Hæstiréttur íslands

Mál nr. 643/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Fimmtudaginn 11. október 2012.

Nr. 643/2012.

Ríkislögreglustjóri

(enginn)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.  Frávísun máls frá Hæstarétti.

X kærði úrskurð héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1962. Þar sem X hafði verið framseldur dönskum yfirvöldum var ljóst að það ástand, sem leiddi af hinum kærða úrskurði var þegar um garð gengið, og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framsal hans til Danmerkur færi fram, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 11. október 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vægara úrræði verði beitt.

Eftir að málið barst Hæstarétti sendi sóknaraðili réttinum bréf 11. október 2012 þar sem upplýst var að framsal varnaraðila hefði farið fram fyrr í dag. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2012.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að varnaraðila X, kt. [...], ríkisborgara Íslands, með dvalarstað að [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framsal hans til Danmerkur fer fram, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 11. október kl. 16:00.

                Í greinargerð Ríkislögreglustjóra kemur fram að hann 7. nóvember 2011 hafi innanríkisráðuneytinu borist beiðni danskra dómsmálayfirvalda, dags. 20. október 2011, um framsal varnaraðila vegna gruns um refsiverða háttsemi.

                Í greinargerð ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins, dags. 14. mars 2012 um lagaskilyrði framsals (sjá skjal nr. 1), kemur fram að varnaraðili hafi þann 15. júní 2010 verið ákærður fyrir brot gegn 2. mgr., sbr. 1. lið 1. mgr. 191. gr. dönsku hegningarlaganna með því að hafa á tímabilinu frá 1. október 2008 til 1. desember 2009, móttekið allt að 1,1 kg af amfetamíni og 20 g af kókaíni frá nafngreindum aðila Y, og selt efnin áfram til óþekkts fjölda kaupenda í og við [...],. Brot gegn ákvæðinu varði allt að 10 ára fangelsi. Þann 11. mars 2010 hafi nafngreindur aðili Y viðurkennt fyrir dómi að hafa selt varnaraðila fíkniefnin. Varnaraðili hafi ekki mætt fyrir dóm (Retten í [...]) hinn 2. febrúar 2011, og ekki  gefið lögmæta ástæðu fyrir fjarveru sinni, en fyrirkall hafi verið birt honum hinn 9. desember 2010 á lögreglustöðinni í Keflavík. Af þessum sökum hafi dómstóllinn ákveðið að varnaraðili skyldi handtekinn. Á dómþingi hinn 6. júlí 2011 hafi dómurinn verið upplýstur um að varnaraðili væri á Íslandi og hafi í gegnum verjanda sinn tilkynnt að hann ætlaði ekki að koma fyrir dóm vegna málsins. Málinu hafi verið frestað þar til varnaraðili yrði framseldur og opin handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum.

                Varnaraðila hafi verið kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hinn 9. janúar sl. Hafi hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann en mótmælt framsali. Í álitsgerð ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins varðandi lagaskilyrði framsals, komi einnig fram að brot það sem varnaraðili hafi verið ákærður fyrir í Danmörku myndi varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum. Niðurstaðan hafi því verið sú að efnisskilyrði framsals væru fyrir hendi, sbr. einkum 1. gr., 2. tl. 1. mgr. 2. gr., 3. gr. laga nr. 7/1962, sem og formskilyrði skv. 9. gr. laganna.

                Með bréfi, dags. 6. júní 2012 (sjá skjal nr. 2) hafi innanríkisráðuneytið tekið ákvörðun um framsal, en niðurstaða ráðuneytisins hafi verið sú að þegar málsatvik væru virt heildstætt þættu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal, og hafi því verið fallist á beiðni danskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Danmerkur.

                Ákvörðun ráðuneytisins hafi verið kynnt varnaraðila hinn 19. júní sl. hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

                Framangreindri ákvörðun innanríkisráðuneytisins var hinn 27. júní 2012 vísað til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, sem síðan hafi verið uppkveðinn þann 5. september 2012 og fyrrgreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins þá verið staðfest. Varnaraðili hafi þá kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem hafi kveðið upp dóm sinn hinn 11. september 2012, sbr. mál nr. 590/2012 en þar hafi hinn kærði úrskurður héraðsdóms verið staðfestur með vísan til forsendna hans og þar með framangreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins.

                Dönsk lögregluyfirvöld hafi tilkynnt embætti ríkislögreglustjóra með tölvupósti hinn 8. október sl. að tímasetning framkvæmdar framsals yrði ákveðin þegar varnaraðili væri í gæslu lögreglu, til að nærvera hans væri tryggð vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar framsals.

                Dönsk yfirvöld hafi í dag, 9. október, upplýst ríkislögreglustjóra með tölvupósti um ferðatilhögun og tímasetningu framsals varnaraðila, en framsal varnaraðila fari fram fimmtudaginn 11. október nk.

                Í  ljósi alls framangreinds og til að tryggja nærveru varnaraðila vegna framkvæmdar framsals sé gerð krafa um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þar til framsal til danskra lögregluyfirvalda hafi farið fram hinn 11. þ.m. Sé þá til þess að líta að varnaraðili hefur sætt farbanni, en framlengt farbann rennur út þann 11. október nk. (sjá skjal nr. 3), en tilhögun tilkynningarskyldu sé með þeim hætti að varnaraðila hafi verið gert að tilkynna sig símleiðis til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á mánudögum og föstudögum milli kl. 08:00-16:00 og veiti það fyrirkomulag að mati embættisins ekki nægjanlega tryggingu fyrir návist varnaraðila. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að tilkynningarskylda verði efnd með eigin persónu  varnaraðila á lögreglustöð þá væri slík ráðstöfun að mati embættisins eigi nægileg í því ljósi að varnaraðili hafi mótmælt framsalsbeiðni. Teljist því að mati lögreglu fyrirliggjandi hætta  á að hann muni reyna að leynast eða koma sér undan framkvæmd framsals verði hann ekki í gæslu lögreglu. Tekin hafi verið afstaða til þess hvort vægari úrræði en gæsluvarðhald séu nægileg í þessu samhengi og sé það mat embættisins að svo sé ekki.

                Að öðru leyti og með vísan til gagna málsins er fylgja í ljósriti, sé kröfu þessari beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.

…………….

Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 590/2012, sem kveðinn var upp 11. september sl., var fallist á að varnaraðili skyldi framseldur til Danmerkur á grundvelli laga nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Varnaraðili hefur sætt farbanni á meðan framsalsmál hans hefur verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst sl. Samkvæmt síðastnefndum úrskurði rennur farbannið út 11. október nk. Tilhögun þess farbanns var sú að varnaraðila var gert að tilkynna sig símleiðis til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á mánudögum og föstudögum milli kl. 8-16.

Í máli þessu liggur fyrir að dönsk yfirvöld hafa upplýst ríkislögreglustjóra um að framsal varnaraðila fari fram nk. fimmtudag, 11. október, enda væri varnaraðili þá í gæslu lögreglunnar. Fyrir liggur einnig að varnaraðili hefur mótmælt framsalsbeiðni og má í því ljósi taka undir það mat ríkislögreglustjóra að hann muni reyna að leynast eða koma sér undan framkvæmd framsals verði hann ekki í gæslu lögreglu.

Með vísan til ofanritaðs og framlagðra gagna þykja uppfyllt skilyrði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfunni eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Verður krafan þannig tekin til greina.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi uns framsal hans til Danmerkur fer fram, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 11. október nk. kl. 16:00.