Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2014


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Viðbótarkrafa
  • Tómlæti


                                     

Fimmtudaginn 25. september 2014.

Nr. 114/2014.

Gunnsteinn Örn Hjartarson

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Faris ehf.

(Jón Egilsson hrl.)

Lausafjárkaup. Viðbótarkrafa. Tómlæti.

G og F ehf. sömdu  í byrjun árs 2010 um kaup þess fyrrnefnda á gluggum og hurðum af þeim síðarnefnda. Skyldi G greiða kaupverðið sem samtals nam 3.596.579 krónum annars vegar með innborgun að fjárhæð 2.100.000 krónur og hins vegar með lokagreiðslu við afhendingu. Er kom að lokagreiðslu sendi F ehf. G reikning þar sem kom fram að eftirstöðvar til greiðslu væru 961.079 krónur sem G greiddi. Í janúar 2013 greindi F ehf. G frá því að mistök hefðu átt sér stað við útreikning lokagreiðslunnar og krafði hann um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins. G hafnaði kröfu F ehf. og höfðaði félagið mál þar sem það krafði G um greiðslu skuldarinnar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að hvað sem liði ætlaðri grandsemi G um hvort hann hefði vitað eða mátt vita að greiðsla hans hefði verið ófullnægjandi þegar hann hefði innt hana af hendi yrði ekki fram hjá því horft að frá þeim tíma hefðu liðið tæp þrjú ár þar til F ehf., sem væri bókhaldsskylt atvinnufyrirtæki, hefði hafist handa við að innheimta skuldina. Hefði F ehf. sýnt af sér stórfellt tómlæti og væri krafa félagsins fallin niður af þeim sökum. Var G því sýknaður af kröfu F ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara lækkunar hennar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gekk afrýjandi að tilboði stefnda 20. janúar 2010 um kaup á nánar tilteknum gluggum og hurðum að fjárhæð 3.645.140 krónur. Skyldi áfrýjandi greiða kaupverðið annars vegar með innborgun og hins vegar lokagreiðslu við afhendingu vörunnar. Áfrýjandi greiddi innborgunina 9. febrúar að fjárhæð 2.100.000 krónur miðað við þáverandi gengi danskrar krónu, sem var 23,89 og miðað skyldi við eftir það. Endanlegt verð fyrir vöruna var samkvæmt því 3.596.579 krónur, sem staðfest var með undirritun málsaðila 3. febrúar 2010. Stefndi sendi áfrýjanda 30. apríl sama ár reikning, þar sem fram kom fyrrgreint umsamið kaupverð svo og innborgunarfjárhæðin. Á reikningnum var tilgreint að eftirstöðvar til greiðslu væru 961.079 krónur og að sú fjárhæð skyldi greidd fyrir afhendingu vörunnar. Áfrýjandi greiddi þá fjárhæð 3. maí 2010 og fékk vöruna afhenta í framhaldi af því. Hinn 17. janúar 2013 hafði stefndi samband við áfrýjanda og greindi honum frá því að mistök hefðu átt sér stað við útreikning á lokagreiðslu áfrýjanda og bæri honum af þeim sökum að greiða eftirstöðvar samningsfjárhæðarinnar, 535.000 krónur.

Ágreiningslaust er að fyrir mistök stefnda var lokagreiðsla umsamins kaupverðs ranglega sögð 961.079 krónur og að áfrýjanda hefði í stað þeirrar fjárhæðar borið með réttu að greiða stefnda til viðbótar þá fjárhæð sem hann krefur áfrýjanda um í máli þessu eða samtals 1.496.079 krónur. Hvað sem líður ætlaðri grandsemi áfrýjanda um hvort hann hafi vitað eða mátt vita að greiðslan var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi verður ekki fram hjá því horft að frá þeim tíma liðu tæp þrjú ár þar til stefndi, sem er bókhaldsskylt atvinnufyrirtæki, hófst handa við að innheimta skuldina. Með þessu stórfellda tómlæti stefnda um að halda fram rétti sínum til greiðslu er krafa hans fallin niður fyrir tómlætis sakir. Þegar af þeirri ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu hans.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gunnsteinn Örn Hjartarson, er sýkn af kröfu stefnda, Faris ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2013.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að aflokinni aðalmeðferð 26. nóvember sl., er höfðað með birtingu stefnu 6. apríl 2013.

Stefnandi er Faris ehf., kt. [...], Gylfaflöt 16-18, Reykjavík.

Stefndi er Gunnsteinn Örn Hjartarson, kt. [...], Háaleiti 13, Reykjanesbæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 3.596.579 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá 3. maí 2010 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 6. febrúar 2010 að fjárhæð 2.100.000 krónur og 3. maí 2010 að fjárhæð 961.079 krónur eða samtals 3.061.079 krónur, sem draga skuli frá stefnufjárhæðinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts, að mati dómsins.

Í greinargerð krafðist stefndi þessi að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði, uppkveðnum 30. október 2013, var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

II.

Stefnandi er innflutningsfyrirtæki sem flytur m.a. inn VELFAC glugga og hurðir frá Danmörku. Stefndi komst fyrst í samband við stefnanda í september 2009 þegar hann var að leita eftir tilboði í glugga og hurðir fyrir einbýlishús sem var þá í byggingu. Í tölvupóstsamskiptum stefnda við starfsmenn stefnanda í september 2009 kemur fram hjá stefnda að hann telji ekki raunhæft að panta glugga og hurðir hjá stefnanda þar sem vörurnar séu of dýrar fyrir sig.

Stefnandi gerði stefnda fyrst tilboð vegna þessa um miðjan október 2009. Tilboðið hljóðaði upp á 3.793.894 krónur. Fram kemur í tölvupósti frá stefnda til stefnanda, dags. 18. nóvember 2009, að stefndi hafi ekki haft fjárhagslega burði til að taka tilboðinu á þeim tíma og ákveðið að bíða fram á nýtt ár með frekari aðgerðir.

Stefnandi gerði stefnda aftur tilboð þann 20. janúar 2010 sem hljóðaði upp á 3.831.450 krónur. Síðar þann sama dag sendi stefnandi enn tilboð til stefnda upp á 3.645.140 krónur miðað við gengi danskrar krónu 24,26. Samkvæmt tölvupósti frá stefnanda sem fylgdi tilboðinu hafði það lækkað um tæpar 200.000 krónur vegna hagstæðari flutninga erlendis frá. Að lokum gekk stefndi að þessu tilboði stefnanda.

Aðilar sömdu með þeim hætti að stefndi skyldi greiða fyrir tilboðið í tvennu lagi, þ.e. fyrst með innborgun til að koma pöntuninni af stað, og síðar með lokagreiðslu gegn afhendingu á vörunum.

Við pöntun á vörunni 6. febrúar 2010 greiddi stefndi inn á kaupverðið 2.100.000 krónur miðað við gengið 23,89, sem miða skyldi við eftir það. Endanleg fjárhæð tilboðsins var því 3.596.579 krónur og er það dagsett og undirritað af báðum málsaðilum 3. febrúar 2010. Föstudaginn 30. apríl 2010 sendi starfsmaður stefnanda tölvupóst til stefnda og tilkynnti honum að gluggarnir yrðu tilbúnir til afhendingar næstkomandi mánudag og að hann myndi senda honum reikning og beiðni um lokagreiðslu. Með tölvupóstinum var sendur ónúmeraður reikningur þar sem heildarfjárhæð kaupverðsins, 3.596.579 krónur, er tilgreind, sem og innborgun að fjárhæð 2.100.000 krónur. Neðst á reikninginn er prentað að eftirstöðvar til greiðslu séu 961.079 krónur, sem greiða skyldi inn á reikning stefnanda fyrir afhendingu. Mánudaginn 3. maí 2010 sendi starfsmaður stefnanda annan tölvupóst til stefnda þar sem ítrekað var að vörurnar yrðu afhentar um leið og lokagreiðslan hefði verið innt af hendi. Sama dag greiddi stefndi 961.079 krónur inn á reikning stefnanda og voru vörurnar afhentar í kjölfarið.

Stefndi kveður engin frekari samskipti hafa átt sér stað milli stefnanda og stefnda vegna greiðslna fyrir hinar afhentu vörur.

Aðilar áttu í nokkrum samskiptum á tímabilinu frá júní 2010 til desember 2010 í tengslum við minni háttar hnjask sem vörurnar höfðu orðið fyrir í flutningum. Í þeim samskiptum kom greiðsla fyrir vörurnar aldrei til tals og kveðst stefndi ávallt hafa staðið í þeirri trú að hann hefði greitt fyrir þær að fullu.

Óumdeilt er að tæplega þremur árum eftir að stefndi greiddi lokagreiðsluna eða 17. janúar 2013 hringdi framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Magnússon, í stefnda og greindi honum frá því að mistök hefðu átt sér stað við útreikning á lokagreiðslu stefnda og að enn væru útistandandi 535.500 krónur sem stefnda bæri að standa skil á.

Stefndi kveðst vilja vekja athygli á því að stefnandi flytji inn glugga og hurðir, sem séu tilbúin til uppsetningar. Stefnandi hafi því pantað umræddar vörur erlendis frá og fengið þær síðan tilbúnar til landsins. Þegar stefndi hafði greitt lokagreiðsluna hafi hann fengið vörurnar afhentar og séð sjálfur um að setja þær upp án nokkurs vinnuframlags af hálfu stefnanda.

Í málinu hefur verið lagður fram reikningur stefnanda nr. 128 á hendur stefnda, dagsettur 3. maí 2010, og er hann sama efnis og ónúmeraði reikningurinn, sem stefnda var sendur í tölvupósti 30. apríl 2010. Á reikninginn hefur verið handskrifað að greitt hafi verið inn á hann fyrst 2.100.000 krónur og síðan 961.079 krónur eða samtals 3.061.079 krónur. Eftir standi því 535.500 krónur. Neðst á reikningnum, þar sem fram kemur að eftirstöðvar til greiðslu séu 961.079 krónur, hefur verið strikað yfir þá fjárhæð og fjárhæðin 1.496.579 krónur handskrifuð inn á reikninginn. Í málinu hefur einnig verið lagt fram reikningsyfirlit frá stefnanda, dagsett 30. janúar 2013, þar sem tilgreindar eru framangreindar innborganir inn á reikning nr. 128 og lokastaðan sögð vera 535.500 krónur. Inn á reikningsyfirlitið hefur verið handskrifað reikningsnúmer og kennitala stefnanda.

Hinn 6. febrúar 2013 sendi stefnandi stefnda innheimtubréf vegna málsins. Með bréfi 13. febrúar 2013 var innheimtu kröfunnar mótmælt af hálfu stefnda.

III.

Stefnandi kveður samlagningarvillu hafa verið á reikningi við innborgun og að stefnandi hafi ekki áttað sig á því fyrst um sinn. Stefnda hafi hins vegar klárlega verið kunnugt um umsamda samningsfjárhæð, en virðist hafa reynt að nýta sér aðgerðarleysi stefnanda. Stefnandi kveður eftirstöðvar skuldarinnar ekki hafa fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu þeirra. Engin sjónarmið um fyrningu eða réttindaleysi vegna tómlætis eigi við þar sem stefndi hafi verið grandsamur og vitað af skuld sinni.

Í stefnu er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Stefnandi styður kröfu sína um dráttarvexti, þ. á m. vaxtavexti, við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. einkum 1. mgr. 5. gr. og 6. gr., með síðari breytingum. Þá kveður stefnandi kröfu sína um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og loks er vísað til 32. gr. sömu laga að því er varnarþing varðar.

IV.

Stefndi kveður að honum hafi verið sendur reikningur með tölvupósti 30. apríl 2010 ásamt beiðni um lokagreiðslu, eins og að framan greini. Í tölvupóstinum hafi framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Magnússon, ritað:

„Sendi reikning og beiðni um lokagreiðslu sjá upplýsingar í reikningi í viðhengi.“

Á reikningnum sjálfum hafi komið fram að eftirstöðvar til greiðslu væru 961.079 krónur, sem skyldu greiðast inn á reikning stefnanda fyrir afhendingu. Reikningurinn hafi einnig borið það með sér að virðisaukaskattur væri hluti af hinni tilgreindu fjárhæð, sbr. tilvísun í „vsk upphæð“.

Í öðrum tölvupósti frá Sigurði 3. maí 2010 hafi komið fram að stefnandi væri tilbúinn að senda vörurnar „um leið og lokagreiðsla er klár“. Sama dag hafi stefndi greitt eftirstöðvarnar og þar með lokagreiðslu samkvæmt reikningnum inn á reikning hjá stefnanda. Strax í kjölfarið hafi stefndi fengið vörurnar afhentar frá stefnanda án nokkurs fyrirvara eða athugasemda, en líkt og komið hafi fram í tölvupósti frá stefnanda og á umræddum reikningi hafi ekki átt að afhenda vörurnar fyrr en að undangenginni lokagreiðslu. Enginn reikningur hafi verið gefinn út á síðari stigum fyrir frekari eftirstöðvum.

Stefndi hafi því verið í góðri trú um að hann hefði greitt vörurnar að fullu, enda hafi hann ekki haft ástæðu til að ætla neitt annað. Öll samskipti hans við stefnanda hafi borið þess skýr merki að hann væri búinn að gera upp við stefnanda að fullu og hafi stefnandi ekki getað sýnt fram á neitt annað.

Nú þremur árum síðar liggi það ljóst fyrir að sú upphæð sem birst hafi í upphaflegu kauptilboði frá stefnanda, dagsettu 3. febrúar 2010, sé hærri en samtala þeirra greiðslna sem stefndi innti af hendi, þ.e. annars vegar með innborgun 9. febrúar 2010, og hins vegar með lokagreiðslu 3. maí 2010.

Á það beri hins vegar að líta að stefndi hafi treyst því að þeir reikningar sem borist hafi frá stefnanda sem seljanda vörunnar og sérfræðingi á sínu sviði væru réttir og í samræmi við það sem samið hefði verið um. Verði að hafa hugfast í því sambandi að kauptilboðið hafi byggt á verðáætlun og skyldi samkvæmt orðalagi sínu reiknast til hækkunar eða lækkunar við lokagreiðslu miðað við gengi dönsku krónunnar, nema um annað yrði samið. Til marks um þetta hafi fyrri tilboð til stefnda tekið breytingum bæði til hækkunar og lækkunar vegna gengisbreytinga. Mögulega hefði varan því að endingu getað orðið ódýrari en upphaflegt kauptilboð gerði ráð fyrir.

Það beri og að árétta að stefndi hafi aldrei fengið í hendur reikning nr. 0000128, sem stefnandi leggi fram sem dskj. nr. 3. Sá reikningur geti því ekki verið grundvöllur fyrir innheimtu stefnanda á hendur stefnda í máli þessu.

Stefnandi hafi útbúið umræddan reikning einhliða og verði því að bera hallann af mögulegum mistökum við útreikning á lokagreiðslu. Líkt og að framan greini hafi stefnandi ekki gert að því nokkurn reka að útskýra í stefnu hvernig mistökin hafi komið til og/eða af hverju. Hann hafi heldur ekki lagt fram nein gögn sem varpað geti ljósi á þetta. Framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Magnússon, hafi hins vegar sagt í símtali við stefnda 17. janúar sl. að fyrrverandi starfsmaður stefnanda hafi gleymt að gera ráð fyrir virðisaukaskatti við útreikning á lokagreiðslu.

Í því sambandi sé rétt til hliðsjónar að benda á ákvæði 32. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, en líkt og þar segi skulu í tilgreindu verði til neytanda innifalin öll opinber gjöld, þ. á m. virðisaukaskattur, nema neytandi hafi sannarlega haft vitneskju um að þau væru það ekki.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna komi fram að markmiðið með ákvæðinu sé að skylda seljendur til að gera grein fyrir því ef virðisaukaskattur er ekki innifalinn í verði eða verðáætlun. Í vafatilfellum þurfi seljandi að geta sýnt fram á að neytanda hafi verið ljóst að verð eða verðáætlun hafi verið án opinberra gjalda, svo sem virðisaukaskatts. Ákvæðið geri því kröfu um að seljandi geri neytanda sérstaklega grein fyrir því ef virðisaukaskattur er ekki innifalinn í uppgefnu verði.

Það sé alveg ljóst að stefnandi hafi aldrei greint stefnda frá því að virðisaukaskattur væri ekki innifalinn í tilgreindu verði. Hvergi komi fram í samskiptum aðila eða á reikningum að virðisaukaskattur sé ekki innifalinn í eftirstöðvum greiðslu. Þvert á móti sé sérstaklega tiltekið á lokareikningi að verið sé að innheimta virðisaukaskatt af greiðslunni. Af því leiði að stefndi verði ekki krafinn um greiðslu á andvirði virðisaukaskatts, nú þremur árum síðar.

Þess beri að geta að stefnandi hafi ekki mótmælt því í bréfaskiptum aðila að mistökin hefðu falist í vanreikningi á virðisaukaskatti. En jafnvel þó að mistökin verði útskýrð með einhverjum öðrum hætti þá breyti það í engu þeirri staðreynd að mistökin, hver sem þau hafi verið, liggi óumdeilanlega hjá stefnanda sem verði að bera hallann af þeim.

Þegar framkvæmdastjóri stefnanda hafi hringt skyndilega og fyrirvaralaust í stefnda17. janúar síðastliðinn vegna hinnar meintu kröfu á hendur stefnda hafi verið liðin rétt tæp 3 ár frá því að kauptilboð var undirritað og innborgun vegna viðskiptanna átti sér stað. Frá lokagreiðslu hafi verið liðin 2 ár og tæpir 9 mánuðir.

Á þeim tíma sem liðinn hafi verið hafi stefnandi aldrei gert athugasemd við lokagreiðslu stefnda eða gefið í skyn með nokkrum hætti að eitthvað væri enn óuppgert þeirra í milli. Hafi aðilar m.a. átt samskipti á tímabilinu frá júní 2010 til desember 2010 vegna hnjasks sem hluti vörunnar hafði orðið fyrir, en þau samskipti beri þess merki að báðir aðilar hafi talið að vörunar væru að fullu greiddar af hálfu stefnda.

Stefndi bendir á að stefnandi sé einkahlutafélag og beri sem slíku að gera upp hvert reikningsár í rekstri sínum með skilum á ársreikningi til ársreikningaskrár. Á þeim þremur árum sem liðin séu frá viðskiptum aðila ætti stefnandi því að vera búinn að skila inn ársreikningum fyrir árin 2010, 2011 og 2012. Með réttu hefðu mistök stefnanda átt að koma í ljós í allra síðasta lagi við uppgjör reikningsársins 2010, að því gefnu að tilhögun reikningshalds sé með eðlilegum og lögbundnum hætti hjá stefnanda.

Stefnandi hafi engan reka gert að því að útskýra eða réttlæta með nokkrum hætti þann langa tíma sem liðinn sé og verði að bera hallann af því. Þá séu fullyrðingar stefnanda um meinta grandsemi stefnda bæði rangar og án nokkurs rökstuðnings.

Með vísan til framangreinds sé því ljóst að með aðgerðarleysi sínu í tæp þrjú ár hafi stefnandi sýnt af sér slíkt tómlæti að hann hafi fyrirgert öllum þeim rétti sem hann kunni að hafa átt til frekari greiðslna úr hendi stefnda. Um það megi m.a. vísa til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, en hann hafi margsinnis talið réttindi niður fallin vegna tómlætis sem varað hafi í mun skemmri tíma en þrjú ár.

Loks verði ekki horft framhjá þeirri staðreynd að stefnandi sé atvinnufyrirtæki sem sérhæfi sig í þeim viðskiptum sem um ræði og hafi þau að sinni meginstarfsemi. Stefndi sé hins vegar einstaklingur sem sé kaupandi þjónustunnar og hafi hvorki fyrr né síðar átt í sams konar viðskiptum.

Um það verði tæplega deilt að stefnandi hafi ótvíræða yfirburðastöðu gagnvart stefnda í viðskiptunum. Stefnandi hafi útbúið öll samningsskjöl og reikninga einhliða og hafi það vitaskuld staðið honum nær að sjá til þess að þau væru réttilega úr garði gerð. Gera verði ríkari kröfur til atvinnufyrirtækja í þessum efnum og allan vafa beri að túlka neytandanum, í þessu tilfelli stefnda, í hag.

Á það beri einnig að líta að ef fallist yrði á kröfur stefnanda væri það afar íþyngjandi fyrir stefnda, enda hafi hann ekki gert ráð fyrir slíkum meiri háttar útgjöldum á þessum tímapunkti, þremur árum eftir lokauppgjör aðila. Stefndi sé lögreglumaður og sambýliskona hans grunnskólakennari. Þau séu nýlega flutt inn í umrætt einbýlishús sem hafi verið tæp sex ár í byggingu og þau hafi ekki þá fjármuni til reiðu sem stefnandi geri nú kröfu um. Það væri því afar íþyngjandi og ósanngjarnt ef fallist yrði á kröfur stefnanda, sem hafi dregið það í þrjú ár að setja þær fram.

Með hliðsjón af öllum atvikum málsins, og að því gefnu að ekki verði fallist á aðalkröfu stefnda, verði í öllu falli að teljast eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi taki á sig hluta hinnar meintu skuldar sem orðið hafi til vegna mistaka hjá stefnanda sjálfum, og að greiðsluskylda stefnda lækki þá um það sem því nemur. Komi þannig í hlut hvors aðila um sig að bera sameiginlega halla af mistökunum sem leitt hafi til þess að misræmi hafi orðið á milli upphaflegs kauptilboðs og lokauppgjörs milli aðila.

Þessi málsástæða byggist að öðru leyti á sömu röksemdum og sjónarmiðum og fram komi í tengslum við málsástæðu stefnda um sýknu og sé því vísað til þess sem að framan sé rakið.

Stefndi kveðst hafna alfarið kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kröfu stefnanda um vaxtavexti samkvæmt 12. gr. sömu laga.

Stefndi kveðst mótmæla sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Engin efni séu til að reikna dráttarvexti frá fyrri tíma þar sem ekki verði ljóst fyrr en við dómsuppsögu hvort stefnandi eigi yfirleitt einhverja kröfu á hendur stefnda. Fyrr en slík niðurstaða liggi fyrir geti því ekki verið um að ræða vanefndir á greiðslu sem réttlæti dráttarvexti.

Kröfu stefnanda um vaxtavexti sé hafnað á sama grundvelli, enda sé eingöngu hægt að krefjast slíkra vaxta þegar vaxtatímabil er lengra en 12 mánuðir án þess að vextir séu greiddir. Það sé augljóst að ekki sé um slíkt að ræða í þessu tilfelli. 

Stefndi kveðst í báðum tilvikum krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en stefndi sé einstaklingur og þurfi sjálfur að bera slíkan kostnað.

Þess sé farið á leit að við ákvörðun málskostnaðar verði litið til þess að stefnandi hafi setið aðgerðarlaus í tæp þrjú ár áður en hann hafi ákveðið skyndilega og fyrirvaralaust að hafa uppi meintar kröfur á hendur stefnda í máli þessu, án þess að stefnandi hafi réttlætt þetta langvarandi aðgerðarleysi með nokkrum hætti.

Stefndi kveðst reisa kröfur sínar á almennum reglum samninga-, kröfu- og kauparéttar, einkum almennum reglum um tómlæti, lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

V.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðva reiknings vegna tilboðs, sem stefnandi gerði í glugga og hurðir í fasteign stefnda og stefndi samþykkti með undirritun sinni 3. febrúar 2010. Fyrir liggur að umsamið kaupverð var að fjárhæð 3.596.579 krónur. Einnig liggur fyrir að stefndi greiddi 2.100.000 krónur inn á kaupverðið við pöntun á vörunum 9. febrúar 2010, þ.e. svokallað staðfestingargjald, og er óumdeilt að samið var svo um að stefndi skyldi greiða eftirstöðvarnar við afhendingu á vörunum, þ.e. lokagreiðslu. Samkvæmt framangreindu voru eftirstöðvar kaupverðsins 1.496.579 krónur að teknu tilliti til áðurgreindrar innborgunar stefnda. Þegar kom að afhendingu á vörunum útbjó stefnandi ónúmeraðan reikning að fjárhæð 3.596.579 krónur, þar sem greint var frá innborgun 9. febrúar 2010 að fjárhæð 2.100.000 krónur. Neðst á reikningnum er tiltekið að eftirstöðvar til greiðslu séu 961.079 krónur, sem greiða skyldi inn á nánar tilgreindan reikning stefnanda fyrir afhendingu. Var reikningurinn sendur stefnda í tölvupósti þar sem stóð: „Sendi reikning og beiðni um lokagreiðslu sjá upplýsingar á reikningi í viðhengi.“ Stefndi greiddi eftirstöðvar þær sem tilgreindar voru á reikningnum 3. maí 2010 og fékk vörurnar afhentar í kjölfarið.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi verið grandsamur um þau mistök, sem gerð hafi verið við útreikning á eftirstöðvum reikningsins, miðað við samþykkt tilboð og greiðslur stefnda og því gert sér grein fyrir því að umsamið kaupverð varanna væri ekki að fullu greitt með greiðslu þeirra eftirstöðva, sem tilgreindar hafi verið á reikningnum.

Stefndi kveðst hins vegar hafa verið grandlaus um mistökin og staðið í þeirri trú frá afhendingu varanna í maí 2010 að kaupverðið væri að fullu greitt. Stefndi kveðst hafa unnið að byggingu fasteignar sinnar á þessum tíma. Kveðst hann hafa verið með svokallað framkvæmdalán í formi yfirdráttar hjá Sparisjóðnum í Keflavík, síðar Landsbankanum, og hafi þjónustufulltrúi í bankanum annast greiðslu allra reikninga vegna húsbyggingarinnar með framkvæmdaláninu. Honum hafi sjálfum ekki verið heimilt að annast greiðslur þessara reikninga þar sem hækka hefði þurft yfirdráttarheimildina við greiðslu hvers reiknings. Yfirdráttarheimildin hafi því aldrei verið hærri en sem nam kostnaði við byggingu hússins hverju sinni. Kveðst stefndi hafa farið með reikninginn, sem stefnandi sendi honum í tölvupósti 30. apríl 2010, í bankann og beðið þjónustufulltrúann að greiða hann svo að hann fengi vörurnar afhentar. Stefndi kveður þjónustufulltrúann hafa greitt reikninginn og hann fengið vörurnar afhentar í kjölfarið. Kveðst stefndi ekki hafa áttað sig á því að lokagreiðslan væri of lág, en hann kvaðst hafa treyst því að reikningur stefnanda og útreikningur á eftirstöðvum kaupverðsins væri réttur.

Það er meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem ekki hefur fengið fullar efndir, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Hefur þessari meginreglu verið slegið fastri í nýlegum dómum Hæstaréttar, t.d. frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2012, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, eins og tekið er fram í nefndum dómum, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslu verður af þeim sökum þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Í áðurgreindum dómum kemur fram að við mat á því hvort svo standi á beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi.

Eins og fram hefur komið sendi Sigurður Magnússon, framkvæmdastjóri stefnanda tölvupóst til stefnda 30. apríl 2010 þar sem hann tilkynnti að gluggarnir yrðu tilbúnir til afhendingar hjá þeim næsta mánudag. Í póstinum segir m.a. eftirfarandi: „Sendi reikning og beiðni um lokagreiðslu sjá upplýsingar á reikningi í viðhengi.“ Á meðfylgjandi reikningi var tilgreind tilboðsfjárhæðin 3.596.579 krónur, innborgun að fjárhæð 2.100.000 krónur og loks voru eftirstöðvar til greiðslu sagðar nema 961.079 krónum, sem greiða skyldi inn á nánar tilgreindan bankareikning stefnanda fyrir afhendingu. Mánudaginn 3. maí 2010 sendi framkvæmdastjóri stefnanda annan tölvupóst til stefnda þar sem hann tilkynnti að þeir væru „tilbúnir að senda þetta um leið og lokagreiðslan er klár“. Sama dag greiddi stefndi 961.079 krónur inn á reikning stefnanda og fékk vörurnar afhentar í kjölfarið.

Fram er komið að áður en stefndi gekk að tilboði stefnanda höfðu málsaðilar átt talsverð samskipti um hugsanleg kaup stefnda á vörunum. Hafði stefnandi gert stefnda tilboð í glugga og hurðir í október 2009 og janúar 2010, sem stefndi taldi sig ekki geta gengið að þar sem þau væru of há, en þau voru 200.000-250.000 krónum hærri en endanlegt tilboð. Ljóst er að samningssamband málsaðila var í eðli sínu einfalt, en málsaðilar sömdu svo um að greiða skyldi umsamið kaupverð í tvennu lagi, þ.e. með innborgun við pöntun á vörunum og síðan með einni lokagreiðslu við afhendingu á þeim. Þá bera gögn málsins með sér að innborgun að fjárhæð 2.100.000 krónur hinn 6. febrúar 2010 tók mið af gengi dönsku krónunnar þann dag, sem eftirleiðis skyldi vera fast gengi viðskiptanna. Fyrir lá því að endanlegt kaupverð varanna var 3.596.579 krónur. Fram hefur komið að stefndi fór með reikninginn á dskj. nr. 16, væntanlega útprentaðan, í bankann og óskaði eftir því að hann yrði greiddur, en hann hafði fengið reikninginn senda í tölvupósti sem viðhengi þremur dögum fyrr. Með vísan til alls framangreinds og þeirrar augljósu reikningsskekkju sem fólst í útreikningi á eftirstöðvum kaupverðsins á reikningnum verður ekki á það fallist að stefndi hafi verið í góðri trú um að sú fjárhæð, sem tilgreind var sem eftirstöðvar á reikningnum, væri fullnaðargreiðsla. Gat hann því ekki vænst þess að hann væri leystur undan frekari greiðslu þótt stefnandi veitti umræddri fjárhæð, 961.079 krónur, viðtöku og afhenti honum vörurnar í kjölfarið.

Komið hefur fram að framangreind mistök við útreikning á eftirstöðvum umsamins kaupverðs komu ekki í ljós fyrr um miðjan janúar 2013 við yfirferð bókara yfir bókhald stefnanda. Hafði fyrirsvarsmaður stefnanda strax samband við stefnda og vakti athygli hans á mistökunum. Eftir að málsaðilar höfðu farið yfir málið og stefndi hafði lýst þeirri afstöðu sinni að hann teldi sig ekki þurfa að inna af hendi viðbótargreiðslu vegna viðskiptanna hóf stefnandi innheimtu kröfunnar með því að senda stefnda innheimtubréf, dags. 6. febrúar 2013. Eftir bréfaskipti á milli aðila í febrúar og mars 2013 fylgdi stefnandi innheimtu sinni eftir með útgáfu stefnu í máli þessu, sem þingfest var 10. apríl 2013. Verður því ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfu vegna viðbótargreiðslunnar.

Fjárhæð kröfu stefnanda um viðbótargreiðslu svarar til mismunarins á milli greiðslunnar sem stefndi innti af hendi, 3.061.079 króna, og umsamins kaupverðs varanna, 3.596.579 króna, eða 535.500 króna. Verður stefndi dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar með dráttarvöxtum frá gjalddaga kröfunnar hinn 3. maí 2010 til greiðsludags.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Gunnsteinn Örn Hjartarson, greiði stefnanda, Faris ehf., 535.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu frá 3. maí 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.