Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2001
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Galli
- Afsláttur
|
|
Fimmtudaginn 21. mars 2002. |
|
Nr. 363/2001. |
Fríða B. Aðalsteinsdóttir og Guðmundur S. Guðmundsson (Þórður Cl. Þórðarson hrl.) gegn Hauki Friðrikssyni og Sigríði Önnu Ragnarsdóttur (Þorsteinn Einarsson hrl.) og gagnsök |
Fasteignakaup. Gallar. Afsláttur.
H og S, sem keypt höfðu einbýlishús af F og G, báru fram kvartanir vegna galla sem þau töldu vera á húsinu og héldu eftir hluta af kaupverðinu upp í skaðabætur eða afslátt, sem þau töldu sig eiga rétt á vegna gallanna. F og G höfðuðu í kjölfarið mál til innheimtu greiðslunnar sem haldið var eftir. H og S kröfðust sýknu þar eð krafa þeirra vegna gallanna næmi hærri fjárhæð en krafa F og G um eftirstöðvar kaupverðsins. Jafnframt höfðuðu H og S sérstakt mál fyrir héraðsdómi þar sem krafist var greiðslu mismunarins. F og G voru sýknuð í því máli. Þeim dómi var ekki áfrýjað og ekki var á það fallist að sú málsókn H og S ætti sjálfkrafa að leiða til þess að vísa yrði frá héraðsdómi kröfu þeirra um sýknu vegna skuldajöfnuðar í þessu máli. Þóttu H og S eiga rétt á afslætti vegna ýmissa galla. Var greiðsla þeirra samkvæmt þessu lækkuð í hlutfalli við kaupverðið og afslátturinn ákveðinn að álitum í einu lagi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. september 2001. Þau krefjast þess að gagnáfrýjendur verði sameiginlega dæmd til að greiða þeim 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. nóvember 2001. Þau krefjast sýknu af kröfu aðaláfrýjenda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila er sprottinn af kaupum gagnáfrýjenda 20. janúar 2000 á einbýlishúsi aðaláfrýjenda við Garðsenda 21 í Reykjavík. Eftir að húsið var afhent hinum fyrrnefndu töldu þau sig verða vör við ýmsa galla á því, sem þeim hafi verið ókunnugt um þegar kaupin voru gerð. Báru þau af þeim sökum fram kvartanir með bréfum 7. júní 2000 og 31. júlí sama árs. Héldu gagnáfrýjendur síðan eftir 1.000.000 krónum af kaupverðinu, sem voru í gjalddaga 1. ágúst 2000, upp í skaðabætur eða afslátt, sem þau töldu sig eiga rétt á frá aðaláfrýjendum vegna gallanna. Höfðuðu hin síðastnefndu í kjölfarið mál þetta til innheimtu greiðslunnar, sem haldið var eftir, og var það þingfest fyrir héraðsdómi 21. september 2000.
Með bréfi 14. ágúst 2000 leituðu gagnáfrýjendur eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur yrði maður til að skoða og meta fasteignina og þá galla, sem þau töldu hana vera haldna. Voru tilgreind í sjö liðum þau atriði, sem skoðun og mat skyldi taka til, svo sem nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi. Var matsmaður dómkvaddur 28. ágúst 2000 og er matsgerð hans dagsett 7. nóvember sama árs. Taldi hann að kostnaður við að bæta úr göllunum næmi samtals 1.379.700 krónum. Lögðu gagnáfrýjendur matsgerðina fram í héraðsdómi með greinargerð sinni 21. nóvember 2000 og kröfðust sýknu þar eð krafa þeirra vegna gallanna næmi hærri fjárhæð en krafa aðaláfrýjenda um eftirstöðvar kaupverðsins. Reistu þau kröfuna á matsgerðinni með tveimur minni háttar frávikum þannig að endanleg fjárhæð kröfu þeirra varð 1.383.700 krónur. Jafnframt höfðuðu gagnáfrýjendur sérstakt mál fyrir héraðsdómi, þar sem krafist var greiðslu mismunarins, 383.700 króna úr hendi aðaláfrýjenda. Voru hin síðastnefndu sýknuð í því máli og hefur dóminum ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar. Verður ekki fallist á með aðaláfrýjendum að framangreind málsókn gagnáfrýjenda til heimtu mismunarins eigi sjálfkrafa að leiða til þess að vísað verði frá héraðsdómi kröfu gagnáfrýjenda um sýknu vegna skuldajöfnuðar í þessu máli.
II.
Aðilum ber ekki saman um hvenær gagnáfrýjendur skoðuðu eignina, sem um ræðir í málinu, áður en kaupin voru ráðin. Tilboð fóru á milli þeirra í lok desember 1999 og 4. janúar 2000 mun boð gagnáfrýjenda hafa verið samþykkt. Halda aðaláfrýjendur fram að gagnáfrýjendur hafi skoðað húsið í september 1999 og síðan aftur eftir það. Hin síðastnefndu staðhæfa hins vegar að af þeirra hálfu hafi húsið fyrst verið skoðað í lok nóvember 1999 og aftur viku síðar. Hafi aðstæður í bæði skiptin verið þannig að ókleift hafi verið að skoða þak hússins vegna snjóalaga, svo sem staðfest hafi verið í málinu með vottorði Veðurstofu Íslands. Hafa þau jafnframt lagt fram söluyfirlit fyrir eignina frá fasteignasölunni, sem hafði hana í sölu, sem þau segja að hafi verið sent þeim með símbréfi 25. nóvember 1999, svo sem sjá megi á móttökustaðfestingu á skjalinu. Aðaláfrýjendur hafa hins vegar engum stoðum rennt undir staðhæfingar sínar um að gagnáfrýjendur hafi skoðað húsið mörgum mánuðum áður en þau gerðu tilboð um kaup á því.
Einn liður í kröfu gagnáfrýjenda er vegna galla á frárennslislögnum hússins. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjendur eigi rétt á afslætti vegna gallans, en mat á kostnaði við að bæta úr honum nemur samtals 687.500 krónum. Sama niðurstaða verður um kröfulið fyrir galla í raflögnum hússins og er lögð til grundvallar sú niðurstaða matmanns að kostnaður við úrbætur nemi 65.000 krónum. Kröfuliður vegna klæðningar í lofti verður af sömu ástæðum tekinn til greina, en samkvæmt matsgerðinni nemur kostnaður við þær úrbætur 77.400 krónum og ennfremur kröfuliður vegna galla í stjórnbúnaði í mælagrind fyrir hitaveitu, sem samkvæmt matsgerð kostar 20.000 krónur að bæta úr. Þá verður einnig fallist á með vísan til forsendna héraðsdóms að gagnáfrýjendur eigi rétt á afslætti vegna galla í þaki hússins. Kostnaður við úrbætur nemur samkvæmt matsgerð 368.000 krónum, en hluti af honum eða 161.000 krónur er fyrir háþrýstiþvott, „burstun, menjun, málningu“. Þótt fallist sé á með gagnáfrýjendum að ekki hafi verið unnt að kanna ástand þaksins gátu þau heldur ekki gengið út frá því sem gefnu að það væri nýmálað, en framangreindir fjórir kostnaðarliðir lúta fremur að eðlilegu viðhaldi þakjárnsins en galla á því. Getur sá hluti kostnaðarins ekki komið til neinna álita við mat á afslætti vegna galla í þakinu. Öðrum kröfuliðum gagnáfrýjenda er hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms.
Það leiðir af reglum um afslátt sem úrræðis vegna vanefnda á gagnkvæmum samingi að lækka ber greiðslu gagnáfrýjenda í hlutfalli við kaupverðið. Þykir mega ákveða afslátt að álitum í einu lagi. Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, þykir afsláttur hæfilega metinn 900.000 krónur. Ber gagnáfrýjendum samkvæmt því að greiða aðaláfrýjendum 100.000 krónur með dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði, og er þá litið til þess að gagnáfrýjendur skutu ekki haldbærum stoðum undir kröfu sína fyrr en með matsgerð, sem lögð var fram á dómþingi 21. nóvember 2000 eins og áður var getið. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Skulu aðaláfrýjendur greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjendur, Haukur Friðriksson og Sigríður Anna Ragnardóttir, greiði óskipt aðaláfrýjendum, Fríðu B. Aðalsteinsdóttur og Guðmundi S. Guðmundssyni, 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.000.000 krónum frá 1. ágúst 2000 til 21. nóvember sama árs, en af 100.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjendum samtals 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 1. júní sl. að lokinni aðalmeðferð, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 13. september 2000. Málið var þingfest 21. september 2000.
Stefnendur eru Fríða B. Aðalsteinsdóttir, kt. 070354-2259, og Guðmundur S. Guðmundsson, kt. 230241-2019, bæði til heimilis að Staðarseli 8, Reykjavík.
Stefndu eru Haukur Friðriksson, kt. 211256-4009 og Sigríður Anna Ragnarsdóttir, kt. 030955-5289, bæði til heimilis að Garðsenda 21, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.000.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til greiðsludags, auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar- reikningi að viðbættum 24,5% sérstökum virðisaukaskatti. Stefnendur krefjast þess jafnframt að kveðið verði á um það í dómi að leggja megi dráttarvexti við höfuðstól kröfunnar og reikna dráttarvexti af höfuðstól þannig uppreiknuðum á 12 mánaða fresti.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda. Stefndu krefjast þess jafnframt að skuldajafnað verði hluta kröfu þeirra um afslátt og/eða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 á móti kröfu stefnenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs sömu fjárhæðar. Þá krefjast stefndu þess að stefnendur verði in solidum dæmd til greiðslu málskostnaðar, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti, samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi.
Leitað var sátta í málinu án árangurs.
II
Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dags. 20. janúar 2000 seldu stefnendur stefndu fasteignina nr. 21 við Garðsenda í Reykjavík. Umsamið kaupverð var kr. 17.800.000 og var fasteignin afhent stefndu 15. febrúar 2000. Samkvæmt kaupsamningi bar stefndu að greiða lokagreiðslu að fjárhæð 3.457.292 kr. þann 1. ágúst 2000. Áður en til þess kom höfðu stefndu uppi kröfur vegna ætlaðra galla á fasteigninni sem stefnendur mótmæltu á þeim forsendum að verið væri að selja tæplega 50 ára gamalt hús og verðlagning þess samkvæmt því.
Stefndu kváðu gallana felast í óþef í baðherbergjum á miðhæð og efstu hæð hússins vegna ónýtra frárennslislagna undir húsinu, lélegu þaki, móðu í rúðum í stofugluggum, bilaðri kamínu, ónógri einangrun í lofti á miðhæð, lélegum raflögnum auk ýmissa smærri galla.
Stefndu létu mynda frárennslislagnir hússins og skilaði TV tækniþjónusta verktaka ehf. skýrslu sinni 29. maí 2000. Þá fengu stefndu Pétur H. Hjálmarsson löggiltan rafvirkjameistara til að meta ástand raflagna og er skýrsla hans dagsett 24. júlí 2000. Þann 3. ágúst 2000 greiddu stefndu 2.457.292 kr. og héldu því eftir 1.000.000 kr. vegna ætlaðra galla á fasteigninni en það er stefnufjárhæðin í máli þessu.
Í bréfi dagsettu 7. júní 2000 kvörtuðu stefndu við stefnendur yfir ástandi hússins og kröfðu stefnendur um greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.100.000 vegna galla á eigninni og áskildu sér frekari rétt. Í bréfi dagsettu 31. júlí 2000 ítrekuðu stefnendur kröfur vegna verulegra leyndra galla og kröfðu stefnendur um greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar af kaupverði að fjárhæð kr. 1.552.439.auk lögmannskostnaðar. Í bréfinu tilkynntu stefndu stefnendum að þau myndu halda eftir kr. 1.676.580 af kaupsamningsgreiðslu sem þeim bæri að inna af hendi 1. ágúst 2000 vegna galla á fasteigninni. Með bréfi lögmanns stefnenda dagsettu 1. ágúst 2000 var kröfum stefndu hafnað og þeirri ætlun stefndu mótmælt að halda eftir greiðslu vegna galla.
Stefndu héldu eftir kr. 1.000.000 af lokagreiðslu kaupverðs kr. 3.457.292 þann 1. ágúst 2000 og fylgdi greiðslunni að fjárhæð kr. 2.457.292 bréf til stefnenda dags. 3. ágúst 2000 þar sem stefndu skýrðu ástæðu þess. Þau teldu kröfu sína hærri en kr. 1.000.000 og tilkynntu að þau myndu krefja stefnendur um greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar vegna galla á eigninni að fjárhæð kr. 1.673.580 eða eftir atvikum hærri fjárhæð.
Ragnar Ragnarsson, byggingaverkfræðingur, var þann 28. ágúst 2000 dómkvaddur til að leggja mat á ætlaða galla hússins og er matsgerð hans dagsett 7. nóvember 2000.
III
Stefnendu byggja kröfur sínar á því að áður en til kaupsamningsgerðar hefði komið hefðu stefndu haft uppi kröfur vegna ætlaðra galla sem stefnendur hefðu mótmælt. Þann 3. ágúst 2000 hefðu stefndu greitt kr. 2.457.292 og þannig haldið eftir 1.000.000 kr. vegna ætlaðra galla. Stefnendur hefðu af sinni hálfu uppfyllt öll ákvæði kaupsamningsins og því ekki sætt sig við þessa einhliða ákvarðanatöku stefndu.
Skuld þessi hefði ekki fengist greidd þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og hefði því málshöfðun verið nauðsynleg.
Vísað sé til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og þeirrar meginreglu íslensks réttar að samninga skuli efna. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnendur við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfur um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 36. gr. laga nr. 91/1991.
Sýknukröfu sína kveðast stefndu byggja á því að hin keypta fasteign hefði verið haldin verulegum og leyndum göllum við kaupin og að hún hefði ekki verið haldin þeim kostum sem áskildir voru. Stefndu hefðu sýnt fram á með matsgerð dómskvadds manns, matsgerð TV tækniþjónustu verktaka ehf. og umsögn Péturs Hjálmarssonar að krafa þeirra á hendur stefnendum væri hærri en krafa stefnenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs 1.000.000 kr. Stefndu hefði því verið heimilt að halda eftir greiðslu þeirri, sem þeim bar samkvæmt kaupsamningis að inna af hendi þann 1. ágúst sl., til að mæta kröfum sínum á hendur stefnendum vegna galla á eigninni. Krafa stefndu á hendur stefnendum sé um afslátt og/eða greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.383.700 kr. og krefjist stefndu þess að skuldajafnað verði hluta kröfu þeirra um afslátt og/eða skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. á móti kröfu stefnenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs sömu fjárhæðar og þau því sýknuð af kröfum stefnenda. Stefndu vísi til máls sem þau höfðuðu og þingfest 21. nóvember 2000 á hendur stefnendum til greiðslu eftirstöðva þeirrar kröfu 383.700 kr. auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Stefndu byggi á því að gallar á húsinu hafi verið leyndir og að stefndu hefðu ekki mátt gera sér grein fyrir þeim við skoðun. Þá byggi stefndu á því að stefnendur hafi með sviksamlegum hætti leynt þau upplýsingum um ástand fasteignarinnar við skoðun. Stefnendur hefðu ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni svo sem þeim hefði verið skylt samkvæmt reglum kröfuréttar. Útilokað sé að stefnendur hafi ekki haft vitneskju um óþef í baðherbergjum og skordýr í kjallara hússins. Stefnendur hefðu fullyrt að þakjárn hússins væri í lagi og að þakjárn hefði verið viðgert. Snjór hefði verið á þaki er stefndu skoðuðu húsið fyrir kaupin og hefðu þau því ekki getað gert sér grein fyrir ástandi þaks. Ljóst sé að stefnendur hefðu vitað um ástand þaksins og því liggi fyrir að þau hafi leynt stefndu þeim upplýsingum. Þá telji stefndu augljóst að stefnendur hafi haft vitneskju um móðu í rúðum í stofugluggum. Stefndu hafi ekki verið þetta ljóst við skoðun enda verið myrkur úti þegar skoðun hefði farið fram. Þá hefðu stefnendur upplýst sérstaklega að skipt hefði verið um gler í stofugluggum.
Augljóst sé að stefnendur hafi haft vitneskju um að kamína sótaði inn í stofu, reykspjald hafi verið gallað og hurð hafi vantað fyrir eldstó. Þá telji stefndu að stefnendur hafi haft vitneskju um ástand raflagna hússins, enda hefðu þau búið þar um langan tíma. Um ástand raflagna hefðu stefnendur þagað fyrir kaupin. Stefndu bendi jafnframt á að við kaup þeirra á fasteigninni hefði m.a. verið áskilið
- að frárennslislagnir væru ekki ónýtar.
- að þakjárn væri ekki stórskemmt.
- að rúður í gluggum væru ekki skemmdar.
- að kamína í stofu væri í lagi.
- að rafmagnslagnir væru í löglegu ástandi.
- að þakrennur væru ekki skemmdar.
- að stjórnbúnaði í í mælagrind fyrir hitaveitu væri ekki ábótavant.
Fljótlega eftir að stefndu hefðu fengið fasteignina afhenta hefðu komið í ljós verulegir og leyndir gallar á fasteigninni sem stefndu hefðu ekki verið upplýstir um við skoðun eignarinnar fyrir kaupin. Stefndu byggi á því að þau eigi kröfu á hendur stefnendum um skaðabætur og/eða afslátt af kaupverði fasteignarinnar vegna galla á eigninni, sem nemi hærri fjárhæð en kröfu stefnenda, og krefjist stefndu þess að hluta kröfu þeirra verði skuldajafnað á móti kröfu stefnenda, og þau því sýknuð af kröfum stefnenda í málinu.
Stefndu hefðu fljótlega orðið vör við óþef í baðherbergjum á miðhæð og efstu hæð hússins. Þá hefðu þau orðið vör við skordýr í kjallara hússins. Vegna þessa hefðu þau látið mynda frárennslislagnir hússins og þá komið í ljós að frárennslislagnir undir húsinu væru ónýtar. Niðurstaða TV tækniþjónustu verktaka ehf. um ástand lagna og kostnað af lagfæringum á þeim sé eftirfarandi:
"Þar kemur fram að lagnir séu lélegar, svo virðist sem samskeyti á lögnum og lagnir séu óþéttar og töluvert skemmdar lagnir mis signar og mis þéttar og veldur þetta trúlega því að frárennsli lekur í gegnum samskeyti og verður trúlega eftir í grunni hússins sem síðar veldur raka í húsinu. Ekki er hér fullyrt um ástand lagna í heild sinni né hægt að segja til um lagnir í veggjum með nokkurri nákvæmni á þessu stigi. "
Úrbætur:
"Til að koma lögnum í viðunandi horf er talið ráðlegt að endurnýja og breyta lögnum í grunni, setja brunn fyrir utan húsið og tengja síðan lögn frá brunni við lögn í götu. Ekki er víst að nauðsynlegt sé að fjarlægja lagnir sem fyrir eru undir botnplötu. Gera má ráð fyrir að hægt sé að saga sundur botnplötu og setja nýja lögn undir botnplötu. Einnig verður að gera ráð fyrir að við framkvæmd sem þessa verði að endurnýja gólfefni á þeim stöðum sem þarf að brjóta eða saga upp plötu.
Kostnaður við þessar lagfæringar er áætlaður að sé um 600.000 kr."
Þá hefði fljótlega komið í ljós að járn á þaki var víða mjög skemmt. Stefndu hefðu fengið sama aðila til að meta ástand þakjárns og segi m.a. eftirfarandi um ástand þakjárns og nauðsyn úrbóta í skýrslu þess aðila dags. 29. maí 2000:
"Skemmdir eru á um tólf til þrettán þakplötum. Víða er búið að lagfæra einhverjar skemmdir á þakjárni og bletta yfir. Annars staðar eru skemmdir eða göt á plötum sem ekki hefur verið gert við. Á einum stað er þakjárn að losna frá þakklæðningu og er það við útbrun þaks við suðurhlið á efra þaki. Rakablettir eru á bita í stofu undir þakfleti."
Úrbætur:
"Til að fyrirbyggja leka er talið nauðsynlegt að fara í eftirtalda framkvæmd Fjarlægja skemmdar þakplötur og þakpappa og koma á SORPU. Setja nýja þakpappa og setja nýtt þakjárn og áfellur.
Kostnaður við þessar lagfæringar er áætlaður að sé um 125.000 kr."
Er stefndu hefðu skoðað fasteignina fyrir kaupin hefði verið snjór á þaki hennar og stefnendur fullyrt að þakið væri í lagi enda hefðu þau látið gera við þak hússins. Stefndu telji ljóst að þær upplýsingar stefnenda hafi verið rangar og að stefnendur hafi leynt upplýsingum um ástand þakjárns.
Við skoðun eignarinnar fyrir kaupin hefðu stefnendur upplýst að þeir hefðu nýlega látið skipta um gler í gluggum í stofu hússins en móða hefði verið í þremur rúðum í stofunni sem hefði komið í ljós er stefndu fluttu inn. Hefðu stefndu ekki veitt þeim ágöllum á gleri í gluggum athygli við skoðun hússins fyrir kaupin enda myrkur og stefndu ekki talið ástæðu til að kanna sérstaklega ástand glers í gluggum vegna upplýsinga stefnenda.
Í ljós hefði komið er stefndu fluttu í húsið að kamína í stofu hefði verið ónothæf og því haldin verulegum göllum. Er stefndu hefðu kveikt upp í kamínunni hefði hún sótað inn. Vegna þessa hefðu stefndu orðið að leggja á sig mikla vinnu við að þrífa sót af veggjum og gólfi. Stefnendum hefði verið kunnugt um ástand kamínu og hefðu þeir leynt stefndu upplýsingum um ástand hennar.
Kamínan hefði verið fjarlægð úr stofunni. Þá hefði komið í ljós að stofuloft var aðeins með einnar tommu einangrun en það sé ófullnægjandi og í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar. Þá hefði komið í ljós er unnið hefði verið við rafmagn í fasteigninni, að klætt hefði verið yfir dósir í stofulofti og lofti í gangi. Sá frágangur sé ólöglegur og beinlínis hættulegur og hefði orðið að fjarlægja klæðningu úr stofuloftum til að aftengja rafmagnsdósir og loftaklæðningar orðið ónýtar við þá framkvæmd.
Fljótlega hefði komið í ljós að raflagnir í húsinu voru í mjög slæmu ásigkomulagi og því hefðu stefndu leitað til Péturs H. Hjálmarssonar, löggilts rafvirkjameistara, og hefði hann skilað skýrslu sinni þann 24. júlí 2000. Teldi Pétur að kostnaður við að bæta úr ágöllum raflagnar væri á bilinu 220.000 til 270.000 kr.
Stefndu vísi til helstu niðurstaðna dómkvadds matsmanns, Ragnars Ragnarssonar byggingarverkfræðings, um galla fasteignarinnar sem séu samkvæmt matsgerð eftirfarandi:
Frárennslislagnir:
"Frárennslislagnir í veggjum eru steypujárnspípur og eru þær taldar í lagi. Frárennslislagnir undir og frá húsi eru steinsteyptar pípur. Líftíma þeirra er talinn lokinn
(sic) og leggja þarf nýjar lagnir undir og frá húsi. Heildarkostnaður við lagningu nýrra lagna og frágangs er áætlaður 687.500 kr."
Þak:
"Málning þaks er að flagna af og ryðblettir hafa víða myndast. Háþrýstiþvo þarf þakið, bursta ryðbletti, menja með ryðvarnarmenju og skipta um 30 m² af þakjárni. Þar sem skipt er um þakjárn skal leggja eitt lag af þakpappa ofan á þann sem fyrir er. Bæta þarf neglingu á öllu þakinu, setja áfellur á neðra þak við útvegg á 2. hæð og mála tvær umferðir af þakmálningu. Heildarkostnaður við ofangreint er 368.000 kr."
Rúður í stofugluggum:
"Móða sest á milli glerja í glugga í borðstofunni, sem er með þremur rúðum. Skipta þarf um rúður í gluggann. Heildarkostnaður er áætlaður 60.800 kr."
Kamína:
"Ástæða þess að kamína sótaði var að reykspjald var illa smíðað og stóð fast í reykrörinu. Auk þess vantaði hurð fyrir eldstóna. Heildarkostnaður við að smíða nýtt reykspjald og nýja hurð er áætlaður 40.000 kr."
Einangrun í lofti á miðhæð:
"Einangrun lofts með eins tommu plasteinangrun var fullnægjandi miðað við kröfur sem voru gerðar í byggingarsamþykkt sem gilti þegar húsið var byggt. Heildarkostnaður við að bæta einangrun og skipta um loftaklæðningu er áætlaður 113.400 kr."
Raflagnir:
"Raflögn í kjallara og bílskúr er ekki fagmannlega lögð. Jarðtengingum er víða ábótavant, meðal annars í bílskúr og við útiljós. Festing strengja er víða ófullnægjandi. Þegar ný heimtaug var lögð og ný rafmagnstafla sett upp gekk rafverktaki ekki frá sínu verki, meðal annars gekk hann ekki frá jarðtengingum. Raflagnir í kjallara og bílskúr eru að öðru leyti í samræmi við reglur er giltu þegar fasteignin var byggð. Strangari reglur gilda nú um jarðtengingar og frágang en áður giltu. Lagfæra þarf tengil fyrir þvottavél og jarðtengingu hans. Skipta þarf um tengil í herbergi þar sem rafmagnstaflan er. Á nokkrum stöðum þarf að festa strengjum betur. Lagfæra þarf innkomu í inntaksbox. Jarðtengja þarf búnað í bílskúr og skipta um strengjalagnir vegna jarðtengingar á búnaði. Jarðtengja þarf útiljós. Hægt hefði verið að leggja strenglögn frá stjórntöflu um stofu og út í bílskúr þegar ný raflögn var lögð í stofuloft og eldhús. Kostnaður við þá lögn er áætlaður 10.000 kr. Heildarkostnaður vegna ofangreinds er áætlaður 65.000 kr. Úr því sem komið er þarf að leggja nýja strenglögn frá stjórntöflu um kjallara, í jörð og út í bílskúr og er kostnaður við þá lögn áætlaður 50.000 kr."
Aðrir gallar:
"Þakrennur þarf að bursta og menja að innanverðu. Um er að ræða 25 m af þakrennum. Huga þarf að niðurföllum við þakrennurnar. Áætlaður kostnaður við þakrennur er 25.000 kr. Stjórnbúnaði í mælagrind fyrir hitaveitu er ábótavant. Mismunaþrýstiloki er laskaður. Hitakerfið var áður með slaufu, væntanlega upp undir þak, til að halda uppi bakþrýstingi. Þegar hitaveita var tengd hefur ekki verið settur bakþrýstiloki í mælagreindina (sic) eins og venja er. Kostnaður (sic) við endurbætur vegna stjórnloka er áætlaður 20.000 kr."
Kostnað við viðgerð á göllum fasteignarinnar sundurliði matsmaður þannig:
1. Frárennslislagnir:
|
Hönnun frárennslislagna í grunni |
1 heild á kr. 60.000.- |
kr. 60.000.- |
|
Brjóta upp gólf og leggja nýjar lagnir, loka gólfi |
10 m á kr. 15.000.- |
kr. 150.000.- |
|
Brot í gegnum sökkla |
4 stk. á kr. 5.000.- |
kr. 20.000.- |
|
Lögn meðfram húsi að vestanverðu að brunni |
10 m á kr. 8.000.- |
kr. 80.000.- |
|
Lögn frá eldhúsi utanhúss að brunni |
20 m á kr. 6.000.- |
kr. 120.000.- |
|
Brunnur, 1,0 m |
1 stk. á kr. 100.000.- |
kr. 100.000.- |
|
Útlögn frá brunni í göturæsi |
15 m á kr. 5.000.- |
kr. 75.000.- |
|
Nýtt spónaparket á stigagang |
10 m á kr. 6.000.- |
kr. 60.000.- |
|
Málun þvottahúss |
5 m á kr. 1.000.- |
kr. 5.000.- |
|
Nýjar flísar á anddyri kjallarainngangs |
2,5 á kr. 7.000.- |
kr. 17.500.- |
|
|
Samals |
kr. 687.500.- |
|
2. Þak. |
|
|
|
Háþrýsiþvottur |
100 m á kr. 440 |
kr. 44.000.- |
|
Burstun, menjun, málning |
130 m á kr. 900 |
kr. 117.000.- |
|
Blikkáfellur við steinvegg |
11 m á kr. 1.800.- |
kr. 19.800.- |
|
Skipt um þakjárn og þakpappa |
30 m á kr. 3.300.- |
kr. 99.000.- |
|
Bæta neglingu |
100 m á kr. 700 |
kr. 70.000.- |
|
Skipt um kjaljárn |
13 m á kr. 1.400.- |
kr. 18.200.- |
|
|
Samtals |
kr. 368.000.- |
|
2. Rúður í stofugluggum. |
|
|
|
Taka úr gler og fjarlægja |
1 heild á kr. 10.000.- |
kr. 10.000.- |
|
Gluggi 2,1 x 1,6, þrískiptur |
3,4 m á kr. 12.000.- |
kr. 40.800.- |
|
Málun gluggalista og karma |
1 heild á kr. 10.000.- |
kr. 10.000.- |
|
|
Samtals |
kr. 60.800.- |
|
3. Kamína |
|
|
|
Ný hurð fyrir eldstó og nýtt reykspjald |
1 heild á kr. 40.000.- |
kr. 40.000.- |
|
4. Einangrun í lofti á miðhæð. |
|
|
|
Fjarlægja panel |
18 m á kr. 800.- |
kr. 14.400.- |
|
Steinull milli sperra og rakavarnarlag |
18 m á kr. 2.000.- |
kr. 36.000.- |
|
Ný loftaklæðning |
18 m á kr. 3.500.- |
kr. 63.000.- |
|
|
Samtals |
kr. 113.400.- |
|
5. Rafmagn. |
|
|
|
Lagfæra tengil f. þvottavél, jarðtengingu, inntaksbox o.fl. |
festingar strengja, innkomu í |
kr. 30.000.- |
|
Jarðtengja búnað í bílskúr, skipta um jarðtengingar á búnaði |
strengjalagnir vegna |
kr. 20.000.- |
|
Jarðtenging á útiljósum |
|
kr. 5.000.- |
|
Strenglögn frá stjórntöflu um stofu og út |
í bílskúr |
kr. 10.000.- |
|
|
Samtals |
kr. 65.000.- |
Þá meti matsmaður kostnað við að leggja nýja strenglögn frá stjórntöflu um kjallara, í jörð og út í bílskúr vera 50.000 kr.
|
6. Aðrir gallar. |
|
|
Mælagrind hitaveitu mismunaþrýstiloki og slaufuloki |
kr. 25.000.- |
|
Þakrennur - burstun og menjun að innanverðu |
kr. 20.000.- |
|
Samtals |
kr. 45.000.- |
Niðurstaða matsmanns sé að heildarkostnaður við viðgerð á göllum fasteignarinnar sé 1.379.700 kr. að viðbættum 50.000 kr. vegna strenglagnar út í bílskúr.
Stefndu byggi á fyrrgreindri matsgerð og telja að hún staðfesti að fasteignin hafi verið haldin leyndum og verulegum göllum er kaup áttu sér stað og að fasteignin hafi ekki verið haldin þeim kostum sem áskildir voru við kaupin. Stefndu krefjist þess að skuldajafnað verði hluta kröfu þeirra á hendur stefnendum um skaðabætur og/eða afslátt af kaupverði, að fjárhæð 1.000.000 kr. auk dráttarvaxta frá l. ágúst sl. á móti kröfum stefnenda og þau því sýknuð af kröfum stefnenda. Krafa stefndu um skaðabætur og/eða afslátt sé að fjárhæð 1.383.700 kr. og sundurliðist þannig:
|
Vegna frárennslislagna, sjá lið 4.1 í matsgerð |
kr.687.500.- |
|
Vegna þaks, sjá lið 4,2 í matsgerð |
kr.368.000.- |
|
Vegna rúða í stofugluggum, sjá lið 4,3 í matsgerð |
kr. 60.800.- |
|
Vegna kamínu, sjá lið 4,4 í matsgerð |
kr. 40.000.- |
|
Vegna einangrunar í lofti, sjá lið 4,5 í matsgerð |
kr. 77.400.- |
|
Vegna rafmagns, sjá lið 4,6 í matsgeð |
kr.105.000.- |
|
Vegna annarra galla, sjá lið 4,7 í matsgerð |
kr. 45.000.- |
|
Samtals |
kr. 1.383.700.- |
Krafa stefndu byggi á fyrrgreindri matsgerð að öllu leyti hvað varðar liði nr. 4.1, 4.2, 4.3, 4.4 og 4,7 í matsgerð. Krafa stefndu um skaðabætur og/eða afslátt af kaupverði vegna einangrunar í lofti sé um greiðslu kostnaðar við að fjarlægja panel í lofti og vegna kaupa á nýrri loftaklæðningu, sbr. liður 4.5 í matsgerð. Stefndu byggi ekki á að einangrun í stofulofti hafi verið gölluð. Hins vegar sé á því byggt að nauðsynlegt hafi verið vegna ágalla í raflögn að rífa loftaklæðningu í stofu enda hefði verið klætt yfir rafmagnsdósir í stofulofti væri ólöglegur frágangur og leyndur galli við kaupin. Því hefði verið nauðsynlegt að rífa niður panel og setja upp nýjan. Krafa stefndu um skaðabætur og/eða afslátt af kaupverði vegna ástands rafmagns byggi á lið 4,6 í matsgerð. Stefndu telji kostnað við úrbætur á rafmagni vera 105.000 kr. og sundurliðist krafa þeirra þannig:
|
Lagfæra tengil fyrir þvottavél .... |
kr. 30.000.- |
|
Jarðtengja búnað .... |
kr. 20.000.- |
|
Jarðtenging á útiljósum |
kr. 5.000.- |
|
Kostnaður við að leggja nýja strenglögn frá stjórn-töflu um kjallara, í jörð og út í bílskúr |
kr. 50.000.- |
|
Samtals |
kr. 105.000.- |
Stefndu telji rangt sem greinir í matsgerð að auðvelt hefði verið að leggja strenglögn frá stjórntöflu um stofu og út í bílskúr. Raflögn sem fyrir var hefði verið fullnýtt og ekki unnt að bæta við úrtökum á þá lögn. Ef ný lögn hefði verið lögð hefði þurft að brjóta upp steypta veggi og loft og telji stefndu að kostnaður við þá framkvæmd hefði orðið mun hærri en við að leggja nýja strenglögn frá töflu um kjallara, í jörð og út í bílskúr. Stefndu krefjist því skaðabóta og/eða afsláttar vegna þessa liðs 50.000 kr. í samræmi við matsgerð, en geri ekki kröfu um 10.000 kr. vegna áætlaðs kostnaðar við strenglögn frá töflu um stofu og út í bílskúr samkvæmt matsgerð.
Um heimild til að hafa uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar vísi stefndu til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu byggi kröfur um afslátt og/eða skaðabætur og kröfu um skuldajöfnuð á reglum samninga- og kröfuréttar. Þá vísi stefndu jafnframt til kaupalaga nr. 39/1922, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 42. gr. laganna, sem venja sé að beita með lögjöfnun um skaðabætur og/eða afslátt vegna galla í fasteignakaupum. Stefndu vísi jafnframt til ákvæða skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997. Þá vísi stefndu til eldri byggingalaga nr. 54/1978 og til byggingarsamþykktar fyrir Reykjavík er í gildi var er fasteignin var byggð. Þá vísi stefndu til byggingareglugerðar nr. 441/1998, og jafnframt til eldri byggingareglugerðar nr. 292/1978 ásamt síðari breytingum. Þá vísi stefndu til laga nr. 146/1996, sbr. einnig reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971 með síðari breytingum. Einnig vísi stefndu til eldri reglugerða um raforkuvirki og til dómafordæma.
Krafa stefndu um dráttarvexti styðjist við vaxtalög nr. 25/1987 og krafa stefndu um málskostnað styðjist við 21. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé byggð á lögum nr. 50/1988, en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir og sé þeim því nauðsyn að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnenda.
IV
Mál þetta höfða stefnendur til greiðslu á lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi. Varnir stefndu byggja á því að hin keypta fasteign hafi verið svo gölluð að þeim hafi verið heimilt að halda eftir hluta lokagreiðslunnar. Í máli þessu er því til úrlausnar hvort og þá hverjir gallar hafi verið á fasteigninni og hverju gallarnir varði ef talið verður um galla að ræða.
Ágreiningslaust er að hin selda húseign er um það bil fjörutíu ára gömul og samkvæmt framburði stefnanda Guðmundar S. Guðmundssonar höfðu stefnendur búið í húsinu frá árinu 1987.
Stefndu tilgreina ætlaða galla í greinargerð og verður fjallað um þá hvern fyrir sig í þeirri röð sem þar greinir.
Í framlagðri skýrslu TV tækniþjónustu verktaka ehf., sem áður var lýst er niðurstaða úttektar sú að frárennslislagnir séu lélegar, svo virðist sem samskeyti á lögnum og lagnir séu óþéttar og töluvert skemmdar lagnir missignar og misþéttar, sem valdi því trúlega að frárennsli leki í gegnum samskeyti og verði eftir í grunni hússins, sem síðar valdi raka í húsinu. Ekki er þó í skýrslunni fullyrt um ástand lagna í heild sinni.
Í framlagðri matsgerð dómkvadds matsmanns Ragnars Ragnarssonar, byggingaverkfræðings, kemur fram að frárennslislagnir undir og frá húsi séu steinsteyptar pípur og sé líftíma þeirra lokið svo leggja þurfi nýjar lagnir í grunni, koma fyrir hreinsibrunni utan við hús og frá honum þurfi síðan að leggja nýja lögn í lóð og tengja hana göturæsi.
Ásgeir Halldórsson, verktaki við stífluþjónustu, gaf skýrslu fyrir dóminum í síma en hann tók myndir með röramyndavél af frárennslislögnum hússins. Staðfesti hann að hafa skoðað lagnirnar og kvað hann vera sprungu í lögninni og hún væri slitin. Taldi hann lagnirnar ekki vera í óeðlilegu ástandi miðað við skolplögn í húsi á þessum aldri. Kvað hann skolplykt geta komið upp úr vöskum ef vatnslásar þornuðu.
Fallast ber á það með stefndu að framangreint ástand frárennslislagna undir og frá húsinu teljist vera verulegur og leyndur galli sem ekki sé sjáanlegur við venjulega skoðun kaupanda. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt stefndi Haukur sé löggiltur fasteignasali og hafi skoðað húsið ásamt smiði þegar hann skoðaði í seinna skiptið.
Við mat á því hvort stefnendur hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína verður að líta til framkominna skýrslna. Stefnandi Guðmundur bar fyrir dóminum að hann hefði upplýst stefndu um að búið væri að skipta um kaldavatnslögn en ekki skolplögn. Þá kvaðst hann aldrei hafa orðið var við ólykt eða járnsmiði upp úr niðurfalli. Framburður stefnanda Fríðu Bjargar Aðalsteinsdóttur var á sömu lund og kvaðst hún ekki hafa vitað til þess að frárennslið væri í ólagi. Vitnið Örn Helgason, sem vann við viðgerðir við gólfefni og kaldavatnslögn í húsinu fyrir stefnendur, kvaðst ekki hafa fundið ólykt á baðherbergi þegar hann var við vinnu sína. Ragnar Ragnarsson, dómkvaddur matsmaður, kom einnig fyrir dóminn og bar á þann veg að ástand lagnanna hefði ekki verið sýnilegt við skoðun en fyrst komið í ljós eftir röramyndatöku. Að þessu virtu verður ekki talið sannað að stefnendur hafi orðið varir við framangreindan galla á frárennslislögnum hússins og því hafa þau ekki vanrækt upplýsingaskyldu sína og verður þess vegna ekki felld á þau skaðabótaábyrgð hvað þennan galla varðar. Hins vegar verður ekki talið að stefndu hefðu mátt búast við að lagnir þessar væru svo gallaðar sem þær reyndust vera, þótt um fertugt hús væri að ræða. Er því rétt að fallast á kröfu stefndu um afslátt af kaupverði.
Ágreiningslaust er með aðilum að ekki hefur orðið vart leka frá þaki. Hins vegar er ljóst af ljósmyndum og lýsingu í greinargerð TV tækniþjónustu verktaka ehf. og matsgerð dómkvadds matsmanns að skemmdir eru á tólf til þrettán þakplötum. Víða hafa verið lagfærðar skemmdir og blettað yfir en ekki hefur alls staðar verið gert við skemmdir eða göt á plötum. Stefnandi Guðmundur kvaðst í skýrslu sinni hafa sagt frá því að skipt hefði verið um þak í viðbyggingu en minntist þess ekki að talað hefði verið um gamla þakið. Stefnandi Fríða Björg kvaðst hafa vitað að þakið þarfnaðist málningar en ekki vitað um ryð eða göt á því og minntist þess ekki að stefndu hefðu spurt um ástand þaksins. Fullyrðingu stefndu um að stefnendur hafi upplýst að þakið væri í lagi þegar stefndu skoðuðu verður að telja ósannaða. Hins vegar verður að telja að stefndu hefðu mátt gera ráð fyrir því að þakið væri heilt og verður að telja að skoðun þeirra á þakinu hafi verið nægjanleg. Er þá einnig til þess litið að snjór var á þegar skoðað var. Niðurstaða dómsins er því sú að stefndu eigi að njóta afsláttar vegna galla á þaki.
Það er ósannað að stefnendur hafi fullyrt að búið væri að skipta um gler í stofu á miðhæðinni. Ekki verður talið að móða í rúðum í stofugluggum verði talinn leyndur galli enda sýnilegur við eðlilega skoðun. Ætlast má til að stefndu könnuðu ástand glugganna sérstaklega enda ekki um nýtt hús að ræða. Öllum kröfum stefndu er því hafnað að þessu leyti.
Óumdeilt er að spjald í kamínu var stíft í notkun en ekki verður talið að það sé slíkur galli að varði stefnendur skaðabótum eða afslætti. Þá var augljóst við skoðun að hurð vantaði fyrir eldstó og stefnendum því í lófa lagið að miða kauptilboð sitt við þann galla. Er því öllum kröfum stefndu vegna galla á kamínu hafnað.
Stefnendur kváðust aldrei hafa orðið vör við að rafmagn leiddi út og ekki vitað til þess að það væri ekki í góðu lagi. Í framlagðri matsgerð dómkvadds matsmanns og fylgigögnum með henni eru ýmsar athugasemdir gerðar við rafmagnslagnir hússins. Skorti á jarðtengingu og hafði klæðning verið sett yfir rafmagnsdósir í lofti í stofu og á gangi. Þá bar Pétur Hjálmarsson, rafvirkjameistari, í skýrslu sinni fyrir dóminum að mikið óstand hefði verið á raflögn og að of margir tenglar hefðu verið á hverri grein sem þýddi of mikið álag á kerfið. Það er niðurstaða dómsins að stefndu hafi ekki mátt gera ráð fyrir þessum göllum í rafmagni þótt um sé að ræða raflögn í gömlu húsi enda getur hætta stafað af slíkum frágangi rafmagns og teljast gallarnir verulegir. Þá verður að fallast á það með stefndu að við mat á fjárhæð afsláttar beri að taka tillit til kostnaðar við að fjarlægja panel í lofti og vegna kaupa á nýrri loftaklæðningu í stofu þar sem klætt hafði verið með ólöglegum hætti yfir tengla í lofti.
Fallist er á með stefnda að vöntun á bakþrýstiloka á hitakerfi teljist galli og verður að telja að á honum beri stefnendur þá ábyrgð að veita eigi stefndu afslátt vegna hans. Hins vegar er ekki fallist á það með stefndu að það teljist galli að þessu leyti þótt þurfi að bursta og menja þakrennur enda þjóna þær enn sínu hlutverki að flytja afrennsli þaksins í fráveitukerfi hússins og það, sem lagt er til í matsgerð að gert verði, telst til viðhalds á rennunum en ekki úrbætur á galla í þeim. Verður því ekki tekin til greina krafa um skaðbætur eða afslátt vegna þessa liðar.
Vitnið Þórður Jónsson, fasteignasali, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa skoðað húseignina Garðsenda 21. Hann hefði talið eignina vera í þokkalegu ástandi og hefði upphaflegt verðmat kr. 18.000.000 miðast við það. Ónýtar lagnir eða aðrir gallar hefðu ekki komið til umræðu og því ekki haft áhrif á matið. Aðspurður taldi hann að vitneskja um slíka gallar hefði leitt til lægra verðmats.
Eftir framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefndu beri afsláttur af kaupverði hússins vegna galla. Í framlagðri matsgerð er kostnaður við viðgerð og endurbætur á húsinu vegna þeirra galla, sem dómurinn telur koma hér til skoðunar um kr. 1.200.000. Með hliðsjón af því að þær endurbætur, sem lagt er til að ráðist verði í, munu auka verðgildi hússins, þykir afsláttur eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 800.000.
Stefndu héldu kr. 1.000.000 eftir af lokagreiðslu kaupsamnings aðila en þá greiðslu átti að inna af hendi 1. ágúst 2000. Krefjast þau þess að þeirri greiðslu verði skuldajafnað við kröfur þeirra á hendur stefnendum. Með vísan til framanritaðs er skuldajafnaðarkrafa stefndu tekin til greina að fjárhæð kr. 800.000 og samkvæmt framlögðum kaupsamningi aðila skulu stefndu greiða stefnendum kr. 200.000 með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir atvikum málsins og niðurstöðu þykir rétt að stefnendur greiði stefndu málskostnað sem taki mið af útlögðum kostnaði sem stefndu höfðu af máli þessu. Rétt þykir því að stefnendur greiði stefndu kr. 400.000 í málskostnað.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson, byggingaverkfræðingur og múrarameistari, og Guðjón Guðmundsson, rafvirkjameistari, kváðu upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Haukur Friðriksson og Sigríður Anna Ragnarsdóttir, greiði stefnendum, Fríðu B. Aðalsteinsdóttur og Guðmundi S. Guðmundssyni, kr. 200.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til greiðsludags.
Stefnendur greiði stefndu kr. 400.000 í málskostnað.