Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-23

Ásdís Kristinsdóttir (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
Blönduósbæ (Stefán Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Jörð
  • Erfðafesta
  • Ábúð
  • Uppsögn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 11. janúar 2019 leitar Ásdís Kristinsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 349/2018: Ásdís Kristinsdóttir gegn Blönduósbæ, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Blönduósbær leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu Blönduósbæjar um að leyfisbeiðanda verði gert að víkja af jörðinni Kleifum og afhenda bænum umráð hennar gegn greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar. Reisir Blönduósbær kröfu sína á því að hann hafi í desember 2009 sagt upp ábúðarsamningi sem hann hafi gert við föður leyfisbeiðanda á árinu 1951 um 12 hektara spildu úr landi bæjarins með vísan til 12. gr., sbr. 37. gr., ábúðarlaga nr. 80/2004, enda hafi leyfisbeiðandi ekki sinnt þeirri skyldu að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð sinni og stunda þar landbúnað. Leyfisbeiðandi byggir á hinn bóginn á því að hún leiði rétt sinn til jarðarinnar ekki einungis til ábúðarsamningsins frá 1951 heldur einnig til fjögurra ótímabundinna erfðaleigusamninga sem gerðir voru á árunum 1932 til 1939 og séu enn í gildi. Taki þeir samningar samtals til 7,39 hektara lands en samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands sé jörðin Kleifar 18,1 hektarar að stærð. Héraðsdómur Norðurlands vestra tók til greina kröfu Blönduósbæjar og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að formi til og efni. Telur leyfisbeiðandi að krafa Blönduósbæjar sé þannig úr garði gerð að ekki sé unnt að taka hana til greina þar sem hún feli í sér að leyfisbeiðanda yrði gert að víkja af stærri landskika en bærinn eigi tilkall til samkvæmt ábúðarsamningnum. Hefði því borið að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu. Þá hafi ekki verið tekin afstaða til þess í dóminum til hvaða landsvæðis ábúðarsamningurinn nái auk þess sem þar sé ranglega byggt á því að afsalað hafi verið rétti samkvæmt erfðaleigusamningunum við undirritun ábúðarsamningsins. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að Blönduósbær hafi sýnt af sér tómlæti við að bera fyrir sig að ekki væri stundaður búskapur á jörðinni enda hafi bænum verið kunnugt um það um árabil án þess að aðhafast nokkuð. Loks telur hún að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um skýringu erfðafestusamninga og slit þeirra, meðal annars á grundvelli brostinna forsendna, svo og um áhrif tómlætis. Er beiðnin því tekin til greina.