Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Skilorðsrof
- Fyrning sakar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Karl Axelsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða samkvæmt 1. og 2. ákærulið en hann verði sakfelldur samkvæmt 3., 4. og 5. lið ákæru. Þá krefst ákæruvaldið þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.
Móðir brotaþola gaf skýrslu hjá lögreglu 3. janúar 2014 en lést [...] maí sama ár. Aðalmeðferð málsins fór fram 13. janúar 2016 og er efni skýrslunnar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þó segir í 3. mgr. lagagreinarinnar að hafi vitni ekki komið fyrir dóm og þess sé ekki kostur við meðferð máls, en skýrsla verið gefin hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum meðan málið var til rannsóknar, meti dómari hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og hvert það sé. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 var héraðsdómi því heimilt að taka tillit til þess sem kom fram í fyrrnefndri skýrslu hjá lögreglu.
Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reisir ákærði á því að mikilvæg vitni hafi ekki komið fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Nefnir hann í því sambandi lögfræðing hjá Barnavernd Reykjavíkur, sérhæfðan rannsakanda og sálfræðing hjá Barnahúsi, yfirlækni á barna- og unglingageðdeild Landspítala og ráðgjafa hjá foreldrahúsi. Í bréfi ríkissaksóknara 5. október 2015 til Héraðsdóms Reykjavíkur, er hann sendi gögn málsins til dómsmeðferðar, voru tilgreind þau vitni sem ákæruvaldið hugðist leiða í málinu. Þau vitni sem ákærði telur að hefði átt að leiða voru ekki tilgreind þar. Ákærði gerði þó ekki kröfu til þess við meðferð málsins í héraði að þau vitni sem hann telur að hefði átt að leiða yrðu kvödd fyrir dóm til skýrslugjafar og í vottorðum þeirra, sem eru meðal gagna málsins, kemur ekkert fram um sakarefni þess. Verður hinn áfrýjaði dómur því ekki ómerktur af þeirri ástæðu að þau hafi ekki gefið skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá eru engir slíkir annmarkar á samningu hins áfrýjaða dóms að leitt geti til ómerkingar hans, sbr. 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu einnig á því að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo einhverju skipti um úrslit máls. Héraðsdómur mat framburð brotaþola á þann veg að hún hefði gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi sem styddist við önnur gögn málsins en hafnaði framburði ákærða. Að virtum þeim atriðum sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi verða ekki vefengdar forsendur hans fyrir sakfellingu ákærða, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, sem verður þannig staðfest.
Niðurstaða héraðsdóms um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæða verður staðfest að öðru leyti en því að brot hans samkvæmt 2. lið ákæru varðar við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. júní 2010 í máli nr. 421/2009. Jafnframt er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakir ákærða samkvæmt 1. og 2. ákærulið séu ófyrndar.
Ákæruvaldið fellir sig við niðurstöðu héraðsdóms um fyrningu brots samkvæmt 6. ákærulið en unir ekki niðurstöðu dómsins um fyrningu brota samkvæmt 3., 4. og 5. ákærulið. Brot samkvæmt þessum ákæruliðum framdi ákærði með allnokkru millibili á árunum 2005 til 2008. Eins og atferli hans samkvæmt umræddum ákæruliðum var háttað verður ekki litið á það sem röð samfelldra brota heldur hvert um sig sem sjálfstætt brot. Ákærði framdi á árinu 2007 brotið samkvæmt 4. lið ákæru, sem varðar við 199. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt framburði brotaþola, sem héraðsdómur mat eins og fram er komið trúverðugan, átti það brot sér stað eftir andlát föður ákærða, sem lést [...] maí 2007, en lög nr. 61/2007 tóku gildi 4. apríl það ár. Brot samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga fyrnist á fimm árum og telst upphaf fyrningarfrests frá þeim degi er brotaþoli náði 18 ára aldri, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. sömu laga, eins og síðarnefnda ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 61/2007. Var sök samkvæmt þessum ákærulið því ekki fyrnd þegar rannsókn hófst gegn ákærða 19. desember 2013 og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar greinir. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður á hinn bóginn staðfest niðurstaða hans um fyrningu sakar samkvæmt 3. og 5. lið ákæru.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða, einkaréttarkröfu og sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 965.870 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2016.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 13. janúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. október 2015, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], með dvalarstað að [...], [...], „fyrir kynferðisbrot og önnur brot gegn A, fæddri [...], á tímabilinu 2005 til 2008, þegar A var 13 til 16 ára, á heimilum hans á [...], með því að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar, sem hér greinir:
1. Að [...], þar sem ákærði bjó inni á heimili foreldra sinna, á árinu 2005, þegar A var 13 ára, beðið hana um að nudda bert bak hans, þar sem hann lá á rúmi sínu, þannig að hún sat klofvega yfir rassi hans, síðan snúið sér við þannig að hún sat klofvega yfir kynfærasvæði hans og beðið hana um að nudda bera bringu hans, strokið mjaðmir hennar og rass utan klæða og hreyft hana til í samfarahreyfingum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007, en til vara við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007.
2. Að [...], á árinu 2005, þegar A var 13 ára, haldið henni niðri, þar sem hún lá á rúmi hans, strokið líkama hennar og rass, og þrátt fyrir að hún bæði hann um að hætta, tekið í buxnastreng hennar, sett titrara inn fyrir buxur hennar og inn í kynfæri hennar og kveikt á titraranum, sett hönd hennar á getnaðarlim hans og látið hana fróa honum, og síðan sett getnaðarliminn í munn hennar, haldið um hnakka hennar og látið hana hafa við hann munnmök þar til hann fékk sáðlát.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 61/2007, og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 194. gr. eða 195. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
3. Tvisvar sinnum á ofangreindu tímabili látið A leggjast á fjóra fætur og haldið um rass hennar eða mjaðmir utan klæða og látið rass hennar nuddast við kynfæri hans utan klæða:
- Í fyrra skiptið að [...], þegar A var 14 ára.
- Í seinna skiptið að [...], en þangað fluttist ákærði í september 2006, og var A undir áhrifum áfengis.
Telst þetta varða við 3. mgr. 202. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007, en til vara við 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, sbr. áður til vara við 2. mgr. 198. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
4. Að [...], á árinu 2007, eftir að hafa klætt A, úr öllum fötum nema nærbuxum og brjóstahaldara, strokið hendinni yfir kynfæri hennar utan klæða.
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
5. Að [...], í lok árs 2007 eða byrjun árs 2008, sýnt A myndband af honum í samförum við stúlku og beðið hana um að fá að snerta hana.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
6. Ítrekað á framangreindu tímabili veitt eða afhent A áfengi.
Telst þetta varða við 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa á hendur ákærða um miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. janúar 2005, en dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er krafist þóknunar réttargæslumanns að mati dómara eða skv. síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða.
II
Upphaf málsins er að fimmtudaginn 3. október 2013 kom brotaþoli á lögreglustöðina ásamt lögmanni sínum og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn sér. Sama dag var tekin af henni skýrsla þar sem hún skýrði frá atvikum og er ákæran byggð á skýrslunni. Efni skýrslunnar verður ekki rakið en í næsta kafla verður rakinn framburður brotaþola fyrir dómi. Þess skal þó getið að brotaþoli og ákærði eru systrabörn og í skýrslu hennar kom fram að hún hefði verið mikið á heimilum ákærða sem tilgreind eru í ákærunni og á þeim árum sem þar getur.
Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla lögreglu þar sem fram kemur að móðir brotaþola hafi skýrt lögreglu frá því í skýrslu að hún hefði verið ráðalaus vegna hegðunar brotaþola á unglingsárum hennar. Brotaþoli hefði reynst ófáanleg til að segja frá því hvað hrjáði hana fyrr en á árinu 2011 er hún hefði sagt sér frá ætluðum kynferðisbrotum ákærða gegn henni. Í framhaldinu hefði brotaþoli leitað til sálfræðings og eins til Stígamóta. Þá hefði brotaþoli skrifað sér bréf. Móðirin lést áður en hún gat komið því til lögreglu en brotaþoli fann hluta af bréfinu og kom því til lögreglu. Bréfhlutinn er ritaður aftan á umslag sem ber póststimpil með dagsetningunni 27. janúar 2010. Bréfhlutinn er svohljóðandi: „13 ára þegar hann bað mig um að nudda á sér bakið. Held ég gerði það svona 2-3 x. Byrjaði að sýna mér myndband af honum og fyrrverandi hans vera að ríða. Talaði við mig um strákavandamál og ég fór að treysta honum fyrir öllu. Hann hrósaði mér útlitslega og byggði mig upp. Fór að vilja skoða mig, snerta mig og kyssa mig. Ég fraus því mér fannst ég skulda honum þetta því hann sýndi mér hlýju. Fann vanmátt og fannst öllum vera sama um mig. Hann vissi hluti um mig sem ég vissi að hann gæti notað gegn mér t.d. að ég væri búin að prófa að reykja hass. Ég var alltaf í afneitun að hann myndi gera svona aftur því hann baðst svo mikið afsökunar þegar hann var að þreifa á mér.“
Í skýrslu móðurinnar kom enn fremur fram að hún hefði haft samband við ákærða eftir að brotaþoli hafði skýrt henni frá meintum brotum hans. Móðirin kvaðst hafa krafið ákærða um bætur til að standa straum af kostnaði við sálfræðiaðstoð við brotaþola og hefði hann greitt henni um 300 þúsund krónur samtals, ýmist inn á bankareikning hennar eða í peningum. Lögreglan rannsakaði síma móðurinnar og ákærða. Í síma hennar voru tíu smáskilaboð sem send voru ákærða á tímabilinu frá 25. maí 2011 til 17. janúar 2013. Í þessum skilaboðum ásakar móðirin ákærða fyrir að hafa misnotað brotaþola og eyðilagt líf hennar. Hún kallar hann barnaníðing, hótar að kæra hann og fer fram á skaðabætur. Á tímabilinu 15. febrúar 2012 til 5. mars sama ár sendir ákærði henni fern skilaboð.
Brotaþoli leitaði til Stígamóta og í vottorðum þaðan kemur fram að hún hafi farið í fjögur viðtöl haustið 2013. Einnig hefði brotaþoli leitað einu sinni til Stígamóta 2009 en hefði þá ekki verið reiðubúin að nýta sér þjónustuna. Í vottorðunum segir að brotaþoli hafi greint „frá kynferðisofbeldi af hálfu frænda síns sem hófst þegar hún bjó á heimili hans. Hún lýsti því hvernig hann hafi með skipulegum hætti byggt upp traust þeirra á milli sem hann hafi svo nýtt sér til að brjóta á henni kynferðislega.“ Þá kemur fram að brotaþoli sé að glíma við afleiðingar þessa. Hún sé kvíðin og með lélega sjálfsmynd. Einnig hefði hún leiðst út í neyslu fíkniefna. Loks segir að brotaþoli hafi „tekið ábyrgð á ofbeldinu, verið með sektarkennd og skammast sín mikið. Þess ber að geta að þetta eru allt algengar afleiðingar af kynferðislegu ofbeldi.“
Í bréfi Barnaverndar kemur fram að móðir brotaþola hafi haft samband í mars 2006 vegna áhættuhegðunar brotaþola, eins og það er orðað. Í bréfinu kemur fram að afskipti hafi verið höfð af brotaþola næstu árin, eða fram í ágúst 2009. Þessi afskipti hafi verið vegna útigangs brotaþola og fíkniefnaneyslu. Einnig hafi komið fram að hún hefði þjáðst af andlegum kvillum og eins skýrði brotaþoli frá kynferðislegri misnotkun sem hún vildi þó ekki kæra.
Í vottorði sálfræðings um brotaþola segir að hún hafi leitað á neyðarmóttöku í byrjun desember 2009 eftir að hafa greint frá meintu kynferðisbroti frænda síns er hún var 13 ára. Sálfræðingurinn ræddi við brotaþola í fjögur skipti. Einu sinni í desember 2009 og í þrjú skipti fyrri hluta árs 2010. Í viðtölunum greindi brotaþoli frá meintum kynferðisbrotum frændans og í hverju þau voru fólgin. Í vottorðinu segir að allt viðmót brotaþola bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn og bjargarleysi þegar brotin áttu sér stað. Niðurstöður greiningarmats sýni að hún þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar brotanna. Einnig hafi komið í ljós að brotaþoli eigi langa og alvarlega sögu um önnur áföll er ljóst þyki að hafi haft víðtæk áhrif á hana og valdið henni verulegri þjáningu og vanlíðan. Þau sálrænu einkenni er brotaþoli hafi upplifað í kjölfar brotanna samsvari einkennum sem séu vel þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og stórslys, líkamsárás, nauðgun eða hamfarir. Loks segir að niðurstaða sjálfsmatskvarða samsvari vel frásögnum hennar í viðtölum. Í þeim hafi hún ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og neitaði alfarið að hafa brotið gegn brotaþola. Hann kvað hana hafa verið á heimili fjölskyldu hans á umræddum tíma en ekki eins mikið og brotaþoli hafði borið um. Þá kvaðst hann hafa greitt móður brotaþola um 400 þúsund krónur til að komast undan kæru vegna kynferðisbrota gagnvart brotaþola. Þetta hefði hann gert þrátt fyrir að hann væri saklaus. Hann hefði greitt móður brotaþola þessa peninga til að losna við málið og til þess að hann yrði látinn í friði.
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði þekkt brotaþola frá því hún var lítil stúlka en þau eru systrabörn. Hver ákæruliður fyrir sig var borinn undir ákærða. Hann ítrekaði neitun sína og kvað atburði þá, sem lýst er í ákæru, ekki hafa gerst.
Ákærði kvaðst hafa búið á fyrra heimilinu, sem um getur í ákæru, þar til í september 2006 er hann hafi flutt á síðara heimilið og búið þar í tvö og hálft ár. Þá hafi hann flutt aftur á fyrra heimilið. Hann kvað brotaþola hafa komið til sín þegar hann bjó á fyrra heimilinu en hún hafi miklu fremur verið að sækja í félagsskap systur hans. Þá kannaðist ákærði við að brotaþoli hefði komið á þessi heimili með vinkonum sínum. Yfirleitt hefði brotaþoli komið með einni í einu. Hann kvað þær hafa verið fjórar en hann mundi bara nöfn á tveimur og verður framburður þeirra rakinn hér á eftir. Ákærði kvað það ekki rétt hjá brotaþola að hennar annað heimili hafi verið á heimili hans og er þá átt við fyrra heimilið sem nefnt er í ákæru. Hann kvað hugsanlegt að brotaþoli hefði komið ein til sínu einu sinni og verið í örstutta stund. Samskipti þeirra hefðu aukist eftir að hann flutti aftur á fyrra heimilið og hefði hún þá farið að segja honum frá ýmsum einkamálum sínum og hvað hefði komið fyrir hana. Hún hefði meðal annars sagt henni frá því að henni hefði verið nauðgað. Þá kvaðst ákærði hafa útvegað henni vinnu sumarið 2007 í sama fyrirtæki og hann vann hjá en þau hefðu þó ekki unnið í sama húsi. Hann kvaðst hafa útvegað henni vinnuna að beiðni móður hennar. Þá kvaðst hann aldrei hafa beðið brotaþola að koma í heimsókn. Hann hefði hins vegar ekkert haft á móti því að brotaþoli kæmi á heimili hans með vinkonum sínum. Ákærði kvað sig og þær hafa spjallað saman og reykt vindlinga þegar þau hittust en hann kvaðst ekki muna eftir að hafa veitt þeim áfengi. Hafi þær haft áfengi um hönd hefðu þær komið með það sjálfar. Hann hefði hins vegar ekki bannað þeim að drekka enda hefði það ekki verið hans hlutverk. Hann kvaðst ekki hafa veitt brotaþola áfengi og kvaðst ekki minnast þess að hafa keypt áfengi fyrir hana. Hann kvaðst hafa borið á annan hátt við þingfestingu en það hafi verið vegna þess að hann hefði verið nýkominn af sjónum og ekki getað kynnt sér ákæruna nægjanlega vel áður en hann mætti fyrir dóminn.
Ákærði kvað sig og brotaþola hafa hætt að talast við á árinu 2009 og síðan þá hefði hann engin samskipti haft við hana. Ástæðuna kvað hann hafa verið þá að þau hefðu farið í sitt hvora áttina, eins og hann orðaði það. Hann kvað hvorugt þeirra hafa átt frumkvæði að þessu en hann hefði ekki mikið spáð í þetta á þessum tíma. Hann kvaðst ekki vita um samskipti brotaþola við aðra í fjölskyldunni en vita þó að hún hefði haft samskipti við systur hans og komið á fyrra heimilið sem nefnt er í ákæru.
Ákærði kvað móður brotaþola hafa rætt við sig 2010 eða 2011. Hún hefði hringt í sig, líklega snemma árs 2011, og sagt að hún vildi fá eina og hálfa milljón, annars yrði hann kærður til lögreglu fyrir að misnota brotaþola. Hann hefði átt að hafa misnotað brotaþola þegar hún var 11 ára. Ákærði kvaðst hafa átt peninga á þessum tíma og af tvennu illu hefði hann ákveðið að borga henni og hefði hann greitt henni samtals 400.000 krónur í nokkur skipti. Hún hefði komið heim til hans og fengið peninga og eins hefði hann lagt inn á reikning hennar. Þessu hefði lokið þegar móðirin hætti að þrýsta á um greiðslur og eins hefði hann ekki átt meiri peninga.
Ákærði var spurður hverju hann hefði svarað ásökunum móðurinnar um misnotkun og kvaðst hann hafa sagt að þær væru ekki réttar. Hann hefði hins vegar hugsað málið og hvað myndi gerast ef hann gerði þetta og ekki þetta, eins og hann orðaði það, og í framhaldinu hefði hann ákveðið að borga henni. Þetta hefði hann gert til að þurfa ekki að lenda í þeirri aðstöðu sem hann væri í núna. Hann kvaðst hafa talið skynsamlegra að borga. Ákærði kvaðst aldrei hafa viðurkennt við móðurina að hafa brotið gegn brotaþola. Þá kvað hann það ekkert grín að vera ásakaður um svona lagað. Það væri eins og menn væru dæmdir fyrir það eitt að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki hafa rætt þessar greiðslur við aðra í fjölskyldunni. Þá kvaðst hann hafa rætt við lögmann um mögulega kæru á hendur móðurinni fyrir fjárkúgun en ákveðið hefði verið að bíða með það og sjá hvað yrði úr málinu. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt þessar greiðslur við brotaþola og ekki hafa haft samskipti við hana á þessum tíma. Hann kvaðst ekki hafa séð hana síðan árið 2009.
Undir ákærða voru borin framangreind smáskilaboð frá móður brotaþola. Hann kannaðist við að hafa fengið skilaboð frá henni en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort það hefðu verið þessi eða önnur. Hann kvað það þó ljóst samkvæmt gögnum málsins að sér hefðu verið send þessi skilaboð. Hann kvað móðurina hafa hringt fyrst í sig og í upphafi hafi hún verið í mikilli geðshræringu. Skilaboðin hafi komið síðar. Þá kannaðist ákærði við að hafa sent móðurinni skilaboð þau sem eru meðal gagna málsins og að framan voru rakin. Í lok einna skilaboðanna segist hann þakka móðurinni fyrir allt. Hann bar að hann hefði ekki verið að þakka henni heldur bara verið sleikja hana upp eins og hann orðaði það. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir bréfi sem rætt er um í skilaboðum móðurinnar.
Brotaþoli bar að hafa mikið verið á heimili ákærða sem barn og unglingur og haft mikil samskipti við systkini ákærða er voru á svipuðu reki og hún. Systir ákærða hefði þroskast hratt og hún því orðið eins og ein eftir, eins og hún orðaði það. Móðursystir hennar hefði þá spurt hana af hverju hún ræddi aldrei við ákærða heldur bara bróður hans. Brotaþoli kvaðst ekki hafa alist upp við venjulegar aðstæður vegna veikinda móður sinnar. Á heimili ákærða kvaðst hún hafa fundið eðlilegt heimilislíf og notið þess að vera þar. Þetta hafi verið hennar annað heimili og hefði hún oft gist þar. Hún kvaðst meðal annars hafa kallað föður ákærða pabba. Hún kvað fyrstu samskiptin við ákærða hafa verið þau að hann hefði komið og spurt hana hvort hún vildi hjálpa sér að brjóta saman sokka og hefði hún gert það. Við þetta tækifæri hefði ákærði spjallað við hana og spurt hana um hennar mál. Henni hefði fundist eins og þarna hefði hún fundið vin. Hún kvaðst ekki hafa sett aldursmuninn fyrir sig enda hefðu vinkonur hennar verið eldri en hún. Brotaþoli kvaðst til dæmis hafa sagt ákærða frá því þegar hún hefði prófað hass í fyrsta skipti enda hefði hún viljað að einhver vissi af því.
Varðandi atvik það sem um getur í 1. lið ákæru kvaðst hún hafa nuddað ættingja sína og þar á meðal móður ákærða. Í þetta skipti hefði ákærði, sem hafi verið ber að ofan, beðið hana að nudda á sér bakið. Hann hefði svo snúið sér við og farið með hendurnar niður á mjaðmir hennar og byrjað að strjúka upp og niður. Hún kvaðst hafa orðið skelfingu lostin en hann hefði farið að hreyfa hana í takt eins og um samfarir væri að ræða, en þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hefði setið svona kynferðislega ofan á karlmanni. Hún kvað ákærða ekki hafa strokið henni um rassinn. Brotaþoli kvaðst hafa litið í andlit ákærða sem hafi verið eldrautt. Hann hefði sett hendur fyrir andlitið eins og hann hefði þá vitað hvað hann hefði verið að gera. Ákærði hefði „sjokkerast“ og beðið sig afsökunar, hann hefði ekki vitað hvað hann hefði verið að gera. Hann hefði sagt að hún hefði verið svo heit og hún kvaðst hafa fundið að getnaðarlimur hans hafi verið orðinn harður. Hún kvað sér hafa fundist eins og hann vissi að hann hefði verið að gera eitthvað rangt, eins og hann hefði misst stjórn á sér. Brotaþoli kvaðst hins vegar hafa upplifað þetta þannig að hún hefði gert eitthvað rangt og þurft að hugga ákærða. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ákærði gerði henni eitthvað þessu líkt og hefði hún þá verið 13 ára. Þetta gerðist að sumri til og á fyrra heimilinu sem nefnt er í ákæru. Hún kvaðst á þessum tíma oft hafa verið í tölvu í herbergi ákærða en hann hafi þá ekki verið heima. Þau hafi verið góðir vinir á þessum tíma. Hann hefði verið trúnaðarvinur hennar og hefði hún getað sagt honum allt um sín einkamál og hvað hrjáði hana.
Brotaþoli lýsti atvikum varðandi 2. lið ákæru á þann hátt að hún hefði verið að horfa á sjónvarp með ákærða og sýnd hafi verið auglýsing um dávald. Þá hefði ákærði staðið upp og farið að segja frá því þegar hann hefði verið tekinn upp á svið hjá þessum dávaldi og verið látinn gera þar vandræðalegan hlut. Brotaþoli kvaðst hafa hlegið að þessu og þá hefði ákærði ýtt í hana og það hefði endað eins og þau væru í slag að gamni sínu. Allt í einu hefði ákærði breyst, bæði svipur hans og augu og hann hefði haldið henni niðri. Hann hefði svo byrjað að strjúka henni og hún kvaðst hafa spurt hann hvað hann væri að gera og beðið hann að gera þetta ekki. Ákærði hefði haldið áfram að strjúka henni um rassinn og brjóstin utan klæða. Síðan hefði hann staðið upp og náð í eitthvað sem hún kvaðst ekki hafa séð hvað var. Hann hefði nú látið eins og hann væri að fara inn á hana en hún hefði beðið hann að gera það ekki. Hún kvaðst svo hafa fundið að hann fór inn á hana og setti egg inn í leggöng hennar og kveikt á þeim. Hún kvað ákærða hafa sagt að sér þætti þetta „heitt“ vegna þess að þetta væri bannað þar eð hún væri frænka hans. Brotaþoli kvað ákærða hafa tekið út lim sinn og látið hana snerta hann. Þessu næst hafi verið barið á hurðina og hefði ákærði þá sest við tölvuna og farið að fróa sér. Systir ákærða hefði kallað en ákærði hefði sagt henni að fara og haldið áfram að fróa sér. Brotaþoli kvaðst hafa áfram legið í rúminu með eggið inni í sér og ákærði hefði komið með lim sinn í höndunum og sett hann upp í hana. Hann hefði tekið um hnakka hennar og látið hana hafa munnmök við sig með því að hreyfa höfuðið. Hún kvaðst halda að þetta hefði endað með því að ákærði hafi fengið sáðlát í handklæði er var þarna. Þessu næst hefði ákærði lagst í rúmið, sett hendurnar fyrir andlitið á sér og spurt „oh my God hvað á ég að gera“? Eins og fyrr kvaðst brotaþoli hafa farið að hugga ákærða fyrir það sem hann hafði gert. Hann hefði verið að tala um hvað myndi gerast ef móðir brotaþola kæmist að þessu. Brotaþoli kvað þetta atvik hafa orðið um mánuði síðar en það sem um er fjallað í 1. ákærulið. Hún lýsti því hvernig þessi atvik hefðu haft áhrif á líf hennar hvernig þau takmörkuðu getu hennar til að lifa kynlífi og heftu hana félagslega.
Brotaþoli kvað atvik þau sem um er fjallað í 3. lið ákæru hafa gerst þannig að ákærði hefði látið hana fara á fjóra fætur og sett hendurnar á mjaðmir hennar eins og hann væri að taka hana aftan frá. Hún kvaðst hafa fundið fyrir lim hans hægt og rólega þegar hann hafi harðnað en hann hafi strokið sér upp við hana. Þá kvaðst hún hafa heyrt hann andvarpa og stynja. Hún kvaðst hafa haldið að hann vildi sjá hvernig hún liti út þegar hún væri tekin aftan frá. Þau hafi bæði verið í fötum. Þetta hefði gerst í herbergi ákærða á fyrra heimilinu sem nefnt er í ákæru en annað tilfellið gæti þó hafa gerst á hinu heimilinu og hún þá verið undir áhrifum áfengis. Annað þessara tilvika hefði gerst á árinu 2005, stuttu eftir atvikin sem nefnd eru í ákæruliðum 1 og 2. Hitt tilvikið hefði gerst í lok árs 2005 eða í byrjun 2006. Hún kvað ákærða hafa hætt en haldið svo áfram. Hann hefði svo hætt og beðist afsökunar eins og venjulega. Brotaþoli ítrekaði að hún hefði sótt í að vera á heimili ákærða enda hefði hún verið þar hjá heilbrigðri fjölskyldu. Ástandið hefði verið svo slæmt heima hjá henni að hún hefði frekar viljað vera á heimili ákærða og taka áhættuna á því að vera misnotuð heldur en að vera heima hjá sér. Þá hefði hún talið sér trú um að ákærði væri veikur og réði ekki við sig. Einnig kom fram hjá henni að hún hafi oft tekið vinkonur sínar með sér því þá hefði ákærði ekki getað gert henni neitt.
Atvikið, sem um er fjallað í 4. ákærulið, kvað brotaþoli hafa atvikast þannig að hún hefði verið í gleðskap og hringt í ákærða og beðið hann að aka sér heim. Hann hefði gert það en hún kvaðst ekki hafa komist inn heima hjá sér og því hefði hún gist hjá ákærða. Þar heima hefði hann afklætt hana enda hefði hún verið kófdrukkin. Eftir það hefðu þau rætt um föður hans og í því hefði hann strokið létt yfir klof hennar en hún hefði verið í nærbuxum. Í framhaldinu hefði hún svo farið að sofa. Hún kvað föður ákærða hafa dáið í júní 2007 og þetta hefði verið seinni hluta þess árs. Nóttin hafi verið dimm og kalt í veðri.
Brotaþoli kvað ákærða hafa sýnt sér myndband sem sýndi hann í samförum við stúlku, eins og fjallað er um í 5. ákærulið. Hún kvaðst hafa verið heima hjá sér og verið búin að taka inn E-pillu en hringt í ákærða og beðið hann að taka smárúnt með sig. Þau hefðu síðan farið heim til hans þar sem hún kvaðst hafa sest á gólfið og þá hefði hann sett myndband í tækið og hefði þar verið mynd af ákærða og stúlku sem hann var þá með. Brotaþoli kvað stúlkuna vera einu ári eldri en hún. Hún lýsti því sem hún hefði séð á myndinni en hún kvað sér hafa fundist það ógeðslegt og farið. Hún mundi eftir að hafa farið í snjógalla og farið að gera eitthvað en ákærði hefði beðið hana um að koma og kúra hjá sér. Ákærði hefði reynt að snerta hana en hún hefði ýtt honum frá sér.
Brotaþoli kvað ákærða oft hafa veitt sér áfengi eða alltaf þegar hún hefði beðið um það. Þá hefði ákærði keypt áfengi fyrir hana og vinkonur hennar. Eins hefðu þær getað komið heim til hans til að neyta áfengis. Hún var spurð hversu oft hann hefði keypt fyrir hana áfengi og kvað hún það hafa gerst í fimm til sjö skipti á þessu tímabili.
Brotaþoli kvaðst fyrst hafa sagt fyrrum vinnufélaga sínum frá þessu haustið 2007 en þau unnu saman þá um sumarið. Hún hefði ekki lýst þessu nákvæmlega heldur sagt að ákærði væri búinn að misnota hana frá því hún var 13 ára. Á þessum tíma unnu þau öll þrjú á sama stað. Hún kvaðst hafa treyst sér til að segja honum frá þessu vegna þess að hann tengdist henni ekki. Þá hefði hún á svipuðum tíma sagt starfskonu Stígamóta frá þessu en þar hefði hún verið í viðtölum vegna annarra mála. Á þessum tíma hefði hún verið að byrja að opna á þetta. Síðan hefði hún sagt móður sinni frá þessu 2009. Móðir hennar hefði tekið þessu illa og meðal annars hringt í ákærða, en brotaþoli kvaðst ekki hafa vitað af því fyrr en eftir á. Eins hefði móðirin sagt öðrum ættingjum þeirra frá þessu en þeir hefðu ekki gert mikið úr þessu. Brotaþoli kvaðst hafa fengið vitneskju um fjárkröfur móður sinnar á hendur ákærða þegar hún hefði skoðað síma hennar. Móðir hennar kvaðst hafa rukkað ákærða vegna þess að hún var að missa íbúðina og skuldaði auk þess félagsþjónustunni háar fjárhæðir. Brotaþoli kvað sér hafa liðið eins og móðir hennar væri að selja hana. Hún hefði alls ekki samþykkt að krefja ákærða um peninga. Það eina sem hún hefði viljað frá honum væri afsökunarbréf en það var hið eina sem hann gat ekki veitt henni. Hún hefði aldrei fengið bréf frá honum.
Undir brotaþola var borinn hluti bréfs þess sem greint er frá í II. kafla. Hún kvaðst hafa skrifað móður sinni þetta bréf því hún hefði ekki getað horft í augun á henni og sagt henni hvað ákærði hefði gert sér. Áður hefði hún aðeins sagt henni frá misnotkuninni með almennum orðum. Bréfið hefði verið í þremur hlutum en hún hefði bara fundið þennan eina hluta eftir andlát móður sinnar en hún lést [...] maí 2014.
Brotaþoli kvað móður sína hafa fengið sig til að fara til sálfræðings þótt hún hefði ekki verið tilbúin til þess enda hefði hún enn talið þetta allt vera sér að kenna. Eins hefði móðir hennar fengið hana til að fara til Stígamóta 2013 og einnig hefði hún lagt fram kæru sama ár.
Framangreindur vinnufélagi brotaþola bar að hann hefði unnið með henni og ákærða sumarið 2007. Ákærði hefði verið yfirmaður þeirra og hefðu þau unnið mikið saman. Hann kvað sig og brotaþola hafa verið vinir þetta sumar en hann hefði ekki hitt hana síðan. Hann kvað brotaþola hafa sagt sér á MSN í júlí 2007 að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi en ekki lýsti hún því nánar. Hann kvað þetta ekki hafa komið fram hjá henni af einhverju sérstöku tilefni. Þá kvað hann brotaþola ekki hafa sagt sér hvenær þetta átti að hafa átt sér stað en hann hafi skilið þetta svo að þetta hefði gerst áður en stæði ekki yfir.
Vinkona brotaþola bar að hún hefði verið æskuvinkona hennar en leiðir þeirra hefðu skilið eftir grunnskóla. Hún kvaðst þá hafa slitið öll samskipti við brotaþola vegna fíkniefnaneyslu hennar. Vinkonan kvaðst hafa komið með brotaþola til ættingja hennar á fyrrnefnda heimilinu, þar á meðal ákærða, móður hans og systur og bróður. Hún kvaðst hafa farið einu sinni þegar hún var 15 ára og einu sinni er hún var yngri. Vinkonan kvaðst hafa hitt ákærða með brotaþola á báðum heimilum. Þá kvaðst hún hafa hitt hann einan. Hana minnti að ákærði hefði farið í áfengisverslun fyrir þær og eins hefðu þær verið að drekka áfengi heima hjá honum. Hún kvað brotaþola hafa viljað að hún og önnur vinkona hennar myndu kynnast ákærða. Vinkonan kvað brotaþola ekki hafa lýst brotum ákærða gagnvart sér. Hún kvað brotaþola hafa lýst því fyrir henni að hún hefði nánast búið á heimili ákærða vegna ástandsins á heimili hennar.
Önnur vinkona brotaþola bar að hafa þekkt brotaþola í grunnskóla þegar þær voru í 9. og 10. bekk. Fyrrnefnd vinkona og hún, ásamt brotaþola, hafi verið bestu vinkonur á þessum tíma og þær hafi meðal annars neytt áfengis saman enda verið að byrja að smakka það þá. Hún kvaðst engin samskipti hafa haft við brotaþola eftir að þær luku 10. bekk. Hún kvaðst hafa hitt ákærða með brotaþola, þær hefðu farið heim til hans þar sem hann bjó í foreldrahúsum. Vinkonan kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði væri sætur og hefði hún tekið undir það. Hún kvaðst muna eftir því að brotaþoli hefði sest á ákærða sem hefði ýtt henni af sér og hún hefði sest aftur á hann. Hún kvaðst muna eftir að sér hefði ekki fundist þetta eðlilegt og að hún myndi ekki hafa hagað sér svona gagnvart frænda sínum. Hún kvað brotaþola hafa tekið eftir að henni stóð ekki á sama um þetta og skömmu síðar hafi þær farið. Þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hitti ákærða en næst hefði hún hitt hann er hann sótti hana og þau hefðu farið á rúntinn. Eftir það hefði hann beðið hana að koma með sér heim og hefði hún gert það. Ákærði hefði þá búið í eigin íbúð. Þar hefði hún verið smástund en liðið óþægilega og beðið ákærða að aka sér heim sem hann hafi gert. Hún taldi sig hafa hitt ákærða einu sinni eftir þetta og þá með fyrrnefndri vinkonu og brotaþola. Taldi hún að þá hefði ákærði keypt handa þeim áfengi að þeirra beiðni. Vinkonan kvað brotaþola ekki hafa lýst brotum ákærða gagnvart sér. Hún kvað brotaþola hafa lýst því fyrir sér að hún hefði nánast búið á heimili ákærða þegar hún var yngri og þá hefðu myndast náin vináttutengsl milli hennar og ákærða.
Systir ákærða bar að móðir brotaþola hafi verið nánast ófær um að halda heimili og því búið hjá móður sinni. Brotaþoli og systir hennar hafi verið vinkonur á tímabili og þá hafi brotaþoli komið í heimsókn og gist um helgar. Hún hafi verið frænka og komið í heimsóknir og stundum gist, en hún hafi ekki verið hluti af fjölskyldunni. Systirin kvaðst ekki sérstaklega muna eftir sambandi brotaþola og ákærða en hún kvaðst hafa verið 23 eða 24 ára þegar hún flutti að heiman, það er 1998 eða 1999. Hún kvaðst fyrst hafa heyrt af meintum brotum ákærða á gamlárskvöld 2010 eða 2011 en þá hafi systir hennar og móðir brotaþola hringt í sig. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hafi verið sagt en inntakið hafi verið að ákærði hafi átt að hafa misnotað brotaþola. Hún kvaðst hafa rætt þetta við ákærða sem hafi verið í áfalli en síðan hafi eins og ekkert hefði orðið úr þessu. Á þessum tíma hafi móðir brotaþola verið í óreglu en hún vissi ekki hvort brotaþoli hafi einnig verið komin í óreglu. Þá hafi hún vitað til þess að móðirin hefði bæði beitt fjárkúgun og stolið og þess vegna talið að um væri að ræða eitt af brögðum hennar í þeim tilgangi að ná út fé. Hún kvaðst ekki hafa rætt ætlaða misnotkun við brotaþola og heldur ekki greiðslur frá ákærða.
Önnur systir ákærða bar að hún og brotaþoli hefðu verið mikið saman þegar þær voru litlar. Tengslin hafi svo byrjað að slitna þegar systirin fór í menntaskóla. Brotaþoli hafi verið allnokkuð á fyrra heimilinu sem nefnt er í ákæru, allt þar til hún var tíu til ellefu ára og tengsl þeirra fóru að rofna vegna aldursmunar. Fram að þeim tíma hafi brotaþoli gist af og til. Hún kvað aðstæður hafi verið slæmar á heimili brotaþola en þeirra vegna hafi brotaþoli ekki sótt í að vera heima hjá sér heldur hafi hún komið til að leika við sig. Systirin kvaðst ekki muna mikið eftir samskiptum ákærða og brotaþola en mundi þó eftir því að hann var að hjálpa henni að læra. Systirin kvaðst hafa flutt að heiman 2007, þá 21 árs. Hún var spurð að því hvort hún hefði í eitt skipti komið að læstum dyrum á herbergi ákærða, bankað en verið vísað á brott. Hún kannaðist ekki við það. Þá kvað hún það aldrei hafa komið fyrir að ákærði og brotaþoli hafi verið ein inni í herbergi hans. Enn fremur kvaðst hún aldrei hafa séð neitt óeðlilegt í samskiptum þeirra. Systirin kvað brotaþola hafa sagt sér á gamlárskvöld 2010 að ákærði hefði misnotað sig á fyrra heimilinu þegar hún var 13 eða 14 ára. Brotaþoli hafi verið alveg eðlileg þegar hún sagði þetta og það hafi gerst á fyrra heimilinu þar sem misnotkunin hafi átt að eiga sér stað. Hún kvaðst hafa spurt ákærða um þetta og hann hefði svarað að hann vissi ekkert um þetta. Síðan hefði hún ekki rætt þetta við hann en þetta hefði eitthvað verið rætt í fjölskyldunni og tengdist það peningum. Þá kvaðst systirin lítil samskipti hafa haft við brotaþola eftir að sú síðarnefnda byrjaði í neyslu.
Móðir ákærða bar að brotaþoli hafi komið í heimsókn til sín eins venja sé meðal frændfólks. Hún kvað þær brotaþola hafa verið góðar vinkonur og hún hefði leitað til sín með ýmislegt. Þá hefði brotaþoli stundum gist og þá verið með framangreindri systur ákærða. Þá hefði brotaþoli einnig verið mjög hænd að eiginmanni hennar, föður ákærða, sem lést 2007. Móðirin tók fram að hún hefði aldrei séð neitt óeðlilegt á sínu heimili. Hún hefði til dæmis aldrei séð ákærða og brotaþola fara saman niður í herbergi hans. Móðirin kvaðst einu sinni hafa verið með brotaþola og móður hennar í bíl og þá spurt brotaþola hvort eitthvað hafi komið fyrir milli hennar og ákærða. Móðir brotaþola hefði þá sagt „hættu“ og brotaþoli sagt „ég vil ekki tala um þetta“. Hún kvað brotaþola aldrei hafa rætt við sig um ætlaða misnotkun ákærða. Brotaþoli hefði svo smátt og smátt hætt að koma á heimili hennar.
Starfskona Stígamóta kvað brotaþola hafa leitað þangað eins og að framan var rakið. Hún kvaðst hafa hitt brotaþola tvisvar sinnum. Hún hefði skýrt frá því að hún hefði flutt heim til frænku sinnar á unglingsaldri. Þar hafi búið frændi hennar sem hafi verið eldri en brotaþoli. Hann hafi orðið trúnaðarvinur hennar og hefði hún sótt í að fara í tölvu í herbergi hans. Þar hefði hann brotið gegn brotaþola kynferðislega. Þá kvað hún brotaþola hafa sagt sér að hún hefði farið að klæða sig í víðari föt til að draga úr líkum á að frændinn bryti gegn sér. Þetta hafi átt að draga úr ímynd hennar sem kynveru. Brotaþoli hefði skýrt frá mikilli vanlíðan, kvíða og skömm vegna misnotkunarinnar. Starfskonan tók fram að hún væri að rifja þetta upp eftir minni þar eð ekki væru skráðar skýrslur hjá Stígamótum um viðtöl við skjólstæðinga. Hún staðfesti framangreind vottorð.
Sálfræðingur, sem brotaþoli gekk til og ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa komið til sín í viðtal í desember 2009. Áður hefði hún rætt við móður brotaþola. Fljótlega hafi komið í ljós í viðtölum við brotaþola að hún átti sér langa áfallasögu, bæði vegna eineltis og kynferðisbrota. Brotþoli hafi komið aftur í febrúar 2010 en hún hafi átt erfitt með að nýta sér sálfræðiþjónustuna þótt hún hefði viljað það. Sálfræðingurinn kvaðst hafa hitt brotaþola fjórum sinnum. Brotaþoli hafi skýrt frá kynferðisbroti af hálfu frænda síns. Hún hafi þjáðst af áfallastreituröskun og kvíða auk annars, svo sem einbeitingarvanda og svefnleysi.
Rannsóknarlögreglumaður, sem vann að rannsókn málsins, staðfesti gögn málsins sem hún vann. Þá staðfesti hún og skýrslu er hún tók af móður brotaþola og rakin verður hér á eftir. Hún kvað móðurina hafa afhent síma sinn og hefði hann verið afritaður og rannsakaður.
Móðir brotaþola lést [...] maí 2014. Lögreglan tók af henni skýrslu 3. janúar 2014 og verður nú meginefni hennar rakið. Í skýrslunni bar hún að brotaþoli hefði haft mikil tengsl við fjölskyldu ákærða þegar hún var að alast upp enda hefði verið mikill samgangur milli þeirra systranna. Þá hefði brotaþoli kallað föður ákærða pabba. Brotaþoli hefði sótt mikið í að vera á heimili þessa frændfólks síns og hefði það hafist þegar hún var sjö til átta ára og lokið þegar brotaþoli var 15 eða 16 ára þegar faðir ákærða féll frá. Einnig hefði systir ákærða flutt að heiman en hún og brotaþoli hefðu verið nánar. Móðirin kvað brotaþola oft hafa gist á þessu heimili um helgar og eins stundum í miðri viku. Þegar brotaþoli var 12 eða 13 ára hefðu samskipti hennar og heimilis ákærða minnkað enda hafði hún þá kynnst vinkonum í skóla sínum. Móðirin kvaðst hafa verið mikið veik á þessum tíma og það væri aðalástæða þess að brotaþoli leitaði svo mikið á heimili ákærða.
Móðirin kvaðst hafa sent ákærða framangreind smáskilaboð þegar hún hafði fengið að vita að hann hefði misnotað brotaþola kynferðislega. Þá hafi hún fengið frá honum framangreind svarskeyti. Hún hefði hringt í hann áður en hún sendi skilaboðin og bannað honum að koma nálægt brotaþola. Hún kvað ákærða hafa játað fyrir sér að hafa brotið gegn brotaþola. Síðar kvaðst hún hafa farið til ákærða. Eftir þessi samskipti þeirra hefði ákærði ekki haft samskipti við brotaþola.
Móðirin var spurð í hverju misnotkun ákærða hefði falist og tók hún fram að ákærði hefði í fyrstu verið vondur við brotaþola en síðar hafi hann allt í einu verið orðinn svo góður við hana. Þegar hún var nýfermd hefði hann þvingað hana til munnmaka og troðið kynlífstæki upp í leggöng hennar. Þetta hefði gerst í herbergi ákærða. Einnig hefði ákærði sýnt henni klámmyndir en það hefði verið eftir fyrrgreinda atvikið. Þá hefði hann sýnt henni myndir af sér hafa samfarir við kærustu sína. Enn fremur hefði hann káfað á henni og snert hana. Um það leyti er faðir ákærða dó hefði ákærði beðið brotaþola að leggjast hjá sér og verið að strjúka hana og snerta. Þá kom fram hjá móðurinni að á tilteknum tíma hefði brotaþoli orðið alveg brjáluð, eins og hún orðaði það, og haldið því fram að hætta væri á að bróðir sinn myndi misnota hana. Móðirin kvaðst þá hafa spurt hana hvort ákærði væri að misnota hana en hún hefði neitað því. Síðar kvaðst móðirin hafa áttað sig á því að þetta hefði verið á svipuðum tíma og misnotkun ákærða átti sér fyrst stað. Eftir þetta hefði brotaþoli verið gerbreytt, meðal annars hefði hún verið mjög hrædd og engum treyst. Hún kvað sig hafa grunað ákærða en gat ekki útskýrt af hverju hún grunaði hann. Eftir þetta kvaðst móðirin enga stjórn hafa haft á brotaþola í mörg ár. Brotaþoli hafi farið að vera úti á kvöldin, hún hafi misst einbeitingu í námi og átt í miklum samskiptaörðugleikum. Þá hafi hún byrjað að nota vímuefni eftir þetta, E-töflur, kókaín og hass. Þetta hafi komið í ljós þegar þvagsýni frá brotaþola var rannsakað. Móðirin kvaðst hafa leitað til skóla og Barnaverndar, eins hefði hún leitað til Foreldrahúss. Hún kvaðst ekki hafa viljað kæra af tillitssemi við systur sína er hafi orðið fyrir miklum áföllum á þessum tíma. Að vel hugsuðu máli hefði brotaþoli ákveðið að kæra eftir að hafa leitað sér aðstoðar fagaðila. Þá kvað móðirin brotaþola hafa skrifað sér bréf og ætlaði hún að koma því til lögreglu. Í bréfinu hefði hún lýst brotum ákærða gegn sér.
Móðirin kvaðst hafa sagt móður ákærða frá þessu en hún hefði kennt brotaþola um þetta. Eftir það hefði hún haft samband við ákærða er hefði viðurkennt að hafa misnotað brotaþola. Hún kvað ákærða hafa látið sig fá peninga eftir að hún hafði krafið hann um þá. Hann hefði lagt inn á reikning hennar og eins hefði hann greitt henni í peningum. Þetta hefði verið samtals um 300 þúsund krónur. Síðast hefði hann greitt í ársbyrjun 2012 og hefði hún ekki krafið hann um frekari greiðslur. Hún kvað megnið af peningunum hafa farið í greiðslur til sálfræðinga. Það sem eftir var hefði hugsanlega farið í greiðslu húsleigu. Hún kvað brotaþola ekki hafa vitað af þessum greiðslum ákærða.
Móðirin kvaðst hafa útvegað brotaþola vinnu sumarið 2007 í fyrirtæki en hún hafi þekkt framkvæmdastjórann. Þetta hafi verið áður en hún fékk vitneskju um meint brot ákærða gagnvart brotaþola.
IV
Ákærði hefur frá upphafi alfarið neitað að hafa brotið gegn brotaþola eins og hann er ákærður fyrir. Við aðalmeðferð kvað hann þetta ekki hafa gerst og brotaþoli hefði ekki verið eins mikið á heimili hans og hún vildi vera láta. Þá kvað hann hana meira hafa sótt í félagsskap systur sinnar en hans. Hann kannaðist hins vegar við samskipti við brotaþola eins og rakið var en kvað þeim hafa lokið árið 2009 án þess að hann hefði skýringar á því hvernig á því hefði staðið. Hann kannaðist og við að hafa kynnst vinkonum brotaþola og haft við þær samskipti eins og rakið var. Ákærði kannaðist við að hafa fengið smáskilaboð frá móður brotaþola þar sem hún ásakar hann fyrir að hafa misnotað brotaþola og eyðilagt líf hennar. Í skilaboðunum kallar hún ákærða barnaníðing og hótar að kæra hann nema hann borgi skaðabætur eins og rakið var. Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa greitt móðurinni um 400.000 krónur en hún taldi sig hafa fengið um 300.000 krónur frá honum. Hér að framan var gerð grein fyrir skýringum ákærða á þessum greiðslum.
Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 3. október 2013 og er ákæran byggð á henni. Í kaflanum hér að framan var framburður brotaþola fyrir dómi rakinn og var hann í öllum meginatriðum samhljóða skýrslu hennar hjá lögreglu. Ákærði og brotaþoli eru systrabörn. Vegna aðstæðna og veikinda móður brotaþola kvaðst hún hafa dvalið mikið á heimili móður ákærða, móðursystur sinnar. Þessi framburður fær að hluta til stuðning í framburði ákærða, systra hans og móður þótt ekkert þeirra geri eins mikið úr veru brotaþola á heimilinu og hún sjálf. Þetta kann þó að eiga sér þá skýringu að brotaþoli hafi lagt meira upp úr því að dvelja á heimili þeirra en þau hafi gert sér grein fyrir. Framburður brotaþola fær stoð í framburði fyrrum vinnufélaga hennar en hún sagði honum frá atferli ákærða gagnvart sér á árinu 2007, eins og rakið var. Þá hefur að framan verið gerð grein fyrir því að brotaþoli leitaði til Stígamóta á árinu 2009 og til sálfræðings á vegum neyðarmóttökunnar í desember sama ár. Þetta sama ár lauk samskiptum ákærða og brotaþola án þess að ákærði geti borið um af hverju það var. Þá kom fram að hún þorði ekki að skýra móður sinni frá því sem hafði gerst en skrifaði henni í staðinn bréf og var sá hluti þess, sem er varðveittur, tekinn upp hér að framan. Í framangreindum gögnum kemur einnig fram að brotaþoli hefur átt við margþættan vanda að etja í lífinu. Hún mun hafa sætt einelti, orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi án þess að það væri kært og eins ánetjaðist hún vímuefnum ung að árum. Hins vegar hefur hún ætíð borið á sama hátt um kynferðislega háttsemi ákærða gagnvart sér á þeim tíma og þeim stöðum er í ákæru greinir. Framburður brotaþola um að ákærði hafi ítrekað veitt henni áfengi fær stuðning í framburði vinkvenna hennar eins og rakið var.
Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi sem styðst við önnur gögn málsins eins og rakið var. Framburður ákærða fyrir dómi var ekki ótrúverðugur að öðru leyti en því, að skýring hans á því af hverju hann greiddi móður brotaþola verulega fjárhæð eftir að hún ásakaði hann um að hafa níðst á brotaþola og eyðilagt líf hennar er mjög ótrúverðug að mati dómsins. Sú skýring ákærða að hann hafi verið að kaupa sig undan lögreglurannsókn er ekki trúverðug, hafi hann verið saklaus af þeim alvarlegu ásökunum er móðirin bar á hann. Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að leggja til grundvallar trúverðugan framburð brotaþola en hafna framburði ákærða. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni, nema hvað hann verður sýknaður af því að hafa strokið brotaþola um rass eins og honum er gefið að sök í 1. ákærulið. Fyrir dómi kvað brotaþoli hann ekki hafa gert það.
Hér á eftir verður fjallað um hvern ákærulið fyrir sig og komist að niðurstöðu um heimfærslu til refsiákvæða. Þá verður og fjallað um hvort brot ákærða séu fyrnd eða ekki. Í ákæru er lýst 6 sjálfstæðum kynferðisbrotum ákærða gagnvart brotaþola sem framin voru á árunum 2005 til 2008. Hér er ekki um að ræða samfellda brotastarfsemi og verður því að kanna í hverju tilviki fyrir sig hvort brotið sé fyrnt eða ekki.
Brot það, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt 1. ákærulið, er talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga en við 2. mgr. sömu greinar til vara. Broti ákærða er lýst í ákæruliðnum og telst atferli hans vera önnur kynferðismök við brotaþola er þá var 13 ára. Varðar þetta við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Sök ákærða er því ófyrnd, sbr. 81. gr. sömu laga.
Í 2. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa haldið brotaþola niðri og í framhaldinu viðhaft þær athafnir sem lýst er í ákæruliðnum. Verður að líta á atferli ákærða sem einn samfelldan verknað og með honum beitti ákærði brotaþola ofbeldi sem varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sem tæmir sök hans og verður hann því ekki jafnframt talinn hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga. Sök ákærða er ófyrnd, sbr. 81. gr. nefndra laga.
Atferli ákærða samkvæmt 3. ákærulið er talið varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Í því ákvæði er lögð refsing við því að tæla barn, yngra en 18 ára, til samræðis eða annarra kynferðismaka, með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt. Í ákæruliðnum er því ekki lýst að ákærði hafi tælt brotaþola. Það verður því að vísa frá dómi ákæru fyrir brot gegn nefndri 3. mgr. 202. gr. Til vara eru brot ákærða talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga og má fallast á að þau varði við nefnd ákvæði. Þessi brot fyrnast á 5 árum, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Brotaþoli var orðin 14 ára er ákærði braut gegn henni. Samkvæmt 1. mgr. 82. almennra hegningarlaga, eins og hún var þegar brotin voru framin, taldist fyrningarfrestur þessara brota frá þeim degi er brotaþoli varð 14 ára. Brotaþoli varð 14 ára haustið 2005 en rannsókn hófst gegn ákærða 19. desember 2013 og var því sök hans samkvæmt þessum ákærulið fyrnd.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákæruliðum 4, 5 og 6. Þessir ákæruliðir eiga það allir sammerkt að sök samkvæmt þeim fyrnist á 5 árum, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Þegar rannsókn hófst gegn ákærða 19. desember 2013 voru sakir hans samkvæmt þessum ákæruliðum fyrndar eins og að framan sagði um ákærulið 3.
Áður en ákærði framdi brotin, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, hafði hann þrisvar sinnum verið sektaður fyrir brot gegn umferðar- og fíkniefnalögum. Hann var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi [...] 2015 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem honum verður gerður hegningarauki, sbr. 78. gr. sömu laga. Þá ber, samkvæmt 60. gr. sömu laga, að taka skilorðsdóminn upp og dæma með þessu máli. Samkvæmt þessu er refsing ákærða hæfilega ákveðin 4 ára fangelsi.
Krafa brotaþola um miskabætur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan barst lögreglu 8. janúar 2014 og var birt ákærða 5. maí sama ár. Sakamálið á hendur ákærða var höfðað með ákærunni sem gefin var út 5. október 2015, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Brotaþoli á rétt á miskabótum samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skaðabótalag og með hliðsjón af málavöxtum öllum eru þær hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur. Brotaþoli krefst vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. janúar 2005. Ákærði byggir á því að áfallnir vextir fyrir 5. október 2011 séu fyrndir, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. sömu laga er fyrningu slitið þegar mál telst höfðað en það var 5. október 2015, eins og áður sagði. Samkvæmt þessu verður fallist á það með ákærða að áfallnir vextir fyrir 5. október 2011 séu fyrndir. Ákærða verður því gert að greiða brotaþola vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. október 2011 til 5. júní 2014, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað eins og í dómsorði segir. Enn fremur skal hann greiða málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorttveggja að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður, Lárentsínus Kristjánsson og Ragnheiður Harðardóttir.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. október 2011 til 5. júní 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 111.800 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 1.665.444 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 654.720 krónur.