Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-81

Einhyrningur ehf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður)
gegn
Útgerðarfélaginu Hvoli ehf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Fasteign
  • Jörð
  • Veiðiréttur
  • Kaupsamningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. júní 2022 leitar Einhyrningur ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. maí 2022 í máli nr. 228/2021: Einhyrningur ehf. gegn Útgerðarfélaginu Hvoli ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að framsal veiðiréttinda í ánni Eystri-Rangá, sem skilin voru frá jörðinni Hjarðartúni árið 1996, hafi verið óheimilt og að leyfisbeiðandi sem eigandi jarðarinnar sé eigandi þeirra.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að þegar gagnaðili seldi jörðina Hjarðartún og undanskildi við söluna hluta hennar ásamt veiðirétti í Eystri-Rangá hefði búskapur verið aflagður á jörðinni og enginn átt þar fasta búsetu. Teldist jörðin því ekki landareign í skilningi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði þar sem þeir hagsmunir sem ákvæðinu var ætlað að tryggja hefðu ekki fyrir hendi við söluna. Samkvæmt því væri ekkert í lögum sem hefði staðið í vegi þess að með kaupsamningi um jörðina væri undanskilinn veiðiréttur í Eystri-Rangá fyrir því landi sem einnig væri undanskilið við söluna og lægi að ánni. Hefði sú ráðstöfun því jafnframt verið í samræmi við reglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 sem byggði á þeirri fornu reglu í íslenskum rétti að hver maður eigi vatn og veiði fyrir landareign sinni.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Lengi hafi í lögum verið kveðið á um bann við því að skilja veiðirétt frá landareignum. Hugtakið landareign var ekki skilgreint í lögum nr. 76/1970 en Hæstiréttur hafi í fjölda dóma komist að þeirri niðurstöðu að skýra beri hugtakið með sama hætti og í vatnalögum nr. 15/1923 sem land lögbýlis og lóð og lönd innan marka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Við skýringu á hugtakinu lögbýli hafi í þessu samhengi verið nauðsynlegt að meta hvort búskapur hafi verið stundaður á jörðinni á þeim tíma sem veiðiréttur var aðskilinn frá henni. Leyfisbeiðandi telur mikilvægt að Hæstiréttur skeri úr um hvernig skýra eigi hugtakið búskapur í þessum skilningi og hafi sú niðurstaða fordæmisgildi fyrir fjölda samninga. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum þar sem niðurstaðan fari gegn tilgangi löggjafans með því að takmarka aðskilnað veiðiréttar frá landareign. Þá hafi hugtakið „land lögbýlis“ verið skilgreint með allt of þröngum hætti í dómi Landsréttar. Að auki hafi í dómi Landsréttar verið einblínt á opinbera skráningu á lögheimili en með öllu verið horft fram hjá opinberri skráningu lögbýlis og ábúðar.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft almennt gildi í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 í ljósi dóma Hæstaréttar í hliðstæðum málum, sbr. dóm réttarins 28. apríl 1994, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 924, og dóma 15. október 2009 í málum nr. 551 og 552/2008, 3. mars 2016 í máli nr. 471/2015 og 20. apríl 2018 í máli nr. 169/2017. Verður heldur ekki talið að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi sama málsliðar 1. mgr. 176. gr. laganna. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.