Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Útivist
- Sératkvæði
|
Þriðjudaginn 8. mars 2011. |
|
|
Nr. 31/2011. |
NBI hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Rósu ehf. Bryndísi Arnardóttur og Grími Arnarsyni (enginn) |
Kærumál. Útivist. Sératkvæði.
N hf. krafði R ehf., B og G um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva samkvæmt lánssamningi þeirra í millum ásamt vöxtum og reisti kröfu sína á því að skuldbinding R ehf., B og G hefði verið ákveðin í erlendum myntum. Útivist varð af hálfu R ehf., B og G í héraði og var málið tekið til dóms í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að skuldbinding R ehf., B og G væri ákveðin í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og skorti kröfuna því lagastoð. Krafa N hf. væri ekki reifuð með tilliti til þess að skuldbinding R ehf., B og G væri í íslenskum krónum og var málinu því vísað frá dómi sökum vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Við þingfestingu máls þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. janúar 2010 var ekki sótt þing af hálfu varnaraðila. Málið var því tekið til dóms á þingfestingardegi í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þrátt fyrir útivist varnaraðila bar héraðsdómara að kanna hvort lagastoð væri fyrir kröfu sóknaraðila og kemur það því til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum, málsástæðum og lagarökum málsins er nægilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir tók varnaraðili Rósa ehf. lán hjá forvera sóknaraðila 31. október 2007. Sóknaraðili krefst greiðslu úr hendi varnaraðilans Rósu ehf. og varnaraðilanna Bryndísar Arnardóttur og Gríms Arnarsonar, sem gengust í sjálfskuldarábyrgð á láninu, á gjaldföllnum eftirstöðum samkvæmt lánssamningnum ásamt vöxtum og reisir kröfu sína á því að skuldbinding varnaraðila hafi verið ákveðin í erlendum myntum. Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitenda og lántaka, er laut að því hvort skuldbinding lántaka gagnvart lánveitendum væri ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum, þar sem deiluefnið var um höfuðstól skulda svonefndra bílalána. Niðurstaðan varð þar sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls skuldabréfanna við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt. Með dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var leyst úr því álitaefni hvernig færi um vexti að fenginni niðurstöðu um að tenging lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt, en samkvæmt dóminum skulu þá greiddir vextir jafnháir þeim, sem Seðlabanki Íslands ákveður af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Með dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 var skorið úr hliðstæðu álitaefni og til úrlausnar var í málum réttarins nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, þar sem komist var að sambærilegri niðurstöðu um lánssamninga til fasteignakaupa. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að lánssamningur forvera sóknaraðila og varnaraðilans Rósu ehf. 31. október 2007 sé um skuldbindingu í íslenskum krónum sem verðtryggð sé með því að binda hana við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt því skortir lagastoð fyrir kröfu sóknaraðila.
Með vísan til áðurnefndra dóma Hæstaréttar á sóknaraðili engu að síður enn kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli lánssamningsins, sem aðilar gerðu með sér síðla árs 2007. Er krafa hans þar að lútandi ekki niður fallin. Krafa sóknaraðila er á hinn bóginn ekki reifuð með tilliti til þessa. Að því athuguðu sem að framan greinir en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. janúar 2010. Ekki var mætt af hálfu varnaraðila, sem þó var löglega stefnt. Málið var því tekið til dóms á þingfestingardegi í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bar að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila „að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu“, eins og þetta er orðað í 1. mgr. 96. gr. laganna.
Við túlkun á nefndu lagaákvæði verður að hafa í huga þá meginreglu réttarfars í einkamálum, að málsaðilar hafa forræði á kröfum sínum og málsástæðum, sbr. til dæmis 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Engir gallar voru á málssókn sóknaraðila, stefnukröfur voru skýrar, gögn voru lögð fram þeim til stuðnings og tilgreindar voru málsástæður og lagarök, allt eftir þeim fyrirmælum sem 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 hefur að geyma. Ef varnaraðili hefði mætt á dómþing og samþykkt kröfur sóknaraðila hefði dómur gengið á hendur honum í samræmi við þær, sbr. 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Meginreglan hlýtur að vera sú að staða þess stefnda verði ekki betri við að mæta alls ekki, þrátt fyrir að hafa verið réttilega stefnt. Verður að mínum dómi að hafa þetta í huga við skýringu á 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 og svo einnig hitt að samkvæmt XXIII. kafla laganna er unnt að beiðast endurupptöku máls sem dómur hefur gengið í án þess að stefndi hafi mætt og haldið uppi vörnum eða þingsókn hans fallið niður áður en málið var tekið til dóms.
Í forsendum hins kærða úrskurðar er talið að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla og jafnframt að ekki verði samið um undantekningar frá þessu. Ekki verður fallist á svo fortakslausar ályktanir af þessum dómum Hæstaréttar. Til dæmis er í 2. gr. laga nr. 38/2001 gert ráð fyrir að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Á þessa undantekningarreglu reyndi ekki í nefndum dómsmálum þar sem ekki var á henni byggt. Ef varnaraðili hefði mætt í málinu sem hér er til úrlausnar og haldið uppi þeirri málsvörn, að gengistrygging lánsins sem sóknaraðili krefst greiðslu á í málinu væri ekki skuldbindandi, hefði sóknaraðili hugsanlega svarað þeirri málsvörn með tilvísun til 2. gr. laganna, en skuldabréfið sem um er deilt í þessu máli var aðeins til fimm ára. Skuldabréfin sem um var fjallað í dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603 og 604/2010 voru til mun lengri tíma eða 20 til 40 ára og hefur því úrlausn í þeim málum varðandi túlkun á 2. gr. laga nr. 38/2001 takmarkað fordæmisgildi fyrir skuldabréfið sem um ræðir í þessu máli. Úrslit málsins að því er þetta snertir hefðu því ráðist af gagnaöflun og málflutningi aðila um þetta atriði.
Það er ekki hlutverk dómstóla að taka til efnislegra varna fyrir stefnda gegn kröfu, heldur ber þeim aðeins að gæta að því að kröfur séu samrýmanlegar framkomnum gögnum og athuga hvort formkröfum laganna hafi verið fylgt við málssókn. Ég tel að farið hafi verið út fyrir þessi mörk í hinum kærða úrskurði. Beri því að fella hann úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar og dómsálagningar.
Kærumálskostnaður ætti að mínum dómi að falla niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2010.
Þetta mál, sem var dómtekið 26. janúar sl., er höfðað af NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 2. desember 2009 á hendur Rósu ehf., kt. 581007-0350, og Bryndísi Arnardóttur, kt. 110560-3709, báðum til heimilis að Sílatjörn 13, Selfossi, og á hendur Grími Arnarsyni, kt. 060466-4599, Lóurima 18, Selfossi.
Dómkröfur: Þess er krafist að stefndu verði dæmd in solidum (óskipt) til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 41.447.806 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 sbr. 1. mgr. 6 gr. sömu laga af 94.500 krónum frá 15. desember 2008 til 15. janúar 2009, af 206.882 krónum frá 15. janúar 2009 til 16. febrúar 2009, af 449.216 krónum frá 16. febrúar 2009 til 16. mars 2009, af 668.988 krónum frá 16. mars 2009 til 15. apríl 2009, af 920.313 krónum frá 15. apríl 2009 til 15. maí 2009, af 1.174.842 krónum frá 15. maí 2009 til 15. júní 2009, af 1.432.964 krónum frá 15. júní 2009 til 15. júlí 2009, af 1.693.420 krónum frá 15. júlí 2009 til 17. ágúst 2009, af 1.963.679 krónum frá 17. ágúst 2009 til 15. september 2009, af 2.221.991 krónu frá 15. september 2009 til 15. október 2009, af 2.483.243 krónum frá 15. október 2009 til 3. nóvember 2009 og af 41.447.806 krónum frá 3. nóvember 2009 til greiðsludags gagnvart stefnda Rósu ehf., en með dráttarvöxtum af 2.483.243 krónum frá 15. október 2009 til 3. nóvember 2009 og af 41.447.806 krónum frá 3. nóvember 2009 til greiðsludags gagnvart stefndu Grími Arnarsyni og Bryndísi Arnardóttur. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Málsatvik og málsástæður: Að sögn stefnanda gerðu Landsbanki Íslands hf. og stefndi Rósa ehf. þann 31. október 2007 með sér lánssamning nr. 9914. Lánið hafi upphaflega verið að jafnvirði 16.400.000 krónur, helmingur í svissneskum frönkum og helmingur í japönskum jenum. Umsaminn lánstími var 5 ár og skyldi lánið greiðast að fullu með 60 afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum hverjum um sig skyldi greiðast 1/240 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga 15. janúar 2013 skyldi greiða 181/240 hluti lánsupphæðarinnar. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi verið 15. febrúar 2008.
Samið var um breytilega vexti, jafnháa LIBOR-vöxtum (London Inter Bank Offered Rate) í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,50% vaxtaálags. Stefnandi kveður LIBOR-vexti vera vexti á millibankamarkaði í London, eins og þeir séu auglýstir kl. 11:00 fyrir hádegi að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtist á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá, tveimur virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil. Komi viðkomandi gjaldmiðill ekki almennt fram í vaxtatöflu BBA, skuli vextir taka mið af öðrum vöxtum á millibankamarkaði eða gjaldmiðlaskiptamarkaði sem stefnandi gefi upp hverju sinni. Skyldu vextir reiknast frá útborgunardegi og greiðast eftir á á gjalddögum, á eins mánaðar fresti út lánstímann. Við vaxtaútreikning skyldi taka mið af þeim vaxtareglum er varði dagafjölda sem sé í gildi á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma.
Skilyrði fyrir útborgun lánsins hafi verið að stefnanda bærist skrifleg beiðni um útborgun, sbr. viðauka I við lánssamninginn. Slík beiðni hafi borist bankanum 31. október 2007 og hafi lánið verið greitt út samkvæmt henni og ákvæðum samningsins. Við útborgun hafi verið dregið 0,50% lántökugjald af heildarlánsfjárhæðinni, sbr. grein 6.1. samningsins og 10.000 króna kostnaður vegna skjalagerðar, sbr. grein 6.2. samningsins. Hinn 7. nóvember 2007 hafi því 16.308.200 krónur verið lagðar inn á reikning stefnda Rósu ehf.
Stefnandi segir lánið sundurliðast á eftirfarandi hátt:
Svissneskir frankar að upphæð 159.355,47 á genginu 51,20 eða 8.159.000 krónur. Vextir hafi verið 5,250% LIBOR-vextir auk 2,50% álags og fyrsta vaxtatímabilið hafi verið frá 7. nóvember 2007 til 15. febrúar 2008.
Japönsk jen að upphæð 15.824.282 á genginu 0,51560 eða 8.159.000 krónur. Vextir hafi verið 3,373750% LIBOR-vextir auk 2,50% álags og fyrsta vaxtatímabilið hafi verið frá 7. nóvember 2007 til 15. febrúar 2008.
Eftirstöðvar lánsins þann 15. ágúst 2008 hafi verið 15.439.940 japönsk jen og 155.485,03 svissneskir frankar. Að auki hafi verið ógreiddur gjalddagi lánsins 15. ágúst 2008 að upphæð 108.861 japönsk jen og 1.313,64 svissneskir frankar, sem greiða skyldi við undirritun viðauka dagsetts 27. ágúst 2008. Samkvæmt viðaukanum hafi stefnandi og lántaki orðið ásáttir um að breyta lánssamningnum þannig að eftirstöðvar lánsins skyldi greiða að fullu með 48 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 47 gjalddögunum, hverjum um sig, skyldi greiðast 1/228 hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga þann 15. janúar 2013 skyldi greiðast 181/228 hluti lánsupphæðarinnar. Vexti hafi hins vegar borið að greiða á eins mánaðar fresti út lánstímann, næst þann 15. september 2008. Næsti gjalddagi afborgunar skyldi vera þann 15. febrúar 2009. Vextir skyldu reiknast frá 15. ágúst 2008.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum, sbr. 10. grein samningsins, hafi stefndu Grímur Arnarson og Bryndís Arnardóttir tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum (sameiginlega) á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt samningnum. Sjálfskuldarábyrgðin taki til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar, sem af vanskilum kunni að leiða.
Í 11. gr. lánssamningsins sé uppsagnarákvæði samningsins. Þar sé gjaldfellingarákvæði sem heimili stefnanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að fella lán samkvæmt samningnum í gjalddaga einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Þessi heimild sé meðal annars til staðar hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta varað í 14 daga eða lengur, sbr. a-lið greinar 11.1. samningsins. Elsti ógreiddi gjalddagi sé 15. desember 2008 og hafi stefnandi nýtt sér framangreinda heimild 11. greinar samningsins og fellt allt lánið í gjalddaga.
Eftirstöðvar höfuðstóls lánsins, er það hafi allt verið gjaldfellt þann 3. nóvember 2009, hafi verið 19.400.345 krónur vegna svissneskra franka og 22.047.460 krónur vegna japanskra jena, eða samtals 41.447.806 krónur sem sé stefnufjárhæðin. Sundurliðist mynt og gengi eftir gjalddögum sem hér segir:
Þann 15. desember 2008: JPY að upphæð 39.719 á genginu 1,2668 eða jafnvirði 50.316 króna; CHF að upphæð 446.44 á genginu 98,97 eða jafnvirði 44.184 króna.
Þann 15. janúar 2009: JPY að upphæð 45.653 á genginu 1,4548 eða jafnvirði 66.416 króna; CHF að upphæð 398,32 á genginu 115,40 eða jafnvirði 45.966 króna.
Þann 16. febrúar 2009: JPY að upphæð 109.184 á genginu 1,2504 eða jafnvirði 136.524 króna; CHF að upphæð 1.070,09 á genginu 98,88 eða jafnvirði 105.810 króna.
Þann 16. mars 2009: JPY að upphæð 102.048 á genginu 1,1756 eða jafnvirði 119.968 króna; CHF að upphæð 1.020,28 á genginu 97,82 eða jafnvirði 99.804 króna.
Þann 15. apríl 2009: JPY að upphæð 105.773 á genginu 1,2831 eða jafnvirði 135.717 króna; CHF að upphæð 1.038,15 á genginu 111,36 eða jafnvirði 115.608 króna.
Þann 15. maí 2009: JPY að upphæð 104.200 á genginu 1,325 eða jafnvirði 138,065 króna; CHF að upphæð 1.031,02 á genginu 112,96 eða jafnvirði 116.464 króna.
Þann 15. júní 2009: JPY að upphæð 103.803 á genginu 1,3116 eða jafnvirði 136.148 króna; CHF að upphæð 1.037,55 á genginu 117,56 eða jafnvirði 121.974 króna.
Þann 15. júlí 2009: JPY að upphæð 102.153 á genginu 1,3582 eða jafnvirði 138.744 króna; CHF að upphæð 1.023,91 á genginu 118,87 eða jafnvirði 121.712 króna.
Þann 17. ágúst 2009: JPY að upphæð 105.212 á genginu 1,3695 eða jafnvirði 144.088 króna; CHF að upphæð 1.053,53 á genginu 119,76 eða jafnvirði 126.171 króna.
Þann 15. september 2009: JPY að upphæð 100.300 á genginu 1,3709 eða jafnvirði 137.501 króna; CHF að upphæð 1.004,50 á genginu 120,27 eða jafnvirði 120.811 króna.
Þann 15. október 2009: JPY að upphæð 100.992 á genginu 1,3688 eða jafnvirði 138.238 króna; CHF að upphæð 1.008,06 á genginu 122,03 eða jafnvirði 123.014 króna.
Þann 3. nóvember 2009: JPY að upphæð 14.851.338 á genginu 1,3942 eða jafnvirði 20.705.735 króna; CHF að upphæð 149.552,20 á genginu 122,09 eða jafnvirði 18.258.828 króna.
Stefndu hafi verið send innheimtubréf þann 15. september 2009. Ekki sé krafist dráttarvaxta úr hendi ábyrgðarmanna fyrr en að liðnum mánuði frá dagsetningu innheimtubréfa og sé því krafist dráttarvaxta úr hendi sjálfskuldarábyrgðaraðila frá 15. október 2009. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Um samninginn gildi íslensk lög og skuli mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila, rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 16. grein samningsins. Aðild NBI hf. skýrist af því að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi 9. október 2008, með heimildi í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárfestingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. ákveðið að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, sem nú heiti NBI hf.
Lagarök: Stefnandi byggir á meginreglum kröfu- og samningaréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með taldir vaxtavextir, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6 gr. og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 35. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða: Af hálfu stefndu hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er þeim þó löglega stefnt. Ber þá eftir 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varði frávísun þess án kröfu.
Málshöfðun stefnanda byggir á lánssamningi dags. 31. október 2007, milli Landsbanka Íslands hf., sem lánveitanda, og stefnda Rósu ehf. sem lántaka og stefndu Gríms Arnarsonar og Bryndísar Arnardóttur sem sjálfskuldarábyrgðarmanna, auk viðauka við lánssamninginn, frá 27. ágúst 2008. Samkvæmt gögnum málsins yfirtók stefnandi kröfuna 9. október 2008 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Í lánssamningnum kemur fram í upphafi að Landsbanki Íslands hf. og stefndi Rósa ehf. geri með sér „lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 16.400.000 í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50%.“. Tekið er fram að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins og verði skuldin þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Í beiðni um útborgun samkvæmt samningnum er tekið fram að útborgunarfjárhæð skuli lögð inn á reikning nr. 0152-26-105712 og að lántaki heimili Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt samningnum af reikningi lántaka nr. 0152-26-706. Í ákvæði 2.2. lánasamningsins er einnig kveðið á um að lántaki óski eftir því að reikningur hans nr. 0152-26-706 verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum. Í ákvæði 3.1. lánasamningsins er kveðið á um að lántaki skuli greiða bankanum vexti sem skuli vera „breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum “. Fjallað er um LIBOR-vexti, sem áður hefur verið lýst, í grein 3.2. Í grein 11.1. er talið upp við hvaða skilyrði Landsbanka Íslands hf. sé heimilt að gjaldfella lánið og í grein 11.2. er tekið fram að verði samningurinn gjaldfelldur á grundvelli greinar 11.1. sé „bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga/uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti samanstendur af og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samnings þessa.“.
Í kaupnótu, dagsettri 7. nóvember 2007, kemur fram að stefndi Rósa ehf. hafi selt tilgreindar fjárhæðir í japönskum jenum og svissneskum frönkum og að lagðar hafi verið 16.308.000 krónur inn á reikning nr. 0152-26-974900.
Af greiðsluyfirliti yfir lánið má ráða að stefnandi hafi reiknað út fjárhæð hverrar afborgunar í japönskum jenum og svissneskum frönkum og reiknað yfir í íslenskar krónur, miðað við gengi þessara gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni eins og það var á hverjum gjalddaga, og krafið stefnda Rósu ehf. um greiðslu í íslenskum krónum.
Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 reyndi á það hvort samningur væri um skuldbindingu í erlendri mynt eða í íslenskum krónum og jafnframt hvort gengistrygging, væri um hana að ræða, væri heimil samkvæmt ákvæðum 6. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Niðurstaða Hæstaréttar, sem var samhljóða í báðum málunum, var sú að þeir samningar sem þar reyndi á væru lánasamningar um skuldbindingu í íslenskum krónum og að lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var fjallað um það hvort og þá hvaða áhrif niðurstaða Hæstaréttar í framangreindum málum hefði á vexti af láni aðila, sem var veitt samkvæmt samningi hliðstæðum þeim sem fjallað var um í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Niðurstaða dómsins var sú að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis um gengistryggingu og ákvæðis um LIBOR-vexti, þannig að óhjákvæmilegt væri að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Atvik málsins svöruðu því til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru og skyldu þeir þá, samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.
Ákvæðum lánasamningsins um lánsfjárhæð er lýst hér að framan. Af þeim verður ekki ótvírætt ráðið hvort samningur aðila sé í svissneskum frönkum og japönskum jenum, eða hvort lánið sé í íslenskum krónum og þá gengistryggt miðað við gengi íslenskrar krónu gagnvart þessum gjaldmiðlum. Orðalag samningsins um „fjölmyntalán“ í „CHF 50% JPY 50%“ gefur til kynna að lánið sé í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Ákvæði samningsins um að skuldin verði eftir útborgunardag lánsins tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum benda einnig til þess. Sama gildir um ákvæði samningsins um að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að fjárhæð lánsins er skýrt tilgreind í íslenskum krónum og kemur fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla hvergi fram í samningi aðila. Þá kemur skýrt fram í beiðni um útborgun lánsins og kaupnótu að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum. Af ákvæði 2.2. lánssamningsins og beiðni um útborgun lánsins verður heldur ekki annað ráðið en að stefndi Rósa ehf. hafi átt að greiða afborganir og vexti í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að stefndi hafi ekki fengið lán í erlendum myntum heldur í íslenskum krónum. Að mati dómsins er skuldbinding stefndu samkvæmt samningnum því ótvírætt í íslenskum krónum. Af framangreindu ákvæði samningsins um að greiðslur í íslenskum krónum skuli greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga verður einnig ráðið að upphæð samningsins sé gengistryggð miðað við gengi svissnesks franka og japansks jens. Hefði ætlun stefnanda verið sú að lána stefnda svissneska franka og japönsk jen hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir þessara gjaldmiðla í samningi aðila og greiða hinar erlendu fjárhæðir út.
Í framangreindum dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 er komist að þeirri niðurstöðu að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla og jafnframt að ekki verði samið um undantekningar frá þessu. Sá samningur sem hér er til umfjöllunar tengir endurgreiðslur lánsfjárhæðarinnar við gengi erlendra gjaldmiðla. Með vísan til áður nefndra dóma Hæstaréttar verður að telja gengistryggingarákvæði hans ólögmætt.
Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 var því slegið föstu að slík tengsl væru milli ógilds ákvæðis um gengistryggingu og ákvæðis um LIBOR-vexti að líta yrði fram hjá hinu síðarnefnda ákvæði. Eins og rakið er að framan segir í grein 3.1. í lánssamningi aðila að stefndi Rósa ehf. skuli greiða Landsbanka Íslands hf. vexti sem séu „breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum “ auk þar tilgreinds vaxtaálags. Verður að telja slík tengsl milli þessa ákvæðis samningsins og gengistryggingarákvæðis hans að einnig þetta ákvæði samningsins sé ógilt.
Skilja verður málatilbúnað stefnanda þannig að hann telji lánssamning aðila lögmætan að öllu leyti og miðast dómkröfur hans við það. Hann gerir ekki neinar varakröfur og hvorki í stefnu né í gögnum málsins er gerð grein fyrir því hverjar séu eftirstöðvar lánsins, án tillits til áðurnefndra ákvæða um gengistryggingu og vexti. Að þessu leyti er málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.