Hæstiréttur íslands
Mál nr. 318/2002
Lykilorð
- Vátrygging
- Kjarasamningur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2002. |
|
Nr. 318/2002. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Sigurjóni Jónssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Vátrygging. Kjarasamningar. Gjafsókn.
S, sem starfaði sem verkstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, slasaðist alvarlega á hendi við vélbúnað á sínu eigin verkstæði og hlaut af varanlega örorku. Deilt var um bótaskyldu V samkvæmt slysatryggingu launþega sem kaupfélagið hafði keypt fyrir verkstjóra sína í samræmi við ákvæði kjarasamnings þar um, þar sem þeir skyldu vera tryggðir allan sólarhringinn, en í vátryggingarskírteininu var tekið fram að frítímatrygging væri innifalin. Fallist var á að sú krafa yrði ekki gerð til atvinnurekanda eftir ákvæði kjarasamningsins að hann tryggði launþega í starfi hjá öðrum atvinnurekanda. Hins vegar var ekki fallist á að vátryggingin gilti án skilyrða hvað svo sem starfsmaður tæki sér fyrir hendur í frítíma sínum. Vegna þessa og með vísan til dóms Hæstaréttar 1984 bls. 39 var talið að vátryggingin hefði ekki tekið til þess er S vann sem sjálfstæður atvinnurekandi eða að undirbúningi slíks atvinnurekstrar, en ekki í þágu þess atvinnurekanda sem trygginguna tók. Hlaut vátryggingavernd S í frítíma sínum frá vinnuveitanda og vátryggingartaka því að ljúka þegar hann fór að vinna í atvinnurekstri hjá sjálfum sér eða öðrum. Var V því sýknað af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2002 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hann hefur fyrir réttinum.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Ágreiningslaust er að stefndi starfaði sem verkstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, sem hafði keypt slysatryggingu launþega fyrir verkstjóra sína samkvæmt ákvæði kjarasamnings, þar sem vinnuveitandi stefnda tók á sig þá skyldu að tryggja verkstjóra, sem væru félagar í Verkstjórasambandi Íslands, allan sólarhringinn fyrir dauða eða varanlegri örorku af völdum slyss. Hafði tryggingin verið keypt hjá Samvinnutryggingum g.t., forvera áfrýjanda. Í vátryggingarskírteini var tekið fram að frítímatrygging væri innifalin. Einnig er óumdeilt að stefndi slasaðist alvarlega á hendi við vélbúnað á sínu eigin verkstæði og hlaut af varanlega örorku.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að við túlkun vátryggingasamninga, sem gerðir séu í kjölfar kjarasamninga, beri að beita almennum túlkunarreglum og ákvæði skilmálanna beri að skýra eftir orðanna hljóðan. Í orðinu „frítímatrygging“ felist að vátryggðir séu einnig vátryggðir í frítíma sínum. Hugtakið frítími vísi til þess að þeir séu ekki í starfi hjá vátryggingartaka og ekki heldur í annarri atvinnu, hvorki hjá sjálfum sér né öðrum vinnuveitanda. Ljóst sé með vísan til ákvæðis kjarasamningsins að tilgangurinn með skilmálum vátryggingarinnar hafi verið að tryggja þá sem eru í starfi hjá vátryggingartaka en ekki í starfi hjá öðrum. Stefndi hafi slasast við störf í eigin atvinnu, á sínu eigin verkstæði, og þess vegna hafi slysið ekki orðið í frítíma hans heldur þegar hann var að stunda atvinnurekstur.
Áfrýjandi kveður slysatryggingar verkstjóra, með tryggingu allan sólarhringinn, hafa fyrst verið seldar kaupfélaginu 1977 og hafi skírteini með svofelldum áritunum verið send því í upphafi trygginganna: „Félagið er ekki bótaskylt vegna slyss er sá sem tryggður er verður fyrir við störf í eigin þágu eða annarra en vátryggingartaka.“ Fram sé komið í framburði starfsmanns áfrýjanda að slíkar áritanir hafi ætíð verið gerðar fyrir sameiningu tryggingafélaganna 1989. Þá hafi þeim verið hætt vegna tölvufærslu og ekki talin þörf á þeim lengur, þar sem þetta væri alþekkt meðal vinnuveitenda og launþega. Þess vegna skipti ekki öllu máli hvort slík áritun hafi verið í skilmálum þegar slysið varð, enda hafi það verið óþarfi þar sem þessi regla felist í orðum skilmálanna um frítímatryggingu.
Stefndi mótmælir þessari túlkun skilmála vátryggingarinnar og vísar í 1. gr. þeirra, þar sem segir: „Félagið greiðir bætur vegna slyss, er sá, sem tryggður er, verður fyrir eins og segir í skírteini þessu.“ Undanþágur frá þessu greiðsluloforði séu í 5., 8. og 9. gr. skilmálanna, og engin þeirra eigi við í málinu. Tryggingin hafi átt að gilda allan sólarhringinn, eins og kjarasamningurinn kvað á um. Þegar atvinnurekandi tryggi launþega í frítíma skipti engu máli hvað hann geri í frítíma sínum. Ekkert í skilmálunum undanþiggi áfrýjanda ábyrgð á tjóni stefnda, enda sé ósannað að áritun hafi verið gerð á þann hátt sem áfrýjandi haldi fram. Sú staðreynd að áður hafi verið sérstök áritun um að félagið sé ekki bótaskylt ef tryggður verði fyrir slysi við störf í eigin þágu eða annarra en vátryggingartaka sýni einmitt að félagið hafi sérstaklega undanþegið sig slíkri ábyrgð, en hafi ekki gert það lengur þegar hætt hafi verið að bæta þessu í skilmálana. Stefndi tekur fram til öryggis, að jafnvel þótt talið væri að tryggingin næði ekki til þess er launþegi stundi störf hjá sjálfum sér eða öðrum, sem ekki sé tekið fram í skilmálum tryggingarinnar, hafi hann ekki verið við arðbær störf í eigin þágu á þessum tíma, þar sem starfsemi verkstæðisins hafi ekki verið hafin og farin að gefa arð.
II.
Í dómi Hæstaréttar 1984, bls. 39, var fjallað um kjarasamning áþekkan þeim sem hér getur, en í því tilviki slasaðist maður sem vann við eigin húsbyggingu, algenga tómstundaiðju manna. Í dóminum segir meðal annars að slíkan kjarasamning beri að skýra svo, að ákvæði hans um slysatryggingu starfsmanna, er gilda ætti allan sólarhringinn, hafi verið reist á þeirri forsendu að sú slysatrygging yrði háð þeim takmörkunum og undanþágum, sem yfirleitt tíðkuðust hjá íslenskum tryggingafélögum í almennum eða sérstökum skilmálum þeirra við atvinnuslysatryggingar launþega. Var því slegið föstu að orðin „við arðbær störf“ í eigin þágu eða annarra en vátryggingartaka yrði að skýra svo þröngt að þau tækju ekki til athafna hins slasaða.
Stefndi lýsti því sjálfur fyrir héraðsdómi að slysið hafi orðið í hans eigin atvinnurekstri, í firma því sem hann hafi verið að koma á fót. Þetta var ekki tómstundaiðja stefnda. Þetta var í raun slys við vinnu en ekki í frítíma, enda ekki eðli frítímaáhættu að ná yfir vinnuslys. Skiptir þá ekki máli hvort starfsemi verkstæðis stefnda hafi verið farin að bera arð eða ekki.
Fallast ber á með áfrýjanda að sú krafa verði ekki gerð til atvinnurekanda eftir framangreindu ákvæði kjarasamnings að hann tryggi launþega í starfi hjá öðrum atvinnurekanda. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að vátryggingin, sem kaupfélagið tók, hafi átt að taka til starfs hjá öðrum en vátryggingartaka. Ekki verður á það fallist með stefnda að vátryggingin gildi án skilyrða, hvað svo sem starfsmaður tæki sér fyrir hendur í frítíma sínum. Vegna þessa og með vísan til fordæmis réttarins í fyrrgreindum dómi frá 1984 verður talið að vátryggingin hafi ekki tekið til þess er stefndi vann sem sjálfstæður atvinnurekandi eða að undirbúningi slíks atvinnurekstrar, en ekki í þágu þess atvinnurekanda sem trygginguna tók. Vátryggingavernd stefnda í frítíma sínum frá vinnuveitanda og vátryggingartaka hlaut því að ljúka þegar hann fór að vinna í atvinnurekstri hjá sjálfum sér eða öðrum. Verður krafa áfrýjanda um sýknu af kröfum stefnda því tekin til greina.
Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfu stefnda, Sigurjóns Jónssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002.
Mál þetta sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 29. desember 2000.
Stefnandi er Sigurjón Jónsson, Fellstúni 1, Sauðárkróki.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf. Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.328.715 krónur auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. september 1994 til 22. mars 1999 en með dráttarvöxtum af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.
MÁLSATVIK
Stefnandi var verkstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, Sauðárkróki. Um kjör hans gilti kjarasamningur Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands Samvinnufélaganna annars vegar og Verkstjórasamabands Íslands og Verkstjórafélagsins Þórs hins vegar. Samkvæmt gr. 5. 2. í samningi þessum, var vinnuveitenda skylt að tryggja verkstjóra sem voru félagsmenn í Verkstjórasambandi Íslands, allan sólarhringinn fyrir dauða eða varanlegri örorku af völdum slyss. Vinnuveitandi stefnanda hafði keypt tryggingu hjá Samvinnutryggingum g/t, forvera stefnda. Þann 10. september 1994 var stefnandi að vinna við að koma upp vélum í húsnæði sem hann hafði nýlega keypt ásamt vélunum. Segir í lögregluskýrslu frá 15. september 1994 að stefnandi hafi verið að prófa valsara og sett í hann gúmmímottu. Við það hefði hægri hendi stefnanda farið í valsarann og hann slasast mikið á hendi. Stefnandi var einn er þetta gerðist en tókst að slökkva með neyðarútslætti. Í skýrslunni segir að stefnandi hafi verið að vinna að því að setja upp fyrirtæki í húsinu. Að tilhlutan bróður stefnanda fór lögregla á vettvang, tók ljósmyndir og gerði skýrslu um athugun sína á vettvangi. Stefnandi tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins um slysið og þar segir að hann hafi verið sjálfstæður atvinnurekandi er slysið varð og krafðist hann bóta sem slíkur. Í vottorði Magnúsar Páls Albertssonar, læknis, segir:
“Þann 10. september 1994 var ofannefndur Sigurjón Jónsson fluttur á slysadeild Borgarspítalans eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu handarslysi við vinnu sína. Sigurjón er rétthentur. Var hann við vinnu sína hjá Kaupfélagi Skagfirðinga við að valsa gúmmí og voru 8 mm á milli valsanna. Dróst hægri hönd hans inn á milli valsanna, allir fingur upp að hnúaliðum (MCP-liðum). Við þetta slitnuðu af þumli allir mjúkvefir nema sinar en aðrir fingur voru illa farnir með tættum sárum upp undir hnúaliði og kurlbrotum í miðkjúkum og fjærkjúkum. Fékk Sigurjón fúkkalyf og var síðan strax færður til aðgerðar á skurðstofu þar sem gert var að sárum hans. Reyndist nauðsynlegt að fjarlægja fjærkjúkur allra fingranna á hægri hendi nema þumals en til að þekja þumalinn var lyft upp stilkuðum flipa af hægri framhandlegg og vefja honum um þumalinn eftir föngum. Einnig var notuð þunn húð sem tekin var af hægra læri til að loka þeim sárum sem eftir voru.
Sigurjón var síðan inniliggjandi á bæklunardeild Borgarspítalans til 26. september 1994 og var eftir það lengi vel í meðferð hjá Rafni Ragnarssyni. Gekkst hann undir fjölmargar smáaðgerðir til lagfæringar á hendinni auk þess sem hann fór mjög oft í umbúðaskipti, bæði á göngudeild Borgarspítalans og eins heima á Sauðárkróki. Er síðasta koma vegna þessa skráð í sjúkraskrá þann 28. apríl 1995 en undirrituðum er ekki kunnugt um hvort Sigurjón hefur einnig hitt Rafn Ragnarsson á stofu eða ekki.
Til undirritaðs kom Sigurjón á göngudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þann 23. september 1997 í lokaskoðun vegna vottorðaskrifa. Kom þá fram að Sigurjón finnur til mikillar kulvísi í hægri hendi og fingurstúfar eru viðkvæmir ef hann rekur þá í og einnig að snertiskyn er verulega skert í stúfendunum og nánast ekkert í flipanum á þumli. Þá vill springa fyrir á mótum flipa og húðar og Sigurjón finnur fyrir minnkuðum gripkrafti og gripgetu í hendinni. Auk þess tekur í við átök í öri á framhandlegg þar sem flipanum var lyft, en það ör er 9 x 10 cm að stærð. Hefur Sigurjón orðið að breyta sinni vinnutilhögun og er nú meira í innivinnu en áður og þá helst við skrifstofustörf.
Hægri hönd er þykk og aflöguð, ágætlega þykk húð er yfir stúfendum en fjölmörg ör á fingrum. Hann nær með þumalgómi að stúfendum allra hinna fingranna en hreyfigeta fingurstúfanna er skert þannig að 2 cm vantar á fulla kreppu í vísifingri og löngutöng en 1 cm í baugfingri og litlafingri. Það er rýrnun í vöðvum þumalbungu og kraftar eru verulega skertir. Mælt með "dynamometer" er gripkraftur hægri handar 4-4-3 psi (pund á ferþumlung) en 17-17-20 psi vinstra megin en gripkraftur þumals-vísifingurs hægra megin 2-3-2 psi en 6-6-6 psi vinstra megin.
Það vottast að áverkinn samrýmist lýsingu á tildrögum.
Áverkinn var mjög alvarlegur og hefur skilið eftir alvarleg varanleg mein sem skerða að verulegu leyti vinnugetu Sigurjóns. Ekki er að vænta frekari bata.”
Eins og að framan greinir keypti Kaupfélag Skagfirðinga tryggingu hjá forvera stefnda í samræmi við ákvæði kjarasamnings en deiluefni máls þessa er hverjir skilmálar hafi gilt um tryggingu þessa. Stefnandi hefur lagt fram "Tryggingaskilmála um slysatryggingu launþega" gefna út af stefnda og segir á skjalinu að skilmálarnir gildi frá 17. júlí 1989.
Þann 14. desember 1994 sendi stefndi Kaupfélagi Skagfirðinga upplýsingar um slysatryggingu launþega, þar sem kemur fram að "verkstjórar eru allir tryggðir samkvæmt kjarasamningi B.S.R.B. eða það sem við köllum U tryggingu." Stefnandi kveður tryggingaskilmála þá sem lagðir eru fram og gilda frá 17. júlí 1989 vera U-tryggingarskilmála. Skilmálar þessir undanþiggi stefnda ekki ábyrgð á tjóni því sem hér um ræði. Í bréfi stefnda komi skýrlega fram að "tryggingin gildir allan sólarhringinn." Í afriti af vátryggingarskírteini fyrir tímabilið 15. desember 1992 til 1. janúar 1995 dagsettu 22. maí 1998 frá stefnda til Kaupfélags Skagfirðinga kemur fram að 11 verkstjórar séu tryggðir "Kjarasamningur: Kaupfélög og fyrrverandi Sambandsfyrirtæki. Frítímatr. innifalin".
Þann 12. október 1998 mat Björn Önundarson, læknir, varanlegan miska stefnanda 35%. Þá hefur stefnandi lagt fram mat Jónasar Hallgrímssonar og Ludvigs Guðmundssonar, lækna, dagsett 29. maí 1999, er varanleg örorka stefnanda metin 33%. Er því haldið fram af hálfu stefnanda að þar sem matið sé fyrir Tryggingastofnun ríkisins verði þetta ekki skilið öðruvísi en svo að um sé að ræða svokallaða "læknisfræðilega örorku" sem myndi samsvara "varanlegum miska". Matslæknar þessir hafi ekki verið bundnir af örorkutöflum örorkunefndar né miskatöflun stefnda. Björn Önundarsonar læknir meti hins vegar með hliðsjón af reglum skaðabótalaga. Töflur stefnda séu hærri en töflur örorkunefndar og megi, með vísan til þessa, telja að mat Björns Önundarsonar sé réttari grundvöllur að kröfunni.
Þann 22. febrúar 1999 sendi Pétur Einarsson hdl. bótakröfu, f.h. stefnanda, á hendur stefnda.
MÁLSÁSTÆÐUR
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi tekið að sér að efna kjarasamning þann sem Kaupfélag Skagfirðinga var bundið af. Kjarasamningur þessi geri engan greinarmun á því hvort menn í frítíma sínum séu að stunda hættulegar tómstundir, vinna í garðinum sínum eða að huga að framtíð sinni eins og stefnandi hafi verið að gera þegar slysið átti sér stað. Það að einhverju máli skipti hvað menn séu að gera 24 tíma sólarhringsins eigi sér enga stoð í kjarasamningnum. Hér sé um að ræða þriðja manns löggerning sem gildi óháð vátryggingarskilmálum og vátryggingarrétti.
Verði ekki fallist á kröfur stefnanda á grundvelli fyrrgreindrar málsástæðu sé á því byggt að stefndi hafi ekki undanskilið sig ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir, enda geymi U-tryggingarskilmálarnir, sem gildi í réttarsambandi aðila, engar slíkar takmarkanir. Sé því haldið fram að óskráðir skilmálar takmarki tryggingu beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því. Einnig sé það meginregla í vátryggingarrétti að túlka beri skilmála vátryggða í hag og ákvæði sem takmarka trygginguna beri að túlka þröngt.
Svo virðist sem stefndi sé að taka til fyrirmyndar tryggingarskilmála í svonefndum "frítímaslysatryggingum" sem séu veigalitlar tryggingar og götóttar, enda ódýrar að sama skapi. Auðvitað feli ákvæði kjarasamningsins í sér að um sé að ræða svokallaða "almenna slysatryggingu" en hún tryggi menn hvar og hvenær sem er. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir öllum undanþágum frá því að tryggingin taki til slyss en sú sönnun hafi honum ekki tekist.
Til þess beri að líta að skilmálarnir séu samdir af stefnda og hefði ætlunin við að undanskilja slys, áþekkt því sem stefnandi varð fyrir, hafi stefnda verið í lófa lagið að setja slíkt undanþáguákvæði í skilmálana. Slíkt undanþáguákvæði sé ekki að finna, og liggi því beinast við að slys stefnanda eigi undir trygginguna enda beri að túlka skilmálana vátryggða í hag.
Grundvöllur kröfugerðar sé í samræmi við upplýsingar um bætur vegna örorku úr slysatryggingu verkstjóra sem starfsmaður stefnda hafi sent lögmanni stefnanda 10. október 2000 þó þannig að miðað er við örorkumat Björns Önundarsonar en ekki við matsgerð Jónasar Hallgrímssonar og Ludvigs Guðmundssonar. Ekki sé ágreiningur um upphæðir komist dómurinn að því að miða ætti við síðarnefnda matið.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglunnar um skuldbindingagildi samninga og ákvæða laga nr. 20/1954.
Málskostnaður: Um málskostnað vísast til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
Af hálfu stefnda er bent á að vinnuveitandi stefnanda hafi keypt slysatryggingu launþega hjá stefnda samkvæmt skilmálum sem tóku gildi 17. júlí 1989. Stefnandi, sem var verkstjóri, hafi notið þess hjá vinnuveitanda sínum að eiga að vera tryggður allan sólarhringinn samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Sé þar um að tefla svokallaða "frítímatryggingu" sem sé viðbót við hina almennu slysatryggingu launþega.
Sýknukrafa stefnda sé byggð á almennum reglum um túlkun vátryggingasamninga. Í orðinu "frítímatrygging" felist, að þeir sem vátryggðir eru séu einnig vátryggðir í frítíma sínum. Í því felist, að þeir séu ekki í annarri atvinnu, hvorki í arðbærri atvinnustarfsemi hjá sjálfum sér né hjá öðrum vinnuveitanda. Sé ljóst, að jafnvel þótt vinnuveitandi hafi tekið að sér að kaupa slysatryggingu launþega, sem tryggi launþegann allan sólarhringinn, verði sú krafa ekki gerð til neins atvinnurekanda að hann tryggi launþega í starfi hjá öðrum atvinnurekendum. Um þessi sjónarmið megi og vísa til bréfs Samtaka atvinnulífsins til Sambands ísl. tryggingafélaga, dagsetts 2. mars 2001 sem lagt hafi verið fram í málinu. Sé ekki vitað til þess, að samtök launþega hafi nokkru sinni mótmælt þeim sjónarmiðum, sem hér hafi verið sett fram. Á dómskjölum 26 og 27 séu dæmi um áritanir á tryggingaskilmála, en samskonar áritun hafi verið á skilmálum, sem Kaupfélagi Skagfirðinga hafi verið sendir við upphaf tryggingarinnar.
Stefndi byggi á því, að með því að sinna atvinnu utan starfs síns hjá vinnuveitanda sínum hafi stefnandi aukið mjög áhættu af að hafa hann tryggðan samkvæmt launþegatryggingunni. Verði þá félagið ekki ábyrgt fyrir tjóni hans af þeirri atvinnu samkvæmt 6. gr. skilmála, og samkvæmt 124. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954. Stefndi byggi og á því, að iðgjald af tryggingunni hafi verið miðað við slys á vinnustað, á beinni leið frá heimili til vinnustaðar og vinnustað til heimilis og tryggingu í frítíma, en ekki vinnu hjá öðrum. Hefði frítímatrygging átt að taka til starfs hjá öðrum, bæri sú trygging mun hærra iðgjald vegna aukinnar og annarskonar áhættu.
Stefnandi virðist og sjálfur hafa gert sér grein fyrir því, að hann hafi ekki verið tryggður við störf í eigin atvinnurekstri, og sé tilkynning hans til Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. maí 1997 til vitnis um það hverjum augum stefnandi hafi litið stöðu sína.
Af hálfu stefnda er einnig á því byggt, að með þeirri vanrækslu sinni að tilkynna ekki slysið, verði stefnandi að bera sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem hafi valdið slysinu. Með vanrækslu tilkynningar um slysið, hafi stefnandi komið í veg fyrir að vettvangur yrði kannaður, sem kynni að hafa leitt orsakir slyssins í ljós. Ljóst sé og, að stefnandi hafi verið með valsarann í gangi og sett gúmmímottu inn í hann, slys hans hafi orðið við það.
Um þá málsástæðu stefnanda að stefndi hafi tekið að sér að efna kjarasamning vinnuveitanda stefnanda við starfsmenn sína sé það að segja að vinnuveitandi stefnanda kunni að hafa verið bundinn af kjarasamningi um að vátryggja verkstjóra í starfi hjá sér fyrir slysum allan sólarhringinn. Þessa skyldu muni vinnuveitandinn hafa efnt með því að kaupa umrædda tryggingu. Sá vátryggingasamningur lúti skilmálum og skírteini um trygginguna. Kjarasamningsákvæðið verði þá skýringargagn við túlkun á vátryggingasamningnum. Einmitt sú staðreynd, að vátryggingin hafi verið til efnda vinnuveitanda á kjarasamningsákvæði styðji afstöðu stefnda, það er vinnuveitandi tryggir ekki starfsmenn nema í starfi hjá sér eða í raunverulegum frítíma. Í starfi hjá öðrum bæri þeim vinnuveitanda að tryggja starfsmann sinn.
Stefnandi byggi og á því, að stefndi hafi ekki berum orðum undanskilið áhættuna. Eins og að ofan greini lúti þessi vátryggingasamningur túlkun samkvæmt almennum reglum um túlkun vátryggingasamninga, þar á meðal sérstaklega þeirri reglu að túlka beri slíka samninga eftir orðanna hljóðan eftir því sem kostur er. Sú túlkun, að tryggingin gildi allan sólarhringinn, það er í vinnu og frítíma styðjist samkvæmt framansögðu sérstaklega við ákvæði kjarasamningsins. Í vátryggingaskírteini því sem áður greinir sé sérstaklega tekið fram, að frítímatrygging sé innifalin og beri þá að túlka það orð í samræmi við það sem áður er sagt, það er að það sé raunverulegur frítími, en ekki sá tími sem starfsmaður er í starfi hjá öðrum.
Í bréfi, dagsettu 22. febrúar 1999, sé krafa þáverandi lögmanns stefnanda um greiðslu bóta samkvæmt skilmálum og örorkumati Björns Önundarsonar, læknis. Vextir frá því fyrr en 22. febrúar 1995 séu því fyrndir. Skilja megi bréf þetta sem kröfu í samræmi við 24, gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 og verði þá krafa stefnanda um dráttarvexti frá 22. marz 1999 skilin vera í samræmi við 15. gr. vaxtalaga, enda krafa um almenna vexti gerð samkvæmt 7. gr., en hvorutveggja greinarnar fjalla um vexti af skaðabótum. Stefndi mótmælir því, að dráttarvextir verði lagðir á kröfu stefnanda fyrr en frá uppsögu endanlegs dóms í málinu.
Krafa stefndu um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., báðar greinar í l. nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnanda að stefndi hafi tekið að sér að efna kjarasamning þann sem gilti í skiptum hans við vinnuveitanda sinn. Hlýtur það að vera samningsatriði milli aðila vátryggingarsamnings hverjir skilmálar gildi um hann og því vátryggingartaka, í þessu tilviki Kaupfélags Skagfirðinga, að gæta þess að skilmálar séu í samræmi við þær skuldbindingar sem hann kann að hafa gengist undir.
Kemur þá til athugunar hvort skilmálar tryggingar þeirrar sem vinnuveitandi stefnanda keypti hafi undanskilið tjón það er hann varð fyrir er hann slasaðist. Í tilviki því sem hér er til úrlausnar liggur tryggingarskírteini eða önnur gögn um þetta ekki fyrir og fram kemur í greinargerð stefnda að öll slík gögn séu nú glötuð. Ekki er ágreiningur um að skilmálar þeir, með gildistöku 17. júlí 1989, sem stefnandi hefur lagt fram, gildi um tryggingu þá, sem hér er fjallað um. Stefnda hefur ekki tekist sönnun um það að sérstakir skilmálar hafi verið ritaðir á tryggingarskírteini eða verið viðbót við skilmála þá sem giltu um tryggingu þá sem vinnuveitandi stefnanda hafði keypt. Verður því einungis byggt á fyrrgreindum skilmálum stefnda. Í bréfi stefnda til Kaupfélags Skagfirðinga dagsettu 14. desember 1994 segir að verkstjórar séu allir tryggðir samkvæmt kjarasamningi BSRB eða því sem kallað sé U-trygging og að tryggingin gildi allan sólarhringinn, en athuga skuli að ekki séu dagpeningar í þessari tryggingu. Stefndi hefur talið ástæðu til að setja sérstaka fyrirvara í tryggingarskírteini eins og fram kemur á sýnishornum af skírteinum og skilmálum sem lögð hafa verið fram af hans hálfu en engu slíku er fyrir að fara hér svo séð verði af gögnum um trygginguna. Eins og hér háttar til þykir stefndi verða að bera hallan af því að engin gögn liggja fyrir þar sem fram kemur að sú trygging sem vinnuveitandi keypti vegna stefnanda og annarra verkstjóra hafi verið háð öðrum skilmálum en þeim sem lagðir hafa verið fram hér. Í þeim er ekki að finna fyrirvara sem undanþiggja tjón stefnanda. Verður því fallist á þá málsástæðu stefnanda að umrædd trygging taki til slyss hans.
Samkvæmt framansögðu er hér á því byggt að stefnandi hafi verið tryggður utan vinnutíma síns enda engin gögn um annað og verður því ekki talið að um áhættubreytingu hafi verið að ræða sem leiði til þess að tryggingin taki ekki til slyss hans.
Stefnandi var fluttur á sjúkrahús í framhaldi af slysi því er hann varð fyrir 10. september en þann 15. september bað bróðir hans lögreglu um að líta á vettvang þar sem slysið hafði orðið. Verður ekki fallist á það með stefnda að dráttur þessi sé slíkur miðað við ástand stefnanda að leiði til þess að sönnunarbyrði um að hann hafi ekki orðið fyrir slysi vegna stórkostlegs gáleysis síns hvíli á honum.
Samkvæmt d. lið 12. gr. skilmála þeirra er um trygginguna giltu ber ekki að taka tillit til starfs, sérstakra hæfileika hins slasaða né þjóðfélagsstöðu. Verður á það fallist með stefnda að af því leiði að miða beri við matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ludvigs Guðmundssonar en í skilmálum er miðað við varanlegan miska, áður læknisfræðilega örorku, og varanleg örorka stefnanda telst því 33%. Skv 1. mgr. 12. gr. skilmálanna skulu bætur vegna varanlegrar örorku greiðast í hlutfalli við vátryggingarfjárhæðina þó þannig að hvert örorkustig frá 26-50% verkar tvöfalt. Ber því að reikna stefnanda 41% af 2.952.700 krónum eða 1.210.607 krónur í bætur auk vaxta eins og greinir í dómsorði en það athugist að vextir fyrir 22. febrúar 1995 eru fyrndir.
Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði þ.e. þóknun lögmanns hans 275.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti 67.375 krónum og útlögðum kostnaði 18.500 krónum, samtals 360.875 krónur.
Stefndi greiði 360.875 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Sigurjóni Jónssyni, 1.210.607 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. febrúar 1995 til birtingardags stefnu, 29. desember 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður stefnanda, krónur 360.875 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Stefndi greiði 360.875 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.