignir og allar innstæður hafi færst yfir í Nýja Glitni banka hf., síðar Íslandsbanka hf.  Aðrar eignir, flestar eignir utan Íslands, og skuldir hafi verið áfram í varnaraðila.  Íslenskir reikningar hafi verið fluttir til Íslandsbanka hf., þ.á.m. yfir­drátt­ur á reikningi nr. 513-26-8043.

Hafi Nýi Glitnir banki haf. fljótlega hafið innheimtuaðgerðir gagnvart sóknaraðila máls þessa og Bjarka Steini Jónssyni vegna yfirdráttar á fyrrgreindum reikningi.  Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2008 í máli nr. E-5964/2007 hafi málinu verið vísað frá dómi sökum vanreifunar.  Hafi sóknaraðila því verið ljóst þegar hann lýsti kröfu sinni á hendur varnaraðila að varnaraðili væri ekki aðili að deilu hans vegna skuldbindinga sem stofnað hafi verið til á reikningi sóknar­aðila nr. 513-26-8043 enda höfðu skuldbindingar hans gagnvart bankanum verið færðar yfir til Nýja Glitnis banka hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um yfir­færslu eigna.  Sé kröfu sóknaraðila því beint að röngum aðila.

Verði ekki fallist á það tekur varnaraðili fram að í málatilbúnaði sóknaraðila komi fram að Bjarka Steini Jónssyni hafi verið heimilað af hálfu varnaraðila að fara svo með reikn­ing sóknaraðila í bankanum sem honum sýndist án heimildar frá þar til bærum stjórn­end­um sóknaraðila.  Af þessum málatilbúnaði megi ráða að sóknaraðili telji fyrr­nefnd­an Bjarka Stein hafa skuldbundið sóknaraðila með yfirdráttarláni á bankareikningi sóknar­aðila án formlegrar heimildar þar til bærra forráðamanna sóknaraðila og að varn­ar­aðili beri ábyrgð á því að Bjarki Steinn hafi stofnað til þeirra skuldbindinga.  Meðal ganga málsins liggi fyrir umboð til handa Bjarka Steini til úttektar af nefndum reikn­ingi sóknaraðila og sé það undirritað af stjórnarformanni sóknaraðila, Leó E. Löve.  Á grundvelli þessa umboðs hafi Bjarki Steinn stofnað til skuldbindinga fyrir hönd sóknaraðila.  Þá hafi sóknaraðili gefið út tryggingabréf að fjárhæð 14.000.000 króna samhliða hækkun yfirdráttarins úr 4.500.000 krónum í 14.500.000 krónur.  Verði af því ekki dregin önnur ályktun en sú að það hafi verið gefið út til tryggingar fram­an­greindri heimild til yfirdráttar á reikningi 513-26-8043.

Með vísan til framangreinds hafnar varnaraðili fullyrðingum sóknaraðila um að varn­ar­aðili hafi heimilað ráðstafanir á reikningi sóknaraðila án heimildar þar til bærra aðila.

Í greinargerð sóknaraðila segi að lesa megi það út úr skjölum málsins að Leó E. Löve hafi gefið Bjarka heimild til úttektar af reikningi félagsins en Leó minnist þess ekki að hafa gefið slíka heimild og sjá megi að nafnritun á framlögðum skjölum nr. 2 séu ekki eins þannig að rétt hefði verið af hálfu starfsmanna bankans að leita staðfestingar.  Varnaraðili hafnar þeim fullyrðingum sóknaraðila að undirritun stjórnarformanns sókn­­ar­­aðila á umboð til handa Bjarka Steini og aðrar undirritanir hans á skjölum í bank­anum hafi gefið tilefni fyrir varnaraðila til að leita sérstakrar staðfestingar á und­ir­ritun stjórnarformannsins á umræddu umboði.  Telur varnaraðili þvert á móti að fullt tilefni hefði verið til að líta svo á að umboðið stafaði frá þar til bærum aðila og fæli í sér heimild til handa umboðshafa til að skuldbinda umboðsgjafann, sóknaraðila, með þeim hætti sem gert hafi verið.  Telji sóknaraðili að undirskrift stjórnarformannsins hafi verið fölsuð á umræddu umboði sé þar að sjálfsögðu um refsivert athæfi að ræða sem hann ætti að kæra til lögreglu.

Beri varnaraðili ekki ábyrgð á þeirri skuld sem stofnast hafi á reikningi sóknaraðila vegna yfirdráttar.  Beri því að hafna kröfu sóknaraðila.

Kröfu sóknaraðila um dráttarvexti af höfuðstól kröfunnar frá 18. október 2007 til greiðsludags sé hafnað á sömu forsendum og kröfu hans um greiðslu höfuðstóls enda sé hún vanreifuð og órökstudd.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og meginreglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar.  Kröfu um málskostnað styður varn­­araðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðis­auka­skatt á málflutningsþóknun byggir hann á lögum nr. 50/1988 um virðisauka­skatt.

V

Enda þótt fallast megi á það með varnaraðila málatilbúnaður sóknaraðila sé ekki skýr og glöggur má af skjölum málsins ráða að viðskipti þau sem sóknaraðili byggir kröfur sínar á fóru fram á árinu 2006 og 2007.  Verður því ekki annað séð en að varnaraðili sé réttur aðili að málinu.

Skilja má málatilbúnað sóknaraðila þannig að varnaraðili beri ábyrgð á yfirdrætti þeim sem myndaðist á reikningnum, þar sem Bjarki Steinn Jónsson hefði yfirdregið reikn­ing­inn án heimildar og hefði varnaraðila átt að vera það ljóst.  Af kröfugerð sókn­ar­aðila má ráða að hann telji sig eiga rétt á að fá greiddan mismuninn á þeim 16.700.000 krónum sem greiddust inn á umræddan reikning 18. október 2007 að frádregnum 4.500.000 krónum þar sem ráðstöfun þeirrar fjárhæðar hafi verið heimil.

Eins og rakið hefur verið liggur fyrir í málinu umboð, undirritað af fyrirsvarsmanni sóknaraðila, til handa Bjarka Steini Jónssyni til úttektar á umræddum bankareikningi sóknaraðila.  Bera gögn málsins með sér að eftir 21. september 2006 hafi umræddur Bjarki Steinn verið skráður umráðamaður reikningsins hjá varnaraðila.  Fyrirsvars­maður sóknaraðila kveðst ekki reka minni til þess að hafa gefið Bjarka Steini umrætt umboð en samt sem áður sá hann ástæðu til að fella sérstaklega niður umboð til sama aðila.  Hefur sóknaraðili ekki kært meinta skjalafölsun til lögreglu.  Hefur umboði þessu því ekki verið hnekkt með nokkru móti.

Þegar gögn málsins eru virt þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á það með hald­bær­um gögnum að varnaraðili hafi á nokkurn brugðist skyldum sínum gagnvart sóknar­aðila þannig að hann beri ábyrgð á yfirdrætti þeim sem myndaðist á reikningi sóknar­aðila hjá varnaraðila.  Hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna þessara viðskipta og verður kröfum hans því hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins vera hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Páll Arnór Pálsson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið  Páll Eiríksson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er sú afstaða slitastjórnar varnaraðila Glitnis banka hf., að hafna kröfum sóknaraðila, Fósturmoldar ehf. við slit varnaraðila.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.