Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-58

Vigdís Þórarinsdóttir (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)
gegn
Halldóri Svani Olgeirssyni og Elínu Maríusdóttur (Ingvar Þóroddsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Traustfang
  • Jörð
  • Þinglýsing
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 19. apríl 2022 leitar Vigdís Þórarinsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. mars sama ár í máli nr. 686/2020: Vigdís Þórarinsdóttir gegn Halldóri Svani Olgeirssyni og Elínu Maríusdóttur og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila varðar eignarrétt að jörðinni Bjarnastöðum í Norðurþingi. Hann lýtur að því hvort gagnaðilar eigi jörðina eða aðeins helming hennar á móti leyfisbeiðanda sem í málinu gerir kröfu um viðurkenningu þess efnis.

4. Í dómi Landsréttar var fallist á með leyfisbeiðanda að hún leiddi eignarrétt sinn að jörðinni Sigtúnum og þar með hálfri jörðinni Bjarnastöðum til skiptalýsingar 16. júní 1939 fyrir óslitna framsalsröð sem í öllum tilvikum byggði á þinglýstum afsölum. Hins vegar var ekki talið varhugavert að slá því föstu að ekkert hefði legið fyrir um að hálf jörðin Bjarnastaðir tilheyrði Sigtúnum er gagnaðilar festu kaup á jörðinni árið 1981. Fyrir lægi að gagnaðilar hefðu haft full umráð og not af jörðinni í tæp 30 ár á grundvelli þinglýsts afsals þegar G, eiginmaður leyfisbeiðanda, festi kaup á Sigtúnum. Féllst Landsréttur á að skilyrðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð um hefðartíma og umráð væri fullnægt. Var dómur héraðsdóms staðfestur og gagnaðilar sýknuð af kröfu leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um samspil laga nr. 46/1905 og þinglýstra eignarréttinda. Þannig reyni meðal annars á hvort nýting eins eiganda sameignar geti rýmt brott eignarréttindum annars sameiganda fyrir hefð. Þá reisir hún beiðni sína á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda sé með dómi Landsréttar verið að fella brott þinglýstan eignarrétt sinn. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Um það vísar hún meðal annars til niðurstöðu réttarins um skilyrði hefðar.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.