Hæstiréttur íslands

Mál nr. 302/2010


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Samþykki tilboðs
  • Aðild


Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 302/2010.

ANS ehf.

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Gluggasmiðjunni ehf.

(Jón Ögmundsson hrl.)

Lausafjárkaup. Samþykki boðs. Aðild.

G ehf. höfðaði málið á hendur A ehf. og krafði hann um greiðslu reiknings, sem G ehf. hafði gefið út á hendur A ehf. vegna sölu á gleri, hurðum og veggjum. G ehf. reisti kröfu sína á tölvubréfi starfsmanns síns til starfsmanns A ehf. sem innihélt tilboð vegna framangreinds verks. Var tilboðið ekki áritað um samþykki. Hélt G ehf. því fram í málinu að tilboðið hafi verið samþykkt í samtölum milli aðila og með afhendingu hinna seldu hluta. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ljóst væri að ruglingslegur málatilbúnaður G ehf. fæli ekki í sér sönnun um að A ehf. hefði skuldbundið sig til að greiða honum andvirði þeirrar vöru sem hann krefðist greiðslu á. Skipti þá ekki máli þótt ekki væri sannað að A ehf. hefði mótmælt því að hann skuldaði G ehf. reikningsfjárhæðina fyrr en hann lagði fram greinargerð sína í héraði. Var A ehf. því sýknað af kröfu G ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með tölvupósti til starfsmanns stefnda 13. desember 2007 óskaði starfsmaður áfrýjanda eftir tilboði í gler, hurðir og veggi sem nánar var lýst, meðal annars með vísun til teikningar sem fylgdi póstinum. Nafn áfrýjanda var tilgreint við nafn starfsmannsins. Stefndi svaraði með tölvupósti 19. desember 2007. Þar sagði: „Hér kemur tilboðið v/ Borgarbraut 58-60.“ Ágreiningslaust er með aðilum að með hafi fylgt tilboð nr. 07-879 frá stefnda, sem dagsett er sama dag og er að finna meðal málsgagna. Þetta tilboð er stílað á áfrýjanda, byggingarstaður er sagður vera Borgarbraut 58-60 og „tengiliður“ sá starfsmaður áfrýjanda sem hafði sent tölvupóstinn 13. desember 2007. Í tilboðinu er að finna lýsingu á þeim hlutum sem tilboðið tekur til og samsvarar hún lýsingu tölvupóstsins 13. desember 2007. Heildarfjárhæð með virðisaukaskatti var tilgreind 2.273.960 krónur. Neðst á tilboðsblaðinu standa orðin: „Samþykkt f.h. verkkaupa.“ Er þar sýnilega gert ráð fyrir að kaupandi samþykki tilboðið með nafnritun sinni. Engin nafnritun er á skjalinu og heldur stefndi því raunar ekki fram að það hafi verið áritað um samþykki. Telur hann samt að tilboðið hafi, eftir breytingar sem gerðar hafi verið á því, verið samþykkt í samtölum sem áttu sér stað í framhaldinu og einnig með afhendingu hinna seldu hluta.

Í greinargerð áfrýjanda í héraði er að finna svofellda áskorun til stefnda: „Skorað er á stefnanda [stefnda fyrir Hæstarétti] að leggja fram gögn er sýna fram á að umrædd vara sem krafist er greiðslu á hafi verið pöntuð af stefnda [áfrýjanda].“ Við þessu hefur stefndi ekki orðið. Í skýrslu fyrirsvarsmanns hans fyrir héraðsdómi kom fram að eftir að tilboðið var sent hafi „sennilega átt sér stað einhver símtöl, alla vega finn ég ekki tölvupósta, af því síðan 9. janúar sendir Þórður aftur tölvupóst á sama aðila. Sæll, hér kemur tilboð fyrir Borgarbraut með gleri. Sem sagt, það er þá búið að breyta tilboðinu sem var sent 19. og búið að bæta inn í það gleri.“ Hinn nafngreindi starfsmaður stefnda er sá sami sem sendi tölvupóstinn 19. desember 2007. Af þessu er svo að sjá sem efni hafi verið aukið við tilboðið sem sent hafði verið 19. desember. Stefndi hefur ekki lagt fram í málinu tölvupóstinn frá 9. janúar, sem fyrirsvarsmaðurinn nefndi fyrir dómi, og hefur ekki heldur gert neina frekari grein fyrir afhendingu vörunnar, hvar og hvenær hún hafi verið afhent og hver hafi tekið við henni.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er reikningurinn sem liggur til grundvallar kröfu stefnda dagsettur 7. mars 2008. Í texta hans segir að um sé að ræða reikning vegna pöntunar 07-879. Samt er fjárhæð reikningsins aðeins 1.532.963 krónur, eða mun lægri fjárhæð en greindi í tilboðinu. Af framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi verður helst ráðið að fjárhæðin hefði átt að verða hærri, þar sem aukið hafði verið við það vörum.

Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt útskrift af öðru tilboði sínu, dagsettu sama dag,  19. desember 2007, með númerinu 07-879B, stíluðu til áfrýjanda á sama hátt og tilboðið sem fyrr var nefnt. Þetta tilboð er ekki fremur en hið fyrrnefnda áritað um samþykki þess sem kaupir. Í því er lýsing á vörunum, sem tilboðið er sagt taka til, allt önnur en í hinu fyrra. Fjárhæð þess er 1.587.165 krónur og var talið við munnlegan flutning málsins að unnt væri að rekja þessa fjárhæð saman við reikningsfjárhæðina sem krafa stefnda byggist á. Reikningur sem stefndi gaf út á hendur áfrýjanda 10. mars 2008 að fjárhæð 93.027 krónur, sem áfrýjandi kveðst hafa greitt fyrir mistök, er sagður byggjast á tilboði 07-879B.

Áfrýjandi kveðst aðeins hafa aflað tilboða í þágu Sólfells ehf., sem hafi verið aðalverktaki við byggingu að Borgarbraut 58-60 í Borgarnesi. Áfrýjandi segist ekki hafa samþykkt neitt tilboð frá stefnda sem verið geti grundvöllur kröfu hans í málinu. Kveðst hann raunar ekki hafa neina vitneskju um hvort vara frá stefnda hafi verið afhent Sólfelli ehf.

Af því sem rakið var að framan er ljóst að ruglingslegur málatilbúnaður stefnda felur ekki í sér sönnun um að áfrýjandi hafi skuldbundið sig til að greiða honum andvirði þeirrar vöru sem hann krefst greiðslu á. Skiptir þá ekki máli þótt ekki sé sannað að áfrýjandi hafi mótmælt því að hann skuldaði stefnda reikningsfjárhæðina, fyrir en hann lagði fram greinargerð sína í héraði. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.     

Dómsorð:

 Áfrýjandi, ANS ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Gluggasmiðjunnar ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. janúar sl., er höfðað 17. september 2008

Stefnandi er Gluggasmiðjan ehf., Viðarhöfða 3, Reykjavík.

Stefndi er ANS ehf., Þverholti 11, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Jón Pálsson, Súluhöfða 16, Mosfellsbæ.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.532.963 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr.  38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.532.963 krónum frá 22. mars 2008 til greiðsludags.

Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. s.l. er leggist á höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins. Krafist er vaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Kröfu sína byggir stefnandi á reikningi að fjárhæð 1.532.963 krónur, útgefnum 7. mars 2008 með gjalddaga 22. mars 2008.

Stefnandi kveðst sérhæfa sig í framleiðslu á gluggum og hurðum og ýmsu fleiru úr tré og áli. Auk þess flytji hann inn ýmsar vörur t.d., állista á sólstofuþök, þakglugga o.fl.  Ofangreind krafa sé vegna vöruúttektar stefnda hjá stefnanda í mars 2008 auk vinnu starfsmanna stefnanda í þágu stefnda, eins og nánar sé lýst í framlögðum reikningi.

Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Vísað sé til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a., lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000.  Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi bendir á að krafa stefnanda byggist á reikningi, dags. 7. mars 2008 vegna vöruúttektar sem ranglega sé talin stafa frá stefnda.  Stefndi hafi verið undirverktaki hjá verktakafyrirtækinu Sólfelli ehf. og hafi ekki pantað þær vörur sem stefnt sé fyrir.  Að ósk Sólfells ehf. hafi starfsmaður stefnda óskað eftir verðhugmyndum frá stefnanda vegna verks sem hafi verið í umsjá Sólfells ehf. og hafi Sólfell ehf. borið ábyrgð á efniskaupum.  Samningssamband hafi því aldrei stofnast á milli stefnanda og stefnda varðandi umrædd vörukaup.  Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Fyrir mistök starfsmanns stefnda hafi smáreikningur í fyrirtækjabankanum verið greiddur.  Sá reikningur hafi verið vegna verðbóta á ofangreindan reikning. Augljóst sé því að um mistök hafi verið að ræða.  Rétt sé að benda á að velta stefnda á mánuði á þessum tíma hafi verið um 90 milljónir og því hafi það komið fyrir að smáreikningar væru greidir, sem ekki áttu að greiðast, en auk þess hafi stefndi verið í viðskiptum við stefnanda vegna annarra verka sem hafi leitt til þessara mistaka.

Niðurstaða

Í gögnum málsins er að finna tölvupóst sem Jón Valgeir Björnsson, verkefnastjóri hjá stefnda, sendi til Gunnars Gissunarsonar hjá Gluggasmiðjunni ehf. hinn 13. desember 2007. Í þessum tölvupósti segir:  „Óskum eftir tilboði í eftirfarandi: Gler-útbyggingu sýnda á meðfylgjandi mynd. Stigaveggur úr áli og gleri, sýnd á meðfylgjandi mynd. Hurð úr áli og gleri, sýnd á meðfylgjandi mynd.“ Ekki er tekið fram í tölvupósti þessum að þessi ósk sé sett fram fyrir hönd Sólfells ehf. eða annars aðila en stefnda. 

Þá liggur frammi tilboð Gluggasmiðjunnar ehf. til Ans ehf., dags. 19. desember 2007, sem er svar stefnanda við ósk stefnda í framangreindum tölvupósti. Í tilboðinu kemur fram að byggingarstaður sé Borgarbraut 58-60.

Jón Valgeir bar fyrir dómi að Ans ehf. hefði verið undirverktaki hjá Sólfelli ehf. í Borgarnesi og hefði verið samvinna þar á milli. Hafi Sigurður í Sólfelli ehf. beðið sig um að afla tilboða, sem hann hafi gert, og sent áfram til Sigurðar. Hafi Sigurður alfarið séð um pöntunina.

Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri stefnanda bar fyrir dómi, að upphaf umstefndra viðskipta hefði verið tölvupóstur frá stefnda. Beiðni stefnda hafi verið svarað með tilboði sem stílað var á Ans ehf. Ekki hafi verið um annan aðila að ræða sem komið hafi að þessum viðskiptum. Tilboðið hafi verið staðfest með því að varan var afhent og kvaðst Gunnar ekki vita betur en að umræddu verki væri lokið.

Framlagt tilboð er ekki undirritað af stefnda. Hins vegar liggur ekki annað fyrir í málinu en þessu tilboði stefnanda til stefnda hafi verið tekið og varan hafi verið afhent í samræmi við það, sbr. framlagður reikningur, enda er því ekki mótmælt af hálfu stefnda að varan hafi verið afhent. Reikningur samkvæmt tilboðinu var gefinn út 7. mars 2008. Liggur ekki fyrir að stefndi hafi mótmælt honum fyrr en með greinargerð í máli þessu. Þá er fram komið að stefndi greiddi reikning vegna verðbóta á umræddan reikning. Engin gögn liggja fyrir í málinu er staðfesta hvernig sambandi Ans ehf. og Sólfells var háttað.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða í málinu ekki byggð á öðru en að réttarsamband hafi stofnast milli stefnanda og stefnda um vörukaup samkvæmt framlögðu tilboði stefnanda. Ber stefnda því að greiða umstefndan reikning, en fjárhæð hans hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.

Verða kröfur stefnanda í málinu því teknar til greina.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ans ehf., greiði stefnanda, Gluggasmiðjunni ehf., 1.532.963 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. mars 2008 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.