Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-169

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Kjartani Jónssyni (Jónas Fr. Jónsson lögmaður), X (Ragnar Aðalsteinsson lögmaður), Kristjáni Georg Jósteinssyni og Fastreki ehf. (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Innherjasvik
  • Hlutdeild
  • Upptaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðnum 13. og 21. apríl 2021 leita Kjartan Jónsson, Kristján Georg Jósteinsson og Fastrek ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars sama ár í máli nr. 215/2019: Ákæruvaldið gegn Kjartani Jónssyni, X, Kristjáni Georg Jósteinssyni og Fastreki ehf., á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með beiðni 20. apríl 2021 leitar jafnframt X leyfis til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á framangreindar beiðnir.

3. Með dómi Landsréttar voru leyfisbeiðendur Kjartan Jónsson og Kristján Georg Jósteinsson sakfelldir fyrir innherjasvik með því að leyfisbeiðandi Kristján Georg keypti og nýtti, í gegnum félag sitt sem nú heitir Fastrek ehf., afleiður og sölurétt samkvæmt valréttarsamningum sem byggðust á verðþróun hlutabréfa í Icelandair Group hf., þrátt fyrir að búa yfir innherjaupplýsingum sem leyfisbeiðandi Kjartan Jónsson lét honum í té. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot þeirra þóttu sérstaklega alvarleg og ásetningur einbeittur. Refsing leyfisbeiðanda Kjartans Jónssonar var ákveðin fangelsi í tvö ár en refsing leyfisbeiðanda Kristjáns Georgs þrjú ár og sex mánuðir. Auk þess var fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á tilteknum eignum leyfisbeiðenda Kjartans Jónssonar og Fastreks ehf. Leyfisbeiðandi X var aftur á móti sýknaður af hlutdeild í innherjasvikum fyrir að hafa keypt sams konar sölurétt samkvæmt valréttarsamningi á grundvelli ráðgjafar eða hvatningar af hálfu leyfisbeiðanda Kristjáns Georgs. Ávinningur hans af broti leyfisbeiðanda Kristjáns Georgs var hins vegar gerður upptækur.

4. Leyfisbeiðandi Kjartan Jónsson telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu og að mikilvægt sé með tilliti til starfsemi útgefenda og verðbréfamarkaðar að fá úrlausn Hæstaréttar um efni málsins. Við úrlausn þess reyni á túlkun á ýmsum atriðum í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti auk ákvæða laga nr. 88/2008 um sönnun refsiverðrar háttsemi og þá einkum í hve ríkum mæli sakfelling verði byggð á óbeinni sönnun samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laganna. Þá telur hann að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggi á forsendum sem samræmist illa hefðbundnum sjónarmiðum verðbréfamarkaðsréttar og kröfum til sönnunar og réttarláttrar málsmeðferðar samkvæmt stjórnarskrá og lögum nr. 88/2008. Hann telur það meðal annars ekki standast að telja almenna tilgreiningu heildarsafns upplýsinga um „markaðsstöðu“ eða „flutningatölur“ til innherjaupplýsinga, án nánari afmörkunar á því hvað í upplýsingunum uppfylli skilyrði 120. gr. laga nr. 108/2007. Þá byggi niðurstaða Landsréttar um sakfellingu á sjónarmiðum og gögnum sem ekki hafi legið fyrir í málinu auk þess sem ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til málsvarna hans um að líkur hafi staðið til þess að innherjaupplýsingarnar hafi myndast eftir að meint brot hans hafi átt að eiga sér stað.

5. Leyfisbeiðandi Kristján Georg byggir á því að fullnægt sé öllum skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu reyni á hvort fram sé komin sönnun þess að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007 en ákæruvaldið hafi einungis stutt mál sitt við óbein sönnunargögn samkvæmt 109. gr. laga nr. 88/2008. Leyfisbeiðandi Kristján Georg telur að um slíka aðstöðu hafi aldrei áður verið fjallað í dómum Hæstaréttar. Þá séu mörk leyfilegra ályktana óljós enda hafi héraðsdómur talið óhjákvæmilegt að sýkna hann að hluta. Loks sé mikilvægt að Hæstiréttur fjalli um áhrif þeirra miklu tafa sem urðu á meðferð máls undir áfrýjun þess til Landsréttar.

6. Leyfisbeiðandi X leitar leyfis Hæstaréttar til að áfrýja fyrrgreindum dómi Landsréttar til að fá endurskoðun á ákvörðun Landsréttar um upptöku á tilteknum eignum þannig að hann verði sýknaður af þeirri kröfu ákæruvaldsins. Hann telur að úrlausn um þetta hafi verulega almenna þýðingu enda hafi ekki reynt á sambærilegt atriði áður í dómaframkvæmd. Þá telur hann að dómur Landsréttar sé að þessu leyti bersýnilega rangur að efni til enda sé ekki samræmi milli ákærunnar í málinu og niðurstöðu Landsréttar. Í dómi Landsréttar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að leyfisbeiðandi hafi notið hagnaðar af meintu broti leyfisbeiðanda Kristjáns Georgs en þrátt fyrir það hafi hann verið dæmdur til að þola upptöku ávinnings af eigin viðskiptum.

7. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Að mati ákæruvalds er dómur Landsréttar ágætlega rökstuddur og byggður á nægjanlega traustum grundvelli um sakfellingu, ákvörðun refsingar og upptöku eigna. Ákæruvaldið telur að í beiðnum leyfisbeiðenda Kjartans Jónssonar og Kristjáns Georgs um áfrýjunarleyfi felist að endurtekin verði málsmeðferð og umfjöllun um varnir þeirra sem þegar hafi farið fram í héraðsdómi og fyrir Landsrétti með fullnægjandi hætti. Þá lúti beiðnir leyfisbeiðenda ekki að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.

8. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu af þeim ákæruefnum sem leyfisbeiðendur voru sýknaðir af í héraði byggir að nokkru leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Með hliðsjón af því er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.