Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 204/2014. |
Ingvar Jónadab Karlsson (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Landsbankanum
hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem bú I var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu L hf. Með vísan
til 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
skoraði L hf. á I að lýsa því yfir með skriflegum hætti innan þriggja vikna frá
móttöku áskorunarinnar að hann væri fær um að greiða tiltekna gjaldfallna skuld
innan skamms tíma. I sinnti ekki þessari áskorun og hvorki varð fundin stoð
fyrir því í gögnum málsins að krafa bankans væri upp gerð né fyrnd. Var
niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Ekki var fallist á það með I að á það
hafi skort að L hf. lýsti kröfu sinni nægilega skýrt í áskoruninni til þess að
hann gæti áttað sig á grundvelli hennar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 13. mars 2014 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur lagt fram ný skjöl fyrir Hæstarétti. Meðal þeirra eru afrit kaupnóta og kvittana fyrir greiðslu lána sem tekin voru á grundvelli samnings Landsbanka Íslands hf. og sóknaraðila 13. júní 2006 sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Af þessum skjölum verður ráðið að lánsviðskipti samkvæmt samningnum fóru fram með þeim hætti að sóknaraðili greiddi upp útistandandi lán sín samhliða því að hann fékk ný lán á grundvelli samningsins. Þannig gaf Landsbanki Íslands hf. 22. september 2008 út kvittun fyrir greiðslu sóknaraðila á láni, sem verið hafði á gjalddaga 10. janúar sama ár, jafnframt því sem þá var formlega gengið frá nýju láni til hans með gjalddaga 30. október 2008. Ennfremur hafa verið lögð fram ný skjöl sem sýna að varnaraðili tilkynnti sóknaraðila í janúar 2012 að hann hafi innleyst hlutabréf sóknaraðila í Lífsvali ehf., sem sett höfðu verið að handveði til tryggingar greiðslu á skuldum hans við Landsbanka Íslands hf., en samkvæmt yfirlýsingu um handveðið gat bankinn sem veðhafi tekið til sín bréfin í stað þess að selja þau nauðungarsölu. Þá kveðst varnaraðili hafa tilkynnt sóknaraðila með ábyrgðarbréfi 23. maí sama ár að hann hafi látið meta verðgildi umræddra hlutabréfa og sent sóknaraðila jafnframt kvittun þar sem fram kæmi að 9. janúar 2012 hafi 61.839.340 krónum af innlausnarverði bréfanna verið ráðstafað inn á framangreint lán hans.
Að framansögðu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er
staðfestur.
Sóknaraðili, Ingvar Jónadab Karlsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf.,
250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014.
Krafa sóknaraðila, Landsbankans hf., Austurstræti 11,
Reykjavík um að bú varnaraðila, Ingvars Jónadabs
Karlssonar, Vesturhlíð 9, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst
dóminum 12. febrúar 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 15. maí 2013. Lögmaður
varnaraðila mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1.
mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Lögmaður varnaraðila lagði fram greinargerð ásamt
fylgiskjölum í þinghaldi 26. júní 2013. Málinu var þá frestað til munnlegs
málflutnings til 11. október 2013. Vegna veikindaleyfis þáverandi dómara
málsins var málinu úthlutað núverandi dómara 10. september 2013. Þegar málið
var tekið fyrir 11. október 2013 lagði sóknaraðili fram ný dómskjöl. Lögmaður
varnaraðila óskaði þá eftir fresti til að kynna sér gögnin og var það samþykkt
af lögmanni sóknaraðila. Málinu var þá frestað til munnlegs málflutnings til 4.
desember 2013. Málinu var frestað utan réttar til 22. janúar sl. Málið var
flutt munnlega þann dag og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til
gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði
vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst
varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Krafa
sóknaraðila byggir á viðskiptasamningi um reikningslánalínu, milli Landsbanka
Íslands hf. sem lánveitanda og varnaraðila sem lántaka, dags. 13. júní 2006,
sem er auðkenndur nr. 5174. Samkvæmt ákvæðum samningsins skuli bankinn hafa til
reiðu fyrir varnaraðila reikningslánalínu að fjárhæð 281 milljón króna og er
tekið fram að innan þeirra marka sé varnaraðila heimilt að taka lán hjá
bankanum í íslenskum krónum. Hver lánshluti sem varnaraðili taki innan
lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán og að
hámarkslánstími hvers lánshluta takmarkist af gildistíma þessa samnings.
Undirrituð lánsbeiðni varnaraðila skuli fylgja beiðni um einstaka lánshluta og
skuli berast bankanum fyrir kl. 13:30 þann dag sem lánshlutinn skuli greiðast
út. Nánar er kveðið á um það hvaða upplýsingar yrðu að koma fram í lánsbeiðni
og tekið fram að lánsbeiðni fylgi með sem fylgiskjal A. Þegar bankinn hafi
móttekið lánsbeiðni skuli hann samdægurs senda varnaraðila staðfestingu á
lántökunni þar sem framangreind atriði kæmu fram. Varnaraðili skuli gera
athugasemdir við staðfestingu bankans tafarlaust en geri hann engar
athugasemdir skuli hann undirrita staðfestingu bankans og endursenda með
símbréfi en senda frumrit í pósti. Kveðið er á um að heimilt sé að framlengja einstaka
lánshluta með sama hætti og gildir um lánsbeiðnir. Vaxtakjör skuli miðast við Reibor-vexti eins og þeir séu skráðir að morgni þess dags
sem lánið er greitt út, að viðbættu 2,75% álagi. Með Reibor-vöxtum
sé átt við vexti sem Seðlabanki Íslands skrái í samræmi við reglur um viðskipti
á millibankamarkaði í íslenskum krónum. Vextir reiknist frá útborgunardegi
hvers lánshluta og greiðist á gjalddaga eftir á. Hvern lánshluta skuli greiða
hjá bankanum á gjalddaga hans, en varnaraðila var þó heimilt að greiða einstaka
lánshluta upp fyrir gjalddaga þeirra. Jafnframt er kveðið á um þá skuldbindingu
varnaraðila að greiða lánið upp að fullu þegar hann hefði selt félagið Karl K.
Karlsson ehf. Til tryggingar greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum setti
varnaraðili bankanum að handveði hlutabréf í Lífsvali ehf. með útgáfu
handveðsyfirlýsingar nr. 0106-63-8126. Mælt var fyrir um heimild bankans til
þess að fella samninginn úr gildi og gjaldfella alla útistandandi lánshluta
samkvæmt honum með tilkynningu til varnaraðila að tilteknum skilyrðum
uppfylltum, m.a. ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta á einstaka lánshluta
vöruðu í 14 daga eða lengur. Tekið er fram að þótt bankinn kysi að hagnýta sér
ekki strax, að fullu eða að hluta, þann rétt sem hann hefði samkvæmt samningnum
takmarkaði það ekki heimild hans eða möguleika til að hagnýta sér þann rétt
síðar. Kveðið var á um gildistíma samningsins og skyldi hann taka gildi við
undirritun og gilda til 12. ágúst 2006. Einnig var mælt fyrir um heimild til
framlengingar um sex mánuði til viðbótar að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Í
málinu er lögð fram handveðsyfirlýsing nr. 0106-63-8432, dags. 11. apríl 2007.
Samkvæmt henni setti varnaraðili Landsbanka Íslands hf. að handveði hlutabréf í
Lífsvali ehf. að nafnvirði 157.263.042 krónur, til tryggingar greiðslu á öllum
skuldum varnaraðila við bankann.
Meðal
gagna málsins eru átta útfylltar lánsbeiðnir. Allar beiðnirnar eru á stöðluðu
formi sem er að mestu leyti samhljóða og sem hefur verið fyllt út annaðhvort
með handritun eða vélritun. Gert er ráð fyrir að fyllt sé út dagsetning
viðskiptasamnings, lántökudagur, mynt og upphæð, gjalddagi, vaxtakjör,
ráðstöfunarreikningur og skuldfærslureikningur. Þá er gert ráð fyrir að
lánsbeiðnin sé dagsett og undirrituð af varnaraðila og að starfsmaður bankans
staðfesti lántökuna og dagsetningu móttöku.
Elsta beiðnin er dags. 13. júní 2006 og er fyllt út með
handritun. Þar kemur fram að lántökudagur sé 15. júní 2006, mynt og upphæð sé
277.612.581 króna, gjalddagi sé 12. ágúst 2006 og vaxtakjör séu ,,R+2,75“.
Landsbanki Íslands tók við beiðninni 15. júní 2006 samkvæmt áritun starfsmanns.
Meðal gagna málsins er kaupnóta, dags. 15. júní 2006. Þar kemur fram að þann
dag hafi 277.612.581 króna verið greidd vegna láns nr. 5174. Næsta beiðni er
dags. 14. ágúst 2006 og er fyllt út með handritun. Handritunin er óljós en þar
virðist þó koma fram að lántökudagur sé 15. júní 2006, mynt og upphæð sé
284.467.193 krónur, gjalddagi sé 12. október 2006 og vaxtakjör séu ,,Reibor+2,75%“. Landsbanki Íslands tók við beiðninni 14.
ágúst 2006 samkvæmt áritun starfsmanns.
Viðauki var gerður við samninginn 21. ágúst 2006, þar sem
lánsheimild var aukin í 285 milljónir króna og gildistími framlengdur til 12.
október 2006. Nýr viðauki var gerður við samninginn og lánsheimild aukin í 298
milljónir en gildistími framlengdur til 12. desember 2006 en samkvæmt óljósri
handritun virðist viðaukinn gerður þann dag.
Þriðja beiðnin er dags. 12. desember 2006 og er fyllt út með
vélritun. Þar segir að lántökudagur sé 12. október 2006, mynt og upphæð sé
291.740.891 króna, gjalddagi sé 12. desember 2006 og vaxtakjör séu ,,Libor+2,75“. Landsbanki Íslands tók við beiðninni samkvæmt
áritun starfsmanns. Móttökudagurinn er handritaður óljóst en þar virðist standa
12. 12. Á beiðnina er handrituð svohljóðandi athugasemd: ,,Samn.
útrunnin [sic]
12. 12. 2006“.
Viðauki var gerður við samninginn í þriðja sinn 22. desember
2006 og lánsheimild aukin í 304 milljónir króna en gildistími framlengdur til
12. mars 2007.
Fjórða beiðnin er dags. 22. desember 2006 og er fyllt út með
handritun. Handritunin er óljós en þar virðist þó koma fram að lántökudagur sé
12. desember 2006, mynt og upphæð er einungis tilgreind sem ,,ISK“, gjalddagi
sé 12. mars en ártalið er ólæsilegt og vaxtakjör séu ,,Reibor+2,75%“.
Landsbanki Íslands tók við beiðninni 22. desember 2006 samkvæmt áritun
starfsmanns.
Fimmta beiðnin er fyllt út með óljósri handritun. Þar virðist
þó koma fram að beiðnin sé dagsett 12. mars án ártals, lántökudagur sé 12. mars
2007, mynt og upphæð sé 312.718.694, gjalddagi sé 21. júní 2007 og vaxtakjör
séu ,,Reibor+2,75%“. Landsbanki Íslands tók við
beiðninni samkvæmt ódagsettri áritun starfsmanns.
Meðal gagna málsins er viðauki við samninginn. Handrituð
dagsetning er óljós en virðist vera 29. júní 2007. Með viðaukanum var sú
breyting gerð á samningnum að lánsheimild var aukin í 328,1 milljón króna og
gildistími framlengdur til 25. september 2007.
Sjötta beiðnin er dags. 29. júní 2007 og fyllt út með
vélritun. Þar segir að lántökudagur sé 21. júní 2007, mynt og upphæð sé
328.095.067 krónur, gjalddagi sé 25. september 2007 og vaxtakjör séu ,,Reibor+2,75“. Landsbanki Íslands tók við beiðninni samkvæmt
áritun starfsmanns. Dagsetning móttöku er óljós en virðist vera 29. júní, án
ártals.
Meðal gagna málsins er viðauki við samninginn. Handrituð
dagsetning er óljós en sóknaraðili staðhæfir að viðaukinn sé gerður 27.
september 2007. Með viðaukanum var samningnum breytt á þann veg að lánsheimild
var aukin í 328,1 milljón króna. Lánsheimild var einnig breytt þannig að
varnaraðila væri heimilt að taka lán í íslenskum krónum svo og öllum algengum
erlendum gjaldmiðlum sem Landsbanki Íslands hf. ætti í viðskiptum með. Þá var
lánsbeiðni breytt þannig að undirrituð lánsbeiðni varnaraðila skyldi fylgja
beiðni um einstaka lánshluta og berast bankanum fyrir kl. 13:30 þann dag sem
lánshlutinn skyldi greiddur út, ef um væri að ræða lánshluta í íslenskum
krónum, en með tveggja bankadaga fyrirvara ef um væri að ræða erlendan
lánshluta. Hvern lánshluta skyldi greiða inn á reikning varnaraðila miðað við
kaupgengi hverrar myntar hjá bankanum tveimur bankadögum fyrir útborgunardag.
Ákvæði samningsins um vexti var breytt þannig að vaxtakjör lánshluta í erlendum
gjaldmiðlum væru LIBOR-vextir eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil
að viðbættu 2,75% álagi. Með LIBOR-vöxtum væri átt við vexti á
millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma
í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti
eins og þeir birtist á síðu 3750 á Dow Jones Telerate-skjá tveimur
virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil. Gildistími samningsins var jafnframt
framlengdur til 10. janúar 2008.
Sjöunda beiðnin er dags. 27. september 2007 og er fyllt út
með handritun. Handritunin er óljós en þar virðist þó koma fram að lántökudagur
sé 27. september 2007, mynt og upphæð er einungis tilgreind sem ,,CHF“,
gjalddagi sé 10. janúar 2008 og vaxtakjör séu ,,R-2+2,75%“. Landsbanki Íslands
tók við beiðninni 27. september samkvæmt áritun starfsmanns. Meðal gagna
málsins er kaupnóta, dags. 28. september 2007. Þar er vísað til láns nr. 5174
og þar kemur fram að varnaraðili hafi selt 6.198.452,30 svissneska franka á
genginu 52,7 fyrir 326.658.436 krónur. Fram kemur að sama fjárhæð hafi verið
greidd 25. september 2007 ,,vegna láns“.
Viðauki var gerður við samninginn 22. september 2008 og
lánsheimild aukin í 358 milljónir króna. Tekið er fram að samningurinn sé ,,að
fullu ádreginn“. Vaxtakjörum var breytt þannig að álag á Reibor-vexti
var hækkað í 2,95% og álag á LIBOR-vexti var hækkað í 4,5%. Loks var gildistími
framlengdur til 30. október 2008.
Áttunda beiðnin er dags. 22. september 2008 og er fyllt út
með handritun. Í beiðninni segir að lántökudagur sé 10. janúar 2008, mynt og
upphæð er einungis tilgreind sem ,,CHF höfuðst. + vxt. “, gjalddagi sé 30. október 2008 og vaxtakjör séu
,,L+4,5%“. Landsbanki Íslands tók við beiðninni 22. september samkvæmt áritun
starfsmanns. Meðal gagna málsins er kaupnóta, dags. 22. september 2008. Þar er
vísað til láns nr. 5174 og þar kemur fram að 10. janúar 2008 hafi verið
greiddir 6.300.409,30 svissneskir frankar ,,vegna láns“. Einnig er tekið fram
að þetta sé ,,Framlenging á höfuðstól og vöxtum“.
Að sögn varnaraðila var þessi viðskiptasamningur gerður að
frumkvæði Landsbanka Íslands hf. Um mitt ár 2006 hafi bankinn sóst eftir því að
eiga viðskipti við varnaraðila um afleiður, en varnaraðili kveðst á þeim tíma
hafa verið í viðskiptum við MP banka hf. Landsbanki Íslands hf. hafi verið
tilbúinn að lána varnaraðila fé til að greiða skuldir sínar við MP banka hf. Í
því skyni hafi Landsbanki Íslands hf. greitt MP banka hf. 277.512.581 krónu 13.
júní 2006 í samræmi við lánsbeiðni dags. sama dag. Í framhaldinu hafi
Landsbanki Íslands hf. og varnaraðili átt í viðskiptum með afleiður á
tímabilinu frá 13. júní 2006 þar til bankinn hrundi í október 2008. Varnaraðili
hafi tapað verulegum fjárhæðum á þessum viðskiptum og kveðst hafa verið dæmdur
til að greiða Landsbanka Íslands hf. samtals um 300 milljónir króna vegna
þessara viðskipta með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í fimm dómsmálum.
Hinn
9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að ráðstafa eignum og
skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem í dag
heitir Landsbankinn hf. Ákvörðunin var tekin með heimild í 100. gr. a í lögum
nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til
fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði
o.fl.
Meðal
gagna málsins er bréf sóknaraðila til varnaraðila, dags. 6. september 2011, þar
sem honum er tilkynnt um endurreikning á láni samkvæmt ofangreindum samningi.
Þar kemur fram að lánið kveði á um ólögmæta gengistryggingu og að í samræmi við
ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og þeim hafi verið
breytt í desember 2010, hafi eftirstöðvar lánsins verið endurreiknaðar ,,miðað
við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu
laga“. Endurreikningurinn miðist við 5. september 2011. Eftirstöðvar eftir
endurreikning eru tilgreindar sem 509.728.081 króna.
Í
janúar 2012 mun sóknaraðili hafa leyst til sín hin veðsettu hlutabréf
varnaraðila í Lífsvali ehf. Að sögn varnaraðila var félagið fasteignafélag og
starfsemi þess hafi falist í rekstri kúa- og sauðfjárbúa, landbúnaði og
fjárfestingu í landi. Félagið hafi samtals átt um 70.000 hektara lands.
Varnaraðila hafi hvorki verið tilkynnt yfirtakan né hafi hann fengið í hendur
uppgjör frá sóknaraðila vegna yfirtökunnar.
Hinn 6. desember 2012 sendi sóknaraðili varnaraðila
greiðsluáskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga
nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem var birt á lögheimili varnaraðila 8.
janúar 2013. Í áskoruninni sagði að krafa sóknaraðila byggði á
viðskiptasamningi um reikningslánalínu nr. 0106-36-5174, dags. 13. júní 2006,
að fjárhæð 281 milljón króna, ásamt viðaukum dags. 21. ágúst 2006, 10. desember
2006, 22. desember 2006, 17. mars 2007, 27. september 2007 og 22. september
2008. Krafan væri að höfuðstólsfjárhæð 468.215.243 krónur, ásamt dráttarvöxtum,
innheimtuþóknun og virðisaukaskatti. Skorað var á varnaraðila að greiða
skuldina eða lýsa því yfir skriflega innan 21 dags frá móttöku áskorunarinnar
að hann yrði fær um að greiða skuldina innan skamms tíma frá móttöku
áskorunarinnar. Þess væri einnig óskað að tiltekið yrði hvenær og hvernig
varnaraðila yrði kleift að greiða skuldina. Ella yrði krafist gjaldþrotaskipta
á búi varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Fyrir liggur að varnaraðili
svaraði ekki þessari áskorun.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að Landsbanki Íslands hf. og
varnaraðili hafi gert viðskiptasamning um reikningslánalínu 13. júní 2006, ekki
13. júní 2008, eins og missagt sé í beiðni sóknaraðila. Samkvæmt samningnum
hafi bankinn átt að hafa til reiðu lánalínu að fjárhæð 281 milljón króna.
Varnaraðili hafi samstundis óskað eftir láni að fjárhæð 277.612.581 króna.
Nokkrir viðaukar hafi verið gerðir við samninginn og fjárhæð hans hækkuð. Árið
2007 hafi samningnum verið breytt og hann víkkaður út til annarra gjaldmiðla.
Varnaraðili hafi í kjölfarið sótt um lán í svissneskum frönkum. Í síðasta
viðauka sé staðfest framlenging lánalínu og að samningur sé að fullu ádreginn.
Alltaf hafi verið um sama lán að ræða.
Við innlausn á hlutabréfum varnaraðila í Lífsvali ehf. hafi
verið greitt inn á kröfuna, þar af hafi um 40 milljónir króna verið greiddar
inn á höfuðstól skuldarinnar. Ekkert hafi verið greitt eftir gerð síðasta
viðaukans, nema fyrrnefnd innborgun. Lánið sé gengistryggt og hafi verið
endurreiknað af því tilefni. Lánið hafi því talist vera í skilum við
endurreikninginn og því teljist elsti ógreiddi gjalddagi vera 5. september
2011. Lánið verði ekki frekar endurreiknað, enda hafi engin festa komist á
endurgreiðslu lánsins.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á 5. tl.
2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur að hann
hafi sýnt fram á ógjaldfærni varnaraðila með þeim hætti sem ákvæðið áskilji.
Sóknaraðili hafi sent varnaraðila áskorun í samræmi við það lagaákvæði sem hafi
verið birt 8. janúar 2013. Varnaraðili hafi ekki svarað áskoruninni.
Í kröfu um gjaldþrotaskipti sundurliðar sóknaraðili kröfu
sína á svofelldan hátt:
|
Höfuðstóll |
468.215.243 krónur |
|
Dráttarvextir til 11. febrúar
2013 |
64.054.562 krónur |
|
Innheimtuþóknun |
500.000 krónur |
|
Gjaldþrotaskiptabeiðni |
5.000 krónur |
|
Réttargjöld vegna gjaldþrotaskiptabeiðni |
15.000 krónur |
|
Virðisaukaskattur |
127.500 krónur |
|
Samtals |
532.917.305 krónur |
Sóknaraðili
byggir á því að ekki geti verið vafi um að þau gögn sem fylgdu beiðni hans til
héraðsdóms um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta, uppfylli kröfur 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningur í þessu
máli geti því eingöngu snúist um það hvort varnaraðili geti afstýrt
gjaldþrotaskiptum með því að sýna fram á að sóknaraðili sé ekki kröfuhafi eða
að varnaraðili sé gjaldfær. Aðild sóknaraðila byggi á ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka
Íslands hf. til sóknaraðila. Aðild sóknaraðila sé óumdeild.
Varðandi málsástæður varnaraðila mótmælir sóknaraðili því að
ágallar séu á greiðsluáskorun. Í áskoruninni séu samningur aðila og viðaukar
við hann skýrt tilgreindir. Samningurinn myndi ramma utan um lánið. Sóknaraðili
eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila og ekki skipti máli þótt fjárhæð hennar sé
á reiki. Formkröfur til áskorunar samkvæmt 5. tl. 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 séu strangar, eins og Hæstiréttur Íslands hafi
staðfest. Áskorun sóknaraðila fylgi orðalagi ákvæðisins nákvæmlega. Þess gerist
ekki þörf að nefna tryggingar fyrir kröfunni, enda sé það varnaraðila að sanna
að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð.
Sóknaraðili telur kröfu sína ekki nægilega tryggða með
handveði í hlutabréfum varnaraðila í Lífsvali ehf. Varnaraðili hafi ekki
dómkvatt matsmann til þess að meta verðmæti hlutabréfanna. Þá hafi varnaraðili
ekki lagt fram nein gögn til að sýna fram á gjaldfærni sína.
Sóknaraðili hafnar því að krafa hans sé fyrnd. Þessi
málsástæða sé viðurkenning á því að sóknaraðili hafi átt lögmæta kröfu á hendur
varnaraðila. Þótt gjalddagi væri miðaður við október 2008 sé krafan ófyrnd. Um
samninginn gildi eldri lög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr.
14/1905. Krafa sóknaraðila sé um peningalán og slík krafa fyrnist á 10 árum.
Sóknaraðili hafi ekki sýnt af sér tómlæti og viðurkenning á tómlæti færi gegn
lögum nr. 14/1905. Óvissa hafi verið um þessa tegund lána og stefnur í slíkum
málum hafi ekki verið áritaðar.
Engin gögn séu lögð fram um afleiðuviðskipti varnaraðila og
þau viðskipti skipti engu máli. Ráðstöfun varnaraðila á lánsfénu skipti ekki
máli.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili
byggir í fyrsta lagi á því að krafa
sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65.
gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa sóknaraðila byggi á því að
varnaraðili hafi ekki orðið við áskorun hans um að lýsa því skriflega yfir að
hann væri fær um að greiða skuld við sóknaraðila samkvæmt „viðskiptasamning[i]
um reikningslánalínu nr. 0106-36-5174, að fjárhæð kr. 281.000.000, dags.
13.06.2006 ásamt viðaaukum 21.08.2006, 10.12.2006, 22.12.2006, 17.03.2007,
27.09.2007 og 22.09.2008.“ Þessi áskorun sé ómarkviss og ruglingsleg og geti af
þeim sökum ekki verið grundvöllur að gjaldþrotaskiptum samkvæmt fyrrnefndu
ákvæði. Hæstiréttur Íslands hafi vísað til þess að ákvæðið sé sérregla og því
verði að gera strangar kröfur til lánardrottins um að hann fullnægi skilyrðum
ákvæðisins til þess að krafa um gjaldþrotaskipti nái fram að ganga. Áskorun
verði því að tilgreina með skýrum hætti þá skuld sem skuldari þurfi að lýsa
yfir að hann sé fær um að greiða.
Áskorun
sóknaraðila byggi á þeim ranga skilningi að varnaraðili sé í skuld samkvæmt
„viðskiptasamning[i] um reikningslánalínu“.
Sá samningur beri það skýrlega með sér að hann geti ekki verið grundvöllur
að kröfu á hendur varnaraðila. Í samningnum sé í fyrsta lagi mælt fyrir um
heimild en ekki skyldu varnaraðila til að fá 281 milljón króna að láni frá
Landsbanka Íslands hf., sbr. greinar 2.1 og 2.2. Í öðru lagi hafi bankanum ekki
verið skylt að veita varnaraðila lán nema hann undirritaði og sendi bankanum
lánsbeiðni samkvæmt greinum 4.1 og 4.2. Í þriðja lagi segi í grein 3.1 að
„[h]ver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimilar reikningslánalínunnar
[sé] sjálfstætt lán“. Viðskiptasamningurinn geti því einn og sér ekki orðið
grundvöllur að kröfu á hendur varnaraðila, einungis þær lánsbeiðnir sem fylla
þurfi út.
Í
ljósi þess að áskorun sóknaraðila mælir fyrir um skuld varnaraðila samkvæmt
samningi sem geti ekki verið
grundvöllur að kröfu á hendur varnaraðila, sé ljóst að áskorunin geti ekki
verið grundvöllur að kröfu um gjaldþrotaskipti samkvæmt 2. tl.
5. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu
sóknaraðila.
Auk
þess sé fjárhæð kröfu sóknaraðila verulega vanreifuð. Í títtnefndum samningi
segi að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir varnaraðila „reikningslánalínu að
fjárhæð kr. 281.000.000“. Þessi heimild virðist hafa verið hækkuð með viðaukum,
dags. 21. ágúst 2006, 10. desember 2006, 22. desember 2006, 17. mars 2007, 27.
september 2007 og 22. september 2008 og að lokum orðið 358 milljónir króna.
Lánsheimild varnaraðila sé hins vegar ekki í samræmi við þær lánsbeiðnir sem
sóknaraðili leggi fram. Því sé vandséð hvernig höfuðstóll kröfu sóknaraðila
geti verið 468.215.243 krónur í áskorun sóknaraðila og dráttarvextir 64.054.562
krónur. Ekki verði séð að varnaraðili hafi fyllt út lánsbeiðni og óskað eftir
láni að höfuðstólsfjárhæð 468.215.243 krónur. Lánsbeiðnir varnaraðila geti
verið grundvöllur að meintri kröfu sóknaraðila á hendur honum. Fyrir liggi
lánsbeiðni dags. 29. júní 2007 að fjárhæð 328.095.067 krónur. Beiðnin sé ekki í
samræmi við viðskiptasamninginn og geti því ekki verið skuldbindandi fyrir
varnaraðila. Að þessu virtu fullnægi áskorun sóknaraðila ekki því skilyrði að
tilgreina með skýrum hætti þá skuld sem varnaraðili þurfi að lýsa yfir að hann
sé fær um að greiða. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Í
áskoruninni sé jafnframt ekkert fjallað um það að meintar kröfur sóknaraðila á
hendur varnaraðila virðist tryggðar með veðum miðað við innheimtubréf
sóknaraðila, dags. 14. desember 2009. Því sé ósannað að meint krafa sóknaraðila
sé ekki nægjanlega tryggð í skilningi 1. tl. 3. mgr.
65. gr. laga nr. 21/1991.
Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að
krafa sóknaraðila sé vanreifuð þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 7.
gr. laga nr. 21/1991. Beiðni sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum ákvæðisins um
að koma þurfi fram „svo skýrt sem verða má“ upplýsingar um „við hver atvik, rök
og lagaákvæði beiðnin eða krafan sé studd“ þar sem sóknaraðili fjalli hvorki um
það hvernig krafa hans á hendur varnaraðila hafi stofnast, né rökstyðji hvort
og þá hvenær hin meinta krafa hafi fallið í gjalddaga. Því sé útilokað fyrir
varnaraðila að grípa til fullnægjandi varna í málinu. Varnaraðili geti til
dæmis ekki sett fram málsástæður sem byggist á fyrningu þar sem gjalddagi
hinnar meintu kröfu sé ekki tilgreindur.
Í
beiðni sóknaraðila segi einungis að krafa um gjaldþrotaskipti á hendur
varnaraðila byggi á „viðskiptasamningi um reikningslínu nr. 0106-36-5174“,
dags. 13. júní 2008 milli varnaraðila og Landsbanka Íslands. Síðan segi að
bankinn hafi upphaflega samþykkt „... að hafa til reiðu reikningslánalínu að
fjárhæð kr. 281.000.000“. Sóknaraðili virðist horfa fram hjá því að
viðskiptasamningurinn geti einn og sér ekki verið grundvöllur að kröfu á hendur
varnaraðila. Ekki sé ljóst hvort og þá á hvaða lánsbeiðni krafa sóknaraðila
byggist. Gjalddagi kröfunnar sé til dæmis tilgreindur „5.9.2011“ en ekki verði
séð að sú dagsetning sé í samræmi við framlagðar lánsbeiðnir. Varnaraðili geti
því ómögulega séð hvaða atvik liggi að baki höfuðstól kröfu sóknaraðila. Loks
sé í beiðni sóknaraðila hvergi reifað að meint krafa hans sé tryggð með veði,
né heldur vikið að fullnustu þess. Skilyrði 1. tl. 3.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 sé því heldur ekki uppfyllt.
Varnaraðili
byggir í þriðja lagi á því að hann sé
ekki í skuld við sóknaraðila, þar sem krafa hans sé upp gerð. Sóknaraðili hafi
leyst til sín hlutabréf varnaraðila í Lífsvali ehf. til fullnustu á þeim kröfum
sem hann telji sig eiga á hendur varnaraðila. Varnaraðili hafi hvorki fengið
tilkynningu um umrædda yfirtöku né uppgjör frá sóknaraðila vegna þeirra
hlutabréfa sem voru í eigu varnaraðila en voru yfirtekin af sóknaraðila.
Verðmæti
hlutabréfa varnaraðila í Lífsvali ehf. hafi verið hærra en kröfur sóknaraðila á
hendur honum. Kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi því verið gerðar upp
þegar sóknaraðili leysti til sín hlutabréfin. Sóknaraðili beri sönnunarbyrðina
fyrir því að verðmæti hlutabréfanna hafi verið minna en kröfur sóknaraðila á
hendur varnaraðila, einkum í ljósi þess að sóknaraðili hafi ráðstafað
hlutabréfunum til Hamla ehf., dótturfélags sóknaraðila. Fram kom hjá lögmanni
varnaraðila við munnlegan flutning málsins að miðað við síðasta ársreikning
væri verðmæti eigin fjár varnaraðila í félaginu um 400 milljónir króna.
Í fjórða lagi byggir varnaraðili á því
að meint krafa sóknaraðila sé fyrnd samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um
fyrningu, hafi hún einhvern tímann stofnast. Upphafsdagur fyrningar sé 30.
október 2008, sbr. viðauka, dags. 22. september 2008, og því hafi krafan fallið
niður vegna fyrningar fjórum árum síðar, 30. október 2012. Krafa sóknaraðila
byggi ekki á peningaláni í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Hugtakið
„peningalán“ beri að skýra þröngt þar
sem það sé undantekning frá meginreglu 3. gr. laganna um fjögurra ára
fyrningarfrest. Í samningi aðila segi að Landsbanki Íslands hf. hafi samþykkt
að veita varnaraðila „rekstrarfjármögnun í formi reikningslínu“. Hugtakið
,,rekstrarfjármögnun“ hafi verið notað þar sem samningurinn hafi verið notaður
til að fjármagna afleiðuviðskipti varnaraðila við Landsbanka Íslands hf. Að því
virtu sé um annars konar fjármögnun að ræða en peningalán. Sá skilningur sé í
samræmi við athugasemdir við 5. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 150/2007.
Landsbanki Íslands hf. hafi engan reka gert að því að innheimta meinta kröfu
sína á hendur varnaraðila vegna þess að varnaraðili hafi tapað verulegum
fjárhæðum á því að kaupa afleiður af bankanum. Varnaraðili hafi engar greiðslur
fengið til sín samkvæmt viðskiptasamningnum. Greiðslunni hafi verið ráðstafað
til MP banka hf. til þess að varnaraðili gæti farið í afleiðuviðskipti við
Landsbanka Íslands hf.
Til
vara telur varnaraðili að meint krafa sóknaraðila á hendur honum sé fallin
niður vegna tómlætis. Sóknaraðili hafi engan reka gert að því í næstum fimm ár
að innheimta meinta kröfu sína á hendur varnaraðila. Að því virtu og í ljósi
þess að sóknaraðili hafi gengið að veðum í eigu varnaraðila hafi varnaraðili
ávallt verið í þeirri trú að umrædd krafa hafi verið gerð upp.
Til þrautavara byggir varnaraðili á því
að meint krafa sóknaraðila sé nægjanlega tryggð með veðum þegar höfuðstóll
meintrar kröfu hafi verið leiðréttur og tekið mið af markaðsvirði hlutabréfa
varnaraðila í Lífsvali ehf. Í innheimtubréfi sóknaraðila, dags. 14. desember
2009, segi að til tryggingar á viðskiptasamningnum séu fjórir veðsamningar: 1)
Veðsamningur, útg. 20. janúar 2006, um veð í einkahlutafélaginu Lífsvali ehf.
að nafnvirði 3.100.000 krónur, 2) veðsamningur, útg. 10. mars 2008, um veð í
einkahlutafélaginu Hverlandi ehf., kt. 460405-1060,
að nafnvirði 10 milljónir króna, 3) veðsamningur, útg. 21. september 2008, um
veð í einkahlutafélaginu Karli K. Karlssyni ehf., kt.
601289-1489, og 4) veðsamningur, útg. 13. júní 2006, um veð í
einkahlutafélaginu Lífsvali ehf. að nafnvirði 2.325.000 krónur. Sóknaraðili
beri sönnunarbyrðina fyrir því að meint krafa hans sé ekki nægilega tryggð með
þessum veðum.
Málskostnaðarkrafa
varnaraðila byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2.
mgr. 178.gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða
Varnaraðili krefst þess aðallega að þessu máli verði vísað
frá dómi. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er rakið
hvað þurfi að koma fram í beiðni um gjaldþrotaskipti eða fylgigögnum með henni.
Varnaraðili byggir á því að beiðni sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 3. tl., þar sem sóknaraðili fjalli ekki um þau atvik sem krafa
sóknaraðila byggi á. Í beiðninni kemur skýrt fram að sóknaraðili telji
varnaraðila skulda sér þá fjárhæð sem þar er rakin og er sundurliðuð með þeim
hætti sem fyrr greinir. Þá kemur fram að krafan sé samkvæmt viðskiptasamningi
um reikningslánalínu milli Landsbanka Íslands hf. og varnaraðila sem lántaka,
ásamt síðari viðaukum við samninginn. Þá er útskýrt á hvaða grundvelli
sóknaraðili hafi tekið við aðild að samningnum frá Landsbanka Íslands hf. Þá er
auðkennisnúmers samningsins getið, sem og dagsetningar. Ljósrit af samningnum,
viðaukum við hann, lánsbeiðnum og greiðsluáskorun með birtingarvottorði eru
fylgigögn með beiðninni. Að mati dómsins er málatilbúnaður sóknaraðila því
nægilega skýr til þess að varnaraðili geti áttað sig á grundvelli kröfu
sóknaraðila og tekið afstöðu til hennar. Ekki skiptir máli þótt dagsetning
samningsins hafi verið röng í beiðni sóknaraðila, enda sést á samanburði við
fylgigögn með beiðninni að um augljósa villu er að ræða. Aðrar málsástæður
varnaraðila varða efni málsins og myndu valda því að kröfu sóknaraðila yrði
hafnað, verði á þær fallist, en ekki vísað frá dómi. Kröfu varnaraðila um frávísun
málsins er því hafnað.
Landsbanki Íslands hf. og varnaraðili gerðu með sér
viðskiptasamning um reikningslánalínu, dags. 13. júní 2006. Ágreiningslaust er
að sóknaraðili hefur tekið við aðild að samningnum á grundvelli ákvörðunar
Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Samkvæmt efni samningsins stofnaði hann
ekki sjálfstætt til skuldbindingar varnaraðila, heldur veitti honum heimild til
að taka lán hjá bankanum innan marka þeirrar fjárhæðar sem þar var tilgreind,
281 milljónar króna. Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðili í kjölfarið lán að
fjárhæð 277.612.581 króna með lánsbeiðni, dags. sama dag, sem var greitt út 15.
júní 2006. Síðan þá hafa Landsbanki Íslands hf. og varnaraðili gert nokkra
viðauka við samninginn. Í greiðsluáskorun sóknaraðila er vísað til viðauka,
dags. 17. mars 2007, en slíkur viðauki er ekki lagður fram. Hins vegar er
lagður fram viðauki, dags. 29. júní 2007, sem er ekki talinn upp í
greiðsluáskoruninni.
Þegar litið er til lánsbeiðni varnaraðila, dags. 27.
september 2007 og kaupnótu, dags. 28. september 2007, verður ekki betur séð en
að sóknaraðili hafi sótt um lán í svissneskum frönkum og fengið greiddar út
326.658.436 krónur 25. september 2007. Sú fjárhæð rúmaðist innan samningsins
eins og honum var breytt með viðauka sem ekki virðist deilt um að hafi verið
gerður 27. september 2007. Verður ekki betur séð en að með þessu hafi
varnaraðili greitt upp eldri lánshluta. Vöntun á viðauka, dags. 17. mars 2007,
getur því ekki skipt máli. Þegar litið er til lánsbeiðni varnaraðila og
kaupnótu, sem eru bæði dags. 22. september 2008, virðist sem lánið hafi verið
framlengt með 6.300.409,30 svissneskum frönkum. Miðað við framlagt yfirliti
yfir gengi gjaldmiðla þann dag nam sú fjárhæð 357.296.211,4 krónum. Sú fjárhæð
rúmaðist innan samningsins, eins og honum var breytt með viðauka, dags. 22.
september 2008. Með vísan til greinar 3.1 í samningnum verður þó ekki betur séð
en að varnaraðili hafi tekið sjálfstætt lán með lánsbeiðninni frá 22. september
2008.
Ekki virðist um það deilt að umrætt lán hafi verið
gengistryggt miðað við gengi svissnesks franka og hefur sóknaraðili
endurreiknað lánið. Endurreikningur sóknaraðila er dagsettur 6. september 2011
og samkvæmt honum nam lánið 509.728.081 krónu, miðað við 5. september 2011.
Varnaraðili byggir á því að skuld hans við sóknaraðila hafi
verið greidd með innlausn sóknaraðila á hlutabréfum varnaraðila í Lífsvali ehf.
Ekki liggja fyrir gögn um innlausnina en fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við
munnlegan flutning málsins að um 40 milljónir króna hefðu verið greiddar inn á
höfuðstól skuldarinnar. Varnaraðili hefur ekki hnekkt endurreikningi
sóknaraðila á umræddu láni. Þótt fullyrðing varnaraðila um 400 milljóna króna
verðmæti hlutafjár hans yrði lögð til grundvallar er ljóst að krafa sóknaraðila
er hærri en sem nemur verðmætinu. Krafan hefur því ekki verið greidd með
innlausninni.
Þar sem varnaraðili tók sjálfstætt lán með lánsbeiðninni 22.
september 2008 verður að fallast á það með honum að núgildandi lög nr. 150/2007
um fyrningu kröfuréttinda gildi um fyrningu kröfu sóknaraðila en ekki eldri lög
nr. 14/1905. Varnaraðili tók peninga að láni og fyrnist slík krafa á tíu árum,
sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Skiptir engu máli í hvaða tilgangi féð
var lánað eða hvort því hafi verið ráðstafað til greiðslu á skuldum við þriðja
mann. Samkvæmt lánsbeiðni, dags. 22. september 2008, var gjalddagi lánsins 30.
október 2008 og miðast fyrningarfrestur við það, sbr. 2. gr. sömu laga. Er
krafan því ekki fyrnd.
Sóknaraðili endurreiknaði kröfu sína í september 2011. Ekki
er hægt að líta á það sem tómlæti að hann hafi ekki innheimt kröfuna fyrir þann
tíma. Þá gekk sóknaraðili að hinum veðsettu hlutabréfum í janúar 2012, sendi
varnaraðila greiðsluáskorun sem var dagsett 6. desember 2012 og birt honum 8.
janúar 2013 og krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila var
móttekin 12. febrúar 2013. Verður því ekki séð að sóknaraðili hafi sýnt af sér
tómlæti í innheimtu kröfu sinnar.
Fram er komið að sóknaraðili sendi varnaraðila áskorun
samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. og hefur efni hennar verið lýst. Áskorunin var birt 8.
janúar 2013 og óumdeilt er að varnaraðili svaraði henni ekki. Ákvæði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 geymir sérreglu sem
beinist að því að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi
skuldara. Þessi regla hefur því verið túlkuð þannig að gera verði strangar
kröfur til lánardrottins um að hann fullnægi þeim skilyrðum sem lagaákvæðið
mælir fyrir um til þess að krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi skuldara verði
tekin til greina, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 9. desember 2011 í máli nr.
632/2011 og 19. desember 2011 í máli nr. 643/2011.
Í greiðsluáskorun sóknaraðila er vísað til umrædds samnings
aðila og viðauka við hann, en ekki til lánsbeiðni varnaraðila frá 22. september
2008, þrátt fyrir að hver lánshluti teljist vera sjálfstætt lán samkvæmt
fyrrnefndri grein 3.1 í samningnum. Í áskoruninni er þó tekið fram að krafan sé
samkvæmt viðskiptasamningi um reikningslánalínu, númer samningsins er tilgreint
og taldir upp viðaukar við hana, þ. á m. sá viðauki sem síðast var gerður við
samninginn. Þótt fallast megi á það með varnaraðila að umræddur samningur ásamt
viðaukum við hann og lánsbeiðnum sé grundvöllur að kröfu sóknaraðila, þykir
sóknaraðili þó með þessari lýsingu hafa lýst kröfu sinni nægilega vel til þess
að varnaraðili geti áttað sig á grundvelli hennar. Þá er fjárkrafa sóknaraðila
sundurliðuð og kemur skýrt fram hvernig hún skiptist í höfuðstól, dráttarvexti,
innheimtuþóknun og virðisaukaskatt. Það er ekki skilyrði samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að í greiðsluáskorun
sé gerð grein fyrir mögulegum tryggingum. Er því ekki á það fallist að
áskoruninni sé ábótavant. Varnaraðili svaraði ekki áskorun sóknaraðila.
Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður
bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé
allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla
í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Varnaraðili hefur enga grein gert
fyrir eignum sínum. Varnaraðili hefur því ekki fært sönnur á að hann sé
gjaldfær. Eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt
fyrir því að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila.
Í
ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili
greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Ásbjörn
Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna
dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest
samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning
óþarfan.
Úrskurðarorð:
Bú
varnaraðila, Ingvars Jónadabs Karlssonar, er tekið
til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili
greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 150.000 krónur í málskostnað.
Ásbjörn
Jónasson
Dómari skipar Guðjón
Ármann Jónsson hæstaréttarlögmann skiptastjóra í þrotabúinu.