Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. apríl 2008.

Nr. 190/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 6. apríl 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæslu­varð­haldi til miðvikudagsins 9. apríl 2008, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í morgun hafi verið tilkynnt um líkamsárás í verslun Tíu-ellefu, Austurstræti 17, Reykjavík.

Samkvæmt tilkynningunni hafði öryggisvörður í versluninni verið sleginn í höfuðið með glerflösku.  Kærði hafi verið yfirbugaður á staðnum af öðrum öryggisvörðum í framhaldi af meintum verknaði og handtekinn af lögreglu kl. 05:58.

Öryggisvörðurinn, A, hafi verið fluttur á slysadeild.  Í símtali lög­reglu við A skömmu síðar á slysadeild hafi hann greint frá því að kærði hefði verið til vand­ræða í versluninni fyrr um nóttina og verið fjarlægður þaðan af lögreglu.  Kærði hefði síðan komið aftur að versluninni um klukkustund síðar og ráðist á A utan við verslunina og slegið hann í höfuðið með glerflösku.

Fram komi í frumskýrslu lögreglu að A hafi verið með skurð í höfði og hafi verið haft eftir honum í skýrslunni að hann hefði misst meðvitund í skamma stund.  Síðar um morg­uninn, á slysadeildinni, hafi ástand A versnað, þar sem byrjað hafi að blæða inn á heila hans (heilablæðing) og hafi hann gengist undir læknisaðgerð í dag.  Að sögn lækna hafi heila­blæð­ingin verið lífshættuleg og hafi með naumindum tekist að bjarga lífi A.  Meðal rann­sóknargagna sé bráðabirgða¬læknisvottorð.

Fyrir liggi framburðarskýrsla vitnis, B, sem hafi verið yfirheyrður í dag.  Í skýrslunni komi m.a. fram lýsing vitnisins á meintum atvikum sem sé í samræmi við frá­sögn A um meint atvik og afleiðingar meints verknaðar. Sé nánar vísað til fram­burðarskýrslu vitnisins.

Við yfirheyrslu í dag hafi kærði greint frá því að hann hefði ásamt félaga sínum, C, verið staddur við verslun Tíu – ellefu.  Öryggisvörður hafi meinað honum inngöngu í verslunina og hann því orðið pirraður.  Ögrandi orðaskipti hafi verið milli hans og öryggisvarðarins og hafi komið til átaka milli þeirra.  Kærði segist ekki muna eftir að hafa slegið öryggisvörðinn með flösku í höfuðið en aðspurður segist hann ekki geta rengt það.  Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða.

Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um alvarlegt ofbeldisbrot.  Hið meinta brot þyki sérstaklega alvarlegt vegna alvarlegra afleiðinga og hættueiginleika meints verknaðar.  Svo virðist sem litlu hafi mátt muna að bani hafi hlotist af atlögunni.  Rannsókn málsins sé skammt á veg komin.  Eftir sé að yfirheyra vitni, þ.m.t. nefndan C  Ekki hafi reynst unnt að yfirheyra brotaþola þar sem hann hafi gengist undir aðgerð í dag og sé meðvitundarlaus.  Skýrsla tæknideildar liggi ekki fyrir.  Eftir sé að afla upptöku úr eftirlitsmyndavél utan dyra sem skýrt geti nánar atvik málsins og aðdraganda og hvort fleiri vitni séu til staðar sem upplýst geti frekar um meintan verknað.  Fyrirhugaðar séu frekari skýrslutökur af kærða, m.a. með hliðsjón af fram­burðum vitna og brotaþola.  Gangi kærði laus geti hann spillt fyrir rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburði vitna.

Ætlað brot sem nú sé til rannsóknar kunni að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, sem varði fangelsisrefsingu ef sök sannist.  Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um með­ferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði er  undir rökstuddum grun um og hefur reyndar viðurkennt að hafa nú í morgun veist að A og kann verknaður hans að varða við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.  Rannsókn málsins er á frumstigi og lítur dómari svo á að ákvæði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 eigi við hér enda eftir að taka frekari skýrslur af vitnum, niðurstöður rannsóknar tæknideildar liggja ekki fyrir og eftir er að kanna myndband úr eftirlitsmyndavél. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Allan V. Magnússon   héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:         

Kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 9. apríl 2008, kl. 16:00.