Hæstiréttur íslands
Mál nr. 294/2013
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2013. |
|
Nr. 294/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Ingibergi G. Sigurbjörnssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni.
I var sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 104,85 g af marijúana. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til sakarferils I og þess að með brotinu rauf hann 18 mánaða skilorð dóms þar sem hann hafði verið dæmdur til 20 mánaða fangelsisrefsingar. Þótti refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði auk þess sem I var gert að sæta upptöku á áðurgreindum fíkniefnum, tveimur farsímum og 7000 krónum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 2. mars 2011 var ákærði sakfelldur fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti 6. janúar 2011. Með því broti rauf hann skilorð dóms sem hann hlaut 12. janúar 2010. Var því ekki um að ræða hegningarauka eins og segir í hinum áfrýjaða dómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti er 138.194 krónur, sem ákærða verður gert að greiða auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ingibergur G. Sigurbjörnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 389.194 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 19. febrúar 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 22. janúar 2013, á hendur Ingibergi G. Sigurbjörnssyni, kt. [...]-[...], Sævangi 6, Hafnarfirði, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, laugardaginn 27. október 2012 í bifreiðinni BH-578 á bifreiðastæði á bak við Borgarbókasafn Reykjavíkur við Tryggvagötu 15 í Reykjavík, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samtals 104,85 g af marijúana, sem lögreglumenn fundu við leit í bifreiðinni og í fatnaði ákærða.
Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um
ávana- og fíkniefni
nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr.
14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr.
233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er krafist upptöku á 104,85 g af marijúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á 7.000 krónum og tveimur farsímum, sem hald var lagt á, skv. 7. mgr. 5. gr. sömu laga, en samkvæmt ákæru eru fjármunirnir ágóði sölu fíkniefna og voru símarnir notaðir eða ætlaðir til sölu fíkniefna í málinu.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í febrúar 1987. Samkvæmt sakavottorði á hann allnokkurn sakaferil að baki, allt aftur til ársins 2005. Það ár var hann dæmdur fyrir ölvunarakstur og fíkniefnalagabrot og jafnframt sviptur ökurétti í 14 mánuði. Árið 2006 var hann tvívegis sektaður vegna sviptingaraksturs og fyrir fíkniefnalagabrot. Sama ár var hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og vopnalögum. Árið 2007 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun fyrir sviptingarakstur og fíkniefnalagabrot. Sama ár var hann dæmdur til sektargreiðslu fyrir fíkniefnalagabrot og hlaut jafnframt fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld, ölvunar- og sviptingarakstur. Árið 2008 var hann dæmdur til sektarrefsingar og sviptingar ökuréttar í 12 mánuði fyrir ölvunar- og sviptingarakstur. Árið 2009 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvunar- og sviptingarakstur. Hann var 12. janúar 2010 dæmdur til 20 mánaða fangelsisrefsingar, þar af 17 mánuði skilorðsbundna í 3 ár, fyrir brot gegn 231. gr. 244. gr., 248. gr. og 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, fíkniefnalagabrot, hraðakstur og akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og sviptur ökurétti ævilangt. Var ævilöng svipting ökuréttar jafnframt áréttuð. Loks var ákærði 2. mars 2011 dæmdur til 20 mánaða fangelsisrefsingar, þar af 18 mánuði skilorðsbundna, fyrir sviptingarakstursbrot, en skilorðsbundinn hluti refsidómsins frá 12. janúar 2010 var þá dæmdur upp þar sem um hegningarauka var að ræða. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð síðastgreinds refsidóms. Ber að dæma þann dóm upp og ákveða refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði.
Ákærði hefur mótmælt kröfu um upptöku á tveimur farsímum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 27. október 2012, sem tekin var upp í hljóð og mynd, viðurkenndi ákærði að hafa notað farsímana við sölu fíkniefna. Verða símarnir því dæmdir upptækir, ásamt 104,85 g af marijúana og 7.000 krónum, sem jafnframt var lagt hald á, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 87.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómar kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ingibergur G. Sigurbjörnsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.
Upptæk eru dæmd 104,85 g af marijúana, tveir farsímar og 7.000 krónur.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 87.850 krónur.