Hæstiréttur íslands
Mál nr. 516/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 15. október 2007. |
|
Nr. 516/2007. |
Holberg Másson(Herdís Hallmarsdóttir hdl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur íslenska ríkinu var með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vísað frá dómi. Ekki var fallist á að neinir þeir annmarkar væru á kröfum H að ekki yrði um þær dæmt. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar skaðabótakröfu hans og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar meðferðar. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði gerir sóknaraðili tvær dómkröfur í málinu. Annars vegar krefst hann þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda varnaraðila vegna fjártjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir við ólögmæta handtöku 19. janúar 2006 og rannsókn lögreglu vegna grunsemda um refsiverða háttsemi, sem leitt höfðu til handtökunnar. Hins vegar krefst hann skaðabóta að fjárhæð 700.000 krónur. Er tekið fram í stefnunni að ekki sé verið að krefjast bóta fyrir fjártjón heldur aðeins miska, þó að svo hafi tekist til að kröfufjárhæðin misritaðist þar á einum stað og var sögð 1.000.000 krónur.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita viðurkenningardóms um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands ef sá sem kröfu gerir telst hafa lögvarða hagsmuni af slíkri kröfu. Gildi þetta án tillits til þess hvort aðilanum væri þess í stað unnt að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Skilyrði fyrir heimild til kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu telst þó vera að viðkomandi aðili leiði að minnsta kosti líkur að því að hann kunni að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess atburðar sem krafan beinist að. Þá er ekki talið að krafan um lögvarða hagsmuni af kröfugerð af þessu tagi teljist uppfyllt ef aðilinn gerir í sama máli fjárkröfu um bætur vegna tjóns síns og viðurkenningarkrafan hefur enga aðra þýðingu fyrir hann en að vera forsenda þegar tekin er afstaða til fjárkröfunnar.
Hér háttar svo til að sóknaraðili hefur lagt fram bréf frá þremur viðskiptamönnum sínum sem hann segir sýna fjárhagslegt tjón sem hann hafi beðið í viðskiptum vegna handtökunnar. Tekur hann fram í stefnu að ekki sé tímabært að leggja mat á fjártjónið að svo stöddu og sé því í málinu aðeins gerð viðurkenningarkrafa um bótaskyldu að því leyti. Með þessu hefur sóknaraðili sýnt nægilega fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dæmt um viðurkenningarkröfuna, enda hefur hún þar með víðtækari þýðingu fyrir hann en að vera einungis málsástæða fyrir kröfunni um miskabætur sem hann einnig gerir í málinu.
Fjárkrafa sóknaraðila um miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur er sögð byggð á 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála auk þess sem hann hefur vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 henni til stuðnings. Verður ekki fallist á að neinir þeir annmarkar séu á kröfu þessari að ekki verði um hana dæmt og getur fyrrgreind misritun fjárhæðarinnar heldur ekki haft þau áhrif.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur sóknaraðila til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Holberg Mássyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2007.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 29. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Holberg Mássyni, kt. 210954-3339, Mímisvegi 6, Reykjavík, með stefnu, birtri 27. nóvember 2006, á hendur íslenzka ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna þess fjártjóns, sem stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar handtöku lögreglu sem og rannsóknar lögreglu í máli lögreglunnar nr. 010-2006-02553. Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð kr. 700.000 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. janúar (sic) til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði í heild vísað frá dómi og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins, en til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til þrautavara er þess krafizt, að stefndi verði sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda, og að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að stefnandi var handtekinn hinn 19. janúar af lögreglu ásamt tveimur erlendum mönnum, eftir fund, sem þeir áttu í Íslandsbanka, þar sem talið var, að stefnandi væri viðriðinn tilraun til að selja Íslandsbanka falsaða bankaábyrgð. Var stefnandi í haldi til næsta dags. Aðilum ber ekki saman um málavexti í verulegum atriðum og lýsir stefnandi þeim svo, að í umrætt sinn hafi hann farið á viðskiptafund í Íslandsbanka ásamt Jose Luis Pereira Gomes og Jose Luise Orozco Diezma í þeim tilgangi að kanna grundvöll viðskipta Orozco stofnunarinnar við Íslandsbanka. Á svipuðum tíma hafi hann einnig leitað til bankans til að kanna mögulega fjármögnun bankans á kaupum bankaábyrgðar að fjárhæð EUR 60.000.000, sem maður að nafni Jan Wilk hefði boðið stefnanda til kaups. Kveður stefnandi umræddan Jan Wilk einnig hafa boðið Íslandsbanka að festa kaup á þessari sömu bankaábyrgð, fyrst 2. janúar 2006 og aftur hinn 12. janúar sama ár. Kristján Þórarinn Davíðsson, starfsmaður bankans, hafi falið stefnanda að sjá til þess, að bankanum yrði veitt heimild Jan Wilk til að kanna áreiðanleika ábyrgðarinnar, en leyfið hafi komið hinn 12. janúar 2006. Stefnandi kveðst hafa aðstoðað Íslandsbanka við öflun leyfis fyrir áreiðanleikapróf á bankaábyrgðinni og hafi hann eingöngu verið milliliður, en á þessum tíma hafi hann aldrei séð bankaábyrgðina.
Stefnandi kveðst hafa átt fund í Íslandsbanka hinn 18. janúar 2006 ásamt Jose Luis Pereira Gomes og hafi sá fundur á engan hátt tengzt umræddri bankaábyrgð. Daginn eftir hafi þeir síðan mætt aftur á fund í bankanum og hafi Jose Luise Orozco Diezma einnig verið mættur. Á þeim fundi hafi starfsmenn Íslandsbanka tilkynnt stefnanda, að bankaábyrgðin í eigu Jan Wilk væri fölsuð. Þremenningunum hafi einnig verið tjáð, að lögreglan væri komin á staðinn og óskaði eftir því að ræða við þá um málið. Kveður stefnandi þetta hafa komið sér í opna skjöldu, enda hefði hann verið staddur þarna í öðrum tilgangi, auk þess sem hann hefði aldrei séð umrædda ábyrgð, hún ekki í hans eigu og bankinn verið fenginn til að kanna áreiðanleika ábyrgðarinnar. Hann hafi því verið grunlaus um hugsanlega fölsun.
Stefnandi kveðst engu að síður hafa verið handtekinn, sem og mennirnir tveir, er fundinum lauk, eða kl. 15.03. Þeir hafi verið fluttir niður á lögreglustöðina við Hverfisgötu til yfirheyrslna. Kveður stefnandi, að samkvæmt gögnum málsins hafi skýrslutaka af stefnanda ekki hafizt fyrr en kl. 20:47, eða 5 klukkutímum og 47 mínútum eftir að hann var handtekinn. Eftir að skýrslutöku lauk hafi hann aftur verið settur í fangaklefa, og hafi hann verið í haldi lögreglu, þar til hann var færður fyrir dómara kl. 15.53 daginn eftir, þann 20. janúar. Fyrir dómi hafi verið farið fram á, að stefnandi sætti farbanni. Farbannskröfu lögreglu hafi verið hafnað, þar sem dómari hafi ekki getað séð, að gögn lægju fyrir, sem renndu styrkum stoðum undir grunsemdir lögreglu um, að stefnandi væri viðriðinn tilraun Jan Wilk til að framvísa falsaðri bankaábyrgð. Stefnandi hafi verið látinn laus klukkan 16.55 þann 20. janúar, eða 25 klukkutímum og 47 mínútum eftir að hann var handtekinn.
Við rannsókn málsins hafi stefnandi verið yfirheyrður tvisvar sinnum. Fyrst þann 19. janúar og aftur þann 26. sama mánaðar. Leit í húsnæði og bíl stefnanda hafi einnig verið framkvæmd með samþykki hans 20. janúar. Á þeim tíma hafi legið ljóst fyrir, eins og segi í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, að gögn málsins renndu ekki styrkum stoðum undir grunsemdir lögreglu um að stefnandi væri viðriðinn tilraun Jan Wilk til að framvísa falsaðri bankaábyrgð. Rannsóknin hafi staðið yfir í hálft ár, án þess að nokkuð annað kæmi í ljós, sem tengdi stefnanda við fölsun bankaábyrgðarinnar. Það þyki nú ljóst, að skjalið hafi stafað frá erlendum aðilum og að ofangreindir menn hafi enga vitneskju haft um, að skjalið væri falsað. Stefnandi hafi hvorki séð ábyrgðina né framvísað henni í Íslandsbanka vegna hugsanlegrar sölu Jan Wilk á henni. Þann 29. júní 2006 hafi stefnandi fengið tilkynningu um, að rannsókn málsins hefði verið felld niður, enda ekkert komið fram, sem tengdi hann við fölsun bankaábyrgðarinnar.
Stefnandi kveður handtökuna og dvöl í fangaklefa lögreglunnar hafa haft mikil áhrif á andlega líðan sína. Þá hafi atvik sem þetta haft áhrif á trúverðugleika stefnanda, sem vinni sjálfstætt sem viðskiptaráðgjafi, en handtökunni og meintu broti stefnanda hafi verið slegið upp í fjölmiðlum landsins. Þá hafi Jose Luis Pereira Gomes og Jose Luise Orozco Diezma, sem einnig hafi verið handteknir, slitið viðskiptum sínum við stefnanda í kjölfarið, með tilheyrandi tekjutapi fyrir stefnanda.
Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda og kveður málavexti vera þá, að umræddan dag, hafi Grétar Hannesson, lögfræðingur hjá Íslandsbanka hf., Kirkjusandi í Reykjavík, haft samband við lögregluna í Reykjavík og kveðið mann, að nafni Holberg Másson, hafa leitað til bankans og óskað þess, að bankinn keypti bankaábyrgð að fjárhæð 60.000.000 evra, gefna út af Fortis Bank í Brussel. Hafi málið verið tekið til athugunar innan Íslandsbanka hf., og m.a. verið leitað staðfestingar á áreiðanleika umræddrar bankaábyrgðar hjá Fortis Bank, sem hafi í tölvupósti staðfest, að umrætt skjal væri falsað. Hafi Grétar kveðið að fyrirhugaður væri fundur með stefnanda og einhverjum mönnum í Íslandsbanka hf. að Kirkjusandi kl. 14.00 sama dag, þar sem ræða ætti umrædda bankaábyrgð.
Hafi Grétar m.a. óskað eftir aðstoð lögreglu við að koma fyrir upptökutækjum í fundarherberginu, en þeirri ósk hafi verið synjað. Hafi Grétar verið beðinn um að tilkynna stefnanda og fylgdarmönnum hans, að ábyrgðin væri talin fölsuð og að lögregla væri komin á vettvang. Í fundarlok voru stefnandi, Gomes og Diezma handteknir og þeim tilkynnt af lögreglu, að þeir væru grunaðir um tilraun til stórfelldra fjársvika.
Stefndi kveður stefnanda hafa, við handtökuna, haft í fórum sínum svarta minnisbók, stærð A-4, og þar í hafi verið alls kyns laus blöð, þ.á m. ljósrit af bankaábyrgðum nr. BG-6475/33/24112005 og BG-6475/31/24112005, útgefnum af Joint-Stock Banka of Gas Industry "Gazprombank", Namtekina Street 16/1, Moskvu, Rússlandi, 117420. Fjárhæð fyrrnefndu ábyrgðarinnar hafi verið $ 250.000.000, en þeirrar síðarnefndu $ 100.000.000. Einnig hafi þar verið að finna áætlanir um stórfelld byggingaáform í Portúgal og leiðir til fjármögnunar þeirra. Auk þess hafi þar verið tölvupóstur til Íslandsbanka hf. og til lögmanns stefnanda, Guðmundar Óla Björgvinssonar, auk skjala á rússnesku.
Einnig hafi Kristján Þ. Davíðsson, viðskiptastjóri á alþjóðasviði Íslandsbanka hf., haft samband við lögregluna í Reykjavík á framangreindum tíma, en hann hafi annazt samningsgerð við stefnanda vegna bankaábyrgðarinnar. Samkvæmt beiðni lögreglu hafi Kristján síðar staðfest erindi sitt við lögreglu með tölvupósti kl. 16.37 sama dag. Hafi hann sagt Holberg hafa viljað selja bankanum, fyrir hönd og, að eigin sögn, með fullu umboði frá Jan Wilk, eiganda Nastec Ltd., bankaábyrgð að fjárhæð 60.000.000 evra, útgefna af Fortis Bank, Brussel, Belgíu. Hann hafi viljað selja hana fyrir reiðufé með afföllum, sem væru þóknun bankans (og hans) og talað um, að Wilk hefði þegar selt tvær slíkar, aðra UBS bank í Sviss, með um 8% afföllum. Hafi stefnandi síðar nefnt önnur möguleg viðskipti, þ.á m. við Foundation Orozco á Spáni, sem væri sjálfseignarstofnun utan um auðæfi spænsks aðalsmanns.
Fram komi í tölvupósti þessum, að bankanum hafi þótt ýmislegt óljóst í málinu, og við eftirgrennslan gegnum samskiptaaðila þeirra í Fortis bank hafi komið í ljós, að ábyrgðin hafi reynzt fölsuð.
Í tölvupóstinum segi áfram:
Holberg bað um fund með mér í gær þar sem hann kynnti Portúgala að nafni Jose Luis Periera Gomes. Sá sagðist eiga heima í Algarve í Portúgal, væri með skrifstofu í Madrid, tíður gestur á Íslandi (10-30 heimsóknir undanfarið ár) og ynni fyrir Foundation Orozco (sbr. að ofan) og hefði þann starfa að vera verkefnastjóri víða um heim; í Ghana, Brasilíu, á Karíbahafseyjum og víðar.
Nokkru síðar segi í sama tölvupósti:
Gomes hafi reyndar, mér til undrunar, áhuga á því hvort ofangreind ábyrgð sem mér var sagt af Holberg að tengdist Foundation Orozco ekkert, væri staðfest. Aðspurður sagðist hann tengjast því máli einnig.
Í skýrslu Gomes fyrir lögreglu þann 19.1.2006 komi fram, að honum hafi verið kynnt efni tölvupóstskeytis frá Kristjáni Davíðssyni, varðandi þá tilteknu bankaábyrgð, sem um ræði í málinu. Þar segi Gomes þetta ekki rétt.
Í skýrslu Kristjáns Davíðssonar fyrir lögreglu þann 20.1.2006 lýsi hann nánar málavöxtum. Fram komi m.a., að Kristján hafi beðið stefnanda um að fá Jan Wilk til að veita bankanum heimild til að kanna áreiðanleika bankaábyrgðarinnar, og hafi það leyfi komið fljótlega, eða þann 12. janúar, sem viðhengi í PDF formi í tölvupósti til bankans frá Jan Wilk. Með þessu leyfi hafi fylgt strangar leiðbeiningar um það, hvernig skyldi fá staðfestingu á þessari bankaábyrgð. Vísað hafi verið í að afla staðfestingarinnar í gegnum svokallað SWIFT kerfi bankanna, en slíkt sé mjög óvenjulegt, sérstaklega þegar um sé að ræða viðskipti með viðlíka fjárhæðir.
Af hálfu lögreglu hafi þótt nauðsynlegt að hafa mennina þrjá í haldi á meðan þeir væru yfirheyrðir og leitað að frekari gögnum í fórum og á dvalarstöðum þeirra, sem varpað gætu frekara ljósi á tengsl þeirra við bankaábyrgðina.
Í yfirheyrslum lögreglu síðar nefndan dag hafi þeir Gomes og Diezma neitað allri aðild að viðskiptum um bankaábyrgðina og sagzt ekkert hafa um hana vitað.
Gomes hafi kveðizt vera fjármálaráðgjafi Orozco stofnunarinnar, en Diezma væri stjórnarformaður samtakanna. Hafi þeir átt von á 500.000 evra millifærslu frá stofnuninni á reikning í Íslandsbanka hf., en til hafi staðið að ávaxta peningana hér á landi. Hafi reyndar verið ætlunin að flytja allt fé, verðbréf, bankaábyrgðir o.fl. til Íslands og opna skrifstofur hér, en aðalskrifstofur stofnunarinnar væru í Madrid.
Diezma hafi kveðizt hafa leitað til Íslandsbanka hf. til að fjármagna Orozcoe Foundation, velgjörðarsamtök fyrir börn, en ætlunin hafi verið að stofna hér útibú. Hann hafi kveðizt vera forseti samtakanna. Aðalskrifstofa þeirra væri í Madrid á Spáni, en útibú væru í Venesúela, Portúgal, Brasilíu og Ghana. Hann hafi kveðizt búa við hliðina á aðalskrifstofu samtakanna og hefði hann sama símanúmer og samtökin. Samtökin væru með heimasíðu á netinu, en hann vissi ekki veffangið. Hann hafi haft í hyggju að kaupa stórt húsnæði hér á landi, sem rúmað gæti ýmsar uppákomur á vegum samtakanna.
Stefnandi hafi m.a. skýrt svo frá í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 19. janúar, að hann hefði enga bankaábyrgð séð og síðar í yfirheyrslunni hafi hann verið spurður að því, hvort hann kannaðist við afrit bankaábyrgðarinnar, en svar hans hafi verið á þá leið, að hann hefði aldrei séð þetta skjal fyrr en nú, þegar lögregla sýndi honum það. Hvað varðaði seljanda ábyrgðarinnar, hafi hann kveðið Nastec Ltd. vera sér óviðkomandi og eiganda þess, Jan Wilk, hefði hann aldrei hitt. Hann hefði fyrst heyrt af Jan Wilk hjá manni að nafni Herznegger, búsettum í Frankfurt, í desember sl. Samvinna hans við þá Gomes og Diezma hefði einungis verið fólgin í því að fá íslenzka banka til að fjármagna framkvæmdir á vegum góðgerðarstofnunarinnar Orozcoe Foundation. Aðspurður, hvað hann vissi um þessa stofnun hafi stefnandi sagt, að hann hefði séð einhverja bæklinga um hana. Hann hefði jafnframt skoðað verkefni á vegum stofnunarinnar og hafi sér ekkert virzt athugavert við hana. Hann hafi tekið Diezma með á nefndan fund með starfsmönnum Íslandsbanka hf. vegna þess að hann hefði haft orð á því, að hann ætti von á bankapappírum og peningum frá London, sem hafi átt að vera komnir til bankans fyrir fundinn.
Nauðsynlegt hafi þótt að handtaka stefnanda og hina 2 erlendu aðila og færa þá strax til yfirheyrslu hjá lögreglu, enda hafi legið fyrir rökstuddur grunur um þátttöku þeirra í stórfelldum fjársvikum. Skýrsla hafi verið tekin hjá lögreglu af Diezma fimmtudaginn 19.1.2006 frá kl. 16:18 til kl. 18:25. Skýrsla hafi verið tekin af Gomes frá kl. 19:30 til kl. 22:07 sama dag og af stefnanda sama dag frá kl. 21:08 til kl. 22:21. Við handtöku á stefnanda hafi fundizt í fórum hans afrit af 2 ábyrgðum frá rússneskum Gazprom banka, Moskvu, báðar dagsettar 25. desember 2005, samtals að andvirði 350.000.000 bandarískra dollara. Við leit hjá Diezma daginn eftir hafi fundizt afrit af ábyrgð frá spænskum banka á andvirði 500.000.000 íraskra dínara. Síðar hafi komið í ljós, samkvæmt upplýsingum frá ofangreindum bönkum, að allar ábyrgðirnar hafi verið taldar falsaðar.
Húsleit hafi verið gerð í bifreið stefnanda og á heimili hans með leyfi hans hinn 20.1.2006. Hafi tölva stefnanda verið haldlögð í þágu rannsóknar málsins.
Stefndi kveður, að þar sem talið hafi verið að rökstuddur grunur lægi fyrir um að stefnandi væri viðriðinn refsivert athæfi með því að reyna að selja bankanum ábyrgðina, hafi, í þágu rannsóknar málsins, jafnframt þótt nauðsynlegt að freista þess að tryggja nærveru allra mannanna hér á landi með því að krefjast þess fyrir héraðsdómi hinn 20. janúar, að þeim yrði með úrskurði bönnuð för af landinu í 2 vikur. Hafi þeir verið í haldi lögreglu unz þeir hafi verið leiddir fyrir dómara kl. 15.15. Ranghermt sé í stefnu, að það hafi verið kl. 15.53. Fram komi í svonefndri vistunarskýrslu lögreglu, að stefnandi hafi verið látinn laus úr fangaklefa kl. 14.49. Þinghaldi í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kröfu um farbann hafi lokið kl. 16.55. Úrskurður hafi verið kveðinn upp 21. janúar 2006, þar sem kröfu um farbann hafi verið hafnað, en stefnanda hafi verið sleppt daginn áður.
Unnið hafi verið áfram að rannsókn málsins. Tekin hafi verið skýrsla af Guðjóni Þór Victorssyni þann 23.01.2006 og af stefnanda aftur þann 26.01.2006. Þá hafi verið tekin skýrsla af þáverandi lögmanni stefnanda þann 02.02.2006. M.a. hafi verið könnuð afrit af þeim ábyrgðum, sem fundizt höfðu og leitað hafi verið aðstoðar Interpol og skýrslur teknar í Þýskalandi. Allar slíkar aðgerðir séu tafsamar. Ekki hafi náðst að upplýsa málið.
Lögregla hafi tilkynnt með bréfi, dags. 29.06.2006, að málið væri enn óupplýst og að ekki þættu að svo komnu vera næg efni til að halda áfram rannsókn þess hérlendis og félli málið niður, en jafnframt hafi verið tekið fram, að rannsókn yrði tekin upp, gæfu nýjar upplýsingar tilefni til þess.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á hendur stefnda á því í fyrsta lagi, að lögreglan í Reykjavík hafi, með óforsvaranlegum aðgerðum sínum gagnvart stefnanda, bakað ríkinu bótaskyldu með ólögmætri handtöku og frelsissviptingu stefnanda. Þannig hafi skort lögmæt skilyrði til slíkra aðgerða gagnvart stefnanda. Í annan stað byggir stefnandi mál sitt á því, að ekki hafi verið nægilegt tilefni til þessara aðgerða í samræmi við ákvæði 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því, að málsmeðferð lögreglunnar hafi dregizt óeðlilega. Að lokum telur stefnandi, að jafnvel þótt talið verði, að ástæður fyrir handtökunni hafi verið lögmætar í öndverðu, hafi honum verið haldið lengur en nauðsyn hafi krafið.
Stefnandi kveður handtöku lögreglunnar í Reykjavík þann 19. janúar 2006 hafa í fyrsta lagi verð ólögmæta sökum þess, að ekki hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um, að stefnandi hefði framið brot, sem sætt gæti ákæru, sbr. áskilnað þess efnis í fyrri málslið 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála, sem og í c- lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 62/1994. Ósannað sé, að mati stefnanda, að lögreglan hafi haft rökstuddan grun um, að stefnandi hefði framið brot þau, sem voru tilefni handtöku hans og frelsissviptingar.
Í þessu sambandi vísi stefnandi til þess, að fram komi í skýrslum lögreglu, að lögreglan hafi fengið tilkynningu um meint brot símleiðis frá lögfræðingi, sem starfi hjá Íslandsbanka. Þær upplýsingar hafi verið á þá leið, að stefnandi hefði leitað til bankans og boðið margumrædda bankaábyrgð til sölu. Eins hafi þær upplýsingar verið veittar, að stefnandi væri væntanlegur á fund, ásamt tveimur útlendingum, sem tengdust hugsanlegum kaupum á bankaábyrgðinni.
Við skýrslutöku af vitnum hafi hins vegar fengizt aðrar upplýsingar hjá starfsmönnum Íslandsbanka. Kristján Þórarinn Davíðsson, viðskiptastjóri á alþjóðasviði Íslandsbanka, segi í skýrslutöku, að umrædd bankaábyrgð hefði borizt til bankans með tölvupósti frá Jan Wilk þegar hinn 12. janúar. En pósturinn hafi upphaflega verið sendur til Guðjóns Þórs Victorssonar, útibússtjóra Íslandsbanka við Kirkjusand. Auk þess staðfesti vitnaskýrslurnar, að það hafi verið í hendi Íslandsbanka að staðfesta áreiðanleika ábyrgðarinnar og áreiðanleika Jan Wilk. Í framhaldinu hafi Kristján Þórarinn verið í beinu sambandi við eiganda bankaábyrgðarinnar varðandi hugsanleg kaup, en stefnandi hafi þó haft milligöngu um öflun leyfis fyrir áreiðanleikakönnun á ábyrgðinni. Jan Wilk hafi sjálfur boðið bankanum ábyrgðina til kaups, eins og áður segi, fyrst 2. janúar, en aftur 12. janúar.
Stefnandi telji sannað, að lögreglan í Reykjavík hafi ekki haft neinar vísbendingar eða ástæður, sem hafi gefið tilefni til þess að ætla, að rökstuddur grunur léki á, að stefnandi hefði framið afbrot, sem ylli því, að handtaka væri heimil samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
Lögreglu sé einungis heimilt að handtaka mann samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála, þegar rökstuddur grunur sé fyrir hendi um, að hann hafi framið brot. Lögreglan hafi einungis stuðzt við munnlegar upplýsingar, sem hafi fengizt símleiðis frá lögfræðingi Íslandsbanka. Engin gögn hafi verið til staðar, sem hafi stutt ásakanir umrædds starfsmanns. Virðist ljóst vera, að lögreglan hafi látið orð hans nægja, en ekkert annað gert til þess að kanna réttmæti þeirra. Síðar hafi komið í ljós, að upplýsingar, sem starfsmaðurinn veitti, hafi verið rangar. Hin falsaða bankaábyrgð hafi ekki borizt Íslandsbanka með boð um kaup frá stefnanda, heldur með tölvupósti frá Jan Wilk.
Þá telji stefnandi ekkert viðbótarskilyrða 2. ml. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála hafa verið uppfyllt, þar sem ekki hafi verið nauðsynlegt að handtaka stefnanda til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, eða til þess að tryggja návist stefnanda sem grunaðs manns og öryggi, hvað þá til þess að koma í veg fyrir, að stefnandi spillti sönnunargögnum. Handtaka stefnanda hafi þannig ekki verið gerð á grundvelli einhverra þessara lögmæltu þriggja markmiða að mati stefnanda. Stefnandi telji sannað, að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í þessu samhengi vísi stefnandi enn fremur til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem felur í sér, að lögreglu sé ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræði eins og handtöku, nema því aðeins að ekki sé hægt að ná því markmiði, sem að sé stefnt, með öðru og vægara móti. Sé það álit stefnanda, að meðalhófsreglan hafi verið brotin, sem og ákvæði 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 19/1996. Þannig hafi lögreglunni nægt að leggja hald á umrædda bankaábyrgð, en afrit hennar hafi verið í vörzlu Íslandsbanka. Með því telji stefnandi, að lögreglan í Reykjavík hefði gert allt, sem nauðsynlegt teljist, til að koma í veg fyrir, að afbrot yrði framið, ellegar að sönnunargögnum væri spillt. Ekki hafi heldur verið um að ræða, að lögreglan væri með handtöku stefnanda að koma í veg fyrir, að hann spillti rannsóknarhagsmunum. Hafi því ekki verið til staðar lögmæt skilyrði fyrir handtöku stefnanda. Ekki verði heldur séð, að lögreglan hafi þurft að grípa til þess þvingunarúrræðis, sem felist í handtöku. Þá hafi framkvæmdin verið óþarflega særandi og móðgandi, en þrír lögreglumenn hafi beðið stefnanda og viðskiptafélaga hans í Íslandsbanka 19. janúar, er þeir sátu þar viðskiptafund vegna máls, alls ótengdu umræddri bankaábyrgð.
Auk framangreinds telji stefnandi, að sá dráttur, sem hafi orðið á málsmeðferð lögreglu í málinu, hafi verið óeðlilegur og óskýrður með öllu og falið í sér brot gegn friði og æru stefnanda og til þess fallinn að valda honum tjóni. Rannsókn hafi staðið yfir í sex mánuði, en stefnandi telji, að rannsóknargögn, sem aflað hafi verið á fyrstu stigum rannsóknarinnar, hafi sannað sakleysi hans. Tveir starfsmenn Íslandsbanka hafi staðfest, í yfirheyrslum 20. og 23. janúar, að umrædd bankaábyrgð hefði ekki borizt bankanum frá stefnanda, heldur erlendum aðila. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi rannsókn málsins á þætti stefnanda ekki verið felld niður fyrr en 30. júní 2006. Hafi sú töf verið til þess fallin að skaða viðskiptahagsmuni stefnanda, og hafi lögreglu verið það vel ljóst.
Í annan stað kveðst stefnandi byggja málatilbúnað sinn á hendur stefndu á því, að jafnvel þótt talið verði, að ástæður fyrir handtökunni hafi verið fyllilega lögmætar í öndverðu, þá leiði það af meðalhófsreglunni, að sú frelsisskerðing, sem leiði af handtöku, eigi að standa eins stutt og kostur sé. Þannig sé skylt að láta handtekinn mann lausan, komi í ljós, að ekki sé þörf á að halda honum lengur í þágu rannsóknar, enda þótt ástæður fyrir handtökunni hafi í upphafi verið fyllilega lögmætar. Stefnandi telji sannað, að honum hafi verið haldið mun lengur en þörf hafi verið á. Ekki hafi verið tekin af honum skýrsla fyrr en klukkan 20.47, eða 5 klukkutímum og 47 mínútum eftir handtökuna, og stefnandi hafi ekki verið látinn laus fyrr en rúmum 25 klukkustundum eftir handtökuna. Hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að halda stefnanda þennan tíma og svipta hann þar með frelsi sínu lengur en nauðsyn krafði í þágu rannsóknar málsins.
Hinar ólögmætu aðgerðir lögreglu hafi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni, sem og miska. Sé á því byggt, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Með vísan til 2. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála sundurliðist krafan á eftirtalinn hátt:
Fjártjón.
Eins og þegar sé komið fram, sé stefnandi sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Í framhaldi af handtöku lögreglu hafi verið hætt við flest þau verk, sem stefnandi hafði starfað að. Þegar það varð ljóst, að hætt hefði verið við verkefnin, hafi stefnandi leitað til Mannafls og Hagvangs í þeim tilgangi að kanna, hvort hann væri gjaldgengur á vinnumarkaðinum, enda engar tekjur af sjálfstæðum rekstri að hafa, þegar verkefnin lögðust af. Sé skemmst frá því að segja, að stefnandi hafi fengið þær upplýsingar, að hann væri kominn á svartan lista á vinnumarkaði, en öllum atvinnuumsóknum hans hafi verið hafnað, ellegar þess óskað, að umsókn hans yrði dregin til baka.
Þannig hafði stefnandi, allt frá árinu 2005, unnið að viðskiptaáætlun fyrir ,,Casino“ leikjum á veraldarvefnum. Eins og algengt sé með verk af þessum toga, hafi stefnandi unnið að verkefninu á eigin vegum og á eigin kostnað, en ef vel hefði tekizt til, hafi stefnandi átt að fá greitt fyrir þá vinnu, sem og þann kostnað, sem hann hafi haft af verkefninu, auk þess sem stefnandi hafi átt að fá hlut í félaginu. Þann 19. janúar hafi verkefnið verið komið langt á veg, og hafði náðst að fá menn til að skrá sig fyrir hlutafé fyrir a.m.k. 200.000.000 króna. Hafi átt að ganga frá hlutafjárloforðum með skriflegum hætti í vikunni eftir að handtakan fór fram. Í framhaldi handtökunnar hafi menn hætt við að fara út í viðskipti með stefnanda og haldið að sér höndum. Hálfu ári síðar, þegar málið var fellt niður gegn stefnanda, hafi fjárfestarnir verið búnir að fjárfesta í öðrum verkefnum. Hafi stefnandi þannig sannanlega orðið af launum vegna þegar unninnar vinnu, sem og fyrir missi á hagnaði.
Þess utan hafi Orozco fallið frá því að eiga viðskipti með stefnanda, en stefnandi hafi unnið að margvíslegum verkefnum í þágu félagsins, m.a. að fjármögnun mannúðarverkefna, sem samtökin hafi staðið að. Við handtöku forsvarsmanna Orozco í Íslandsbanka, sem og sökum handtöku stefnanda, hafi verið hætt við að kaupa frekari ráðgjöf stefnanda með tilheyrandi tekjutapi fyrir hann. Eins hafi stefnandi orðið af því að fá þóknun fyrir sölu tveggja lögmætra bankaábyrgða uppá 250.000.000 og 300.000.000, en þóknun hafi verið umsamin 1% af söluverðinu. Eins hafi samtökin neitað að greiða stefnanda útlagðan kostnað, að fjárhæð 21.000, þar sem viðskiptin hefðu ekki gengið eftir.
Þar sem uppgjör vegna reksturs stefnanda vegna 2006 hafi ekki farið fram, sé ekki tímabært að leggja mat á fjártjón hans að svo stöddu. Sé því í máli þessu gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda.
Miskabætur
Ólögmætar aðgerðir lögreglunnar hafi ótvírætt falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda sem hafi valdið miska, sem stefndi beri ótvírætt skaðabótaábyrgð á samkvæmt b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á hæfilegum miskabótum til handa stefnanda beri að taka tillit til þess, að lögregla hafi enga ástæðu haft til þess að handtaka stefnanda, hversu móðgandi og særandi handtakan var, hversu lengi hann var í haldi lögreglu, án þess að séð verði, að ástæða hafi verið til, sem og þess að hann hafi í hálft ár verið undir grun um alvarleg brot, og að rannsókn lögreglu hafi verið til þess fallin að kasta rýrð á starfsheiður stefnanda sem sjálfstætt starfandi ráðgjafa. Enn fremur beri að líta til þess, að neikvæð umfjöllun hafi átt sér stað í fjölmiðlum, en lögregluyfirvöld hafi verið í sambandi við fjölmiðla, meðan á rannsókninni stóð. Sé miski stefnanda mikill og krafa hans um miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 mjög hófstillt.
Stefnandi vísi til laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum ákvæða IX. kafla, XII. kafla og XXI. kafla þeirra laga. Þá vísi stefnandi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur vísist til 5. og 6. gr. meginsamnings Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis.
Skaðabótaskylda íslenzka ríkisins byggist á 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga og húsbóndaábyrgð og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Enn fremur vísist til lögreglulaga nr. 90/1996. Um tjón stefnanda vísast til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Um vaxtakröfu stefnanda vísist til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vísað sé í ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 19/1991, einkum 130. gr. um málskostnað, og sé gerð krafa um dæmdan málskostnað, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. laga 91/1991.
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa stefnanda er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og er sá þáttur þess einungis hér til meðferðar.
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því m.a., að krafa stefnanda sé vanreifuð í stefnu, sbr. 1. mgr. 80. gr. e. lið laga nr. 91/1991. Þá telji stefndi, að ekki séu skilyrði fyrir því að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu við þær aðstæður, sem uppi séu í málinu, og að ekki sé þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að gera megi slíka kröfu í málinu. Í stefnu virðist að auki ekki vísað til lagaheimildar fyrir slíkri viðurkenningarkröfu. Að mati stefnda sé algerlega ósannað, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgerða lögreglu. Stefndi mótmæli fullyrðingum stefnanda um tjón og telji, að hvorki stefna né gögn málsins sanni, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Í stefnu virðist boðuð stórfelld bótakrafa á hendur íslenzka ríkinu. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að gera kröfu um tiltekna fjárhæð fyrir meint tjón sitt eða að láta meta það af dómkvöddum matsmönnum, en það hafi hann ekki gert. Þá fullnægi stefna ekki skilyrðum d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá bendi stefndi á, að stefnandi hafi krafizt þess, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna fjártjóns og að auki krefjist hann skaðabóta að fjárhæð kr. 700.000. Að auki rökstyðji hann miskabótakröfu, að fjárhæð kr. 1.000.000, án þess að hennar sé getið í dómkröfum. Erfitt sé að sjá, að saman geti farið krafa um viðurkenningu á bótaskyldu og skaðabótakrafa með tiltekinni fjárhæð. Sé í seinni kröfulið átt við miskabætur, þá sé ekkert samræmi milli fjárhæðar í dómkröfum og rökstuðnings fyrir miskabótum í stefnu. Þá sé á það bent, að upphafsdags vaxtakröfu sé ekki skýrlega getið, því ekki sé gerð grein fyrir því frá hvaða ári krafa sé gerð. Allt framangreint telji stefndi, að leiða eigi til þess, að málinu eigi að vísa frá dómi. Fallist dómurinn ekki á að vísa eigi málinu frá dómi í heild, sé þess krafizt, að málinu verði a.m.k. að hluta til vísað frá dómi. Málskostnaðarkrafa varðandi þennan þátt málsins sé byggð á 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Eins og krafa stefnanda er fram sett í stefnu annars vegar og reifuð í kafla um málsástæður hins vegar, verður að fallast á með stefnda, að hún fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Þannig er annars vegar farið fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda í kröfugerð, og hins vegar krafið um skaðabætur, að tiltekinni fjárhæð. Í kafla stefnanda um málsástæður er annars vegar rakið á hvern hátt stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna handtökunnar, án þess að niðurstaða fáist um tjónsfjárhæð. Málið var þingfest í nóvember 2006, en enginn reki hefur enn verið gerður að því að staðreyna meint fjártjón. Hins vegar fjallar stefnandi um miskabætur, að fjárhæð kr. 1.000.000, án þess að unnt sé að tengja þá umfjöllun kröfugerð stefnanda. Af framangreindum sökum þykir ekki hjá því komizt að vísa málinu í heild frá dómi.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 100.000.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 250.000 og greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Holberg Másson, greiði stefnda, íslenzka ríkinu, kr. 100.000 í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 250.000, greiðist úr ríkissjóði.