Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Skýrslugjöf
- Börn
- Kynferðisbrot
|
|
Miðvikudaginn 5. júní 2002. |
|
Nr. 256/2002. |
X(Herdís Hallmarsdóttir hdl.) gegn Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara |
Kærumál. Skýrslugjöf. Börn. Kynferðisbrot.
Héraðsdómari synjaði beiðni réttargæslumanns X um að kvaddur yrði til kunnáttumaður til aðstoðar dómaranum við skýrslutöku af X vegna kynferðisbrots gegn X af hálfu óþekktra manna. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að engin efni séu til að hnekkja ákvörðun dómarans um að nýta ekki þá heimild, sem felist í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999 til að kveðja kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kvaddur yrði til kunnáttumaður til aðstoðar héraðsdómara við skýrslutöku af sóknaraðila samkvæmt a. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili krefst þess að kunnáttumaður verði kvaddur til aðstoðar héraðsdómara við skýrslutökuna.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af brotaþola ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari því að neyta heimildar 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999 til að kveðja kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna. Engin efni eru til að hnekkja ákvörðun dómarans um að nýta ekki þá heimild, sem fellst í nefndu lagaákvæði. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2002.
Ár 2002, fimmtudaginn 30. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara kveðinn up úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur með bréfi hinn 10. þ.m. óskað eftir því að tekin verði skýrsla fyrir dómi af stúlkunni X [f. 1985] með heimild í a-lið 1. mgr. 74. gr. a í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, vegna kynferðisbrots af hálfu óþekktra manna. Réttargæslumaður stúlkunnar, Herdís Hallmarsdóttir hdl., hefur krafist þess að héraðsdómarinn “kveðji til kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökuna sem beina muni spurningum til X og að hann verði einn með henni í því herbergi sem skýrslutakan fer fram í.” Sé þessa nauðsyn þar sem stúlkunni hafi orðið mikið um brotið sem hún sætti og [...]. Séu sterkar líkur til þess að hún muni ekki geta tjáð sig um brotið nema til komi aðstoð “kunnáttumanns”. Réttargæslumaðurinn hefur lagt fram vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings, sem hitt hefur stúlkuna tvisvar, síðast 14. maí sl. Segir þar að stúlkan færist undan því að tala um atburðinn sem leiddi til kærunnar. [...] Að lokum kemur fram sú skoðun sálfræðingsins að skýrslutaka verði X mjög erfið og að hún komi “vart til með að geta tjáð sig nema fagaðili komi til, t.d. starfsmaður Barnahúss.”
Yfirheyrsla brotaþola samkvæmt a-lið 1. mgr. 74. gr. a í oml. er hluti af aðalmeðferð máls. Dómarinn sem í hlut á hefur margra ára reynslu af því að yfirheyra börn og ungmenni vegna kynferðisbrota og annarra áfalla sem valda miklum þjáningum, sbr. t.d. Hrd. 1993/906. Hafa slík viðtöl verið eðlilegur og sjálfsagður hluti af starfi dómarans. Þá hefur hann sótt námskeið og ráðstefnur um barnayfirheyrslur hér á landi svo og austan hafs og vestan. Er dómarinn því a. m. k. jafnfær um að yfirheyra stúlkuna og hvaða “kunnáttumaður” og “fagaðili” sem er og hefur það umfram þá að kunna skil á réttarfari og refsirétti. Eru engin efni til þess að verða við kröfu réttargæslumannsins og ber því að synja henni.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu Herdísar Hallmarsdóttur hdl., réttargæslumanns X um það að héraðsdómarinn kveðji til kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökuna, sem beini spurningum til X og að hann verði þá einn með henni í herbergi.