Hæstiréttur íslands

Mál nr. 661/2010


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Fyrning


Þriðjudaginn 21. júní 2011.

Nr. 661/2010.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Svövu Dögg Jónsdóttur

(Óðinn Elísson hrl.)

Líkamstjón. Bifreiðir. Umferðarlög. Fyrning.

S krafðist skaðabóta úr hendi ábyrgðartryggjandans V hf. vegna tjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi 18. júní 2003. S setti ekki fram bótakröfu á hendur V hf. fyrr en á árinu 2009, en ábyrgðartryggjandinn hafnaði bótaskyldu með vísan til þess að bótakrafa vegna slyssins væri fyrnd, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Deila aðila laut að tímamarki upphafs fyrningarfrests samkvæmt nefndu ákvæði. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að af læknisfræðilegum gögnum yrði ekki ráðið að nein breyting hefði orðið á heilsufari S frá því það var talið orðið stöðugt 18. september 2003. Miða yrði við að S hefði mátt vera ljóst eigi síðar en á árinu 2004 að hún hefði hlotið varanlegt líkamstjón  við slysið og hefði hún ekki fært haldbær rök fyrir því að hún hefði ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar á því ári. Fyrningarfrestur kröfunnar hefði byrjað að líða við lok árs 2004 og var krafan því fyrnd er málið var höfðað 30. desember 2009. Var V hf. því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

I

Stefnda lenti í umferðarslysi 18. júní 2003 er vörubifreið var ekið aftan á fólksbifreið sem hún var farþegi í. Hún leitað daginn eftir til læknis á Heilsustofnuninni Sauðárkróki. Í vottorði 24. mars 2009 um áverka og einkenni hennar við komu segir meðal annars: ,, ... hafði hún verið með verk í hálshrygg frá slysinu, hálshryggjalið C7 og einnig á lendhryggssvæði við ákveðnar hreyfingar. Þá var hún einnig með seiðing í hægri síðu. Engin áverkamerki var að sjá en hún var aum við þreifingu yfir C7 og í lendhrygg. Þá var verkur við ákveðnar hreyfingar, svo sem við að beygja sig fram, kom verkur í lendhrygginn. Fékk greiningu tognun og ofreynsla á hálshrygg S13.4 og fékk almennar ráðleggingar.“

Stefnda var nýlega orðin sextán ára á slysdegi. Í matsgerð, sem aflað var sameiginlega af málsaðilum til að meta afleiðingar slyssins og fleira, er haft eftir stefndu að hún hafi byrjað í vinnuskóla síðar um sumarið 2003. Hún hafi haft verki í þeirri vinnu. Þá um haustið hafi hún farið í Menntaskólann í Reykjavík og verið þar tvo vetur. Hún hafi fundið fyrir verkjum er hún sat í tímum og þegar hún var að læra heima hjá sér. Eftir það hafi hún farið í Menntaskólann á Akureyri og lokið þaðan stúdentsprófi. Hún kvaðst fyrir dómi hafa unnið við afgreiðslu í verslun 10-11 eitthvað ,,með skólanum alveg 2003 til 2008“ og á sumrin. Hún kvaðst einnig hafa fundið fyrir verkjum í því starfi og tengdi þá verki umferðarslysinu. Stefnda kvaðst hafa byrjað að vinna við afgreiðslu í Lyfju á árinu 2008. Hafi það verið fullt starf og stundum yfirvinna. Í dómsskýrslu sinni upplýsti hún að hún hafi fundið mikla verki þegar mikið hafi verið að gera við afgreiðslustörfin og annað í verslun 10-11, en ,,það var aðallega eftir að ég byrjaði að vinna í Lyfju sem að ég fór að finna almennilega fyrir því sem var árið 2008. Þá fór ég náttúrulega í 100% vinnu alveg og sérstaklega þegar að ég var búin að vinna í marga daga í röð.“ Stefnda lýsti því einnig í skýrslunni að hún hafi fengið verkjaköst áður, til dæmis á árinu 2004. Hún var spurð hvenær afleiðingar slyssins hafi farið að há henni og svaraði hún því svo að það hafi verið: ,,Svona almennilega já eftir að ég fór að vinna í Lyfju.“ Hún kveðst hafa fengið slæmt verkjakast í febrúar 2009 eftir nokkurra daga vinnu og þá hafi hún leitað á læknavaktina og verið meðhöndluð þar og síðar af Gísla Ólafssyni lækni. Í vottorði hans 9. júní 2009 segir að eftir slysið hafi stefnda ,,stundum verið mjög slæm í mjóbakinu og hefur tognað þar af mjög litlu tilefni, eftir að hafa beygt sig eftir sokk eða einhverju slíku, verið rúmliggjandi í nokkra daga á eftir. Kom síðast fyrir 2 dögum, eftir vinnu fékk hún slæman bakverk af engu tilefni, verið frá vinnu síðan.“

II

Óumdeilt er í málinu að orsakatengsl séu milli líkamstjóns þess, sem stefnda hlaut í umferðarslysinu 18. júní 2003, og þeirra varanlegu einkenna sem hún býr nú við og hafa verið metin til 7 miskastiga og 7% varanlegrar örorku. Í máli þessu, sem stefnda höfðaði 30. desember 2009, andmælir áfrýjandi því ekki að hann beri ábyrgð á greiðslu skaðabóta til stefndu, ef ekki verður fallist á málsástæðu hans um fyrningu kröfunnar.

Sýknukröfu sína reisir áfrýjandi á því að krafa stefndu, sem á sér stoð í bótareglum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sé fyrnd samkvæmt 99. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein fyrnist krafa á fjórum árum ,,frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.“

Matsmenn töldu að heilsufar stefndu hefði verið orðið stöðugt 18. september 2003 og þá ekki að vænta frekari bata. Þeir töldu einnig að tímabært hefði verið að leggja mat á afleiðingar slyssins tólf mánuðum eftir slysið, það er um mitt ár 2004.

Af læknisfræðilegum gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, verður ekki ráðið að nein breyting hafi orðið á heilsufari stefndu frá því það var talið orðið stöðugt 18. september 2003. Hún hefur allar götur síðan fengið versandi einkenni við álag frá vinnu, auk þess sem hún hefur í einhverjum tilvikum tognað af litlu tilefni. Hún leitaði þó ekki til lækna vegna einkenna sinna frá árinu 2003 og fram til febrúar 2009, eins og áður greinir. Hún kveðst hafa notað lyf, sem hafi verið til á heimilinu, við einkennunum. Verður að miða við að stefndu hafi mátt vera ljóst eigi síðar en á árinu 2004 að hún hefði hlotið varanlegt líkamstjón við slysið. Hefur stefnda ekki fært haldbær rök fyrir því að hún hafi ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar á því ári. Byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar að líða við lok árs 2004 og var krafan því fyrnd, er málið var höfðað 30. desember 2009. Verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefndu, Svövu Daggar Jónsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. október sl., var höfðað 30. desember 2009 af Svövu Dögg Jónsdóttur, Laugavegi 50b, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 2.604.649 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 581.315 krónum frá 18. júní 2003 til 18. september sama ár og af 2.604.649 krónum frá þeim degi til 11. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er máls­kostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknar­mál en stefnanda var veitt gjafsókn 15. mars sl.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi lenti í umferðarslysi 18. júní 2003 en þá var hún sextán ára. Hún leitaði til Heilbrigðisstofnunar á Sauðárkróki daginn eftir og var þá greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg. Hún vann í Vinnuskólanum þá um sumarið en hóf nám í Mennta­skólanum í Reykjavík um haustið. Hún fann fyrir verkjum og tók verkjalyf en missti ekki úr vinnu eða námi. Stefnandi fékk slæmt verkjakast í nokkra daga á árinu 2004 og aftur tak í bakið 2006 en hún leitaði ekki til læknis. Hún tók verkjalyf og hvíldi sig og gat eftir það haldið áfram námi og vinnu.

Stefnandi lauk stúdentsprófi í júní 2008. Hún var í fjarnámi frá því um haustið og byrjaði í fullri vinnu á sama tíma í Lyfju. Hún kvaðst hafa þolað álagið af mikilli vinnu illa og 11. febrúar 2009 fékk hún mjög slæmt bakverkjarkast. Einkennin versnuðu og leitaði hún til læknis tveimur dögum seinna. Hún fékk lyf og tilvísun til sjúkraþjálfara. Í apríl leitaði stefnandi aftur til sama læknis. Fram kom hjá lækninum að þessi einkenni væru varanleg.

Stefnandi leitaði til lögmanns 19. febrúar sama ár sem setti fram bótakröfu á hendur stefnda fyrir hennar hönd. Bótaskyldu var hafnað af hálfu stefnda með vísan til þess að bótakrafa vegna slyssins væri fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ágreiningur í málinu snýst um túlkun á því hvenær fyrningarfrestur hafi byrjað að líða samkvæmt þessari lagagrein.

Málsástæður og lagrök stefnanda     

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi lent í umferðarslysi 18. júní 2003 í Fljótunum. Hún hafi verið farþegi hægra megin í aftursæti bifreiðarinnar KT-635 og verið í bílbelti. Slysið hafi orðið með þeim hætti að ökumaðurinn hafi hægt á bílnum til að skoða landslagið. Þá hafi vörubifreiðinni XP-106, sem ekið var í sömu akstursstefnu fyrir aftan bifreiðina, sem stefnandi var í, verið ekið fram úr bifreiðinni hægra megin og flautað. Öku­maður KT-635 hafi fipast og sveigt inn á veginn og hafi árekstur orðið með ákomu á hægri afturhlið bifreiðarinnar þar sem stefnandi var farþegi í aftursæti. Um allharðan árekstur hafi verið að ræða. Stefnandi hafi fengið töluverðan slink á sig við áreksturinn og hlotið meiðsli á baki, hálsi og síðu.

Stefnandi hafi leitað á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki 19. júní 2003, daginn eftir slysið, þar sem óþægindi hennar hefðu versnað. Hún hafi verið skoðuð af Hauki Björnssyni og hafi hún kvartað um verk í hálshrygg, baki og hægri síðu. Hún hafi verið greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg og fengið almennar ráðleggingar.

Stefnandi hafi verið í sumarleyfi er slysið átti sér stað. Hún lýsir því að hún hafi fundið fyrir ákveðnum seyðingsóþægindum, sérstaklega í bakinu neðarlega og á milli herðablaða, meira hægra megin. Hún hafi ekki talið ástæðu til að leita til læknis, en faðir hennar, sem hefði verið bakveikur, hafi útvegað henni bólgueyðandi lyf öðru hverju. Þessi óþægindi hafi truflað stefnanda talsvert. Einkennin hafi síðan versnað í byrjun árs 2009 þegar hún hafi verið að beygja sig og bogra og hafi hún fest um stund.

Stefnandi hóf afgreiðslustörf hjá Lyfju í fullu starfi haustið 2008 en hún lýsir því að eftir það hafi einkenni vegna afleiðinga slyssins versnað töluvert. Hún hafi fundið fyrir auknum óþægindum við langar stöður. Hún hafi leitað á Læknavaktina 13. febrúar 2009 og hafi hún verið skoðuð af Gísla Ólafssyni lækni. Hún hafi fengið bólgueyðandi lyf hjá honum auk tilvísunar til sjúkraþjálfara.

Stefnandi hafi leitað aðstoðar lögmanns vegna slyssins 19. febrúar s.á., þ.e. tæpri viku eftir að hafa leitað til læknisins. Að gagnaöflun lokinni hafi málsaðilar óskað sameiginlega eftir mati á afleiðingum slyssins. Niðurstaða örorku­mats Guð­mundar Björnssonar læknis og Birgis G. Magnússonar hdl., 4. september s.á., hafi verið sú að varanlegur miski stefnanda væri 7 stig og varanleg örorka 7%. Stöðug­leika­punktur sé talinn vera 18. september 2003. Til viðbótar við matsgerð hafi mats­menn svarað auka­spurningum stefnda 1. október s.á. Þeir hafi talið að um tólf mánuðum eftir slysið hafi verið tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar þess. Svör við auka­spurningum stefnda hafi ekki borist stefnanda fyrr en 21. desember s.á. Með tölvu­pósti 16. desember s.á. hafi lögmaður stefnanda farið þess á leit við matsmenn að þeir svöruðu því hvenær þeir teldu að stefnandi hefði mátt gera sér grein fyrir því að líkamstjón hennar vegna slyssins væri varanlegt. Í tölvupósti 22. desember s.á. hafi Guðmundur Björnsson svarað því að þetta væri matsatriði, líkt og annað, en hann hafi talið að það hefði getað verið árið 2004.

Lögmaður stefnanda hafi 11. september 2009 gert kröfu á hendur stefnda vegna slyssins á grundvelli fyrrgreindrar matsgerðar. Stefndi hafi hafnað greiðslu kröfunnar með bréfi 16. nóvember s.á. Stefndi hafi þar vísað til þess að samkvæmt matsgerð og viðbótarmatsgerð hefði bótakrafa stefnanda fyrnst 1. janúar 2009, sbr. 99. gr. umferðarlaga, þar sem fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar umferðar­slyssins einu ári eftir slysið. Vegna þessarar afstöðu stefnda, að hafna bótakröfu stefnanda á þeim grundvelli að hún sé fyrnd, hafi henni verið nauðsynlegt að höfða mál á hendur stefnda og krefjast greiðslu bóta.

Stefnandi byggi á því að stefnda beri að greiða henni bætur vegna afleiðinga umferðarslyssins 18. júní 2003. Stefnandi hafi verið farþegi í aftursæti bifreiðarinnar KT-635 sem bifreiðinni XP-106 hafi verið ekið á. Ökumaður XP-106 beri fulla bóta­ábyrgð á umferðarslysinu. Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi að sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hljótist af notkun þess, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Í 1. mgr. 90. gr. laganna segi að skráður eða skráningarskyldur eigandi vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. og 89. gr. laganna. Í 1. mgr. 91. gr. laganna segi að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hljótist af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðar­tryggingu hjá vátryggingafélagi sem hafi starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðar­tryggingu vélknúinna ökutækja. Samkvæmt 95. gr. sömu laga sé vátrygg­inga­félag greiðslu­­skylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna samkvæmt 1. mgr. 91. gr. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. skuli mál til heimtu bóta gegn þeim sem bótaskyldur sé samkvæmt 90. gr. jafnframt höfðað gegn því vátryggingafélagi sem vátryggt hafi öku­tækið. Bifreiðin XP-106 hafi verið vátryggð hjá stefnda á slys­degi. Vátrygg­ingar­taki hafi verið félag sem hafi verið úrskurðað gjaldþrota 18. apríl 2006. Þrotabúinu verði því ekki stefnt vegna málsins. Stefnda sé þar með einum stefnt á grund­velli 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, enda sé félagið greiðsluskylt vegna trygg­ingar­innar, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna.

Ágreiningur máls þessa og ástæða málshöfðunar stefnanda snúi að því að stefndi telji að bótakrafa stefnanda í máli þessu hafi fyrnst 1. janúar 2009, sbr. 99. gr. umferðar­laga. Stefndi vísi til þess að samkvæmt matsgerð telji mats­menn að fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar umferðarslyssins einu ári eftir slysið, eða 18. júní 2004. Fyrningarfrestur kröfunnar hafi því byrjað að líða 31. desember s.á.

Samkvæmt þessari lagagrein fyrnist allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Fjögurra ára fyrningarfrestur hefjist því fyrst þegar bæði skil­yrði greinarinnar eru uppfyllt, þ.e. hið huglæga skilyrði, um vitneskju hins slasaða um varanlegar afleiðingar slyssins og bóta­rétt sinn, og hið hlutlæga skilyrði, um að hann eigi þess kost að setja fram kröfu á grundvelli þeirrar vitneskju. Stefnandi fallist ekki á að skilyrði lagagreinarinnar hafi verið uppfyllt ári eftir slysið, þrátt fyrir að matsmenn telji að þá hafi verið fyrst tímabært að meta afleiðingar umferðarslyssins.

Stefnandi byggi á því að hún hafi ekki getað upp á sitt einsdæmi gert sér grein fyrir því, einungis ári eftir slysið, að um væri að ræða varanlegar afleiðingar slyssins sem ekki gætu gengið til baka. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu afturvirkt mat matsmanna, sex árum eftir slys, á því hvenær hugsanlega hafi fyrst verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, og mat á huglægu skilyrði 99. gr. umferðarlaga um vitneskju hins slasaða sjálfs um varanlegar afleiðingar slyssins og bótarétt sinn. Um það hafi stefnanda ekki getað verið kunnugt ári eftir slys. Þvert á móti megi sjá af gögnum málsins að stefnandi, sem var aðeins nýorðin sextán ára gömul er slysið átti sér stað, hefði vænst þess að afleiðingar slyssins gengju til baka. Þegar henni hafi orðið ljóst að svo yrði ekki hafi hún leitað til Gísla Ólafssonar læknis og hún hafi fengið lögfræðing til að leita lagalegs réttar síns.

Stefnandi hafi sannanlega ekki haft nokkra vitneskju um kröfu sína eða hugsan­legan bótarétt. Því hafi hún ekki átt þess kost að leita fullnustu hennar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrr en í fyrsta lagi 13. febrúar 2009 þegar hún leitaði til læknis. Fram að þeim tíma hefði stefnandi enga hugmynd haft um að hún ætti bótarétt vegna varanlegra afleiðinga slyssins. Þar sem hún hafi verið farþegi í aftursæti bifreiðarinnar KT-635 hafi hún ekki gert sér grein fyrir bótarétti sínum úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar XP-106. Við mat á þessu verði að líta til ungs aldurs hennar á slysdegi.

Til stuðnings því að stefnandi hafi ekki gert sér grein fyrir bótarétti sínum fyrr en í fyrsta lagi 13. febrúar 2009, vísist til þess sem fram komi í læknisvottorði Gísla Ólafssonar, þar sem hann telji að þá hafi verið tímabært að leggja mat á varanlegt líkams­tjón stefnanda. Þegar stefnandi hitti lækninn hafði hún ekkert leitað til læknis síðan rétt eftir slysið.

Í ljósi framangreinds byggi stefnandi á því, einkum í ljósi nýrrar túlkunar Hæsta­réttar á fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga, að miða beri upphaf fyrningarfrests í máli hennar við það tímamark er stefnandi leitaði til Gísla Ólafssonar læknis. Hæstiréttur hafi til dæmis nýlega fallist á að miða beri upphaf þessa fyrningarfrests við það tímamark þegar átján ára tjónþoli leitaði fyrst til sérfræðings í bæklunar­lækningum fimm árum eftir slys. Með nýlegum dómum hafi Hæstiréttur horfið frá eldri for­dæmum sínum um túlkun fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga, þ.e. að miða skuli upp­haf fyrningarfrests samkvæmt umferðarlögunum við stöðugleikapunkt. Stefnandi telji því ljóst að miða beri upphaf fyrningarfrests samkvæmt lagagreininni við það tíma­mark er hún leitaði til Gísla Ólafssonar læknis.

Af öllu ofangreindu sé ljóst að krafa stefnanda hafi ekki verið fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar málið var höfðað.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi hlotið varanlegt líkamstjón í slysinu. Um það vísi stefnandi til matsgerðar, þar sem hún hafi verið metin með 7 stig miska og 7% varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins.

Óumdeilt sé að orsakatengsl séu á milli umferðarslyssins og þeirra varanlegu afleiðinga sem matsmenn hafi metið. Í matsgerðinni segi að matsmenn telji meiri líkur en minni á því að rekja megi núverandi óþægindi stefnanda í baki til afleiðinga umferðarslyssins.

Lögmaður stefnanda hafi farið þess á leit við stefnda með tölvupósti 21. desember 2009 að stefndi staðfesti að félagið myndi ekki bera fyrir sig fyrningu í málinu en því hafi verið hafnað. Málshöfðun sé því nauðsynleg til þess að rjúfa mögulega fyrningu á bótaskyldu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga.

Dómkröfur stefnanda byggðust á því að stefnda beri að greiða henni fullar skaða­bætur vegna líkamstjóns hennar. Skaðabætur taki mið af mats­gerð Guð­mundar Björns­sonar læknis og Birgis G. Magnússonar hdl., þar sem fram komi að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 7% og varanlegur miski 7 stig. Dóm­kröfur stefnanda sundurliðist svo:

Varanlegur miski (7 stig)

7% af  8.304.500 krónum

581.315 krónur

Varanleg örorka (7%)

Árslaun 1.633.500 krónur  x 17,69500 x 7% = 2.023.334 krónur

Heildarbætur:

2.023.334     "

2.604.649 krónur

Bætur fyrir varanlegan miska séu reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku séu reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. sömu laga. Útreikningur kröfu vegna varan­legrar örorku taki mið af margföldunarstuðli 6. gr. laganna.

Krafist sé 4.5% vaxta samkvæmt 16. gr. sömu laga vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 18. júní 2003 til 18. september s.á. þegar stöðugleikatímapunkti var náð. Vegna varanlegrar örorku sé krafist vaxta frá stöðugleikatímapunkti til 11. október 2009 þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda. Þá sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 11. október 2009 þegar mánuður var liðinn frá þeim degi sem krafa stefnanda var send stefnda til greiðsludags.

Stefnandi krefjist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og krafist sé virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

Um bótaábyrgð vísi stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar og skaða­bóta­laga. Einnig sé vísað til umferðarlaga, m.a. XIII. kafla, og til ákvæða vátrygginga­samningalaga nr. 20/1954. Um aðild stefnda vísist til 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga og III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. gr. og 17. gr. Um vexti og dráttarvexti á dómkröfu sé vísað til laga um vexti og verðtryggingu og skaðabótalaga. Um varnarþing vísist til ákvæða V. kafla laga um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 33. gr. Varðandi málskostnað sé vísað til ákvæða 129. og 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi verið í sumarleyfi er hún lenti í óhappinu. Hún hafi byrjað í Vinnu­skólanum síðar um sumarið og farið í menntaskóla um haustið og lokið stúdentsprófi 2008. Á sumrin hafi hún unnið við afgreiðslu í verslun 10-11. Hún segi að eftir slysið hafi hún verið slæm í mjóbakinu og upp í brjóstbak. Hún segðist hafa haft verki í sumarvinnunni, við setur í skólanum og við að læra heima. Hún hafi allar götur frá því slysið varð átt vont með að sitja lengi við lestur og  tölvuvinnu.  Hún hafi stundum verið mjög slæm í mjóbakinu og tognað þar af mjög litlu tilefni. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi ekki leitað aftur til læknis vegna slyssins fyrr en sex árum síðar, eða 13. febrúar 2009.

Vörubifreiðin XP 106 hafi verið skylduvátryggð hjá stefnda. Málsaðilar hafi sam­eigin­lega óskað eftir  áliti Guð­mund­ar Björnssonar, endurhæfingarlæknis, og Birgis G. Magnússonar, lög­manns, á afleiðingum slyssins og hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar þess. Samkvæmt matsgerð  þeirra 4. september 2009 og viðbót við matsgerðina 1. október s.á. hafi þeir metið varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins 7%.  Þeir hafi talið að ekki hafi verið að vænta frekari bata að liðnum þrem mánuðum eftir slysið, og að tímabært hafi verið að leggja mat á afleiðingar slyssins um 12 mánuðum eftir það.

Stefnandi hafi sett fram sundurliðaða bótakröfu á hendur stefnda 11. september 2009 á grundvelli matsgerðarinnar, en stefndi hafi hafnað kröfunni 16. nóvember, s.á., á þeim forsendum að hún væri fyrnd samkvæmt 99. umferðarlaga. Í tölvupósti til Guðmundar Björnssonar matsmanns 16. desember s.á. hafi lögmaður stefnanda óskað eftir svari við því, hvenær matsmenn teldu að stefnandi hefði gert sér grein fyrir því, að líkamstjón hennar eftir slysið væri varanlegt. Mats­maður­inn hafi svarað því til, að hann mæti það svo að það hefði getað verið árið 2004. Stefnandi hafi höfðað málið og haldi hún því fram, að hún hafi ekki mátt gera sér grein fyrir því, að afleiðingar slyssins væru varanlegar fyrr en hún leitaði til læknis í febrúar 2009 og að bótakrafa hennar sé því ófyrnd.

Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að bótakrafa stefnanda hafi fallið niður fyrir fyrningu áður en mál þetta var höfðað samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga. Þar sem krafan sé fyrnd beri að sýkna stefnda af henni.

Um fyrningu á bótakröfu stefnanda fari eftir 99. gr. umferðarlaga, en þar segi að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla (fébótakafla) laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfu­hafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti  þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Samkvæmt dómvenju beri að beita hlutlægum mælikvarða á það, hvenær tjónþoli megi gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti fyrst leitað fullnustu hennar, enda myndi önnur viðmiðun þýða að tjónþoli réði því í reynd sjálfur hvenær fyrningar­fresturinn byrjaði að líða. Tjónþoli gæti þá dregið árum saman án ástæðu að leita læknis eða sérfræðings til að staðreyna afleiðingar slyss án þess að það hefði nokkur áhrif á upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins. Slíkt fái ekki staðist þegar horft sé til þess að fjögurra ára fyrning­­ar­­regla 99. gr. umferðarlaga sé, eins og aðrar fyrningar­reglur, sett í þágu bótagreiðanda og almannahagsmuna, en ekki til hagsbóta fyrir kröfu­hafa. Beri því við mat á upphafi fyrningarfrestsins að líta fyrst og fremst til þess hve­nær fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins að mati sérfróðra manna, en ekki miða alfarið við það hvenær tjónþoli leiti loks læknis eða sérfræðings með ein­kenni sín, eins og stefnandi vilji miða við. Dómvenjan gangi líka í þá átt að meta atvik út frá hlut­lægum mælikvarða, þegar metið er hvenær kröfuhafi teljist fyrst hafa átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar, en horfa ekki eingöngu til huglægrar afstöðu hans.

Stefnandi hafi lýst því að allt frá slysinu 18. júní 2003 hafi hún verið slæm í brjóstbakinu og upp í mjóbak. Hún hafi upphaflega einnig fundið til í hálsi. Einkennin frá hálsi hafi talsvert lagast en einkennin frá mjóbaki verið áfram. Hún hafi byrjað í vinnuskóla sumarið 2003, sest svo í MR um haustið, þar sem hún var tvo vetur en farið síðan í MA. Á sumrin hafi hún unnið við afgreiðslu í verslun. Hún hafi haft verki í sumarvinnunni, við setur í skólanum og við að læra heima. Allt frá því að slysið varð hafi hún átt erfitt með að sitja lengi við lestur og tölvuvinnu. Hún hafi alltaf fundið fyrir seyðingsóþægindum, sérstaklega í bakinu neðarlega og milli herðablaða, meira hægra megin.  Hún hafi verið við­kvæm í bakinu og stundum mjög slæm og átt það til að togna af litlu tilefni eins og við að beygja sig eftir sokk.

Eftir þessari lýsingu stefnanda að dæma á einkennum sínum hafi henni og öðrum mátt vera ljóst þegar ár var liðið frá slysinu, eða um mitt ár 2004, að afleiðingar slyss­ins væru varanlegar, eða a.m.k. öll líkindi til þess að svo væri, og því full ástæða til að leita til læknis án frekari dráttar. Heilsufarslegt ástand stefnanda hafi að áliti sérfróðra matsmanna verið orðið stöðugt þremur mánuðum eftir slysið. Þeir hafi jafnframt talið að það hefði getað verið árið 2004, sem stefnandi gerði sér grein fyrir því, að líkams­tjón hennar væri varanlegt. Mats­mennirnir hafi talið að 12 mánuðum eftir slysið hefði verið tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar  þess.  

Ljóst sé samkvæmt þessu, að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um mitt ár 2004 að afleiðingar slyssins væru varanlegar. Hún hafi þá átt þess fyrst kost að láta meta þær og leita fullnustu kröfu sinnar. Beri að sama brunni þegar beitt sé hlutlægum mælikvarða og miðað við hvenær hinir sérfróðu mats­menn töldu tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Þeir hafi talið það vera 12 mánuðum eftir slysið, eða um mitt ár 2004. Stefnandi hafi haft nægan tíma til að láta meta afleiðingar slyssins, undirbúa kröfu­gerð og leita fullnustu á því ári. Hinn fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga á kröfu stefnanda hafi þannig hafist í árslok 2004 og hann hafi runnið út við lok árs 2008. Krafa stefnanda hafi því verið fallin niður fyrir fyrningu þegar stefnandi höfðaði málið með birtingu stefnu 30. desember 2009.

Stefndi telji að ekkert réttlæti aðra niðurstöðu. Stefnandi hafi ekki leitað læknis fyrr en sex árum eftir slysið þrátt fyrir einkenni sín og viðvarandi verkjaástand. Hún hafi enga ástæðu haft til þess og engin þörf hafi verið á því að draga að leita til læknis, láta meta varanlegar afleiðingar slyssins og leita fullnustu kröfunnar eftir að það var fyrst orðið tímabært. Stefnandi hefði gefið þá skýringu eina á drættinum að hún hefði fengið verkjalyf hjá föður sínum, sem væri lítið fyrir að fara til lækna, og því hefði hún heldur ekki leitað til læknis en fengið áfram verkjalyf hjá föður sínum. 

Slík afstaða stefnanda geti ekki réttlætt á kostnað stefnda og þvert ofan í tilgang fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga að miða upphaf fyrningarfrestsins við það hvenær stefnandi leitaði til Gísla Ólafssonar læknis í stað þess að beita hlutlægum mælikvarða og miða við það, hvenær fyrst var tímabært að meta afleiðingar slyssins. Stefndi beri í þessu sambandi ekki ábyrgð á ungum aldri stefnanda og huglægri afstöðu hennar og föður hennar. Hinn ástæðulausi dráttur stefnanda á því að leita læknis sýni hversu fráleitt það sé að miða upphaf fjögurra ára fyrningarfests við það hvenær tjónþolar láti verða af því að leita til læknis eða sérfræðings í stað þess að miða við hvenær sérfróðir matsmenn telji að fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Krafa stefnanda hafi því verið fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar málið var höfðað.

Ekki sé tölulegur ágreiningur um fjárhæð stefnukröfu, en vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905, og kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsupp­sögudegi. 

Niðurstaða

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hefur ekki gert sér grein fyrir því að hún hefði hlotið varanlegt mein af slysinu fyrr en eftir að hún leitaði til Gísla Ólafs­sonar læknis í febrúar 2009. Stefnandi hefur lýst því fyrir dóminum og í gögnum málsins er haft eftir henni að hún hafi ekki séð ástæðu til að leita læknis fyrr, en þá hafði hún fengið slæma verki í bakið. Hún hefur lýst því að fram að þeim tíma hafi hún tekið bólgueyðandi lyf sem hún taldi að kæmu í veg fyrir þau óþægindi sem hún hafði.

Matsgerð vegna líkamstjóns stefnanda lá ekki fyrir fyrr en í september 2009. Í forsendum matsins er því lýst að stefnandi hafi leitað til læknis snemma á því ári þegar einkenni höfðu versnað sem tengdist álagi í vinnu. Ástand hennar hefði heldur skánað með bólgueyðandi lyfjum og sjúkraþjálfunarmeðferð. Matsmenn telja frásögn stefnanda trúverðuga. Um hafi verið að ræða allharðan árekstur og hún hafi haft einkenni strax eftir slysið. Hún hefði enn svipuð einkenni sem heimfæra megi upp á tognunaráverka eftir umferðarslysið, en ekki komi fram í gögnum málsins eða viðtali nein önnur skýring á óþægindum hennar.

Í matsgerðinni kemur enn fremur fram að matsmenn telji tímabært að leggja mat á varanlegt heilsutjón stefnanda vegna umferðarslyssins 18. júní 2003 þar sem enn séu til staðar einkenni um afleiðingar slyssins og læknismeðferð og endurhæfingar­tilraunum teljist lokið, að minnsta kosti að sinni. Fram kemur einnig í matinu að mat á stöðugleikapunkti (barahvörfum) sé læknisfræðilegt mat á því hvenær talið sé að óverulegra frekari breytinga sé að vænta á heilsufari viðkomandi eftir slys. Telja megi að þremur mánuðum eftir slysið hafi ekki verið að vænta frekari bata. Í viðbót við matsgerð 1. október 2009 svara matsmenn þeirri spurningu í matsbeiðni um það hvenær matsmenn meti að fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Þar segir að matsmenn telji að um tólf mánuðum eftir slysið hafi verið tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar þess. Svar matsmannsins Guðmundar Björnssonar við spurn­ingu lögmanns stefnanda í desember 2009 um það hvenær matsmenn telji að stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að líkamstjón hennar væri varanlegt eftir slysið er á þá leið að það sé matsatriði, en hann meti það svo að það hafi getað verið árið 2004. Þessar upplýsingar og álit matsmannsins verður ekki talin nægileg staðfesting á því að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því á árinu 2004 að hún hefði hlotið varanlegt mein af slysinu, enda er ljóst af framangreindu svari hve þarna hlýtur að vera um mikla óvissu að ræða á því álitaefni sem um ræðir. Mat á því hvenær ekki hafi verið að vænta frekari bata og hvenær matsmenn telja að fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins getur heldur ekki verið til marks um að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um hver yrði framvinda þeirra líkamlegu einkenna, sem hún hafði vegna slyssins, áður en einkennin versnuðu á árinu 2009 eða áður en matsgerðar var aflað á sama ári.   

Að þessu virtu verður að telja að stefnanda hafi fyrst mátt vera ljóst á árinu 2009 að hún hefði hlotið varanlegt mein af slysinu og að hún hafi þá átt kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Hinn fjögurra ára fyrn­ingar­­frestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hefur því ekki byrjað að líða fyrr en í árslok 2009. Málið var höfðað 30. desember það ár og var fyrning því rofin innan fyrningarfrests sem ákveðinn er í þeirri lagagrein. Krafa stefnanda er því ekki fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt lagagreininni. 

Krafa stefnanda er að öðru leyti byggð á 1. mgr. 95. gr. , sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga og 4. og 5. gr., sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Krafan sætir hvorki andmælum að þessu leyti af hálfu stefnda né útreikningur hennar. Með vísan til alls þessa ber að taka kröfuna til greina. Vextir verða þó aðeins dæmdir frá þeim tíma sem liðið hefur frá fjórum árum fyrir stefnubirtingu, en vextir fyrir fyrri tíma eru fyrndir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfu­réttinda. Vaxtakrafan er að öðru leyti tekin til greina, en krafan ber dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi þegar stefnandi krafði stefnda um bætur, sbr. 9. gr. laga um vexti og verð­tryggingu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lög­manns hennar, Óskar Óskarsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur án virðisaukaskatts.

Samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða 500.000 krónur í málskostnað í ríkisjóð.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Svövu Dögg Jónsdóttur,  2.604.649 krónur ásamt 4,5% vöxtum af þeirri fjárhæð frá 30. desember 2005 til 11. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá þeim degi til greiðslu­dags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Óskar Óskarsdóttur hdl., 500.000 krónur.

Stefndi greiði 500.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.