Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2000
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2001. |
|
Nr. 388/2000. |
Grétar Páll Gunnarsson(Ástráður Haraldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.
G skarst á fingri við vinnu sína hjá Skógrækt ríkisins er hann reyndi að losa trjágrein, sem festist milli sagarblaðs og hlífar á kjarrsög, sem hann vann með. Héraðsdómur sýknaði Í af bótakröfu G, enda þótti ljóst að honum hefðu verið vel kunnir hættueiginleikar tækisins og að hann hefði fengið tilsögn um notkun þess og um það hvernig bregðast skyldi við ef greinar festust í sagarblaði. Þótti mega rekja slys G alfarið til aðgæsluleysis hans sjálfs með því að hann stöðvaði ekki vél þá er knúði sagarblaðið og var talið að það væri eina orsök slyss hans. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með vísan til forsendna hans og þeirrar athugasemdar að G hefði fengið þá þjálfun sem verkið útheimti og honum hefðu verið gerðir ljósir hættueiginleikar þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 19. október 2000. Hann krefst greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.166.704 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. ágúst 1996 til 31. mars 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Málsatvik og málsástæður eru reifaðar í héraðsdómi. Ekkert bendir til þess að nokkuð hafi verið að kjarrsög þeirri sem áfrýjandi vann með. Nægjanlega er fram komið að slysið varð með þeim hætti að trjágrein festist milli sagarblaðs og hlífar á kjarrsöginni. Hann hugðist losa trjágreinina með vinstri hendi án þess að losa sögina frá sér og án þess að drepa á vélinni. Hann hafði ekki gætt þess að stilla vélina þannig að blaðið snérist ekki er sögin var í hægagangi. Af þessu leiddi að blaðið snerist um leið og greinin losnaði og vísifingur vinstri handar skarst. Tilkynning um slysið var send viku eftir lögboðinn tilkynningarfrest, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en þar sem tildrög slyssins eru fyllilega í ljós leidd verður það ekki látið hafa áhrif á niðurstöðu málsins.
Samkvæmt gögnum málsins hafði áfrýjandi fengið tilsögn um hvernig hann ætti að haga sér kæmi fyrir að trjágrein festist á milli sagarblaðs og hlífar, sem oft kom fyrir. Hann hafði unnið við þetta verk um eins og hálfs mánaðar skeið og ekkert hefur verið fært fram í málinu um að hann hafi ekki haft full tök á því þrátt fyrir ungan aldur. Samkvæmt eðli verksins standa menn einir að því og getur verkstjórn ekki haft áhrif á vinnubrögðin öðruvísi en með kennslu og þjálfun í upphafi. Ekki er í ljós leitt að á hana hafi skort. Áfrýjandi átti því að hafa fengið þá þjálfun sem verkið útheimti og honum höfðu verið gerðir ljósir hættueiginleikar þess.
Með þessum athugasemdum en annars með vísan til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur að öðru leyti en um málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Grétars Páls Gunnarssonar, fyrir Hæstrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 31. ágúst 1999.
Stefnandi er Grétar Páll Gunnarsson, kt. 040879-3239, Hólatjörn 4, Seltjarnarnesi.
Stefndi er íslenska ríkið, kt. 710169-0559, Arnarhváli Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.166.704 krónur, með vöxtum skv. 16. gr.skaðabótalaga frá 19. ágúst 1996 til 31. mars 1999 en dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefnanda verði dæmdur málskostnaður eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.
MÁLSATVIK
Stefnandi starfaði hjá Skórækt ríkisins sumarið 1996. Þann 19. ágúst varð hann fyrir slysi er hann var að vinna með kjarrsög við að grisja kjarr í landi Skriðufells í Þjórsárdal. Stefnandi hafði þá unnið við kjarrsögun um tveggja mánaða skeið. Kjarrsög sú er stefnandi notaði var með sagarblaði sem knúið var með bensínvél. Tengsl blaðs og vélar voru þannig að svonefnd miðflóttaaflskúpling var notuð sem leiddi til þess að ef ganghraði vélar var aukinn tengdust vél og sagarblað en ef hægt var á gangi rofnuðu tengsl þessi. Gangur var stilltur með því að herða eða slaka skrúfu sem stjórnaði bensíngjöf. Stefnandi kveður greinar hafa festst milli sagarblaðs og hlífar og þurfti að losa þær til þess að hann gæti haldið áfram verki sínu. Kvaðst hann gera það þannig að hann sleppti bensíngjöf en við það hafi gangur orðið hægari snúið sagarblaðinu upp og fjarlægt greinarnar. Við það hafi sagarblaðið farið að snúast og hann hlotið áverka á miðkjúku vinstri vísifingurs og náði skurðurinn yfir miðkjúkuliðinn. í vottorði Magnúsar Páls Albertssonar læknis frá 8. ágúst 1998 segir m.a:
"Áverkinn telst alvarlegur og fól í sér opin beinbrot, áverka á réttsin og ónýtan fjærkjúkulið vinstri vísifingurs. Nauðsynlegt reyndist að gera staurlið í fjærkjúkuliðnum.
Áverkinn hefur skilið eftir varanleg mein s.s. stirðleika (vegna staurliðar) og kulvísi. Er þetta Grétari til trafala að sumu leiti en ekki tel ég líklegt að þetta skerði vinnufærni hans til frambúðar."
Lögð hefur verið fram í málinu örorkumat Atla Þórs Ólasonar dagsett 31. mars 1999 þar sem segir m.a:
"SAMANTEKT OG ÁLIT
Við vinnuslysið þann 19.08.1996 var sagað í endalið vinstri vísifingurs og umhverfi hans og skemmdist liðurinn, nærliggjandi húð og skyntaugar. Gerður var staurliður í endalið. Notagildi fingursins er takmarkað vegna skerðingar á húðskyni, mikilli viðkvæmni á húð á mið- og endakjúku. Fingurinn nýtist ekki í fínvinnu og er viðkvæmur fyrir hnjaski. Varanlegur miski og hefðbundin læknisfræðileg örorka er metin 5%.
Við mat á varanlegri örorku er tekið mið af því að Grétar fær óþægindi í fingurinn ef hann rekur hann í, vinnur í kulda og að húð er viðkvæm fyrir hnjaski og sár dettur á hana. Þá er geta til fínvinnu minnkuð. Allt þetta takmarkar ögn möguleika Grétars til vinnu kynni að geta komið niður á færni hans til að vinna flókna eða erfiða vinnu um langan tíma og mikla yfirvinnu. Vegna þessa er varanleg örorka hans metin hin sama og miski.
Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er tekið mið af því að Grétar var í sumarvinnu er hann lenti í slysinu þann 19.08. 1996. Hann var óvinnufær þar til hann fór í skóla í byrjun september, hér metið þrjár vikur.
Við mat á þjáningabótum er tekið mið af því að Grétar var tvo daga inniliggjandi á spítala. Hann útskrifaðist 17.12.1996. Þjáningatímabil hans er miðað við þessi tímamörk.
NIÐURSTAÐA
Við vinnuslysið þann 19.08.1996 varð Grétar Páll Gunnarsson fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Þrjár vikur 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Rúmliggjandi, tveir dagar.
Batnandi, með fótaferð, frá 21.08.1996 til 17. 12.1996.
3.Varanlegur miski skv. 4. grein: 5%
4.Varanleg örorka skv. 5. grein: 5%
5.Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 5%"
Stefnandi byggir dómkröfu sína á ofangreindu örorkumati og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og sundurliðast hún þannig:
Þjáningabætur rúmliggjandi í tvo daga
2 x (1200/2828 x 3643) = 2 x 15403.080 krónur
Þjáningabætur fótafær, í 119 daga eða frá 21.8.1996
til 17.12.s.á.
119 x (700/2828 x 3643) = 119 x 900107.100 krónur
Miskabætur
4.000.000/2828 x 3643 = 5.152.000 x 5%257.600 krónur
Varanleg örorka
125617 x 12 x 1,06 (+6%) x 10 x 5% 798.924 krónur
Samtals dómkrafa 1.166.704 krónur
Stefnandi byggir á upplýsingum kjaranefndar um meðallaun í ágúst 1996 en þau hafi verið 125.617 krónur. Stefnandi hafi verið nýkominn á vinnumarkað eftir skólavist og því ekki unnt að styðjast við upplýsingar um tekjur síðustu 12 mánuði fyrir slys, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi heldur því fram að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitenda á vanbúnaði og öryggi ávinnustað og reglum um húsbóndaábyrgð.
Orsök þess að sögunarblað fór af stað hafi verið bilun í tækinu en viðhald og umhirða þess hafi verið á ábyrgð stefnda sem vinnuveitanda og skipti ekki máli hvort starfsmenn hans hafi mátt vita um bilun í kjarrsöginni. Þannig hafi hættuástand skapast á vinnustað stefnanda fyrst og fremst vegna vanbúnaðar á kjarrsögunarvél Skógræktarinnar. Viðtekin aðferð við að losa algengar stíflur úr vélorfum hafi reynst hættuleg vegna vanbúnaðarins. verkstjóra hafi verið kunnugt um þetta verklag og látið það átölulaust. Umhirðu vélar og verkstjórn hafi þannig verið ábótavant og sé beint orsakasamband á milli þess og slyss stefnanda, enda verði það rakið beint til sakar eða gáleysis verkstjóra stefnda. Honum hafi borið að gera starfsmönnum ljósa slysahættu, stuðla að fullnægjandi starfsskilyrðum og sjá til þess að öryggisráðstöfunum yrði framfylgt sbr. 13. og 23. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Ekki hafi verið tryggt að starfsmenn nýttu öryggisbúnað svo sem hanska eða aðrar hlífar við framkvæmd verskins og ósannað sé að slíkur búnaður hafi staðið til boða. Vélin hafi átt að vera útbúin þannig að sagarvélin færi í lausagang er bensíngjöf var sleppt og hafi stefnandi því ekki haft ástæðu til að ætla að sérstök hætta væri á ferðum í umrætt sinn.
Húsbóndaábyrgð stefnanda grundvallist á ábyrgð hans á verkum verkstjóra sem verið hafi Böðvar Guðmundsson. Hann hafi brugðist skyldum sínum með því að sinna ekki aðgæslu og leiðbeiningarskyldu sinni og gæta ekki að því að kjarrsögin væri í lagi.
Stefnandi verði ekki sviptur bótarétti með vísan til eigin sakar. Hann hafi beitt viðurkenndum verklagsreglum meðal starfsmann Skógræktarinnar við að losa kjarrgreinar úr orfinu og hafi mátt gera ráð fyrir að vélin væri í lagi. Útbúnaður sagarinnar hafi ekki verið á ábyrgð hans. Þá hafi slysið ekki verið tilkynnt innan tilskilins frests sbr. 2. gr. 81 gr. laga nr. 46/1980 og ástand vélarinnar því aldrei kannað og liggi því ekkert fyrir um það. Stefnandi beri hallan af upplýsingaskorti um ástand sagarinnar og og þátt þess í tildrögum slyssins.
Stefndi telur slys stefnanda alfarið verða rakið til þess, að stefnandi hafi ekki sinnt þeim öryggisfyrirmælum sem honum hafi verið gert að fylgja . Er slysið varð hafi stefnandi unnið með kjarrsög u.þ.b. tvo mánuði hjá Skógræktinni og því verið vel kunnugur tækinu, eiginleikum þess og hættum. Hann hafi fengið ítarlegar leiðbeiningar um notkun þess, þar á meðal að drepa alltaf á vélinni þegar losa þurfti fyrirstöðu. Einnig hafi verið útvegaðir leðurhanskar sem nota skyldi með kjarrsöginni. Ljóst sé því að slys stefnanda verði fyrst og fremst rakið til þess að hann fylgdi ekki skýrum og ítrekuðum fyrirmælum vinnuveitenda um vinnutilhögun. Er lögð á það áhersla af stefnda að útilokað hafi verið fyrir vinnuveitanda stefnanda að fylgjast stöðugt með því að hann færi að fyrirmælum. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að kjarrsög sú sem stefnandi notaði hafi verið gölluð eða biluð á nokkurn hátt. Líklegast sé að sagarblaðið hafi farið að snúast vegna þess að stefnandi hafi ekki stillt hægagang vélar á réttan hátt. Það að sagarblaðið snerist þó bensíngjöf sé ekki haldið niðri hafi ekki verið galli eða bilun heldur þekkt staðreynd. Skógrækt ríkisins hafi tilkynnt um slysið til lögreglu og vinnueftirlits 26. ágúst 1996. Hvergi komi fram í gögnum um rannsókn að galli hafi verið í kjarrsög þeirri sem stefnandi vann með og séu fullyrðingar um vanbúnað tækis því ósannaðar.
Tölulegum fjárhæðum þjáningabóta er mótmælt sem of háum. Þjáningabótum í 119 daga er mótmælt og bent á að stefnandi hafi hafið að eigin sögn nám í byrjun september 1996 og tekið jólapróf, væntanlega í desember s.á. Þá er útreikningi varanlegrar örorku mótmælt.
NIÐURSTAÐA
Fram kom í skýrslu stefnanda að honum hafði verið sagt til um notkun tækis þess er hann vann með. Hafi verið farið yfir notkun tækisins á námskeiði sem staðið hafi frá því kl. 8 til 12 á hádegi eða samtals 4 klukkustundir þar sem farið var yfir glærur þar sem notkun tækisins var útskýrð. Þá hafi honum verið sýnd notkun tækisins. Hann hafi fengið leiðbeiningar um að drepa yrði á söginni ef losa þurfti greinar eða annað sem festist milli blaðs og hlífar. Þá kom fram að stefnanda var það kunnugt að stilla þurfti ganghraða vélar þeirrar er knúði sögina og að ef ganghraði var of mikill gat blaðið snúist enda þótt bensíngjöf væri sleppt. Kom fram hjá stefnanda að stilla hefði þurft ganghraða tvisvar á dag að jafnaði. Þá kemur fram í málinu að ef bensínbarki rakst í, gat það haft áhrif á ganghraða.
Í skýrslu Böðvars Guðmundssonar skógarvarðar kom fram að starfsmönnum var kunnugt um að í leiðbeiningum sem fylgdu vél þeirri sem notuð var mælt fyrir um að stöðva vél ef grein festist og losa hana síðan. Hins vegar var honum kunnugt um að starfsmenn gerðu þetta ekki alltaf.
Af skýrslu stefnanda er ljóst að honum voru hættueiginleikar tækis þess er hann vann með vel kunnir og hafði fengið tilsögn um hvernig það ætti að nota og hvernig bregðast skyldi við ef greinar festust í sagarblaði. Stefnandi stjórnaði tæki því er hann vann með einn og tók sjálfur um það ákvörðun hvernig hann leysti úr því ef greinar festust milli sagarblaðs og hlífar. Þykir ljóst að slys stefnanda megi alfarið rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs er hann var að hreinsa greinar úr vélinni með því að hann stöðvaði ekki vél þá er knúði sagarblaðið og að sú sé ein orsök slyss hans.
Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 50.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 21. desember 1998. Þóknun lögmanns hans ákvarðast 285.323 krónur að viðbættum virðisaukaskatti sem er 69.904 krónur. Þá hefur stefnandi greitt fyrir læknisvottorð, örorkumat og afrit skattframtala samtals 71.140 krónur og er því málskostnaður hans samtals 426.368 krónur sem greiðist úr ríkissjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Grétars Páls Gunnarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 50.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals 426.368 krónur greiðist úr ríkissjóði.